Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Erfðaskrá
- Arfleiðsluhæfi
|
|
Þriðjudaginn 5. júní 2012. |
|
Nr. 337/2012.
|
B (Kristján Stefánsson hrl.) gegn C og D (Lára Valgerður Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að erfðaskrá A frá 17. maí 2010 yrði metin ógild, þar sem A hefði skort andlegt hæfi til að gera umrædda erfðaskrá, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2012, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að erfðaskrá A frá 17. maí 2010 væri ógild. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind erfðaskrá verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði því ekki til álita.
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði eru málsaðilar börn A, sem fædd var í [...]. Hún var svipt fjárræði að ósk varnaraðila í febrúar 2010, en gerði erfðaskrá þá sem deilt er um í málinu 17. maí sama ár. A lést ári síðar og var bú hennar tekið til opinberra skipta í september 2011.
Samkvæmt 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er fjárræði ekki skilyrði fyrir að mega ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Sá sem vill vefengja erfðaskrá verður samkvæmt 2. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr., laganna að sanna að arfleifandi hafi ekki, á þeim tíma er hann gerði erfðaskrána, verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Með vísan til þeirra sönnunargagna sem nefnd eru í forsendum hins kærða úrskurðar, einkum vottorðs og vitnisburðar E yfirlæknis, verður talið að varnaraðilar hafi fært sönnur á að A hafi skort hæfi til að gera erfðaskrána 17. maí 2010. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, B, greiði varnaraðilum, C og D sameiginlega, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2012.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 2. apríl sl., barst dóminum með bréfi skiptastjóra, Styrmis Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, dagsettu 26. október 2011. Styðst málskotið við 3. mgr. 53. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Sóknaraðilar málsins eru C, [...] og D, [...].
Varnaraðili er B, [...].
Sóknaraðilar krefjast þess að erfðaskrá, dagsett 17. maí 2010, sögð gerð af A, verði dæmd ógild. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði með dómi að erfðaskrá, dagsett 17. maí 2010, sé undirrituð af arfleifanda og verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi arfleifanda. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.
I
Eins og fram kemur í greinargerðum aðila og gögnum málsins, lést arfleifandi, A, kt. [...], þann 27. maí 2011, en hún dvaldi á hjúkrunarheimilinu [...] þegar hún lést. Sat A í óskiptu búi ásamt sóknaraðilum eftir látinn maka, en maður hennar, F, lést 17. janúar 2006. F var hvorki faðir varnaraðila né G.
Arfleifandi var svipt fjárræði að ósk sóknaraðila með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2010. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti úrskurðinn 12. mars 2010. Arfleifandi veitti varnaraðila svokallað óafturkallanlegt allsherjarumboð síðla árs 2008, en umboðið var afturkallað í kjölfar fjárræðissviptingarinnar og Jón Eysteinsson hæstaréttarlögmaður skipaður lögráðamaður arfleifanda.
Meðal málsgagna eru ljósrit af tveimur erfðaskrám arfleifanda. Sú fyrri er dagsett 8. apríl 2010 en sú síðari 17. maí 2010. Eru erfðaskrárnar samhljóða utan breyttrar dagsetningar og undirritunarstaðar arfleiðsluvotta. Þá eru erfðaskrárnar vottaðar af tilkvöddum arfleiðsluvottum sem votta undirritun arfleifanda.
Í læknisvottorði yfirlæknis hjúkrunarheimilisins [...], E, dagsettu 20. janúar 2010, kemur fram að arfleifandi hafi verið hjúkrunarsjúklingur á [...] frá 1. nóvember 2008. Hún sé andlega skert með einkenni heilabilunar. Borið hafi á gleymsku, óáttun og verulegum ranghugmyndum með miklum kvíða og spennu. Hafi ýmsir líkamlegir kvillar hrjáð hana og leitt til vanlíðan. Telur læknirinn hana vera ófæra vegna veikinda sinna að taka ábyrgð á eigin fjármálum.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að daginn eftir að arfleifandi hafi undirritað fyrri erfðaskrána hafi þáverandi lögmaður varnaraðila, Magnús Björn Brynjólfsson hæstaréttarlögmaður, sent sýslumanninum í Keflavík tölvupóst þar sem fram komi að fulltrúi sýslumannsins hafi daginn áður neitað honum um að fara með sér á elliheimilið þar sem A hafi dvalið til að staðfesta undirritun móður varnaraðila á erfðaskrána. Fulltrúinn hafi jafnframt neitað að færa erfðaskrána inn í notarialbókina. Hafi lögmaðurinn óskað skýringa á þessu og áréttað fyrirspurn sína í bréfi 12. apríl 2010. Sýslumaður hafi svarað bréfinu 14. apríl 2010 og þar segi meðal annars orðrétt: „Færsla erfðaskrár í notarialbók er lögbókandagerð sem skv. 1. mgr. 2. gr. laga um lögbókandagerðir nr. 86/1989 telst opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um. Með vísan til framangreinds úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness er augljóst að sýslumaðurinn í Keflavík sem lögbókandi getur ekki með lögbókandagerð staðfest hæfi arfláta til að standa að efni erfðaskrárinnar, sbr. einnig ákvæði 6. gr. laga um lögbókandagerðir. Erfðaskrá er löggerningur sem felur í sér ráðstöfun á fjármunum arfláta. Í 1. mgr. 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er lögfest sú grundvallarregla um réttaráhrif fjárræðisskorts að ófjárráða maður ráði ekki fé sínu. Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. lögræðislaga ræður lögráðamaður yfir fé ólögráða manns. Með umræddri erfðaskrá er áformað að ráðstafa ríflega þriðjungi allra eigna fjárræðissvipts arfláta án samráðs við skipaðan lögráðamann eða yfirlögráðanda.“
Lögmaður varnaraðila hafi þá skrifað bréf til lögráðamanns A 19. apríl 2010 og óskað þess að hann kynnti A erfðaskrána og spyrði hvort hún væri henni samþykk, vottaði hana með undirritun sinni og sæi síðan um að færa erfðaskrána til skráningar hjá lögbókanda í Keflavík. Lögráðamaður hafi þá skrifað sýslumanni 26. apríl 2010 og framsent honum erindið frá lögmanninum, en jafnframt getið þess að hann teldi þá ráðstöfun sem kæmi fram í erfðaskránni óeðlilega gagnvart öðrum erfingjum dánar- og félagsbús hinnar fjárræðissviptu og látins eiginmanns hennar, F. Sýslumaður hafi svarað lögráðamanninum 7. júní 2010 og vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 58. gr. lögræðislaga réði lögráðamaður ófjárráða manns yfir fé hans. Yfirlögráðandinn í Keflavík myndi ekki gera athugasemdir við það mat lögráðamannsins að ráðstöfunin í erfðaskránni gæti verið óeðlileg gagnvart öðrum erfingjum og því að lögráðamaðurinn hafnaði undirritun erfðaskrárinnar. Hafi lögráðamaðurinn hafnað því erindi lögmanns varnaraðila.
Að beiðni sýslumannsins í Keflavík var dánarbú A tekið til opinberra skipta með úrskurði uppkveðnum 28. september 2011 og var Styrmir Gunnarsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri búsins sama dag. Í kröfu skiptastjóra um úrlausn héraðsdóms um ágreining við skiptin, með vísan til 53. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, kemur fram að á skiptafundi sem haldinn hafi verið í dánarbúinu 18. júní 2008 hafi komið fram ágreiningur á milli erfingja hinnar látnu um gildi erfðaskrár og hafi verið ákveðið á þeim fundi að vísa ágreiningi erfingjanna til úrlausnar héraðsdóms.
Mál þetta var þingfest 16. nóvember 2011. Aðalmeðferð hófst í þinghaldi 27. mars sl. en ekki tókst að ljúka henni þá vegna þess að ekki hafði tekist að boða varnaraðila auk tveggja vitna í þinghald til skýrslugjafar þeirra í málinu. Var aðalmeðferð málsins síðan fram haldið 2. apríl sl. og var málið tekið til úrskurðar þann dag að loknum munnlegum málflutningi.
II
Sóknaraðili kveðst byggja á því að þegar arfleifandi hafi undirritað umrædda erfðaskrá hafi hún verið svipt fjárræði. Henni hafi verið skipaður lögráðamaður. Erfðaskrá sé löggerningur sem feli í sér ráðstöfun á fjármunum arfláta. Í 1. mgr. 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sé lögfest sú grundvallarregla um réttaráhrif fjárræðisskorts að ófjárráða maður ráði ekki fé sínu. Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. lögræðislaga ráði lögráðamaður yfir fé þess sem ólögráða er. Sú ráðstöfun sem fólst í erfðaskránni hafi verið veruleg, eða ríflega þriðjungur allra eigna A. Ráðstöfunin hafi verið gerð án samþykkis skipaðs lögráðamanns eða yfirlögráðanda.
Enn fremur sé vísað til þess að arfleifandi hafi á þeim tíma sem hún hafi undirritað erfðaskrána verið svo andlega skert vegna heilabilunar að hún hafi verið ófær um að taka ábyrgð á eigin fjármálum eins og fram komi í vottorði læknisins E. Hún hafi þar af leiðandi alls ekki verið fær um að gera erfðaskrá þar sem hún hafi verið ófær um að átta sig á því hversu miklum verðmætum hún hafi verið að ráðstafa eða með hvaða hætti sú ráðstöfun væri.
Auk þess sem erfðaskráin sé ógild af framangreindum ástæðum sé hún einnig ógild þar sem hún feli í sér ólögmæta ráðstöfun þar sem arfláti hafi setið í óskiptu búi. Samkvæmt 20. gr. erfðalaga nr. 8/1962 geti maki, sem sitji í óskiptu búi, aðeins ráðið yfir sínum hluta úr búinu með erfðaskrá.
Varðandi kröfu um málskostnað vísa sóknaraðilar til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili reisir kröfur sínar á því að arfláti hafi fullnægt skilyrðum VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962 til þess að gera erfðaskrá. Fjárræði, sé ekki hæfisskilyrði samkvæmt 34. gr. laganna. Ákvörðun arfláta sé skynsamleg og leiti eftir að jafna stöðu skylduerfingja, að því marki, sem lög framast heimili. Með vottorði og framburði arfleiðsluvotta, svo og framburði lögmanns, ætlar varnaraðili að hann leiði nægjanlega sterk rök og líkur að því, að arfleiðandi hafi búið að svo heilli andlegri heilsu að hún hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun sem vilji hennar hafi staðið til og erfðaskrá geymi.
Þá heldur varnaraðili því fram að með dómi Hæstaréttar hafi arfláti ekki verið talin fær um að fara með fjárreiður vegna skertrar andlegrar getu að virtu ósamlyndi skylduerfingja. Heimild til ráðstöfunar eigna með erfðaskrá verði á engan hátt jafnað við færi einstaklings til þess að sjá um eigin fjárreiður. Kröfur um hæfi taki öðru fremur mið af staðreyndum vilja arfláta og skilningi hans á því að með erfðaskrá sé hann að ráðstafa eignum sínum.
IV
Við aðalmeðferð málsins gaf sóknaraðilinn D skýrslu, svo og varnaraðili, B, og vitnin E yfirlæknir, Jón Eysteinsson, hæstaréttarlögmaður, Magnús Björn Brynjólfsson, hæstaréttarlögmaður, H, I og J hjúkrunarfræðingur
D, kvað móður sinni hafa hrakað ört eftir að eiginmaður hennar lést árið 2006. Eftir að hún hafi komist inn á [...] hafi henni enn hrakað og einnig alveg verið bundin hjólastól. Þá kveður sóknaraðili ástæðu þess að móðir hennar hafi verið svipt fjárræði hafa verið þá að varnaraðili hafi allt í einu verið kominn inn í öll fjármál móður þeirra. Meðal annars hafi hann verið búinn að loka heiðursbók sem faðir sóknaraðila hafi stofnað á sínum tíma. Hafi hann auk þess tekið peninga út af henni og fært yfir á annan reikning. Hafi varnaraðili jafnframt verið kominn með allsherjarumboð. Þá bar sóknaraðili að þær systur hafi ekki orðið varar við að móðir þeirra væri að gera erfðaskrá. Að auki þekki hún ekki til þeirra aðila sem votti umrædda erfðaskrá. Hafi þeim fyrst orðið kunnugt um þessa erfðaskrá eftir að lögráðamaður móður þeirra kom að málinu, þ.e. varðandi það að erfðaskráin yrði ekki stimpluð af sýslumanni. Kveður sóknaraðili að það hafi á engan hátt verið vilji móður hennar sem fram komi í erfðaskránni, þar á meðal um útfararstað.
Varnaraðili, B, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvað hann móður sína hafa í byrjun leitað til hans vegna bréfs frá skattinum og í kjölfarið hafi hún beðið hann um að sjá um öll sín fjármál og því hafi hann fengið til þess umrætt umboð. Aðdraganda þess að erfðaskrá hafi verið gerð kvað varnaraðili vera þann að hann hafi fengið þá vitneskju í bankanum að sýslumaður hafi yfirtekið reikningana og að það væri búið að svipta móður hans fjárræði. Hafi hann þá haft samband við Jón Eysteinsson og sýslumann og þannig komist að því að fjárræðissviptingin væri löngu um garð gengin. Þannig hafi engin vitað af þessu nema systur hans tvær. Upp frá þessu hafi móðir hans farið að spyrja hann hvernig málum væri nú háttað eftir að hafa verið svipt og Jón Eysteinsson væri nú fjárhaldsmaður hennar og hvernig hún gæti jafnað hlut þeirra systkina. Kvaðst varnaraðili hafa af þessum sökum gengið í málið. Aðspurður um hvernig það hafi gengið fyrir sig að móðir hans undirritaði erfðaskránna kvaðst varnaraðili hafa farið með erfðaskránna til hennar ásamt H og I og lesið hana upp fyrir hana. Hafi hún skrifað undir erfðaskrána og þeir H og I vottað hana. Hafi þeir svo þurft að votta hana aftur seinna þar sem að villa hefði verið í hinni fyrri. Hafi hann áður farið með erfðaskránna til Sýslumannsins í Keflavík til að fá hana inn í notarialbók en hann hafi neitað því á þeim forsendum að Jón Eysteinsson væri fjárhaldsmaður og að hún mætti því ekki gera þetta. Af þeim sökum þurfti varnaraðili sjálfur að útvega votta að erfðaskránni.
Vitnið Jón Eysteinsson hæstaréttarlögmaður gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa móttekið erfðaskránna frá Magnúsi lögmanni 21. apríl 2010. Hafi hann lesið þá erfðaskrá yfir, sem dagsett sé 8. apríl 2010, en minntist þess ekki að hafa séð hina. Hafi hann í kjölfarið sent bréf til yfirlögráðanda þar sem hann hafi greint frá því að erfðaskráin fæli í sér verulega ráðstöfun á fjármunum hins fjárræðissvipta. Hafi því bréfi verið svarað 7. júní 2010 af yfirlögráðanda í Keflavík sem hafi tekið undir það sjónarmið að það bæri að hafna því að undirrita erfðaskránna sem að lögráðamaður taldi að þyrfti að gera í ljósi þess að viðkomandi hafði verið svipt fjárræði. Aðspurt kvaðst vitnið einu sinni hafa heimsótt hina látnu þ.e. 20. apríl 2010, eftir að hann hafi verið skipaður lögráðamaður hennar, í þeim eina tilgangi að athuga hvernig almennt væri búið að henni og hafi hann þá ekki haft neina vitneskju um umrædda erfðaskrá.
Vitnið Magnús Björn Brynjólfsson hæstaréttarlögmaður bar fyrir dómi að hann hafi verið skipaður verjandi A í fjáræðissviptingarmáli og hafi skilað greinargerð til Hæstaréttar eftir að A hafi verið svipt fjárræði. Hafi hann fengið umboð frá henni til að gæta hagsmuna hennar fyrir Hæstarétti. Vitnið greindi frá því að það hefði komið A á óvart að búið væri að svipta hana fjárræði auk þess sem hún hafi verið ósátt með það. Í kjölfarið hafi hún viljað rétta hlut sonar síns með því að gera erfðaskrá. Þá kvaðst vitnið hafa átt símtal við A auk þess sem það hafi farið [...] til að ræða gerð erfðaskrár. Hafi hún haft uppi ákveðnar óskir eins og t.d. með jarðsetningu og ráðstafanir á tilteknum munum. Kvað vitnið einnig að það hafi verið einlægur vilji A að ráðstafa meira til varnaraðila og G og hafi það átt rætur að rekja til uppákomunnar vegna fjárræðissviptingarinnar. Hafi A komið vitninu fyrir sem alveg vel áttuð. Hafi hann hitt hana einu eða tvisvar sinnum og þá með varnaraðila. Þá bar vitnið að það hafi ekki verið viðstatt þegar A hafi undirritað erfðaskrárnar. Aðspurt um aðkomu sína að fjármálum A fyrir fjárræðissviptinguna bar vitnið að það hafi útbúið óafturkræft umboð til varnaraðila að ósk A og varnaraðila. Hafi umboð þetta að sögn vitnisins orðið til þess að ákveðin atburðarrás hafi farið í gang og ástæða þess að beðið hafi verið um fjárræðissviptingu.
Vitnið H kom fyrir dóminn og kvaðst þekkja varnaraðila en ekki þekkja móður hans neitt. Hafi hann hitt hana tvisvar vegna undirritunar á erfðaskránni. Að sögn vitnisins hafi hún komið vel fyrir. Telur vitnið að hún hafi verið fullkomlega meðvituð um hvað hún hafi verið að gera. Vitnið bar að þeir hafi þrír verið viðstaddir, hann, varnaraðili og I og hafi erfðaskráin verið lesin upp og hafi svo verið ritað undir hana. Að sögn vitnisins tengist hann málinu eingöngu sem vinur varnaraðila þar sem að hann hafi beðið hann um að votta þessa erfðaskrá fyrir sig. Hafi hann áður lesið yfir erfðaskránna og ekki getað séð að eitthvað væri að henni.
Vitnið I kvað varnaraðila hafa haft samband við sig og beðið vitnið að vera vott að umræddri erfðaskrá. Kvaðst vitnið ekki hafa þekkt til I og aðeins hafa hitt hana með varnaraðila og H til að vera vottur að erfðaskránni. Bar vitnið að það hafi ekki getað séð annað en að hún hafi alveg vitað hvað hún væri að gera. Aðspurt sagðist vitnið ekkert sérstaklega hafa rætt við hana í þessi tvö skipti en hann hafi vitað um fjárræðissviptinguna og einnig heyrt á henni að hún væri leið yfir því.
E, yfirlæknir, kom fyrir dóminn og bar um heilsufar A. Hann kvaðst telja að hún hafi ekki haft skilning á því hvað það þýddi almennt að skrifa undir skjöl. Hafi hann verið hennar læknir á [...] frá því að hún hafi komið þangað 1. nóvember 2008 og þar til hún lést þann 27. maí 2011. Vitnið bar að tilefni þess að læknisvottorðið hafi verið skrifað hafi verið að héraðsdómari hafi haft samband við sig og beðið hann um að votta um andlegt heilbrigði A. Vitnið bar að ekkert hafi verið talað við það um erfðaskránna á þeim tíma þegar hún hafi verið gerð. Enn fremur að þegar A hafi komið á [...] hafi það legið fyrir að hún væri komin með heilabilun auk ýmissa andlegra og geðrænna kvilla sem höfðu hrjáð hana um árabil. Aðspurður um einkenni heilabilunar kvað vitnið hana vera fyrst og fremst gleymska til að byrja með. Þannig sé það nærminnið sem fari og svo haldi þessi sjúkdómur áfram. Kvaðst vitnið hafa fylgst með A í hverri viku allan þennan tíma og með ástandi hennar. Auk gleymsku hafi líka verið um að ræða andlega vanlíðan, kvíða og spennu hjá henni. Ekki hafi verið leitað til vitnisins um það að fram færi athugun á því hvort að A gæti gert erfðaskrá. Kvað vitnið hana hafa verið misjafna. Þannig hafi ekki verið hægt að halda uppi samræðum við hana og hafi hún heldur ekki fylgst með því sem hafi verið að gerast í kringum hana. Hafi hún þá ekki verið þátttakandi í félagslífi heimilisins eða átt samskipti við aðra vistmenn. Frá upphafi hafi hún bara viljað liggja fyrir og þurft mikla hvatningu til að fást fram úr rúminu. Hafi þetta svo einungis farið versnandi. Aðspurt um ranghugmyndir hennar bar vitnið að þær hafi aðallega snert sjúkdóma sem hún hafi verið mjög upptekin af. Vitnið bar einnig að A hafi verið á þunglyndislyfjum, kvíðadempandi lyfjum, verkjalyfjum og morfínskyldum lyfjum.
Þá kom fyrir dóminn J hjúkrunarfræðingur. Kvað hún heilsu A hafa hrakað eftir að hún kom inn á [...]. Hafi hún verið haldin kvíða, þunglyndi og gleymsku og hafi gleymskan verið orðin áberandi. Aðspurð um fjárræðissviptinguna kvað vitnið að hún og E læknir hafi verið búin að ræða þannig saman að það þætti ekkert óeðlilegt að A gæti ekki séð um sín fjármál og þess vegna hafi læknisvottorðið verið skrifað. Vitnið bar einnig að því hefði fundist að A hafi ekki verið fær um að gera erfðaskrá eða það alla vega vera hæpið miðað við hvernig sjúkdómsástand hennar hafi verið orðið á þessum tíma.
V
Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að ekki væri vefengt að móðir sóknaraðila, A, hefði undirritað erfðaskránna frá 17. maí 2010.
Sóknaraðilar byggja í fyrsta lagi á því að þegar arfleifandi hafi undirritað umrædda erfðaskrá hafi hún verið svipt fjárræði og að sú ráðstöfun sem hafi falist í erfðaskránni hafi verið gerð án samþykkis skipaðs lögráðamanns eða yfirlögráðanda. Vísar sóknaraðili í því sambandi til þess að í 1. mgr. 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sé lögfest sú grundvallarregla um réttaráhrif fjárræðisskorts að ófjárráða maður ráði ekki fé sínu.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að fjárræði sé ekki hæfisskilyrði samkvæmt 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Samkvæmt þessu hefur fjárræðissvipting ekki bein áhrif á arfleiðsluhæfið. Sá sem sviptur hefur verið fjárræði getur því gert erfðaskrá ef hann hefur aldur til þess og er svo heill andlega að hann er fær um að gera erfðaráðstöfun á skynsamlegan hátt. Það sem sker úr um hæfið er það hvort arfleifandi telst geta gert erfðaráðstöfun á skynsamlegan hátt. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að samkvæmt 1. mgr. 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ræður ófjárráða maður ekki yfir fé sínu, en það gerir lögráðamaður hans, sbr. 3. mgr. 58. gr. sömu laga. Er fallist á það með sóknaraðilum að ráðstöfun A á rúmum einum þriðja eigna sinna með hinni umþrættu erfðaskrá frá 17. maí 2010 sé veruleg ráðstöfun. Slík ráðstöfun án þess að tilkomi samþykki lögráðamanns og yfirlögráðanda er að mati dómsins ekki gild ráðstöfun að lögum í tilviki ófjárráða manns, sbr. 3. mgr. 69. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Þá er í öðru lagi á því byggt af hálfu sóknaraðila að arfleifandi hafi á þeim tíma sem hún hafi undirritað erfðaskrána verið svo andlega skert vegna heilabilunar að hún hafi verið ófær um að taka ábyrgð á eigin fjármálum og þar af leiðandi alls ekki verið fær um að gera hina umræddu erfðaskrá. Af hálfu varnaraðila er á hinn bóginn á því byggt að arfleifandi hafi búið að svo heilli andlegri heilsu að hún hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun er vilji hennar hafi staðið til og erfðaskrá geymir.
Um það álitaefni hvort arfleifandi hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera hina umdeildu erfðaskrá með skynsamlegum hætti verður litið til gagna málsins og framburða fyrir dómi. Leggja ber mat á það hvort arfleifandi verði talin hafa haft nægan skilning á raunhæfu og lagalegu gildi arfleiðslunnar og hæfni til að bregðast við slíkum skilningi. Meðal málsgagna er vottorð læknis um heilsufar A, dagsett 20. janúar 2010, undirritað af E, yfirlækni á [...]. Fram er komið að leitað var eftir því vottorði í tengslum við kröfu um fjárræðissviptingu á hendur arfleifanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Í vottorðinu kemur fram að A sé andlega skert með einkenni heilabilunar og að borið hafi á gleymsku, óáttun og verulegum ranghugmyndum með miklum kvíða og spennu. Ýmsir líkamlegir kvillar hafi jafnframt hrjáð hana og leitt til vanlíðunar. Telur læknirinn hana því ófæra vegna veikinda um að taka ábyrgð á eigin fjármálum.
Eins og rakið er í kafla IV gáfu annar sóknaraðila og varnaraðili málsins, svo og vitni, skýrslur fyrir dómi og báru meðal annars um ástand arfleiðanda um það leyti sem hún gerði hina umdeildu erfðaskrá. Er ljóst af vitnisburði E, yfirlæknis, að hann mat ástand hennar svo að hún hefði þegar við innlögn á [...] verið orðin gleymin og þar að auki haldin andlegri vanlíðan, kvíða og spennu, sem hafi einungis farið versnandi. Af vitnisburði hans má ráða að hann taldi A ekki hafa verið færa um að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti á þessum tíma. Þá er einnig ljóst af vitnisburði J hjúkrunarfræðings, að hún mat heilsu A svo að henni hefði hrakað eftir að hún kom inn á [...] og að gleymskan hafi verið orðin áberandi. Af vitnisburði hennar þykir ljóst að hún taldi A ekki hafa verið færa um að gera erfðaskrá miðað við hvernig sjúkdómsástand hennar hafi verið orðið á þessum tíma.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins, en þó sérstaklega að athuguðu fyrirliggjandi læknisvottorði og vitnisburðum yfirlæknis og hjúkrunarfræðings á [...], verður niðurstaða dómsins sú að varnaraðila hafi ekki tekist að sanna að A hafi verið svo heil heilsu andlega á því tímamarki, sem hún gerði hina umdeildu erfðaskrá 17. maí 2010, að hún hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. ákvæði 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þegar allt framangreint er virt verður talið að sýnt hafi verið fram á að arfleifanda hafi skort andlegt hæfi til þess að gera erfðaskrá í skilningi framangreinds ákvæðis erfðalaga þann 17. maí 2010 og verður því niðurstaða dómsins sú að hún sé ógild og verði því ekki lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi arfleifanda.
Eftir atvikum þykir rétt að sóknaraðilar og varnaraðili beri sinn kostnað af málinu.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Erfðaskrá A, frá 17. maí 2010, er ógild.
Málskostnaður fellur niður.