Hæstiréttur íslands

Mál nr. 416/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 31

 

Mánudaginn 31. ágúst 2009.

Nr. 416/2009.

Guðjón Ólafur Kristbergsson

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Samhentum Kassagerð ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Héraðsdómur vísaði máli G frá dómi þar sem félag var talið eiga óskipt réttindi með G og því óskipta aðild að málinu skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í Hæstarétti var tekið fram að G hafi ekki í stefnu gert grein fyrir grundvelli þess að hann höfðaði málið einn án aðildar félagsins. Stefnan hafi því ekki uppfyllt skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991. Yrði ekki bætt úr því sem aflaga hafi farið með framlagningu gagna fyrir Hæstarétti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en honum dæmdur  kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur lagt fram í Hæstarétti bréf fyrrverandi skiptastjóra þrotabús Dychem Ísland ehf. 3. júlí 2009, þar sem meðal annars kemur fram að félag þetta hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 9. mars 2006 og skiptum lokið 19. júlí sama ár með vísan til 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í bréfinu segir: „Þrotabúið lætur sig ekki málið varða né gerir kröfur í því sambandi, enda skiptum þess lokið, en Guðjón var einn rétthafi gagnvart Dychem í Bretlandi eftir því sem skiptastjóri best vissi.“

Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að sóknaraðili byggi kröfu sína á samningi 12. september 2003, þar sem fram kemur að hann og Dychem á Íslandi ehf. eigi saman aðild að samningnum. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að aðild að samningnum sé þess háttar að 18. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um málssókn vegna ætlaðra vanefnda á honum nema sérstakar skýringar komi fram sem heimila annan hátt á málssókninni. Í stefnunni gerði sóknaraðili ekki grein fyrir grundvelli þess að hann höfðaði málið einn án aðildar nefnds félags. Uppfyllti stefnan því ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 er lúta að reifun máls að þessu leyti. Ekki verður bætt úr því sem aflaga fór með framlagningu gagna fyrir Hæstarétti. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðjón Ólafur Kristbergsson, greiði varnaraðila, Samhentum Kassagerð ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2009.

                Mál þetta, sem þingfest var 17. desember 2008, var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 12 júní sl..

                Stefnandi er Guðjón Ólafur Kristbergsson, Langeyrarvegi 3, Hafnarfirði, en stefndi er Samhentir Kassagerð, Suðurhrauni 4, Garðabæ.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.310.872 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. apríl 2007 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.310.872 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 25. apríl 2007. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.036.792 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 með nánar tilgreindum hætti eins og í stefnu greinir. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins, til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

                Stefnandi kveður málavexti þá að samkvæmt svokölluðum umboðsmannasamningi 18. september 2002 við Dychem Ltd. í Englandi sé hann dreifingar- og einkasöluaðili á Íslandi fyrir vörur frá Dychem. Samningurinn sé í gildi frá 18. september 2002 og gildi enn. Hinn 12. september 2003 hafi stefnandi ásamt þáverandi félagi sínu, Dychem Íslandi ehf., gert samning við SH þjónustu ehf., en nafni þess félags hafi síðan verið breytt í Icelandic Service ehf. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi veitt SH þjónustu ehf. einkarétt til sölu á afurðum Dychem Ltd. til sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, Færeyjum og í Noregi gegn því að félagið greiddi fyrir þennan rétt og þjónustu sem það fengi í tengslum við hann. Samkvæmt 5. gr. samningsins hafi verið gert ráð fyrir ákveðnum greiðslum fyrir einkaréttinn. Á samningstímanum hafi SH þjónusta ehf. óskað eftir því að stefnandi sendi reikninga á önnur fyrirtæki í eigu félagsins. Hafi stefnandi orðið við því. Nafni SH þjónustu ehf. hafi verið breytt í Icelandic Service ehf. Reikningar hafi verið sendir á það en einnig á Icelandic umbúðir ehf. og á Valdimar Gíslason ehf. en samkvæmt hlutafélagaskrá hafi Icelandic umbúðir ehf. sameinast Valdimar Gíslasyni ehf. Það félag hafi síðan verið sameinað Samhentum Kassagerð ehf.

                Í byrjun árs 2007 hafi sölutölur hætt að koma frá stefnda til stefnanda en þær hafi verið grundvöllur greiðslna til hans. Með bréfi lögmanns stefnanda 25. apríl 2007 til stefnda hafi stefndi verði minntur á samninginn og skorað á hann að efna hann með því að leggja fram sölutölur fyrir 5. maí 2007. Með bréfi lögmanns stefnda 9. maí 2007 hafi kröfum stefnanda verið hafnað.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi samkvæmt samningi við Dychem Ltd. verið umboðsmaður félagsins á Íslandi. Hann hafi síðan ásamt þáverandi félagi sínu gert samning við SH þjónustu ehf. en nafni þess félags hafi síðan verið breytt eins og rakið sé hér að framan.

II.

                Stefndi kveður að í ljós hafi komið fljótlega að vörur stefnanda hafi ekki reynst nógu góðar. Þann 15. júní 2005 hafi stefnandi selt allan rekstur sinn, sem tengdist umboði hans við Dychem vörur, til Gunnars Finnssonar. Þrátt fyrir það hafi stefndi haldið áfram að greiða stefnanda samkvæmt samningi aðila en hætt því umsvifalaust þegar hann hafi frétt af sölunni. Þá hafi Dychem Íslandi ehf. orðið gjaldþrota 9. mars 2006. Stefndi hafi þá talið samning aðila niður fallinn og því hafi það komið honum í opna skjöldu er bréf hafi borist frá lögmanni stefnanda 25. apríl 2007 þar sem krafist hafi verið greiðslna á grundvelli samningsins.

                Kröfu sína um frávísun byggir stefndi á því að stefnandi sé ekki réttur aðili máls þessa, enda hafi hann ekki verið aðili þess samnings sem málið byggi á. Samningsaðilar hafi verið SH þjónusta ehf. og Dychem Íslandi ehf. Síðastnefnda félagið, eða eftir atvikum þrotabú þess, sé því réttur aðili máls þessa en ekki stefnandi. Stefnandi hafi aðeins haft umboð til að skuldbinda félagið Dychem  Íslandi ehf. Hann eigi hins vegar ekki persónulega kröfu á hendur stefnda um greiðslu samkvæmt samningi. Samkvæmt 9. gr. samnings sé aðilum hans óheimilt að framselja réttindi sín eða skyldur án skriflegs samþykkis gagnaðila. Ekkert slíkt leyfi hafi verið veitt.

III.

                Stefnandi byggir málssókn sína á því að hann hafi gert samning við Dychem Ltd. í Englandi um að vera umboðsmaður þess félags á Íslandi. Í krafti þess umboðs hafi hann ásamt félagi sínu, Dychem Íslandi ehf., gert samning við stefnda gegn gjaldi um að stefndi fengi einkasölurétt á vörum Dychem Ltd. á Íslandi, Færeyjum og í Noregi. Fram hefur komið í málinu að viðskipti aðila hófust og voru nokkur framan af en Dychem Íslandi ehf. varð gjaldþrota 9. mars 2006.

                Í yfirskrift samnings aðila segir að samningurinn sé gerður af SH þjónustu ehf. sem kaupanda og Dychem Íslandi ehf. og stefnanda sem seljanda. Undir samninginn ritar stefnandi f.h. Dychem Íslandi ehf. Í gr. 13.1 segir að stefnandi riti undir samninginn f.h. seljanda.

                Stefnandi heldur því fram að hann hafi gert framangreindan samning ,,ásamt þáverandi félagi sínu Dychem á Íslandi ehf.“ Ótvírætt er því, bæði samkvæmt skilningi stefnanda og samkvæmt orðalagi samningsins, að Dychem Íslandi ehf. er aðili samningsins. Það félag á því óskipt réttindi með stefnanda samkvæmt margnefndum samningi og félagið á því óskipta aðild að málinu með stefnanda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Bar þeim því að sækja málið í sameiningu. Þar sem það var ekki gert verður að vísa málinu frá dómi.

                Eftir þessum úrslitum verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Guðjón Ólafur Kristbergsson, greiði stefnda, Samhentum Kassagerð ehf., 250.000 krónur í málskostnað.