Hæstiréttur íslands

Mál nr. 252/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Frávísun frá héraðsdómi


Þriðjudaginn 1. júní 2010.

Nr. 252/2010.

A

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

B

C

D og

E

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

F

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

Kærumál. Dánarbússkipti. Frávísun máls frá héraðsdómi.

A o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum þeirra um að F yrði gert að greiða dánarbúi G tilteknar fjárhæðir. Í málinu voru hafðar uppi kröfur á hendur einum af erfingjum við skipti á dánarbúi. Dánarbúið var ekki aðili að málinu en það sótt af öðrum erfingjum, sem ekki voru samstíga í kröfugerð sinni og án þess að séð yrði að aðild þeirra gæti helgast af 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Talið var að með slík ágreiningsefni yrði ekki farið fyrir héraðsdóm samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991. Heimild væri hins vegar í 1. mgr. 124. gr. laganna til að skiptastjóri gæti krafist úrlausnar héraðsdóms um slíkar kröfur dánarbúsins. Væri þess vegna ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2010, þar sem bæði var hafnað kröfu sóknaraðilans A um að varnaraðila, F, yrði gert að greiða dánarbúi G 10.842.244 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2009 til greiðsludags, og kröfu sóknaraðilanna B, C, D og E um að varnaraðila yrði gert að greiða dánarbúinu 11.749.431 krónu, auk dráttarvaxta frá 26. maí 2009 til greiðsludags. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilinn A krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúi G 10.842.244 krónur, auk dráttarvaxta frá 26. maí 2009 til greiðsludags. Sóknaraðilarnir B, C, D og E krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúinu 11.330.249 krónur, auk dráttarvaxta frá 26. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

G fæddist [...]. Hún eignaðist þrjú börn, sóknaraðilann A, H, sem er látinn en var faðir sóknaraðilanna B, C, E og E og varnaraðila. G lést [...] 2008 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði reis ágreiningur með erfingjum. G hélt eigið heimili til dánardags en mun síðari árin hafa notið margvíslegar aðstoðar varnaraðila og fjölskyldu hennar. Á árunum 2007 og 2008 voru greiddar samtals 10.480.000 krónur af bankareikningi G og runnu þeir fjármunir til varnaraðila. Þá voru verðbréf G seld um áramótin 2007/2008 og rann andvirði þeirra, sem samkvæmt gögnum málsins sýnist hafa verið samtals 1.850.020 krónur, til varnaraðila. Varnaraðili heldur því fram að hún hafi greitt flesta reikninga móður sinnar allt frá árinu 2000 og hefur lagt fram ýtarleg gögn því til stuðnings. Hafi G viljað að varnaraðili tæki út af bankareikningi sínum vegna þessara útgjalda, sem samtals hafi numið að minnsta kosti þeirri fjárhæð er til varnaraðila rann af bankareikningi móður hennar. Þá hafi G heitin gefið varnaraðila andvirði hinna seldu verðbréfa. Sóknaraðilar gera kröfu til þess að varnaraðili endurgreiði dánarbúinu þessa fjármuni að mestu leyti, en ekki er þó fullt samræmi í kröfugerð þeirra. Með bréfi 29. maí 2009 beindi skiptastjóri þessum ágreiningi til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991.

Í máli þessu eru hafðar uppi kröfur á hendur einum af erfingjum við skipti á dánarbúi. Dánarbúið er ekki aðili að málinu en þess í stað er það sótt af öðrum erfingjum, sem ekki eru samstíga í kröfugerð sinni og án þess að séð verði að aðild þeirra geti helgast af ákvæði 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Með slík ágreiningsefni verður ekki farið fyrir héraðsdóm samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991. Heimild er hins vegar í 1. mgr. 124. gr. laganna til að skiptastjóri geti krafist úrlausnar héraðsdóms um slíkar kröfur dánarbúsins, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 147/1993 sem birtur er í dómasafni 1993 á bls. 831. Verður samkvæmt framansögðu ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Máskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2010.

Mál þetta barst dóminum 9. júní 2009 með bréfi skiptastjóra dánarbús G, sem lést [...] 2008. Málið var þingfest 24. ágúst 2009 og tekið til úrskurðar 2. mars sl.

Sóknaraðili, A, krefst þess að varnaraðila, F, verði gert að greiða dánarbúi G 10.842.244 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2009 til greiðsludag. Þá er krafist málskostnaðar.

Sóknaraðilarnir B, C, D og E krefjast þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða dánarbúi G 11.749.431 krónu, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2009 til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12. mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. maí 2010. Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Varnaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Til vara að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila verði stórlega lækkaðar. Þá gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðilar verði úrskurðaðir til að greiða henni málskostnað, að viðbættum virðisaukaskatti.

Úrskurður um upphaflega aðalkröfu varnaraðila um frávísun málsins var kveðinn upp 13. janúar og var kröfu um frávísun hafnað. 

I.

G sem fæddist [...], lést [...] 2008. Hún eignaðist þrjú börn, sóknaraðilann A, H, föður annarra sóknaraðila og varnaraðilann F.

Til dánardags hélt G heimili í eigin íbúð í [...] í Reykjavík. Óumdeilt virðist í málinu að þar hafi hún notið mikils stuðnings og aðstoðar varnaraðila og fjölskyldu hennar, auk stuðnings frá heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem hún átti rétt á. Að því er fram kemur í greinargerð varnaraðila heimsóttu hún og/eða eiginmaður hennar G daglega auk þess sem börn varnaraðila sinntu henni um helgar, en tvö af börnum varnaraðila bjuggu einnig um tíma hjá G. Aðrir aðilar málsins hafi komið sjaldan til hennar, en varnaraðilinn A og hin látna hafi ekki haft samskipti síðastliðin 25 ár, enda virðist óumdeilt að allir aðilar hafi talið, ranglega, að hún hefði verið ættleidd.

Í málinu liggja frammi ítarleg gögn sem sýna að varnaraðili og eiginmaður hennar greiddu ýmsan kostnað fyrir G af sínum eigin bankareikningum á árunum 2000 til 2008, jafnframt því sem augljóst er að litlar úttektir voru af bankareikningum G á sama tíma. Sést á gögnum málsins að þannig voru greiddir ýmsir reikningar útgefnir á nafn G, svo sem Visa-reikningar hennar þar sem færð voru ýmis föst mánaðarleg útgjöld, fasteignagjöld, tryggingar og ýmislegt fleira.

Fram kemur í gögnum málsins að G heitin gerði erfðaskrá 22. maí 2007 þar sem hún arfleiddi varnaraðila að þriðjungi eigna sinna, eða eins miklum hluta og hún megi ráðstafa samkvæmt erfðalögum til viðbótar lögmæltum arfi.

Fyrir liggur í málinu að varnaraðili hafði umboð til að taka út af bankareikningum hinnar látnu og að á árunum 2007 og 2008 voru færðar nokkrar fjárhæðir út af þeim og inn á reikninga varnaraðila. Ágreiningsefni málsins er í aðalatriðum hvort þar hafi verið um að ræða eðlilegar millifærslur að beiðni hinnar látnu og/eða til endurgreiðslu útgjalda vegna hennar, eða hvort um lán til varnaraðila, eða jafnvel óheimilar úttektir hennar hafi verið að ræða. Einnig greinir aðila á um réttmæti ráðstöfunar fjármuna vegna sölu verðbréfa hinnar látnu, samtals 1.850.020 krónur, sem lagðir voru inn á reikning varnaraðila í kringum áramótin 2007/2008. Fyrir liggur í málinu umboð undirritað af hinni látnu til varnaraðila til að innleysa bréfin og kemur þar fram að leggja skuli andvirði inn á reikning varnaraðila.

II.

Sóknaraðilinn A byggir kröfur sína í málinu á því að varnaraðili, F, skuldi dánarbúi G fé vegna úttekta hennar af banka­reikningum og ráðstöfunar andvirðis seldra verðbréfa hinnar látnu. Um sé að ræða sjálftökulán varnaraðila árin 2007 og 2008 sem ekki séu haldbærar skýringar fyrir, að fjárhæð 8.800.000 krónur árið 2007 og 1.600.000 krónur árið 2008. Andvirði seldra verðbréfa hafi verið samtals 1.921.699 krónur. Þegar úttektir af bankareikningi G séu skoðaðar í heild sjáist að engar stórar úttektir hafi farið af reikningnum fyrr en um það leyti er varnaraðili var gerð að bréferfingja og eftir það hafi verið markvisst hreinsað út af reikningnum. Haldlítið sé að koma eftir á með reikninga sem varnaraðili kveðist hafa lagt út fyrir á liðnum árum en ekki tekið út fyrir jafn óðum af bankareikningi.

Þegar stórar fjárhæðir séu teknar út af bankareikningi gamallar konu og lagðar inn á reikning annars, verði að gefa skýringar á að um sé að ræða annað en lán, t.d. gjöf. Slíkar gjafir væru skattskyldar en þær komi ekki fram á skattframtölum. Varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að peningaúttektirnar séu annað en lán, sem henni hafi ekki tekist að sýna fram á. Þar sem varnaraðili hafi ekki tekið út fé jafnóðum fyrir sannanlegum útgjöldum, sem hún hafi átt kost á, verði að virða það henni til tómlætis. Jafnframt hafi verið auknar líkur á að ekki hafi verið réttmætur grundvöllur fyrir úttektum sem gerðar hafi verið í svo stórum stíl er dregið hafi að endalokum hjá G. Sama eigi við um verðbréfasölu í árslok 2007 og ársbyrjun 2008 og sé engu líkara en þar sé um einhvers konar undanskot að ræða.

Í kröfugerð sóknaraðila sé reynt að gæta sanngirni og viðurkenna sannanleg og líkleg útgjöld í þágu G. Þannig séu viðurkennd útgjöld á sama tímabili og hinar háu fjárhæðir séu teknar út, samtals 1.303.447 krónur, 970.014 krónur árið 2007 og 333.433 krónur árið 2008. Úttektir af bankareikningum hafi verið 10.480.000 krónur árin 2007 og 2008 og söluverðmæti verðbréfa 1.665.691 króna eða samtals 12.145.691 króna. Þegar viðurkennd útgjöld séu dregin frá standi eftir kröfufjárhæðin, 10.842.244 krónur.

Vísað er til þess að skuld varnaraðila við búið sé eins og hver önnur eign búsins skv. 54. gr. laga nr. 20/1991. Þetta sé bersýnilegt af gögnum málsins og hafi varnaraðili sönnunarbyrði fyrir öðru.

Aðrir sóknaraðila málsins, sonarbörn hinnar látnu, byggja á því að með ráðstöfun sinni með erfðaskrá dags. 22. maí 2007 hafi hin látna verið að umbuna varnaraðila alla umsjá hennar í gegnum árin. Skömmu eftir þá ráðstöfun hafi það hins vegar gerst að farið hafi að bera á stórum útborgunum af reikningi hinnar látnu og byggist útreikningur dómkröfu sóknaraðila á þeim. Um sé að ræða samtals 12 úttektir sem lagðar hafi verið inn á reikning varnaraðila, samtals að fjárhæð 10.697.000 krónur. Auk þess byggist dómkrafa á því að samkvæmt upplýsingum úr skattframtali hinnar látnu hafi verið seld verðbréf fyrir samtals 1.921.699 krónur 28.12.2007 og 3.1.2008 og andvirði þeirra runnið inn á reikning varnaraðila, eins og gögn málsins beri með sér. Þessir sóknaraðilar viðurkenna sannanleg útgjöld sem draga megi frá framangreindri skuld samtals að fjárhæð 869.268 krónur og nemi því heildarkrafa þeirra 11.749.431 krónu.

Af hálfu þessara sóknaraðila er byggt á því að markvisst hafi verið hreinsað út af bankareikningi hinnar látnu eftir að varnaraðili var gerð að bréferfingja og veikindi hinnar látnu ágerðust. Haldlítið og afar ótrúverðugt sé að  koma eftirá með alls kyns kostnaðarreikninga sem varnaraðili kveðist hafa lagt út fyrir á liðnum árum, en ekki tekið jafnóðum út fyrir af bankareikningi. Bifreiðakostnaði sé alfarið hafnað, enda hafi hin látna ekki haft bílpróf og varnaraðili búið nálægt. Ummæli sem komið hafi fram um að hin látna hafi lagt metnað í að eiga bifreið séu ótrúverðug og sé þeim mótmælt.

Varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að stórar peningaúttektir af bankareikningi gamallar og veikrar konu hafi verið annað en lán, t.d. gjöf. Stórgjafir séu skattskyldar, en slíkt hafi ekki komið fram á skattframtölum. Varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að peningaúttektirnar séu annað en lán og hafi varnaraðila ekki tekist að sanna það með óyggjandi hætti nema í litlum mæli. Sama eigi við varðandi seld verðbréf, þó að fyrir liggi í málinu umboð hinnar látnu til að selja umrædd verðbréf og ráðstafa þeim með tilteknum hætti, hafi hvergi komið fram að um gjöf til varnaraðila hafi verið að ræða. Því hafi verið haldið fram, m.a. með fjölda eftirá tilbúinna excel-skjala að varnaraðili hafi greitt ýmsan kostnað fyrir hina látnu, en einungis fáar greiðslukvittanir og reikningar séu því til stuðnings. Ekki sé unnt að taka til greina þann kostnað sem varnaraðili telji sig hafa greitt nema hún hafi óyggjandi sannanir fyrir þeim greiðslum.

Í ljósi hárra fjárhæða sem varnaraðili telji sig hafa greitt fyrir hina látnu í gegnum árin, hafi varnaraðili sýnt af sér stórkostlegt tómlæti með því að hafa ekki greitt sér þær fjárhæðir jafnóðum til baka, fyrr en mörgum árum seinna og beri varnaraðili hallann af því tómlæti og sönnunarskorti.

III.

Varnaraðili byggir á því að bókhald G, sem hún hefur lagt fram í málinu, sýni með óyggjandi hætti að varnaraðili eða eiginmaður hennar hafi greitt flesta reikninga G frá árinu 2000. Gögn þessi hafi nú verið lögð fram með þeim hætti að staðfesting á greiðslu varnaraðila eða eiginmanns hennar fylgi hverjum reikningi sem þau greiddu fyrir G. Þannig séu lögð fram skjalfest gögn um útgjöld varnaraðila í þágu móður hennar, samtals að fjárhæð 5.995.209 krónur vegna áranna 2000 til og með 2008.

Til viðbótar útgjöldum sem kvittanir séu fyrir hafi varnaraðili lagt út fyrir nánast öllum öðrum framfærslukostnaði G, þ.e. kostnaði vegna svefn- og verkjalyfja, fatnaðarkaupa, tóbakskaupa og matarkaupa auk þess sem varnaraðili hafi iðulega tekið fjárhæðir úr banka, af sínum reikningum, og fært móður sinni svo hún hefði handbært fé heima hjá sér og til að gera henni kleift að gefa afkomendum gjafir. Varnaraðili hafi áætlað þennan kostnað, varlega þó, og telji að hann nemi samtals 3.261.277 krónum yfir sama árabil. Samtals telji varnaraðili sig því hafa innt af hendi í þágu móður sinnar og framfærslu hennar 9.256.486 krónur vegna áranna 2000 til 2008.

Allt komi þetta skýrt fram á yfirlitsblaði sem fylgi kvittunum vegna útlagðs kostnaðar varnaraðila og eiginmanns hennar. Sama yfirlitsblað sýni með glöggum hætti að þessi sömu ár renni óverulegar fjárhæðir af bankareikningum móður varnaraðila. Fjárhæðir sem af bankareikningum hennar fara eru miklum mun lægri en sem nemi eðlilegum framfærslukostnaði einstaklings. Mánaðarlegar tekjur G hafi því safnast upp án þess að frá drægist framfærslukostnaður hennar. Telur varnaraðili þessa staðreynd staðfesta fullyrðingar hennar, til viðbótar við aðrar sannanir sem hún hafi lagt fram, um að hún og eiginmaður hennar hafi fjármagnað svo til alla framfærslu G frá árinu 2000 til dánardags hennar.

Á árinu 2007 hafi móðir varnaraðila viljað að varnaraðili tæki út úr bankabókum hennar vegna þessara útgjalda. Varnaraðili hafi orðið við þeim tilmælum móður sinnar. Jafnframt hafi móðir varnaraðila viljað að varnaraðili nyti eðlilegra vaxta af þessum útlagða kostnaði. Þegar frá séu dregnir þeir vextir sem innistæður á bankareikningum G hafi safnað á sig á þessu árabili, sem varnaraðili og móðir hennar töldu að varnaraðili ætti að njóta vegna þeirra útgjalda sem hún hafði innt af hendi, komi í ljós að heildarútgjöld varnaraðila og eiginmanns hennar, í þágu G, annars vegar þau sem skýrar kvittanir eru fyrir og hins vegar þau sem eru varlega áætluð, eru 777.395 krónum lægri en þeir fjármunir sem varnaraðili tók út af reikningum móður sinnar, að hennar beiðni, og sem sóknaraðilar kalla „sjálftökulán varnaraðila“. Í raun sýni gögn málsins þannig að dánarbú G skuldi varnaraðila 777.395 krónur.

Varnaraðili telur að þær úttektir sem ágreiningur málsins snýst um hafi verið sér heimilar. Bæði hafi þær verið gerðar samkvæmt skýrum fyrirmælum móður hennar, sem aldrei hafi orðið svo lasburða að hún bæri ekki skynbragð á það sem hún gerði, og til viðbótar komi að fyrir því séu skýr dómafordæmi að greiðslur einstaklings fyrir annan einstakling skulu teljast lán nema sá sem heldur öðru fram geti sannað að um gjöf hafi verið að ræða. Sóknaraðilar hafi engin rök leitt að því að varnaraðila hafi borið að framfæra móður sína árin 2000 – 2006, en útgjöld þeirra ára telji sóknaraðilar ekki ástæðu til að viðurkenna þó þeir hafi samþykkt sömu útgjöld áranna 2007 og 2008.

Sóknaraðilar hafa með engum hætti gert líklegt að varnaraðili hafi átt að bera kostnað af framfærslu móður sinnar síðustu æviár hennar. Varnaraðili hafi gefið trúverðugar skýringar á því af hverju fyrirkomulag hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni. Vísast í því sambandi til þeirrar staðreyndar að hverjum og einum einstaklingi beri að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn undir 18 ára aldri.

Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila að móðir varnaraðila hafi með erfðaskránni ætlað að endurgreiða varnaraðila þennan útlagða kostnað. Væru þær fullyrðingar réttar sé óskiljanlegt af hverju G hafi krafist þess af varnaraðila að hún á árinu 2007 tæki út af bankabókum hennar þá fjármuni sem varnaraðili hafi lagt út fyrir hana í gegnum árin.

Skoðun á bankareikningum G sýni einnig, og gögn þar að lútandi hafi verið lögð fram, að nánast engar hreyfingar hafi verið á þessum reikningum frá árinu 2000 til ársins 2007, þegar varnaraðili, að kröfu móður sinnar, hafi tekið út vegna þeirra útgjalda sem hún hafði greitt fyrir móðurina. Fyrir liggi að móðir varnaraðila hafi búið ein í íbúð, sérhæð við [...]. Það kosti auðvitað sitt að búa einn. Rekstrarkostnaður húsnæðis sé nokkur. Varnaraðili hafi séð um öll aðföng fyrir G, sótt öll lyf sem hanni hafi verið ávísuð, og greitt, keypt fyrir hana allar gjafir til afkomenda, keypt fyrir hana föt og keypt fyrir hana tóbak, en G hafi reykt, sennilega a.m.k. einn pakka á dag.

Þegar framlögð gögn séu skoðuð, tekjur G og útgjöld árabilið 2000 til 2008, gögn um útgjöld varnaraðila í þágu móður, úttektir varnaraðila vegna endurgreiðslu þeirra útgjalda þá telur varnaraðili að í ljós komi að ef eitthvað er þá skuldi dánarbú G henni 777.395 krónur

Varnaraðili telur sérstaka ástæðu til að fjalla um innlausn ríkisskuldabréfa. Gögn málsins sýni að G hafi skrifað undir umboð til varnaraðila og gefið sjálf fyrirmæli um að andvirði bréfanna skyldi greiðast inn á reikning varnaraðila. Varnaraðili fullyrðir að með því hafi móðir hennar verið að ákveða að andvirði bréfanna ætlaði hún að gefa henni og raunar hafi móðirin orðað það þannig við varnaraðila. Endurkröfu sóknaraðila um andvirði bréfanna sé því hafnað jafnframt því sem bent sé á að andvirði þeirra sé 1.850.020 krónur, en ekki sú fjárhæð sem sóknaraðilar fullyrða, en ósamræmi sé  milli sóknaraðila um hvert andvirði bréfanna hafi verið.

Vegna umfjöllunar sóknaraðila um bifreiðaeign G sé rétt að árétta að G hafi notið bensínstyrks frá Tryggingastofnun ríkisins. Þess styrks hefði hún ekki notið ef hún hefði ekki átt bifreið. Bifreiðina hafi G keypt, eins og framlögð gögn sýni, og bifreiðin alla tíð verið á hennar nafni. Það komi sóknaraðilum ekki við að G skyldi kjósa að eiga bifreið, þótt hún væri ekki með bílpróf. Gögn málsins sýni að varnaraðili hafi greitt fyrir bifreiðina og lánað móður sinni þannig fyrir andvirði hennar. Ástæða þess hafi verið sú að þegar bifreiðin hafi verið keypt hafi G verið með nokkra peningafjárhæð á hagstæðum vaxtakjörum auk þess sem hún hefði þurft að losa eign í ríkisskuldabréfum til að eiga fyrir bílnum. Hafi því orðið að samkomulagi milli varnaraðila og móður hennar að varnaraðili lánaði henni fyrir bifreiðakaupunum. Gögn staðfesti það. Það hafi verið metnaður G að eiga sjálf bifreiðina og geta með þeim hætti lagt nokkuð af mörkum til þeirra sem mest hafi aðstoðað hana við að geta verið ein heima, sjálfstæð, til dauðadags. Við mat á kostnaði vegna bifreiðarinnar hafi varnaraðili sjálf tekið á sig 70% alls rekstrar­kostnaðar bifreiðarinnar, en reiknað móður sinni 30% þess kostnaðar. Allur fastur kostnaður vegna bifreiðaeignar hljóti hins vegar að vera eiganda bifreiðarinnar.

Að framansögðu virtu og með framlögðum gögnum telur varnaraðili sig hafa sýnt fram á að úttektir hennar af bankareikningum móður sinnar 2007 og 2008 hafi einvörðungu verið vegna endurkrafna sem hún átti á móðurina vegna útlags kostnaðar í hennar þágu árin 2000 til 2008.

Fallist dómurinn ekki á að varnaraðili hafi með nægilegum hætti sannað að úttektir hennar af reikningum móður hafi verið endurgreiðsla á þegar útlögðum kostnaði varnaraðila í þágu móðurinnar, gerir varnaraðili þá varakröfu að kröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar. Um rökstuðning fyrir lækkunarkröfu sé vísað til raka vegna aðalkröfu.

Varnaraðili telur sig hafa lagt út verulega fjármuni fyrir móður sína. Ljósrit af bankareikningum varnaraðila fyrir árabilið 2000 til 2008 sýni að af hennar bankareikningum hafi runnið fjármunir til greiðslu reikninga á nafni móður hennar. Varnaraðili telur að óheimilt sé að líta á þessi útgjöld hennar í þágu móður sem annað en lán. Aldrei hafi staðið til að varnaraðili gæfi móður sinni þessa fjármuni. Sóknaraðilar beri sönnunarbyrði fyrir því að útgjöld varnaraðila hafi átt að vera gjöf og sú sönnun hafi þeim ekki tekist enda ekkert sem réttlæti að leggja fram­færsluskyldu á varnaraðila vegna móður hennar. Lögum samkvæmt beri einstaklingur einvörðungu framfærsluskyldu gagnvart ófjárráða börnum, ekki gagnvart foreldrum og vísist í því sambandi til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðinu hafi hver einstaklingur einungis framfærslu­skyldu gagnvart sjálfum sér, maka og ófjárráða börnum.

Þá telur varnaraðili að móður hennar hafi verið heimilt að gefa henni andvirði ríkisskuldabréfa sem innleyst voru í ársbyrjun 2008. Seta hennar í óskiptu búi sé málinu óviðkomandi enda hafi hún setið í óskiptu búi föður varnaraðila og sé varnaraðili einkaerfingi hans. Raunar verði í því sambandi að hafa í huga, eins og sóknaraðili A nefni í sinni greinargerð, að eftir andlát föður varnaraðila, hafi G selt íbúð í kjallara hússins sem hún bjó í. Andvirði íbúðarinnar skipti hún í þrennt, einn þriðjung tók hún, einn þriðjung fékk H, sonur G og faðir annarra sóknaraðila, og varnaraðili. Með þessari ráðstöfun fjármuna hins óskipta bús hafi G fyrst og fremst gengið á hlut varnaraðila og raunar sóknaraðilans A, í þágu H, föður annarra sóknaraðila.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar varnaraðili til þeirrar meginreglu kröfuréttarins að skuldir skuli greiða. Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutnings­þóknun byggir á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðis­auka­skatt vegna þjónustu sinnar, varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld.

IV.

Endurgreiðslukröfur sóknaraðila í máli þessu eru annars vegar vegna greiðslu andvirðis ríkisskuldabréfa í eigu hinnar látnu inn á reikning varnaraðila, 1.850.020 krónur og hins vegar vegna millifærslu af reikningum hinnar látnu á reikning varnaraðila á árunum 2007 og 2008, samtals að fjárhæð 10.480.000 krónur, að frádregnum misháum fjárhæðum vegna viðurkenndra útgjalda sem varnaraðili hafi greitt fyrir hina látnu á árunum 2007 og 2008.

Að því er varðar síðarnefnda atriðið, verður að líta svo á að varnaraðili hafi með framlögðum gögnum og málatilbúnaði sínum að öðru leyti, sýnt fram á að hún hafi greitt ýmsan kostnað fyrir móður sína á árunum 2000 til 2008. Þannig eru lagðir fram reikningar á nafni hinnar látnu vegna ýmissa útgjalda og sýndar úttektir af bankareikningum varnaraðila og manns hennar með sömu fjárhæðum á eðlilegum tíma miðað við dagsetningar reikninganna. Þá sést á gögnum málsins að mjög lítið var tekið út af reikningum hinnar látnu á þessum árum, sem styður það að varnaraðili hafi greitt öll útgjöld fyrir hana. Fallast verður á það með varnaraðila að ekki sé hægt að krefjast þess að hún stæði straum af framfærslu móður sinnar þessi ár og að hún hafi átt rétt á að fá kostnað vegna þessa endurgreiddan. Verður það ekki einungis talið taka til þeirra útgjalda sem gögn eru fyrir, heldur einnig útgjalda vegna venjulegrar daglegrar framfærslu og verður sá kostnaður talinn hæfilega áætlaður af hálfu varnaraðila í gögnum málsins, meðal annars með hliðsjón af skýrslum varnaraðila og vitna við aðalmeðferð málsins. Það styður þessa niðurstöðu að sóknaraðilar viðurkenna að varnaraðili eigi að fá endurgreiðslu að hluta, þ.e. fyrir þær greiðslur sem gögn liggja fyrir um á árunum 2007 og 2008. Verður því gengið út frá því að varnaraðili hafi átt rétt á endurgreiðslu útgjalda sinna fyrir hina látnu á árunum 2000 til 2008 og að greiðslur af bankareikningi hinnar látnu til varnaraðila á árunum 2007 og 2008 sé eðlileg endurgreiðsla þeirra útgjalda og verður því hafnað kröfum sóknaraðila að þessu leyti.

Af hálfu sóknaraðila er því sérstaklega mótmælt að endurgreiddur skuli hafa verið kostnaður vegna bifreiðar hinnar látnu og einkum byggt á því að hún hafi ekki haft bílpróf. Talið verður sannað af gögnum málsins að hin látna keypti bifreið á árinu 2000, en áður hafði hún átt bifreið sem hafði verið keypt áður en maður hennar lést. Verður að taka undir það með varnaraðila að hinni látnu var auðvitað frjálst að eiga bifreið og bera kostnað af henni og ekki óeðlilegt að sú bifreið hafi verið notuð af þeim sem sinntu henni mest.

 Sóknaraðilar byggja kröfur sínar um endurgreiðslu að nokkru leyti á reglum um fyrningu og tómlæti. Þeir líta svo á að með því að láta svo langan tíma líða þar til gerð var gangskör að því að endurgreiða varnaraðila útgjöld hennar fyrir hina látnu, hafi varnaraðili misst réttindi til þess að fá endurgreiðslu vegna útgjaldanna. Auk þess sem nærtækt hlýtur að vera að reglur fyrningarlaga um peningalán, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2001 gildi, verður að líta til þess hér, að endurgreiðslurnar hafa þegar farið fram og að því er haldið er fram af hálfu varnaraðila voru þær framkvæmdar að beiðni hinnar látnu sem hafi viljað standa skil á skuldum sínum. Er því ekki um það að ræða að byggja hér á reglum um fyrningu eða tómlæti, eins og kæmi til skoðunar ef um væri að ræða þá aðstöðu að aðili sem hefði lagt út fyrir annan væri að krefjast endurgreiðslu. Hin látna hafði fullt lögræði þar til hún lést og verður gengið út frá því að vilji hennar hafi staðið til þess að endurgreiðslur til varnaraðila vegna framfærslukostnaðar hennar og annarra útgjalda fóru fram árin 2007 og 2008, enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars.

Að því er varðar innlausn ríkisskuldabréfa sem deilt er um, liggur fyrir að varnaraðili hafði umboð hinnar látnu, eiganda bréfanna, til að innleysa þau og fyrirmæli um að andvirði þeirra skyldi leggjast inn á reikning varnaraðila. Þá kemur fram af hálfu varnaraðila að hin látna hafi viljað gefa henni andvirði bréfanna og hefur ekkert komið fram í málinu sem hrekur það að hin látna hafi ætlað að gefa dóttur sinni þessa fjármuni, eins og ofangreint umboð og fyrirmæli í því benda til. Er því heldur ekki hægt að fallast á kröfu sóknaraðila að þessu leyti.

Það verður því, með vísan til framangreinds, niðurstaða málsins að hafnað er öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir eftir atvikum mega ákveða að  hver aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, A, B, C, D og E á hendur varnaraðila, F,  er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.