Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Faðerni
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2014. |
|
Nr. 362/2014.
|
A (Lilja Jónasdóttir hrl.) gegn B C D og E (Egill Stephensen hrl.) |
Kærumál. Börn. Faðerni. Frávísunarúrskurður staðfestur. Sératkvæði
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem faðernismáli A á hendur B, C, D og E var vísað frá dómi þar sem ekki var uppfyllt skilyrði 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili, sem fædd er 1978, mál þetta til viðurkenningar á að nafngreindur maður, sem nú er látinn, sé faðir sinn. Í greinargerð varnaraðila í héraði féllust þeir á að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn til að staðreyna faðerni sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir að á árinu 1979 var sóknaraðili ættleidd af stjúpforeldrum sínum og stendur sú ráðstöfun óhögguð. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að ekki séu uppfyllt réttarfarsskilyrði II. kafla barnalaga nr. 76/2003 fyrir kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Þá verður staðfest ákvæði úrskurðarins um málskostnað, en um þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti fer eins og í dómorði greinir, sbr. 11. gr. barnalaga.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar öðlast kjörbarn við ættleiðingu sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og væri það eigið barn kjörforeldra, nema lög mæli á annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra þess, önnur ættmenni og þá sem eru í kjörsifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum er tíundað með dæmum úr hinum ýmsu lögum sú undirstöðuregla að sömu reglur skuli gilda um kjörbarn og eigið barn foreldra. Þá segir að óæskilegt sé að frá þessu sé vikið í lögum, nema alveg sérstaklega standi á, sbr. einkum þá staðreynd að blóðbönd eru ekki milli kjörbarns og kjörforeldra, sbr. og 10. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Einnig segir að lagastefnan sé sú að staða kjörbarns verði sem svipuðust stöðu eigin barns ættleiðenda. Verði þetta raunar enn sýnna ef fylgt verði þeirri stefnu frumvarpsins að afnema reglur um niðurfellingu ættleiðingar.
Samkvæmt framansögðu gilda ekki að öllu leyti sömu reglur um kjörbörn og önnur börn.
Sóknaraðili hefur aldrei verið feðruð en fyrir liggur að hún var ættleidd með leyfisbréfi 29. maí 1979. Er feðrun í sjálfu sér óháð þeim lögfylgjum sem löggjafinn hefur ákveðið að binda við hana með ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og hefur 10. gr. laganna ekki að geyma aðra takmörkun fyrir málsaðild sem hér skiptir máli en að barn sé ekki þegar feðrað. Hagsmunir sóknaraðila til að vita um sinn líffræðilega föður njóta verndar 70. gr. stjórnarskrárinnar, en ákvæðið felur í sér sjálfstæða reglu um almennan rétt manna til að bera mál sín undir dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2000 í máli nr. 419/2000, sbr. einnig til hliðsjónar 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Verður því ekki fallist á með héraðsdómi að ættleiðing sóknaraðila og réttarfarsreglur II. kafla barnalaga skuli leiða til þess að sóknaraðila sé ókleyft að hafa uppi kröfu sína í máli þessu. Af þeim sökum tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2014.
Málið var þingfest 18. febrúar 2014 og tekið til úrskurðar 9. apríl sl. Stefnandi, A, kt. [...], höfðaði málið með stefnu, birtri 5. febrúar sl., á hendur B, kt. [...], C, kt. [...], og til réttargæslu D, kt. [...], öllum með lögheimili í [...],[...], og með stefnu birtri 29. janúar 2014 á hendur E, kt. [...],[...], til staðfestingar á faðerni.
Dómkröfur: Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfest verði með dómi að [...], [...], nú látinn, sé faðir stefnanda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr ríkissjóði, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu og réttargæslustefnda mótmæla ekki dómkröfum stefnanda en í greinargerð þeirra sem skilað var inn sama dag og málið var þingfest, kemur fram að þau fallist á að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram í ofangreindu skyni. Af hálfu stefndu er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Við fyrirtöku málsins 28. mars sl. ítrekaði stefnandi kröfu sína um að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á stefnanda og á lífsýni úr [...] sem til staðar sé í lífsýnasafni Landspítalans, í því skyni að staðreyna hvort hann væri líffræðilegur faðir stefnanda. Aðstoðarmaður dómara benti lögmönnum aðila á að málinu kynni að verða vísað frá dómi af sjálfsdáðum með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 239/1999 og gaf lögmönnum aðila færi á að tjá sig um mögulega frávísun í þinghaldi 9. apríl sl. Að þeim flutningi loknum var málið tekið til úrskurðar.
Málsástæður og lagarök: Í stefnu er málsatvikum lýst svo að 26. júlí 1978 hafi [...], kt. [...], alið stefnanda. Stefnandi hafi verið óskilgetin eins og það hafi verið skilgreint á þeim tíma og hafi aldrei verið feðruð. Hinn 26. nóvember 1978 hafi stefnandi farið í tímabundið fóstur til hjónanna [...] og [...], með ættleiðingu í huga og hafi leyfisbréf til ættleiðingarinnar verið gefið út til handa nefndum hjónum 20. maí 1979, sem hafi alið upp stefnanda sem sitt eigið barn.
Þegar stefnandi hafi haft aldur til hafi hún fengið að vita að hún væri ættleidd og að kynmóðir hennar væri [...]. Stefnandi hafi verið í takmörkuðum samskiptum við kynmóður sína en ætíð vitað af tilvist hennar. Kynmóðir stefnanda hafi hins vegar aldrei upplýst hver kynfaðir stefnanda væri. Stefnandi hafi hins vegar á vormánuðum 2012 fengið ábendingu um að [...] heitinn [...] væri faðir sinn. Kynmóðir stefnanda hafi nú misst andlega heilsu og sé ekki til viðræðu um faðerni stefnanda.
Stefnandi hafi rætt við ekkju [...] heitins, E, sem hafi tjáð henni að [...] heitinn hefði sagt sér að hann héldi að hann ætti barn með [...]. Hann hefði á sínum tíma ítrekað óskað eftir því við [...] að fram færi rannsókn til staðfestingar á þeim gruni en [...] ætíð neitað því. Í málinu liggi fyrir yfirlýsing E um þetta atriði. [...] hafi látist 20. janúar 2011. Hann hafi eignast þrjá syni sem allir séu stefndu í málinu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Vegna kröfu sinnar um að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram í málinu þá tekur stefnandi fram að fyrir liggi staðfesting frá lífsýnasafni Landspítalans um að til sé lífsýni úr [...] heitnum. Stefnandi krefst þess að dómurinn úrskurði að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífsýni úr [...] og á stefnanda, til að staðreyna hvort hann sé líffræðilegur faðir stefnanda. Stefnandi hafi aldrei verið feðruð en hafi nú rökstuddan grun um að [...] sé blóðfaðir hennar. Ekkja hans hafi nú borið um að [...] hafi tjáð henni að hann hefði haft samfarir við líffræðilega móður stefnanda á getnaðartíma hennar. Líkur séu því á að [...] sé faðir stefnanda. Ættleiðing stefnanda komi ekki í veg fyrir að hún fái notið réttar samkvæmt barnalögum til þess að vera feðruð.
Það varði mikilsverða persónulega hagsmuni hvers manns að þekkja báða foreldra sína og hafi stefnandi slíka hagsmuni af því að fá skorið úr um hver sé faðir hennar og að verða feðruð í samræmi við niðurstöðu mannerfðafræðilegrar rannsóknar. Hagsmunir stefnanda í málinu séu tilfinningalegir og snerti sjálfsmynd hennar en séu að engu leyti fjárhagslegir. Stefnandi muni ekki gera tilkall til arfs eftir [...] heitinn þótt rannsókn leiði í ljós að hann hafi verið kynfaðir hennar. Hagsmunir stefnanda og afkomenda hennar séu hins vegar miklir með tilliti til hugsanlegra erfðafræðilegra sjúkdómsgreininga en stefnandi standi nú frammi fyrir slíku álitaefni.
Mikilvægi réttar stefnanda til að þekkja báða foreldra sína sé staðfest í 1. gr. a barnalaga nr. 76/2003 og í reglum sömu laga um feðrun, sbr. II. kafla laganna. Þá séu hagsmunir stefnanda varðir af 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem feli í sér sjálfstæða reglu um almennan rétt manna til að bera mál sín undir dómstóla og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992.
Um lagarök vísar stefnandi því til barnalaga nr. 76/2003, einkum 1. gr. a, 10. gr. og 15. gr. Einnig er vísað til 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Krafa um málskostnað styðst við 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 og um varnarþing er vísað til 1. mgr. 9. gr. sömu laga.
Í þinghaldi 9. apríl sl. lagði lögmaður stefnanda fram tölvuskeyti til formanns stjórnar Lífsýnasafns rannsóknarstofu í meinafræði þar sem fram kemur að stjórn þess telji nauðsynlegt að fá úrskurð dómara svo afhenda megi sýni úr látnum manni til að nota við mannerfðafræðilega rannsókn. Þetta sjónarmið byggi á því að samkvæmt læknalögum beri að varðveita trúnað við sjúkling og að sá trúnaður falli ekki niður við andlát. Í ljósi þessa ætti stefnandi ekki annarra kosta völ en að afla dómsúrskurðar til að fá aðgang að Lífsýnasafninu í því skyni að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn.
Jafnframt kom fram af hálfu lögmanns stefnanda að útilokað væri að dómur Hæstaréttar í máli nr. 239/1999 ætti við í þessu máli þar sem niðurstaða réttarins um frávísun byggði eingöngu á því að takmarkanir á dómkröfum stefnanda hefðu verið gerðar fyrir Hæstarétti og því verið ósamræmi á milli dómkrafna og málatilbúnaðar stefnanda. Slíku væri ekki til að dreifa í þessu máli og dómkröfur stefnanda stæðu óhaggaðar. Auk þess væri hér enginn ágreiningur milli aðila máls og því ótækt að vísa því frá með vísan til nefnds hæstaréttardóms. Það hljóti að teljast óásættanlegt ef ófeðraður einstaklingur líkt og stefnandi, geti ekki sótt mannréttindi sín með því að fá skorið úr um faðerni sitt, þrátt fyrir að hún sé ættleidd.
Lögmaður stefndu og réttargæslustefndu ítrekaði með vísan til þeirra mannréttindasjónarmiða sem fram komu hjá lögmanni stefnanda, að ekki væri staðið í vegi fyrir því af hálfu stefndu að lífsýnis úr hinum látna yrði aflað svo hægt væri að láta mannerfðafræðilega rannsókn fara fram í málinu. Enn fremur féll lögmaður stefndu frá kröfu sinni um málskostnað í þessum þætti málsins.
Niðurstaða: Málið er höfðað með vísan til II. kafla barnalaga nr. 76/2003 um dómsmál til feðrunar barns, sbr. 10. gr. laganna. Þar kemur fram að stefnandi faðernismáls geti verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns, enda hafi barnið ekki verið feðrað eða foreldri ákvarðað samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna. Stefnandi hefur aldrei verið feðruð en í málinu liggur fyrir að hún var ættleidd með leyfisbréfi sem gefið var út til hjónanna [...] og [...] 29. maí 1979.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999 eru réttaráhrif ættleiðingar þau að við hana öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og væri það eigið barn kjörforeldra, nema lög mæli á annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra þess, önnur ættmenni og þá sem eru í kjörsifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á. Sömu reglu var að finna í 1. mgr. 15. gr. eldri laga um ættleiðingar nr. 15/1978 sem í gildi voru þegar stefnandi var ættleidd.
Með ættleiðingu stefnanda féllu niður lagatengsl á milli hennar og blóðföður, sbr. 25. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar og breytir engu þó að blóðfaðir hafi verið óþekktur á þeim tíma. Dómurinn telur að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hver kynfaðir hennar sé með vísan til þeirra málsástæðna sem raktar eru í stefnu. Aftur á móti verður ekki séð að réttarfarsskilyrði séu fyrir hendi til að gera megi kröfu til staðfestingar á faðerni samkvæmt II. kafla barnalaga nr. 76/2003, sbr. 10. gr. þeirra, þar sem stefnandi er ættleidd og ættleiðing verður ekki aftur tekin. Um þetta er vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 452/2013, nr. 159/2004 og nr. 239/1999. Ekki er loku fyrir það skotið að stefnandi geti látið reyna á kröfu um að henni verði veitt heimild til að láta gera mannerfðafræðilega rannsókn á lífsýni úr [...] fyrir dómstólum í dómsmáli samkvæmt almennum reglum.
Þegar af framangreindum ástæðum verður ekki komist hjá því að vísa málinu frá dómi.
Stefnandi málsins telst barn í skilningi 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 og því greiðist málskostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Sigríðar Á. Andersen hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 241.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Sigríðar Á. Andersen hdl., 241.000 krónur.