Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2001


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 70/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Gísla Hjálmari Haukssyni

(Ólafur Björnsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.

G var ákærður fyrir að hafa ekið án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis. Var G handtekinn eftir að kona, sem var farþegi í bifreiðinni, féll út úr henni. G kannaðist ekki við að hafa ekið bifreiðinni og kvaðst aðeins hafa fundið lítillega til áfengisáhrifa. Með framburði vitna og niðurstöðum áfengismælingar var talið sannað að G hefði ekið bifreiðinni og að hann hefði þá verið undir áhrifum áfengis. Með hliðsjón af því að G hafði ítrekað gerst sekur um ölvun við akstur var honum gert að sæta 45 daga fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og sviptingu ökuréttar en að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsingin verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gísli Hjálmar Hauksson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 2001.

I.

                Mál, þetta sem þingfest var hinn 19. júní sl., en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 19. desember sl., er höfðað með svofelldri ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 31. maí sl., á hendur Gísla Hjálmari Haukssyni, kt. 291159-6219, Rauðarárstíg 42, Reykjavík, með dvalarstað að Bæjartúni 4, Kópavogi, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, síðdegis miðvikudaginn 3. maí 2000, ekið bifreiðinni VM 361 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, vestur Suðurlandsveg frá Selfossi áleiðis til Reykjavíkur, en lögregla hafði afskipti af ákærða skömmu eftir að akstri lauk skammt fyrir neðan Kamba í sveitarfélaginu Ölfusi.

                Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar frá 30. apríl 2002 samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57, 1997 og lög nr. 23, 1998.”.

                Við flutning málsins krafðist sækjandi þess að ákærði verði jafnframt dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.  Til vara er þess krafist að ákærði verði einungis dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila.  Þá krefst verjandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

II.

                Málavextir eru þeir að laust fyrir klukkan fimm síðdegis miðvikudaginn 3. maí sl. var lögreglunni á Selfossi tilkynnt um að kona hefði fallið út úr bifreið meðan henni var ekið vestur Suðurlandsveg, neðan við Kamba.  Konan, Elsa María Sverrisdóttir, var flutt á sjúkrahús, en auk hennar höfðu verið í bifreiðinni ákærði og Birgir Árni Birgisson, systursonur ákærða. Í bifreiðinni var mikið magn áfengisíláta, tómra eða hálffullra, en sá sem tilkynnti um atburðinn, Ólafur Gísli Sigurjónsson, hafði ekið bifreið sinni á eftir fyrrgreindri bifreið.  Hafði hann hlúð nokkuð að Elsu Maríu áður en sjúkraflutningamenn komu á vettvang.  Var Elsa María undir áhrifum áfengis og vímuefna.  Ákærði og Birgir Árni voru báðir undir áhrifum áfengis og handtók lögregla þá og færði á lögreglustöð þar sem báðir gáfu bæði blóð- og þvagsýni, en áður höfðu þeir blásið í öndunarmæli.  Niðurstaða rannsókna á blóðsýni ákærða sýndi 2,15 pro mill alkóhóls í blóði, en 3,01 pro mill alkóhóls í þvagi, en samsvarandi niðurstaða hjá Birgi Árna var 2,58 pro mill alkóhóls í blóði, en „yfir 3,1” pro mill alkóhóls í þvagi.  Ákærði gisti fangageymslur lögreglunnar og gaf skýrslu um hádegisbil daginn eftir.  Bifreiðin, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekið, er fjögurra dyra Toyota bifreið.

                Ákærði hefur neitað sakargiftum fyrir dómi.  Aðspurður um það hver ók bifreiðinni greint sinn, þá svaraði ákærði:  „Ég man það ekki og veit ekki betur en að Birgir hafi gert það.  Stelpan átti að hafa keyrt í upphafi en þetta er bara allt í bara einni þoku og vitleysu.”.  Ákærði kvaðst hafa verið við drykkju daginn og nóttina fyrir atvik og hafa haldið drykkju áfram þegar þá um morguninn.  Hafi hann því verið útúrdrukkinn er ökuferðin átti sér stað.  Þó kvaðst ákærði muna eftir því að fyrr um daginn hefðu þeir Birgir farið á bifreiðinni til Selfoss þar sem þeir hafi keypt áfengi.  Ákærði kvaðst ekki vita ástæðu þess að Elsa María féll út úr bifreiðinni, en eftir að hún hafði gert það hefði menn drifið að og hlúð að stúlkunni, eins og hann hefði reyndar einnig gert.  Ákærði nefndi að hann myndi raunar ekkert eftir þessari ökuferð fyrr en Elsa María féll í götuna, en hann hafi vaknað við það.  Ákærði kvaðst hafa drukkið nokkra sopa af áfengi á vettvangi áður en lögregla handtók hann.  Ákærði kvaðst „halda” að Elsa María hafi setið í framsæti bifreiðarinnar farþegamegin, en hann sjálfur í aftursæti bifreiðarinnar.  Nánar aðspurður sagði ákærði sig „minna” að svo hefði verið.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa talað við lögreglu á vettvangi.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu daginn eftir atvik viðurkenndi ákærði að hafa ekið bifreiðinni og lýsti nákvæmlega atvikum og ferðum sínum.  Kvað hann Elsu Maríu hafa setið í farþegasæti við hlið sér en Birgi Árna í aftursæti.  Ákærði kvaðst hafa ekið með hraðanum 40-50 km/klst. er Elsa María hafi fyrirvaralaust kastað sér út úr bifreiðinni.  Sagðist hann í raun hafa hætt áfengisneyslu örskömmu áður en atvik gerðist. 

Fyrir dómi kvaðst ákærði hins vegar hafa játað hjá lögreglu þar sem hann hefði heyrt að Birgir Árni hefði neitað sök og sér hefði verið í mun að losna frá lögreglu.  Kvaðst hann telja að hann hefði verið í haldi lögreglu í 23 klukkustundir og sagði: „Og ég bara ákvað, mér var sagt að Birgir harðneitaði að hafa keyrt bílinn og ég ákvað bara að taka þetta svona saman bara til að losna þarna út úr … þessum skemmtistað.”.  Sagði ákærði að lögregla hefði neitað að taka af sér skýrslu þá um kvöldið eftir atvik og var á ákærða að skilja sem hann hefði ekki fengið nóg að borða á lögreglustöðinni. 

Í frumskýrslu lögreglu er einnig bókað að ákærði hefði þegar á vettvangi viðurkennt fyrir lögreglu að hafa ekið bifreiðinni, en fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við það.  Undir lok skýrslugjafar fyrir dómi var ákærði á ný spurður um það hvort hann gæti sagt um það hvort hann eða hver hafi ekið bifreiðinni og var svar ákærða þá þetta: „Nei.  Ég verð bara að segja því miður þá var bara áfengisneysla mín þess eðlis að ég drakk mig bara yfirleitt ofurölvi.”.

                Vitnið Ólafur Gísli Sigurjónsson kvaðst hafa ekið bifreið sinni á um það bil 50 km/ klst. á eftir bifreið er hann hafi séð dyr opnast á bifreið þeirri er ekið var á undan bifreið vitnisins og einhvern halla höfðinu út.  Vitnið kvaðst hafa litið undan og síðan séð eitthvað rúlla upp við hlið bifreiðarinnar.  Vitnið kvaðst hafa stöðvað bifreið sína og bifreiðin sem á undan var hafi einnig stöðvast.  Vitnið kvaðst þá hafa séð stúlku liggjandi í vegöxlinni.  Vitnið kvaðst hafa séð tvo menn stíga út úr bifreiðinni sem stúlkan féll úr.  Vitnið kvaðst ekki þekkja mennina, en annar þeirra hafi verið með snöggt hár og töluvert eldri en hinn, eða á líku reki og vitnið sem fæddur er 1959.  Vitnið tók fram fyrir dómi að atvik væru sér ekki í fersku minni, en eldri maðurinn hefði stigið úr ökumannssæti bifreiðarinnar, en hinn yngri „bílstjóramegin að aftan.”.  Ekki hafi verið aðrir í bifreiðinni.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð mennina neyta áfengis á vettvangi, en hegðan þeirra hafi verið hin undarlegasta og hafi þeir ekki aðstoðað sig við að hlúa að stúlkunni.  Þá hafi stúlkan haft orð á því við eldri manninn að hann skyldi yfirgefa vettvang svo hann ekki lenti í vandræðum. 

Hjá lögreglu var bókað eftir vitninu að hann hafi ekki séð hvar ungi maðurinn steig út úr bifreiðinni, en halda að það hafi verið „hægra megin”, þ. e. ekki bílstjóramegin.  Þá var bókað eftir vitninu að hann hafi ekki séð „hvort” mennirnir hafi neytt áfengis á vettvangi og einnig að stúlkan hafi sífellt verið að hvetja „þá” til að yfirgefa vettvang.  Þegar undir vitnið var borið þetta misræmi við skýrslugjöf, þá ítrekaði hann að nokkuð væri liðið frá atvikum.  Þegar vitnið var spurður að því hvort það treysti sér til að „fullyrða 100%” um að ákærði hafi ekið, þá sagði vitnið:  „Ég náttúrulega get ekki fullyrt um það en einhvern veginn finnst mér þetta eins og í minningunni, eins og hann sé þarna tengdur akstrinum þessi eldri maður, eins og hann hafi keyrt.”.

                Vitnið Elsa María Sverrisdóttir kvaðst hafa verið umræddan dag verulega mikið undir áhrifum áfengis og lyfja og auk þess ósofin.  Vitnið kvaðst ekki vera viss um það hvort ákærði og Birgir Árni hafi verið undir áhrifum áfengis.  Vitnið kvaðst ekkert muna hver ók bifreiðinni er hún féll út úr henni, en minna þó að Birgir Árni hafi áður komið akandi heim til sín og sótt sig.  Ekki kvaðst vitnið hafa hugmynd um hvenær dags það var, né hvort ákærði hafi einnig verið í bifreiðinni eða hvert og hversu lengi ökuferðin stóð áður en hún féll út úr bifreiðinni.  Vitnið kvaðst raunar hafa liðið út af vegna vímu um það leyti er hún fór í bifreiðina og ekki ranka við sér fyrr en hún féll út úr bifreiðinni.  Ekki kvaðst vitnið muna eftir því að hafa sagt ákærða eða Birgi Árna að forða sér af vettvangi.  Vitnið gaf ekki skýrslu hjá lögreglu.

                Er Birgir Árni Birgisson var spurður hvort hann gæti sagt frá hvað gerðist, þá var svar hans þetta: „Hvað gerðist, nei ég get það nú ekki.  Ég veit bara að ég keyrði þennan bíl ekki.”.  Vitnið kvaðst hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar, en ekki muna hvorum megin.  Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærði ók bifreiðinni.  Er vitnið var spurt hvar Elsa María hafi setið í bifreiðinni var svar hans þetta.  „Hún sat í framsætinu.”.  Er vitnið var spurt hvorum megin hún hafi setið, þá sagði vitnið:  „Það man ég ekki.”.Vitnið sagði að hann, ákærði og Elsa María hefði verið ein í bílnum og öll undir áhrifum áfengis, en ekki kvaðst vitnið vita hvort hann eða ákærði neytti áfengis að loknum akstri.  Vitnið staðfesti hins vegar skýrslu sína hjá lögreglu þar sem hann sagði ákærða hafa ekið bifreiðinni.  Er vitnið var spurt hvort hann væri alveg viss, þá svaraði vitnið:  „Nei, nei, ég er ekkert 100% viss um þetta.” og bætti við um skýrslu lögreglu:  „Þetta er bara það sem ég held að hafi, eins og þetta hafi verið.”.  Hins vegar ítrekaði vitnið að hann væri þess fullviss að hann hafi ekki ekið bifreiðinni.  Þegar vitnið var spurt út í þann framburð Elsu Maríu að vitnið hafi komið akandi og sótt hana, þá kvaðst vitnið ekki vilja svara þeirri spurningu, en ítrekaði þó að hann hefði setið í aftursæti bifreiðarinnar.  Vitnið kvaðst ekki hafa hugmynd um hversu lengi ökuferðin stóð yfir eftir að Elsa María kom í bifreiðina.

                Við lok skýrslugjafar kom fram hjá ákærða að bifreiðin hafi verið í hans umráðum, eign þess fyrirtækis er hann vann hjá og kvaðst ákærði hafa verið snöggklipptur er atvik gerðust.  Lýsti ákærði ökuferðinni þannig að fyrst hefðu þau náð í Elsu Maríu í Hafnarfjörð.  Þá hafi þau farið til Selfoss, stöðvað þar og síðan ekið áleiðis til Reykjavíkur.

                Vitnið Þorsteinn Hoffritz og Rúnar Þór Steingrímsson lögreglumenn önnuðust sjúkraflutninga og kváðu þeir sitt hlutverk fyrst og fremst hafa beinst að  því að hlúa að Elsu Maríu.  Vitnið Þorsteinn nefndi þó að á vettvangi hafi bifreiðastjóri flutningabifreiðar sem þarna var bent þeim á hver hefði ekið bifreiðinni, en tveir hafi komið til greina og hafi þeir staðið álengdar.  Hafi flutningabifreiðastjórinn bent á þann mann sem var eldri af þessum tveimur.  Vitnið Rúnar Þór kvaðst hafa spurt bifreiðastjóra flutningabifreiðarinnar um hvort hann vissi hver hefði ekið og hafi hann þá bent á ákærða, en við hlið ákærða hafi einnig verið yngri maður.

                Vitnið Einar Tryggvason og Jón Hlöðver Hrafnsson lögreglumenn komu saman á vettvang í lögreglubifreið.  Vitnið Einar sagði að Þorsteinn Hoffritz og Rúnar Þór Steingrímsson lögreglumenn hefðu á vettvangi sagt sér að þeir hefðu heyrt að ákærði hefði ekið bifreiðinni.  Þá hafi bifreiðastjóri flutningabifreiðarinnar sagt sér hið sama, en hann hefði séð hvar ákærði steig út úr bifreiðinni.  Þá hafi ákærði einnig viðurkennt þegar á vettvangi að hafa ekið bifreiðinni, en ekki kvaðst vitnið geta sagt til um hvort lögreglumenn hefðu áður gætt réttarfarsákvæða gagnvart honum.  Vitnið Jón Hlöðver sagði að ákærði hefði á vettvangi greint sér frá því að hann hefði ekið bifreiðinni.  Ekki kvaðst vitnið þó muna hvort þá hafi verið búið að gæta réttarfarsákvæða gagnvart ákærða.  Báru þeir báðir að ákærði hefði verið augljóslega ölvaður á vettvangi.   

III.

                Fram hefur komið að ákærði var sviptur ökurétti í þrjú ár í mars 1999.  Upplýst er að í bifreiðinni VM 361 greint sinn voru einungis ákærði, Birgir Árni Birgisson og Elsa María Sverrisdóttir.  Framburður þeirra fyrir dómi var afar óljós.  Bera þau öll við ölvunar- eða vímuefnaástandi sínu. 

Vitnið Elsa María kvaðst þó telja að Birgir Árni hafi verið við stjórnvöl bifreiðarinnar þegar hún var sótt heim til sín í Hafnarfjörð einhvern tímann fyrr um daginn.  Hins vegar kvaðst hún ekkert geta skýrt frá ökuferðinni.  Ljóst er þó að Elsa María var nokkuð lengi með þeim í för áður en hún féll út úr bifreiðinni, enda var ekið á Selfossi.  Þá kvaðst Elsa María ekkert geta sagt til um hver ók bifreiðinni þegar hún féll út úr henni. 

Þótt vitnið Birgir Árni hafi fyrir dómi ekki sagst vilja fullyrða hver ók bifreiðinni, þá margítrekaði hann að hann hafi sjálfur setið í farþegasæti aftur í bifreiðinni og sagði Elsu Maríu hafa verið í farþegasæti við hlið ökumanns.  Hjá lögreglu var raunar bókað eftir honum að ákærði hefði ekið og staðfesti hann skýrsluna fyrir dómi, þó hann segðist „ekkert 100%” viss um hver hafi ekið.

                Vitnið Ólafur Gísli Sigurjónsson, flutningabílstjóri, ók á eftir bifreið þremenninganna.  Bar hann að Elsa María hafi fallið út í vegöxl, en ekki á miðja götu.  Fyrir dómi hafði vitnið alla fyrirvara á framburði sínum og kvaðst hann ekki geta fullyrt með óyggjandi hætti að ákærði hefði stigið út úr ökumannssæti bifreiðarinnar VM 361, þó hann teldi að svo hefði verið.  Við skýrslugjöf hjá lögreglu daginn eftir atvik sagði vitnið ökumann bifreiðarinnar VM 361 hafa verið hinn eldri af þeim tveimur karlmönnum sem í bifreiðinni voru.

Þá bera allir fjórir lögreglumennirnir sem komu á vettvang að Ólafur Gísli, eða bifreiðastjóri flutningabifreiðarinnar, hafi þá strax á vettvangi bent þeim á ákærða, eða hinn eldri mann, sem ökumann bifreiðarinnar VM 361.  Ákærði er fæddur 1959, en Birgir Árni árið 1980.

Framburður ákærða um málsatvik fyrir dómi annars vegar og hins vegar hjá lögreglu daginn eftir atvik er í engu samræmi.  Hjá lögreglu játaði ákærði að hafa ekið bifreiðinni.  Lýsti hann ferðalagi þeirra þriggja ítarlega og sagði m. a. Birgi Árna hafa verið ofurölvi í aftursæti bifreiðarinnar.  Þá er framburður hans um áfengisneyslu sína allur annar en fyrir dómi.  Hjá lögreglu kvaðst ákærði einungis hafa fundið lítilsháttar til áfengisáhrifa við aksturinn, en fyrir dómi gekk framburður hans út á það að hann hafi verið svo ölvaður að hann muni lítið eftir atvikum.  Hjá lögreglu sagðist ákærði ekki hafa neytt áfengis eftir akstur og fram að handtöku, en fyrir dómi var á honum að skilja að hann hefði líklega drukkið nokkra sopa eftir ökuferðina.  Þá er þess að gæta að þrátt fyrir að ákærði hafi neitað sök fyrir dómi var framburður hans fyrir dóminum í raun ekki afdráttarlaus um það hver ók bifreiðinni.  Vegna ölvunarástands ákærða gat lögregla ekki tekið af honum formlega skýrslu fyrr en daginn eftir atvik, en skýrslutakan átti sér stað um hádegisbil. Ákærði lét fyrst að því liggja að hann hefði ekkert fengið að borða áður en hann gaf skýrslu, en síðar kom fram hjá honum að hann hefði fengið mat, eins og tíðkanlegt er.  Er því ekkert fram komið í málinu sem leiðir til þess að draga megi þá ályktun að sú játning sem ákærði gaf við skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir atvik hafi ekki verið réttilega fengin.

Af framanröktum framburði vitna og niðurstöðum alkóhólmælingar er ljóst að ákærði var verulega mikið undir áhrifum áfengis er aksturinn átti sér stað.

                Að öllu þessu virtu er alls ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og réttilega er færð til refsiákvæða. 

                Ákærði hefur unnið sér til refsingar skv. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.  Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1978 alls fjórum sinnum gerst sekur um ölvun við akstur.  Hinn 30. apríl 1998 gekkst ákærði undir lögreglustjórasekt vegna ölvunaraksturs og var honum gert að greiða 47.000 krónur í sekt og hann sviptur ökurétti í 12 mánuði.  Hinn 25. mars 1999 var ákærða með viðurlagaákvörðun fyrir dómi gert að greiða 170.000 krónur í sekt fyrir ölvunarakstur og réttindaleysi við akstur og hann jafnframt sviptur ökurétti í þrjú ár frá 30. apríl 1999.  Að virtum sakarferli ákærða er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 45 daga. 

                Samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga er ákærði sviptur ökurétti ævilangt. 

                Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Björnssonar, hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

                Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Hjálmar Hauksson, sæti fangelsi 45 daga. 

                Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Björnssonar, hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.