Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 7. júlí 2006. |
|
Nr. 361/2006. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fallist er á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þykir skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. ágúst 2006 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2006.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst nk. kl. 16:00.
Vísað er til krafna lögreglustjórans í Hafnarfirði um gæsluvarðhald dags. 22. og 28 júní sl., sbr. úrskurði í málum héraðsdóms Reykjaness R-112 og 122/2006, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 347/2006.
Lögregla byggir á því að við rannsókn málsins hafi grunur um brot kærða enn styrkst, þrátt fyrir neitun hans á sakargiftum. Framburður kærða hafi breyst við meðferð málsins og kannist hann nú við að hafa verið með í för að B að morgni 21. júní sl. en kannist ekki við að hafa skotið af haglabyssu heldur hafi það verið meðkærði í málinu. Framburð kærða verði að meta með hliðsjón af upplýsingum sem fram koma í úrskurði héraðsdóms Reykjaness nr. 122/2006 um framburð meðkærða í málinu. Hins vegar bendi upplýsingar í málinu til þess að haglabyssan, sem beitt var, hafi verið í eigu kærða og þykir framburður vitnis styðja framburð meðkærða um að kærði hafi skotið af henni þrátt fyrir að hafa vitað af fólki inni í húsinu.
Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi framið brot gegn 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, en brotið getur varðað ævilöngu eða 16 ára fangelsi. Verið sé að rannsaka skotárás kærða að íbúðarhúsnæði að B í A. Telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er vísað til alls framangreinds, gagna málsins og ákvæða 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 kröfunni til stuðnings. Bendir lögreglustjóri á að kærði hafi þann 6. ágúst 2005 verið veitt reynslulausn í eitt ár á 135 daga eftirstöðvum refsingar.
Af gögnum málsins er ljóst að fyrir liggja vitnisburðir um að kærði hafi skotið af haglabyssu inn í umrætt hús. Með vísan til framanritaðs verður fallist á það með lögreglu að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi brotið gegn 211., sbr. 20. gr., og að sá grunur hafi enn styrkst við frekari rannsókn málsins. Brot gegn nefndu lagaákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi.
Með vísan til alls framanritaðs er fallist á það með lögreglustjóranum í Hafnarfirði að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þykir verða að taka kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald til greina. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er og verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 29. ágúst 2006.