Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2012
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Innlausn
- Verðbréfaviðskipti
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2012. |
|
Nr. 159/2012.
|
Hjartavernd ses. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Landsvaka hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Innlausn. Verðbréfaviðskipti.
H ses. átti hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði sem L hf. annaðist rekstur á en LÍ hf. hafði vörslur og umsjón með eignum sjóðsins. Að morgni 6. október 2008 fór H ses. þess á leit með tölvupósti til LÍ hf. að hlutdeildarskírteini hans yrðu seld og andvirði þeirra lagt inn á innlánsreikning. Síðar sama dag sendi starfsmaður LÍ hf., með tölvubréfi, staðfestingu á því að beiðni H ses. hefði verið skráð og fylgdi tölvubréfinu bráðabirgðakvittun vegna innlausnarinnar. L hf. tók þá ákvörðun að morgni 6. október að fresta ótímabundið innlausn hlutdeildarskírteina þeim sjóði sem H ses. hafði fjárfest í og var ákvörðunin í kjölfarið send Fjármálaeftirlitinu og kynnt opinberlega. Hæstiréttur vísaði til þess að þegar ákvörðun L hf. hefði verið tekin hefði ekki farið fram innlausn á hlutdeildarskírteinum H ses. samkvæmt beiðni þar um. Væri H ses. því bundinn af ákvörðuninni. Þá hefði innlausn ekki farið fram við það eitt að H ses. hefði fengið bráðabirgðakvittun vegna fyrirhugaðrar innlausnar þegar viðskipti hæfust aftur með skírteini í sjóðnum. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 82.767.853 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 275.551.885 krónum frá 6. október 2008 til 28. sama mánaðar, en af 82.767.853 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi fór áfrýjandi þess á leit með tölvupósti til Landsbanka Íslands hf., sem sendur var 6. október 2008 kl. 9.47, að hlutdeildarskírteini hans í fjárfestingarsjóði sem nefndur var Peningabréf Landsbankans ISK yrðu seld og andvirði þeirra lagt á innlánsreikning. Þessu erindi svaraði starfsmaður bankans með tölvubréfi, sem sent var sama dag kl. 15.52, en þar sagði svo: „Kauphöllin er komin inn, og ég gat sett inn innlausn. En þetta er ekki til greiðslu fyrr en á morgun.“ Með bréfi þessu fylgdi bráðabirgðakvittun þar sem fram kom að tekið hafi verið á móti beiðni um innlausn á hlutdeildarskírteinum áfrýjanda. Samkvæmt kvittun þessari var andvirði skírteinanna áætlað 275.551.885 krónur að teknu tilliti til skatta, en sú fjárhæð var miðuð við síðasta skráða kaupgegni hlutdeildarskírteina 3. október 2008. Að öðru leyti er málsatvikum nægjanlega lýst í hinum áfrýjaða dómi.
II
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. þágildandi laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði voru hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða innlausnarskyld eftir reglum viðkomandi sjóðs. Samkvæmt ákvæðinu var þó heimilt að ákveða í slíkum reglum að fresta mætti innlausn hlutdeildarskírteina. Sú ráðstöfun skyldi vera almenn og taka til allra skírteina og yrði henni einungis beitt ef sérstakar ástæður mæltu með því og hagsmunir eigenda krefðu. Skyldi ráðstöfunin þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og jafnframt auglýst opinberlega, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Hinn 17. apríl 2008 setti stjórn stefnda reglur fyrir Peningabréf Landsbankans ISK en hlutdeildarskírteini áfrýjanda voru í þeim sjóði. Samkvæmt 10. grein þeirra reglna var stefnda skylt að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gilti á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar að lútandi. Áttu viðskiptin að fara fram samdægurs bærist ósk um þau fyrir kl. 16. Í sömu grein var síðan að finna heimild til að fresta innlausn hlutdeildarskírteina undir sérstökum kringumstæðum en ákvæðið var að öðru leyti efnislega samhljóða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003.
Á grundvelli þessara heimilda og með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum tók stjórn stefnda þá ákvörðun að morgni 6. október 2008 að fresta ótímabundið innlausn hlutdeildarskírteina í þeim sjóði sem áfrýjandi hafði fjárfest í. Í kjölfarið var ákvörðunin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og birt opinberlega. Þegar ákvörðunin var tekin hafði ekki farið fram innlausn á hlutdeildarskírteinum áfrýjanda samkvæmt beiðni hans, sem send var sama morgun. Áfrýjandi var því bundinn af ákvörðuninni, sbr. dóma Hæstaréttar frá 24. maí 2011 í máli nr. 219/2011 og 8. desember sama ár í máli nr. 152/2011. Stefnda bar því ekki að innleysa skírteini áfrýjanda og fór innlausn ekki fram við það eitt að áfrýjandi fengi bráðabirgðakvittun vegna fyrirhugaðrar innlausnar þegar viðskipti hæfust aftur með skírteini í sjóðnum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22.desember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hjartavernd ses., Holtasmára 1, Kópavogi, gegn Landsvaka hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík, og var málið þingfest 15. júní 2010.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 82.767.853 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 275.551.885 kr. frá 6. október 2008 til 28. október 2008, en af. 82.767.853 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Málavextir eru þeir að þann 6. október 2008 átti stefnandi hlutdeildarskírteini að nafnvirði 8.908.277,45 kr. í fjárfestingarsjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, sem auðkenndur var með heitinu PENISK. Rekstarfélag sjóðsins var stefndi Landsvaki hf., sem þá var dótturfélag í eigu Landsbanka Íslands hf., en er nú í eigu NBI hf. Sjóðurinn starfaði samkvæmt lögum um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003 og fól stefndi Landsbanka Íslands hf. umsjón og vörslu eigna PENISK sjóðsins sem vörslufyrirtæki á grundvelli 20., sbr. 52. gr. laga nr. 30/2003.
Helgina 4.-5. október áttu sér stað viðræður á milli ríkisstjórnarinnar, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, viðskiptabankanna, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóða og fleiri aðila. Mikil ókyrrð ríkti á fjármálamörkuðum og að morgni 6. október 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun sína að lokað yrði fyrir viðskipti í Kauphöll Íslands með öll verðbréf útgefin af Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf., Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf., Spron hf. og Exista hf. Samkvæmt fundargerð stjórnar stefnda var stjórnarfundur haldinn milli kl. 9:30 og 10:00 að morgni hins 6. október 2008. Í ljósi óvissu á markaði og þess að Fjármálaeftirlitið hafði lokað fyrir viðskipti með fjármálagerninga fjármálafyrirtækja í Kauphöllinni var sú ákvörðun tekin af hálfu stefnda að loka fyrir innlausnir með hlutdeildarskírteini tilgreindra sjóða, þar á meðal allra peningamarkaðssjóða. Stefndi tilkynnti Fjármálaeftirlitinu um þessa ákvörðun sína með tölvupósti kl. 11:04 sama dag og var hún auglýst á vefsíðu Landsbankans 7. október 2008. Ekki var opnað fyrir innlausnir hlutdeildarskírteina hjá stefnda 6. október 2008. Síðar sama dag ávarpaði forsætisráðherra þjóðina í beinni útsendingu og gerði grein fyrir alvarlegri stöðu íslensks efnahagslífs. Boðaði forsætisráðherra að sett yrðu neyðarlög sem hefðu það að markmiði að verja innlendan hluta fjármálastarfseminnar í landinu og tryggja innlán á Íslandi umfram aðrar kröfur á bankana. Til að ná þessu markmiði voru innlán gerð að forgangskröfum við gjaldþrot fjármálafyrirtækja.
Stefnandi kveðst, í ljósi yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar og vegna þeirrar óvissu sem ríkti um stöðu íslensku bankanna, hafa tekið þá ákvörðun að innleysa alla eign sína í peningamarkaðssjóði Landsbankans og leggja inn á innstæðureikning. Kveðst stefnandi hafa sent beiðni um innlausn kl. 9:47 hinn 6. október 2008 til Landsbanka Íslands hf. Kveðst stefnandi síðan sama dag kl. 15:52 hafa fengið tölvupóst frá starfsmanni Landsbanka Íslands hf., þar sem upplýst hafi verið að viðskipti væru opin með fjármálagerninginn í Kauphöllinni og að innlausn hefði verið framkvæmd. Tölvupóstinum hafi fylgt bráðabirgðakvittun og að skv. henni hafi innlausnarvirði hlutdeildarskírteina stefnanda verið 275.551.885 kr. þegar innlausnin hafi verið framkvæmd.
Þann 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða, þ. á m. stefnda, Landsvaka hf., að unnið yrði að slitum á öllum peningamarkaðssjóðum og að greiða skyldi sjóðsfélögum út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis yrði gætt. Í ljósi þeirra tilmæla ákvað stefndi og Landsbanki Íslands hf. að selja allar eignir peningamarkaðssjóðsins og slíta honum í framhaldinu. Fékk stefnandi í kjölfar lokunarinnar greiddar 192.784.032 kr. hinn 28. október 2008 sem voru 68,8% í samræmi við útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf Landsbankans ISK.
Með bréfi, dagsettu 12. janúar 2009, beindi lögmaður stefnanda því til stefnda, Landsvaka, og Landsbanka Íslands hf., að staðin yrðu skil á hinum vangoldna mismun á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina stefnanda, þegar innlausn fór fram og þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda þann 28. október 2008, eða 82.767.853 kr. að viðbættum dráttarvöxtum. Stefndi og Landsbanki Íslands hf. hafa í engu sinnt kröfum stefnanda og hefur hann því höfðað mál þetta á hendur stefnda til heimtu kröfu sinnar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfu sína á almennum reglum íslensks samninga- og kröfuréttar og byggir á því að stefnda sé skylt að greiða stefnanda umkrafða stefnufjárhæð á grundvelli samningsskuldbindingar og lagaskyldu.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanefnt samning þann er stofnaðist þegar stefnandi festi kaup á hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóði stefnda. Um réttarsamband stefnanda og stefnda og skyldur stefnda vegna hlutdeildarskírteina stefnanda í Peningamarkaðssjóði Landsbankans ISK gilda lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þar sem um fjárfestingarsjóð sé að ræða gilda reglur III. kafla laganna um innlausn á bréfum sjóðsins.
Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laganna sé heimild til að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í sjóðnum bundin ströngum skilyrðum. Í fyrsta lagi þurfi að vera ákvæði í reglum sjóðsins sem heimili innlausn. Í öðru lagi þurfi frestunin að vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina. Í þriðja lagi verði sérstakar ástæður að mæla með frestun. Í fjórða lagi verði frestun að vera vegna þess að hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist þess. Í fimmta lagi verði að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um frestunina og í sjötta lagi skuli frestun innlausnar auglýst opinberlega.
Stefnandi byggir á því að heimildir til að fresta innlausn beri að skýra þröngt sem undantekningar frá þeirri meginreglu sem birtist í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2004. Þá hafi hvílt á stefnda sú skylda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulega niðurstöðu fyrir stefnanda, m.a. með tilliti til hraða, svo og að gera ráðstafanir sem miðuðu að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla sóknaraðila. Þá hafi stefnda enn fremur verið skylt að gera ráðstafanir sem miðuðu að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla sóknaraðila á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laganna.
Í 10. gr. reglna sjóðsins komi fram að stefndi sé skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi, sem gildi á innlausnardegi. Enn fremur að viðskiptin skuli fara fram samdægurs berist ósk um þau fyrir kl. 16:00. Í ákvæðinu sé frestun innlausnar bundin sambærilegum skilyrðum og samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 sem grein sé gerð fyrir að framan.
Þá komi fram í útboðslýsingu fyrir Peningabréf Landsbankans ISK að stefndi sé skuldbundinn til að innleysa bréf í sjóðnum að kröfu eiganda á kaupgengi sem gildi á innlausnardegi. Enn fremur sé frestun á innlausn bundin sambærilegum skilyrðum og samkvæmt 10. gr. reglna sjóðsins og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003.
Stefnandi byggir á því að beiðni hans um innlausn hafi borist áður en ákvörðun var tekin um frestun á innlausn bréfa í Peningabréfum Landsbankans ISK. Beiðni stefnanda um innlausn sé ákvöð og hafi hún því skuldbundið stefnda frá þeim tíma er hún barst honum. Þar sem beiðnin hafi borist fyrir kl. 16:00, á tíma þegar frestun innlausnar hafði ekki verið ákveðin, hvað þá réttilega tilkynnt og auglýst, hafi stefndi verið skuldbundinn til að leysa til sín hlutdeildarskírteinin á kaupgengi sem gilti þann dag. Leiðir sú skuldbinding af lögum, útboðslýsingu stefnda og reglum stefnda sjálfs. Stefnandi hafi enn fremur fengið staðfestingu á því að innlausnin hefði verið framkvæmd og að kauphöllin hefði móttekið beiðnina. Stefndi hafi enga heimild haft til að draga uppgjör viðskiptanna fram yfir 6. október 2008 og því síður til að greiða stefnanda lægra innlausnarverð en gilti þann dag.
Stefnandi byggir á því að þar sem tilkynning á heimasíðu geti ekki talist opinber auglýsing hafi stefndi í raun aldrei réttilega birt tilkynningu um frestun innlausnar og aldrei fylgt réttri málsmeðferð. Því hafi frestun á innlausn aldrei verið heimil og stefndi skuldbundinn til að greiða stefnanda innlausnarverð hlutdeildarskírteina hans þann 6. október 2008. Sé ekki fallist á það byggir stefnandi á því að stefndi hafi í öllu falli ekki tilkynnt frestun innlausnar á hlutdeildarskírteinum í Peningabréfum Landsbankans ISK með opinberri auglýsingu fyrr en í allra fyrsta lagi þann 7. október 2008, en þá hafi tilkynning um frestun verið birt á heimasíðu Landsbankans. Þá hafi verið liðinn rúmur sólarhringur frá beiðni stefnanda um innlausn og sé stefnda því skylt að greiða stefnanda innlausnarverð 6. október 2008.
Stefnandi byggir enn fremur á því að þegar metnar séu þær skyldur sem á stefnda hvíldu og lagaákvæði um þær skýrð verði að hafa hliðsjón af meginreglum 5. gr. laga nr. 108/2007, 19. gr. laga nr. 30/2003 og 19. gr. laga nr. 161/2002.
Með hliðsjón af öllu framangreindu byggir stefnandi á því að á stefnda hafi hvílt lögbundin og samningsbundin skylda til að greiða honum það innlausnarverð fyrir hlutdeildarskírteini sín sem fram kom á bráðabirgðakvittun þeirri sem stefnanda var send þann 6. október 2008.
Sundurliðun stefnukröfu
Með vísan til framangreinds hafi stefnda verið skylt að greiða stefnanda 275.551.885 kr. þann 6. október 2008. Engin greiðsla barst fyrr en 28. október 2008 en þá greiddi stefndi stefnanda 192.784.032 kr.
Eigi stefnandi því kröfu til dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/ 2001 um vexti og verðtryggingu af 275.551.885 krónum frá 6. október 2008 til 28. október 2008 er innborgun stefnda barst. Þá eigi stefnandi kröfu til greiðslu á mismuninum á innlausnarverði hlutdeildarskírteina sinna og innborgun, þ.e. 82.767.853 kr. með dráttarvöxtum frá 28. október til greiðsludags.
Stefnandi vísar, kröfum sínum til stuðnings, m.a. til meginreglna íslensks samningaréttar, m.a. um skuldbindingargildi samninga og réttaráhrif ákvaða og til meginreglna íslensks kröfuréttar, m.a. um stofnun greiðsluskyldu og áhrif greiðsluáskorunar. Þá byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, einkum 53. gr. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir dómkröfum, öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda, og telur að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að framlögð tölvupóstsamskiptin séu rétt. Staðfesting Landsbankans beri með sér að beiðni stefnanda um innlausn hafi komið fram 6. október 2008 kl. 15:50:36 en ekki 9:47 eins og stefnandi haldi fram.
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að tölvupóstur Berglindar Gunnarsdóttur kl. 9:47 verði að skoðast sem fyrirspurn, þar sem spurt sé um stofnun reiknings sem peningarnir eigi að fara inn á. Skýr ósk um innlausn hafi fyrst komið fram síðar sama dag. Þá séu svör Sæunnar Klemenzdóttur, starfsmanns Landsbanka Íslands, á þann veg að þau verði að skilja þannig að hún sé aðeins búin að setja inn pöntun fyrir stefnanda, en greiðslan verði ekki fyrr en daginn eftir þar sem sjóðurinn sé lokaður fyrir innlausnir þann 6. október 2008. Hún virðist vita að það sé lokað fyrir innlausnir þann 6. október og í orðum hennar felist að beiðnin fari eingöngu í biðpantanakerfið fyrir innlausnir og verði afgreidd næst þegar sjóðurinn opni, sem hún virðist halda að verði morguninn eftir, þ.e. 7. október. Ekkert gengi hafði verið gefið út mánudagsmorguninn 6. október 2008 svo engin vissa hafi verið um hvaða gengi yrði á sjóðnum næsta opnunardag og því ekki um neitt loforð um innlausnarupphæð að ræða. Sama regla sé enn viðhöfð við innlausnir. Ef viðskiptavinur hringi og biðji um innlausn sé hægt að fá bráðabirgðakvittun þar sem rétt gengi komi ekki fram þar sem nýtt gengi reiknist í dagslok og það sé notað næsta dag til uppgjörs.
Því sé alfarið mótmælt að frestun innlausnar á hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóðnum hafi ekki tekið gildi þegar fyrirmæli stefnanda um innlausn á að hafa borist starfsmanni Landsbanka Íslands hf. Stefnandi byggir aðalkröfu sína í meginatriðum á skýringu á 53. gr. laga nr. 30/2004 sem fjallar um innlausn fjárfestingarsjóða. Ákvæði 2. mgr. 53. gr. laganna sé svohljóðandi:
Þrátt fyrir 1. mgr. er fjárfestingarsjóðum heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega. (Undirstrikun lögmanns stefnda).
Eins og sjá megi af hinum undirstrikaða texta sé ljóst að túlkun stefnanda leiði ekki af orðalagi ákvæðisins. Þar segi í fyrsta lagi að frestun á innlausn skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Sé þetta skýrt samkvæmt orðanna hljóðan sé ljóst að þetta þýði að tilkynna skuli um frestunina þegar eftir að ákvörðun um hana hafi verið tekin. Hefði tilkynning um töku ákvörðunar átt að vera gildisskilyrði fyrir réttaráhrifum ákvörðunarinnar eins og stefnandi virðist halda fram, hefði löggjafanum verið í lófa lagið að taka slíkt fram í ákvæðinu, eða greinargerð, en hvergi sé þar að finna ummæli í þessa átt. Í öðru lagi segir í 2. mgr. 53. gr. að „jafnframt [skuli] frestun auglýst opinberlega“. Af þessu orðalagi vilji stefnandi leiða það gildisskilyrði ákvörðunar um frestun að hún þurfi áður að hafa verið auglýst opinberlega. Túlkun sem þessi, sem víki svo langt frá lagatextanum eins og hann verði skýrður samkvæmt orðanna hljóðan, yrði að eiga sér skýra stoð í lögskýringargögnum til að hægt væri að byggja á henni. Hvergi komi fram í greinargerð með lögunum eða fyrirrennara þeirra að túlka eigi ákvæðið á þennan hátt. Stefndi telur því augljóst að fylgja eigi lagatextanum, sem leggi einungis þá skyldu á sjóði að auglýsa frestun opinberlega. Sömu rök eigi hér jafnframt við um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins, þ.e. að löggjafinn hefði þurft að taka það fram í ákvæðinu, eða a.m.k. í greinargerð, ef opinber auglýsing fyrirfram væri gildisskilyrði ákvörðunar um frestun.
Til stuðnings framangreindri túlkun sinni á ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 hefur stefnandi m.a. vísað til þess að ákvæðið feli í sér undantekningarreglu sem samkvæmt reglum um túlkun laga skuli túlka þröngt. Rétt sé að almennt sé viðurkennd sú lögskýringarregla að undantekningarreglur skuli að jafnaði túlka þröngt. Í tilviki 2. mgr. 53. gr. myndi sú túlkun hins vegar leiða til þess að frestun innlausnar yrði einungis heimiluð þegar ákvæðið ætti ótvírætt við og þannig færri tilvik felld undir regluna heldur en ef ákvæðið væri túlkað rúmt. Hins vegar sé ekki hægt að halda því fram, að sú staðreynd að almennt skuli túlka undantekningarreglur þröngt eigi að leiða til þess að bæta eigi nýjum gildisskilyrðum við lagaákvæði, sem á engan hátt verði skilið á þann hátt samkvæmt orðanna hljóðan.
Ákvæði laga nr. 30/2003 um innlausn hlutdeildarskírteina byggist á því sjónarmiði að rekstraraðila sjóðs verði skapaðar aðstæður til að tryggja jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Þannig geti stjórnendur sjóðs ákveðið við sérstakar aðstæður að stöðva innlausn svo ákveðinn hluti hlutdeildarskírteinishafa hagnist ekki á kostnað þeirra sem eftir sitja, ef t.d. verð á eignum sjóðs hrynur af einhverjum ástæðum. Frestuninni sem slíkri sé ætlað að tryggja rétt allra hlutdeildarskírteinishafa og því sé sjóðum gert kleift að bregðast skjótt við þegar aðstæður á markaði breytast. Með vísan til framangreinds telur stefndi ljóst að ákvörðun um frestun innlausnar samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 taki gildi um leið og ákvörðunin hafi verið tekin á lögmætan hátt af réttum aðilum samkvæmt reglum þess sjóðs sem í hlut eigi hverju sinni. Sjóðnum beri síðan eftirfarandi skylda til að tilkynna ákvörðunina til FME og auglýsa hana opinberlega. Með vísan til þessa sé ljóst að ákvörðun um frestun innlausnar í því tilviki sem hér sé til úrlausnar hafi átti sér stað á fundi stjórnar Landsvaka hf. milli kl. 9:30 og 10:00 þann 6. október 2008. Þó það sé ekki aðalatriði málsins heldur stefndi því fram að ákvörðun um lokun hafi verið tekin fyrir kl. 9:47 þann 6. október 2008. Aðalatriðið sé að sjóðurinn hafi aldrei verið opnaður í kjölfar fundarins og því ekki verið hægt að afgreiða ósk stefnanda um innlausn, hvenær svo sem hún teljist hafa borist.
Þá hafi FME verið tilkynnt um ákvörðunina einungis klukkustund síðar eða klukkan 11:04 sama dag. Verði að telja ljóst að sú framkvæmd hljóti að uppfylla skyldu sjóðsins samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laganna, þ.e. um að frestun á innlausn skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Þá hafi frestunin verið auglýst opinberlega klukkan 14:03 sama dag, en sú framkvæmd uppfylli augljóslega þá skyldu að frestun skuli auglýst opinberlega, sbr. 2. mgr. 53. gr. laganna.
Í 1. ml. 1. mgr. 53. gr. laganna sé kveðið á um innlausnarskyldu fjárfestingarsjóða, en ákvæðið sé svohljóðandi:
Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða samkvæmt þessum kafla eru innlausnarskyld. Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs.
Samkvæmt þessu sé ljóst að sjóðum sé undir venjulegum kringumstæðum skylt að framkvæma innlausn að kröfu hlutdeildarskírteinishafa. Hins vegar sé ekki nánar mælt fyrir um það í ákvæðinu á hvaða tímamarki innlausnin skuli fara fram eða hversu langan frest sjóðurinn hafi til að framkvæma innlausnina, heldur sé í þeim efnum vísað til reglna viðkomandi sjóðs. Í 10. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK segir:
Fyrir endanlegan gjalddaga hlutdeildarskírteina er Landsvaki hf. skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi, sem gildir á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK fara fram samdægurs berist ósk um viðskipti fyrir kl. 16.00.
Með vísan til hins tilvitnaða ákvæðis sé Landsvaka hf. skylt að verða við kröfu um innlausn samdægurs að því tilskildu að óskin berist fyrir klukkan 16:00. Þar sem ósk stefnanda gæti í fyrsta mögulega lagi hafa borist starfsmanni Landsbanka Íslands klukkan 9:47. þann 6. október 2008 hefði stefnda samkvæmt framansögðu borið að framkvæma innlausn samdægurs, þ.e. þann dag, ef opnað hefði verið fyrir viðskipti þann daginn. Það hafi hins vegar ekki verið gert áður en sjóðnum var lokað en stefnda hafi engin skylda borið til að gera það þá þegar. Stefnandi geti því með engu móti reist neinskonar kröfu á hendur stefnda á þessum grundvelli. Með vísan til þessa verði því ekki talið óeðlilegt eða gáleysislegt af hálfu stefnda að hafa ekki verið búinn að framkvæma innlausnina á meðan á framangreindum fundi stóð klukkan 9:47, enda hafði þá ekki enn verið opnað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini hjá stefnda. Opnað hafi verið fyrir viðskipti með peningabréf kl. 10:00 á hverjum morgni en það hafði , eins og fyrr segir, aldrei verið gert mánudaginn 6. október 2008.
Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að framferði starfsmanna stefnda sem að framan sé rakið hafi verið í samræmi við reglur 53. gr. laga nr. 30/2003 og 10. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK. Beri af þessum sökum að hafna kröfu stefnanda.
Auk þess geti stefndi Landsvaki hf. aldrei borið ábyrgð á athöfnum eða ákvörðunum starfsmanna Landsbanka Íslands hf., hvorki á grundvelli samninga- eða kröfuréttarins eða annarra réttarreglna. Vakin sé athygli á því að kröfugerð stefnanda sé á engan hátt byggð á sakarreglunni eða öðrum reglum skaðabótaréttarins. Því komi það ekki til álita í máli þessu að byggja niðurstöðuna á því að skaðabótaábyrgð verði að einhverju leyti rakin til háttsemi Landsbanka Íslands hf. eða starfsmanna hans. Stefnandi hafi ekki haldið fram málsástæðum eða leitt líkur að því að háttsemi starfsmanns Landsbanka Íslands hf. leiði til sjálfstæðrar ábyrgðar stefnda Landsvaka hf. Bráðabirgðakvittun sú sem lögð sé fram í málinu hafi enga sérstaka þýðingu í málinu og geti undir engum kringumstæðum bundið stefnda. Í fyrsta lagi sé útgáfa kvittunarinnar á ábyrgð Landsbanka Íslands hf. Í öðru lagi beri hún það aðeins með sér að pöntun hafi verið skráð og móttekin þann 6. október 2008 kl. 15:50:36.
Af tölvupósti Berglindar Gunnarsdóttur hinn 7. október 2008 sé ljóst að stefnandi hafi verið í fullum vafa um hvort innlausnin hefði gengið eftir eða ekki þar sem hún spyrji „Hefur þú einhverja hugmynd um hvað verður um peninga okkar?“
Með vísan til alls framangreinds sé á því byggt að sýkna beri Landsvaka hf. af kröfum stefnanda.
Kröfur stefnda styðjist við lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggir stefndi á stjórnvaldsfyrirmælum byggðum á lögum, en einkum stjórnvaldsfyrirmælum og ákvörðunum sem teknar voru af Fjármálaeftirlitinu.
Stefnandi haldi því fram í stefnunni að hann hafi ítrekað sent stefnda erindi áður en mál þetta var höfðað. Skorað sé á stefnanda að leggja þessi erindi fram.
Niðurstaða
Eins og fram er komið átti stefndi hinn 6. október 2008 hlutdeildarskírteini að nafnvirði 8.908.277,45 kr. í fjárfestingarsjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK. Rekstrarfélag sjóðsins og útgefandi hlutdeildarskírteina í honum var stefndi Landsvaki hf. en Landsbanki Íslands hafði vörslur og umsjón með eignum sjóðsins í samræmi við ákvæði laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
Með tölvupósti kl. 9:47 hinn 6. október 2008 óskaði stefnandi eftir innlausn á hlutdeildarskírteinum sínum í fjárfestingarsjóðnum. Samkvæmt bráðabirgðakvittun frá starfsmanni Landsbankans sama dag er pöntun skráð kl. 15:50:36.
Að morgni 6. október 2008 kunngerði Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun sína að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga sem gefnir höfðu verið út af helstu fjármálafyrirtækjum landsins og teknir höfðu verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Á stjórnarfundi hjá stefnda sem haldinn var að morgni sama dags kl. 9:30 og lauk kl. 10:00 var tekin ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini sjóða sem áttu bréf á þau fjármálafyrirtæki sem fjármálaeftirlitið hafði lokað fyrir viðskipti með. Var þar meðal annars um að ræða alla peningamarkaðssjóði stefnda. Tekið er fram í fundargerð að lokun fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini sé gerð með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi og til að tryggja jafnræði þeirra.
Stefnandi byggir á því að beiðni hans um innlausn hafi borist áður en ákvörðun var tekin um frestun á innlausn bréfa í Peningabréfum Landsbankans ISK. Beiðni stefnanda um innlausn sé ákvöð og hafi skuldbundið stefnda frá þeim tíma er hún barst honum.
Samkvæmt 10. gr. reglna fyrir sjóðinn er stefndi skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi, sem gildir á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK fara fram samdægurs berist ósk um viðskipti fyrir kl. 16:00. Landsvaka hf. er þó heimilt undir sérstökum kringumstæðum að fresta innlausn hlutdeildarskírteina, eins og fram kemur í 2. mgr. 10. gr. reglnanna, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003. Slík frestun skal þegar kynnt Fjármálaeftirliti og enn fremur auglýst opinberlega. Fyrir liggur að stefndi tilkynnti Fjármálaeftirlitinu um það með tölvupósti kl. 11:04 sama dag að ákvörðun hefði verið tekin um að stöðva tímabundið viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðum stefnda sem ættu fjármálagerninga útgefna af þeim fjármálastofnunum sem lokað hafði verið fyrir viðskipti með. Þá var frestun á viðskiptum með sjóði Landsvaka auglýst opinberlega samdægurs og á heimasíðu Landsbankans 7. október 2008.
Telja verður að þær sérstöku aðstæður hafi verið til staðar á fjármálamarkaði hinn 6. október 2008 að stefnda hafi verið heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. reglna fyrir sjóðinn Peningabréf Landsbankans og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003. Skiptir þá ekki máli hvenær dags beiðni stefnanda um innlausn barst enda liggur fyrir að ekki var opnað fyrir innlausnir hlutdeildarskírteina hjá stefnda þann dag eða síðar. Þá liggur fyrir að frestunin var auglýst opinberlega og verður því talið að stefnandi sé bundinn af henni. Samkvæmt framansögðu var stefnda ekki skylt að innleysa hlutdeildarskírteini í sjóðnum að kröfu stefnanda miðað við kaupgengi umræddan dag. Ákvæði 5. gr. laga nr. 108/2007, 19. gr. laga nr. 30/2003 og 19. gr. laga nr. 161/2002, sem stefnandi vísar sérstaklega til, eru ekki þeirri niðurstöðu til fyrirstöðu.
Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Landsvaki hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hjartaverndar ses., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.