Hæstiréttur íslands

Mál nr. 439/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Eignarréttur
  • Sértökuréttur


                                     

Mánudaginn 17. ágúst 2015.

Nr. 439/2015.

Þrotabú Svavars Helgasonar

(Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.)

gegn

Elínu H. Hauksdóttur

(Hilmar Magnússon hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Eignarréttur. Sértökuréttur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa E var viðurkennd sem sértökukrafa við gjaldþrotaskipti S, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið átti rætur að rekja til fjármuna sem fundust í geymsluhólfi sem S hafði haft á leigu hjá Í hf., en E átti jafnframt aðgang að hólfinu. E krafðist þess að sér yrðu afhentir peningarnir, sem hún kvað tilheyra sér að öllu leyti. Í dómi Hæstaréttar var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest að peningarnir hafi í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verið í vörslum S þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Var aftur á móti talið að E hefði ekki sannað að peningarnir hefðu tilheyrt henni í raun. Þar að auki var ekki talið unnt að líta svo á að féð hefði verið sérgreint í vörslum S þannig að skilyrði væru til að verða við kröfu hennar. Af þeim sökum var kröfu E um afhendingu fjárins hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2015, þar sem viðurkennd var krafa, sem varnaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila, um að henni yrðu afhentar í peningum 1.320.000 krónur, 17.920 evrur, 7,50 danskar krónur, 8.961 bandaríkjadalur, 300 norskar krónur og 145 sterlingspund og þeirri kröfu skipað í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og henni gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Svavars Helgasonar tekið til gjaldþrotaskipta 6. janúar 2014 eftir kröfu Frjálsa hf., sem var studd við árangurslaust fjárnám sem gert var hjá honum 16. maí 2013. Í skattframtali þrotamannsins 2011 færði hann sér meðal annars 46.092.505 krónur til hreinna tekna af eigin atvinnurekstri, en á hinn bóginn voru heildartekjur hans 1.600.000 krónur samkvæmt skattframtali 2012, 450.000 krónur eftir framtali 2013 og engar samkvæmt framtali 2014. Við könnun skiptastjóra kom fram að þrotamaðurinn hafi haft á leigu geymsluhólf hjá Íslandsbanka hf., sem hann hafi gert samning um við eldri banka með sama heiti síðla árs 2000, en eftir þeim samningi átti varnaraðili, sem er maki hans, jafnframt að eiga aðgang að hólfinu. Samkvæmt yfirliti skiptastjórans fundust í þessu hólfi í reiðufé 1.320.000 krónur, 17.920 evrur, 7,50 danskar krónur, 8.961 bandaríkjadalur, 300 norskar krónur og 145 sterlingspund, auk ýmissa skjala, þar á meðal viðskiptabréf á nafni varnaraðila. Varnaraðili lýsti kröfu á hendur sóknaraðila 25. febrúar 2014 um afhendingu þessara peninga og skjala, sem hún kvað tilheyra sér að öllu leyti. Að því er peningana varðar kom fram í kröfulýsingu að féð í íslenskum krónum, sem var í geymsluhólfinu, ætti rætur að rekja til þess að hún hafi á árinu 2009 fengið að arfi eftir móður sína 9.023.200 krónur og hafi hún varðveitt hluta af því fé í hólfinu, en að öðru leyti hafi hún „í gegnum tíðina“ sett þar gjaldeyri, sem henni hafi „m.a. áskotnast vegna atvinnureksturs síns“ á sviði veitingastarfsemi. Skiptastjóri tók að mestu til greina kröfu varnaraðila um afhendingu skjala, en hafnaði á hinn bóginn kröfu hennar um afhendingu peninga. Ágreiningur reis um síðastnefnt atriði og vísaði skiptastjóri honum 26. nóvember 2014 til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 6. janúar 2015.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að peningarnir, sem deilt er um í málinu, hafi í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 verið í vörslum Svavars Helgasonar þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Að þessu virtu er því aðeins unnt að taka til greina kröfu varnaraðila um afhendingu peninganna, sem studd er við sama lagaákvæði, að þeim skilyrðum sé báðum fullnægt að hún njóti eignarréttar að fénu og það hafi verið sérgreint í vörslum sóknaraðila við upphaf skipta. Um fyrra skilyrðið er þess að gæta að ekki er unnt að fella á sóknaraðila að sýna fram á að þrotamaðurinn hafi verið þannig settur að hann hafi getað eignast peningana, sem um ræðir, heldur hvílir á varnaraðila að sanna að þeir tilheyri henni í raun. Þeirri sönnunarbyrði hefur varnaraðili ekki fullnægt, en að auki er ekki unnt að líta svo á að féð hafi verið sérgreint í vörslum þrotamannsins þannig að skilyrði væru til að verða við kröfu hennar. Af þessum sökum verður að hafna kröfu varnaraðila um afhendingu fjárins.

Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er að viðurkenna kröfu varnaraðila, Elínar H. Hauksdóttur, á hendur sóknaraðila, þrotabúi Svavars Helgasonar, um afhendingu á 1.320.000 krónum, 17.920 evrum, 7,50 dönskum krónum, 8.961 bandaríkjadal, 300 norskum krónum og 145 sterlingspundum.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, var þingfest 6. janúar 2015, en málið barst dómnum með bréfi skiptastjóra 26. nóvember 2014. Sóknaraðili er Elín H. Hauksdóttir, Lautasmára 4, Kópavogi. Varnaraðili er þrotabú Svavars Helgasonar.

Sóknaraðili krefst þess að síðari liður kröfu hans, sbr. kröfulýsingu, dagsetta 25. febrúar 2014, nr. 5 á kröfuskrá varnaraðila, um afhendingu á 17.920 evrum, 1.320.000 krónum, 7,50 dönskum krónum, 8.961 dollara, 300 norskum krónum og 145 pundum, verði viðurkenndur utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili einnig málskostnaðar.

Kröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og varnaraðila úrskurðaður málskostnaður úr hennar hendi.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2014 var bú Svavars Helgasonar tekið til gjaldþrotaskipta. Í sama þinghaldi var Einar Hugi Bjarnason hrl. skipaður skiptastjóri í búinu. Frestdagur við skiptin er 9. júlí 2013.

Við athugun skiptastjóra á því hvaða eignir og réttindi tilheyrðu þrotabúinu kom í ljós að þrotamaður var skráður leigutaki að geymsluhólfi í útibúi Íslandsbanka hf. við Suður­lands­braut í Reykjavík. Í kjölfarið tæmdi skiptastjóri hólfið. Ýmsir munir voru í hólfinu, bæði skjöl og peningar, svo sem nánar er rakið á framlögðu yfirliti.

Skiptastjóri lét birta innköllun í vefútgáfu Lögbirtingablaðsins 9. janúar 2014 og lauk kröfu­lýsingar­fresti 9. mars 2014. Með kröfulýsingu 25. febrúar 2014, sem móttekin var af skiptastjóra degi síðar, lýsti sóknaraðili, en hún er eiginkona þrotamanns, tvíþættri kröfu í búið á grund­velli 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í fyrri lið kröfulýsingarinnar var krafist afhendingar á ýmsum skjölum sem sóknaraðili taldi sig eiga í hólfinu og tengdust atvinnurekstri hennar. Í síðari lið kröfulýsingarinnar var krafist afhendingar á þeim peningum sem reyndust vera í hólfinu er það var tæmt af skiptastjóra.

Hinn 26. mars 2014 sendi skiptastjóri kröfuskrá þrotabúsins með rafrænum hætti til lögmanns sóknaraðila. Í kröfuskránni kom fram sú afstaða skiptastjóra að síðari lið kröfulýsingar sóknaraðila, þ.e. kröfunni um afhendingu peninganna, væri hafnað. Sú afstaða skiptastjóra byggðist á því að skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 væru ekki uppfyllt. Á skiptafundi 2. apríl 2014 var þeirri afstöðu skiptastjóra mótmælt af hálfu sóknaraðila. Fundir þar sem þess var freistað að jafna ágreininginn voru haldnir 27. maí 2014 og 21. nóvember 2014, en án árangurs. Vísaði skiptastjóri ágreiningnum því til dómsins á grundvelli 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991, sbr. fyrrnefnt bréf skiptastjóra 26. nóvember 2014.

Á skiptafundinum 27. maí 2014 afhenti skiptastjóri yfirlit yfir þá muni og fjárverðmæti sem voru í bankahólfinu. Byggist krafa sóknaraðila í málinu á yfirlitinu, en krafan er nokkuð lægri en kröfulýsing hennar hljóðaði á um. Á sama fundi féllst skiptastjóri á fyrri lið kröfulýsingar sóknaraðila og afhenti lögmanni hennar þá muni sem hún hafði gert kröfu um að fá afhenta.

II

Sóknaraðili vísar til þess að hún og þrotamaður hafi litið svo á að þau hefðu umrætt geymsluhólf á leigu í sameiningu. Leigugjald af geymsluhólfinu hafi verið greitt af sameiginlegum reikningi þeirra hjóna og hafi þau bæði haft óheftan aðgang að hólfinu. Af þeim sökum hafi munir, sem í hólfinu voru, alveg eins getað tilheyrt sóknaraðila eins og þrotamanni. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi hvorki þrotamanni né sóknaraðila verið gefið tækifæri á að vera viðstödd þegar hólfið var tæmt svo að þau gætu bent á eignir sem mögulega tilheyrðu þrotabúinu. Sóknaraðila hafi vissulega verið kunnugt um yfirvofandi gjaldþrot eiginmanns síns en hún hafi hins vegar verið alveg grunlaus um að skiptastjóri gæti tekið eigur hennar og fært inn í þrotabúið. Sóknaraðili hafi því enga þörf talið á því að taka fjármuni sína úr geymsluhólfinu.

Að sögn sóknaraðila er upplýst að allir þeir munir sem tilgreindir voru í fyrri lið kröfulýsingar sóknaraðila hafi tilheyrt henni en ekki þrotamanni. Þar hafi verið um veruleg fjárverðmæti að ræða sem á engan hátt hafi getað tilheyrt þrotamanni. Eins sé með þá peninga sem í geymsluhólfinu hafi verið. Þeir tilheyri sóknaraðila einnig alfarið. Telji sóknaraðili að skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu að öllu leyti uppfyllt í málinu fyrir afhendingu peninganna samkvæmt síðari lið kröfulýsingar hennar.

Sóknaraðili vísar til þess að á árinu 2009 hafi hún fengið arf vegna andláts móður sinnar að fjárhæð 9.023.200 krónur. Sóknaraðili hafi sett nær allan arfinn í geymsluhólfið til varðveislu. Því til staðfestingar bendir sóknaraðili á að 28. júní 2010 hafi hún tekið 8.500.000 krónur út af persónulegum reikningi sínum í reiðufé, sem samsvari nokkurn veginn þeirri upphæð sem sóknaraðili hafi fengið í arf eftir greiðslu erfðafjárskatts. Sama dag hafi sóknaraðili farið ásamt eiginmanni sínum með fjármunina í geymsluhólfið. Ekki hafi verið krafist undirritunar beggja aðila. Samkvæmt áðursögðu telji sóknaraðili að hún og þrotamaður hafi bæði verið leigjendur geymsluhólfsins, enda hafi sóknaraðili nýtt hólfið sem sitt eigið, svo sem gögn þau sem í hólfinu voru beri ljóslega með sér. Verði leigusamningur um hólfið ekki skýrður á annan hátt, en sérstaklega sé getið um aðgang sóknaraðila að hólfinu í samningnum.

Einnig er á því byggt af hálfu sóknaraðila að þegar litið sé til skattframtala þeirra hjóna megi sjá að tekjur þrotamanns hafi undanfarin ár verið litlar sem engar. Síðustu árin hafi eina framfærsla þrotamanns verið í formi fjárframlaga frá sóknaraðila. Sóknaraðili sé hins vegar mjög fjársterk. Hún sé bæði í umfangsmiklum atvinnurekstri og eigandi að félögum í rekstri. Að virtum eignum og tekjum þrotamanns sé því ljóst að hann hafi ekki haft til umráða þá peninga sem í geymsluhólfinu voru heldur sóknaraðili.

Þá vísar sóknaraðili til þess að þar sem allir munir samkvæmt fyrri lið kröfulýsingar sóknaraðila hafi verið taldir hennar eign megi leiða líkur að því að önnur fjárverðmæti, sem í hólfinu voru, séu einnig hennar eign. Bendir sóknaraðili á í því sambandi að þrotamaður hafi ekki verið skráður fyrir neinum eignum og einungis verið skráður vörsluaðili bifreiðarinnar VU-821. Sóknaraðili sé hins vegar ein eigandi að fasteigninni Lautasmára 4 í Kópavogi og meðeigandi að hesthúsinu að Flugvöllum 4 í Garðabæ ásamt þriðja aðila. Þá sé sóknaraðili ein eigandi SHS veitinga ehf., en það félag eigi stóra eign sem öll sé í útleigu. Jafnframt hafi sóknaraðili rekið veitingastaðinn Lækjarbrekku á árunum 2011 til 2013, en það ár hafi hún selt reksturinn með verulegum hagnaði.

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að hún hafi í gegnum tíðina lagt inn á geymsluhólfið erlendan gjaldeyri sem henni hafi áskotnast, einkum í tengslum við atvinnurekstur sinn. Þann erlenda gjaldeyri, sem viðskiptamenn Lækjarbrekku hafi innt af hendi, hafi sóknaraðili keypt fyrir íslenskar krónur og varðveitt í geymsluhólfinu. Með þeim hætti hafi sóknaraðili um nokkurt skeið safnað verulegum gjaldeyri í hinum ýmsu myntum. Þá liggi fyrir samkvæmt gögnum málsins að sóknaraðili hafi keypt dollara fyrir tæplega 1.000.000 króna sem skýri að stórum hluta þann gjaldeyri sem verið hafi að finna í geymsluhólfinu.

Samkvæmt öllu framangreindu telji sóknaraðili sig hafa fært sönnur á eignarrétt sinn að þeim fjármununum sem í geymsluhólfinu voru og hún krefjist afhendingar á í máli þessu. Umræddir fjármunir hafi verið nægjanlega sérgreindir þar sem þeir hafi verið varðveittir í geymsluhólfinu og því ekki blandast við önnur fjárverðmæti, öfugt við það sem verið hefði ef sóknaraðili hefði lagt þá á innlánsreikning.

III

Varnaraðili kveðst mótmæla öllum kröfum, röksemdum og málsástæðum sóknaraðila. Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu ekki uppfyllt í málinu. Þar af leiðandi sé skiptastjóra óheimilt að afhenda sóknaraðila hina umkröfðu peninga, enda sé um að ræða eign þrotabúsins. Af dómaframkvæmd verði ráðið tvö að skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að peningaeign í vörslum þrotabús verði afhent utan skuldaraðar. Annars vegar þurfi sá sem krefst peningafjárhæðar að sýna fram á eignarrétt að henni og hins vegar þurfi féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Sönnunarbyrðin um hvort skilyrðin séu uppfyllt hvíli samkvæmt þessu á sóknaraðila. Það sé mat varnaraðila að strangar kröfur verði að gera varðandi sönnun, enda séu gjald­þrota­skipti sameiginleg fullnustugerð þar sem gæta verði að jafnræði kröfuhafa. Varnaraðili telji að sóknaraðila hafi ekki tekist að axla sönnunarbyrði sína og sé hvorugt fyrrnefndra skilyrða uppfyllt í málinu.

Varðandi skilyrðið um sönnun á eignarrétti verði til þess að líta að 14. desember 2000 hafi þrotamaður undirritað samning um leigu á geymsluhólfi nr. 501 hjá Íslandsbanka hf. Samkvæmt skilmálum samningsins hafði aðeins þrota­maður, sem leigutaki, aðgang að geymsluhólfinu eða sá sem hann veitti til þess umboð. Með sama skjali hafi þrotamaður veitt sóknaraðila aðgang að geymsluhólfinu. Skjalið hafi ekki verið vottað líkt og áskilið hafi verið. Af skilmálum samningsins megi ráða að þrotamaður hafi verið eini leigutaki geymsluhólfsins. Þá riti hann einn undir samninginn. Af þessu leiði að löglíkur standi til þess að þrotabúið sé eigandi þeirra peninga sem geymdir voru í hólfinu, sbr. 72. og 73. gr. laga nr. 21/1991, enda fjár­munir­nir í vörslum þrotamanns.

Þau fjögur atriði sem sóknaraðili tiltaki í greinargerð sinni til sönnunar á eignarrétti sínum segir varnaraðili ekki geta hróflað við eigna­rrétti þrotabúsins. Til þess verði að líta að langur tími sé liðinn síðan umræddur arfur var greiddur út til sóknaraðila. Jafnframt sé sú peningafjárhæð í íslenskum krónum, sem verið hafi í hólfinu, aðeins brot af þeim arfi sem greiddur hafi verið út. Þá liggi ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi farið ásamt þrotamanni með fjármuni í geymsluhólfið sama dag og hún tók þá út af sínum persónulega reikningi. Einnig fari því fjarri að upplýsingar um eignir og tekjur þrotamanns í sameiginlegum skattframtölum þeirra hjóna sanni eignarrétt sóknaraðila að þeim peningum sem voru í geymslu­hólfinu, en óhjákvæmilegt sé að benda á að umrædd peningaeign var þar ekki talin fram. Þá hafni varnaraðili því alfarið að afhending hluta þeirra skjala sem fundist hafi í geymsluhólfinu leiði sjálfkrafa til þess að sóknaraðili teljist eigandi allra þeirra muna sem þar voru  geymdir. Fyrir liggi að skiptastjóri hafi ekki afhent sóknaraðila öll þau skjöl sem geymd voru í geymslu­hólfinu, sbr. framlagða fundargerð af skipta­fundi 27. maí 2014. Þá gildi strangari kröfur um afhendingu peninga en annarra verð­mæta svo sem nánar verði vikið að síðar. Skýringum sóknaraðila á tilurð hins erlenda gjaldeyris, sem í geymslu­hólfinu var, vísi varnaraðili á bug sem fjarstæðukenndum, enda sé eini löglegi gjaldmiðillinn á Íslandi íslensk króna, sbr. lög nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Veitingastaðnum Lækjar­brekku væri því óheimilt að taka við greiðslum í erlendum gjaldeyri í starfsemi sinni. Þá sé til þess að líta að engin tilraun hafi verið gerð til þess að skýra tilurð alls gjaldeyrisins og á fram­lögðum kvittunum fyrir gjaldeyriskaupum komi hvergi fram hvaða gjaldmiðil var verið að kaupa hverju sinni. Samkvæmt öllu framangreindu megi ljóst vera að skilyrðið um sönnun eignarréttar sé ekki uppfyllt í málinu.

Hvað skilyrðið um sérgreiningu varðar tekur varnaraðili fram að sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn meðal annars á því að bæði sóknaraðili og þrotamaður hafi haft óheftan aðgang að geymsluhólfinu og að þeir munir sem þar voru geymdir hefðu alveg eins getað tilheyrt sóknaraðila eins og þrotamanni. Það sé mat varnaraðila að þegar af þeirri ástæðu geti skilyrðið um sérgreiningu ekki verið uppfyllt. Við þær aðstæður hafi munir hvors aðila um sig blandast saman og því ómögulegt að átta sig á því hvor eigi hvað. Það sé áskilið með skilyrðinu um sérgreiningu að ekki fari á milli mála að sá sem haldi því fram að peningaeign sé í hans eigu hafi á réttu að standa. Því sé ekki fyrir að fara svo sem málum sé háttað hér. Skilyrðið um sérgreiningu sé því ekki uppfyllt.

Samkvæmt öllu framangreindu telji varnaraðili að því fari fjarri að skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt í málinu. Því beri dómnum að hafna kröfum sóknar­aðila.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 72.-74. gr., 87. gr. og 109. gr. laganna. Þá vísar hann einnig til laga nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands.

IV

Samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Í framkvæmd hefur verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til að ákvæðið eigi við varðandi peninga. Annars vegar þarf sá sem krefst peninganna að sýna fram á eignarrétt sinn að þeim. Hins vegar þurfa peningarnir að liggja sérgreindir í vörslum búsins.

Fyrir liggur að 14. desember 2000 undirritaði þrotamaður samning um leigu á geymsluhólfi nr. 501 hjá Íslandsbanka hf. Samkvæmt efni samningsins höfðu aðeins þrota­maður, sem leigutaki, og sóknaraðili, á grundvelli heimildar sem þrotamaður veitti henni í samningnum, aðgang að geymsluhólfinu. Af skilmálum samningsins má ráða að hann hafi einn verið leigutaki geymsluhólfsins. Samkvæmt þessu þykir nægjanlega í ljós leitt að hinir umdeildu fjármunir hafi verið í vörslum þrotabúsins í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús þrotamanns til gjaldþrotaskipta. Sú staðreynd að umræddur leigusamningur er ekki vottaður getur engu breytt við úrlausn málsins, enda ljóst að málatilbúnaður varnaraðila byggist á tilvist samningsins og þá hefur sóknaraðili ekki á nokkurn hátt vefengt gildi hans.

Sóknaraðila og þrotamanni ber saman um það að sóknaraðili sé eigandi þeirra peninga sem í geymsluhólfinu voru. Það eitt og sér dugar hins vegar ekki sem sönnun fyrir eignarrétti sóknaraðila að fjármununum samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991.

Þeirri staðreynd að þrotamaður var leigutaki geymsluhólfsins samkvæmt samningi við Íslandsbanka hf. verður ekki jafnað til þeirrar aðstöðu að hann hafi verið skráður eigandi hinna umdeildu fjármuna opinberri skráningu. Þá þykir hinn óhefti aðgangur, sem fyrir liggur að sóknaraðili hafði að geymsluhólfinu, einn og sér draga verulega úr því sönnunargildi er tilgreining þrotamanns sem leigutaka getur haft varðandi eignarrétt á peningunum.

Fyrir liggur að hvorki sóknaraðili né þrotamaður töldu hina umdeildu fjármuni fram til skatts. Ekkert liggur fyrir um það af hálfu varnaraðila hvaðan þrotamanni áskotnaðist þeir peningar sem þrotabúið heldur fram að hafi verið í hans eigu, en samkvæmt framlögðum gögnum, þ.m.t. skattframtölum, hefur sóknaraðili verið eignalaus og afar tekjulítill, jafnvel tekjulaus, síðustu árin. Af hálfu sóknaraðila hefur hins vegar verið sýnt fram á að hún eigi allnokkrar eignir og hafi staðið í töluverðum rekstri síðustu árin. Þá bera framlögð gögn með sér að hún hafi keypt gjaldeyri í nokkrum mæli síðustu misserin. Það sem upplýst hefur verið í málinu um tekjur og eignastöðu sóknaraðila annars vegar og þrotamanns hins vegar þykir því vera til stuðnings þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hún sé eigandi þeirra peninga sem í geymsluhólfinu voru.

Telja verður upplýst að leigugjald af geymsluhólfinu hafi verið greitt af sameiginlegum reikningi þrotamanns og sóknaraðila. Þá er samkvæmt áðursögðu upplýst að þau höfðu bæði óheftan aðgang að hólfinu, sbr. heimild þá sem þrotamaður veitti sóknaraðila er hann tók hólfið á leigu. Þá verður og að telja upplýst að langflestir þeirra muna sem í hólfinu voru, aðrir en hinir umdeildu peningar, voru eign sóknaraðila og hefur hún þegar fengið þá afhenta frá skiptastjóra. Að þessu og öðru framangreindu heildstætt virtu þykir sóknaraðila hafa tekist að færa á það nægjanlegar sönnur að hún sé eigandi þeirra fjármuna sem í geymsluhólfinu voru.

Svo sem áður var rakið voru hinir umdeildu fjármunir í vörslum þrotabúsins í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús þrotamanns til gjaldþrotaskipta. Varðandi það álitaefni hvort umræddir fjármunir hafi verið nægjanlega sérgreindir í vörslum búsins verður ekki framhjá því litið að í málinu er deilt um alla þá fjármuni sem skiptastjóri fann og tók úr geymsluhólfinu. Verður því ekki annað séð en peningarnir liggi fyrir til afhendingar. Samkvæmt því þykja þeir hafa verið nægjanlega sérgreindir í vörslum búsins. Að því gættu og með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan um eignarhald sóknaraðila á peningunum verður fallist á kröfur hennar í málinu.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 94. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Viðurkennd er utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. krafa sóknaraðila, Elínar H. Hauksdóttur, sbr. síðari lið kröfu hennar samkvæmt kröfulýsingu, dagsettri 25. febrúar 2014, nr. 5 á kröfuskrá varnaraðila, þrotabús Svavars Helgasonar, um afhendingu á 17.920 evrum, 1.320.000 krónum, 7,50 dönskum krónum, 8.961 dollara, 300 norskum krónum og 145 pundum.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.