Hæstiréttur íslands

Mál nr. 576/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Föstudaginn 11. nóvember 2011.

Nr. 576/2011:

Drómi hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Brautarholti 20 ehf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu D hf. um að bú B ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafa D hf. reist á grundvelli skuldbindingar B ehf. samkvæmt lánssamningi, sem tryggð var með 1. veðrétti í fasteign hins síðarnefnda. Í héraði var talið að samkvæmt mati dómkvadds matsmanns á söluverði fasteignarinnar væri krafa D hf. nægilega tryggð með veði í eigninni. D hf. lagði fyrir Hæstarétt yfirmatsgerð tveggja dómkvaddra manna, en samkvæmt henni var söluverð fasteignarinnar talið mun lægra en samkvæmt áðurgreindri matsgerð. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að það girti fyrir að bú B ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann færði sönnur á að krafa D hf. væri nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum sínum eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með vísan til niðurstöðu yfirmats á söluverðmæti fasteignarinnar, sem samkvæmt því væri mun lægra en krafa D hf., yrði ekki talið að B hf. hefði tekist þetta. Meðal annars af þessari ástæðu var krafa D hf. tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 10. janúar 2011. Á grundvelli fjárnámsins krafðist sóknaraðili þess 7. apríl sama ár að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta og barst sú krafa héraðsdómi daginn eftir. Í kröfunni er vísað til þess að skuld varnaraðila samkvæmt lánssamningi milli hans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 14. ágúst 2007, sem framlengdur var 7. ágúst 2008, hafi verið gjaldfelld í janúarmánuði 2010 vegna vanefnda varnaraðila. Þar er tekið fram að skuldin nemi alls 188.357.616 krónum, að meðtöldum  dráttarvöxtum  til 7. apríl 2011 og áföllnum kostnaði þann dag, sé miðað við að lánið feli sér skuldbindingu í íslenskum krónum, svo sem varnaraðili heldur fram. Verður þessi útreikningur sóknaraðila á skuldinni lagður til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur varnaraðili ekki borið fram haldbær rök sem hnekkja honum. Með vísan til þess, sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms, verður jafnframt að líta svo á að sóknaraðili sé réttur eigandi kröfunnar á hendur varnaraðila. 

Skuld varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi er tryggð með 1. veðrétti í fasteign hans Víkurbraut 21-23 í Reykjanesbæ. Lagði varnaraðili fyrir héraðsdóm matsgerð dómkvadds manns þar sem söluverð fasteignarinnar var talið vera 228.000.000 krónur miðað við 1. september 2011. Fólst í matinu, sem aflað var á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, vísbending um að krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningnum væri nægilega tryggð með áðurnefndu veði. Eftir að úrskurður héraðsdóms var kærður hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt yfirmatsgerð tveggja dómkvaddra manna þar sem söluverð fasteignarinnar Víkurbraut 21-23 er talið vera 114.000.000 krónur miðað við 1. september 2011. Að mati þeirra er það 120.000.000 krónur miðað við 1. nóvember sama ár.

Sóknaraðili styður kröfu sína  um gjaldþrotaskipti við ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 10. janúar 2011 eða tæpum þremur mánuðum áður en krafan var lögð fyrir héraðsdóm. Það girðir aftur á móti fyrir að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann færir sönnur á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum sínum eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til niðurstöðu ofangreinds yfirmats á söluverðmæti fasteignarinnar Víkurbraut 21-23, sem samkvæmt því er mun lægra en krafa sóknaraðila, verður ekki talið að þetta hafi varnaraðila tekist. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt hann hafi lagt fyrir Hæstarétt matsgerðir dómkvadds manns um söluverðmæti annarra fasteigna í eigu hans, enda hvíla veð til tryggingar umtalsverðum fjárskuldbindingum á þeim eignum. Varnaraðili hefur heldur ekki sýnt fram á að hann sé, þrátt fyrir það sem að framan greinir, fær um að standa full skil á gjaldföllnum skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Þá heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi ekki farið eftir lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins í skiptum sínum við sig. Lög nr. 107/2009 hafa ekki að geyma nein skilyrði fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja, heldur er gengið út frá í 3. gr. laganna að hún skuli háð mati þeirra, sem fara með eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt 2. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, eftir reglum sem þeir skulu setja sér. Að þessu virtu hefur varnaraðili ekki fært sönnur á að sóknaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 107/2009 þegar hann ákvað að setja fram kröfu sína um gjaldþrotaskipti.

Að gættu öllu því, sem að framan segir, verður fallist á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Bú varnaraðila, Brautarholts 20 ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2011.

Sóknaraðili, Drómi hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík, krefst þess, að bú varnaraðila, Brautarholts 20 ehf., kt. 480604-3260, Skútuvogi 11, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Hann krefst einnig málskostnaðar. 

Beiðni sóknaraðila barst dóminum 8. apríl 2011.  Málið var tekið fyrir í dómi 1. júní og mótmælti þá varnaraðili kröfunni.  Var þingfest ágreiningsmál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. september sl. 

Fjárnám var gert hjá varnaraðila 10. janúar 2011, að kröfu Tollstjóra.  Var ekki mætt af hálfu varnaraðila til gerðarinnar og var bókað í gerðabók að ekki væri vitað um eign sem taka mætti fjárnámi.  Var gerðinni lokið sem árangurslausri. 

Sóknaraðili kveðst eiga fjárkröfu á hendur varnaraðila.  Er um að ræða lánssamning sem varnaraðili gerði verið Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis 14. ágúst 2007.  Krafan var framseld sóknaraðila 26. maí 2009 í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. 

Í fyrirsögn samningsins er hann nefndur Lánssamningur í erlendum myntum.  Í 5. gr. segir að lántaki lofi að taka að láni og sparisjóðurinn að lána jafnvirði 112.000.000 ISK í eftirtöldum myntum CHF (25%) … JPY (25%) … EUR (50%) … 

Allt lánið skyldi endurgreiða 10. ágúst 2008.  Áður en sá dagur rann var samið um framlengingu lánsins til 8. ágúst 2009.  Varnaraðili greiddi ekki.  Í beiðni er krafan talin vera að höfuðstól 302.044.031 króna, en 356.053.063 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum til 7. apríl 2011 og kostnaði.  Í beiðni er krafan einnig sundurliðuð miðað við að lánið teljist vera í íslenskum krónum með óheimilli verðtryggingu.  Telur sóknaraðili kröfuna þá nema samtals 188.107.616 krónum. 

Til tryggingar skuldinni á sóknaraðili veðrétt í fasteign að Víkurbraut 21-23 í Reykjanesbæ. 

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. 

Varnaraðili kveðst hafa leitað til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis  í því skyni að fjármagna kaup á fasteign og lóð að Víkurbraut 21-23 í Reykjanesbæ til uppbyggingar og endursölu.  Hann eigi einnig aðrar fasteignir.  Hann hafi unnið að verðmætaaukningu á Víkurbraut 21-23, m.a. með nýju skipulagi.  Þegar komið hafi verið að uppbyggingu og sölu eignarinnar, sem hann hefði getað hagnast verulega á, hafi ekkert veðrými verið á eigninni vegna hækkandi ólögmætra, áhvílandi lána. 

Varnaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að sóknaraðili eigi ekki kröfu á hendur sér.  Þann 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.  Stofna hafi átt sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tæki við öllum eignum félagsins og tryggingarréttindum.  Þessi ákvörðun hafi verið virt að vettugi.  Hlutafélagið Drómi hafi verið stofnað og hafi verið í eigu SPRON og Mýrarhlíðar ehf.  Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi ekki heimilað að aðrir aðilar en SPRON ættu hið nýja félag. 

Verði samt sem áður fallist á að sóknaraðili hafi tekið við réttindum SPRON bendir varnaraðili á að kröfuhafi sé ekki hlutafélagið SPRON, heldur sparisjóðurinn Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis.  Engin gögn liggi frammi sem sýni að hlutafélagið hafi fengið kröfuréttindi sparisjóðsins framseld. 

Í öðru lagi byggir hann á því að krafa sóknaraðila um að bú félagsins verði tekið til gjaldþrotaskipta sé ólögmæt.  Sóknaraðila hafi borið að framfylgja lögum nr. 107/2009 í málefnum varnaraðila og samræmdum reglum sem settar voru á grundvelli 2. mgr. 3. gr. þeirra laga.  Þar sem það hafi ekki verið gert sé gjaldþrotaskiptabeiðni ótímabær og í andstöðu við markmið og anda laga nr. 107/2009.  Varnaraðili segir kröfu um gjaldþrotaskipti byggða á geðþóttaákvörðun sóknaraðila vegna óvildar stjórnar sóknaraðila í garð eins af eigendum varnaraðila.  Úrræði laga nr. 107/2009 eigi við um rekstur sinn og að sóknaraðila sé skylt að framfylgja lögunum og samræmdum reglum sem settar hafi verið og áður en það hafi verið gert sé sóknaraðila óheimilt að krefjast gjaldþrotaskipta, en varnaraðili hafi reglulegar rekstrartekjur af eignum sínum. 

Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að fjárkrafa sóknaraðila sé röng, ólögmæt og óskýr. 

Varnaraðili segir að engin dómafordæmi styðji þá skoðun sóknaraðila að lánið sé lögmætt erlent lán.  Hann vill leggja sérstaka áherslu á aðstöðumun aðila.  Lánveitandi hafi verið fjármálastofnun sem hafi haft sérfræðinga í sinni þjónustu.  Varnaraðili sé hins vegar félag sem búi yfir sérþekkingu á fasteignum. byggingarrétti og verðmæti við kaup og sölu.  Varnaraðili verði því að öllu leyti að geta treyst því að sú þjónusta sem lánveitandi veiti sé byggð á sérfræðiþekkingu.  Á lánveitanda hvíli sérfræðiábyrgð gagnvart varnaraðila vegna viðskipta aðila.  Um viðskipti varnaraðila og lánveitanda gilda tilskipanir nr. 2008/48, 2005/29, 93/13, 87/102 og 90/88 sem aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins leiða í lög. Gerðar séu ríkar kröfur til skýrleika samninga við neytendur og beri að túlka allan vafa neytanda í hag. 

Varnaraðili kveðst ekki hafa tekið þá fjárhæð að láni sem sóknaraðili krefjist.  Höfuðstóll lánsins hafi verið 112.000.000 króna.  Mótmælir varnaraðili því og segir ósannað að lánveitandi eigi rétt á þeirri fjárhæð sem hann geri kröfu um.  Samningur lánveitanda sé ólögmætur og útreikningsaðferðir sóknaraðila sömuleiðis.  Skilmálar lánsins um tengingu við erlenda gjaldmiðla séu ólögmætir.  Sóknaraðili hafi ekki sannað rétta og lögmæta skuld. 

Varnaraðili segir að lánveitanda hafi verið fullkunnugt að tenging skuldbindingar við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið andstæð lögum.  Samt sem áður hafi verið reynt að sniðganga bannið.  Lánveitandi hafi verið í vondri trú.  Víkja beri samningnum til hliðar að hluta þar sem lánskjörin hafi verið andstæð 14. gr. laga nr. 38/2001, en einnig vegna þess að lánskjörin séu ósanngjörn í skilningi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. 

Varnaraðili kveðst telja að allt í lánasamningnum bendi til þess að um sé að ræða íslenska lánaskuldbindingu en ekki erlenda skuldbindingu.  Óumdeilt sé í málinu að upphaflega lánsfjárhæð hafi átt að greiða í íslenskum krónum.  Í raun hafi erlend mynt aldrei farið milli aðila.  Engin raunveruleg viðskipti með erlendar myntir hafi farið fram.  Hafi svo verið hafi það ekki verið að beiðni varnaraðila. 

Varnaraðili byggir á því að lánasamningurinn sé ósanngjarn og andstæður góðri viðskiptavenju.  Því beri að víkja honum til hliðar í heild eða að hluta samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. einnig 36. gr. c.  Skilmálar  láns sé í senn ósanngjarnir og ólögmætir. 

Lánveitandi hafi ekki viðhaft góða viðskiptahætti við samningsgerð við varnaraðila, hafi hvorki komið fram á heiðarlegan né sanngjarnan hátt, eða haft í huga réttmæta hagsmuni varnaraðila.  Þá hafi hann reynt að sniðganga skýr lagaákvæði sem gilda um verðtryggingu lánsfjár og beitt sér fyrir því að skilmálar lánsins yrðu ósanngjarnir. 

Varnaraðili segir að útreikningur sóknaraðila á kröfunni sé andstæður lögum og leiði það til þess að réttindum og skyldum aðila var raskað verulega varnaraðila í óhag.  Lánasamningurinn sé ekki í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994 eða tilskipanie Evrópusambandsins sem varða neytendalán og óréttmæta skilmála.  Tekur hann dæmi af tilskipunum nr. 93/13/EBE, 98/7/EB og 87/102/EBE. 

Ennfremur telur varnaraðili, og vísar til sömu sjónarmiða, að ekki séu uppfyllt skilyrði til að breyta ákvæðum samningsins um vexti enda séu þeir skýrir og lögmætir.  Verði það allt að einu gert geti sóknaraðili ekki átt rétt á dráttarvöxtum.  Gjaldfelling lánsins hafi verið nátengd ólögmætum skilmálum og skilyrði III. kafla laga nr. 38/2001 séu ekki uppfyllt vegna óvissu um lögmæti lánaskilmála. 

Text Box: 8Varnaraðili kveðst hafa haft ákveðnar forsendur þegar hann gekk til viðskiptanna.  Þær hafi brostið.  Leiði það til þess að víkja beri samningnum til hliðar að hluta  Honum beri ekki að endurgreiða lánsfjárhæðina eins og hún hafi hækkað, heldur aðeins þá fjárhæð sem með lögmætum hætti og af sanngirni megi ætlast til að viðskiptavinur fjármálastofnunar greiði til baka. 

Varnaraðili vísar til meginreglna um óvæntra ytri atburða á samningsskyldur, sem nefnt sé force majeure.  Þær eigi hér við vegna kerfishruns fjármálamarkaðarins. 

Varnaraðili mótmælir útreikningi sóknaraðila á skuldinni.  Hann eigi ekki rétt á dráttarvöxtum og samningsvexti reikni hann of háa.  Telji sóknaraðili sig hafa heimild til að breyta vaxtaákvæðum hljóti samningsákvæði um gjaldfellingu og gjalddaga að breytast með sama hætti þannig að varnaraðila verði boðið að greiða af endurreiknuðu láni án gjaldfellingar og dráttarvaxta, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001.  Þá kveðst varnaraðili hafa haft lögmætar ástæður til að halda eftir greiðslu vegna ólögmætrar háttsemi sparisjóðsins við framkvæmd og gerð hins umdeilda lánasamnings.  Sóknaraðili geti í fyrsta lagi krafist dráttarvaxta af meintri skuld mánuði frá þeim degi er hann hefur gefið varnaraðila upplýsingar um lögmætan endurútreikning með kröfu um greiðslu fyrstu afborgunar.  Fram til þess tíma eigi sóknaraðili ekki rétt á öðrum vöxtum en samningsvöxtum af meintri skuld. 

Þá segir varnaraðili að sér hafi ekki verið boðin þau úrræði sem stjórn sóknaraðila hafi veitt öðrum.  Vísar hann hér til fullyrðingar varnaraðila í bréfi til Alþingis að hann hafi gerst aðili að öllum samningum um úrræði gagnvart skuldurum. 

Í fjórða lagi byggir varnaraðili á því að hin árangurslausa aðfarargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag sínum.  Verðmæti fasteigna sinna sé ekki lægra en skuldir við sóknaraðila þegar þær hafi verið reiknaðar á ný á lögmætan hátt.  Þá eigi hann skaðabótakröfu á hendur lánveitendum, m.a. sparisjóðnum sem veitt hafi lánið sem hér sé um fjallað.  Kveðst varnaraðili lýsa skaðabótakröfu til skuldajafnaðar við þá kröfu sem sóknaraðili hefur uppi. 

Nánar lýsir varnaraðili því að hann hafi tekið lán að höfuðstól 968.805.870 krónur, en eignir hafi samkvæmt ársreikningi verið metnar á 2.864.000.000 króna.  Öll lán hafi verið í íslenskum krónum, verðbætt miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.  Lánveitendur hafi komið í veg fyrir sölu á eignum varnaraðila með því að beita ólögmætum skilmálum lánssamninga.  Þannig hafi verið komið í veg fyrir með ólögmætum hætti, að varnaraðili gæti sinnt tilgangi félagsins og takmarkað það tjón sem lánveitendur hefðu þegar valdið.  Tjón hafi hlotist af þessari afstöðu lánveitenda þar sem eignir félagsins hafi lækkað í verði. 

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eða lánveitandi beri stranga ábyrgð, sérfræðiábyrgð, á grundvelli sakarreglunnar.  Þessi beiting sakarreglunnar felist einkum í þrennu.  Í fyrsta lagi séu gerðar ríkari kröfur til hins hlutlæga þáttar, þannig að menn sýni meiri aðgæslu eða vandvirkni en almennt yrðu gerðar kröfur til.  Í öðru lagi að gerðar séu ríkari kröfur til þess hvað maður sá eða mátti sjá um afleiðingar háttsemi sinnar og í þriðja lagi séu gerðar vægari sönnunarkröfur til tjónþola. 

Varnaraðili segir ljóst af dómafordæmum að samningur aðila hafi haft að geyma ólögmæta verðtryggingu.  Sérmenntuðum starfsmönnum lánveitanda hafi mátt vera þetta ljóst.  Reynt hafi verið að færa ólögmæt lán í þann búning að þau teldust lögmæt.  Því sé ljóst að starfsmenn lánveitandans hafi vitað um þær takmarkanir sem séu á heimild til verðtryggingar. 

Varnaraðili telur sannað í málinu að sparisjóðurinn hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi boðið varnaraðila að ganga til samnings um ólögmæta lánveitingu.  Þá telur varnaraðili það einnig saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu sparisjóðsins að láta hjá líða að viðurkenna ólögmæti lána þannig að varnaraðili hafi átt möguleika á því að takmarka tjón sitt með því að selja fasteignina við Víkurbraut áður en verðmæti hennar rýrnaði. 

Varnaraðili segir að slakað sé á kröfum um sönnun á því hvert tjónið er.  Þá sé oft vikið frá meginreglunni um að tjónþoli þurfi að sanna orsakatengsl milli háttsemi tjónvalds og tjónsins. 

Varnaraðili segir tilgang félagsins vera að kaupa, reka og selja fasteignir með hagnaði.  Hann hafi leitað til lánveitenda vegna fjármögnunar á fasteignum, til sparisjóðsins vegna fjármögnunar á Víkurbraut.  Verðmæti eigna félagsins hafi verið aukið, m.a. með því að fá samþykkt skipulag með auknu byggingarmagni og koma fasteignum í útleigu til tryggra leigutaka.  Ef frá upphafi hefði verið gefin upp lögmæt staða á áhvílandi lánum varnaraðila þá hefði varnaraðili átt mun auðveldara með sölu á eignum og haft af því verulegan hagnað.  Varnaraðili telur tjón sitt nema mismun á verðmæti eigna á þeim tíma sem mögulegt hafi verið að selja þær og verðmæti sömu eigna í dag, eins og það sé metið af dómkvöddum matsmanni.  Tjónið sé einnig mismunur á því verði sem dómkvaddur matsmaður metur markaðsverðmæti eigna og þeirri lánastöðu viðkomandi eigna sem hefði verið rétt m.v. að um lögmætt lán hefði verið að ræða.  Til vara er gerð sú krafa að dómurinn meti hæfilegar bætur varnaraðila til handa vegna háttsemi sparisjóðsins. 

Í fimmta lagi byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði og sambærilegum réttindum og að hann verði innan skamms tíma fær um að standa skil á réttmætum og lögmætum skuldbindingum. 

Varnaraðili lagði fram matsgerð dómkvadds matsmanns, sem falið var að meta líklegt söluverð fasteignarinnar að Víkurbraut 21-23.  Í matsgerðinni er metið söluverðmæti miðað við 24 mismunandi dagsetningar á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 1. september 2011.  Söluverðið er metið 228.000.000 króna á síðastgreindum degi. 

Loks byggir varnaraðili á því að hann verði innan skamms fær um að standa skil á réttmætum og lögmætum skuldbindingum sínum. 

Auk lagaákvæða sem greind hafa verið hér að framan vísar varnaraðili til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 107/2009 og reglna settra samkvæmt þeim og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 

Niðurstaða

Aðild sóknaraðila er skýrð þegar í beiðni.  Fjármálaeftirlitið gaf þau fyrirmæli er skilanefnd var skipuð í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. að stofnað yrði hlutafélag er tæki við ýmsum réttindum.  Hér skiptir ekki máli þó SPRON sé ekki eini hluthafi félagins.  Þá hefur ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu að hlutafélagið hafi tekið yfir öll réttindi sem sparisjóðurinn átti.  Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað með því að hann eigi ekki fjárkröfu á hendur varnaraðila. 

Á forsíðu lánssamningsins er hann sagður vera í erlendum myntum.  Í 5. gr. samningsins er eins og að framan greinir notað orðalagið … að lána jafnvirði 112.000.000 ISK í eftirtöldum myntum …  Í grein 5.7 segir að lántaka sé heimilt á lokadegi hvers vaxtatímabils að breyta gjaldmiðli lánsins með tilteknum hætti.  Þessi atriði benda hvert á sinn hátt til þess að í reynd sé um að ræða lán í erlendri mynt, en ekki í íslenskum krónum.  Á hinn bóginn er bersýnilegt að endurgreiðsla á að fara fram í íslenskum krónum.  Verður að meta samninginn svo að í raun sé samið um lán í íslenskum krónum, sem fært er búning láns í erlendum myntum.  Verður að þessu virtu að líta svo á að krafa sóknaraðila nemi 188.107.616 krónum.

Að kröfu varnaraðila var dómkvöddum matsmanni falið að meta verðmæti fasteignarinnar, sem sóknaraðili á veð í til tryggingar kröfu sinni.  Matsmaðurinn taldi að selja mætti eignina fyrir 228.000.000 króna.  Þessu mati hefur ekki verið hnekkt og ekki hefur verið sýnt fram á að það byggi á röngum forsendum.  Sóknaraðili á veðrétt í eigninni samkvæmt tryggingarbréfi dags. 31. mars 2007.  Bréf þetta tryggir hærri fjárhæð en skuldina.  Þá mun bréfið nú vera á fyrsta veðrétti.  Samkvæmt því virðist krafa sóknaraðila nægilega tryggð með veði í eigninni.  Ber því að hafna kröfu sóknaraðila, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. 

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Dróma hf., um að bú varnaraðila, Brautarholts 20 ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta. 

Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.