Hæstiréttur íslands
Mál nr. 817/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Endurupptaka
- Kæruleyfi
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. nóvember 2016, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins beindi varnaraðili 1. mars 2016 kröfu til héraðsdóms um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur gaf af þessu tilefni út 4. sama mánaðar fyrirkall til fyrirsvarsmanns sóknaraðila, þar sem fram kom að krafan yrði tekin fyrir á dómþingi 6. apríl 2016. Stefnuvottur gerði 22. mars sama ár vottorð um að fyrirkallið hafi þann dag verið birt fyrir nafngreindum manni á heimili fyrirsvarsmannsins. Þegar krafan var tekin fyrir í þinghaldi áðurgreindan dag var ekki mætt af hálfu sóknaraðila og gekk úrskurður samdægurs um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Með beiðni, sem barst héraðsdómi 23. maí 2016, leitaði sóknaraðili eftir endurupptöku á meðferð kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti, en um heimild til þess vísaði sóknaraðili til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómur varð við þessari beiðni í þinghaldi 28. júní 2016 og var mál þetta í framhaldi af því þingfest til að leysa úr ágreiningi um hvort bú sóknaraðila skyldi tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 168. gr. laga nr. 21/1991. Í málinu krafðist sóknaraðili þess aðallega að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti yrði vísað frá dómi, en til vara að henni yrði hafnað. Þessum kröfum báðum var hafnað með hinum kærða úrskurði.
Ef útivist verður af hendi skuldara þegar tekin er fyrir á dómþingi krafa lánardrottins um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta og sú krafa er í kjölfarið tekin til greina með úrskurði héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991, leiðir af 2. mgr. 178. gr. sömu laga að skuldari getur ekki kært slíkan úrskurð til Hæstaréttar, heldur verður hann að leitast við að fá úrskurðinum hnekkt með því að beiðast endurupptöku fyrir héraðsdómi samkvæmt XXIII. kafla laga nr. 91/1991, svo sem sóknaraðili hefur hér gert. Við slíka málsmeðferð gildir þá meðal annars að breyttu breytanda ákvæði 3. mgr. 142. gr. laga nr. 91/1991, en á þeim grunni getur skuldari, sem hefur í kjölfar útivistar fengið endurupptekna meðferð kröfu lánardrottins um gjaldþrotaskipti fyrir héraðsdómi, ekki kært nýjan úrskurð um þá kröfu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar nema að fengnu leyfi réttarins til málskots. Slíks leyfis hefur sóknaraðili ekki aflað. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Gljúfurbyggð ehf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. nóvember 2016.
Með beiðni, dagsettri 1. mars 2016, sem barst dómnum 4. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili, Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, fyrir hönd Landsbankans hf., útibú, kt. 710169-3819, sama stað, þess að bú varnaraðila, Gljúfurbyggðar ehf., kt. 470503-2540, Klettagljúfri 4, Sveitarfélaginu Ölfusi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar var ekki mætt af hálfu varnaraðila. Með úrskurði dómsins í málinu nr. G-40/2016, uppkveðnum 6. apríl sl., var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sóknaraðila og Óskar Sigurðsson hrl., skipaður skiptastjóri. Þann 28. júní sl., var málið endurupptekið að beiðni varnaraðila og í kjölfarið var ágreiningsmál þetta þingfest.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þann 3. nóvember sl.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á óverðtryggðu veðskuldabréfi nr. 0101-74-108739, upphaflega að fjárhæð 11.370.000 krónur, útgefnu 19. september 2008, sem tryggt hafi verið með veði í Klettagljúfri 10, Sveitarfélaginu Ölfusi. Kveður sóknaraðili eignina hafa verið selda á uppboði þann 16. apríl 2013, en ekkert hafi fengist upp í kröfuna. Þá hafi framangreint veðskuldabréf fengið nýtt númer, 0101-36-71773. Sóknaraðili byggir á áskorun til varnaraðila, samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem birt hafi verið þann 18. janúar sl., og varnaraðili hafi ekki sinnt.
Varnaraðili byggir kröfu um frávísun málsins á því að birting fyrirkalls til þinghalds í málinu G-40/2016, hafi ekki farið fram lögum samkvæmt. Kveður varnaraðili að með þessu hafi verið brotið á rétti hans til að svara til sakar fyrir dómi, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi birting greiðsluáskorunar að sama skapi ekki farið fram með réttu lagi.
Varnaraðili styður kröfu sína um að beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi hans verði hafnað með þeim rökum að ekki hafi verið skilyrði til töku búsins til gjaldþrotaskipta. Helstu málsástæður varnaraðila eru að hann telur sig ekki vera í skuld við sóknaraðila og að ekki hafi farið fram mat á verðmæti fasteignarinnar Klettagljúfurs 10, en slíkt mat sé forsenda þess að sóknaraðili geti krafið hann um greiðslu, sbr. 57. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.
Forsendur og niðurstaða
Varnaraðili hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi og byggir á því að birting fyrirkalls til þinghalds í málinu G-40/2016, hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Kveður varnaraðili kvaðningu vegna fyrirtökunnar ekki hafa verið setta í póstkassa samkvæmt 4. mgr. 31. gr. póstlaga nr. 19/2002, heldur hafi bréfið verið hengt á hurðarhún, þaðan sem það hafi greinilega fokið út í veður og vind. Í munnlegum málflutningi vísaði varnaraðili einnig til þess að ekki hafi verið staðið rétt að birtingu fyrirkallsins og vísar í fyrsta lagi til þess að í birtingavottorði hafi ekki verið tilgreind tengsl Sigurjóns Skúlasonar, sem hittist fyrir á lögheimili varnaraðila. Í öðru lagi hafi stefnuvottur ekki farið að lögum við rækslu starfans og vísaði varnaraðili í þessu sambandi til framburðar stefnuvottsins Pjeturs Hafsteins fyrir dómi, um að hann, þ.e. stefnuvotturinn, hafi límt fyrirkallið á hurðina að Klettagljúfri 4 umrætt sinn.
Mál þetta er rekið á grundvelli laga nr. 21/1990 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um málsmeðferð gilda ákvæði 168. gr., sbr. 3. mgr. 166. gr. laganna. Í athugasemdum með 168. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 21/1991, kemur fram að ágreiningsefnið sæti úrlausn eftir nánari fyrirmælum 168. gr. og XXIV. kafla laganna, og dómari leysi úr ágreiningi aðila í úrskurði þar sem mælt væri annað hvort fyrir um að bú skuldarans væri tekið til gjaldþrotaskipta eða að kröfu viðkomandi lánardrottins þess efnis væri hafnað. Er framangreint í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 67. gr. laganna. Samkvæmt þessu gera málsmeðferðarreglur 5. þáttar laga nr. 21/1991 ekki ráð fyrir því að krafa um gjaldþrotaskipti geti sætt frávísun frá dómi. Með vísan til framangreinds er frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á því að hann eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu óverðtryggðu veðskuldabréfi, útgefnu 19. september 2008, sem hvílt hafi á 5. veðrétti í fasteigninni Klettagljúfri 10, Sveitarfélaginu Ölfusi, en við nauðungarsölu fasteignarinnar hafi ekkert fengist greitt upp í kröfuna.
Varnaraðili, sem krefst þess að kröfu um gjaldþrotaskipti á búi sínu verði hafnað, byggir í fyrsta lagi á því að varnaraðili sé ekki í skuld við sóknaraðila. Kveður varnaraðili að greiðslur vanti inn á skuldina, annars vegar samkvæmt yfirlýsingu, dags. 8. október 2007, að fjárhæð 4.500.000 krónur, og hins vegar samkvæmt greiðsluávísun dags. 9. október 2007, að fjárhæð 17.000.000 krónur, en samkomulag hafi verið milli aðila um framangreindar greiðslur. Heldur varnaraðili því fram að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að fá greiðslu samkvæmt yfirlýsingunum, og hafi sóknaraðili ekki borið fyrir sig að um ófullnægjandi greiðslur hafi verið að ræða. Þá kveður varnaraðili um að ræða vanefnd af hálfu sóknaraðila á samningssambandi aðila, að bera sig ekki eftir björginni, enda hafi sóknaraðila borið að gæta þess að hagsmunir færu ekki forgörðum. Þá beri að gera varnaraðila jafnsettan og ef sóknaraðili hefði efnt skyldur sínar. Af hálfu sóknaraðila er þessum málatilbúnaði varnaraðila mótmælt og því haldið fram að engin greiðsla hafi borist til sóknaraðila vegna skuldabréfs þess er hann byggir kröfu sína á.
Kröfu um að gjaldþrotaskiptum á búi sínu verði hafnað byggir varnaraðili í öðru lagi á því að varnaraðili standi ekki í skuld við sóknaraðila þar sem sóknaraðili hafi keypt eign þá er tryggði skuld hans á nauðungaruppboði og verður málatilbúnaður hans skilinn sem svo að hann telji sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að fullnægt hafi verið skilyrði 57. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991, til að sóknaraðili geti krafið varnaraðila um umrædda fjárkröfu. Þessu er mótmælt af hálfu sóknaraðila, sem kveður verðmat hafa farið fram fyrir nauðungarsöluna, þó með þeim fyrirvara að matsmaður hafi ekki getað skoðað eignina að innan. Hafi matsverð eignarinnar verið 19.000.000 króna. Þá hafi sóknaraðili selt fasteignina Klettagljúfur 10 með kaupsamningi, dags. 20. desember 2013, á 14.000.000 króna og sé í kaupsamningi vísað til þess að kaupanda sé kunnugt um að eignin þarfnist töluverðra endurbóta. Varnaraðili hefur mótmælt framangreindu verðmati og vísað m.a. til þess að boðið hafi verið 28 milljónir króna í eignina á uppboði 2007 og sambærileg eign hafi verið seld á 36 milljónir króna árið 2015.
Óumdeilt er að sóknaraðili móttók framangreinda yfirlýsingu og greiðsluávísun. Yfirlýsingin frá 8. október 2007, er milli varnaraðila og Bláhöfða ehf., og er þar vísað til kaupsamnings sem framangreindir aðilar hafi gert sín á milli um kaup þess síðarnefnda á lóðum af varnaraðila þann 11. september 2007. Í yfirlýsingunni segir að 4.500.000 krónur af greiðslu samkvæmt kaupsamningi milli aðila, verði greiddar inn á reikning lögfræðiinnheimtu sóknaraðila þann 16. október 2007. Greiðsluávísunin frá 9. október 2007 er á milli varnaraðila og Pálma Sigmarssonar, og er þar vísað til kaupsamnings sem framangreindir aðilar gerðu sín á milli um kaup þess síðarnefnda á landi af varnaraðila þann 9. ágúst 2007. Í greiðsluávísuninni segir að 17.000.000 króna af greiðslu samkvæmt kaupsamningi milli aðila verði greiddar inn á reikning lögfræðiinnheimtu sóknaraðila.
Fyrir liggur að umræddar yfirlýsingar voru báðar útgefnar tæpu ári fyrir útgáfu veðskuldabréfs þess sem sóknaraðili byggir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á. Þá kom fram í skýrslu Árna Emilssonar, fyrrverandi útibússtjóra sóknaraðila, fyrir dómi að afhending þeirra hafi verið liður í tilraunum forsvarsmanns varnaraðila til að gera upp við sóknaraðila. Þá vísar varnaraðili til þess að gegn afhendingu umræddra yfirlýsinga hafi uppboð á Klettagljúfri 10 verið afturkallað, en framhaldssala hafi farið fram þann 4. september 2007. Þrátt fyrir útgáfu framangreindra yfirlýsinga frá 8. og 9. október 2007 leitaði varnaraðili eftir láni hjá sóknaraðila tæpu ári síðar og fékk í framhaldinu að láni hjá sóknaraðila samtals að höfuðstól 39.285.000 krónur, nánar tiltekið með útgáfu þriggja veðskuldabréfa þann 19. september 2008, sem hvíldu á 3., 4. og 5. veðrétti á fasteign varnaraðila, Klettagljúfri 10, meðal annars veðskuldabréf það sem sóknaraðili byggir kröfu sínum um gjaldþrotaskipti á. Þá hefur varnaraðili að mati dómsins ekki sýnt fram á að sóknaraðili hafi skuldbundið sig til þess að innheimta framangreindar greiðsluyfirlýsingar hvorki þegar þær voru gefnar út né í tengslum við lántöku varnaraðila í september 2008.
Samkvæmt framlögðu frumvarpi sýslumanns til úthlutunar við nauðungarsölu fasteignarinnar Klettagljúfurs 10, sem fram fór þann 16. apríl 2013, fengust þrjár lögveðskröfur vegna brunatrygginga og fasteignagjalda, greiddar að fullu, samtals að fjárhæð 1.187.505 krónur. Auk þess fékk sóknaraðili greiðslu inn á fasteignaveðbréf á 1. veðrétti, upphaflega áhvílandi á 3. veðrétti, að fjárhæð 12.672.495 krónur, en lýst var kröfu samtals að fjárhæð 35.620.197 krónur. Þá bera gögn málsins með sér að við nauðungarsöluna hafi ekkert komið upp í veðskuldabréf sóknaraðila á 4. veðrétti, sem samkvæmt kröfulýsingu var samtals að fjárhæð 18.523.401 króna og ekkert upp í veðskuldabréf það sem sóknaraðili styður kröfu sína um gjaldþrotaskipti í máli þessu, og hvíldi upphaflega á 5. veðrétti, en kröfulýsing vegna þess var samtals að fjárhæð 23.047.547 krónur. Ekkert liggur fyrir í málinu annað en að fjárhæð þessara krafna hafi verið rétt. Með framangreindu verðmati hins löggilta fasteignasala og að teknu tilliti til sölu fasteignarinnar Klettagljúfurs 10 á árinu 2013, hefur sóknaraðili fært fram viðhlítandi sönnur á því hvert markaðsverð fasteignar hafi verið við nauðungarsölu hennar. Samkvæmt því sem að framan er rakið hefði ekkert fengist upp í fjárkröfu sóknaraðila, sem hann styður kröfu sína um gjaldþrotaskipti við í máli þessu, fyrr en fjárhæð samþykkt boðs við nauðungarsölu fasteignarinnar Klettagljúfurs 10, hefði farið upp fyrir 78.378.650 krónur. Verður 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu því ekki talin standa því í vegi að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sóknaraðila.
Í greinargerð varnaraðila er einnig vísað til þess að sóknaraðili standi í skuld við Ingólfshof ehf., en skuldina hafi félagið verið tilbúið til að nýta til skuldajöfnunar við kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila. Lögmaður varnaraðila vék ekki að framangreindri málsástæðu í munnlegum málflutningi fyrir dómi. Í greinargerð sóknaraðila er þessari málsástæðu mótmælt og vísað til þess að ekki séu skilyrði til skuldajöfnunar, auk þess sem því er mótmælt að sóknaraðili standi í skuld við framangreint félag. Ekki verður á það fallist með varnaraðila að hann sé laus undan skuldbindingum sínum við sóknaraðila vegna mögulegra krafna annarra aðila á hendur sóknaraðila. Þá liggur ekkert frammi í máli þessu um að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila sem nýta megi til skuldajöfnunar við kröfu þá sem sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á.
Þá koma fram í greinargerð varnaraðila málsástæður er varða tilurð og undirritun veðskuldabréfs þess sem mál þetta varðar, og þá heldur varnaraðili því fram að áhöld séu um skuldbindingargildi veðskuldabréfsins. Sóknaraðili hafnaði framangreindu í munnlegum málflutningi. Í málinu liggur fyrir veðskuldabréf, sem undirritað er af fyrirsvarsmanni varnaraðila, Erni Karlssyni fyrir hönd varnaraðila, en auk þess að sitja í stjórn félagsins var hann framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Með vísan til þess að hin veðsetta eign var eign varnaraðila og fyrir liggur að tilgangur lántökunnar var að gera upp skuldir varnaraðila við sóknaraðila, er ekki fallist á framangreinda málsástæðu varnaraðila.
Við munnlegan málflutning vísaði varnaraðili til þess að hvergi í málinu kæmi fram hvernig sóknaraðili hafi eignast fjárkröfu þá sem hann byggi kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á, og því eigi, þegar af þeirri ástæðu, að hafna kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili vísaði framangreindri málsástæðu á bug sem of seint fram kominni. Í þessu sambandi er einnig rétt að geta þess að þann 20. september sl., lagði sóknaraðili meðal annars fram kröfulýsingu í söluandvirði uppboðsandlagsins Klettagljúfurs 10, dags. 15. apríl 2013, vegna fjárkröfu þeirrar sem mál þetta lýtur að. Þar er vísað til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 er varðaði ráðstafanir eigna og skulda Landsbankans hf., kt. 540291-2259 til sóknaraðila þessa máls, Landsbankans hf., kt. 471008-0280.
Í munnlegum málflutningi lögmanns varnaraðila fyrir dómi vék hann ekki að öðrum málsástæðum sem raktar eru í greinargerð varnaraðila. Að mati dómsins fá þær enga stoð í gögnum málsins og verða ekki raktar sérstaklega.
Sóknaraðili beindi áskorun til varnaraðila samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en ákvæðið var tekið upp í lög nr. 21/1991 til að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Lánardrottinn sem kýs að neyta þessa úrræðis verður að fullnægja þeim skilyrðum sem þar eru sett og einnig gerir ákvæðið ráð fyrir að skuldari bregðist við greiðsluáskorun með fullnægjandi hætti. Umrædd áskorun var birt af stefnuvotti fyrir fyrirsvarsmanni varnaraðila, Erni Karlssyni, á heimili hans þann 18. janúar sl. Í greiðsluáskoruninni var skorað á varnaraðila að greiða eða semja um skuld hans við sóknaraðila samtals að fjárhæð 31.486.713 krónur, og í því sambandi vísað til veðskuldabréfs útgefnu 19. september 2008, upphaflega að fjárhæð 11.370.000 krónur. Jafnframt var skorað á varnaraðila að lýsa því skriflega yfir hvort og þá hvenær, innan skamms tíma, hann gæti greitt skuldina. Þá sagði í áskoruninni að yfirlýsing þar um þurfi að berast innan þriggja vikna frá birtingu áskorunar, ella geti varnaraðili átt von á því að krafa yrði gerð um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli áðurnefnds 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þá barst héraðsdómi beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila innan þess þriggja mánaða frests sem kveðið er á um í áðurnefndu ákvæði laganna. Óumdeilt er í málinu að varnaraðili svaraði ekki greiðsluáskorun sóknaraðila. Að öllu framangreindu virtu, og með vísan til þess að varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að hann sé eða verði innan skamms tíma fær um að greiða kröfu sóknaraðila, hefur varnaraðili ekki hnekkt þeim líkindum fyrir ógjaldfærni sem leiða má af því að hann hefur í engu brugðist við greiðsluáskorun þeirri sem birt var forsvarsmanni varnaraðila. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila líkt og greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 skal varnaraðili greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Bú varnaraðila, Gljúfurbyggðar ehf., kt. 470503-2540, Klettagljúfri 4, Sveitarfélaginu Ölfusi, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili, Gljúfurbyggð ehf., greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 300.000 krónur í málskostnað.