Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


       

Þriðjudaginn 26. ágúst 2008.

Nr. 461/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

            Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

            Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

            Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

            Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 22. ágúst 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. september nk. kl. 16.

Í greinargerð kemur fram að ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi allt frá 22. júlí sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 424/2008, til dagsins í dag kl. 16.

Í dag höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu opinbert mál á hendur ákærða með útgáfu ákæru.  Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök sex þjófnaðarbrot, þar af eru fimm innbrot inn á heimili fólks, þá er honum gefið að sök þrjú hilmingarbrot, þar sem ákærði hafði m.a. í vörslum sínum þjófstolna muni sem stolið var í innbrotum í heimahús.  Öll brotin eru framin í júní og júlí á þessu ári.

Það er mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, sé fullnægt, enda er ákærði undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og þá má ætla að hann muni halda áfram brotum meðan mál hans eru til meðferðar fyrir dómstólum. Stefnt er að því að ljúka málum ákærða fyrir dómi innan þess tíma sem hér er krafist.

Brotaferill ákærða hefur verið samfelldur. Ákærði er atvinnulaus og hefur lítil tengsl við land og þjóð. Hann hefur lýst því yfir, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann framfleyti sér með afbrotum. Í ljósi þessa eru yfirgnæfandi líkur til þess að ákærði muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna.

Þá liggur fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt og hefur ekkert komið fram í málinu sem breytt getur því mati.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er þess krafist, að krafan nái fram að ganga. 

Svo sem að ofan er rakið og stutt er framlögðum gögnum liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði eigi hlut að fjölmörgum innbrotum á höfuð­borgar­svæðinu og nágrenni í júní og júlímánuði. Hefur mikið magn þýfis fundist á dvalarstað hans og í bifreið, sem tengir hann við innbrotin. Kærði hefur áður viðurkennt að eiga aðild að innbrotum þessum og hefur jafnframt áður lýst því yfir að hann framfleyti sér hér á landi með afbrotum og sölu á þýfi. Þá liggur fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt.

Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing. Fellst dómurinn á mat lögreglustjóra að hætta kunni að vera á að kærði muni halda áfram iðju sinni, gangi hann laus. Verður kærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til föstudagsins 19. september nk. kl. 16.00.

 

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S KU R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 19. september nk. kl. 16.00.