Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2013


Lykilorð

  • Samningur
  • Stefna
  • Aðild
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 23. janúar 2014.

Nr. 570/2013.

Skaginn hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Pálmari Sveini Ólafssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Samningur. Stefna. Aðild. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi. Aðfinnslur.

P höfðaði mál gegn S hf. í kjölfar þess að S hf. rifti samningi um að P ynni tiltekin verkefni fyrir félagið. Taldi P sig ekki hafa vanefnt samninginn og krafðist greiðslu vegna uppgjörs á honum. V ehf., sem var í eigu P, hafði gefið út reikning vegna hluta þess tíma er málið varðaði en í stefnu var ekki gerð grein fyrir því hvort félagið hefði fallið frá kröfunni og P tekið við henni. Þá kom ekki fram hvort krafan væri að þessu leyti reist á samningi aðila eða reikningnum sem V ehf. hafði gefið út. P krafðist jafnframt skaðabóta vegna riftunarinnar en því var ekki lýst í stefnu á hvaða lagagrundvelli bótakrafan væri reist. Þá var heldur ekki gerð grein fyrir ástæðu þess að krafist væri virðisaukaskatts af skaðabótunum eða hvers vegna krafist væri dráttarvaxta af bótafjárhæðinni frá eindaga reiknings sem gefinn hafði verið út af V ehf. Ekki var ráðið af stefnu hvers vegna P teldi sig en ekki V ehf. réttan aðila til að gera kröfu á hendur S hf. vegna þess tíma sem fyrri reikningur V ehf. tók til. Þá þótti krafa P um skaðabætur vanreifuð. Voru slíkir annmarkar á málatilbúnaðinum við þingfestingu málsins í héraði að úr þeim varð ekki bætt undir rekstri þess og var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2013. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rót sína að rekja til samnings með yfirskriftinni „Markaðs- og sölusamningur Unninn í verktöku“ sem málsaðilar undirrituðu 8. apríl 2011. Samkvæmt grein 1.1 í samningum var hann milli þeirra tveggja, en jafnframt tekið fram að samningurinn væri gerður í samstarfi við bandaríska fyrirtækið FoodCraft Equipment Co., Inc., sem væri fullgildur aðili að honum. Í greininni sagði ennfremur að stefndi hefði „heimild til að innheimta greiðslu samkvæmt samningi þessum í gegnum rekstrarfélag á hans vegum.“ Í grein 4.1 var svo um samið að stefndi fengi „fastar mánaðargreiðslur krónur 1.000.000,- auk vsk.“ fyrir vinnuframlag sitt samkvæmt samningnum og skyldu þær eftir grein 4.3 „greiddar eftir á gegn framvísun reiknings.“ Þá kom fram í grein 6 að ferðakostnaður stefnda í vinnuferðum erlendis yrði greiddur annars vegar af áfrýjanda og hins vegar af FoodCraft eftir því sem við ætti. Í grein 10.1 var að finna svohljóðandi ákvæði: „Gagnkvæmur uppsagnarfrestur þessa ráðningarsamnings er þrír mánuðir og skal uppsögn miðast við mánaðamót. Fyrsta mögulega uppsögn er þó í desember 2011. Allir aðilar samningsins geta sagt samningnum einhliða upp“.

Í samræmi við áðurgreinda heimild í samningi aðila gaf einkahlutafélagið VPO, sem var í eigu stefnda, út mánaðarlega reikning fyrir endurgjaldi á grundvelli samningsins að fjárhæð 1.000.000 krónur auk virðisaukaskatts og greiddi áfrýjandi þá reikninga fram eftir árinu 2011. Einkahlutafélagið greiddi stefnda laun og stóð jafnframt straum af launatengdum gjöldum sem og öðrum kostnaði er fylgdi starfi hans í þágu áfrýjanda og FoodCraft. Jafnframt mun félagið hafa staðið skil á fyrrnefndum virðisaukaskatti.

Með bréfi 30. nóvember 2011 tilkynnti áfrýjandi stefnda að hann hafi rift samningnum frá 8. apríl sama ár og væri ástæðan sú að verulegar vanefndir væru af hálfu stefnda „á að uppfylla vinnutímaskyldu“ sína samkvæmt samningnum. Í bréfinu kom fram að útgefinn reikningur vegna októbermánaðar 2011 hafi verið greiddur að fullu, en frá reikningsfjárhæðinni ætti að draga tiltekna upphæð vegna vanefnda stefnda í þeim mánuði sem yrði látin ganga upp í reikning vegna nóvembermánaðar sama ár. Var sá reikningur endursendur og þess krafist að gefinn yrði út nýr reikningur vegna nóvembermánaðar að fjárhæð 366.749 krónur auk virðisaukaskatts vegna vanefnda stefnda á vinnuskyldu sinni í október og nóvember.

Stefndi leit ekki svo á að hann hefði vanefnt samning aðila og því væri riftun áfrýjanda á honum ólögmæt. Af þeim sökum taldi stefndi sig eiga rétt á endurgjaldi í fjóra mánuði til viðbótar, frá 1. desember 2011 til 31. mars 2012, þar sem ekki væri unnt að segja samningnum upp fyrr en í fyrsta lagi í desember 2011 og uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir miðað við mánaðamót. Í samræmi við það var í kjölfar tilkynningar áfrýjanda um riftun gefinn út reikningur af VPO ehf. vegna uppgjörs samningsins að fjárhæð 4.000.000 krónur auk virðisaukaskatts. Eindagi þess reiknings var 7. desember 2011, sá sami og reikningsins vegna nóvembermánaðar sama ár. Með bréfi lögmanns stefnda til áfrýjanda 8. desember 2011 var þess krafist að umræddir tveir reikningar yrðu greiddir innan tíu daga, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi lögmanns áfrýjanda 6. janúar 2012.

Í héraðsdómsstefnu er þess krafist að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða stefnda „skuld skv. samningi og skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á markaðs- og sölusamningi að fjárhæð samtals kr. 6.275.000 ásamt dráttarvöxtum ... frá 7. desember 2011 til greiðsludags.“ Í stefnunni er krafan meðal annars studd þeim rökum að þar sem ekki sé fyrir hendi riftunarheimild á grundvelli vanefnda beri áfrýjanda að greiða stefnda skuld vegna nóvember 2011, svo sem kveðið sé á um í grein 4.1 í samningi aðila. Jafnframt beri áfrýjanda að greiða stefnda „skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar fyrir tímabilið desember, janúar, febrúar og mars 2012.“ Þar á eftir segir að krafan sundurliðist þannig: „Vangreitt vegna nóvember með VSK kr. 1.255.000 Skaðabætur vegna tímabilsins des. ´11 til mars ´12 með VSK [krónur] 5.020.000, kr. 6.275.000“. Skaðabótakrafa stefnda er nánar rökstudd með svofelldum hætti í stefnunni: „Um rétt til skaðabóta vísast til gr. 10.1 í samningi aðila. Skv. ákvæðinu var óheimilt að segja samningnum upp fyrr en í desember 2011. Þá fyrst getur þriggja mánaða uppsagnarfrestur byrjað að líða. Réttur [stefnda] til skaðabóta nær þannig til fjögurra mánaða, desember, janúar, febrúar og mars, samtals með VSK kr. 5.020.000.“ Þá segir að krafist sé dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni „frá eindaga reikninga, 7. desember 2011 og til greiðsludags.“ Í stefnunni krefst stefndi málskostnaðar úr hendi áfrýjanda. Er tekið þar fram að hann sé „ekki virðisaukaskattskyldur“ og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir virðisaukaskatti af málflutningsþóknun úr hendi áfrýjanda. Við þingfestingu málsins í héraði voru auk stefnunnar lögð fram skjöl af hálfu stefnda, þar á meðal fyrrnefndir tveir reikningar, útgefnir af VPO ehf., og bréf lögmanns hans til áfrýjanda 8. desember 2011 sem áður hefur verið vísað til.

II

Eins og að framan greinir gaf VPO ehf. út reikning fyrir endurgjaldi stefnda samkvæmt samningi aðila vegna nóvembermánaðar 2011 og krafði áfrýjanda um greiðslu á reikningnum áður en mál þetta var höfðað af stefnda sjálfum. Samkvæmt héraðsdómsstefnu er þess krafist að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða stefnda umrætt endurgjald á grundvelli samningsins. Í stefnunni er ekki gerð grein fyrir því að einkahlutafélagið hafi fallið frá kröfunni og stefndi tekið við henni, auk þess sem þar kemur ekki glöggt fram hvort krafan sé reist á samningnum ellegar reikningnum, útgefnum af félaginu. Þannig er krafan annars vegar rökstudd með því að vísa til greinar 4.1 í samningnum, en hins vegar er krafist dráttarvaxta af fjárhæðinni frá eindaga reikningsins. Þá eykur það á óvissuna í þessu efni að stefndi er ekki sagður  virðisaukaskattskyldur, enda þótt gerð sé krafa um virðisaukaskatt úr hendi áfrýjanda í samræmi við áðurnefnt samningsákvæði.

Sem fyrr greinir er krafa stefnda um skaðabætur studd þeim rökum í stefnunni að hún stafi af ólögmætri riftun áfrýjanda á samningnum og er um rétt til bóta og bótafjárhæð vísað til greinar 10.1 í samningi aðila. Á hinn bóginn er því ekki lýst nánar í stefnunni á hvaða lagagrundvelli bótakrafan sé reist. Þar er heldur ekki gerð grein fyrir ástæðu þess að krafist er virðisaukaskatts af skaðabótunum, svo sem með því að geta þess við hvaða lagaheimild sú krafa styðjist. Þá er krafist dráttarvaxta af bótafjárhæðinni frá eindaga reikningsins, sem gefinn var út af VPO ehf. vegna uppgjörs á samningi aðila, án þess að það sé skýrt frekar.

Með skírskotun til þessa verður í fyrsta lagi ekki ráðið af stefnunni hvers vegna stefndi telur sig, en ekki VPO ehf., réttan aðila til að gera kröfu á hendur áfrýjanda til greiðslu endurgjaldsins vegna nóvembermánaðar 2011. Í annan stað er krafa stefnda um skaðabætur svo vanreifuð að ekki samrýmist áskilnaði e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má þær málsástæður og lagarök sem málsókn er byggð á. Voru slíkir annmarkar á málatilbúnaðinum við þingfestingu málsins í héraði að úr þeim varð ekki bætt undir rekstri þess. Samkvæmt því verður málinu vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að 15. júní 2012 fór fram málflutningur um frávísunarkröfu áfrýjanda í héraði og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum. Málið var tekið næst til meðferðar í þinghaldi 28. febrúar 2013, rúmum átta mánuðum síðar. Var þá bókað að málið væri endurupptekið til flutnings um frávísunarkröfuna að nýju með því að úrskurður hafi ekki verið lagður á það innan lögmælts frests, án þess frekari skýringar fylgdu. Er þessi óhæfilegi dráttur á meðferð málsins aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Pálmar Sveinn Ólafsson, greiði áfrýjanda, Skaganum hf., samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 30. maí 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 3. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 12. janúar 2012.

Stefnandi er Pálmar Sveinn Ólafsson, Hamarsteig 9, Mosfellsbæ.

Stefndi er Skaginn hf., Bakkatúni 26, Akranesi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld skv. samningi og skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á markaðs- og sölusamningi að fjárhæð samtals 6.275.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. desember 2011 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Jafnframt er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Ef fallist er á það með stefnanda að honum sé heimilt að reikna virðisaukaskatt inn í dómkröfu sína, sbr. aðalkröfu stefnanda, krefst stefndi þess jafnframt að honum verði einungis gert að greiða slíka kröfu gegn framlagningu reiknings, að sömu fjárhæð, með álögðum virðisaukaskatti.

Loks krefst stefndi málskostnaðar.

Með úrskurði dómsins hinn 4. mars sl. var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

MÁLSATVIK

Stefnandi er fyrrum starfsmaður hjá stefnda og hóf hann störf á grundvelli svonefnds markaðs- og sölusamnings, unninn fyrir verktöku sem var undirritaður af aðilum 8. apríl 2011. Í samningi þessum er jafnframt tekið fram í gr. 1.1. að samningurinn væri gerður í samstarfi við FoodCraft Equipment Co., Inc. í U.S.A. og væru þeir fullgildir aðilar samningsins. Hinir erlendu aðilar undirrituðu þó aldrei samninginn af sinni hálfu. Samningurinn er með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót en óuppsegjanlegur af beggja hálfu þar til í desember 2011. Stefnanda barst þó uppsagnarbréf í september sl. og var ástæða uppsagnar sögð vera að FoodCraft treysti sér ekki lengur til að vera aðili samningsins. Uppsögnin var dregin til baka eftir að stefnandi hafði bent stefnda á ákvæðið í samningi aðila um uppsögn.

Stefnandi kveðst hafa sinnt umsömdum störfum bæði hér á landi og í Bandaríkjunum með þeim hætti sem um hafi verið samið. Hann sendi í nafni einkahlutafélags síns inn mánaðarlega reikning fyrir vinnu sinni og voru reikningarnir allir greiddir athugasemdalaust þar til í lok nóvember að stefndi hafnaði því að greiða nóvemberreikning og taldi jafnframt októberreikning vera rangan. Fram til þessa hafði engin athugasemd verið gerð vegna vinnutíma hans.

Með bréfi stefnda til stefnanda 30. nóvember 2011 tilkynnti stefndi um riftun á samningnum. Í bréfinu eru gefnar upp þær ástæður fyrir riftun að stefnandi hefði vanefnt samninginn með því að skila ekki umsömdum vinnutímum. Á fundi sem stefnandi átti með framkvæmdastjóra stefnda þann dag hafi honum verið gefið að sök að hafa farið í fjölskylduferð erlendis fyrr í nóvember og slakur árangur hefði verið af störfum hans.

Lögmaður stefnanda sendi innheimtubréf vegna málsins 8. desember 2011. Stefndi hafnaði öllum kröfum stefnanda með bréfi dags. 6. janúar 2012. Því er málshöfðun nauðsynleg.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi kveðst hafa hafið störf hjá stefnda 11. apríl 2011 á grundvelli samnings. Samningurinn sé með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við mánaðamót en óuppsegjanlegur af beggja hálfu þar til í desember 2011.

Stefnandi hafi sinnt umsömdum störfum bæði hér á landi og í Bandaríkjunum í samræmi við samning aðila og kannast ekki við að hann hafi að neinu leyti gerst brotlegur við samninginn eða vanefnt hann með nokkrum hætti, eins og honum sé gefið í sök í bréfinu frá 30. nóvember 2011. Í uppsagnarbréfi frá september 2011, sem dregið var til baka, hafi ekki verið minnst á vinnutíma stefnanda eða að hann hafi ekki sinnt störfum sínum skv. samningi aðila, heldur hafi ástæða uppsagnar verið tilgreind sú að FoodCraft treysti sér ekki lengur til að vera aðili samningsins. Stefnandi kannist heldur ekki við að athugasemdir hafi verið gerðar við vinnutíma hans í samskiptum hans við yfirmenn stefnda, heldur hafi ákvarðanir varðandi utanlandsferðir og tilfærslur vinnu allar verið teknar í samráði og samvinnu við þá. Hann telji sig einnig hafa unnið fyrirtækinu vel og skilað því mun meiri tíma en um hefði verið samið í upphafi. Vinnan hafi ýmist verið innt af hendi á starfsstöð stefnda á Akranesi, í Bandaríkjunum eða heimili P.O. Vinnutíminn hafi verið sveigjanlegur, hann hafi og mátt vinna á öllum þessum stöðum og ekkert í upphaflegum samningi sem kveðið hafi á um annað en að þegar vinna væri innt af hendi á Akranesi þá skyldi stimpilklukka notuð. Stefnandi hafi algerlega farið eftir því og notaði stimpilklukkuna þegar hann var við störf á Akranesi. Aldrei hefði áður verið gerð nein athugasemd við vinnuframlag hans fyrr en kom að riftun samningsins.

Ekki sé ágreiningur um að samningur aðila sé verksamningur en ekki ráðningarsamningur og skyldur stefnanda í garð stefnda séu ekki skyldur launþega gagnvart atvinnurekanda heldur skyldur verktaka í garð verkkaupa. Sérstaklega eigi þetta við um vinnutíma. Í málinu verði að leggja samninginn til grundvallar í samskiptum aðila, enda hafi aðilar gert það í samskiptum sínum frá því samningurinn var gerður.

Í samningnum sé m.a. fjallað um starfssvið og ábyrgð, um vinnutíma, greiðslur og uppsagnarákvæði. Um starfssvið segi að starfskyldur stefnanda séu annars vegar í starfsstöð stefnda og hins vegar á vettvangi hjá erlendum viðskiptavinum stefnda, aðallega á vegum FoodCraft í Bandaríkjunum. Áætlaður fjöldi daga á vegum FoodCraft sé að jafnaði 10 dagar í mánuði.

Um vinnutíma segi m.a. eftirfarandi í gr. 3.1:

„Vinnutími í starfsstöð Skagans skal vera að jafnaði sem svarar a.m.k. 8 vinnustundum á virkum vinnudögum, þegar hann er ekki í vinnuferðum erlendis, á vegum FoodCraft eða Skagans. Daglegur vinnutími er sveigjanlegur á tímabilinu kl. 7.00-18.00.“

 Í gr. 3.2 segi síðan:

„Allur vinnutími í starfsstöð Skagans er mældur með stimpilklukku og skal P.Ó. stimpla sig inn þegar hann kemur til vinnu á morgni og út að kveldi. Einnig skal hann stimpla sig út þegar hann yfirgefur vinnustað í eigin erindum.“

Í gr. 3.4 sé tekið fram hvernig með skuli fara þegar stefnandi er ekki í vinnuferðum erlendis eða starfsstöð stefnda:

„Þegar P.Ó. er ekki í vinnuferðum erlendis eða í starfsstöð Skagans að Bakkatúni 26, Akranesi, þá sinnir hann starfinu heima hjá sér.“

Um uppsögn samningsins segi svo í gr. 10.1:

„Gagnkvæmur uppsagnarfrestur þessa ráðningarsamnings er þrír mánuðir og skal uppsögn miðast við mánaðamót. Fyrsta mögulega uppsögn er þó í desember 2011. Allir aðilar samningsins geta sagt samningnum einhliða upp, en aðilar samningsins eru: P.Ó., FoodCraft og Skaginn.“

Í samantekt um vinnuframlag stefnanda fyrir allt tímabilið sem hann vann hjá stefnda komi fram að stefnandi hafi unnið á starfstímabilinu frá 11. apríl 2011 til 30. nóvember 2011 samtals 1347,41 klukkustund. Þessi vinna hafi verið unnin á 162 dögum, en virkir dagar á þessu tímabili séu 151 dagur. Hann hafi því unnið því að meðaltali hvern virkan dag á tímabilinu 8,92 klukkustundir.

Í riftunarbréfi 30. nóvember 2011 hafni stefndi reikningi stefnanda vegna nóvember og telji hann rangan. Hann hafi talið að reikningur vegna október væri ennfremur rangur. Stefndi vísaði í verulegar vanefndir. Hann hafi talið að frá reikningi vegna október hefði átt að dragast vegna vanefnda kr. 122.384 og reikningur vegna nóvember hefði átt að vera 1.000.000/184*90 eða kr. 489.130 að frádregnum kr. 122.381 vegna október eða samtals kr. 366.749 auk VSK. Bent skuli á að í riftunarbréfi stefnda séu vinnudagar í nóvember sagðir vera 23. Hið rétta sé að virkir dagar í nóvember 2011 séu 22. Útreikningur stefnda sé því rangur sem þessu nemur. Auk þess hafi stefndi ekkert greitt af reikningi vegna nóvember og hafnað alfarið greiðslu, þrátt fyrir að hann hefði talið sér skylt að greiða hluta reikningsins.

Stefndi telji að stefnandi hafi ekki sinnt vinnuskyldu sinni með því að mæta ekki hvern dag á starfsstöð á Akranesi og vinna þar 8 tíma þá daga sem hann var á landinu. Þessu mótmælir stefnandi, enda samið um sveigjanleika, um að vinnutími skyldi að jafnaði vera a.m.k. 8 tímar á virkum vinnudögum. Í samningnum segi eingöngu að stimpilklukka skuli notuð þegar vinna sé innt af hendi á starfsstöð á Akranesi. Í samningi aðila sé gert ráð fyrir að stefnanda sé heimilt að sinna vinnuskyldu sinni heima hjá sér. Engin ákvæði séu í samningnum hvernig vinna þar skuli skráð. Ekkert í samningi aðila kemur í veg fyrir að stefnandi hafi mátt fara í frí. Honum hafi verið fullkomlega heimilt að hnika störfum sínum til þannig að hann kæmist í frí. Þetta hafi hann einnig gert í fullu samráði við starfsmenn stefnda, sem hafi verið fullkunnugt um að stefnandi færi í nokkurra daga frí síðari hluta nóvember 2011.

Þar sem ekki sé til staðar riftunarheimild á grundvelli vanefndar beri stefnda að greiða stefnanda skuld vegna nóvember 2011, svo sem kveðið sé á um í samningi aðila, gr. 4 í samningi aðila. Jafnframt beri stefnda að greiða stefnanda skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar fyrir tímabilið desember, janúar, febrúar og mars 2012.

Sundurliðist krafan sem hér segir:

Vangreitt vegna nóvember með VSK     

kr. 1.255.000

Skaðabætur vegna tímabilsins desember til mars með VSK

kr. 5.020.000

samtals

kr. 6.275.000

                                           

Vegna kröfu um nóvembergreiðslu vísast í gr. 4.1 í samningi aðila. Þar sem sá háttur hafi verið hafður á að reikna VSK ofan á og að félag í eigu stefnanda hafi síðan staðið skil á greiðslu VSK til ríkissjóðs sé sá háttur hafður á kröfunni.

Um rétt til skaðabóta vísast til gr. 10.1 í samningi aðila. Skv. ákvæðinu var óheimilt að segja samningnum upp fyrr en í desember 2011. Þá fyrst geti þriggja mánaða uppsagnarfrestur byrjað að líða. Réttur stefnanda til skaðabóta nái þannig til fjögurra mánaða, desember, janúar, febrúar og mars, samtals með VSK kr. 5.020.000.

Auk þess sé krafist dráttarvaxta af fjárhæðinni frá eindaga reikninga, 7. desember 2011 og til greiðsludags. Dráttarvaxtakrafa sé byggð á 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.1. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Lagatilvísanir:

Stefnandi vísar í samning aðila frá 8. apríl 2011, markaðs- og sölusamning, unninn í verktöku, svo og meginreglur samningaréttar og vinnuréttar.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum, einkum 1. mgr. 6. gr. auk 12. gr. laganna.

Krafan um málskostnað styðjist við 129. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á aðildarskorti, en í máli þessu krefjist stefnandi greiðslu á reikningum útgefnum af VPO ehf. en félagið sé ekki aðili að máli þessu. Ef ekki verði fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts byggir stefndi á því að riftun stefnda hafi verið lögmæt og því beri að synja um bótakröfu stefnanda. Jafnframt krefjist stefndi þess að vera sýknaður af dráttarvaxtakröfu stefnanda, eða að upphafsdegi dráttarvaxta verði seinkað.

Í stefnu sinni krefjist stefnandi greiðslu á reikningum útgefnum af þriðja aðila og telur stefndi því ljóst að um aðildarskort sé að ræða.

Krafa stefnanda sé sett upp í tveimur liðum Annars vegar sé krafist greiðslu á reikningi nr. 84 að fjárhæð kr. 1.255.000,- sem var útgefinn af VP0 ehf., kt. 701098-2429 og féll í gjalddaga 30. nóvember 2011. Hins vegar sé krafist greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 5.020.000,- með virðisaukaskatti. Sé lagður fram reikningur nr. 85 útgefinn af VPO ehf. sömu fjárhæðar, til stuðnings skaðabótakröfu stefnanda. Standi á reikningnum: Uppgjör samnings: desember 2011, janúar, 2012, febrúar 2012 og mars 2012. Með hliðsjón af þessu virðist dómkrafa stefnanda því ganga út á að greiddir séu þessir tveir reikningar félagsins VPO ehf. Telur stefndi að stefnandi sé því ekki réttur aðili að málinu heldur VPO ehf. Félagið sé réttur aðili að dómsmáli þar sem krafist sé greiðslu á reikningum útgefnum af félaginu.

Stefndi telur að með hliðsjón af framansögðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að honum beri ekki að greiða stefnanda bætur þar sem riftun stefnda á samningi aðila hafi verið lögmæt. Stefnandi hafi verulega vanefnt skyldur sínar skv. samningi aðila og hafi samningnum því réttilega verði rift.

Það sé óskráð meginregla kröfuréttar að aðili gagnkvæms samnings geti beitt riftun í tilefni vanefnda gagnaðila þrátt fyrir að ekki sé skýrt kveðið á um slíka heimild í samningnum. Sú heimild sé almennt talin vera til staðar jafnvel í samningum sem séu óuppsegjanlegir eða gerðir til langs tíma.

Framlag stefnanda samkvæmt samningi aðila hafi verið vinna við markaðs- og sölumál hjá stefnda. Slík skilgreining sé matskennd og erfitt að meta slíkt framlag öðruvísi en með unnum klukkustundum. Því hafi verið kveðið á um það í 3. gr. samningsins að stefnandi skyldi skila ákveðnu lágmarki vinnustunda á hverjum virkum degi auk þess sem hann þyrfti að sinna ákveðnum viðskiptavinum erlendis, sbr. ákvæði í grein 3.1 um vinnutíma í starfsstöð stefnda þegar stefnandi væri ekki í vinnuferðum erlendis, á vegum FoodCraft eða stefnda. Daglegur vinnutími sé sveigjanlegur á tímabilinu 7:00 — 18:00.

Í greinum 3.4 og 3.5 sé kveðið á um skyldu stefnanda til ferða erlendis og skyldu hans til að þurfa jafnvel að sinna starfinu heima hjá sér, utan venjulegs vinnutíma.

Stefnandi hafi vanefnt þessa skyldur sínar verulega. Megin þungi af skyldum stefnanda hafi verið að inna af hendi a.m.k. 8 klst. vinnu á virkum dögum við markaðs- og sölustörf á starfsstöð Skagans hf. Hafi tímaramminn verið sveigjanlegur að því leyti að stefnandi hafi haft aðgang að starfsstöð Skagans á tímabilinu kl. 7:00 til 18:00 á hverjum virkum degi til að inna framlag sitt af hendi. Stefnda hafi hins vegar orðið ljóst í september 2011 að stefnandi væri ekki að inna af hendi vinnuskyldu sína á starfsstöð stefnda í samræmi við ákvæði samningsins. Hafi verið farið yfir það á fundi með stefnanda, ásamt þeirri staðreynd að FoodCraft Equipment Inc. hafi talið ekki lengur talið sér fært að standa að samningnum lengur. Hafi þetta verð ítrekað á fundi aðila í nóvember 2011 og samningnum síðan rift.

Vanefndir stefnanda megi sjá á yfirliti stefnda yfir unnar vinnustundir stefnanda á starfsstöð Skagans hf. frá apríl til loka nóvember 2011. Einnig leggur stefndi fram samantekt á unnum vinnudögum stefnanda á starfsstöð Skagans hf. Þar sé tekinn saman dagafjöldinn þar sem stefnandi hafi sinnt lágmarks vinnuskyldu sinni, skv. gr. 3.1 í samningnum, í hverjum mánuði fyrir sig. Á því yfirliti sjáist að einungis í 33% tilvika á öllu samningstímabilinu hafi stefnandi fylgt ákvæðum samningsins og verið í vinnu á starfsstöð Skagans hf. í a.m.k. 8 klst. á dag, þá virka daga sem hann var ekki vinnuferð erlendis. Einnig séu teknar saman þær klukkustundir sem stefnandi hafi unnið á starfsstöð Skagans hf. í hverjum mánuði og útfrá því meðaltal vinnustunda á hverjum virkum degi, í hverjum mánuði. Skv. því yfirliti hafi stefnandi aldrei náð að meðaltali 8 vinnustundum á dag í einum, stökum mánuði, á starfsstöð Skagans.

Með hliðsjón ofangreindu telur stefndi sýnt að stefnandi hafi vanefnt samninginn verulega, strax frá upphafi. Riftun hans hafi því verið lögmæt og hann beri því ekki skaðabótaábyrgð á tjóni vegna hennar. Þá telur hann kröfur sínar vegna vanefnda stefnanda mun hærri en kröfur stefnanda vegna nóvember mánaðar, eins og fram komi í varakröfu stefnda.

Þá sé byggt á því að stefndi eigi gagnkröfu á stefnanda sem sé næstum jafnhá stefnufjárhæðinni, en jafnframt byggi stefndi á því að fjárhæð dómkröfu stefnanda sé of há. Telur stefndi að með hliðsjón af þessu sé niðurstaðan raun sú að stefnandi skuldi stefnda, en ekki öfugt.

Eigi stefndi rétt á afslætti af útgefnum reikningum vegna vanefnda stefnanda á samningi aðila. Skuldajafna eigi kröfu stefnda að fjárhæð 4.690.000 krónur vegna þessa gagnvart kröfum stefnanda.

Stefnandi hafi brotið gegn ákvæði 3.1 samnings aðila allt samningstímabilið eins og rakið sé að framan. Hefði stefnandi því með réttu átt að gefa stefnda afslátt af útgefnum reikningum vegna þessa galla á verki stefnanda. Vísast um þetta til umfjöllunar um vanefndir stefnanda hér að framan og eigi stefndi rétt á 67% afslætti af verki stefnanda frá maí 2011 til nóvember 2011, en það sé alls 4.690.000 krónur utan vsk. (kr. 1.000.000,-*7 mánuðir*67% = kr. 4.690.000,-).

Ef ekki verði fallist á ofangreinda útreikninga stefnda fer stefndi fram á að honum verði dæmdur afsláttur að álitum.

Gagnkrafa stefnda sé gjaldfallin og séu því skilyrði skuldajafnaðar fyrir hendi, sbr. 1.   mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Enn er krafist sýknu vegna þess að reikningur fyrir nóvember 2011 sé of hár. Stefnandi hafi ekki uppfyllt vinnuskyldu sína í nóvember og að því beri að lækka kröfu stefnanda vegna þess mánaðar. Telur stefndi einnig að stefnanda sé ekki heimilt að krefjast greiðslu virðisaukaskatts á umrædda kröfu þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Ef stefnda verði gert að greiða kröfu stefnanda með vsk. krefst stefndi þess að greiðsluskylda hans verði bundin því skilyrði að hann fái í hendur frumrit reiknings að sömu fjárhæð, með vsk.

Loks er á því byggt að ekki sé lagaheimild til að leggja virðisaukaskatt á skaðabætur. Telur stefndi einnig að stefnanda sé ekki heimilt að krefjast greiðslu virðisaukaskatts á umrædda kröfu þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Ef stefnda verði gert að greiða kröfu stefnanda með vsk. krefst stefndi þess að greiðsluskylda hans verði bundin því skilyrði að hann fái hendur frumrit reiknings að sömu fjárhæð, með vsk. Auk þessa telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefnufjárhæðin feli í sér raunverulegt tjón stefnanda.

Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi væntanlega leitað annarra verkefna í kjölfar riftunar stefnda á samningi aðila. Allar greiðslur vegna slíkra verkefna, sem byggist á vinnuframlagi stefnanda á tímabilinu 1. desember 2011 til 31. mars 2012 og voru greiddar til stefnanda eða VP0 ehf., hljóti að dragast frá kröfu stefnanda á hendur stefnda.

Með hliðsjón af öllum ofangreindum atriðum telur stefndi að sýkna beri hann af kröfum stefnanda.

Stefndi fallist ekki á greiðslu dráttarvaxta á kröfu stefnanda. Krafa stefnanda sé að stærstum hluta skaðabótakrafa en krafist sé dráttarvaxta frá „eindaga reikninga 7. desember 2011 og til greiðsludags". Stefndi telur að ekki sé hægt að breyta skaðabótakröfu í almenna kröfu bara með útgáfu reiknings fyrir henni. Hinn 7. desember 2011 hafi umfang meints tjóns stefnanda og þ.a.l. hugsanleg bótafjárhæð, ekki legið fyrir, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Auk þess líði ekki mánuður frá tilkynningu stefnanda fram að upphafsdegi dráttarvaxtakröfu hans, sbr. áðurnefnda 9. gr. vxl. Ef dráttarvaxtakröfu stefnanda verði ekki vísað frá dómi vegna vanreifunar, sbr. aðalkröfu stefnda, er farið fram á að stefndi verði sýknaður af henni eða stofndegi kröfunnar seinkað.

Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda á hendur honum verði lækkaðar verulega. Byggir stefndi varakröfu sína á vanefndum stefnda, bæði fyrr á samningstímanum sem og í nóvember 2011. Þá byggir stefndi einnig á því að fjárhagslegt tjón stefnanda vegna riftunar samningsins sé ekki jafn hátt og krafa stefnanda kveður á um. Vísar stefnandi til röksemda sem fram koma í undirkafla 4 í kafla IV.b, til stuðnings kröfu sinni.

Í stefnufjárhæð stefnanda sé búið að leggja virðisaukaskatt ofan á kröfur stefnanda. Ef dæmt yrði í samræmi við þær dómkröfur stefnanda telur stefndi rétt að þá yrði greiðsluskylda stefnda háð því að stefndi fengi afhent frumrit af reikningum, að sömu fjárhæð og dæmd krafa stefnanda, með álögðum virðisaukaskatti. Með tilliti til þessa telur stefndi vissara að krefjast þessa, þrátt fyrir að stefnandi sé sjálfur ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.

Stefnandi byggir á því í stefnu sinni að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum samnings aðila þar sem hann hafi á tímabilinu 11. apríl 2011 til 30. nóvember 2011 unnið að meðaltali 8,92 klst. á hverjum virkum degi. Stefndi mótmælir þessari  staðhæfingu stefnanda með eftirfarandi rökum.

Skýrt sé tekið fram í gr. 3.1 í samningi aðila að vinnustundir í starfsstöð Skagans skuli vera að jafnaði sem svarar a.m.k. 8 vinnustundum á virkum degi. Þessi starfsskylda sé óháð þeim vinnuferðum sem stefnandi hafi þurft að sinna erlendis. Útreikningar stefnanda byggi hins vegar einnig á þeim vinnustundum sem stefnandi skrái á sig þegar hann sé í ferðum erlendis. Skv. yfirlitinu skrái stefnandi yfirleitt á sig 12 vinnustundir á dag þegar hann er í vinnuferðum erlendis. Slík framsetning sé villandi og ekki í samræmi við efni samningsins. Kveðið sé á um að stefnandi skili a.m.k. 8 vinnustundum á hverjum virkum vinnudegi á starfsstöð Skagans ef stefnandi er staddur hérlendis, sbr. gr. 3.1 í samningnum. Sú vinnuskylda sé óháð viðveru stefnanda erlendis og er þv1 mótmælt að meðaltal þeirra vinnustunda sé híft upp með áðurnefndum hætti.

Skv. gr. 3.3 í samningnum skyldi stefnandi taka matartíma í 30-60 mín. hvern dag sem hann var við vinnu á starfsstöð Skagans hf. Matartíminn skyldi tekinn á tímabilinu 12:00-14:15 og tekið fram að hann teldist ekki til vinnutíma. Misbrestur hafi orðið á því að stefnandi stimplaði sig úr vinnu í samræmi við þetta, þrátt fyrir að vera að vinna fullan vinnudag. Telur stefndi rétt að tímaskráning miði við að stefnandi hafi tekið sér hálftíma matartíma þá daga sem hann var vinnu heilan vinnudag (eða svo sem næst), þó svo hann hafi ekki stimplað sig í og úr mat. Ekki sé gert ráð fyrir slíku í útreikningum stefnanda.

Stefnandi taki ekki með inn í meðaltalið daga þar sem stefnandi hafi skráð sig í „frí". Skv. samningnum hafi stefnandi átt að mæta til vinnu á starfsstöð Skagans hf. í a.m.k. 8 klst. alla virka daga ef hann var ekki staddur erlendis í vinnuferð. Stefnandi skrái sig hins vegar í „frí" í 16 daga á tímabilinu 8. apríl til 30. nóvember 2011. Í verksamningnum sé ekki gert ráð fyrir að stefnandi eigi rétt á að taka slíka „frídaga" og fá samt greitt að fullu. Ef stefnandi hefði viljað taka sér frí hefði að sjálfsögðu verið hægt að ná samkomulagi um slíkt. En slíkt hefði einmitt þurft að gera í samráði við stefnda. Aðilar hefðu þá þurft að komast að samkomulagi um hvort forföll yrðu unnið upp eða hvort gefinn yrði afsláttur af hinni föstu greiðslu. Stefnandi hafi hins vegar gefið út mánaðarlega reikninga án þess að tekið væri tillit til fjarveru hans. Athugasemdum stefnda vegna þessa hafi verið hafnað af hálfu stefnanda.

Ofangreindu til viðbótar mótmælir stefndi því að umrætt meðaltal stefnanda skipti máli varðandi mat á efndum á samningnum. Í meðaltalinu felist að teknar séu vinnustundir á tímabilinu frá. 8. apríl 2011 til 30. nóvember 2011. Samkvæmt samningnum hafi vinnuskyldan verið mæld í fjölda vinnustunda á hverjum virkum degi, sjá gr. 3.1. Í greininni er sérstaklega tekið fram að vinnutími stefnanda á starfsstöð Skagans skuli vera a.m.k. 8 klst. Of mikil vinna á einum degi eða í einum mánuði hafi því ekki átt að mynda einhvers konar „inneign" á vinnustundum. Almennt hafi verið gengið út frá að unnir tímar yrðu venjulega umfram það. Mat á því hvort samningur hafi verið réttilega efndur eigi að byggja á því hvort umrædd vinnuskylda hafi verið uppfyllt hvern dag. Með hliðsjón af þessu sé staðhæfing stefnanda um meðaltal unna tíma, marklaus.

Varðandi allar sínar dómkröfur vísar stefndi til verksamnings aðila frá. 8. apríl 2011, meginreglna kröfuréttar, samningsréttar og verktakaréttar, kröfum sínum til stuðnings.

Þá vísar stefndi sérstaklega til ákvæða d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 28. gr. sömu laga.

Stefndi byggir kröfur sínar einnig á 5., 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Ágreiningslaust er með aðilum máls þessa að samningur aðila er verksamningur en ekki ráðningarsamningur samkvæmt reglum vinnuréttarins. Í samningi þessum segir í 1. gr. 1 að stefnandi hafi heimild til að innheimta greiðslur samkvæmt honum í gegnum rekstrarfélag á hans vegum. Fól það í sér heimild til stefnanda en ekki skyldu og með því að ljóst er að samningur sá sem gilti um samband aðila var milli þeirra en ekki stefnda og félags á vegum stefnanda og að stefnandi krefur um greiðslur sem hann telur sé bera úr hendi stefnda á grundvelli samningsins verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að aðildarskortur leiði til sýknu hans.

Í uppsagnarbréfi því er stefndi sendi stefnanda í september 2011 er engu orði vikið að því að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila. Sú viðbára kom ekki fram fyrr en í bréfi stefnda hinn 30. nóvember 2011. Ekki er sýnt fram á að fyrr hafi verið gerðar athugasemdir við vinnulag stefnanda. Þegar litið er til ákvæða samnings aðila um vinnulag stefnanda þ. e. að vinnuframlag hans skyldi ýmist vera í Bandaríkjunum, á starfsstöð stefnda og heima hjá stefnanda sjálfum þykir ekki vera sýnt fram á að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar svo að varðaði fyrirvaralausri uppsögn. Er það því niðurstaða dómsins að riftun samnings aðila hafi verið stefnda óheimil hinn 30. nóvember 2011 og samkvæmt því voru ákvæði hans í gildi og stefnda skylt að efna hann fyrir sitt leyti með því að greiða umsamin laun fyrir þann tíma sem samningurinn gilti.

Þá þykir ekki sýnt fram á það að stefndi eigi gagnkröfur á hendur stefnanda vegna ofgreiðslu samningsgreiðslna á tímabilinu frá 11. apríl til loka október 2011 og í nóvember 2011 og koma þar til sömu rök og gilda um þá niðurstöðu að dómurinn telur riftun stefnda á samningi óheimila.

Í samskiptum aðila þykir engu máli skipta hvort stefnandi hafi fengið greiðslur frá öðrum vegna annarra starfa á uppsagnartíma samkvæmt samningi aðila og því ekki efni til að lækka dómkröfur vegna þessa.

Samningur aðila er skýr um gildistíma og uppsögn svo og uppsagnarfrest og eins og fram er komið verður ekki fallist á að riftun hans hafi verið lögmæt eða að stefndi eigi gangkröfur á hendur honum. Er ekki fallist á að heimilt hafi verið að segja samningnum upp fyrr en í desember 2011 og að sú uppsögn skyldi miðast við að upphaf uppsagnarfrests yrði 1. janúar 2011. Verður því fallist á kröfur stefnanda að öllu leyti.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.750.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.

Allan Vagn Magnússon dómstjóri kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndi, Skaginn hf., greiði stefnanda, Pálmari S. Ólafssyni, 6.275.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. desember 2011 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.750.000 krónur í málskostnað.