Hæstiréttur íslands

Mál nr. 812/2016

Guðlaugur Jakob Karlsson (Þórður Heimir Sveinsson hdl.)
gegn
Happdrætti Háskóla Íslands, Háskóla Íslands (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.), íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason hrl.), Íslandsspilum sf. , Rauða krossi Íslands, SÁÁ sjúkrastofnun og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg (Stefán A. Svensson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

G krafðist þess að ógilt yrðu leyfi Í sf. og H til reksturs söfnunarkassa með peningavinningum og peningahappdrættis. Þá krafðist hann skaðabóta vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna slíks rekstrar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að G hefði hvorki gert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar né sameiginlegri ábyrgð allra stefndu á þeim skaðabótakröfum sem hafðar væru uppi í málinu. Var málinu því vísað frá dómi með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. 

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðlaugur Jakob Karlsson, greiði í kærumálskostnað til varnaraðila Happdrættis Háskóla Íslands og Háskóla Íslands, hvorum fyrir sig 100.000 krónur, varnaraðila íslenska ríkisins, 100.000 krónur, og varnaraðila Íslandsspila sf., Rauða kross Íslands, SÁÁ sjúkrastofnunar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hverjum fyrir sig 50.000 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016.

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 21., 22. og 23. mars sl., var tekið til úrskurðar 14. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu. Stefnandi er Guðlaugur Jakob Karlsson, Bræðraborgarstíg 24a, Reykjavík. Stefndu eru innanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli í Reykjavík, Íslandsspil sf., Smiðjuvegi 11a í Kópavogi, SÁÁ sjúkrastofnun, Efstaleiti 7 í Reykjavík, Rauði kross Íslands, Efstaleiti 9 í Reykjavík, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Skógarhlíð 14 í Reykjavík, Háskóli Íslands við Suðurgötu í Reykjavík og Happdrætti Háskóla Íslands, Tjarnargötu 4 í Reykjavík.

Í þessum þætti málsins krefjast stefndu frávísunar málsins auk málskostnaðar. Stefnandi krefst þess að kröfu stefndu um frávísun verði synjað auk þess sem honum verði úrskurðaður málskostnaður.

Yfirlit um efnishlið málsins

                Í efnisþætti málsins hefur stefnandi uppi eftirfarandi kröfur auk kröfu um málskostnað:

1.       Að ógilt verði með dómi leyfi stefnda Íslandsspila sf. til reksturs söfnunarkassa með peningavinningum sem stefndi íslenska ríkið veitti samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1994 um söfnunarkassa.

2.       Að ógilt verði með dómi leyfi stefnda Háskóla Íslands, til reksturs peningahappdrættis undir heitinu Gullnáman (Gullregn), sem stefndi íslenska ríkið veitti samkvæmt 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 23/1986 og lög nr. 77/1994. 

3.       Að öllum stefndu verði in solidum, gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 22.608.305 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til þess dags þegar mánuður er liðinn, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim tíma til greiðsludags.

4.       Þá er þess krafist að öllum stefndu verði, in solidum, gert að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 76.800.000 krónur.

Málatilbúnaður stefnanda er í meginatriðum reistur á því að stefnandi hafi um langt skeið verið haldinn spilafíkn sem stefnandi leggur áherslu á að líta beri á sem alvarlegan geðsjúkdóm. Hafi tekið að bera á fíkn hans þegar um 17 ára aldur en fíkn hans hafi einkum beinst að spilakössum eða spilavélum sem reknar séu annars vegar af stefndu Íslandsspilum sf. og hins vegar af Happdrætti Háskólans á grundvelli leyfa eða heimilda innanríkisráðuneytisins. Telur stefnandi að stefndu hafi brotið á sér með starfrækslu og rekstri spilakassa sem hafi leitt hann til fíknarinnar og valdið honum fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni. Telur stefnandi að búið sé að „gera út á hans spilasjúkdóm með skipulögðum hætti í áratugi af hálfu stefndu, sem hafi þannig gert veikleika hans að féþúfu“.

Stefnandi lýsir grundvelli kröfugerðar sinnar þannig að með útgáfu leyfa stefnda innanríkisráðherra til spilakassastarfsemi og síðar setningar laga nr. 73/1994 um söfnunarkassa, og laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 23/1986 og nr. 77/1994, sem heimiluðu rekstur spilakassa með peningavinningum, og með starfrækslu og rekstri spilakassa stefndu, Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands, hafi allir stefndu sameiginlega brotið gegn 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um bann við fjárhættuspili, hvort heldur að gera sér fjárhættuspil að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim. Allir stefndu verði að taka ábyrgð á gjörðum sínum að þessu leyti, stefndi innanríkisráðherra með útgáfu leyfa til spilakassastarfsemi og nefndum lagasetningum og stefndu Íslandsspil sf. og Háskóli Íslands, eða Happdrætti Háskóla Íslands, með starfrækslu og rekstri spilakassa um allt land sem hafi skapað þeim ómældar tekjur. Með framangreindu hafi stefndu fengið ómælt rekstrarfé og stefndi, íslenska ríkið, losnað að sama skapi við að veita fé til nefndra aðila, aðildarfélaga og málefna þeirra, allt á kostnað þeirra samborgara sem veikir eru fyrir spilakassastarfseminni og með fullri vitund um þá hættu sem henni fylgir, fyrir þá og allan almenning.  

Í stefnu er gerð sérstök grein fyrir lögvörðum hagsmunum stefnanda af málinu. Vísar stefnandi þar einkum til þess að hagsmunir hans felist í því að hann hafi orðið spilafíkn, sem sé viðurkenndur geðsjúkdómur, að bráð vegna ólögmætrar innleiðingar á spilakassastarfsemi hér á landi á grundvelli framangreindrar lagasetningar og leyfa. Þannig sé hann í dag alvarlega veikur spilafíkill og hafi verið háður þeirri fíkn um árabil með hinum alvarlegustu afleiðingum fyrir andlega og líkamlega heilsu og velferð samfara stórfelldu fjárhagslegu tjóni. Sjúkdómur stefnanda hafi verið alls kostar fyrirsjáanlegur og raunar dæmigerð afleiðing þess að stofnað var til reksturs spilakassanna. Þá er því lýst í stefnu að stefnandi hafi jöfnum höndum nýtt spilakassa tveggja framangreindu stefndu og gerð nánari grein fyrir því á hvaða stöðum. Vísað er til þess að spilakassa frá báðum aðilum megi iðulega finna á sömu stöðum og megi þannig fullyrða að stefndu hafi gagnkvæman hag hvor af annars starfsemi og eigi sameiginlegan hlut að þeirri áhættu sem með henni er stofnað til gagnvart fólki eins og stefnanda. Í ljósi þess sé óeðlilegt að ætlast til þess af stefnanda að hann geri fyllstu grein fyrir því hvaða tjón hans yrði rakið til hvors eiganda. Hins vegar lýsir stefnandi sig reiðubúinn að íhuga sundurliðun bótakröfu sinnar með tilliti til aðildar að tjóni hans ef hinir stefndu færðu fram skynsamleg rök og haldbær gögn í þá átt. En að því gættu sé óhikað rétt að líta svo á að hinir stefndu spilakassaeigendur ásamt íslenska ríkinu séu samábyrgir að lögum fyrir tjóni stefnanda bæði að formi og í reynd. Að því er varðar tjón stefnanda er vísað til reikningsyfirlita sem sýni að hann hafi til margra ára eytt og tapað tugum milljóna króna í spilakassastarfsemi stefndu.

Um fyrstu tvær kröfur stefnanda segir í stefnu að þær feli í sér „kröfu um viðurkenningu þess, að starfsemi hinna stefndu spilakassaeigenda og -rekenda sé í reynd ólögmæt, og verði í framhaldinu lögð niður í þeirri mynd sem hún er. Er tilgangurinn sá að tryggja að hann og aðrir geti losnað úr viðjum spilafíknar og komið undir sig fótum á ný í fjárhagslegum og andlegum efnum og öðlast eðlilegt líf á borð við allan almenning í landinu.“ Telur stefnandi augljóst að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leggja þessa kröfugerð fyrir dómstóla, ekki síst í ljósi þess fjártjóns og miska sem hann hafi orðið að þola á liðnum árum og treysti sér til að sýna fram á með eðlilegum hætti. Jafnframt sé það tilgangur málshöfðunarinnar að tryggja honum eðlilegar bætur fyrir þetta tjón samkvæmt kröfunum í 3. og 4. lið stefnu.

Í stefnu kemur fram að málið sé höfðað í framhaldi af kærum stefnanda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara vegna framangreindrar starfsemi. Meðal gagna málsins er bréf ríkissaksóknara 18. ágúst 2014 þar sem ákvörðun lögreglustjórans um að vísa kærunni frá með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er staðfest.

Helstu málsástæður og lagarök aðila í frávísunarþætti málsins

                Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun málsins fara saman í öllum meginatriðum. Í fyrsta lagi er á því byggt að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af fyrstu tveimur kröfum sínum. Hvað sem líði spilafíkn stefnanda hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af því að fá felld úr gildi umrædd leyfi eða heimildir. Einnig er vísað til þess að þessar kröfur séu í reynd málsástæður fyrir fjárkröfum stefnanda og skorti hann einnig lögvarða hagsmuni af kröfunum af þeim sökum. Hvað varðar aðild eigenda stefnda Íslandsspila sf. til varnar er bent á reglur laga nr. 50/2007 um að ábyrgð eigenda sameignarfélags sé einungis til vara. Sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður um það hvers vegna kröfum sé einnig beint að þessum stefndu sem eigendum hins stefnda sameignafélags. Stefndu telja einnig að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni vanreifaður með tilliti til aðildar hvers og eins stefndu. Þannig sé óljóst hvort og hvernig skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé fullnægt, en starfsemi stefndu Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands sé algerlega aðskilin. Þrátt fyrir þetta sé kröfum ekki beint að hverjum stefndu fyrir sig heldur öllum stefndu sameiginlega. Stefndu byggja einnig kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda feli í reynd í sér beiðni um að dómurinn leggi mat á ætlaða refsiverða háttsemi stefndu samkvæmt 183. gr. hegningarlaga. Ef fallist yrði á meginmálsástæðu stefnanda væri það því ígildi sakfellingar í refsimáli, en slíkt standist ekki gagnvart 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu vísa í þessu sambandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé óheimilt, þegar viðkomandi hefur annað hvort verið sýknaður eða endanleg ákvörðun tekin um að sækja hann ekki til saka, að fella dóm sem felur í reynd í sér sakfellingu. Stefndu benda einnig á að fjárkröfur stefnanda séu vanreifaðar og studdar ónógum gögnum og í ógildingarkröfum sé vísað til leyfa þótt engin formleg leyfi hafi verið gefin út heldur einungis stjórnvaldsfyrirmæli. Að síðustu telja stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni óljós og feli í sér skriflegan málflutning.

                Stefnandi mótmælir öllum sjónarmiðum stefndu. Hann telur mál sitt í alla staði vel reifað og skipulega upp sett þannig að ekkert fari á milli mála hvað sé átt við. Lengd og umfang málatilbúnaðar sé eðlilegt miðað við eðli málsins. Hann mótmælir því að dómur í málinu væri ígildi sakfellingar í refsimáli. Einungis sé vísað til verknaðarlýsingar hegningarlaga til stuðnings því að háttsemi stefndu hafi verið ólögmæt. Þá telur hann að áður tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu eigi aðeins við um einstaklinga en ekki félög og stofnanir. Að því er varðar skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 vísar stefnandi til þess að starfsemi áðurlýstra tveggja rekstraraðila sé nátengd og nánast alveg eins og með sömu afleiðingum fyrir stefnanda. Allar dómkröfur séu því samtvinnaðar og samtengdar. Hann bendir á að hér eigi sama atvikalýsing við, sömu röksemdir og sönnunargögn. Að því er varðar tilvísun til leyfa í fyrstu tveimur dómkröfum vísar stefnandi til þess að engin sérstök leyfi hafi verið gefin út en það standi stefndu hins vegar nær að sýna leyfisbréf sín ef þeim er að skipta. Leyfin, sem vísað sé til í kröfugerðinni, felist því í viðkomandi heimildarlögum. Um lögvarða hagsmuni sína og reifun á fjárkröfum vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða sem fram koma í stefnu og áður greinir.

Niðurstaða

Málatilbúnaður stefnanda er í meginatriðum á því reistur að með rekstri stefnda, Íslandsspila sf., annars vegar, og stefnda, Happdrættis Háskóla Íslands, hins vegar, á spilavélum, á grundvelli heimilda eða leyfa sem útgefin eru af stefnda innanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, hafi þessir aðilar „in solidum brotið gegn 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um bann við fjárhættuspili“. Fyrir liggur að heimildir téðra aðila til reksturs spilavéla byggjast á settum lögum sem sett voru eftir að tilvitnuð hegningarlög tóku gildi. Að fengnum skýringum lögmanns stefnanda við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefndu verður að álykta að byggt sé á því að setning laga nr. 73/1994 um söfnunarkassa, og laga nr. 77/1994, sem breyttu lögum nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands, hafi ekki haggað við banni almennra hegningarlaga við því að gera fjárhættuspil að atvinnu eða koma öðrum til þátttöku í þeim. Leiði samræmisskýring þessara réttarheimilda þar af leiðandi til þess að stefnda innanríkisráðherra hafi allt að einu brostið heimild að lögum til þess að heimila umrædda starfsemi. Séu leyfin ógild af þessum sökum og sú starfsemi sem grundvallast á þeim því ólögmæt.

Úrlausn um þessa meginmálsástæðu stefnanda, og þá lögskýringu sem hún byggist á, heyrir undir efnisþátt málsins. Þá verður ekki á það fallist með stefndu að dómur um þetta atriði jafngildi því að skorið sé úr um hvort stefndu hafi gerst brotlegir við 183. gr. hegningarlaga þannig að jafngildi því að tekin sé afstaða til sektar þeirra eða sýknu að þessu leyti. Enn fremur verður að líta svo á að skaðabótakröfur stefnanda séu á því reistar að við þær aðstæður að umræddar heimildir séu ólögmætar og ógildar feli rekstur umræddra stefndu á spilavélum í sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Því beri  rekstraraðilar spilavélanna skaðabótaábyrgð, ásamt stefnda íslenska ríkinu, á því tjóni sem af þessu hafi leitt fyrir stefnanda. Þótt á það verði fallist að málatilbúnaður stefnanda sé ekki eins skýr og æskilegt væri um þennan grundvöll málsins er sá annmarki ekki svo stórvægilegur að leiði til frávísunar málsins í heild sinni.

A

Ljóst er að skaðabótakröfur stefnanda í þriðja og fjórða lið kröfugerðar hans eru á því reistar að umrædd leyfi eða heimildir til reksturs spilavéla séu andstæðar lögum og þar með ógildar. Eru fyrstu tvær kröfur í kröfugerð stefnanda því einnig málsástæður fyrir kröfum hans um bætur fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón. Samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar kann stefnanda að skorta sjálfstæða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar þegar jafnframt er byggt á ógildi ákvörðunar til stuðnings kröfu um bætur, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 30. janúar 1997 í máli nr. 290/1995. Af málatilbúnaði stefnanda verður þó ráðið að markmið hans með kröfum um ógildingu sé einnig að koma í veg fyrir áframhaldandi ólögmæta starfsemi téðra stefndu sem hann telur valda sér tjóni.

Þótt reifun stefnanda á sjálfstæðum hagsmunum hans af því að hafa uppi sérstakar kröfur um ógildingu umræddra stjórnvaldsákvarðana sé ekki eins skýr og æskilegt væri getur þetta atriði þó aldrei leitt til frávísunar málsins í heild sinni. Sama á raunar einnig við um þá málsástæðu stefndu að stefnanda skorti, sökum stöðu sinnar, lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi umræddra leyfa eða heimilda stefndu, Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands. Þá hefur fyrirsvarsmaður stefnda íslenska ríkisins ekki gert athugasemdir við það að einungis innanríkisráðherra hafi verið stefnt til varnar í málinu þótt fyrir liggi að þriðja og fjórða krafa stefnanda, ef á þær yrði fallist, fælu í sér skyldu til greiðslu peninga úr ríkissjóði sem er á forræði efnahags- og fjármálaráðherra samkvæmt almennum reglum um fjárreiður ríkisins.

B

Svo sem áður greinir hefur stefnandi uppi fjórar kröfur sem hann beinir sameiginlega gegn öllum stefndu. Málatilbúnaður stefnanda ber hins vegar með sér að rekstraraðilar umræddra spilavéla séu einungis stefndu Íslandsspil sf. og Happdrætti Háskóla Íslands sem er sjálfstæð stofnun í eigu Háskóla Íslands, sbr. reglugerð nr. 348/1976. Liggur þannig fyrir að um er að ræða aðskilda lögaðila sem starfa á grundvelli sjálfstæðra leyfa, eða heimilda stjórnvalda, sem hvor um sig grundvallast á sérstakri lagasetningu sem áður greinir.

Í stefnu er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því til stuðnings að stefnanda sé heimilt að beina öllum kröfum sínum gegn stefndu í einu og sama málinu. Í stefnu kemur fram að spilavélar stefndu, Íslandsspila sf. Happdrættis Háskóla Íslands, séu yfirleitt starfræktar á sömu stöðum og á sömu forsendum þannig að fullyrða megi að þessir stefndu hafi gagnkvæman hag af starfsemi hvor annars. Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefndu skýrði lögmaður stefnanda að það væri fyrst og fremst á þessum grundvelli sem kröfur stefnanda ættu allar rætur að rekja til sömu aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Einnig var vísað til þess að erfitt eða ómögulegt væri að sundurgreina tjón stefnanda gagnvart umræddum tveimur rekstraraðilum spilavélanna.

Að mati dómsins er þrátt fyrir framangreindar skýringar stefnanda óhjákvæmilegt að horfa til þess að umrædd starfsemi er reist á sjálfstæðum heimildum tveggja mismunandi lögaðila sem stjórnvöld hafa veitt, eða staðfest, á grundvelli sérstakra laga sem um þetta gilda. Þótt starfsemi þessara stefndu kunni að vera eðlislík fer ekki á milli mála að um er að ræða spilavélar sem merktar eru og markaðssettar með ólíkum hætti og hafa að einhverju leyti mismunandi eiginleika. Þá hefur því verið mótmælt fyrir dómi að um nokkurs konar samrekstur vélanna sé að ræða eða stjórnunarleg tengsl milli téðra tveggja rekstraraðila og er því raunar ekki haldið fram af stefnanda. Verður því að miða við að hagnaður af vélunum, eða tap ef því er að skipta, falli til hvors síns rekstraraðilans án þess að um nokkurs konar sameiginlega ábyrgð sé að ræða. Í þessu ljósi telur dómurinn að verulega skorti á skýringar stefnanda á því hvers vegna umræddum rekstraraðilum er í málinu stefnt til að þola dóm vegna ógildingar á leyfum hvors annars. Af sömu ástæðum er einnig óútskýrt í stefnu hvers vegna eigendum þessara rekstraraðila er stefnt með sama hætti.

Í þriðja og fjórða lið kröfugerðar sinnar krefst stefnandi skaðabóta að tilteknum fjárhæðum óskipt úr hendi allra stefndu. Í stefnu er þó hvergi gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli stefndu bera sameiginlega ábyrgð á tjóni sem stefnandi rekur til starfsemi hvors rekstraraðila fyrir sig. Er ekki unnt að játa stefnanda heimild til þess að lagfæra þennan annmarka undir meðferð málsins með nánari sundurliðun, öflun matsgerða eða kröfu um að bætur verði dæmdar hlutfallslega að álitum úr hendi tiltekinna stefndu svo sem hreyft var við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefndu.

Samkvæmt framangreindu er það álit dómsins að á skorti að stefnandi hafi í heild sinni gert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar, svo og grundvelli sameiginlegrar ábyrgðar allra stefndu á skaðabótakröfum í þriðja og fjórða lið kröfugerðar hans. Eru þessir annmarkar, sem ljóst er að ekki verður úr bætt undir rekstri málsins, svo verulegir að telja verður að komi niður á möguleikum stefndu til að taka til varna. Með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er óhjákvæmilegt að vísa málinu í heild sinni frá dómi af þessum sökum. Er þá ekki þörf á því að fjalla nánar um hvort téðar skaðabótakröfur stefnanda séu nægilega skýrar og studdar gögnum svo að efnisdómur verði felldur á þær. Sama á við um þá tilhögun málatilbúnaðar stefnanda að beina öllum kröfum sínum einnig að eigendum stefndu Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er skylt að úrskurða stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin svo sem nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þá verið tekið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefndu, Íslandspila sf., SÁÁ sjúkrastofnunar, Rauða kross Íslands og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, flutti málið Stefán A. Sveinsson hrl. Af hálfu stefndu, Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands, flutti málið Hörður Helgi Helgason hdl. Af hálfu stefnda, innanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, flutti málið Ólafur Helgi Árnason hrl. Af hálfu stefnanda flutti málið Þórður Heimir Sveinsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Guðlaugur Jakob Karlsson, greiði stefndu, Íslandsspilum sf., SÁÁ sjúkrastofnun, Rauða krossi Íslands og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, hverju fyrir sig 50.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefndu, Háskóla Íslands og Happdrætti Háskóla Íslands, hvoru fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, innanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, 50.000 krónur í málskostnað.