Hæstiréttur íslands
Mál nr. 269/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 5. maí 2010. |
|
|
Nr. 269/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. maí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem fallið geti undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðað allt að 12 ára fangelsi. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. maí nk. kl. 16.00.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að með úrskurði héraðsdóms 23. apríl sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 258/2010. Að kvöldi laugardagsins 10. apríl hafi lögreglan lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna sem flutt hafi verið til landsins með flugi frá Alicante á Spáni fyrr um daginn. Efnin hafi verið kyrfilega falin í þremur ferðatöskum. Þau hafi reynst vera kókaín, vegið tæp 1600 g og samkvæmt matsgerð Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands sé styrkur kókaíns um og yfir 80%. Kærði sé sterklega grunaður um aðild að þessum fíkniefnainnflutningi og hafi lögreglan fylgst með honum umrætt kvöld ásamt meðkærða Y. Þeir hafi farið á heimili Z sem hafi flutt efnin til landsins. Þar hafi kærði sótt efnin og flutt þau á bifreið að húsi við [...] í Reykjavík. Í framhaldi af því hafi kærði sótt Þ á heimili hans við [...] og þeir saman sótt efnin. Kærði hafi stuttu síðar verið handtekinn og hafi hann þá haft í fórum sínum 1.010.000 krónur í umslagi. Meðkærðu Z, Y og Þ sæta nú allir gæsluvarðhaldi. Kærði hafi í yfirheyrslum hjá lögreglu lýst sig saklausan og jafnframt neitað að svara spurningum. Fram hafi komið við skýrslutökur að Y hafi beðið Z að fara til útlanda og flytja fíkniefnin til landsins. Y hafi jafnframt sagt að þetta hafi hann gert að beiðni kærða. Rannsókn málsins sé vel á veg komin og stefnt sé að því að ljúka rannsókninni innan umkrafist gæsluvarðhaldstíma og senda málið ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við, allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að meint brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. maí nk. kl. 16.00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. maí 2010, kl. 16.00.