Hæstiréttur íslands
Mál nr. 15/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 8. janúar 2006. |
|
Nr. 15/2006. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106 gr. laga nr. 19/1991.
Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar fyrir æðra dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti allt til föstudagsins 3. febrúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2006.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til mánudagsins 20. febrúar 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september sl. grunaður um að hafa ásamt fleiri aðilum svipt A frelsi sínu þar sem hann hafi verið við vinnu sína í versluninni B, með því að neyða hann út úr versluninni og í farangursgeymslu bifreiðar. Þaðan hafi dómþoli og félagar hans farið með A út í Skerjafjörð þar sem dómþoli hafi veist að honum með hótunum og barsmíðum og ógnað honum með skotvopni (startbyssu) og krafið hann um peninga. Í framhaldi af því hafi A á ný verið neyddur í farangursgeymslu bifreiðarinnar og farið með hann í Landsbankann við Hagatorg þar sem hann hafi verið þvingaður til að taka fé út af bankareikningi sínum og greiða dómþola og félögum hans. Dómþoli hafi að mestu leiti viðurkennt þessi brot sín.
Ríkissaksóknari hafi gefið þann 21. október sl. út á ákæru á hendur dómþola og fleirum vegna ætlaðs brots gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur hafi verið kveðin upp í málinu þann 9. desember sl. og hafi dómþoli þá verið dæmdur í 2 ára fangelsi. Dómþoli hafi áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.
Áður en dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september sl. hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 22. júlí 2005 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Dómþoli hafi þann 2. september sl. verið dæmdur í 16 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur en frestað hafi verið fullnustu 13 mánaða skilorðsbundið í 3 ár. Dómþoli hafi tekið sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun dómsins og var þá látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Örfáum klukkustundum síðar hafi hann verið handtekinn grunaður um ofangreind brot gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga og þar með rofið skilorð dómsins.
Dómþoli sé fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með afbrotum og miðað við hegðun dómþola undanfarið séu yfirgnæfandi líkur á því að hann haldi hann áfram afbrotum verði hann látinn laus. Með vísan til þess hafi dómþoli sætt gæsluvarðhaldi frá 3. september 2005, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Dómþoli sé á sautjánda ári og sé það örþrifaráð að krefjast gæsluvarðhalds yfir svo ungum einstaklingi en það sé talið nauðsynlegt í þessu tilviki til að koma í veg fyrir frekari brot og geri ákæruvaldi mögulegt að ljúka málum hans.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála og með hliðsjón sakaferli dómþola þyki nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans.
Brotaferill dómþola er rakinn hér að framan. Þykir af honum mega ætla að dómþoli muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus meðan máli hans sem hann hefur áfrýjað til Hæstaréttar er ekki lokið. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á að skilyrði séu til að taka kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald til greina. Verður dómþola því gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til föstudagsins 3. febrúar 2006 kl. 16:00.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, þó ekki lengur en til föstudagsins 3. febrúar 2006, kl. 16:00.