Hæstiréttur íslands
Mál nr. 369/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 5. október 2001. |
|
Nr. 369/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var grunaður um að hafa átt aðild að umfangsmiklu fíkniefnamisferli. Úrskurður héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að honum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi, en til vara að hann verði þess í stað dæmdur til að þola farbann. Að því frágengnu krefst varnaraðili þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október 2001 kl. 16. Með úrskurði héraðsdóms var krafa um gæsluvarðhald tekin til greina, en lengd þess markaður skemmri tími, en krafist hafði verið.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en sóknaraðili hefur ekki kært hann fyrir sitt leyti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi haft til rannsóknar mál sem varði meint fíkniefnalagabrot X. Rannsókn lögreglu hafi hafist í maí 2000 og hafi staðið síðan.
Þann 19. maí 2000 hafi verið handtekinn hollenskur maður að nafni A við komu til Íslands, og í fórum hans hafi fundist 94,12 g af kókaíni.
Þann 26. júní 2000 hafi verið handtekinn maður að nafni I, við komu til Íslands frá Hollandi, en í fórum hans hafi fundist um 4,8 kg af hassi.
Þann 4. september 2000 hafi verið handtekinn maður að nafni B, kt. [ ], en í fórum hans hafi fundist tæp 10 kg af hassi, sem talið var að hefði verið flutt til Íslands frá Hollandi. Sami maður er og talinn hafa flutt önnur 10 kg af hassi ásamt 350 g af kókaíni til landsins í júlí 2000.
Við rannsókn ofangreindra brota hafi grunur m.a. beinst að kærða og hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að kærði muni hafa staðið að baki allra ofangreindra fíkniefnasendinga til Íslands, en við rannsóknina hafi m.a. verið beitt símhlustunum hjá X og fleiri mönnum. Sé X þannig undir rökstuddum grun um að hafa staðið að innflutningi a.m.k. 24 kg af hassi og u.þ.b. 440 g af kókaíni til Íslands sumarið 2000. Þá leiki grunur á að X hafi staðið að fleiri fíkniefnasendingum til Íslands.
Margir aðilar hafi tengst rannsókninni. Hafi m.a. verið beitt símhlerunum hjá kærða og öðrum. Grunur lögreglu um framangreind brot kærða sé studdur með framburði annarra sakborninga að nokkru leyti, en jafnframt með umfangsmiklum hlerunum á símtölum hans við aðra sakborninga.
Að kröfu lögreglu hafi Héraðsdómur Reykjavíkur gefið út handtökuskipun vegna kærða, þann 6. september 2000. Það hafi ekki leitt til árangurs fyrr en kærði hafi gefið sig fram við lögregluna í Reykjavík í gærdag og var hann þá handtekinn.
Rökstuddur grunur sé um að kærði hafi framið brot er varðað geti fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Sé nauðsynlegt að halda kærða í gæsluvarðhaldi meðan verið sé að ljúka rannsókninni, en veruleg ástæða sé til að ætla að kærði gæti torveldað rannsóknina með því að hafa áhrif á vitni og vitorðsmenn sína ef hann endurheimti frelsi sitt nú. Framburður kærða stangist að nokkru leyti á við framburð annarra í málinu en því til viðbótar hafi kærði neitað að tjá sig um tiltekin sakarefni sem eigi stoð í gögnum málsins. Því sé nauðsynlegt að lögreglu gefist tóm til að bera undir kærða vitnisburð annarra manna í málinu án þess að honum gefist kostur á að hafa samráð við vitorðsmenn sína milli þess sem hann er yfirheyrður, en ljóst þyki að yfirheyslur muni taka nokkurn tíma. Með hliðsjón af framburði kærða sé lögreglu því ekki fært að rannsaka málið áfram svo vel sé án þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Það séu ótvíræðir hagsmunir almennings að kærði, sem grunaður sé um slík brot, gangi ekki laus meðan máli hans sé ekki lokið, en um sé að ræða mikið magn mjög hættulegra fíkniefna svo sem kunnugt sé, og sterkur grunur sé um að kærði hafi átt þátt í þeim brotum sem um ræði.
Þrátt fyrir að kærði hafi gefið sig fram við lögreglu nú og þrátt fyrir að kærði sé íslenskur ríkisborgari megi vænta að hann fari af landi brott en hann hefur dvalið langdvölum erlendis. Sé það sérstaklega mikilvægt þegar litið sé til rannsóknarhagsmuna í málinu.
Lögregla hafi hugleitt að setja fram varakröfu um farbann yfir kærða. En eins og mál þetta sé vaxið sé slík ráðstöfun þýðingarlaus þegar litið sé til rannsóknarhagsmuna í málinu.
Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 sem geti varðað hann allt að 10 ára fangelsisrefsingu ef sannast. Rannsókninni sé ekki lokið eins og að ofan greinir. Ennfremur séu það ótvíræðir hagsmunir almennings að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Þá megi gera ráð fyrir að kærði yfirgefi landið eins og áður segir.
Heimildir til gæsluvarðhalds séu í a og b liðum 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, og sé þess krafist með vísan til þeirra, ofangreinds og framlagðra gagna að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt því sem kemur fram í málavaxtalýsingu hér að framan svo og rannsóknargögnum er rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði eigi hluta af umfangsmiklu og alvarlegu fíkniefnamisferli sem varðar innflutning á a.m.k. 24 kg af hassi og u.þ.b. 440 g af kókaíni til landsins sumarið 2000. Slíkt brot getur varðað allt að 10 ára fangelsi sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940 eins og hún var er ætluð brot eiga að hafa verið framin.
Fallast verður á það með rannsakara að nauðsyn beri til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á þessu stigi rannsóknar og verður krafa lögreglustjóra tekin til greina með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, þó þannig að gæsluvarðhaldstími ákvarðast til föstudagsins 12. október nk. kl. 16.00.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [ ], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október 2001 kl. 16.00.