Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. október 2005.

Nr. 78/2005.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Hilmari Þórarinssyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.

H hafði í starfi sínu sem dyravörður á hóteli lent í ryskingum við F, ölvaðan mann sem H hugðist vísa af hótelinu, og hlotið tjón af. H höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Var ekki dregið í efa að sú ákvörðun H, að vísa F af hótelinu, hafi verið réttmæt. Eins og atvikið bar að var ekki hægt að fallast á að um líkamsárás F hafi verið að ræða í skilningi 217. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar varð að líta svo á, eins og framferði og athöfnum F var háttað, að H hafi mátt búast við því að hann léti ekki af þeim eignaspjöllum sem hann hafði þegar valdið. Var því á það fallist að H hafi, þegar hann varð fyrir tjóni, verið að afstýra refsiverðri háttsemi F og ætti því rétt á bótum úr ríkissjóði samkvæmt fyrrnefndum lögum. Þá var talið að umsókn H um bætur vegna tjónsins hafi borist innan þess frests sem settur var með bráðabirgðaákvæði laganna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Lög nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota öðluðust gildi 1. júlí 1996, sbr. 20. gr. laganna eins og henni var breytt með 19. gr. laga nr. 144/1995. Gilda þau um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum skyldi umsókn um bætur vegna tjóns sem leiðir af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku þeirra. Atvik þau sem voru tilefni kröfu stefnda urðu 27. maí 1995. Umsókn hans um bætur barst bótanefnd 27. júní 1997 og var það innan þess frests sem settur er með fyrrgreindri 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Stefndi hefur gjafsókn í málinu fyrir Hæstarétti og eru því ekki efni til að kveða sérstaklega á um greiðslu málskostnaðar af hálfu áfrýjanda. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Hilmars Þórarinssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004.

I

          Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember sl., höfðaði Hilmar Þórarinsson, kt. 190460-2079, Laugarnesvegi 87, Reykjavík gegn íslenska ríkinu með stefnu birtri 26. mars 2004.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota í málinu nr. 61/1997 frá 30. júní 1998 verði felld úr gildi og að stefnda verði gert að greiða kr. 4.341.202 með 2% árs­vöxtum frá 1. júlí 1996 til 27. júlí 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

          Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum máls­kostnað ásamt virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjaf­sóknarmál.

          Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.

          Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar stórkostlega og máls­kostnaður látinn falla niður.

II

          Stefnandi var starfsmaður í gestamóttöku á Hótel Íslandi og lenti í því starfi í átökum við Friðrik Ásmundsson, sem fæddur er árið 1975, um kl. 23.00 laugardaginn 27. maí 1995 og varð fyrir meiðslum. Stefnandi kærði Friðrik til lögreglunnar í Reykjavík 23. ágúst 1995 og krafðist bóta úr hendi hans með bréfi dags. 15. maí 1997. Hinn 27. júní 1997 sótti stefnandi um bætur úr ríkissjóði samkvæmt lögum nr. 69/1995 en bótanefnd hafn­aði þeirri kröfu með ákvörðun 30. júní 1998, eins og fram kemur í dómkröfum stefnanda.

Samkvæmt örorkumati dags. 22. apríl 1997 var tímabundin læknisfræðileg örorka stefn­anda metin 100% frá 27. maí 1995 til 31. október 1996, en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga 35% og varanleg læknisfræðileg örorka 25%. Miskastig vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga var metið 25%.

Samkvæmt útreikningum stefnanda, sem hann byggir á ákvæðum skaðabótalaga, örorku­matinu og árslaunum sínum, nemur tjón hans kr. 7.490.072 og greiðslur sem hann hefur fengið vegna tjónsins eru kr. 3.148.870. Mismunurinn er stefnufjárhæðin kr. 4.341.202. Stefndi hefur hvorki mótmælt örorkumatinu né útreikningi stefnanda á bóta­kröfum. Síðar verður vikið að takmörkunum  á bótagreiðslum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995.

III

          Stefnandi var sá eini sem kom fyrir dóminn til skýrslugjafar og var það 11. nóvember sl. Að öðru leyti byggja aðilar, að því er atvik varðar, á skýrslum sem gefnar voru fyrir lög­reglu. Verður nú fyrst rakið í einu lagi það sem kemur fram í skýrslum stefnanda fyrir lög­reglu og dómi og síðan það sem fram kemur í öðrum lögregluskýrslum.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir lögreglunni í Reykjavík 23. ágúst 1995 og skýrði frá því að hann hefði mætt til vinnu sinnar kl. 20.00 laugardaginn 27. maí. Þá hafi dvalið á hótelinu sjómenn frá Vestmannaeyjum, nokkuð ölvaðir og fyrirferðarmiklir, en Friðrik Ásmunds­son var einn þessara gesta. Sér hafi verið tjáð af starfsmönnum að Friðrik hefði drukkið frá hádegi þennan dag. Sumir þessara manna hafi þá um kvöldið verið á bar hótelsins en aðrir á herbergjum. Rétt fyrir kl. 23.00 hafi hann orðið þess var að Friðrik Ásmunds­son hafi verið með skæting og dónaskap við sænska ferðamenn á barnum, sem hefðu kvartað undan framkomu hans. Stefnandi kveðst þá hafa ákveðið að vísa Friðriki af hótelinu og kallað sér til aðstoðar tvo dyraverði á skemmtistað, sem sé við hlið hótelsins, og farið með þeim og Friðriki upp á herbergi til þess að hann tæki þar dót sitt. Þar hafi Friðrik haft í hótunum við sig og verið með stæla sem og á leiðinni niður í gestamóttöku. Þegar þangað kom hafi Friðrik rekið upp tryllt öskur og sparkað niður glerskilrúm sem hafi brotnað og hrunið yfir barinn. Ein kona hafi skorist í framan. Friðrik hafi síðan reynt að sparka niður glerhurðir sem ekki hafi tekist því að þær opnist sjálfkrafa þegar komið sé í geisla frá opnunarbúnaði. Stefnandi segist í lögregluskýrslunni þá hafa stokkið til, tekið Friðrik hálstaki og ætlað að hemja hann með því móti. Fyrir dómi sagðist stefnandi hafa gripið Friðrik hálstaki aftan frá til þess að hefta hann, en Friðrik, sem sé stór maður, hafi verið alveg trítilóður, barist um og slegið frá sér. Einhvern veginn hafi þeir fallið í gólfið og kveðst stefnandi hafa komið niður á hægri öxl sína undir þunga þeirra beggja. Þrjá menn hafi þurft til að halda Friðriki niðri. Lögreglan hafi síðan komið, handjárnað Friðrik og farið með hann í burtu.

          Stefnandi kveðst hafa kennt þungs verkjar í hægri öxl þegar líða tók á nóttina. Í læknis­vottorði frá slysadeild Borgarspítala dagsettu 1. ágúst 1995 kemur fram að stefnandi hafi komið þangað 28. maí 1995 og er þar greint frá sjúkrasögu, skoðun, grein­ingu og horfum á bata. Tvö önnur læknisvottorð hafa verið lögð fram. Hið síðara er dag­sett 25. mars 1997. Stefnandi gekkst undir fjórar aðgerðir á einu ári. Stefnandi kvaðst nú lítið sem ekkert geta unnið og sé atvinnulaus. Eins og málatilbúnaði er háttað þykir hvorki ástæða til að rekja frekar efni læknisvottorðanna né þess örorkumats sem stefnandi byggir kröfur sínar á.

          Friðrik Ásmundsson gaf skýrslu um atburð þennan fyrir lögreglunni í Vest­manna­eyjum 29. september 1995. Hann kvaðst hafa verið nokkuð mikið ölvaður og verið með einhver læti á hótelbarnum umrætt kvöld. Einhver starfsmaður hafi komið og sagt sér að fara af hótelinu og fylgt sér upp á herbergi til þess að taka saman farangurinn. Á leiðinni út af hótelinu hafi hann sparkað í glervegginn og þá hafi einn starfsmanna hótelsins tekið í höndina á sér og síðan hafi hann verið snúinn niður. Friðrik kvaðst ekki muna hvort hann hefði lent ofan á manninum sem sneri hann niður en taldi það ólíklegt.

          Það næsta sem Friðrik kvaðst muna af atburðunum hafi verið að Einar Pálsson frá Vest­mannaeyjum hafi komið að og sagt við starfsmenn hótelsins að hann væri orðinn rólegur. Síðan hafi lögreglan komið og fært sig á lögreglustöðina í Reykjavík.

          Í skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 27. maí 1995 segir að lögreglan hafi verið send á Hótel Ísland vegna ölvunar og rúðubrots í gestamóttöku. Þegar hún hafi komið á staðinn hafi dyraverðir hótelsins verið með Friðrik í tökum á gólfinu. Lögreglan hafi handtekið Friðrik og fært hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Friðrik hafi hlotið sár á vinstri úln­lið sem gert hafi verið að á lögreglustöðinni. Varðstjórinn hafi síðan lofað honum að fara.

          Í skýrslu varðstjóra sem dagsett er sama dag kemur fram að Friðrik hafi sparkað í gler í millivegg í anddyri (2m x 1,8m. 8mm þykkt gler) með þeim afleiðingum að hann hafi mölbrotnað. Útlensk kona, gestur á hótelinu, hafi fengið glerbrot yfir sig en geri ekki kröfur á hendur Friðriki. Þá er í skýrslunni sagt að Friðrik hafi verið nokkuð ölvaður og mjög æstur þegar lögregluþjónana bar að, og hafi þeir orðið að handjárna hann af þeim sökum.

          Sigurbergur Steinsson, starfsmaður í gestamóttöku hótelsins, gaf skýrslu fyrir lög­regl­unni í Reykjavík 30. ágúst 1995. Hann sagði Friðrik hafa verið til leiðinda á hótelinu. Stefnandi hefði fengið dyraverði á veitingastaðnum Hótel Íslandi til liðs við sig, þeir þrír farið með Friðriki upp á herbergi til þess að ná í dót hans og fylgja honum út af hótelinu. Sigurbergur sagðist hafa séð þá alla fjóra koma niður skömmu síðar. Þá hafi það gerst að Friðrik hafi sparkað í glerskilrúmið og brotið og síðan reynt að sparka í glerhurð sem við það hafi opnast. Þá hafi stefnandi tekið „Friðrik höndum og féllu þeir í gólfið þar sem fyrr­nefndir dyraverðir komu að málinu með Hilmari einnig,“ eins og orðrétt segir í lög­reglu­skýrslunni.

          Guðmundur Þóroddsson gaf skýrslu fyrir lögreglunni í Reykjavík 6. september 1995. Hann kvaðst hafa verið kallaður yfir á Hótel Ísland frá veitingastaðnum og farið ásamt öðrum dyraverði til að aðstoða starfsmann í móttöku hótelsins við að koma einum gest­anna út af hótelinu. Sá gestur hefði verið óhress, drukkinn og kjaftfor en fylgt þeim upp á herbergi og þaðan niður áleiðis út af hótelinu. Á leiðinni hefði hann sparkað í glerskilrúm og brotið og reynt að sparka í glerhurð sem ekki hefði tekist. Stefnandi hefði þá tekið þennan gest taki fyrstur þeirra og við það hafi þeir tveir strax fallið saman í gólfið. Eftir það hefðu þeir aðstoðað stefnanda við að halda manninum sem lögreglan hefði síðan handtekið. 

          Einar Pálsson, sem var einn í hópi gestanna frá Vestmannaeyjum, gaf skýrslu fyrir lög­reglunni í Vestmannaeyjum 13. október 1995. Einar kvaðst hafa orðið vitni að átök­unum í gestamóttökunni, en hann hefði verið við afgreiðsluborðið að biðja starfsmenn hótelsins afsökunar á framferði Friðriks. Þegar starfsmenn hótelsins hefðu komið niður með Friðrik hefði hann sparkað í glervegg og brotið og síðan ætlað að hlaupa í burtu en starfs­mennirnir náð honum. Þá hefðu orðið átök sem endað hafi með því að starfs­mennirnir hafi náð að koma Friðriki í gólfið og haldið honum þar á hliðinni með aðra höndina fyrir aftan bak. Einar kvaðst ekki muna hvernig starfsmennirnir hafi náð að koma Friðriki í gólfið en sér hefðu fundist aðfarirnar harkalegar. Ekki kvaðst hann hafa tekið eftir því hvort einn starfsmannanna hefði lent undir Friðriki.         

IV

          Af hálfu stefnanda er á það bent að áður en þeir atburðir gerðust sem leiddu til tjóns stefnanda hafi framkoma Friðriks Ásmundssonar verið þannig að stefnandi hafi talið rétt að kalla til liðs við sig tvo dyraverði frá veitingastaðnum Hótel Íslandi við að koma Friðriki út af hótelinu. Þær aðfarir Friðriks að sparka niður og brjóta þykkt glerskilrúm í gesta­móttöku Hótel Íslands, og reyna í framhaldi af því að sparka þar í glerhurð, hafi verið þess eðlis að hann hafi sett sjálfan sig og aðra í hættu, og búast hafi mátt við því að svo yrði áfram væri ekki gripið í taumana. Einnig hafi mátt búast við því að Friðrik ylli frekari eignaspjöllum en orðið var. Lögreglan hafi handjárnað Friðrik þegar hún kom á staðinn og sýni það að mat hennar hafi verið að ástandið væri alvarlegt.

          Þau viðbrögð stefnanda að reyna að koma í veg fyrir áframhald þessara aðfara hafi því verið fullkomlega eðlileg og réttmæt. Stefnandi, sem staðið hafi næstur Friðriki af þeim þremur sem voru að koma honum út af hótelinu, hafi reynt að stöðva hann með háls­taki aftan frá. Vegna óláta, æsings og atgangs Friðriks hafi hann fellt stefnanda í gólfið og því sé ómótmælt að stefnandi hafi af þeim sökum orðið fyrir alvarlegu líkams­tjóni. Því sé sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi fellt Friðrik í gólfið. Ljóst sé að Friðrik hafi með aðförum sínum gerst sekur um refsivert brot samkvæmt 218. eða 217. gr. al­mennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það mat ríkisvaldsins að ákæra Friðrik ekki vegna þessa brots breyti hér engu um. Refsinæmi verknaðarins sé til staðar og þar með sé full­nægt skilyrði 1. gr. laga nr. 69/1995 fyrir greiðslu bóta úr ríkissjóði samkvæmt lögunum. Fráleitt sé að 3. mgr. 218. gr.a almennra hegningarlaga eigi hér við. Sú málsgrein feli ekki í sér refsileysisástæður heldur ástæður sem áhrif geti haft á refsimat.

          Þá heldur stefnandi því fram að stefnandi hafi með athöfnum sínum komið í veg fyrir frekari skemmdarverk Friðriks, sem séu refsiverð samkvæmt 257. gr. almennra hegn­ing­ar­laga. Samkvæmt 4. mgr. þeirrar lagagreinar sé það á valdi eiganda hins skemmda hvort höfðað sé mál vegna skemmdarverkanna en ekki stefnanda. Það að mál hafi ekki verið höfðað skipti engu um rétt stefnanda til skaðabóta samkvæmt lögum nr. 69/1995. Stefnandi hafi og sinnt skyldu sinni sem borgari, sbr. 97. gr. laga nr. 19/1991, að handtaka Friðrik og afhenda hann lögreglunni, og þannig komið í veg fyrir áframhaldandi skemmd­ar­verk hans og þá hættu sem skapast hefði með því að láta hann vera lausan á al­manna­færi. Þannig séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 fyrir greiðslu bóta.

          Stefnandi mótmælir því sérstaklega að forsendur séu til þess að lækka bótagreiðslu til stefn­anda vegna eigin sakar, sbr. 8. gr. laga nr. 69/1995.

          Ástæða þess að stefnandi geri í málinu hærri bótakröfu en nemi hámarki bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 sé sú að hvað eftir annað hafi komið fram á Alþingi tillaga um að hækka þetta hámark og vera kunni að tillaga þar um nái fram að ganga innan tíðar og skapi stefnanda rétt til hærri bóta en sé nú kveðið á um í lögunum.

          Stefnandi miðar við að stefndi eigi að byrja að greiða dráttarvexti mánuði eftir að hann setti fram kröfu um greiðslu bóta á hendur ríkinu.

          Af hálfu stefnda er því haldið fram að synjun bótanefndar um að ríkið greiði stefn­anda skaðabætur samkvæmt lögum nr. 69/1995 hafi í einu og öllu verið að lögum. Ekki sé hægt að rekja meiðsl stefnanda til þess að Friðrik Ásmundsson hafi gerst sekur um líkams­árás og þar með brotið almenn hegningarlög sem sé skilyrði bótagreiðslu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995. Hann hafi enda ekki verið ákærður fyrir brot á almenn­um hegningarlögum. Friðrik hafi ekki verið að takast á við stefnanda heldur hafi stefnandi stokkið á Friðrik og við það hafi þeir báðir fallið í gólfið og stefnandi meiðst. Þannig sé það afl stefnanda sem leitt hafi til fallsins.

          Friðrik hafi, þegar stefnandi stökk á hann, verið búinn að brjóta glerskilrúm og honum hafi ekki tekist að brjóta meira þótt hann reyndi. Þannig hafi þessir atburðir verið af­staðnir og skilyrði þess að líta megi svo á að aðgerðir stefnanda hafi verið nauðsynlegar til þess að afstýra refsiverðri háttsemi, eða skoða þær borgaralega handtöku í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, séu ekki fyrir hendi. Stefnandi hafi heldur ekki verið að að­stoða lögreglu við handtöku. Lögreglan hafi enga tilkynningu fengið um það að Friðrik hafi verið handtekinn heldur hafi hún sjálf handtekið hann. Þannig séu ekki fyrir hendi skil­yrði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 fyrir bótagreiðslu. Þótt litið yrði svo á að nauð­synlegt hafi verið að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að Friðrik bryti eitthvað af sér hafi ekki verið nauðsynlegt að fella hann í gólfið. Stefnandi hafi haft þrjá menn sér til fylgdar og hefðu þeir saman átt að geta stillt Friðrik með öðrum hætti.

          Af hálfu stefnda er varakrafa rökstudd með því að lækka eigi bætur til stefnanda vegna eigin sakar hans sem eigi að minnsta kosti að leiða til þess að honum verði gert að bera sjálfum meginhluta tjóns síns. Þá greiði ríkissjóður ekki hærri fjárhæð af dæmdum eða ákvörðuðum bótum að vöxtum meðtöldum en 2.500.000 og sé sú krafa gerð að saman­lögð fjárhæð bóta og vaxta nemi ekki hærri fjárhæð.

          Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda að því leyti að stefnandi hafi ekki gert reka að málsókn sinni fyrr en nær sex árum eftir að ákvörðun bótanefndar hafi legið fyrir.

V

          Atvik það sem stefnandi rekur tjón sitt til, og bótakrafa hans byggist á, átti sér stað 27. maí 1995. Stefnandi kærði Friðrik Ásmundsson til lögreglunnar í Reykjavík 23. ágúst 1995 og krafðist bóta úr hendi hans 15. maí 1997. Þannig eru uppfyllt bæði skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 fyrir greiðslu bóta úr ríkissjóði. Í 2. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um það að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Hinn 27. júní 1997 sótti stefnandi um bætur og voru þá liðin tvö ár og einn mánuður frá því að atvikið varð. Bótanefnd synjar ekki um bætur af þessum sökum og ekki kemur fram í ákvörðun hennar, sem tekin er 30. júní 1998, að hún líti svo á að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. megi í þessu tilviki víkja frá skilyrðinu í 2. mgr. Stefndi hefur ekki borið fyrir sig sem sýknuástæðu að stefnandi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Af þeim sökum verður litið fram hjá því við afgreiðslu málsins að stefnandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 6. gr. um að sækja um bætur í tíma, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

          Upplýst má telja að hegðun Friðriks Ásmundssonar á bar Hótel Íslands að kvöldi 27. maí 1995 hafi verið óviðunandi fyrir aðra gesti sem þar voru. Engin ástæða er til þess að draga í efa að sú ákvörðun stefnanda að vísa Friðriki af hótelinu hafi verið réttmæt og tekin af gefnu tilefni. Til þess verður að líta, að því er framkomu Friðriks varðar, að stefnandi taldi ástæðu til að leita aðstoðar tveggja dyravarða á nærliggjandi veitingastað við að koma Friðriki út af hótelinu í stað þess að sjá um það einn og sjálfur. Verður varla annað sagt en það bendi til þess að stefnandi hafi talið Friðrik til alls vísan eins og á stóð. Upp­lýst er í málinu að í anddyri hótelsins braut Friðrik allrammgerðan glervegg með því að sparka í hann og olli þannig eignatjóni sem refsivert er samkvæmt 257. gr. almennra hegn­ingarlaga. Í skýrslu lögreglu kemur fram að einn hótelgesta hafi við þennan atgang fengið glerbrot úr veggnum yfir sig en gerði þó engar kröfur á hendur Friðriki vegna þess.

          Friðrik lét ekki við þetta sitja heldur reyndi eftir veggbrotið að sparka í glerhurðir sem voru á vegi hans, án þess að það tækist. Ekki er ólíklegt að hann hafi ætlað að gera hurð­un­um sömu skil og glerveggnum, eða a.m.k. verið sama þótt svo færi. Við þessar að­stæður tók stefnandi Friðrik hálstaki aftan frá og féllu þeir þá báðir í gólfið með þeim af­leið­ingum að stefnandi varð fyrir líkamstjóni. Eins og þetta atvik bar að er ekki hægt að fallast á það að um líkamsárás Friðriks hafi verið að ræða í skilningi 217. eða 218. gr. almennra hegningarlaga eins og stefnandi heldur fram. Verður þannig ekki á það fallist að fyrir hendi sé það skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 að tjón stefnanda hafi leitt af broti á almennum hegningarlögum. Hins vegar verður að líta svo á, eins og framferði og at­höfnum Friðriks var háttað, að stefnandi hafi mátt búast við því að hann léti ekki af þessu framferði sínu, sem óútséð var til hvers gæti leitt, og því réttlætanlegt að hann reyndi að koma í veg fyrir að það héldi áfram með því að taka hann tökum. Verður ekki talið að hann eigi sjálfur sök á því hvernig fór. Þannig verður á það fallist að stefnandi hafi, þegar hann varð fyrir tjóni, verið að afstýra refsiverðri háttsemi Friðriks og eigi því rétt á bótum úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995. Ber því að fella úr gildi ákvörðun bótanefndar frá 30. júní 1998.

          Óumdeilt er að bætur vegna líkamstjóns, þar með talinn miski sem af líkamstjóninu stafar, eru takmarkaðar við fjárhæðina kr. 2.500.000 samkvæmt b-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Ekki er deilt um fjárhæð bótakröfu stefnanda en höfuðstóll hennar nemur hærri fjárhæð en kr. 2.500.000. Því er þarflaust að taka afstöðu til kröfu stefnanda um vaxta­greiðslur.  

          Þar sem stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu eru ekki efni til að dæma stefnda til þess að greiða honum málskostnað, en um gjafsóknarkostnað stefnanda fer eins og segir í dómsorði.

          Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð.

          Felld er úr gildi ákvörðun bótanefndar frá 30. júní 1998 í málinu nr. 61/1997. Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Hilmari Þórarinssyni, kr. 2.500.000.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns hans og virðisaukaskattur af henni, samtals kr. 790.000.