Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2003


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miski
  • Þjáningarbætur
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. maí 2004.

Nr. 296/2003.

Sigríður Hrefna Sigurðardóttir

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Lloyd´s of London

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miski. Þjáningabætur. Gjafsókn. Sératkvæði.

S slasaðist alvarlega í umferðarslysi. Varanleg örorka hennar var metin 100%, en varanlegur miski 90%. Kröfu S um bætur fyrir tímabundna örorku var hafnað þar sem S þótti ekki hafa sýnt fram á að hún hafi misst af launatekjum á því tímabili sem um ræddi. S krafðist 50% álags á miskabætur á grundvelli 3. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993. Með sérstakri hliðsjón af alvarlegum afleiðingum slyssins fyrir andlegt heilsufar S, var talið að bætur fyrir 90% miska næðu ekki að bæta varanlegan miska hennar og var því krafa um álag tekin til greina. Þá var ekki á það fallist með S, að skilyrði væru fyrir hendi til að beita undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna, en talið að ákveða ætti árslaun hennar samkvæmt 3. mgr. 7. gr. Um fjárhæð bótanna sem tildæmdar voru S á þeim grundvelli var ekki ágreiningur.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2003. Krefst hún þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 79.062.138 krónur með 4,5% ársvöxtum af 11.918.370 krónum frá 24. maí 2000 til 19. mars 2001, af 79.062.138 krónum frá þeim degi til 30. september sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 54.244.632 krónur með 4,5% ársvöxtum af 11.077.631 krónu frá 24. maí 2000 til 19. mars 2001, af 79.062.138 krónum frá þeim degi til 30. september sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 10.477.282 krónum sem greiddar voru aðaláfrýjanda 4. febrúar 2003. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega að honum verði einungis gert að greiða aðaláfrýjanda 21.237.304 krónur með 4,5% ársvöxtum af 5.017.780 krónum frá 20. maí 2000 til 19. mars 2001 og af fjárhæðinni allri frá þeim degi til 29. apríl 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 10.477.282 krónum, sem greiddar voru aðaláfrýjanda 4. febrúar 2003. Til vara er krafist staðfestingar héraðsdóms. Þá er þess krafist að málskostnaður í héraði verði lækkaður, en felldur niður fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi gerir ekki athugasemdir við þá aðild til varnar, sem aðaláfrýjandi mótaði með stefnu sinni til héraðsdóms.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi slasaðist aðaláfrýjandi alvarlega í umferðarslysi á Klofningsvegi við Nýpurhlíð á Skarðsströnd 24. maí 2000, en þá var hún rúmlega 32 ára gömul. Samkvæmt matsgerð tveggja lækna 6. júní 2001 var hún talin með öllu óvinnufær frá slysdegi til 19. mars 2001, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Þá var talið að hún hafi á sama tímabili verið veik og rúmliggjandi, sbr. 3. gr. sömu laga. Varanlega örorku hennar töldu matsmenn 100% og varanlegan miska 90%. Er ekki ágreiningur um niðurstöðu matsins.

         Óumdeilt er að aðaláfrýjandi hafi verið með gilda vátryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Hún krafðist bóta og greiddi tjónafulltrúi gagnáfrýjanda hér á landi henni 10.477.282 krónur 4. febrúar 2003. Í málinu er annars vegar ágreiningur um hvort greiða eigi aðaláfrýjanda bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og annað fjártjón og hins vegar um fjárhæð bóta vegna þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku. Með hinum áfrýjaða dómi voru aðaláfrýjanda dæmdar 16.219.524 krónur í bætur fyrir varanlegra örorku, 6.980.850 krónur vegna varanlegs miska og 502.320 krónur í þjáningabætur, samtals 23.702.694 krónur. Fyrir Hæstarétti féll gagnáfrýjandi frá þeirri kröfu að aðaláfrýjandi ætti sjálf að bera hluta af tjóni sínu vegna eigin sakar, en í héraðsdómi var ekki fallist á þá kröfu. Breytti gagnáfrýjandi kröfu sinni í samræmi við það.

II.

Aðaláfrýjandi krefst 3.435.200 króna í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Miðar hún kröfu sína við helming heildartekna og hagnaðar áranna 2000 og 2001 í atvinnurekstri sameignarfélagsins Himins, sem hún telur að hefði fallið henni í skaut hefði hún ekki slasast, að frádregnum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Hafi starfsemi félagsins, sem hún átti að jöfnu með eiginmanni sínum og stofnað var í lok ársins 1998, falist í söfnun og vinnslu á dúni og sölu á honum til erlendra kaupenda. Vegna ástands hennar og óvinnufærni eftir slysið hafi allar tekjur og hagnaður vegna starfseminnar verið færðar á eiginmann hennar. Sjónarmið, sem krafan er reist á, eru að öðru leyti rakin í héraðsdómi. Í greinargerð til Hæstaréttar segir að aðaláfrýjandi hafi áður nýtt vinnugetu sína í þágu sameiginlegs atvinnurekstrar hjónanna og til að halda heimili þeirra og er vísað til 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Í athugasemdum aðaláfrýjanda vegna gagnsakar er þetta nánar skýrt svo að ekki sé um nýja kröfu eða málsástæðu að ræða, en krafan hafi frá upphafi verið reist á því að aðaláfrýjandi hefði haft tekjur af þátttöku sinni í samrekstri sínum og eiginmanns hennar. Sé ljóst að „sá samrekstur fólst annars vegar í rekstri Himins sf. og hins vegar í að halda sameiginlegt heimili þeirra.“ Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lagði aðaláfrýjandi fram yfirlit frá ríkisskattstjóra um staðgreiðslu skatts af launum hennar tekjuárið 2000 frá áðurnefndu sameignarfélagi.

Gagnáfrýjandi telur tilvísun aðaláfrýjanda til 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga fela í sér nýja kröfu og málsástæðu, sem ekki komist að í málinu. Hinu sama gegnir um nýtt skjal, sem að framan er getið.

Í stefnu til héraðsdóms er krafa um bætur fyrir tímabundna örorku á því reist að aðaláfrýjandi hafi orðið af launatekjum frá áðurnefndu sameignarfélagi. Ekki er þar krafist bóta á þeim grunni að hún hafi orðið óvinnufær til heimilisstarfa vegna afleiðinga slyssins. Samkvæmt skýringu aðaláfrýjanda felur tilvísun hennar til 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga í sér viðmiðun um ákveðna fjárhæð skaðabóta fyrir tapaðar launatekjur. Yfirlit frá ríkisskattstjóra barst löngu eftir að frestur samkvæmt 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var liðinn og kemur ekki til álita við úrlausn málsins. Hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að hún hafi misst af launatekjum á því tímabili, sem hér um ræðir. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að skilyrði séu ekki fyrir hendi til að taka þennan lið bótakröfu aðaláfrýjanda til greina.

III.

Eins og fyrr segir er ekki ágreiningur um að varanlegur miski aðaláfrýjanda sé réttilega metinn 90% í matsgerð. Hefur gagnáfrýjandi greitt henni 4.653.900 krónur í samræmi við það miskastig. Hún krefst hins vegar að auki 50% álags á miskabætur á grundvelli heimildarákvæðis 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og því var breytt með 3. gr. laga nr. 37/1999. Gagnáfrýjandi mótmælir því að skilyrði séu fyrir hendi til að beita ákvæðinu eins og hér stendur á.

 Í matsgerð kemur meðal annars fram að aðaláfrýjandi, sem er móðir þriggja ungra barna, hefur fengið alvarlega fjöláverka. Afleiðingar þeirra eru meðal annars mikill heilaskaði, sem hefur verulega skert andlegt atgervi hennar. Hún er lítt sjálfbjarga og þarf aðstoð við frumathafnir daglegs lífs, svo sem klæðnað, borðhald og hreinlæti, er frumkvæðislaus og dauf og ber greinileg merki alvarlegrar heilatruflunar. Auk þess er lömun í hægri líkamshelmingi, aðallega hægri handlegg, og hún hefur skerta hreyfingu frá hálsi vegna hálsbrots sem hún hlaut í slysinu. Fram er komið að aðaláfrýjandi hefur dvalið fjarri heimili sínu á stofnuninni Skógarbæ í Reykjavík. Þegar litið er til þess, sem fram er komið um miska aðaláfrýjanda og þá einkum afleiðinga slyssins fyrir andlegt heilsufar hennar, er fallist á með héraðsdómi að bætur fyrir 90% miska nái ekki að bæta varanlegan miska hennar að fullu og að hækka beri bætur til hennar sem nemi 50%. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest um þennan kröfulið.

IV.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun tjónþola metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá, sem fæst eftir meginreglu 1. mgr. sömu greinar. Byggir aðaláfrýjandi kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á því að undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna eigi hér við og krefst þess að leggja eigi til grundvallar útreikningi bótanna fjárhæð, sem samsvari helmingi reiknaðs endurgjalds og hreins hagnaðar í áðurnefndum rekstri sameignarfélags hennar og eiginmanns hennar á árunum 2000 og 2001. Af skattalegum ástæðum hafi eiginmaður aðaláfrýjanda, en hún ekki, reiknað sér endurgjald. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að miðað verði við reiknað endurgjald við starfsemina, sem eiginmaður hennar taldi fram hjá sér árið 2001, þar sem hún hefði starfað að jöfnu með honum við fyrirtæki þeirra og augljóst að hún hafi orðið fyrir tekjutapi.

Aðaláfrýjandi hafði óverulegar tekjur næstu árin fyrir slysið og ekki hefur verið sýnt fram á tekjuöflun af hennar hálfu á árinu 2000 fyrir slysdag. Ekki er heldur rétt að blanda saman tekjum af atvinnurekstri og launatekjum svo sem gert er í kröfugerð aðaláfrýjanda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2001 í máli nr. 143/2001. Tekjuviðmiðun við meðallaun iðnaðarmanna er jafnframt haldlaus. Verður ekki fallist á að skilyrði séu fyrir hendi til að beita undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á þeim grunni að aðstæður hafi verið óvenjulegar og ætla megi annan mælikvarða réttari á líklegar framtíðartekjur aðaláfrýjanda. Með vísan til framangreinds og forsendna héraðsdóms verður ekki hjá því komist að fallast á þá niðurstöðu hans að ákveða árslaun aðaláfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki er ágreiningur um að þannig ákveðnar nemi bæturnar 16.219.524 krónum. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um bætur fyrir þjáningar og að hafna beri kröfu um bætur fyrir annað fjártjón.

Eftir þessum málsúrslitum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um heildarfjárhæð bóta og vexti. Verða ákvæði hans um málkostnað og gjafsóknarkostnað jafnframt staðfest.

Hvor aðilanna skal bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

         Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, Sigríðar Hrefnu Sigurðardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

 

                                                                                                                 


Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er sammála atkvæði annarra dómenda um varanlega örorku, varanlegan miska, þjáningabætur og annað fjártjón, málskostnað og gjafsókn.  Eins og fram kemur í atkvæði þeirra í II. kafla krefst aðaláfrýjandi 3.453.200 króna í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Í stefnu miðar hún kröfu sína um „fullar bætur“ við helming heildartekna og hagnaðar áranna 2000 og 2001 í atvinnurekstri sameignarfélagsins Himins, sem hún telur að hefði fallið henni í skaut hefði hún ekki slasast. Frá þeim skuli dragast bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um að aðaláfrýjandi skuli ekki fá bætt tímabundið atvinnutjón á þeim grunni að hún hafi orðið af launatekjum frá sameignarfélaginu Himni. Kemur þá til skoðunar hvort miða skuli tímabundið atvinnutjón aðaláfrýjanda við vinnu vegna heimilisstarfa.

Hefur þeirri skipan verið komið á með lögum að sá, sem gegnir ekki launuðu starfi utan heimilis, teljist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins að hann fari vegna líkamstjóns á mis við að geta sinnt heimilisstörfum, sbr. dóma Hæstaréttar 14. október 1999 í máli nr. 153/1999 og 10. febrúar 2000 í máli nr. 362/1999. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á aðaláfrýjandi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. laganna vegna vinnu sinnar við heimilisstörf. Verður ekki talið að hér sé um að ræða kröfu of seint fram komna heldur viðmið sem rúmast innan kröfugerðar aðaláfrýjanda í stefnu í héraði um „fullar bætur“ fyrir tímabundið atvinnutjón og er ég ósammála þeirri niðurstöðu meiri hluta dómenda að aðaláfrýjandi hafi ekki krafist bóta á þeim grunni að hún hafi verið óvinnufær til heimilisstarfa vegna afleiðinga slyssins. Er skylt að leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við launatekjur viðkomandi. Þar sem miða verður við að aðaláfrýjandi hafi ekki stundað launaða vinnu utan heimilis í nokkur ár fyrir slysdag verður í þessu sambandi að notast við lágmarksviðmiðun í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt öllu framanrituðu er ég samþykkur niðurstöðu annarra dómenda að því einu breyttu að taka beri kröfu aðaláfrýjanda að því er tekur til tímabundins atvinnutjóns til greina í samræmi við lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að frádregnum slysadagpeningum frá Tryggingastofnun ríkisins. Um fjárhæð bótanna eru þó ekki efni til að fjalla nánar, eins og úrslitum málsins er varið.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 26. febrúar 2003, er höfðað með stefnu útgefinni 26. júní 2002 og var málið þingfest þann 27. júní  2002.

          Málið var endurupptekið með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 í dag 29. apríl 2003. Var málið samdægurs munnlega flutt og dómtekið að nýju.        

          Stefnandi málsins er Ólafur Gústafsson, hrl., skipaður lögráðamaður, vegna Sigríðar Hrefnu Sigurðardóttur, kt. 101167-3569, Skuld, Búðardal.

          Stefndu  eru Baldvin Hafsteinsson, hrl. og Tjónamat og skoðun ehf., f.h. Loyds of London, One Lime street, London, Bretlandi.

 

          Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda þjáningabætur, bætur fyrir varanlegan miska, bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, örorkubætur og bætur fyrir annað fjártjón, aðallega að fjárhæð kr. 79.062.138,-, með 4,5% ársvöxtum frá 24. maí 2000 til 30. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, en til vara að fjárhæð kr. 54.244.632,- með 4,5% ársvöxtum frá 24. maí 2000 til 30. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 10.477.282,-. Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

 

          Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefnanda verði gert að bera allt að helming tjónsins gegn greiðslu á kr. 9.574.523,- auk 4,5% almennra vaxta af kr. 2.508.890,- frá slysdegi til 19. mars 2001, en af fjárhæðinni allri frá þeim degi til dómsuppsögudags, en til vara, að stefnanda verði gert að bera allt að 1/3 hluta tjónsins og stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á kr. 13.630.698,- auk 4,5% almennra vaxta af kr. 3.345.187,ö- frá slysdegi til 19. mars 2001, en af fjárhæðinni allri frá þeim degi til dómsuppsögudags, en til þrautavara, að stefnufjárhæð verði verulega lækkuð að mati dómsins.

          Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnanda að því tekur til aðalkröfu og varakröfu, en að hvor aðili verði látinn bera sinn málskostnað að því tekur til þrautavarakröfu.

 

          Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 20. september 2002.

 

          Málsatvik:

          Stefnandi, Sigríður Hrefna Sigurðardóttir, slasaðist alvarlega í umferðarslysi þann 24. maí 2000 á Klofningsvegi við Nýpurhlíð á Skarðströnd. Hún var ökumaður bifreiðarinnar NL-192. Með henni í bílnum voru dætur hennar Þórunn Lilja Hilmarsdóttir, 12 ára, og Kristný María Hilmarsdóttir, 7 ára.

 

          Í stefnu segir, að slysið muni hafa orðið með þeim hætti, að stefnandi hafi misst stjórn á bifreiðinni, þegar hún hafi komið að steini á veginum. Bifreiðin hafi rásað til og rekist á grjót í hægri vegarkanti og endastungist, en lent að lokum á hjólunum. Eftir Þórunni Lilju er haft, að stefnandi hafi eftir slysið hangið í öryggisbeltinu með höfuðið útum hliðarglugga og hafi korrað í henni.  Þórunn hafi náð að losa stefnanda og koma henni út úr bifreiðinni og hlúa að henni þar til hjálp hafi borist. Stefnandi var síðan flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur.

          Upplýsingar um atvik að slysinu eru mjög af skornum skammti. Í lögregluskýrslu er haft eftir Þórunni, að móðir hennar hafi misst stjórn á bifreiðinni er hún hafi komið að steini á veginum, bifreiðin hafi fyrst kastast til, rásað og síðan rekist í grjót á hægri vegkanti og síðan endastungist og stöðvast á hjólunum. Þá segir í skýrslunni, að ljóst sé af ummerkjum á veginum og við hann, að bifreiðin hafi byrjað að rása nær vinstri vegkanti um það bil 49 metra frá stöðvunarstað og síðan um 20 metra löng hemlaför eftir bifreiðina, en þá hafi hún sveigt til hægri og þar hafi hægra horn bifreiðarinnar rekist í stóran stein og rifið hann með sér og síðan endastungist og runnið á efri hluta vinstri hliðar og vélarhlífinni og stöðvast síðan loks á hjólunum. Loft hafi einungis verið í hægri hjólbarða að aftan.

          Stefnandi hlaut margvíslega áverka í slysinu. Í greinargerð Jóhanns Gunnars Þorbergssonar, læknis dags. 7. nóvember 200, segir, að stefnandi hafi hlotið alvarlegan fjöláverka. Hún hafi fengið heilamar, flysjun í rismeginæð og hafi flysjunin gengið upp í vinstri samhálsslagæð. Hún hafi einnig fengið brot á I. og II. hálslið og brot á mjaðmargrind. Endurteknar tölvusneiðmyndir af höfði sýni vefjaskemmd vinstra megin í framhluta heilans. Þá segir, að stefnandi hafi hlotið alvarlega skerðingu á vitrænni og hugrænni getu og minnistruflanir séu miklar, bæði skammtíma og langtímaminni. Auk þess sýni hún framtaksleysi, frumkvæði sé af skornum skammti og hún sé tilfinningalega deyfð, sem rekja megi til vefrænna truflana. Þessar vitrænu truflanir leiði til mjög skertra lífsgæða. Sýnt þyki, að stefnandi muni þurfa á vistun á stofnun að halda framvegis.

          Vátryggjandi bifreiðarinnar sem stefnandi ók var stefndi, Lloyds of London. Ekki er deilt um, að stefnandi hafi verið með gilda vátryggingu samkvæmt 92. gr. umfl.

          Læknarnir Ragnar Jónsson og Jónas Hallgrímsson, mátu afleiðingar slyss  stefnanda og voru þá metnir bótaþættir samkvæmt skaðabótalögum.

 

          Niðurstöður læknanna voru þessar:

 

          1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skbl.: Frá 24.05.2000-19.03.2001, 100%

          2. Þjáningabætur skv. 3. gr.: Sigríður Hrefna telst hafa verið veik og

             rúmliggjandi skv. 3. gr. skaðabótalaga frá 24.05.2000-19.03.2001.

          3. Varanlegur miski skv. 4. gr. 90%

          4. Varanleg örorka skv. 5. gr. 100%.

          5. Ekki var að vænta frekari bata frá 19.03.2001.

 

          Ekki er ágreiningur um matsniðurstöður læknanna.

 

          Um hagi Sigríðar Hrefnu fyrir og eftir slys, segir í stefnu, að þegar slysið varð hafi Sigríður Hrefna starfað ásamt eiginmanni sínum, Hilmari Kristinssyni, að uppbyggingu atvinnurekstrar þeirra. Saman hafi þau rekið þau bú að bænum Skuld í Dalasýslu og hafi haft uppi áform um söfnun og vinnslu á dún fyrir erlendan markað. Á árunum 1997 og 1998 hafi verið unnið að því að finna erlendan aðila sem keypt gæti af þeim þann dún sem þau gátu útvegað og hreinsað. Á árinu 1999 tókust samningar við traustan erlendan dúnkaupmann og á árinu 2000 hófst rekstur þeirra af krafti. Í bréfi Ólafs Helgasonar, rekstrarfræðings, dags. 17. ágúst 2001, var upplýst að tekjur vegna starfseminnar hefðu numið kr. 6.863.837,- á árinu 2000, þ.e. samtala reiknaðs endurgjalds og hreins hagnaðar. Er það einnig staðfest í fylgiskjali með skattframtali ársins 2001. Síðar hefur komið í ljós að tekjur vegna starfseminnar hafa farið mjög hækkandi og var hreinn hagnaður af rekstri þeim sem Sigríður Hrefna og eiginmaður hennar hugðust standa að saman, að viðbættu reiknuðu endurgjaldi, kr. 14.732.290,- á árinu 2001.

 

          Málsástæður stefnanda:

          Í máli þessu gerir stefnandi kröfur á hendur stefnda um fullar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón,  varanlega örorku,  varanlegan miska, þjáningar og annað fjártjón auk vaxta og málskostnaðar og verða nú raktar málsástæður stefnanda varðandi þessa kröfugerð.

 

          Tímabundið atvinnutjón

          Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða henni kr. 3.435.200,- vegna tímabundins atvinnutjóns. Um lagagrundvöll kröfunnar er vísað til 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og áður sé rakið hafi stefnandi nýhafið störf við sameiginlegan rekstur hennar og eiginmanns hennar þegar slysið varð. Áður hafði ekki verið grundvöllur fyrir því þar sem samningar um sölu á þeirri dúnframleiðslu sem var og er grundvallaruppistaða í rekstrinum hafi ekki legið fyrir. Af sömu ástæðu séu tekjur stefnanda fyrir slys ekki réttur mælikvarði á tjón hennar vegna tímabundinnar óvinnufærni. Vegna ástands stefnanda og óvinnufærni hennar eftir slysið hafi allar tekjur og hagnaður vegna starfseminnar verið skráðar á eiginmann hennar, Hilmar Kristinsson. Á því er byggt að helmingur þeirra tekna og hagnaðar af rekstri hefði fallið stefnanda í skaut ef slysið hefði ekki orðið.

          Heildartekjur og hagnaður af rekstri ársins 2000 hafi numið kr. 6.863.837. ­Helmingur þeirrar fjárhæðar sé kr. 3.431.919,-. Fyrir tímabilið 24. maí 2000, sem er slysdagur, til 31. desember 2000, hefðu tekjur stefnanda numið kr. 2.077.956.­

          Heildartekjur og hagnaður af rekstri ársins 2001 hafi numið kr. 14.732.290. Helmingur þeirrar fjárhæðar sé kr. 7.366.145,-. Fyrir tímabilið 1. janúar 2001 til 19. mars 2001, en þá telst heilsa stefnanda hafa orðið stöðug samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, hefðu tekjur hennar numið kr. 1.574.135,­-.

          Samtals hefðu tekjur stefnanda á tímabili tímabundinnar óvinnufærni því numið kr. 2.077.956,- + kr. 1.574.135,- = kr. 3.652.091,-. Frá þeirri fjárhæð ber, vegna ákvæðis 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga, að draga greidda slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins, að fjárhæð kr. 216.891,-. ­Mismunarins, kr. 3.435.200,- er krafist nú úr hendi stefnda.

            

          Varanleg örorka

          Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða henni kr. 67.143.768,- vegna varanlegrar örorku. Um lagagrundvöll kröfunnar er vísað til 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

          Samkvæmt matsgerð er varanleg örorka stefnanda talin vera 100%. Upphafstími varanlegrar örorku er talin vera 19. mars 2001. Á þeim degi var stefnandi 33 ára og 129 daga gömul. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga verður því 12,067.

          Eins og áður segir höfðu atvinnuhagir stefnanda breyst mjög á árinu 2000, stuttu áður en slysið varð. Á árunum 1996 til 1999 voru árstekjur hennar lágar og á stundum engar. Þegar sú breyting varð á högum hennar og eiginmanns hennar að samningar tókust um vinnslu og sölu á hreinsuðum dún til útlanda gjörbreyttust allar forsendur hennar til tekjusköpunar. Er á því byggt, að af þessum sökum komi ekki til greina að miða bótauppgjör hennar við meðaltekjur síðastliðinna þriggja ára fyrir slys, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, né heldur við lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þess í stað verði miðað við þær tekjur sem sannanlega var aflað á árunum 2000 og 2001 í þeim rekstri sem stefnandi hefði átt fulla aðild að, ef slysið hefði ekki gerst. Sá mælikvarði gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

          Árslaunaviðmið við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku er þannig fundið að helmingur tekna og hagnaðar ársins 2000, að viðbættri vísitöluuppfærslu samkvæmt launavísitölu, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, og að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð og helmingur tekna og hagnaðar ársins 2001, að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð, eru lagðir saman og deilt með 2. Þannig fæst fjárhæð meðalárstekna fyrir þessi tvö ár.

 

          Helmingur tekna og hagnaðar ársins 2000 var kr. 3.431.919,­-. Vísitöluuppfærsla samkvæmt launavísitölu er 207,0/196,4 og er þá miðað við launavísitölu í mars 2001 annars vegar, við upphaf varanlegrar örorku, og meðaltal launavísitölu ársins 2000 hins vegar. Árslaun verða því 3.617.145,-. ­Að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð verða árstekjur ársins 2000 kr. 3.834.174,-.  Helmingur tekna og hagnaðar ársins 2001 var kr. 7.366.145,-. Að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð verða árstekjur ársins 2001 kr. 7.808.114,-. Samtals nema þessar fjárhæðir kr. 11.642.288,- og sé deilt í þær með 2 fæst fjárhæð árslauna til útreiknings bóta fyrir varanlega örorku, kr. 5.821.144. Fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku verði því 5.821.144,- x 12,067 = 70.243.744,-. Frá þeirri fjárhæð beri, vegna ákvæðis 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að draga eftirtaldar greiðslur og réttindi stefnanda:

a.       Greiddan endurhæfingarlífeyri, örorkulífeyri og tekjutryggingu

          frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 505.976,­

b.       40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði Vesturlands, frádráttur samsvarar kr. 2.064.000,­

e.       40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði bænda, frádráttur samsvarar kr. 530.000,­

 

          Samtals nemur frádráttur kr. 3.099.976,- en mismunarins, kr. 67.143.768,- er krafist nú úr hendi stefnda.

 

          Varanlegur miski

          Svo sem fyrr var getið var varanlegur miski stefnanda metinn 90%. Ekki er ágreiningur um að leggja beri þá niðurstöðu til grundvallar. Stefnandi telur að til viðbótar miskabótum samkvæmt þessu beri að beita heimild í 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða henni hærri bætur en leiða af viðmiðunarfjárhæð greinarinnar, sem nam, vegna ákvæðis 15. gr. skaðabótalaga, kr. 5.171.000,- í ágúst 2001 þegar kröfubréf var sent stefnda. Miskabótakrafa stefnanda reiknast þannig: kr. 5.171.000 x 90% = 4.653.900, ­50% hækkun nemur kr. 2.326.950,-. Miskabótakrafa samtals er því að fjárhæð kr. 6.980.850,­-.

          Að mati stefnanda þurfi varla að deila um, að fullt tilefni sé til að beita heimildinni til hækkunar í máli stefnanda. Áður hafi verið lýst niðurstöðum Jóhanns Gunnars Þorbergssonar læknis um afleiðingar slyssins. Í matsgerð læknanna Ragnars og Jónasar er þess til viðbótar getið að stefnandi hafi skert sjónsvið til vinstri og að göngulag sé afbrigðilegt vegna hægri helftarlömunar. Hún gangi með krepptan handlegg. Ljóst sé að við slysið stefnandi fengið alvarlega fjöláverka og séu alvarlegastar afleiðingar mikils heilaáverka, sem hafi algjörlega skert andlegt atgervi hennar. Allt séu þetta atriði sem hljóti að leiða til þess, að rétt teljist að beita hækkunarheimild 4. gr. skaðabótalaganna.. Minnt sé á að hér er um unga konu að ræða sem er gift og á þrjár dætur með manni sínum, 9, 11 og 14 ára gamlar. Ljóst er að slysið hefur auk annars haft varanleg og afgerandi áhrif á möguleika hennar til að njóta frístunda og samvista með eiginmanni sínum, börnum þeirra og fjölskyldu sinni allri.

 

          Þjáningabætur

          Í matsgerð læknanna tveggja segir að stefnandi hafi verið veik og rúmliggjandi frá slysdegi 24. maí 2000 til 19. mars 2001. Samtals var hún því veik og rúmliggjandi í 299 daga. Fjárhæð þjáningabóta fyrir hvern dag, samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, var kr. 1.680,- í ágúst 2001, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt því er krafist þjáningabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 502.320,­-.

 

          Annað fjártjón

          Í matsgerðinni er lýst hinum miklu og alvarlegu afleiðingum sem slys Sigríðar Hrefnu hefur haft fyrir hana. Stefnandi telur augljóst að hún muni verða fyrir margvíslegum kostnaði og útgjöldum vegna sérþarfa sem tengjast afleiðingum slyssins. Erfitt er að meta þann kostnað nákvæmlega en að álitum telst hann hóflega metinn kr. 1.000.000,-. Er þeirrar fjárhæðar krafist úr hendi stefnda og er um lagagrundvöll kröfunnar vísað til 1. gr. skaðabótalaga.

 

          Samkvæmt framansögðu sundurliðast aðalkrafa stefnanda þannig:

          1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns     kr.        3.435.200,-

          2. Bætur vegna varanlegrar örorku                  kr.      67.143.768,-

          3. Bætur vegna varanlegs miska                                   kr.        6.980.850,-

          4. Þjáningabætur                                                              kr.           502.320,-

          5. Bætur vegna annars fjártjóns                                    kr.        1.000.000,-

          Samtals                                                                kr.      79.062.138.-

 

          Krafist er 4,5% ársvaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, frá slysdeginum til upphafsdags dráttarvaxta 30. ágúst 2001, en þá var mánuður liðinn frá dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda. Vísast í þessu efni til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

          Verði ekki fallist á með stefnanda að við útreikninga bóta til hennar fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku skuli meðal annars tekið mið af þeim tekjum sem hún hefði aflað á árinu 2001, ef slysið hefði ekki gerst, er þess krafist til vara að umræddar bætur verði hvað sem öðru líður ekki ákvarðaðar með hliðsjón af lægri tekjum en þeim sem sannanlega urðu til í þeim rekstri sem Sigríður Hrefna hafði hafið störf við á árinu 2000. Er þá haft í huga að hvernig sem á mál Sigríðar Hrefnu verður litið, sé ljóst að tekjur síðustu þriggja ára fyrir slys gefi alranga mynd af þeim tekjum sem hún mátti vænta að hafa til framtíðar af þeim rekstri sem hófst fyrir alvöru á árinu 2000 og hún starfaði við, þótt í stuttan tíma væri, vegna slyssins.

 

          Tímabundið atvinnutjón.

          Séu bætur vegna tímabundins atvinnutjóns miðaðar við þær tekjur, sem stefnandi sannanlega missti af á árinu 2000, vegna slyssins og þær tekjuforsendur einnig notaðar vegna tímabundinnar óvinnufærni á árinu 201, reiknist bæturnar með eftirfarandi hætti: Tapaðar árstekjur á árinu 2000 nema kr. 3.431.919. Fyrir tímabilið 24. maí 2000 til 19. mars 2001 nemi bætur vegna tímabundins atvinnutjóns því kr. 2.811.352. Frá þeirri fjárhæð dragist greiddir slysadagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 216.891. Eftir standi þá óbætt tjón vegna tímabundinnar óvinnufærni, kr. 2.594.461.

 

           Varanleg örorka

         Séu bætur vegna varanlegrar örorku aðeins reiknaðar með hliðsjón af árstekjum ársins 2000, að viðbættri vísitöluuppfærslu samkvæmt launavísitölu, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, og að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð, reiknast þær þannig: Helmingur tekna og hagnaðar ársins 2000 var kr. 3.431.919,­-. Vísitöluuppfærsla samkvæmt launavísitölu er 207,0/196,4 og er þá miðað við launavísitölu í mars 2001 annars vegar, við upphaf varanlegrar örorku, og meðaltal launavísitölu ársins 2000 hins vegar. Árslaun verða því 3.617.145,­-. Að viðbættu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð verða árstekjur ársins 2000 kr. 3.834.174,-. Örorkubætur verða því kr. 3.834.174,- x 12,067 = 46.266.977,-. ­Frá þeirri fjárhæð ber, vegna ákvæðis 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að draga eftirtaldar greiðslur og réttindi stefnanda:

a.            Greiddan endurhæfingarlífeyri, örorkulífeyri og tekjutryggingu

             frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 505.976,­

b.          40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði Vesturlands,

             frádráttur samsvarar kr. 2.064.000,­

c.          40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði bænda,

              frádráttur samsvarar kr. 530.000,-. Samtals nemur frádráttur kr. 3.099.976,-

            en mismunarins, kr. 43.167.001,- er krafist úr hendi stefnda.

 

          Að öðru leyti er um lagagrundvöll og rökstuðning fyrir kröfunni vísað, að breyttu breytanda, til umfjöllunar í lið 2 vegna aðalkröfu.

          Sömu kröfur um bætur vegna varanlegs miska, þjáninga, annars fjártjóns og útlagðs kostnaðar eru hafðar uppi í varakröfu og í aðalkröfu.

           Samkvæmt framansögðu sundurliðast varakrafa stefnanda þannig:                                    

          1.            Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns                   kr.        2.594.461,-

          2.            Bætur vegna varanlegrar örorku                                kr.        43.167.001,-

          3.            Bætur vegna varanlegs miska                                     kr.        6.980.850,-

          4.            Þjáningabætur                                                               kr.           502.320,-

          5.            Bætur vegna annars fjártjóns                                     kr.        1.000.000,-

           Samtals                                                                kr.      54.244.632,-

 

          Málsástæður stefnda:

          Aðalkröfu sína um að stefnanda verði gert að bera 1/2 sakar byggir stefndi á því, að stefnandi hafi brotið gegn V. kafla umferðarlaga, með þeim afleiðingum að slys hlaust af. Bendir stefndi á að samkvæmt uppdrætti lögreglu og mælingum, hafi bifreiðin byrjað að rása nær vinstri kanti vegarins um það bil 49 metra frá þeim stað þar sem hún lendir utan vega. Af þessum 49 metrum séu að því er talið er um 20 metra löng hemlaför eftir bifreiðina. Hún hafi síðan rekist með hægra framhorn á stóran stein sem þar var utan vega, rifið hann með sér, endastungist og runnið á efri hluta vinstri hliðar og vélahlíf og loks stöðvast á hjólum. Aðstæður þegar slysið varð hafi verið þannig, að það var dagsbirta, skýjað og rigning. Yfirborð vegar hafi verið óslétt malarslitlag og laust og færð blaut. Miðað við þessar aðstæður telji stefndi, að stefnandi hafi ekið langt umfram leyfilegan hámarkshraða og allt of hratt miðað við möguleika hennar á að hafa fullt vald á ökutækinu og geta stöðvað það á þeim hluta vegar sem framundan var og hún hafði yfirsýn yfir, sbr. 36. gr. umfl. 1. og 2. mgr. stl. h. sbr. 37. gr. 2. mgr. sl.

 

          Stefnandi hafi sýnt af sér slíkt gáleysi, að leggja beri á hana að bera hluta tjóns síns sjálf að því er nemur helming.

          Bætur til handa stefnanda eru reiknaðar út á grundvelli ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Með matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Jónasar Hallgrímssonar dags. 6. júní 2001 voru lögboðin matsefni skaðabótalaga metin. Ekki er ágreiningur um niðurstöðu matsins og verður á henni byggt.

          Af framlögðum skattframtölum áranna 1998, 1999 og 2000, kemur fram að meðaltekjur stefndu hafi ekki náð lágmarkslaunaviðmiðum skv. 7. gr. skaðabótalaga og eru lágmarkslaunin því lögð til grunvallar bótaútreikningi. Stefndu byggja á að bætur til stefnanda verða því þannig ákveðnar:

 

          Tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. skbl.

          Eins og fyrir liggur í gögnum málsins stundaði stefnandi búrekstur að Bænum Skuld í Dalasýslu. Tekjur hennar voru bæði stopular og óvissar. Af skattframtali ársins 2000 vegna tekjuársins 1999, næsta árs á undan slysinu, voru engar tekjur skráðar á skattframtal stefnanda aðrar en greiðsla frá Saurbæjarhreppi vegna átaksverkefnis. Ákvæði 2. gr. skbl. er ætlað að bæta tímabundið atvinnutjón, þegar um raunverulegt atvinnutjón er að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingarstofnun ríkisins, sem dags. eru 13. desember 2001, hefur stefnandi vegna slyssins notið greiðslna að fjárhæð kr. 1.376.949,-. Með öllu er ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir öðru og meira atvinnutjóni en þegar hefur verið bætt.

 

          Varanleg örorka, sbr. 5-7. gr. skbl.:

          Ekki er ágreiningur um niðurstöðu læknamats að því er varðar þennan þátt matsins. Eins og 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var breytt með lögum nr. 37/1999 þá ber að miða útreikning örorkubóta við meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag. Meðaltekjur stefnanda þessi þrjú ár, uppfærðar miðað við vísitölu launa eru lægri en það lágmarksviðmið sem lögin gera sjálf ráð fyrir, sbr. 3. mgr. 7. gr. Engin forsenda er til að leggja önnur viðmið til grundvallar bótaútreikningi, eins og krafist er af stefnanda. Framsetning stefnanda á tekjuviðmiðum miðar við reiknað endurgjald atvinnurekanda í eigin atvinnurekstri að viðbættum hlaupandi og óvissum hagnaði af atvinnurekstrinum, sem í þessu tilfelli er hreinsun og sala æðardúns, og háður er markaðsaðstæðum hverju sinni. Þá bendir stefndi á, að umrædd starfsemi sé rekin í formi sameignarfélags, Himins sf.og bendir stefndi, að hér sé um algerlega sjálfstæða lögpersónu að ræða og því með engu móti hægt að leggja hagnað félagsins að jöfnu við atvinnutekjur stefnanda í skilningi skaðabótalaganna. Framsetning stefnanda á tekjuviðmiðum með þeim hætti sem í stefnu greinir er því algerlega óraunhæf sbr. dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2001 í málinu nr. 143/2001. Þá er framsetningu stefnanda á launatekjum mótmælt sem röngum, ósönnuðum og óstaðfestum.

          Að þessu virtu telur stefndi að bætur fyrir varanlega örorku verði rétt bættar þannig: kr. 1.200.000 / 3282 x 4379 = 1.601.000 x 12,067 x 100% = 19.319.267,-. Af því beri stefnandi sjálfur 1/2.  Bætur til stefnanda verði því kr. 9.659.633,-. Frá því beri að draga eingreiðsluverðmæti Lífeyrissjóðs Vesturlands kr. 40% af kr. 5.159.000 eða 2.063.600 og eingreiðsluverðmæti Lífeyrissjóðs bænda, 40% af 1.326.000 eða 530.400,-. Réttar bætur fyrir varanlega örorku verði því kr. 7.065.633,-.

 

          Varanlegur miski, sbr. 4. gr. skbl.

          Ekki er ágreiningur um niðurstöðu læknamats að því er varðar þennan lið. Eins og fram kemur í stefnu nemur miskafjárhæðin samkvæmt skaðabótalögum kr. 5.171.000,- 90% miski samsvarar því kr. 4.653.900. Stefndi hafnar því hins vegar alfarið að þær forsendur séu fyrir hendi sem réttlæti hækkun þessa liðar m.t.t. 4. gr. skbl. Á það skal bent, að jafn hátt miskastig og stefnandi hefur hlotið hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera afleiðing alvarlegra áverka, hvort sem um er að ræða einstakan áverka eða fjöláverka sem óhjákvæmilega leiðir til töluverðrar röskunar á lífsgæðum. Stefnandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að sú röskun sem orðið hefur á lífi sínu og talist geta afleiðingar slyssins, sé önnur og meiri en búast hafi mátt við þegar um jafn alvarlegt slys er að ræða. Tilvísun stefnanda til niðurstöðu Hæstaréttar í málinu H. 15. mars 2001 nr. 395/2000 er ekki raunhæf og í raun er hér um algerlega ósambærilega hluti að ræða. Þá bendir stefndi og á að hér er um frávik frá meginreglu laganna að ræða, sem eingöngu verður notað í undantekningartilvikum. Því ber að gæta ýtrustu varúðar við beitingu á hækkunarákvæði laganna, sérstaklega þegar um lægra miskastig en 100 er að ræða.

 

          Bætur fyrir þjáningu sbr. 3. gr. skbl.

          Eins og fram kemur í 3. gr. skbl., er hámark við greiðslu fullra þjáningabóta sett við kr. 200.000.- sem með uppfærslu samkvæmt vísitölu nemur kr. 266.850,-. Tímabil bótagreiðslna reiknast vera 299 dagar. Skv. þessu telur stefndi réttar og eðlilegar bætur samkvæmt þessari grein vera þannig:

          158 d. á kr. 1,680,- kr. 265,440,­-

          141 d. á kr. 840,-    kr. 118,440,-

­          Samtals                 kr.363,880,­-

 

          Annað fjártjón.

          Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir útgjöldum eða fjártjóni umfram það sem bætur samkvæmt framansögðu standa til greiðslu á. Þessum lið er því algerlega hafnað og mótmælt sem ósönnuðum og óstaðfestum.

 

          Samkvæmt því telur stefndi bótakröfu stefnanda vera þannig:

          1. Varanleg örorka         kr.   19,319,267

          2. Varanlegur miski       kr.     4,653,900

          3. Þjáningabætur           kr.        363,880

          Samtals              kr.   24,337,047

 

og beri stefnanda að bera verulegan hluta þess eða allt að helming. Bætur til stefnda verði samkvæmt því kr. 12.168.524, en frá því ber að draga eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna frá bæði Lífeyrissjóði Vesturlands kr. 2.063.600 og Lífeyrissjóði bænda kr. 530.400. Bætur til handa stefnanda verði samkvæmt því kr. 9.574.523.­

 

          Varakrafa:

          Stefndi byggir varakröfu sína á öllum sömu rökum og getið er í aðalsök, nema hvað stefnanda verði gert að bera annan lægri hluta tjónsins sjálfur þó aldrei minna en 1/3. Bætur til stefnanda myndu því að breyttu breytanda verða þannig: 24.337.047 x 2/3 16.224.698 að frádregnu eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna frá bæði Lífeyrissjóði Vesturlands kr. 2.063.600 og Lífeyrissjóði bænda kr. 530.400. Bætur til handa stefnanda verði samkvæmt því kr. 13.630.698.­

 

          Þrautavarakrafa:

          Þrautavarakrafa stefnda byggir á því, að með engu móti sé hægt að leggja tölur stefnanda um launaviðmið til grundvallar útreikningum um bótafjárhæð. Til viðbótar þeim rökum sem að framan er getið bendir stefndi á að tekjuviðmið þau, sem stefnandi byggir kröfugerð sína á í stefnu, eru rekstrartekjur lögaðila, Himins sf., sem engin nánari grein er gerð fyrir í málatilbúnaði, né með hvaða hætti stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að geta notið afraksturs af. Með öllu er óeðlilegt að blanda saman tekjum af atvinnurekstri annars vegar og launatekjum einstaklings hins vegar. Hið fyrrnefnda er háð utanaðkomandi sveiflum, andstætt við launatekjur, auk þess sem slíkar tekjur ganga yfirleitt að stórum hluta til aftur inn í fyrirtækið til áframhaldandi uppbyggingar þess og reksturs.

          Af málatilbúnaði stefnanda má ráða, að slys stefnanda hafi í engu raskað tekjuöflun búsins eða fyrirtækis stefnanda. Engin gögn hafa verið lögð fram um hið gagnstæða, hvað þá að rekstrarárangur hefði orðið annar eða meiri, hefði starfskrafta stefnanda notið við. Vandséð er, í hverju meint tjón stefnanda liggur, hvað þá með hvaða hætti stefnandi telur að stefnda beri að bæta henni samkvæmt tryggingar- skilmálum, það að hún nýtur ekki afraksturs, sem talinn er hafa orðið af rekstri sameiginlegs fyrirtækis þeirra hjóna. Af orðum stefnanda í greinargerð er ljóst, að hér er um bókhaldslega hagræðingu að ræða, en ekki raunverulegt tjón. Uppgjör sameignaraðila í sameignarfélagi sín á milli er einkamál þeirra, sem á engan hátt varðar skyldur stefnda til greiðslu bóta samkvæmt ákvæðum 92. gr. umferðarlaga.

          Um lagarök vísar stefndi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og umferðarlaga nr. 50/1987 eins og til er vísað hér að framan

          Um vexti vísar stefndi til 16. gr. skbl. svo og 5. gr. 3. mgr. og 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

          Þá vísar stefndi til 130. gr. sbr. 129 gr. sl. um málskostnað.

 

          Niðurstaða:

          I. Þegar slysið 24. maí 2000 varð, var stefnandi ökumaður bifreiðarinnar NL-192, en farþegar voru dætur hennar tvær, Þórunn Lilja Hilmarsdóttir 12 ára og Kristný María Hilmarsdóttir, 7 ára.

          Í lögregluskýrslu frá vettvangi er haft eftir Þórunni, að móðir hennar hafi misst stjórn á LN-192, er hún hafi komið að steini á veginum, bifreiðin hafi kastast til, rásað og síðan rekist á grjót á hægri vegkanti og síðan endastungist og stöðvast á hjólunum.

          Í lögregluskýrslu hefur lögreglumaðurinn, sem hana gerði, lýst vettvangi þannig, að ljóst sé af ummerkjum á veginum og við hann, að NL-192 hafi byrjað að rása nær vinstri vegkanti um það bil 49 metra frá stöðvunarstaðnum og síðan hafi verið ca. 20 metra löng hemlaför eftir bifreiðina, er hafi sveigt til hægri og þar hafi hægra fram horn bifreiðarinnar rekist í stóran stein og rifið hann með sér og síðan endastungist og runnið á efri hluta vinstri hliðar og vélarhlífinni og stöðvast loks á hjólunum, en loft hafi einungis verið í hægri hjólbarða að aftan.

          Lögregluskýrslunni fylgdi uppdráttur af vettvangi, sem staðfestir lýsingu lögreglumannsins.

          Þá hafa verið lagðar fram ljósmyndir af veginum og bifreiðinni eftir slysið.

          Engar skýrslur hafa verið teknar af stefnanda eða dætrum hennar hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi.

          Af þessum gögnum verður ekki, svo óyggjandi sé, ráðið, hvað hefur valdið því, að stefnandi missti stjórn á bifreiðinni. Hefur þá ekki verið sýnt fram á, að stefnandi hafi valdið tjóninu af stórkostlegu gáleysi. 

          Verður þá ekki tekin til greina krafa stefnda um að bætur verði lækkaðar með vísun til 2. mgr. 88. gr. umfl. eða  5. gr. vátryggingaskilmála stefnda.

 

          II. Tímabundið atvinnutjón.

          Stefnandi var ekki í launaðri vinnu hjá öðrum þegar slysið varð, heldur hafði hún tekið þátt í sameiginlegum atvinnurekstri með eiginmanni sínum. Samkvæmt því, sem fram kemur í framtali hennar til skatts, fyrir árið 2000 hafa tekjur af samrekstri þeirra skilað hagnaði kr. 6.607.193. Stefnandi gefur sér, að helmingur þessara tekna hefði fallið til stefnanda, ef vinnu hennar hefði notið við. Þegar litið er til þess, eðlis þeirrar starfsemi, sem stefnandi stundaði, og vaxandi tekna af henni, verður ekki séð, að hún hafi orðið fyrir tekjutapi að þessu leyti. Má einnig líta til þess, að stefnandi hefði fengið greidd laun á nokkrum hluta þessa tímabils, ef hún hefði verið í launavinnu, en í skattframtali hennar fyrir árið 2001, um tekjur á slysárinu, eru engar launatekjur taldar fram á árinu, þrátt fyrir, að stefnandi hafi ekki orðið óvinnufær fyrr en á slysdegi þann 24. maí það ár. Verða því ekki ákveðnar bætur til stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga.

 

          III. Varanleg örorka.

          Þegar litið er til þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja um tekjur stefnanda síðust þrjú almanaksár fyrir slys, kemur í ljós, að meðaltekjur hennar þessi ár hafa, að öllu meðtöldu, verið kr. 747.319.

          Stefnandi hefur haldið því fram, að þær óvenjulegu aðstæður séu fyrir hendi, að allur tekjugrundvöllur stefnanda hafi breyst á árinu 2000 og eigi því samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skaðabótalaga að meta árslaun hennar sérstaklega. Sé réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda, að líta til tekna sameignarfélags hennar og eiginmanns hennar og draga af þeim ályktanir um tjón hennar.

 

          Af framlögðum gögnum í málinu um sameiginlegar tekjur þeirra hjóna, stefnanda og eiginmanns hennar,  má ráða, að fyrir slysið hafi tekjur þeirra verið litlar og stopular. Ef farið er yfir framtöl þeirra síðustu þrjú almanaksár fyrir slys, sést, að árið 1997 hafa tekjur stefnanda verið skráðar þannig: Launatekjur kr. 17.446, Greiðslur úr lífeyrissjóðum kr. 27.377 atvinnuleysisbætur kr. 667.065, eða samtals kr. 711.888.

 

          Árið 1998 eru engar launatekjur taldar, en reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur er talið kr. 364.674, hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri kr. 2.057.448 og atvinnuleysisbætur kr. 730.482, eða samtals kr. 3.152.604. Í landbúnaðarskýrslu kemur fram, að sameiginlegar hreinar tekjur þeirra hjóna af rekstri eru 2.743.263, sem hefur verið skipt á framtölum þeirra, þannig að 685.815 eru taldar sem tekjur eiginmanns stefnanda, en kr. 2.057.448 sem tekjur stefnanda. Í þessari sömu skýrslu kemur fram, að umboðslaun af dún eru kr. 3.610.661, en "styrkur Iðja -Iðnaður" kr. 500.000 og "Byggðastofnun/fjármálaráðuneyti kr. 650.000.

          Árið 1999 eru engar launatekjur taldar fram af stefnanda, en undir liðnum "Lífeyrisgreiðslur. Greiðslur frá Tryggingastofnun. Aðrar bótagreiðslur, styrkir o.fl." og þar undir liðnum "Annað, hvað? Saurbæjarhr. V/átaksverkefnis"  kr. 434.912.  

          Þann 31. desember 1998 stofnuðu þau stefnandi og eiginmaður hennar Hilmar Jón Kristinsson, sameignarfélagið Himin um rekstur sinn. Í félagssamningnum, segir, að ágóða og halla af atvinnurekstrinum skipti félagsmenn með sér til helminga. Þá segir í samningnum, að um laun, þóknun, vinnuframlag og verkaskiptingu félagsmanna skuli gert sérstakt samkomulag. Ekki hafur verið lagt fram í málinu slíkt samkomulag. 

          Samkvæmt upplýsingum eiginmanns stefnanda og félaga hennar í sameignarfélaginu Himni, hafði stefnandi með höndum alla skrifstofuvinnu, bókhald og samskipti við við erlenda viðskiptavini auk nokkurrar vinnu við framleiðslustörf. Taldi hann, að hún hefði verið í fullri vinnu við þetta frá því í ársbyrjun 2000, en fram að því hafi reksturinn ekki gefið tilefni til fullrar vinnu. Samkomulag hefði verið með þeim um, að tekjum skiptu þau á milli sín að jöfnu.

          Gögn hafa verið lögð fram um það, að tekjur þeirra  af atvinnurekstrinum hafi stóraukist á slysárinu 2000 og enn frekar árið 2001. Upplýst hefur verið, að þann 1. janúar 2002 gekk stefnandi úr sameignarfélaginu Himni og inn í félagið gekk Þórunn Hilmarsdóttir, tengdamóðir hennar. Dómurinn skoraði á stefnanda að leggja fram gögn um launagreiðslur til Þórunnar Hilmarsdóttur, til athugunar á því, hvort af þeim mætti draga ályktanir um tjón stefnanda. Fram voru lögð ljósrit af innborgunarnótum um greiðslur Himins sf. inn á bankareikning Þórunnar, árið 2001 17. ágúst kr. 497.000, 31. ágúst kr. 1.112.648, 21. september kr. 1.968.100 og 7. desember kr. 141.000, eða samtals kr. 3.718.748. Í rekstrarreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2001 kemur fram, að greidd laun og launatengd gjöld á árinu hafa verið kr. 3.393.974, og þar munu vera reiknuð laun eignmanns stefnanda kr. 2.400.000. Er þá ljóst að greiðslur til Þórunnar hafa ekki nema að litlu leyti verið laun. Árið 2002 var greitt þann 28. febrúar kr. 326.500, 21. maí kr. 1.089.000, þann 27. september kr. 1.254.000 og þann 14. nóvember kr. 2.000.000, eða samtals kr. 4.669.500. Rekstrarreikningur fyrir 2002 liggur ekki fyrir. Engar skýringar eru á greiðslum þessum á innborgunarnótunum og verða því engar ályktanir dregnar af þeim um launagreiðslur til þess, sem virðist hafa tekið við verki stefnanda í fyrirtækinu.

          Ekki verður fallist á, að sú mikla tekjuaukning, sem varð hjá fyrirtæki stefnanda, verði talin grundvöllur mats á tjóni hennar vegna varanlegrar örorku, þar sem tekjur þessar stafa augljóslega ekki af venjulegu vinnuframlagi.

          Eins og að ofan segir, eru meðaltekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið svo lágar, að þær verða ekki notaðar sem viðmiðun um tjón stefnanda. Ekki hafa verið færðar fram í málinu sannanir eða líkur fyrir því, hverjar hefðu orðið framtíðarvinnutekjur stefnanda, ef slysið hefði ekki orðið. Þá hafa ekki verið færð fram nein rök fyrir þeim ábendingum stefnanda, að miða beri við meðaltekjur iðnaðarmanna.

          Verður þá að ákveða árslaun stefnanda samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verður bótafjárhæðin þá miðuð við árslaun kr. 1.200.000, sem samkvæmt breytingum á lánskjaravísitölu reiknast kr. 1.601.000.

          Ekki er ágreiningur um að margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er 12,067 og verða þá bætur eftir þessum kröfulið kr. 19.319.500.

          Frá þeirri fjárhæð ber samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að draga bætur frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 505.976, 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði Vesturlands kr. 2.064.000 og 40% af eingreiðsluverðmæti lífeyris frá Lífeyrissjóði bænda kr. 530.000, og nema þá eftirstöðvarnar kr. 16.219.524.

 

          IV. Varanlegur miski.

          Ekki er ágreiningur um mat á varanlegum miska 90%, né á þeirri fjárhæð, sem leiðir af þessu miskastigi samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi hefur gert kröfu um að beitt verði heimild í 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða henni hærri bætur, allt að 50% hærri en samkvæmt töflunni í 2. mgr. 4. gr.

 

          Í greinargerð Jóhanns Gunnars Þorbergssonar, læknis, segir: „Sigríður Hrefna hefur hlotið alvarlega skerðingu á vitrænni og hugrænni getu og minnistruflanir eru miklar, bæði skammtíma- og langtímaminni. Auk þess sýnir hún framtaksleysi, frumkvæði er af skornum skammti og hún sýnir tilfinningalega deyfð, sem rekja má til vefrænna truflana. Þessar vitrænu truflanir leiða til mjög skertra lífsgæða. Sýnt þykir að Sigríður Hrefna muni þurfa vistun á stofnun framvegis. ”

 

          Í matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Jónasar Hallgrímssonar, segir að taugasálfræðingur hafi metið hana og hafi komið fram miklar minnistruflanir, máltruflanir í formi orða, leitunar og erfiðleika með tölur og einnig sjónsviðsskerðing og gaumstol til hægri og erfiðleikar með rúmvíddarskyn. Lýst er almennu áhugaleysi, framkvæmdaleysi, tilfinningalegri deyfð og minnisskerðingu sem munu hafa mikil áhrif á allar athafnir daglegs lífs. Fram kemur að hún sé háð aðstoð annarra í flestum athöfnum og geti lítið stjórnað sínu atferli eða praktískum málum. Einnig kemur fram, að ekki sé hægt að búast við því að þessi skerðing muni ganga til baka.

 

           Í lýsingu á skoðun kemur fram í matsgerðinni, að göngulag stefnanda sé afbrigðilegt vegna hægri helftarlömunar. Þá segir, að ekki sé hægt að byggja á frásögn stefnanda, Hún virðist frumkvæðislaus og dauf og með greinileg merki alvarlegrar heilatruflunar.

 

          Loks segir í matsgerðinni: „Við umferðarslysið 24.05 2000 hefur Sigríður fengið alvarlega fjöláverka eins og lýst er í greinargerð Jóhanns G. Þorbergssonar. Alvarlegastar eru afleiðingar mikils heilaáverka sem algjörlega hefur skert andlegt atgervi Sigríðar Hrefnu. Einnig er lömun í hægri líkamshelmingi, aðallega hægri handlegg.”

 

          Niðurlagsákvæði 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, verða ekki skilin með öðrum hætti en þeim, að heimilt sé að hækka fjárhæð bóta, þegar sérstaklega stefndur á, án þess, að þá sé um leið hækkað miskastig.  

 

          Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýst hér að ofan,  verður að telja, að svo sérstaklega standi á, að rétt sé, að nýta þá heimild að fullu, að ákveða bætur samkvæmt þessum lið 50%, hærri en segir í töflunni í 2. mgr. 4. gr. eða samtals kr. 6.980.850.

 

          V. Þjáningabætur.

          Í matsgerðinni kemur fram, að stefnandi teljist hafa verið veik og rúmliggjandi samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga frá 24. maí 2000 til 19. mars 2001, eða 299 daga.

          Ekki er fallist á þá skoðun stefndu, sem fram kemur í greinargerð, að hámark greiðslu fullra þjáningabóta sé kr. 200.000, eða með uppfærslu samkvæmt vísitölu kr. 266.850, skv. 3. gr. skaðabótalaga. Hefur stefnandi ekki borið fram önnur rök fyrir lækkun bóta eftir þessum lið.

          Ekki er fram komið tilefni til þess að víkja frá  mati á þjáningabótum skv. 3. gr. skaðabótalaga og er krafa stefnanda undir þessum lið tekin til greina að fullu með kr. 502.320.

 

          VI. Annað fjártjón.

          Í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga segir, að greiða skuli skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af líkamstjóni hlýst. Telja verður, að þar sem ræðir um annað fjártjón, sé átt við raunveruleg fjárútlát, sem tengist slysinu þannig, að eðlilegt sé, að greitt sé. 

          Stefnandi hefur ekki fært fram nein gögn um slíkt fjártjón stefnanda og verður krafa hans um bætur að álitum ekki tekin til greina.

 

          VII.

          Samkvæmt því, sem að ofan greinir verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda samtals kr. 23.702.694 (16.219.524+6.980.850+502.320), með 4,5% ársvöxtum af kr. 7.483.170 frá 24. maí 2000 til 19. mars 2001 og af kr. 23.702.694 frá þeim degi til 30. september 2001 og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 10.477.282, sem stefndi greiddi inn á kröfuna þann 4. febrúar 2003.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, útlagður kostnaður vegna málsins kr. 30.730 og málflutningsþóknun talsmanns stefnanda Heimis Arnar Herbertssonar hdl. kr. 1.800.000.

          Stefndu greiði málskostnað kr. 1.830.730, sem rennur í ríkissjóð.

          Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

          Stefndu, Baldvin Hafsteinsson, hrl. og Tjónamat og skoðun ehf., fh. Lloyds of London, greiði stefnanda, Sigríði Hrefnu Sigurðardóttur, kr. 23.702.694, með 4,5% ársvöxtum af kr. 7.483.170 frá 24. maí 2000 til 19. mars 2001 og af kr. 23.702.694 frá þeim degi til 30. september 2001 og dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 10.477.282, sem stefndi greiddi inn á kröfuna þann 4. febrúar 2003.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 1.830.730 greiðist úr ríkissjóði.

          Stefndu greiði kr. 1.830.730 í málskostnað, er renni í ríkissjóð.