Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-142

Lovísa Eymundsdóttir og dánarbú Kjartans Jónssonar (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
gegn
Vegagerðinni (Reynir Karlsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarnám
  • Fasteign
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi eignarréttar
  • Stjórnsýsla
  • Meðalhóf
  • Sveitarfélög
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. desember 2023 leita Lovísa Eymundsdóttir og dánarbú Kjartans Jónssonar leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. nóvember sama ár í máli nr. 254/2022: Lovísa Eymundsdóttir og dánarbú Kjartans Jónssonar gegn Vegagerðinni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að lögmæti ákvörðunar gagnaðila frá árinu 2019 um að taka eignarnámi land úr jörð leyfisbeiðenda, Hjarðarnesi í Hornafirði, undir hringveg um Hornafjörð. Leyfisbeiðendur hafa byggt á að þeim verði ekki gert að þola að umrædd eignarréttindi verði tekin af þeim í ljósi þess að önnur leið, leið 1, hafi verið tæk sem skerti eignarréttindi landeigenda í Hornafirði minna en sú leið sem gagnaðili valdi, leið 3b.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Landsréttur vísaði til þess að gagnaðili hefði heimild í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 til að taka land úr eigu landeiganda sem þurfi til þjóðvegagerðar og hvers kyns vegahalds enda komi fullar bætur fyrir. Rétturinn tók fram að ákvörðun gagnaðila væri stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hefði sérstaka þýðingu við ákvörðun um eignarnám í ljósi þess að eignarrétturinn væri friðhelgur samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og hún því aðeins möguleg að almenningsþörf krefði. Í dómi Landsréttar kom fram að miðað við framlögð gögn í málinu og dóm Hæstaréttar 22. október 2009 í máli nr. 22/2009 yrði að leggja til grundvallar að leið 1 og leið 3b hefðu báðar verið tækar með tilliti til þeirra almennu sjónarmiða sem geta legið til grundvallar vali á leið til vegalagningar. Landsréttur ályktaði að með vali á leið 1 hefði eignarréttindum landeigenda verið síður raskað en með vali gagnaðila á leið 3b. Þar sem sá munur væri ekki óverulegur yrði í ljósi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu að leggja til grundvallar að gagnaðila bæri að sýna fram á að gildar ástæður sem réttlættu meiri skerðingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda en leiddi af öðrum tækum kosti, hafi legið til grundvallar leiðarvalinu. Landsréttur féllst á með gagnaðila að gildar ástæður hefðu legið til grundvallar ákvörðun um eignarnámið sem réttlættu þann mun á umfangi eignaskerðingar sem hlytist af því að velja leið 3b fremur en leið 1. Var ekki fallist á að með eignarnámsákvörðun gagnaðila hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu við mat á almannahagsmunum samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Öðrum málsástæðum fyrir ógildingu ákvörðunar var einnig hafnað.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og fordæmisgildi um túlkun 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá hafi málið þýðingu fyrir mat á aðstæðum þar sem tekist er á um tvo framkvæmdakosti sem báðir skerða eignarréttindi en sá kostur sem skerðir þau meira verði fyrir valinu. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Fyrir hafi legið að munur á leiðum 1 og 3b hafi verið mjög takmarkaður en munur á eignaskerðingu umtalsverður. Óheimilt hafi verið að velja síðarnefndu leiðina þar sem hin leiðin uppfyllti tilgang og markmið framkvæmdarinnar og hafi þar af leiðandi verið tækur kostur. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra enda varði málið stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.