Hæstiréttur íslands
Mál nr. 698/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 4. nóvember 2014 |
|
Nr. 698/2014 |
Leiguvélar ehf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu LE ehf. um að leiða þrjú nafngreind vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð í máli L hf. gegn LE ehf. Var ekki talið að LE ehf. hefði fært fram nægileg rök fyrir því að heimiluð yrði undantekning frá meginreglu 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um að vitnaleiðslur skyldu að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin væru á grundvelli laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leiða þrjú nafngreind vitni fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Leiguvélar ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2014.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 3. desember 2013 og var þingfest 28. mars sl. Sóknaraðili er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík. Varnaraðili er Leiguvélar ehf., Járnhálsi 2, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst í málinu dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila: Hyster H2.50 XM lyftari, skráningarnúmer JL-5639, árgerð 2005, DAF FA LF 45, vörubifreið, fastanúmer DU-650, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF 45, vörubifreið, fastanúmer LR-719, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer TY-608, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer SF-286, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer SM-606, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun, lyftu og kælivél, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer JG-210, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer PX-279, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, DAF FA LF55, vörubifreið, fastanúmer YT-487, árgerð 2005, ásamt vörukassa m/alopnun og lyftu, Hyster H5.00 XL lyftari, skráningarnúmer JL-5790, árgerð 2005, Bobcat A-300 dráttarvél, skráningarnúmer IM-1083, árgerð 2006, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Hyster H2.5 lyftari, skráningarnúmer JL-5955, árgerð 2005, Jungheinrich EFG 540 lyftari, skráningarnúmer JL-1208, árgerð 2006, Bobcat T 3071 skotbómulyftari, skráningarnúmer JF-0616, árgerð 2006, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Bobcat T3571 skotbómulyftari, skráningarnúmer JF-0609, árgerð 2006, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, John Deere dráttarvél, fastanúmer AR-349, árgerð 2006, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Kalmar gámalyftari, skráningarnúmer KG-0141, árgerð 2007, Jungheinrich DFG 435 lyftari, skráningarnúmer JL-6877, árgerð 2007, Jungheinrich DFG 435 lyftari, skráningarnúmer JL-6878, árgerð 2007, Jungheinrich DFG 550 lyftari, skráningarnúmer JL-6875, árgerð 2007, Jungheinrich DFG 550 lyftari, skráningarnúmer JL-6876, árgerð 2007, John Deere 6230 dráttarvél, fastanúmer TS-955, árgerð 2007, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Kalmar DRD 420-65S5 lyftari, skráningarnúmer KG-0143, árgerð 2007, Jungheinrich EFG 430 lyftari, skráningarnúmer JL-6537, árgerð 2006, Kalmar DRD450-60S5X lyftari, skráningarnúmer KG-0144, árgerð 2007, Jungheinrich DFG 550 lyftari, skráningarnúmer JL-6934, árgerð 2007, Bobcat T40170 skotbómulyftari, skráningarnúmer JF-0691, árgerð 2007, Bobcat T40170 skotbómulyftari, skráningarnúmer JF-0697, árgerð 2007, Haulotte HA 18 körfukrani, skráningarnúmer DK-0589, árgerð 2007, Jungheinrich EFG 220 lyftari, skráningarnúmer JL-6941, árgerð 2007, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Bobcat T3571 lyftari, skráningarnúmer JF-0764, árgerð 2008, Bobcat T3571 lyftari, skráningarnúmer JF-0767, árgerð 2008, Jungheinrich ERE 224 lyftari, skráningarnúmer SN-0169, árgerð 2006, ásamt fylgihlutum samkvæmt reikningi, Jungheinrich DFG 550 lyftari, skráningarnúmer JL-6935, árgerð 2007, ásamt fylgihlut samkvæmt reikningi, Jungheinrich EKX 513 lyftari, skráningarnúmer JL-7451, árgerð 2008, Jungheinrich EFG 220 lyftari, skráningarnúmer JL-6943, árgerð 2007, Jungheinrich EJE C20, skráningarnúmer SM-0112, árgerð 2008, Jungheinrich EXT Kombi 125, skráningarnúmer JL-4500, árgerð 2002, Jungheinrich EJC 16, skráningarnúmer JL-5673, árgerð 2005, Avant 220 grafa, skráningarnúmer IM-1668, árgerð 2009, Jungheinrich EFG-Vac 25 SP lyftari, skráningarnúmer JL-4711, Bobcat A 220 smágrafa, skráningarnúmer IM-0556, árgerð 2002.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Til vara krefst hann þess að verði fallist á aðfararbeiðni sóknaraðila að öllu eða takmörkuðu leyti verði aðfarargerð frestað þar til dómur Hæstaréttar liggur fyrir.
Málið var tekið til úrskurðar 30. september sl. um fram komna kröfu varnaraðila um að honum verði heimilað að leiða sem vitni til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins Ólaf Helga Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, og tvo starfsmenn sóknaraðila, þau Sigurbjörgu Leifsdóttur og Þorstein Magnússon. Varnaraðili krafðist þess einnig að Gunnar Viðar Bjarnason og Stefán Bragi Bjarnason, fyrirsvarsmenn varnaraðila, gæfu aðilaskýrslu við meðferð málsins.
Lögmaður sóknaraðila mótmælti kröfu varnaraðila um að leiða ofangreind vitni en kvaðst ekki leggjast gegn því að fyrirsvarsmenn varnaraðila gæfu aðilaskýrslu fyrir dóminum. Hér er því einungis til umfjöllunar ágreiningur er lýtur að því hvort áðurnefnd vitni verði leidd fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins enda eru ekki reistar skorður við skýrslu aðila fyrir dómi í málum sem rekin eru eftir 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.
I
Helstu málsatvik og málsástæður aðila varðandi efnislegan ágreining málsins
Varnaraðili mun vera félag sem starfar við útleigu og sölu á vinnuvélum til fyrirtækja hér á landi og erlendis. Samkvæmt gögnum málsins gerðu málsaðilar, sóknaraðili sem leigusali og varnaraðili sem leigutaki, með sér fjölmarga fjármögnunarleigusamninga á árunum 2002-2010. Kveður varnaraðili tilgang samninganna hafa verið að fjármagna kaup hans á vinnuvélum og tækjum sem hann síðan leigði eða seldi öðrum fyrirtækjum. Aðfararbeiðni máls þess lýtur að 42 þessara samninga.
Sóknaraðili kveður leigugreiðslur vera í vanskilum allt frá ágúst 2011 vegna fyrrgreindra fjármögnunarleigusamninga. Heildarvanskil varnaraðila hafi í lok september 2011 numið 35.131.675 krónum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Varnaraðili hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu skuldarinnar og hafi sóknaraðili því rift samningunum 7. maí 2013 samkvæmt heimild í 28. gr. þeirra. Vanskil á riftunardegi hafi numið 58.415.497 krónum. Þar sem varnaraðili hafi ekki staðið í skilum samkvæmt samningunum og neitað að afhenda sóknaraðila eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Í málinu byggir sóknaraðili á því að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar og vísar hann m.a. þar um til alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 17, sem lagagildi hafi hér á landi. Varnaraðili hafi samkvæmt fjármögnunarleigusamningunum átt að greiða tiltekið leigugjald út grunnleigutíma samninganna, sbr. 4. og 5. gr. þeirra. Að þeim tíma loknum hafi varnaraðili átt að greiða sóknaraðila tiltekið framhaldsleigugjald, sbr. 6. gr. samninganna. Samkvæmt 2. gr. samninganna hafi leigugrunnar þeirra verið samsettir af myntkörfum og hafi þær fjárhæðir verið tilgreindar nákvæmlega. Þrír samningar hafi á hinn bóginn verið óverðtryggðir.
Sóknaraðili telur óumdeilt og skýrt að umræddir samningar séu leigusamningar og vísar þar um til dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 þar sem fjallað hafi verið um sambærilega samninga og mál þetta sé sprottið af. Þar hafi rétturinn staðfest að umþrættur samningur væri leigusamningur eins og heiti hans benti til og því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki þótt standa því í vegi að aðilum væri heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Telur sóknaraðili ekkert geta verið því til fyrirstöðu að aðfararbeiðni hans nái fram að ganga.
Varnaraðili telur ágreining aðila lúta að því hvort umræddir fjármögnunarleigusamningar séu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eða hvort líta beri á samningana sem leigusamninga sem ekki heyri undir ákvæði laganna. Þessi ágreiningur hafi valdið því að aðilar málsins hafi reiknað skuldastöðu félagsins með ólíkum hætti svo muni mörg hundruð milljónum eftir því hvort ákvæði um gengistryggingu séu heimil eða ekki. Varnaraðili kveðst líta svo á að hann hafi nú þegar ofgreitt fjölda samninga sem hafi skapað honum endurgreiðslurétt, auk þess sem verulegur vafi sé um rétta skuldastöðu þeirra samninga sem ekki hafi að fullu verið gerðir upp.
Réttarstaða aðila þegar um fjármögnunarleigusamninga sé að ræða hafi verið skýrð í fjölmörgum tilvikum á undanförnum árum. Um það hvort talið verði um lánssamning eða leigusamning að ræða ráði úrslitum að leigutaka hafi tekist að sanna að hann hafi samið þannig við viðkomandi fjármögnunarleigufyrirtæki að hann hafi átt rétt á því að eignast leigumuninn í síðasta lagi við lok grunnleigutíma á fyrir fram ákveðnu verði án þess að sérstakt samþykki fjármögnunarleigufyrirtækisins hafi þurft til. Samningarnir í þessu máli taki ekki af skarið um þetta.
Í málinu hátti því þannig til réttarstaða aðila sé óljós og réttur sóknaraðila alls ekki svo skýr og ótvíræður sem gerð sé krafa um í málum af þessu tagi. Efni samninganna og framkvæmd þeirra bendi til þess að um lánssamninga hafi verið að ræða og að við lok samningstímans hafi varnaraðili gegn skyldubundinni lokagreiðslu átt að eignast umrædd leigutæki.
II
Málsástæður og lagarök varnaraðila í þessum þætti málsins
Varnaraðili vísar, til stuðnings þeirri kröfu sinni að honum verði heimilað að leiða Ólaf Helga Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, og tvo starfsmenn sóknaraðila, Sigurbjörgu Leifsdóttur og Þorstein Magnússon, sem vitni við aðalmeðferð málsins, til 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. VII og VIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varnaraðili kveður að í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 komi vissulega fram að vitnaleiðslur skuli að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin eru samkvæmt 13. kafla laganna. Varnaraðili bendir þó á að það sé háð mati hverju sinni hvort réttmætt sé að skýrslugjafir fari fram. Rökin að baki þessari meginreglu felist í eðli aðfararmála og því sjónarmiði að aðför eigi ekki að fara fram nema skrifleg gögn staðfesti rétt aðila til aðfarar.
Varnaraðili kveður málsatvik í þessu máli vera þannig vaxin að réttur sóknaraðila verði ekki ráðinn af þeim skriflegu gögnum sem fyrir liggi heldur þvert á móti bendi þau til þess að réttur sóknaraðila sé ekki skýr. Aðilar hafi átt munnleg samskipti um árabil um einstök atriði samninganna og framkvæmd þeirra sem þurfi að staðreyna til að skýra hver grundvallarhugsunin með samningunum var. Einnig séu í málinu tölvupóstssamskipti sem þarfnist frekari skýringar.
Varnaraðili vísar til þess að mál þetta sé ekki hefðbundið innheimtumál heldur sé til umfjöllunar sú grundvallarspurning hvort þeir fjölmörgu fjármögnunarleigusamningar sem fyrir liggi í málinu séu lánssamningar sem óheimilt hafi verið að gengistryggja eða leigusamningar sem heimilt var að gengistryggja. Samningarnir sjálfir séu ekki skýrir um þetta atriði og ljóst að framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að um lánssamning hafi verið að ræða. Fjölmörg atriði í samningunum bendi til þess að um lánsfjármögnun hafi verið að ræða. Viðhorf þeirra sem komið hafi að gerð samninganna og framkvæmd þeirra um þetta þurfi að fá fram svo hægt sé að leysa úr málinu.
Réttarstaða aðila þegar um fjármögnunarleigusamninga er að ræða hafi verið skýrð í fjölmörgum dómum Hæstaréttar á undanförnum árum. Þar hafi verið staðfest að við úrlausn á því hvort um lánssamning eða leigusamning sé að ræða ráði úrslitum hvort leigutaka hafi tekist að sanna að hann hafi samið þannig við viðkomandi fjármögnunarleigufyrirtæki að hann hafi átt rétt á því að eignast leigumuninn í síðasta lagi við lok grunnleigutíma á fyrir fram ákveðnu verði án þess að sérstakt samþykki fjármögnunarleigufyrirtækisins þyrfti til. Samningarnir í þessu máli taki ekki af skarið um þetta og því þurfi að fá frekari skýringar á þessu mikilvæga atriði.
Í þessu máli hátti þannig til að í 4. og 5. gr. samninganna, sem flestir séu sambærilegir hvað þetta varðar, komi fram að þar er ein greiðsla, síðasta greiðslan, sem sé miklu hærri en allar aðrar greiðslur samkvæmt viðkomandi samningi. Í sumum tilvikum nemi þessi greiðsla mörgum milljónum króna. Þetta atriði skilji á milli samninga í öðrum málum. Varnaraðili telur þetta ákvæði benda til þess að við lok leigutíma hafi verið greitt að fullu fyrir viðkomandi tæki með þessari skyldubundnu lokagreiðslu og því hafi tækið átt að færast til eignar hjá varnaraðila. Þetta þurfi að bera undir vitnin.
Sönnunarbyrðin hvað þetta varðar hvíli á varnaraðila og því sé skýrslugjöf vitna lykilforsenda þess að dómurinn geti tekið afstöðu til þessarar málsástæðu varnaraðila. Lánist varnaraðila þessi sönnun, þannig að talið verði að um lánssamning hafi verið að ræða, sé ljóst að skuldastaða varnaraðila gagnvart sóknaraðila sé óljós og ósannað að nokkur skuld sé til staðar og þar með hvort aðfarargerðin eigi yfirhöfuð rétt á sér. Varnaraðili hafi því lögvarða hagsmuni af því að leiða vitnin fyrir dóminn þar sem úrslit málsins muni ráðast af framburði þeirra.
III
Málsástæður og lagarök sóknaraðila í þessum þætti málsins
Sóknaraðili andmælir því að varnaraðila verði heimilað að leiða vitni í máli þessu og krefst þess að kröfu varnaraðila þar að lútandi verði hafnað.
Sóknaraðili byggir á því að í aðfararmálum skuli vitnaleiðslur að jafnaði ekki fara fram, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Telur sóknaraðili ekkert tilefni vera til þess í máli þessu að leiða vitni. Þá sé ekki ljóst hvað varnaraðili ætli að sýna fram á með þessari skýrslugjöf og hvað þessi tilteknu vitni eigi að bera um en það þurfi að liggja ljóst fyrir. Liggi því beinast við að hafna kröfu varnaraðila.
Í umfjöllun um þessa grein laganna segi reyndar í frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/1989 að bann sé lagt við vitnaleiðslum í málum af þessu tagi. Reglan eigi stoð í því viðhorfi að ætlast sé til þess að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings af sönnunargögnum sem þessum. Í umfjöllun um 78. gr. laganna, sem við eigi í máli þessu, segi að gerðarbeiðanda þurfi að takast að sanna réttindi sín með gögnum sem 83. gr. laganna heimili honum að styðja mál sitt með fyrir dómi. Þau gögn séu einungis skjöl, svo og skýrslur aðila og málflutningur en ekki vitnaleiðslur, mats- eða skoðunargerðir. Af þessum ummælum verði ráðið að ef á annað borð er talið tilefni til að leiða vitni í málum sem þessum, sé sá réttur einskorðaður við gerðarbeiðanda og þá í algjörum undantekningartilvikum. Hvergi sé gert ráð fyrir að gerðarþoli hafi þennan rétt.
Þá hafi sú kenning verið sett fram í fræðiritum að beita eigi fyrirvaranum þegar gerðarbeiðanda sé brýn nauðsyn að fá réttindum sínum fullnægt með skjótum hætti, önnur úrræði standi honum ekki til boða í því skyni og að honum sé ekki kleift að sýna nægilega fram á réttindi sín án gagnaöflunar sem þessarar. Vekur sóknaraðili athygli á því að þetta eigi við um gerðarbeiðanda en ekki gerðarþola.
Hvað varði umfjöllun varnaraðila um einstök ákvæði samninganna, þá bendir sóknaraðili á að 5. gr. þeirra fjalli einfaldlega um umsamda greiðslutilhögun samkvæmt viðkomandi samningi. Þegar leigugrunnur samkvæmt samningunum sé skoðaður sjáist að þessar fjárhæðir séu í samræmi við það að um það hafi verið samið að greiðslur skuli vera að tiltekinni fjárhæð á tilteknu tímabili en svo sé ein hærri leigugreiðsla í lok grunnleigutíma. Eftir það taki við framhaldsleigutímabil ef leigutaki skilar ekki tækjunum.
Sóknaraðili telur því að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að þörf sé fyrir skýrslutökur í málinu eða að víkja beri frá þeirri meginreglu að vitni skuli að jafnaði ekki leidd í málum sem þessum. Ekkert bendi til þess að starfsmenn sóknaraðila muni gefa gleggri mynd af málinu en framlögð gögn geri.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að nánar tilgreind tæki verði, með beinni aðfarargerð, tekin úr vörslum varnaraðila á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, og fengin sóknaraðila. Efnislegur ágreiningur aðila lýtur að því hvort þeir fjölmörgu fjármögnunarleigusamningar aðila um nánar tilgreind tæki séu leigusamningar, eins og sóknaraðili heldur fram, eða lánssamningar, eins og varnaraðili byggir á, og þar með háðir banni 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu við því að fjárhæð peningaláns í íslenskum krónum verði bundin við gengi erlends gjaldmiðils.
Varnaraðili heldur því fram í málinu að ólíkt öðrum málum, sem þegar hafi verið leyst úr á þessu réttarsviði með ýmsum dómum Hæstaréttar, séu ákvæði í þeim samningum sem hér er fjallað um sem leiði til þess að á þá beri að líta sem lánssamninga en ekki leigusamninga. Hefur hann um þetta vísað til 5. gr. samninganna um greiðslutilhögun. Þar komi fram að leigugreiðslur nemi sömu fjárhæð á tilteknu tímabili en í lokin sé greiðsla sem sé miklu hærri en aðrar greiðslur samkvæmt samningnum. Þetta bendi til þess að svo hafi um samist með aðilum að með skyldubundinni lokagreiðslu hafi að fullu verið greitt fyrir tækin og þar með hafi þau átt að færast til eignar hjá varnaraðila. Sóknaraðili kveður umrædd ákvæði einfaldlega vera umsamin ákvæði milli aðila um greiðslutilhögun á samningstímanum og annað verði ekki lesið úr þeim.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar sú krafa varnaraðila að fá að leiða fyrir dóminn sem vitni fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, auk tveggja starfsmanna sóknaraðila sem komið hafi að samningsgerðinni og framkvæmd samninganna. Telur varnaraðili mikilvægt að umrædd vitni verði leidd fyrir dóminn til skýrslugjafar til að leiða í ljós hver hafi verið ætlun aðila með samningsgerðinni, með tilliti til áðurnefnds ákvæðis þeirra um greiðslutilhögun, og hvernig þeir hafi litið á samningsgerðina hvað þetta varðar. Þetta sé honum nauðsynlegt til að sýna fram á þá meginmálsástæðu sína að um lánssamninga sé að ræða og að svo hafi verið um samið að varnaraðili yrði við lok samningstímans eigandi þeirra tækja sem samningarnir tóku til. Þá liggi fyrir tölvupóstsamskipti milli aðila sem mikilvægt sé að verði skýrð nánar.
Sóknaraðili hefur hafnað kröfu varnaraðili með þeim rökum að allsendis sé óljóst hvað varnaraðili hyggist sýna fram á með umbeðinni skýrslugjöf. Vitnaleiðslur í málum sem þessum skuli að jafnaði ekki fara fram og engin rök hafi komið fram hjá varnaraðila sem leiða eigi til þess að undantekning verði gerð frá þeirri meginreglu laga nr. 90/1989. Enginn vafi sé á því að samningar aðila voru fjármögnunarleigusamningar og þá sé enginn vafi um réttindi sóknaraðila. Engin þörf sé því á að leiða umrædda einstaklinga sem vitni í málinu. Skýrslugjöf þeirra muni engu bæta við þau gögn sem fyrir liggi í málinu og séu grundvöllur kröfu sóknaraðila. Þá hefur sóknaraðili og bent á að verði slík undantekningarheimild talin vera fyrir hendi í málum sem þessum eigi hún við um gerðarbeiðanda og einungis í þeim tilvikum þar sem hann geti ekki fært nægar sönnur á réttindi sín með framlögðum gögnum og brýna nauðsyn beri til að hann fái réttindum sínum fullnægt eða með skjótum hætti og önnur úrræði standi honum ekki til boða í því skyni.
Mál þetta er rekið á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Almennar reglur um meðferð einkamála í héraði gilda um mál samkvæmt þeim kafla eftir því sem við getur átt, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna, en skorður eru þó reistar við vitnaleiðslum og mats- og skoðunargerðum í málum af þessu tagi, samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 83. gr. laganna, á þann hátt að slík sönnunarfærsla skal að jafnaði ekki fara fram eins og í ákvæðinu segir. Ætlast er til þess að aðfararhæfar kröfur séu það skýrar að þær þarfnist ekki stuðnings af sönnunargögnum sem þessum.
Ákvæði laga nr. 90/1989 gera því ráð fyrir að tekin verði afstaða til kröfu, sem leita á eða leitað hefur verið aðfarargerðar fyrir á grundvelli þeirra takmörkuðu sönnunargagna, sem aflað verður í slíku máli. Takmörkun þessi byggist á því sjónarmiði að málstaður gerðarbeiðanda þarf að vera svo skýr og ljós að um skýlaus réttindi hans sé að ræða, þannig að hann þurfi ekki að styðja þau við vitnisburð eða matsgerð. Verði réttindi gerðarbeiðanda dregin í efa, þannig að leysa þurfi úr vandasömum sönnunaratriðum í máli um beina aðfarargerð, ber að synja um framgang aðfarargerðarinnar, sbr. síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Yrði gerðarbeiðandi þá að leita sér aðfararheimildar með því að höfða almennt einkamál, þar sem ekki gilda sömu takmarkanir á sönnunarfærslu.
Í málinu þykir varnaraðili ekki hafa fært fram slík rök að heimiluð verði undantekning frá áðurnefndri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili hefur, kröfu sinni til stuðnings, lagt fram alla þá samninga sem um ræðir og í málinu liggur auk þess fyrir fjöldi skjala sem kom til álita við úrlausn málsins auk þeirra dómafordæma sem liggja fyrir á því sviði réttarins sem hér um ræðir. Er ítrekað að sé vafi um rétt þess er gerðar krefst í málum af þessu tagi þannig að varhugavert verði talið að hún nái fram að ganga ber að hafna því að gerðin fari fram.
Með hliðsjón af öllu ofansögðu verður kröfu varnaraðila, um að leiða fyrir dóminn sem vitni Ólaf Helga Ólafsson, Sigurbjörgu Leifsdóttur og Þorstein Magnússon til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins, því hafnað.
Málskostnaðar var ekki krafist í þessum þætti málsins og úrskurðast hann því ekki.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir hdl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Gunnlaugur Úlfsson hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu varnaraðila, Leiguvéla ehf., um að leiða sem vitni Ólaf Helga Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, Lýsingar hf., og Sigurbjörgu Leifsdóttur og Þorstein Magnússon, starfsmenn sóknaraðila, til að gefa skýrslu við aðalmeðferð máls þessa, er hafnað.