Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2005
Lykilorð
- Eignaupptaka
- Fordæmi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. júní 2005. |
|
Nr. 72/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X og (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) Y(Björn L. Bergsson hrl.) |
Eignaupptaka. Fordæmi. Sératkvæði.
Gerð var krafa um að X og Y sættu upptöku á fjármunum er svöruðu til ávinnings þeirra af fíkniefnabrotum. Með vísan til dóms Hæstaréttar 20. nóvember 2003 í máli nr. 333/2003 var talið að telja yrði það skilyrði fyrir upptöku á jafnvirði ávinnings af broti að sýnt væri fram á að fjármunir til upptöku væru fyrir hendi. Varð því ekki hjá því komist að sýkna ákærðu af kröfum um upptöku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um eignaupptöku.
Ákærði X krefst aðallega sýknu að kröfum um eignaupptöku, en til vara að þær verði lækkaðar.
Ákærði Y krefst sýknu af kröfum um eignaupptöku.
Í málinu krefst ákæruvaldið þess að ákærðu sæti upptöku á fjármunum er svari til ávinnings þeirra af þeim brotum, sem tíunduð eru í ákæru, að því marki sem þær kröfur voru teknar til greina í héraðsdómi, ákærði X á 2.800.000 krónum og ákærði Y á 1.100.000 krónum.
Að virtum dómi Hæstaréttar 20. nóvember 2003 í máli nr. 333/2003 verður að telja það skilyrði fyrir upptöku á jafnvirði ávinnings af broti að sýnt sé fram á að fjármunir til upptöku séu fyrir hendi. Verður því ekki hjá því komist að sýkna ákærðu af kröfum ákæruvalds um upptöku.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, X og Y, eru sýknir af kröfum ákæruvalds um upptöku í máli þessu.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, Jóhannesar A. Sævarssonar hæstaréttarlögmanns og Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, hvors um sig 200.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er sammála niðurstöðu meirihlutans með þeim forsendum sem hér skal greina:
Telja verður það vera skilyrði fyrir upptöku á jafnvirði ávinnings af broti, að sýnt sé fram á að fjármunir sem eiga rót að rekja til slíks ávinnings séu fyrir hendi. Þessu skilyrði er ekki fullnægt í málinu og verða ákærðu því sýknaðir af kröfum ákæruvalds um upptöku.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2004,
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara dagsettri 7. september 2004 á hendur X, A, Y, og B, „fyrir fíkniefnabrot á tímabilinu júní 2003 til janúar 2004 er ákærði [X] flutti til landsins frá Danmörku í þremur skipaferðum samtals um 15 kg af kannabis í ágóða- og dreifingarskyni, sumpart í félagi við ákærða [A], sumpart í félagi við ákærða [B], sumpart með liðsinni ákærðu [A] og [Y] en ákærðu [A] og [Y] tóku síðan við nokkru af hinum innfluttu fíkniefnum og geymdu eða seldu allt eins og hér greinir:
1. Innflutningur á kannabis í júní 2003. Ákærði [X] er sakaður um innflutninginn í ágóða- og dreifingarskyni, en ákærðu [A] og [Y] um vörslu og dreifingu fíkniefna:
Ákærði [X] keypti kannabis ytra, faldi um 2 kg í varadekki bifreiðar sinnar, [...], og flutti hingað með Norrænu sem kom til landsins [...] júní 2003. Fíkniefnin afhenti hann ákærða [A] á þáverandi heimili hans að [...], og hafði hann efnin þar í vörslum sínum og seldi a.m.k. 0,5 kg til ónafngreindra manna en afhenti ákærða [Y] a.m.k. 1,2 kg í söluskyni. Ákærði [Y] seldi þann hluta efnanna til ónafngreindra manna.
2. Innflutningur á kannabis í september 2003. Ákærðu [X] og [A] eru sakaðir um innflutninginn í félagi og í ágóða- og dreifingarskyni en ákærðu [A] og [Y] um vörslu og dreifingu fíkniefna:
Ákærði [X] keypti kannabis ytra og kom um 5 kg fyrir í fjórum hjólbörðum sem hann sendi á nafn ákærða [A] með Dettifossi, sem kom til landsins [...] september 2003. Tók ákærði [A] við fíkniefnunum í afgreiðslu Eimskips við Sundahöfn í Reykjavík 12. sama mánaðar og fór með þau í [...], þar sem allir ákærðu áttu heima á þeim tíma. Ákærði [Y] seldi um 3,5 kg af þessum fíkniefnum til ónafngreindra manna en ákærði [A] um 1 kg.
3. Innflutningur á kannabis í desember 2003. Ákærðu [X] og [B] eru sakaðir um innflutninginn í félagi og í ágóða- og dreifingarskyni og ákærðu [A] og [Y] um að liðsinna þeim við innflutning fíkniefnanna og um tilraun til sölu og dreifingar fíkniefna.
Ákærði [X] keypti kannabis ytra og kom 7.935 g fyrir í fjórum hjólbörðum sem hann sendi ákærða [B] með Goðafossi, sem kom til landsins [...] desember. Tók ákærði [B] við efnunum í afgreiðslu Eimskips við Sundahöfn í Reykjavík [...] janúar 2004. Ákærðu [A] og [Y], sem höfðu gert samkomulag við ákærða [X] um sölu á fíkniefnunum, skiptu eða létu skipta a.m.k. tveimur milljónum íslenskra króna í danskar krónur í ýmsum bankastofnunum og afhentu ákærða [X], vitandi að peningana átti að nota til kaupa á fikniefnum. Lögreglan lagði hald á fíkniefnin skömmu eftir að ákærði [B] tók við þeim. [Við aðalmeðferð breytti sækjandi texta ákæru þannig að felld yrði niður setning um að ákærði [B] hefði tekið við fíkniefnunum.]
Háttsemi ákærðu [X], [A] og [Y] telst varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001, sbr. 20. og 22. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar háttsemi ákærðu [A] og [Y] í ákærulið 3.
Háttsemi ákærða [B] telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Dómkröfur:
a) Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
b) Að 7.935 g af kannabis, sbr. lið 3, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sem og 1,69 g af tóbaksblönduðu kannabis sem ákærði [Y] var með í vörslum sínum er hann var handtekinn 6. janúar 2004.
c) Að ákærðu [X] og [Y] verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á fjármunum sem svara til ávinnings þeirra af ofangreindum brotum. Ákærða [X] á kr. 2.845.000 og ákærða [Y] á kr. 1.700.000.”
Ákærði X hefur játað sök. Hann mótmælti upptökukröfu skv. c lið sem of hárri. Krafist var vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún yrði skilorðsbundin, a.m.k. að hluta. Þá krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði A hefur játað sök. Krafist var vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún yrði skilorðsbundin, a.m.k. að hluta. Þá krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði Y hefur játað sök en tók fram að því er varðar 2. ákærulið hann hefði selt 3,2 kg af umræddum fíkniefnum en ekki 3,5 kg eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Þá neitaði ákærði við aðalmeðferð málsins að hafa skipt íslenskum krónum í danskar krónur eins og honum er gefið að sök í 3. ákærulið. Ákærði Y mótmælti upptökukröfu í c lið sem of hárri. Þá krafðist verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði B hefur neitað sök. Krafðist hann aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún yrði skilorðsbundin. Þá krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
Verður framburður ákærðu og vitna sem og málavaxtalýsing rakin eftir því sem þurfa þykir samkvæmt ofangreindum ákæruliðum.
1. ákæruliður.
Ákærðu X, A og Y hafa játað sök. Með vísan til játningar ákærðu sem er í samræmi við önnur gögn málsins þykir sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum lið ákærunnar og eru brot þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Eru þeir því sakfelldir fyrir brot sín eins og krafist er.
2. ákæruliður.
Ákærðu X, A og Y hafa játað sök en ákærði Y kveðst hafa selt um 3,2 kg af umræddum fíkniefnum en ekki 3,5 kg eins og í ákæru greinir. Við aðalmeðferð málsins féllst ákæruvaldið á að miða bæri við framburð Y að þessu leyti og þar sem ekkert annað er fram komið í framburðum meðákærðu eða öðrum gögnum málsins verður lagt til grundvallar að ákærði Y hafi selt 3,2 kg af umræddum fíkniefnum. Verður ákærði Y því sakfelldur fyrir að hafa selt 3,2 kg af kannabis og þeir ákærðu X og A sakfelldir fyrir brot þau sem þeim eru gefin að sök í þessum ákærulið. Eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
3. ákæruliður.
Upphaf rannsóknar máls þessa er að föstudaginn 19. desember 2003 ákváðu tollverðir að skoða sendingu með sendingarnúmerið [...] en sendingin var geymd í Vöruhótelinu ehf. Um var að ræða 4 bíldekk á felgum. Skráður eigandi var ákærði B en sendandi C í Danmörku. Við gegnumlýsingu á dekkjunum kom í ljós að inni í hverju dekki voru tvær pakkningar sem reyndust innihalda kannabisefni og reyndist heildarmagn þeirra 7.935,02 g. Þegar pakkningarnar höfðu verið teknar úr dekkjunum var þeim pakkað aftur saman og settar í uprunalegar umbúðir. Var vörusendingunni aftur komið fyrir á vöruhóteli Eimskips í Sundahöfn í þeim tilgangi að upplýsa hver myndi leysa hana út. Þann [...] janúar leysti B út vörusendinguna og var hann þá handtekinn.
X hefur játað sök samkvæmt þessum lið ákærunnar. Um aðdraganda málsins kvaðst ákærði hafa fengið hugmyndina að fíkniefnainnflutningi í hjólbörðum sumarið 2003 þegar hann vann á dekkjaverkstæði. Til þess að fjármagna fíkniefnakaupin hefði hann fengið lán í Sparisjóði vélstjóra að fjárhæð 600-650.000 krónur og einnig fengið greiðslukort með 150.000 króna erlendri heimild. Hefði hann síðan farið á bifreið sinni með ferjunni Norrænu og haft meðferðis um 800.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa keypt 2 kíló af kannabisefnum í Danmörku og borgað um 25.000 danskar krónur fyrir hvort kíló. Fíkniefnin hefði hann sett í hjólbarða bifreiðar sinnar og farið aftur heim með Norrænu. Meðákærðu A og Y hefðu séð um sölu efnanna og hefði ágóðinn numið um 1.750.000 krónum. Ákærði kvaðst hafa farið öðru sinni til Danmerkur í september sama ár og þá keypt fjögur dekk og fjórar felgur og einnig keypt 5 kíló af kannabisefnum sem hann kom fyrir í dekkjunum. Hefði kaupverð efnanna verið um 20.000 danskar krónur á kílóið. Ákærði kvaðst hafa sent dekkin til Íslands með skipi á nafni meðákærða A. A og Y hefðu selt efnin en Y hefði selt meira af efnunum en A. Fíkniefnin hefðu verið geymd inni í herbergi ákærða á sameiginlegu heimili ákærðu og þangað hefðu þeir Y og A komið að sækja efnin. Hefðu dekkjaleifar, sem fundust á eldhúsgólfinu við húsleit, verið úr dekkjunum sem ákærði hefði skorið í sundur til að ná í fíkniefnin. Ákærði kvaðst hafa fengið milli 2,8 og 2,9 milljónir fyrir efnin en þeir hefðu farið óvarlega með peningana og hann því farið með rúmlega 2 milljónir króna með sér í þriðju ferðina til Danmerkur. Þá hefði hann keypt 8 kíló af kannabisefnum hjá sömu mönnum og áður og keypt dekk sem hann hefði komið fíkniefnunum fyrir í. Síðan hefði hann sent dekkin til Íslands á nafni B.
Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann hafi einn staðið fyrir þessum innflutningi á tæplega 8 kílóum af hassi. Við skýrslutöku fyrir dómi 14. janúar 2004 kvaðst ákærði hafa rætt lauslega við A og Y um að þeir myndu selja úr fíkniefnasendingunni eða sjá um að dreifa henni. Hins vegar vildi X ekki ræða þátt B við skýrslutökuna. Við sömu skýrslutöku staðfesti X framburðarskýrslur sínar hjá lögreglu. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði B ekki hafa vitað af fíkniefnunum í hjólbörðunum en hann hefði hins vegar gefið sér leyfi til að nota nafn hans sem móttakanda á sendinguna. Ástæða þessarar bónar hefði verið sú að hann vissi ekki hvort hann yrði kominn til baka frá Danmörku áður en sendingin bærist. X kvaðst hafa látið B hafa peninga til að leysa út hjólbarðana en hann hefði ekki sagt B frá hassinu í dekkjunum þótt verið gæti að einhver annar hefði sagt honum það síðar. Kvaðst hann hafa sagt B að hann ætlaði að fara að stofna hjólbarðaverkstæði og langaði að vita hver tollurinn væri af hjólbörðum. Gat ákærði ekki útskýrt frekar af hverju hann setti ekki hjólbarðana á sitt eigið nafn.
A hefur játað sök samkvæmt þessum ákærulið en sagði X einan hafa staðið að fíkniefnainnflutningnum. Þeir Y hefðu einungis vitað að önnur sending væri á leiðinni fljótlega og að þeir hafi átt að skipta peningum. Hefði ákærði gert það og kvaðst halda að Y hefði einnig skipt peningum umrætt sinn en var ekki viss. Ákærði gat hvorki upplýst hvenær hann hefði skipt peningunum né hversu háum fjárhæðum hann hefði skipt. Kvaðst hann hafa átt að taka þátt í sölu fíkniefnanna þegar þau bærust en þó hefði verið ljóst að hans þáttur yrði lítill.
Ákærði kvaðst við aðalmeðferð málsins telja að B hefði ekkert vitað um fíkniefnainnflutninginn. Þótt þeir hefðu búið saman hefðu þeir ekki talað mikið saman. Við skýrslutöku hjá lögreglu 8. janúar 2004 bar ákærði að X og B hefðu sagt honum sitt í hvoru lagi og smátt og smátt að X hefði fengið leyfi hjá B til að skrá hann sem móttakanda á næstu vörusendingu til landsins. Mundi vitnið að B hefði einhvern tíma reykt kannabisefni með þeim Y. Þá sagði A B hafa vitað af Danmerkurferðinni í nóvember 2003. B hefði sagt ástæðu þess að hann leyfði X að nota nafn sitt á vörusendinguna vera þá að hann vildi frekar taka á sig sökina heldur en horfa upp á son sinn fara í fangelsi. Við skýrslutöku fyrir dómi 14. janúar 2004 staðfesti A framburð sinn í framangreindri lögregluskýrslu. Þá bar hann einnig að B hefði þvælst inn í málið þar sem senda hefði átt dekkin á nafn B. Hins vegar hefði ákærði lítið heyrt um samræður þeirra X og B. Jafnframt bar ákærði hjá lögreglu að B hefði orðið órólegur þegar vörusendingunni seinkaði og hefði haft á orði að líklega hefði tollgæslan fundið kannabisefnin í sendingunni og að hann hefði sagt að hann gæti alltaf neitað sök og borið því við að einhver hefði notað nafn hans að honum óvitandi. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann lítið muna eftir framburði sínum hjá lögreglu enda hefði hann verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma.
Ákærði Y kvaðst hafa vitað að X ætlaði til Danmerkur í þeim tilgangi að flytja inn fíkniefni þótt hann vissi ekki hvernig hann ætlaði að fara að því. Ákærði hefur játað að hafa gert ráð fyrir því að dreifa og selja hluta þeirra fíkniefna sem X hugðist flytja inn eins og rakið er í 3. ákærulið. Hins vegar hefði hann ekki tekið þátt í því að skipta peningum fyrir þessa sendingu. Aðspurður um framburð sinn við þingfestingu málsins þar sem bókað er eftir honum að hann játi sök samkvæmt 3. tölulið ákærunnar og játi að hafa skipt íslenskum krónum í danskar í félagi við A, kvað ákærði það vera misskilning því hann hefði skipt peningum vegna ferðarinnar í september.
Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir dómi 7. janúar sl. kvað hann þá X og B hafa staðið í fíkniefnainnflutningnum. Fyrir dómi 13. janúar sl. kvað hann X hafa staðið í innflutningnum í fyrri tvö skiptin en ákærði hefði staðið að sölu á efnunum og hefði hann fengið efnið frá A eftir fyrstu sendinguna en meira beint frá X eftir aðra sendinguna. Hefði hann upphaflega átt að greiða 1.500 krónur fyrir grammið en verðið verið lækkað í 1.000 krónur á grammið úr seinni sendingunni þar sem efnin voru ekki eins góð úr þeirri sendingu. Staðfesti ákærði lögregluskýrslu sem tekin var af honum sama dag. Í þeirri skýrslu kvaðst ákærði hafa látið ónefnda menn skipta í danskar krónur 1.500.000 krónum af því sem fékkst fyrir 5 kg af kannabisefni úr innflutningnum í september 2003. Hefði hann frétt hjá X að peningana ætti að nota til að flytja inn meira af kannabisefni. A hefði hins vegar ekki lengur verið milliliður milli ákærða og X. Ákærði kvað X einnig hafa sagt honum frá því að hann ætlaði að flytja kannabisefnið inn í vörusendingu sem væri á nafni B. X hefði sagt ákærða að hann hefði rætt við föður sinn um að nafn hans yrði notað sem móttakandi á næstu vörusendingu, innflutningi á kannabisefnum. Hefði A fengið sömu upplýsingar frá X en aldrei hefði verið rætt um það hvað hver ætti að segja ef upp um innflutninginn kæmist. Þegar ákærði var spurður um þennan framburð sinn við aðalmeðferð málsins, kvaðst hann ekki hafa haft „beina vitneskju” um þátt B í málinu. Þá kvað hann B einu sinni hafa reykt kannabis með honum á sameiginlegu heimili þeirra í Hraunbænum.
Ákærði B hefur neitað sök. Við aðalmeðferð málsins kvað hann X hafa komið inn í herbergi til sín og beðið sig um leyfi til þess að senda dekk í nafni ákærða þar sem hann væri að íhuga að setja á stofn dekkjaverkstæði. Ákærði kvaðst hafa gefið leyfi sitt þar sem honum hefði litist vel á þær fyrirætlanir. Ákærði kvaðst hafa spurt X hvers vegna hann þyrfti að fá sig til að vera skráðan móttakanda sendingarinnar og hefði X nefnt þá staðreynd að ákærði væri með pósthólf og að hann yrði kannski ekki kominn heim á undan dekkjunum. Ákærði kvaðst ekki hafa velt þessu mikið fyrir sér því hann hefði ekki grunað X um neitt misjafnt þar sem X neytti hvorki áfengis né eiturlyfja. Við skýrslutöku fyrir dómi 16. janúar 2004 kvaðst ákærði ekki hafa spurt X út í þetta þar sem hann hefði ekki grunað neitt. Ákærði kvað X hafa sagt sér frá Danmerkurferðinni áður en hann hélt utan.
Ákærði kvaðst hafa gáð að tilkynningu um vörusendinguna vikulega en hún hefði ekki borist. Hann hefði síðan hringt í Eimskipafélagið og þá fengið þær upplýsingar að sendingin væri löngu komin. Um þetta atriði bar ákærði á þann veg við skýrslutöku hjá lögreglu 8. janúar 2004 að X hefði hringt í Eimskip og spurst fyrir um sendinguna og hefði sagt ákærða að dekkin og felgurnar væru komnar. X hefði látið hann fá peninga til að leysa sendinguna út en vegna anna í vinnu hefði hann hins vegar ekki náð í hana fyrr en eftir áramótin. Hann hefði síðan verið stöðvaður þegar hann var að setja dekkin inn í bifreið sína.
Ákærði kvaðst hafa grunað að meðákærðu neyttu fíkniefna á sameiginlegu heimili þeirra enda hefði verið sérkennileg lykt þar inni. Hann hefði hins vegar komið heim seint á kvöldin vegna mikillar vinnu og farið beint að sofa en verið farinn til vinnu aftur um sjöleytið á morgnana.
Vitnið, Kristinn Sigurðsson lögreglumaður, kvaðst hafa rætt við X eftir handtöku hans í íbúðinni í [...] umrætt sinn. Kvað hann X hafa sagt vitninu frá því að hann hefði rætt við föður sinn um innflutning á 8 kg af kannabisefni og að hann hefði fengið leyfi til að setja nafn föðurins á sendinguna. Hefði vitnið skilið X þannig að B ætlaði að taka á sig sök ef upp kæmist.
Niðurstaða.
Þáttur X:
Með játningu ákærða X sem er í samræmi við önnur gögn málsins þykir sannað að hann hafi gerst sekur um innflutning á 8 kílóum af kannabisefnum eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.
Þáttur B:
Ákærði B hefur staðfastlega neitað aðild að ofangreindum fíkniefnainnflutningi. Hefur hann borið að hann hafi ekki grunað X um fíkniefnainnflutning. Við fyrstu skýrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að svara sumum spurningum sem vörðuðu sakarefnið. Þá breyttist framburður þeirra feðga nokkuð eftir því sem á rannsóknina leið. Við aðalmeðferð málsins báru þeir að X hefði sagst ætla að setja upp dekkjaverkstæði. Veikir þetta neitun B. Framburðir meðákærðu um aðild B hafa verið reikulir.
Þá verður að telja mjög fjarstætt að B hafi ekki gert sér grein fyrir fíkniefnasölu meðákærðu, en þeir bjuggu á sama stað, þótt ekki sé að finna nákvæmar frásagnir af heimilislífi þeirra í gögnum málsins. Þessar aðstæður, svo og háttalag ákærða þegar hann vitjaði um sendinguna og breytilegur framburður hans, þykja veita nægan grundvöll til þess að fullyrt verði að ákærði B hafi hlotið að gera sér ljóst að flytja átti inn fíkniefni. Verður hann því sakfelldur fyrir liðsinni sitt, þ.e. að leyfa að sendingin yrði á sínu nafni og að reyna síðan að sækja efnin til Eimskips. Er heimilt að sakfella ákærða með þessum hætti, sbr. ákvæði 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Að þessu virtu verður háttsemi ákærða heimfærð til 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þáttur A:
Ákærði A hefur játað að hafa ætlað að taka þátt í sölu og dreifingu fíkniefnanna sem von var á þótt hann hefði talið ljóst að þáttur hans yrði ekki mikill. Þrátt fyrir fyrirætlanir hans verður ekki talið að A hafi með þeim gerst sekur um tilraun til sölu og dreifingar fíkniefna eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður því að sýkna hann af þessum þætti 3. ákæruliðar.
Með játningu ákærða A sem er í samræmi við önnur gögn málsins þykir sannað að hann hafi gerst sekur um að liðsinna X við innflutning á 8 kílóum af kannabisefnum eins og honum er gefið að sök í þessum þætti 3. ákæruliðar. Er hann því sakfelldur fyrir brot sitt en það er í ákæru rétt heimfært til refsiákvæða.
Þáttur Y:
Ákærði Y hefur játað að hafa ætlað að taka þátt í sölu og dreifingu fíkniefnanna sem von var á. Verður allt að einu ekki talið að Y hafi með þessum fyrirætlunum sínum gerst sekur um tilraun til sölu og dreifingar fíkniefna eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður því að sýkna hann af þessum þætti 3. ákæruliðar.
Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði því að hafa liðsinnt við fíkniefnainnflutning með því að skipta eða láta skipta íslenskum krónum í danskar krónur. Við þingfestingu málsins hafði hann játað þennan ákærulið en gaf þá skýringu við aðalmeðferð að það hefði hann gert fyrir mistök en hann hefði skipt peningum í þessum tilgangi fyrir fíkniefnainnflutninginn í september. Þykir skýring þessi ótrúverðug. Fyrr er rakinn framburður ákærða hjá lögreglu 13. janúar sl. sem hann staðfesti fyrir dóminum sama dag þar sem hann kvaðst hafa látið ónefnda menn skipta í danskar krónur 1.500.000 krónum af því sem fékkst fyrir 5 kg af kannabisefnum sem flutt voru inn í september. Við aðalmeðferð skýrði ákærði þetta misræmi í framburði með því að hann hafi ætlað að hlífa A. Verður sú skýring að teljast haldlítil enda sagði ákærði frá þátttöku A í gjaldeyriskaupunum í sömu lögregluskýrslu.
Þegar framangreindur framburður Y um gjaldeyriskaup er virtur í heild sem fær að hluta til stoð í framburði A fyrir dóminum um að hann héldi að Y hefði skipt einhverjum peningum fyrir þriðju Danmerkurferðina þótt hann treysti sér ekki til að fullyrða það, verður ekki talið varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um að hafa liðsinnt við fíkniefnainnflutning með því að skipta íslenskum krónum í danskar krónur eins og honum er einnig gefið að sök í þessum þætti 3. ákæruliðar. Verður hann því sakfelldur fyrir að veita liðsinni sitt við fíkniefnainnflutninginn eins og honum er gefið að sök í ákæru og er brot ákærða þar rétt heimfært til lagaákvæða.
Refsing.
Ákærði X er fæddur [...] 1982. Sakavottorð hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í þessu máli. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir innflutning á tæplega 15 kg af kannabisefnum í sölu- og dreifingarskyni. Við ákvörðun refsingar er tekið tillit til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og þess að hann hefur játað brot sín. Fyrir liggur að ákærði þjáist af þunglyndi og hefur verið til meðferðar vegna þess síðustu ár. Telst refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Frá refsivist ákærða ber að draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-16. janúar 2004.
Ákærði A er fæddur [...] 1982. Samkvæmt sakavottorði var hann þann 15. janúar 2001 dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir fjárdrátt og stóðst hann það skilorð. Þá gekkst ákærði tvisvar undir lögreglustjórasáttir til greiðslu sekta vegna umferðarlagabrota á árunum 2001 og 2002. Við ákvörðun refsingar ákærða nú ber að taka mið af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en einnig ber að líta til játningar ákærða. Telst refsing ákærða A hæfilega ákveðin mánaða fangelsi. Frá refsivist ákærða ber að draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-14. janúar 2004.
Ákærði Y er fæddur [...] 1982. Hann hefur tvisvar gengist undir sáttir til greiðslu sekta vegna fíkniefnalagabrota. Við ákvörðun refsingar ákærða nú ber að líta til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga og telst refsing hans hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi.
Ákærði B er fæddur [...] 1955 en hann hefur ekki gerst sekur um refsiverðan verknað. Telst refsing hans hæfilega ákveðin 4 mánaða fangelsi en rétt þykir að skilorðsbinda refsivist hans og skal refsingin falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistar ákærða ber að draga frá gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-16. janúar 2004.
Upptökukröfur.
b) Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 verða gerð upptæk 7.935 g af kannabis og 1,69 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
c) Með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997 verður ákærðu X og Y gert að sæta upptöku á fjármunum sem svara til ávinnings þeirra af ofangreindum brotum.
Eins og rakið hefur verið hér að framan bar X fyrir dóminum að hann hefði greitt samtals 50.000 danskar krónur (585.000 kr. skv. meðalgengi dönsku krónunnar 11,7) fyrir þau fíkniefni sem hann flutti inn úr fyrri ferð sinni til Danmerkur en ágóði hans hefði numið 1.750.000 krónum. Í seinni ferð hans til Danmerkur hefði hann hins vegar keypt fíkniefni fyrir 100.000 danskar krónur (1.170.000 kr. skv. meðalgengi dönsku krónunnar 11,7) en ávinningur af sölu efnanna hefði numið 2,8-2,9 milljónum króna og verður hér miðað við lægri fjárhæðina. Að þessu virtu áætlar dómurinn að ávinningur X hafi í heild numið að minnsta kosti 2.800.000 krónum og er sú fjárhæð gerð upptæk til ríkissjóðs. (1.750.000 kr.-585.000=1.165.000 kr. + 2.800.000 kr.-1.170.000 kr.=1.630.000 kr., samtals 2.795.000 kr.)
Ákærði Y hefur játað að hafa selt 1,2 kg af kannabisefnum úr fyrri fíkniefnainnflutningnum. Bar hann fyrir dóminum að samið hefði verið um að hann afhenti X 1.500 krónur fyrir grammið en kvaðst sjálfur hafa selt hvert gramm á um 1.750 krónur. Y kvað gæði kannabisefnanna úr seinni sendingunni hafa verið síðri en úr þeirri fyrri og því hefði verið um það samið að X fengi 1.000 krónur fyrir hvert gramm. Y hefur játað að hafa selt 3,2 kg kannabisefna úr síðari sendingunni en hins vegar kom ekki fram með skýrum hætti hversu háa fjárhæð hann hefði fengið fyrir sölu á hverju grammi. Ekki verður talið varhugavert að áætla að ávinningur ákærða hafi verið svipaður og af fyrri sölu. Að þessu virtu áætlar dómurinn að ávinningur Y hafi í heild numið 1.100.000 krónum og er sú fjárhæð gerð upptæk til ríkissjóðs. (1.750 kr. -1.500 kr. =250 kr., 250 kr. x 1.200g=300.000 kr. + 250 kr. x 3.200g=800.000 kr., samtals 1.100.000 kr.)
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 160.000 krónur.
Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hrl., 160.000 krónur.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., 160.000 krónur.
Ákærði B greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 160.000 krónur.
Allan annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Kolbrún Sævarsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, sem dómsformaður og héraðsdómararnir Símon Sigvaldason og Jón Finnbjörnsson.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 20 mánuði. Til frádráttar refsivist ákærða kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-16. janúar 2004.
Ákærði, A, sæti fangelsi í 8 mánuði. Til frádráttar refsivist ákærða kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-14. janúar 2004.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði, B, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingar hans og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Til frádráttar refsivist ákærða kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 7.-16. janúar 2004.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 7.935 g af kannabis og 1,69 g af tóbaksblönduðu kannabis.
Ákærði X sæti upptöku til ríkissjóðs á 2.800.000 krónum.
Ákærði Y sæti upptöku til ríkissjóðs á 1.100.000 krónum.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 160.000 krónur.
Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hrl., 160.000 krónur.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., 160.000 krónur.
Ákærði B greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 160.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.