Hæstiréttur íslands

Mál nr. 764/2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun á stofnun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi vistaður á viðeigandi stofnun á grundvelli 2. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun allt til fimmtudagsins 3. desember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í stað vistunar á viðeigandi stofnun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði vistaður á viðeigandi stofnun, allt til fimmtudagsins 3. desember 2015 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætlað manndráp þar sem X sé gefið að sök að hafa að kvöldi fimmtudagsins 22. október sl. að [...] í Reykjavík, stungið A ítrekað í líkamann, með þeim afleiðingum að A hlaut bana af. Sé háttsemi X talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fimmtudagskvöldið 22 október sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að ráðist hafi verið á íbúa með hnífi í búsetukjarna fyrir geðfatlaða við [...] í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún fengið þær upplýsingar að árásarþoli lægi á gólfi í herbergi sínu en meintur gerandi væri inni á baðherbergi. Árásarmaðurinn hafi verið handtekinn á baðherbergi íbúðarinnar og hafi reynst vera X. Við handtöku hafi kærði viðurkennt að hafa ráðið brotaþola bana með því að leggja til hans ítrekað með eldhúshníf. Strax á vettvangi hafi verið ljóst að brotaþoli væri látinn en hann hafði verið stunginn 30-40 stungum vísvegar um líkamann með eggvopni. Starfsmenn búsetukjarnans hafi skýrt lögreglu frá því að þeir hefðu orðið varir við læti frá herbergi brotaþola umrætt sinn. Hafi þeir farið að herberginu og þá séð hvar kærði kraup yfir brotaþola með hníf í hendinni og tautað "þú átt að deyja, þú skalt deyja". Vegna rannsóknar málsins hafi verið haldlagður stór eldhúshnífur. Ætla megi að um sé að ræða hnífinn sem notaður hafi verið við árásina. Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins í tvígang og hafi viðurkennt að hafa orðið brotaþola að bana vegna fíkniefnaskulda kærða við brotaþola.

Kærði hafi verið handtekinn vegna málsins og var föstudaginn 23. október sl., með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tvær vikur vegna málsins.

Það hafi verið mat lögreglu strax við upphaf rannsóknarinnar að vafi léki á því hvort kærða hafi verið sjálfrátt gjörða sinna á verknaðarstundu og hafi lögreglan því óskað eftir að dómkvaddur yrði sérfræðingur til að vinna geð- og sakhæfismat á kærða þann 22. október sl. Þann 4. nóvember sl. hafi lögreglan fengið afhent umbeðið mat en niðurstöður þess séu að kærði sé haldin aðsóknargeðklofa sem hafi verið þess valdandi að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann hafi framkvæmt verknaðinn. Í matinu komi einnig fram að hugsun kærða sé mjög trufluð og hann sé haldin miklum ranghugmyndum og mikilvægt sé að hann fái viðeigandi meðferð á réttargeðdeild og verði fluttur þangað strax.

Kærða sé nú undir sterkum grun um manndráp sem kunni að varða fangelsi allt að 16 árum verði kærði metin sakhæfur fyrir dómi. Ljóst sé af skýrslutökum af kærða og sakhæfismati sem nú liggi meðal rannsóknarganga að kærði sé haldin miklum ranghugmyndum og iðrist ekki gjörða sinna. Það sé því mat lögreglu að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hann gangi ekki laus. Af rannsóknargögnum megi ráða að verulegur vafi sé uppi um sakhæfi kærða og með vísan til sakhæfismats sem nú liggi frammi sé það mat lögreglu að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði kærða gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun þar sem unnt sé að meðhöndla veikindi hans.

Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til vistunar á viðeigandi stofnun sé vísað til 2. mgr. 95. gr., 2. mgr. 98. gr. og 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að sterkur grunur leiki á því að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 22. október sl. að [...] í Reykjavík, stungið A ítrekað í líkamann með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af en brot gegn áðurnefndu ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Kærða var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. október sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur frá þeim degi að telja á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Fallist er á það með lögreglu að atvik máls séu með þeim hætti og brotið þess eðlis að fullnægt sé því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. október sl. fallist á kröfu lögreglustjóra um að geðrannsókn færi fram á kærða. Sakhæfismat á varnaraðila liggur nú fyrir. Þar kemur m.a. fram að kærði sé haldinn aðsóknargeðklofa og miklum ranghugmyndum, hugsun hans sé mjög trufluð og mikilvægt að hann fái viðeigandi meðferð á réttargeðdeild. Með vísan til þessa verður að telja að fyrir liggi með ótvíræðum hætti að skilyrði séu fyrir hendi til að varnaraðila verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt 100. gr. laga nr. 88/2008 í samræmi við kröfugerð sóknaraðila eins og hún er fram sett. Verður því á hana fallist eins og nánar greinir í úrskurðarorði og þykja ekki efni til að marka þeirri vistun skemmri tíma.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal vistaður á viðeigandi stofnun, allt til fimmtudagsins 3. desember 2015 kl. 16:00.