Hæstiréttur íslands
Mál nr. 686/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Föstudaginn 21. janúar 2011. |
|
Nr. 686/2010. |
Pappi.is ehf. (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Silfursteini ehf. (Marteinn Másson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem P ehf. var, að kröfu S ehf., gert að setja málskostnaðartryggingu í máli sem P ehf. hafði höfðað á hendur S ehf. Til stuðnings kröfu sinni vísaði S ehf. til þess að tvö árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð hjá P ehf. S ehf. lagði fram kröfu um málskostnaðartryggingu við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði. Í dómi Hæstaréttar var m.a. tekið fram að ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 hafi ekki verið talið girða fyrir að hafa megi uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gefist þá fyrst til þess. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að S ehf. hefði ekki sýnt fram á að hann hefði fyrst átt þess kost að koma fram með kröfuna svo seint sem raun varð á og var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2010, þar sem sóknaraðila var gert að setja innan þriggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins tryggingu í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 600.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili reisir kröfu sína á því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr. b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Vísar hann um það meðal annars til útprentunar úr svonefndri vanskilaskrá fyrirtækisins Creditinfo Lánstrausts hf. þar sem fram kemur að gerð hafi verið árangurslaus fjárnám hjá sóknaraðila 30. september og 5. október 2010 samkvæmt færslum á skrána 6. október 2010.
Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að krefjast málskostnaðartryggingar við þingfestingu máls. Ákvæðið hefur þó ekki verið talið girða fyrir að hafa megi síðar uppi slíka kröfu ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Rekstri málsins er lýst í hinum kærða úrskurði, en það var þingfest 28. nóvember 2008 og hafði verið tekið fyrir 14 sinnum áður en fram kom krafa varnaraðila um málskostnaðartryggingu. Samkvæmt útskrift úr þeirri skrá, sem varnaraðili vísar til, fór einnig fram árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila 26. mars 2009 og voru upplýsingar um það færðar á skrána 6. janúar 2010. Eftir það var málið tekið fyrir fimm sinnum áður en krafa sóknaraðila var sett fram. Verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi fyrst átt þess kost að koma með kröfuna svo seint sem raun varð á og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Silfursteinn ehf., greiði sóknaraðila Pappa.is ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2010.
Í málinu er af hálfu stefnda, Silfursteins ehf., gerð sú krafa að stefnanda, Pappa ehf., verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu í máli þessu að fjárhæð 1.000.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins. Stefnandi krefst þess aðallega að kröfu stefnda verði hafnað, en til vara er þess krafist að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði ákvörðuð lægri en stefndi geri kröfu um.
Stefnandi höfðaði málið á hendur stefnda þann 21. nóvember 2008. Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.410.695 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. ágúst 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi lagði fram greinargerð í málinu 7. janúar 2009. Krefst stefndi aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Þá krefst stefndi þess að til skuldajafnaðar við stefnukröfur komi gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð 5 milljónir króna. Stefndi krefst málskostnaðar. Eftir að greinargerð hafði verið lögð fram af hálfu stefnda var málið nokkrum sinnum tekið fyrir vegna gagnaöflunar en í þinghaldi 27. apríl 2009 var matsmaður dómkvaddur að beiðni stefnda. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi þann 9. desember 2009 og var málið tekið fyrir í nokkur skipti eftir það en í þinghaldi 17. mars sl. var gagnaöflun lýst lokið og aðalmeðferð ákveðin 8. júní 2010. Í þinghaldi þann 14. apríl 2010 úrskurðaði dómstjóri að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, sem hafði farið með málið, viki sæti í málinu með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þann 21. apríl var núverandi dómara úthlutað málinu. Aðalmeðferð sem ákveðin hafði verið 8. júní var frestað utan réttar til 28. september 2010 og síðan aftur til 2.6. október sl. Við fyrirtöku málsins þann dag var aðalmeðferð frestað vegna framkominnar kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda. Í þinghaldi þennan dag var stefnanda veittur frestur til 28. október sl. til að leggja fram frekari gögn um eignastöðu stefnanda áður en málið áður en krafa stefnda yrði tekin til úrskurðar. Munnlegur málflutningur fór fram um kröfu stefnda þann 28. október sl.
Krafa stefnda um málskostnaðartryggingu er reist á b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefndi telur skilyrði ákvæðisins uppfyllt um að líkur séu á að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
Andmæli stefnanda gegn þessari kröfu stefnda lúta aðallega að því að stefndi hafi gert málskostnaðarkröfu of seint, en í öðru lagi að því að fullnægjandi sönnun skorti fyrir slakri greiðslugetu stefnanda.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi í máli krafist þess að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Stefndi byggir kröfu sína á því að samkvæmt útprentun úr vanskilaskrá Lánstrausts hafi mjög nýlega verið gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá stefnanda, hið fyrra 30. september sl. og hið síðara þann 5. október sl. Stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um þessa stöðu hjá sér. Af tilviljun hafi af hálfu stefnda verið látið fletta upp í vanskilaskránni þann 25. október sl. og hafi þessar upplýsingar þá komið í ljós. Stefndi hafi þá þegar komið kröfu sinni á framfæri við dóminn.
Áskilnaður 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að krafa skuli koma fram við þingfestingu máls verður ekki, með vísan til þess sem í greinargerð með lagaákvæðinu segir, talinn girða fyrir að slík krafa verði tekin til greina, ef tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu kemur fyrst fram eftir þingfestingu málsins. Aðalmeðferð máls þessa hafði eins og áður segir verið ákveðin 26. október sl. og var því eftir atvikum eðlilegt að krafa stefnda kæmi fram við upphaf þess þinghalds. Af hálfu stefnanda er að því vikið að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá stefnanda í mars 2009 og að þá hefði stefndi í síðasta lagi getað krafist málskostnaðartryggingar. Í framlagðri útskrift úr vanskilaskrá Lánstrausts kemur fram að þann 26. mars 2009 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda að kröfu Tollstjórans í Reykjavík. Af hálfu stefnanda hefur hvorki verið lagt fram endurrit umrædds fjárnáms né önnur gögn er það varða. Að öllu virtu þykir stefnandi ekki hafa leitt nægar líkur að því að stefnda hafi áður en honum varð kunnugt um hin árangurslausu fjárnám sem gerð voru hjá stefnanda 30. september og 5. október sl., verið kunnugt um bágan efnahag stefnanda og verður kröfu stefnda því ekki hafnað af þeim ástæðum að krafan sé of sein komin fram.
Í annan stað byggir stefnandi andmæli sín við kröfu stefnda á því að ekki liggi fyrir fullnægjandi sönnun um bágan efnahag stefnanda. Stefnandi hafi ekki mætt hjá sýslumanni er hinar árangurslaus gerðir fóru fram og því liggi ekki fyrir yfirlýsing stefnanda um eignaleysi. Þá séu kröfurnar byggðar á áætlunum. Ekki stoðar það stefnanda að bera fyrir sig að hafa ekki mætt við fyrirtökur hjá sýslumanni eða að um sé að ræða áætlanir. Stefnanda var veittur frestur til að leggja fram gögn um eignastöðu sína áður en málið yrði tekið til úrskurðar. Af hálfu stefnanda var ekkert lagt fram um það.
Samkvæmt framansögðu þykir skilyrðum b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir málskostnaðartryggingu fullnægt, enda þykja líkur hafa verið leiddar að því með framlagningu endurrita um árangurslausar aðfarargerðir hjá stefnanda að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu.
Með hliðsjón af kröfum málsins og umfangi þess svo og öflun mats dómkvadds matsmanns í málinu af hálfu stefnda þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 600.000 krónur. Ber stefnanda að setja tryggingu á þann hátt og innan þess frests, sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefnanda, Pappa ehf., ber að setja innan þriggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðar þessa tryggingu í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 600.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn stefnda, Silfursteini ehf.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.