Hæstiréttur íslands

Mál nr. 126/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Þjófnaður
  • Skjalafals
  • Umferðarlagabrot
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. september 2002.

Nr. 126/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Aðalsteini Árdal Björnssyni

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

 

Líkamsárás. Þjófnaður. Skjalafals. Umferðarlagabrot. Hegningarauki. Ítrekun. Skilorðsrof.

A var ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir skjalafals með ákæru 2. nóvember 2001. Þá var hann ákærður fyrir líkamsárás og þjófnað með ákæru 20. desember s.á. Í héraði var A sýknaður af brotum gegn lögum um ávana- og fíkniefni en sakfelldur fyrir aðra ákæruliði. Fyrir Hæstarétti krafðist A sýknu af ákæru fyrir líkamsárás. Með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um sakfellingu af ákæru fyrir líkamsárás staðfest, en brotið þótti sannað með framburði vitna. Með þeim brotum sem fjallað var um í síðari ákærunni, hafði A rofið skilorð dóms frá 12. október 2001. Bar því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp skilorðsbundna hluta refsingarinnar samkvæmt þeim dómi og ákveða A refsingu í einu lagi fyrir þann hluta og brotin sem hann var nú sakfelldur fyrir. Við ákvörðun refsingar var litið til 77. gr. almennra hegningarlaga og þess að með líkamsárásar- og þjófnaðarbrotum sem síðari ákæran tók til, hafði A ítrekað gerst sekur um slík brot, sbr. 71. gr. sömu laga. Einnig var vísað til 78. gr. sömu laga að því er varðaði brot samkvæmt fyrri ákærunni, en þau voru öll framin áður en dómurinn frá 12. október 2001 var kveðinn upp. Að öllu þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Þá voru ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna, skaðabætur og sakarkostnað staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd, en héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur.

          Ákærði krafðist upphaflega sýknu af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru 2. nóvember 2001 og I. kafla ákæru 20. desember sama árs. Hann krefst þess nú aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi, sem I. kafli síðargreindrar ákæru tekur til en refsing hans verði að öðru leyti milduð. Til vara krefst hann þess að refsingin verði lækkuð.

          Ekki er ágreiningur í málinu um sviptingu ökuréttar ákærða, upptöku og skaðabætur.

          Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu á háttsemi ákærða, sem lýst er í I. kafla ákæru 20. desember 2001. Eins og getið er um í héraðsdómi voru brot ákærða samkvæmt ákæru 2. nóvember 2001 framin fyrir uppkvaðningu dóms í máli ákæruvaldsins gegn honum frá 12. október 2001. Með dóminum var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsisrefsingu, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið í 3 ár, fyrir fíkniefnabrot og ýmis umferðarlagabrot, meðal annars ölvun við akstur. Með þeim brotum, sem fjallað er um í ákæru 20. desember 2001, hefur ákærði rofið skilorð framangreinds dóms. Ber því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum að dæma upp skilorðsbundinn hluta refsingarinnar samkvæmt þeim dómi og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir þann hluta og brotin, sem hann er nú sakfelldur fyrir. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 1998 var ákærði sakfelldur fyrri þjófnað 25. september sama árs og með dómi Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2000 fyrir tvær líkamsárásir. Fyrri árásina framdi hann 5. febrúar 1999 með því að sparka í læri á konu og slá hana síðan í andlitið hnefahögg, en hina síðari 26. maí 2000 með því að slá mann þrjú högg í höfuðið með krepptum hnefa. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga og þess að hann hefur með líkamsárásar- og þjófnaðarbrotunum, sem ákæra 20. desember 2001 tekur til, ítrekað gerst sekur um slík brot, sbr. 71. sömu laga. Einnig verður vísað til 78. gr. laganna að því er varðar brot ákærða samkvæmt ákæru 2. nóvember 2001, en þau voru, eins og fyrr greinir, öll framin áður en dómurinn frá 12. október sama árs var upp kveðinn. Að öllu þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar ákærða, upptöku, skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða, upptöku, skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. febrúar 2002.

Mál þetta sem dómtekið var 29. janúar 2001 er höfðað með tveimur ákærum Sýslumannsins á Selfossi á hendur Aðalsteini Árdal Björnssyni, kt. 280578-4289, Heiðmörk 2c, Hveragerði.

Með ákæru dags. 2. nóvember 2001 er höfðað mál á hendur ákærða

I.

“fyrir umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana og fíkniefni,

með því að hafa miðvikudaginn 27. september 2000 ekið bifreiðinni JR 241, ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja, eftir Austurvegi á Selfossi og vestur Suðurlandsveg áleiðis til Hveragerðis uns ákærði stöðvaði aksturinn á móts við bæinn Sandhól í Ölfushreppi, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða, umrætt sinn hafði ákærði í vörslu sinni 0.07 grömm af tóbaksblönduðu hassi, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni JR 241, í hólfi á milli framsæta.

II.

fyrir skjalafals,

með því að hafa þriðjudaginn 5. desember 2000 er hann sótti um fjárhagsaðstoð frá Hveragerðisbæ, framvísað ljósriti af læknisvottorði útgefnu þann sama dag af Guðbirni Björnssyni, lækni á Sjúkrahúsinu Vogi, sem ákærði hafði falsað á þann hátt að hann límdi bréfalím yfir vélritaðan texta á vottorðinu og handskrifaði í staðinn upplýsingar um tímabil innlagna á sjúkrahúsin Vog og Vík.  Ákærði ljósritaði síðan læknisvottorðið eftir að hafa framkvæmt hina umræddu fölsun og framvísaði sem fullgildu læknisvottorði og á grundvelli þess var honum veitt fjárhagsaðstoð frá Hveragerðisbæ, að fjárhæð kr. 48.688.-.

III.

fyrir skjalafals,

með því að hafa miðvikudaginn 14. febrúar 2001, er hann sótti um fjárhagsaðstoð frá Hveragerðisbæ, framvísað ljósriti af læknisvottorði útgefnu þann 1. febrúar 2001 af Sverri Jónssyni, lækni á Sjúkrahúsinu Vogi, sem ákærði hafði falsað á þann hátt að hann límdi bréfalím yfir vélritaðan texta á vottorðinu og handskrifaði í staðinn upplýsingar um tímabil innlagna á sjúkrahúsin Vog og Vík.  Ákærði ljósritaði síðan læknisvottorðið eftir að hafa framkvæmt hina umræddu fölsun og framvísaði sem fullgildu læknisvottorði, en var synjað um fjárhagsaðstoð Hveragerðisbæjar.

IV.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 2. september 2001, ekið bifreiðinni EM 936 á miklum hraða í hringi á götu Breiðumarkar í Hveragerði, þannig að bifreiðin spólaði mikið og gaf frá sér mikinn og óþarfa hávaða, sem einnig kom til vegna ófullnægjandi ástands útblásturskerfis.

Teljast brot ákærða samkvæmt ákærulið I varða við 2. mgr. 44. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985 og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986, sbr. auglýsingu nr. 84, 1986.

Teljast brot samkvæmt ákæruliðum II og III varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 1940.

Teljast brot samkvæmt ákærulið IV varða við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 35. gr. og 1. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987, sbr. 14. gr. laga nr. 44, 1993, sbr. 18. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 915, 2000, lið 18.00(5), sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987.  Þá er þess einnig krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á framangreindu tóbaksblönduðu hassi (efnaskrá lögreglu nr. 33-2000-25), sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986 og að hann verði dæmdur til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1997 og 8. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 431, 1998 vegna uppsafnaðra punkta.

Herdís Hjörleifsdóttir, félagsmálastjóri Hveragerðisbæjar, f.h. Hveragerðisbæjar, gerir þá kröfu í málinu að ákærða verði gert að greiða kr. 48.688,- auk hæstu lögleyfðu dráttarvaxta frá 5. desember 2000 til greiðsludags, í skaðabætur."

Með ákæru dags. 20. desember 2001 er höfðað opinbert mál á hendur ákærða

I.

fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember 2001, utan við veitinga- og skemmtistaðinn HM Kaffi við Eyrarveg á Selfossi, slegið Sigurð Ottó Kristinsson, kt. 120979-5159, hnefahögg í höfuðið þannig að hann féll við og sparkað tvívegis í höfuð hans þar sem hann lá, með þeim afleiðingum að Sigurður Ottó fékk 5 x 5 sentimetra hruflað svæði með bólgu og eymslum á höfði framanvert við hvirfil, stórt hruflað og marið sár með mikilli bólgu á vinstra gagnauga og niður á kinn, hrufl á höku og talsverða bólgu yfir nefi og hruflsár á báðum höndum.

II.

fyrir þjófnað

með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 9. desember 2001, farið inn í félagsheimilið Hliðskjálf, við Suðurtröð á Selfossi, og stolið þaðan hljóðblandara (mixer) að verðmæti um kr. 100.000 í eigu Njarðar Steinarssonar, kt. 210778-3499.

Telst brot ákærða í fyrsta tölulið ákæruskjals varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Telst brot ákærða í öðrum tölulið ákæruskjals varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af I. lið ákæru dags. 2. nóvember 2001 og I. lið ákæru dags. 20. desember 2001 en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandinn þess að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir brot þau sem að honum eru gefin að sök í II., III. og IV. lið ákæru dags. 2. nóvember og II. lið ákæru dags. 20. desember 2001. Þá krefst verjandinn málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málavextir

Um málavaxtalýsingu varðandi brot þau sem ákærða eru gefin að sök í II. III. og IV. lið ákæru dags. 2. nóvember 2001 og II. lið ákæru dags. 20. desember s.á. vísast til ákæruskjala en ákærði hefur játað að hafa framið þau brot og eru játningar hans í samræmi við önnur gögn málsins. Fór því ekki fram frekari sönnunarfærsla varðandi brotin við aðalmeðferð málsins. Ákærði hefur hins vegar alfarið neitað að hafa framið brot þau sem að honum eru gefin að sök í I. lið ákæru dags. 2. nóvember 2001 og I. lið ákæru dags. 20. desember 2001. 

I. liður ákæru dags. 2. nóvember 2001.

Samkvæmt því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu eru málavextir þeir að miðvikudaginn 27. september 2000 kl. 10:02 var lögreglu tilkynnt um að ákærði hefði verið að fara á bifreiðinni JR 241 frá Héraðsdómi Suðurlands og að ástand hans væri mjög undarlegt. Þar sem að talið var að ákærði væri á leið í Hveragerði ók lögregla vestur Suðurlandsveg þar til hún kom að bifreiðinni JR 241 þar sem hún var kyrrstæð í brún akbrautarinnar á móts við Sandhól í Ölfusi. Ákærði gaf lögreglu stöðvunarmerki og bað um aðstoð. Kvað hann vanta vatn á bifreiðina en mikinn gufustrók lagði undan vélarhlíf hennar. Lögreglu virtist ákærði undarlegur í háttum, ýmist sallarólegur eða mjög æstur auk þess að vera mjög sjúskaður í útliti og eins og að hann væri uppdópaður eða illa sofinn. Ákærði var færður á lögreglustöð þar sem að læknir tók úr honum blóðsýni kl. 11:01 og þvagsýni kl. 11:22.

Nánar er ástandi ákærða þannig lýst að sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð. Jafnvægi óstöðugt. Framburður ruglingslegur en málfar skýrt.

Ákærði heimilaði að leit yrði gerð í bifreiðinni og fannst kannabisblandað tóbak. Efnarannsókn leiddi í ljós að um var að ræða 0,07 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Fram kemur að um kl. 08:45 umræddan morgun hafi lögreglumaður séð ákærða aka bifreiðinni JR 241 í átt að Sjúkrahúsi Suðurlands og að klukkan 09:30 sama morgun hafi lögreglumaðurinn svo haft afskipti af ákærða við Landsbankann að Austurvegi 20, Selfossi vegna kvörtunar um ógætilegan akstur en ekki hafi verið talin ástæða til frekari aðgerða.

Rannsóknastofu í Lyfja- og eiturefnafræði var falið að gera rannsókn á blóð- og þvagsýni ákærða. Matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents er dagsett 29.11.2000. Í matsgerðinni segir : “Etanól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu. Amfetamín, kannabínóíðar, kókaín eða morfínlyf voru ekki í mælanlegu magni í þvaginu. Í þvaginu voru hins vegar benzódíazepínsambönd. Í blóðinu var díezepam, 150 ng/ml, nordíazepam, 70 ng/ml, prómetazín, 130 ng/ml og tramadól, 990 ng/ml.”

Þá segir í matsgerðinni : Díazepam er róandi lyf af flokki benzódíazepínsambanda og er nordíazepam umbrotsefni þess. Prómetazín (Phenergan â) er andhistamínlyf, notað m.a. við ofnæmi og ferðaveiki. Tramadól (Nobligan â) er verkjadeyfandi lyf. Öll þessi lyf eru talin geta dregið úr hæfni manna til stjórnar ökutækis og eru umbúðir þeirra þar af leiðandi merktar rauðum varúðarþríhyrningi. Þéttni díazepams og nordíazepams í blóði bendir til þess að ökumaður hafi tekið díazepam í lækningalegum skömmtum. Þéttni prómetazíns og tramadóls í blóði bendir til þess að hann hafi tekið talsvert meira en lækningalega skammta af þessum lyfjum. Díazepam, nordíazepam, prómetazín og tramadól hafa samverkandi slævandi áhrif á miðtaugakerfið. Má því gera ráð fyrir að hæfni ökumanns til stjórnar bifreiðar hafi verið verulega skert þegar blóðsýnið var tekið kl. 11:01, þ. 27.9.2000. Sé gert ráð fyrir að ökumaður hafi neytt lyfjanna fyrir kl. 09:30 þennan sama dag þá hefur hæfni hans einnig verið verulega skert á tímabilinu kl. 09:30-10:10.

Ákærði hefur alfarið neitað að hafa fundið til lyfjaáhrifa við aksturinn í umrætt sinn og  borið að hann hafi verið fullfær um að aka. Hann hefur viðurkennt inntöku þeirra lyfja sem fundust í blóði hans og borið að þau hafi hann tekið samkvæmt læknisráði. Hann kveðst hafa tekið eina 2 mg díazepam töflu heima hjá sér um morguninn áður en að hann fór til Selfoss en þar hafi hann farið á sjúkrahúsið og fengið töflur við kvíða þremur korterum til klukkutíma áður en hann mætti í Héraðsdómi Suðurlands þaðan sem hann var að koma þegar lögregla hafði afskipti af honum.    

Vitnið Víðir Óskarsson læknir gaf skýrslu fyrir dóminum en hann tók blóð- og þvagsýni úr ákærða vegna rannsóknar málsins. Hann kvað sitt hlutverk í umrætt sinn fyrst og fremst hafa verið að taka sýni en ekki leggja mat á ástand ákærða. Hann kvaðst þó minnast þess að ákærði hafi verið ósamvinnufús og órólegri en gangi og gerist. Vitnið hafði meðferðis og las í dóminum skýrslu sem Þórarinn Baldursson heilsugæslulæknir skráði um komu ákærða á sjúkrahúsið umræddan morgun.  Þar er skráð að ákærða hafi verið vísað þangað af lækni í Hveragerði en að hann eigi að mæta í Héraðsdóm á eftir vegna birtingar dóms. Ákærði sem komi með bróður sínum virðist alls gáður en segist ekkert hafa sofið sl. nótt vegna kvíða og vera hræddur við fangelsisvist. Hann sé mjög illa haldinn en þó ekki í fráhvörfum. Hann fái phenergan 50 mg sprautað í vöðva og díazepam tvær 5 mg töflur sem hann taki á staðnum. Vitnið upplýsti að lyfið phenergan sé sama lyfið og prómetazín.

Vitnið kvað í sérlyfjaskrártexta standa að allir skammtar af lyfjum þeim sem ákærði fékk á sjúkrahúsinu valdi vanhæfni og varað sé við því að fólk setjist undir stýri eftir töku þeirra. Skammtarnir sem ákærði fékk valdi svo sannarlega vanhæfni og að enginn vafi sé í hans huga um að þeir hafi gert hann óhæfan til aksturs í umrætt sinn en samkvæmt hans reynslu virki phenergan á háltíma til þremur korterum og virkni díezapams nái hámarki eftir hálfa til eina klukkustund.

Vitnið Sesselja Jóna Ólafsdóttir lögreglumaður fór á vettvang í umrætt sinn. Hún kvað ákærða hafa verið sjúskaðan. Andlit hans hafi verið glansandi og hann virkað sljór. Þá hafi hann verið ör en slakur inn á milli. Þannig hafi hann verið samvinnuþýður meðan hann var fluttur á lögreglustöðina en þegar þangað var komið orðið mjög æstur og hafi á tímabili orðið að handjárna hann. Henni hafi fundist ákærði vera undir vímuáhrifum.

Vitnið Margrét Hrönn Halldórsdóttir kveður ákærða hafa tekið fram úr henni á miklum hraða þar sem sé óbrotin lína skömmu áður en að hún kom að bílnum kyrrstæðum á móts við Sandhól. Hún hafi stöðvað en ekki litist á útlitið á ákærða og því ekið í burtu.

I. liður ákæru dags. 20. desember 2001.

Samkvæmt því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu barst henni laugardaginn 10. nóvember 2001, kl. 03:37 tilkynning um slagsmál við HM Kaffi, Eyrarvegi 15, Selfossi. Þegar lögregla kom á vettvang var Sigurður Ottó Kristinsson þar á bekk og var hann illa áttaður og með áverka á höfði sem blæddi talsvert úr. Flutti sjúkrabifreið hann á sjúkrahús. Á vettvangi var töluverður hópur fólks og fékk lögregla þær upplýsingar að Sigurður Ottó hafi verið töluvert ölvaður. Hann hafi verið með læti inni á staðnum og m.a. veist að Eiði Erni Harðarsyni dyraverði. Hafsteinn Már Magnússon hafi komið dyraverðinum til hjálpar en gefist upp á því að halda Sigurði Ottó og farið út. Sigurður Ottó hafi farið út á eftir honum og þegar Sigurður Ottó hafi rétt verið kominn út hafi ákærði ráðist á hann, slegið hann eitt högg í höfuðið þannig að hann féll niður og síðan sparkað tvívegis í höfuð hans þar sem hann lá á gangstéttinni áður en tókst að stöðva hann. Sigurður Ottó hafi misst meðvitund.

Að kvöldi laugardagsins 10. nóvember 2001 kærði Sigurður Ottó Kristinsson ákærða fyrir líkamsárás þá sem hann varð fyrir nóttina áður fyrir utan HM Kaffi. Kvaðst hann hafa fengið mikið högg á höfuðið og dottið niður og líklega rotast við fallið en hann muni ekkert eftir sér fyrr en lítilsháttar á sjúkrahúsinu um nóttina og síðan ekkert fyrr en snemma um morguninn þegar hann vaknaði. 

Í vottorði Guðmundar Benediktssonar læknis sem skoðaði Sigurður Ottó sama kvöld er áverkum hans þannig lýst. “Á höfðinu aðeins framanvert við hvirfið er u.þ.b. 5x5 cm hruflað svæði. Talsverð bólga og eymsli á þessu svæði. Á gagnauga vi.m. stórt hruflað og marið sár með mikilli bólgu sem nær yfir gagnaugað og niður á kinnina vi.m. Hrufl á höku og talsverð bólga yfir nefi án þess að það séu ytri áverkar. Engin merki um beinbrot. Á báðum höndum er hrufl, t.t. grunn sár, engin merki um alvarlega áverka. Eymsli við þreyfingu á hæ. olnboga og vi. hné, ekki ytri áverka merki.

Ákærði hefur frá upphafi neitað að hafa slegið Sigurð Ottó í umrætt sinn og sparkað í höfuð hans.

Nokkur vitni voru að árásinni og gáfu þau skýrslu fyrir dóminum. Ber vitnunum öllum saman um að ákærði hafi verið sá sem réðist á Sigurð Ottó í umrætt sinn fyrir utan MH Kaffi. Vitnin Hlynur Hjaltason og Pétur Kúld Pétursson hafa báðir borið að ákærði hafi fyrirvaralaust og án aðdraganda slegið Sigurð Ottó í höfuðið sem við það hafi fallið á hnén og síðan hafi ákærði sparkað í andlit hans. Bar vitnið Hlynur að ákærði hefði sparkað tvisvar í andlit Sigurðar Ottós en vitnið Pétur að það hafi verið einu sinni. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað vitnið Pétur spörkin hins vegar hafa verið tvö. Þá hafa vitnin Sveinn Sigurðsson og Lilja Jóhannesdóttir borið að þau hafi séð ákærða sparka tvívegis í andlit Sigurðar Ottós þar sem að hann lá á gangstéttinni fyrir framan HM Kaffi í umrætt sinn.

Niðurstaða

II. III. og IV. liður ákæru dags. 2. nóvember 2001 og II. liður ákæru dags. 20. desember s.á.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi framið þau brot sem að honum eru gefin að sök í II. III. og IV. lið ákæru dags. 2. nóvember 2001 og II. lið ákæru dags. 20. desember s.á. og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

I. liður ákæru dags. 2. nóvember 2001.

Klukkan 10:02 að morgni miðvikudagsins 27. september 2000 barst lögreglu tilkynning um að ákærði hefði þá rétt áður farið frá Héraðsdómi Suðurlands. Lögregla ók í átt að Hveragerði þar sem ákærði býr og kom að bifreið ákærða þar sem hún var stöðvuð á móts við Sandhól sem er u.þ.b. miðja vegu milli Selfoss og Hveragerðis. Akstur ákærða hefur samkvæmt því átt sér stað frá því um og rétt eftir kl. 10:00 umræddan morgun.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í Lyfja- og eiturefnafræði greindust í þvagi ákærða benzódíazepínsambönd. Þá greindust í blóði hans díezepam, 150 ng/ml, nordíazepam, 70 ng/ml, prómetazín, 130 ng/ml og tramadól, 990 ng/ml. Ákærði hefur viðurkennt að hafa samkvæmt læknisráði tekið inn þau lyf sem fundust í blóði hans. Hann kveðst hafa tekið eina 2 mg díazepamtöflu heima hjá sér um morguninn áður en hann lagði af stað til Selfoss. Á Sjúkrahúsi Selfoss hafi hann svo fengið töflur við kvíða þremur korterum til klukkutíma áður en hann mætti í Héraðsdómi Suðurlands þaðan sem hann var að koma  þegar lögregla hafði afskipti af honum. Samkvæmt því sem að vitnið Víðir Óskarsson læknir upplýsti fyrir dóminum var 50 mg af phenergan (prómetazín) sprautað í vöðva ákærða á sjúkrahúsinu og að auki fékk hann tvær 5 mg töflur af díazapam sem hann tók þar inn. Ákærði hefur hins vegar alfarið neitað að hafa fundið til lyfjaáhrifa við aksturinn og hafa verið ófær um að stjórna bifreiðinni í umrætt sinn.

Samkvæmt því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu sá lögreglumaður ákærða aka bifreiðinni JR 241 í átt að sjúkrahúsinu um kl. 08:45 umræddan morgun og kl. 09:30 sama morgun hafði lögreglumaðurinn afskipti af honum við Landsbankann að Austurvegi 20, Selfossi vegna kvörtunar um ógætilegan akstur. Samkvæmt framburði ákærða um það hvenær lyfjainntaka átti sér stað og með hliðsjón af því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu um ferðir hans þykir mega við það miða að að ákærði hafi tekið lyfin sem hann tók heima hjá sér fyrir klukkan 08:45 umræddan morgun og lyfin á sjúkrahúsinu fyrir 09:30.

 Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar var hæfni ákærða til aksturs verulega skert á tímabilinu kl 09:30-10:10 eða á þeim tíma er akstur ákærða átti sér stað. Staðfesti Jakob Kristinsson, dósent þá niðurstöðu fyrir dóminum. Þá hefur vitnið Víðir Óskarsson læknir borið að enginn vafi sé í hans huga um að þeir lyfjaskammtar sem upplýst er að ákærði hafi fengið á sjúkrahúsinu hafi gert hann óhæfan til aksturs í umrætt sinn. Þegar framangreint er virt og hliðsjón höfð af framburði vitna um útlit og ástand ákærða þykir fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi verið ófær um að stjórna akstri bifreiðarinnar JR 241 örugglega í umrætt sinn vegna lyfjaáhrifa. Hefur ákærði gerst brotlegur við 2. mgr. 44. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987.

Ákærði hefur neitað að hafa átt og vitað af  tóbaksblandaða hassinu sem fannst í bifreiðinni JR 241 og borið að félagar hans hafi oft verið með honum í bílnum. Engin rannsókn fór fram á því hver ætti umrætt hass. Þykir því gegn eindreginni neitun ákærða að verða telja ósannað að það hafi tilheyrt ákærða þó að vörslur þess þyki veita sterka vísbendingu um að það hafi tilheyrt honum. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerð um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.

I. liður ákæru dags. 20. desember 2001.

Með framburði vitnanna Hlyns Hjaltasonar, Péturs Kúld Péturssonar þykir sannað að ákærði hafi ráðist á Sigurð Ottó fyrir utan HM Kaffi aðfaranótt 10. nóvember 2001 og slegið Sigurð Ottó hnefahögg í höfuðið þannig að hann féll við. Þá þykir sannað með framburði þeirra og vitnanna Sveins Sigurðssonar og Lilju Jóhannesdóttur að ákærði hafi síðan sparkað tvívegis í höfuð hans. Þykir með framburði vitnanna sannað að ákærði hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í ákæru og að afleiðingar árásarinnar hafi orðið þær sem lýst er í ákæru. Hefur ákærði með háttsemi sinni gerst brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Ákærði á að baki sakarferil. Ákærði hlaut fyrst dóm í nóvember 1998 en þá var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Fram að þeim tíma hafði ákærði undirgengist sex sáttir, allar fyrir umferðarlagabrot og þar af eina jafnframt fyrir áfengislagabrot og aðra jafnframt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Á árinu 1999 undirgekkst ákærði tvær sáttir vegna fíkniefnabrota og eina viðurlagaákvörðun. Með dómi í febrúar 2000 var hann dæmdur í sekt fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá var hann með dómi frá 27. september s.á. dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir fíkniefnabrot og fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut hann dóm 12. október 2001, fimm mánaða fangelsi þar af 3 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár frá dómsbirtingu, fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Þá var ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 07.11.2001. Dómurinn frá 27. september 2000 var dæmdur upp með dóminum frá 12. október 2001 og ákærða ákvörðuð refsing í einu lagi með hliðsjón af 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

 Brot þau sem að ákærða eru gefin að sök í ákæru dags. 2. nóvember 2001 og hann er sakfelldur fyrir eru framin fyrir uppkvaðningu dómsins frá 12. október 2001. Með brotum þeim sem ákærða eru gefin að sök í ákæru dags. 20. desember 2001 og hann er sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð dómsins frá 12. október 2001. Ber því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, að ákvarða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brot þau sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir og þau brot sem honum var gerð refsing fyrir í þeim dómi. Refsingu ákærða ber að tiltaka með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða þykir verða að líta til sakarferils hans en ákærði hefur ítrekað gerst sekur um líkamsárás. Þá ber að líta til þess að árás hans á Sigurð Ottó var tilefnislaus og hættuleg. Hins vegar ber að líta til þess að ákærði játaði greiðlega brot þau sem að honum eru gefin að sök í II., III. og IV. lið ákæru dags. 2. nóvember 2001 og II. lið ákæru dags 20. desember s.á. Þá þykir við ákvörðun refsingar ákærða verða að líta til þess óútskýrða dráttar sem varð á úgáfu ákæru vegna brota í I., II. og III. lið ákæru dags 2. nóvember 2001. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 6 mánuði. Ekki þykja lengur efni til skilorðsbindingar refsingar þar sem að ákærði hefur ítrekað rofið skilorð.

Eins og krafist er í I. lið ákæruskjals dags. 2. nóvember 2001 og með vísan til þeirra lagaákvæða sem þar er vitnað til ber að gera upptæk til ríkissjóðs 0,07 g af tóbaksblönduðu hassi sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði hefur með því að aka bifreið sinni í umrætt sinn, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu deyfandi lyfja, unnið sér til ökuréttarsviptingar sbr. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt frá 07.11.2001 með dómi 12. október 2001. Verður ákærða því ekki gerð frekari ökuréttarsvipting og er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Ákærði hefur samþykkt bótakröfu Hveragerðisbæjar og verður honum gert að greiða Hveragerðisbæ kr. 48.688 ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Loks ber samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærði til að greiða allan sakarkostnað, þar með taldar 100.000 krónur í málsvarnarlaun til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.

Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

DÓMSORР:

Ákærði, Aðalsteinn Árdal Björnsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Upptæk eru til ríkissjóðs 0,07 g af tóbaksblönduðu hassi.

Ákærði er svipur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði Hveragerðisbæ kr. 48.688 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. desember 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.