Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 24. júlí 2000. |
|
Nr. 286/2000. |
X(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Y(enginn) |
Kærumál. Nauðungarvistun. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Talið var að X skorti lögvarða hagsmuni til að fá skorið úr um gildi ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi eftir að vistuninni hafði verið aflétt. Var málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem varnaraðili leitaði eftir 9. sama mánaðar og dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti 10. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að vista hana nauðuga á sjúkrahúsi, svo og að þóknun talsmanns hennar vegna flutnings þessa kærumáls verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Samkvæmt gögnum málsins hefur nauðungarvistun sóknaraðila verið aflétt með því að hún var útskrifuð af geðdeild Landspítalans - háskólasjúkrahúss 17. júlí sl. Hefur sóknaraðili því ekki lengur hagsmuni að lögum að fá skorið úr um gildi framangreindar ákvörðunar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Verður málinu vísað frá Hæstarétti án kröfu.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talmanns sóknaraðila, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður sóknaraðila, X, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns hennar, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.