Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 2016. |
|
Nr. 300/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) (A brotaþoli) |
Líkamsárás. Einkaréttarkrafa. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, mar og opið sár á nefi sem sauma þurfti með tveimur sporum. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að atlaga hans að A hefði verið tilefnislaus og harkaleg. Var refsing X ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða A 400.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, að því frágengnu að honum verði ekki gerð refsing í málinu, en loks að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 997.991 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 800.000 krónum frá 19. júlí 2013 til 16. ágúst 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en til vara að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms annars vegar á því að héraðsdómara hafi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu og hins vegar á því að mat dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga.
Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 segir að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. til 5. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 4. mgr. getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef ákærði neitar sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um ómerkingu dómsins af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipaði dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ekkert fram komið um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Samkvæmt þessu er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.
Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu hér fyrir dómi. Að því gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og refsingu hans. Jafnframt er staðfest niðurstaða dómsins um sakarkostnað í héraði.
Til viðbótar miskabótum sem brotaþola voru dæmdar í héraði krefst hann bóta vegna útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningum. Þar sem ekki hefur verið leyst úr þessum kröfuliðum að efni til í héraði koma þeir ekki til álita hér fyrir dómi. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um einkaréttarkröfu brotaþola. Ekki eru efni til að gera ákærða að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 527.440 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 8. janúar 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. nóvember 2013, á hendur X, kt. [...], búsettum í [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, föstudaginn 19. júlí 2013, slegið A, kt. [...], föður fyrrverandi sambýliskonu ákærða, á heimili A að [...], [...], í andlitið með hnefahöggi, með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, mar og opið sár á nefi sem þurfti að sauma með 2 sporum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...] er krafist skaðabóta og málskostnaðar, samtals að fjárhæð 939.303 krónur. Krafist er vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Aðallega er krafist frávísunar fram kominnar bótakröfu, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði er búsettur í [...]. Ekki tókst að birta honum ákæru fyrr en 16. júlí 2014 og mætti verjandi hans til þinghalds 5. september 2014. Að beiðni verjanda var aðalmeðferð málsins ákveðin 16. desember 2014, þar sem ákærði yrði hérlendis á þeim tíma. Fór aðalmeðferð málsins fram dagana 16. desember 2014 og 8. janúar 2015.
Málsatvik
Föstudaginn 19. júlí 2013, klukkan 12:40, var óskað aðstoðar lögreglu að [...] í [...], vegna líkamsárásar. Er lögreglumenn komu á vettvang var ákærði staddur utan við húsið. Hann kvaðst hafa komið þangað til að sækja muni sem væru í hans eigu. Hann hefði nýverið skilið við sambýliskonu sína og barnsmóður, B. Þau hefðu verið búsett í [...], en áður en þau fluttu þangað hefði B fengið að geyma ýmsa muni þeirra hjá foreldrum sínum að [...]. Hefðu foreldrar B, A og C, neitað að hleypa honum inn og A skellt á hann hurðinni, svo að hann fékk sár á hægra hné, vinstri framhandlegg og vinstri hönd. Hann hefði séð að A var blóðugur á nefi eftir þetta, en kvaðst ekki vita hvernig hann meiddist. Rætt var við A, C og B. A, sem var með opið sár á nefi, kvað ákærða hafa slegið sig hnefahögg í andlit eftir að hann hefði beðið hann um að fara og reynt að loka útidyrahurðinni. A mætti hjá lögreglu viku síðar og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna atviksins. Þá mætti ákærði hjá lögreglu 1. ágúst 2013 í því skyni að leggja fram kæru á hendur A.
Samkvæmt vottorði D, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, mætti A á bráðadeild 19. júlí 2013, klukkan 13:17. Hann kvaðst hafa verið kýldur í andlitið og hefði hann verið með minni háttar sár og bólgu á nefi.
Þá liggur fyrir vottorð sama læknis ritað vegna komu ákærða á bráðadeild klukkan 13:26 þennan dag. Ákærði kvaðst hafa lent í ryskingum við fyrrverandi tengdaföður sinn, sem hefði ítrekað skellt á hann útidyrahurð, en hann hefði borið fyrir sig höndina og sett fót í dyrakarminn. Við skoðun reyndist hann vera með minniháttar sár við vinstri olnboga og á hægra hné og voru hvort tveggja skrapsár.
Í málinu liggur fyrir hljóð- og myndbandsupptaka sem ákærði tók í umrætt sinn og afhenti lögreglu. Á upptökunni sést hvar ákærði gengur að húsinu og ber á stofuglugga. Kemur brotaþoli til dyra og ákærði segist vera kominn til að sækja eigur sínar, en brotaþoli segir honum að ræða það við lögmann sinn. Ákærði heldur áfram að krefja brotaþola um eigur sínar og kemur eiginkona brotaþola fram í dyrnar. Brotaþoli reynir að loka hurðinni en ákærði setur hönd á hana og virðist ýta henni upp. Brotaþoli og eiginkona hans sjást síðan reyna að loka hurðinni, en af orðaskiptum verður ráðið að ákærði hafi þá verið með fót sinn í dyragættinni og varnað því. Brotaþoli heyrist biðja eiginkonu sína að hringja á lögregluna. Þegar 11 sekúndur eru eftir af upptökunni beinist myndavélin niður og heyrist eins og stimpingar eigi sér stað uns upptöku lýkur.
Þá liggja fyrir í málinu ljósmyndir teknar að [...], sem sýna húsaskipan og aðstæður á vettvangi.
Við aðalmeðferð málsins bar ákærði á sama veg og fyrr greinir um tilgang sinn með komu á heimili brotaþola og samskipti þeirra. Hann kvaðst hafa haft með sér myndavél til að taka atvikið upp vegna fyrri samskipta við fjölskylduna. Hann hefði bankað á dyrnar og A komið til dyra. Kvaðst ákærði hafa spurt hvort hann gæti fengið eigur sínar afhentar en A sagt honum að hafa samband við lögfræðing og ætlað að loka hurðinni. Ákærði kvaðst hafa staðið á þröskuldinum og hefði hann sett höndina á hurðina. Þá hefðu A og C, eiginkona hans, farið að ýta á hurðina og hefði hún lent fimm eða sex sinnum á fæti hans. Síðan hefði A beðið C að hringja á lögregluna. Um leið og hún fór út úr þvottahúsinu hefði A rifið í ákærða og hrist hann fram og til baka. Kvaðst ákærði rétt hafa náð að halda í myndavélina sem hann hefði verið með í hægri hendi. A hefði síðan hent honum aftur á bak svo að hann lenti á bílskúrsvegg í um eins metra fjarlægð. Hefði A að því búnu skellt aftur hurðinni. Ákærði kvaðst hafa litið inn um stofuglugga skömmu síðar og þá séð A vera að þurrka eitthvað í skyrtuna sína. Síðan hefði lögregla komið á vettvang og hefði hann þá séð að A var með blóðnasir. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvernig A meiddist.
A kvaðst hafa rætt við ákærða eftir að hann knúði dyra og hefði ákærði heimtað að fá muni sína afhenta. Vitnið kvaðst hafa svarað því til að málið væri í höndum lögmanna og að ákærði væri ekki velkominn á heimilið þar sem hann hefði ítrekað sýnt þar ógnandi hegðun. Vitnið kvaðst hafa ætlað að loka hurðinni en ákærði hefði sett fótinn í gættina. Hann hefði náð að ýta ákærða frá og reynt að loka hurðinni, en þá hefði ákærði stokkið á hurðina, rifið hana upp og slegið hann hnefahögg beint í andlitið. Hann kvað eiginkonu sína hafa staðið í um eins metra fjarlægð þegar þetta gerðist. Þá kvaðst hann telja að ákærði hefði verið með myndavélina í ól yfir háls eða öxl þegar hann sló vitnið með hægri hendi. Vitnið lýsti því að fjölskyldan hefði orðið fyrir miklu áreiti af hálfu ákærða eftir sambandsslit hans og dóttur vitnisins. Hefðu ákærði og dóttir vitnisins átt muni sem voru í geymslu á heimilinu, en mál vegna eignaskipta þeirra hefði verið í höndum lögmanna.
B kvaðst hafa farið með barn sitt inn í svefnherbergi þegar hún sá ákærða fyrir utan húsið, en hún væri hrædd við hann. Hún hefði heyrt einhver köll og hljóð inn í svefnherbergið og hefðu þessi hljóð ágerst. Síðan hefði verið eins og einhver væri að taka við einhverju og lýsti vitnið því hljóði eins og stunu, það hefði verið eins og átök ættu sér stað. Hún hefði farið fram og þá séð móður sína standa í sameiginlegu rými hússins. Hefði móðir hennar sagt: „Ertu nefbrotinn?“ eða: „Hann er örugglega nefbrotinn“. Hún hefði þá séð föður sinn alblóðugan halda um nefið. Þegar þetta var hefði hún séð ákærða glottandi fyrir utan bakdyrnar og hefði hún lokað hurðinni fram í þvottahús. Faðir hennar hefði virst vankaður og ekki sagt neitt í fyrstu, en eftir að hún lokaði hurðinni fram í þvottahús hefði hann sagt: „Hann kýldi mig.“ Þá hefði móðir hennar sagt henni að ákærði hefði komið að sækja eitthvert dót og hefði hann kýlt föður hennar. Eftir að faðir hennar var farinn á slysadeild hefði hún séð blóðslettur á skáphurð á hvítri innréttingu beint á móti bakdyrunum.
C kvaðst hafa staðið rétt fyrir aftan A þegar hann opnaði dyrnar fyrir ákærða. Hefði hún séð ákærða fyrir utan með stóra myndavél á öxlinni. Hann hefði verið æstur og sagst vilja fá munina sína. Ákærði hefði sett fótinn yfir þröskuldinn, en A hefði reynt að halda honum úti og hefði hún aðstoðað hann við það. Þau hefðu ýtt á hurðina, en ákærði hefði reynt að brjóta sér leið inn og verið með myndavélina á öxlinni. A hefði tekist að loka hurðinni og hefði hún þá gengið fram úr þvottahúsinu inn í eldhúsið við hliðina. Hún hefði þá skyndilega séð að þvottahúshurðinni var sparkað upp og hefði ákærði kýlt A beint í andlitið. Hún hefði þá farið inn í húsið og hringt á lögreglu. Vitnið kvaðst hafa verið í um 1 ½ metra fjarlægð frá A þegar ákærði sló hann með krepptum hnefanum. Hefði hún talið hann vera nefbrotinn þar sem blóð fossaði úr nefi hans og henni hefði sýnst það bólgna upp. Þá hefði hún séð blóðslettur á hvítri innréttingu í þvottahúsinu á eftir, auk þess sem blóðslóð hefði verið um allt hús. Borið var undir vitnið það sem bókað var í skýrslu lögreglumanna sem komu á vettvang að hún hafi sagst ekki hafa orðið vitni að því þegar ákærði kýldi A þar sem hún hafi verið að hringja í 112. Hún hafi heyrt þegar ákærði kom aftur og í framhaldinu öskur frá A og séð þegar hann kom inn blóðugur í andliti. Vitnið kvaðst ekki hafa skýringar á því sem ritað hefði verið í skýrsluna, en hún væri þess fullviss að hún sá þetta hnefahögg. Hún tók fram að hún hefði verið í miklu uppnámi þegar hún ræddi við lögreglumanninn og titrað svo mikið að hún hefði orðið að setjast í stól. Hún hefði ekki treyst sér til að aka A upp á slysadeild vegna ástands síns. Vitnið kvaðst hafa hringt í lögregluna eftir að A fékk höggið á nefið. Þá kvaðst hún telja að ákærði hefði slegið A með hægri hendi og hefði hann þá verið með myndavélina á vinstri öxl. Loks lýsti vitnið áreiti sem fjölskyldan hefði orðið fyrir af hálfu ákærða fyrir og eftir þennan atburð.
Lögreglumennirnir E og F, sem komu á vettvang í umrætt sinn, gerðu grein fyrir aðkomu sinni og viðræðum við ákærða og heimilisfólk. E kvaðst hafa rætt við eiginkonu brotaþola, sem hefði sagt að hún hefði ekki séð atvikið. Hann tók fram að hún hefði verið í miklu uppnámi og hefði talað „bjagaða“ íslensku, en kvaðst telja rétt eftir henni haft í frumskýrslu lögreglu, sem hann ritaði um málið. F kvaðst hafa hitt tvær konur inni í húsinu og hefðu þær verið í uppnámi. Hann kvaðst telja að fram hefði komið að hvorug þeirra hefði séð brotaþola sleginn.
D, sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild, staðfesti læknisvottorð sem liggur fyrir í málinu, en kvaðst ekki hafa skoðað brotaþola sjálfur. Hann kvað áverka sem lýst er í vottorðinu samrýmast því að þeir gætu hafa stafað af hnefahöggi.
Loks gaf G geðlæknir skýrslu fyrir dóminum og bar að brotaþoli hefði leitað til sín í nokkur skipti eftir atvikið. Vitnið kvað atvikið greinilega hafa haft áhrif á brotaþola svo að hann hefði þurft á meðferð að halda. Þá hefði líkamsárás sem þessi meiri áhrif á brotaþola en ella eftir langvarandi áreiti af hálfu árásarmanns.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og hafnar því að hafa veist að A eins og honum er gefið að sök í ákæru. A og C, eiginkona hans, hafa borið að ákærði hafi slegið A hnefahögg í andlit og hefði hann við það fengið miklar blóðnasir. C lýsti líkamsárás ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu 12. september 2013 og við aðalmeðferð málsins og kom fram hjá henni að hún hefði staðið í um 1½ metra fjarlægð frá A þegar ákærði veitti honum höggið. Vitnið gaf greinargóða lýsingu á atvikum fyrir dóminum. Þykir ekki eiga að hafna framburði hennar þótt lögreglumaður sem ræddi við hana á vettvangi hafi ritað í skýrslu sína að hún hefði sagst ekki hafa séð atvikið, en fram er komið að vitnið var í miklu uppnámi þegar þetta var, auk þess sem hún talar ekki lýtalausa íslensku. Þá bar D, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild, að áverki A samrýmdist því að hann hefði fengið hnefahögg. Loks hefur ákærði engar trúverðugar skýringar getað gefið á tilurð áverkans. Samkvæmt framansögðu þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola með þeim hætti sem honum er gefið að sök í ákæru, með þeim afleiðingum sem þar greinir og staðfest er í læknisvottorði. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í september [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir að veitast með ofbeldi að brotaþola á heimili hans, í viðurvist fjölskyldu hans. Hafði ákærði áður hunsað ítrekuð tilmæli brotaþola um að hverfa á brott. Var atlaga hans að brotaþola tilefnislaus og harkaleg. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Ákærði hafnar bótakröfunni alfarið. Ákærði hefur valdið brotaþola miskatjóni samkvæmt a-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt því, og með vísan til sjónarmiða sem rakin hafa verið um ákvörðun refsingar, þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 400.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 210.000 krónur. Við meðferð málsins fyrir dómi var jafnframt krafist bóta vegna útlagðs kostnaðar brotaþola, samkvæmt reikningum sem lagðir voru fram eftir þingfestingu málsins. Einkaréttarkrafa brotaþola er tilgreind í ákæru, sbr. f. lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en ekki er með henni krafist bóta vegna umrædds kostnaðar. Ber því að vísa kröfunni frá dómi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 260.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 34.200 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. júlí 2013 til 16. ágúst 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, og 210.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 260.400 krónur, og 34.200 krónur í annan sakarkostnað.