Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 7. mars 2014. |
|
Nr. 118/2014.
|
Tryggvi Pétursson (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Icelandic Genomic Ventures Holding S.á.r.l. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú T var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu I. Í kæru var ekki getið þeirra ástæðna sem kæran var reist á. Var hún því ekki í samræmi við c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Úr þessum annmarka varð ekki bætt þótt málsástæðum T hefði verið gerð skil í greinargerð fyrir Hæstarétti. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2014, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann ,,málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.“
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína á því að kæra sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kæra sóknaraðila, sem send var héraðsdómi Reykjavíkur, er svohljóðandi: ,,Það tilkynnist yður hér með hr. dómstjóri að ... hefur falið mér að kæra til virðulegs Hæstaréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ... Krefst ... þess að Hæstiréttur ómerki hinn kærða úrskurð þannig að kröfu skiptabeiðanda ... um gjaldþrotaskipti ... verði hafnað. Greinargerð verður skilað til Hæstaréttar.“
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, skal í kæru til Hæstaréttar meðal annars greina ástæður sem hún er reist á. Þessa gætti sóknaraðili í engu. Úr þeim annmarka varð ekki bætt þótt málsástæðum hans hafi verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi og verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóma réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010 og 2. september 2011 í málum nr. 377/2011 og 388/2011.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Tryggvi Pétursson, greiði varnaraðila, Icelandic Genomic Ventures Holding S.á.r.l., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2014.
Krafa sóknaraðila, Iceland Genomic Ventures Holding S.á.r.l., 2 Rue des Dahlias, L-1411 Lúxemborg, um að bú varnaraðila, Tryggva Péturssonar, Birkihlíð 42, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 27. ágúst 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 16. október 2013. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili lagði fram greinargerð 30. október 2013. Sóknaraðili lagði fram greinargerð 20. nóvember 2013. Hinn 19. desember 2013 var málið flutt munnlega og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Sóknaraðili er félag stofnað í Lúxemborg í desember árið 2000. Stofnun sóknaraðila kom til vegna fjárfestinga á sviði líftækniiðnaðar og er félagið eignarhaldsfélag vegna slíkra fjárfestinga. Samkvæmt framlögðum samþykktum sóknaraðila eru stofnendur hans tveir, eignarhaldsfélagið Genomic Holding S.A., sem eignaðist við stofnun 97% hlutafjár í sóknaraðila, og félagið Icelandic Genomic Partners BVA, sem eignaðist við stofnun 3% hlutafjár í sóknaraðila. Í samþykktum sóknaraðila kemur einnig fram að þegar eftir stofnun hans hafi allir hluthafar hans kosið Andra Teitsson, Friðrik Jóhannsson og Sindra Sindrason í stjórn sóknaraðila ótímabundið, Eigendur Genomic Holding S.A. munu vera ýmsir fjárfestar, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Hitt félagið, sem varnaraðili vísar til sem Iceland Genomic Partners S.A., hér eftir nefnt IGP, er í eigu varnaraðila. Sóknaraðili telur bæði nafn og tilvist IGP vera á reiki, og segir að félagið virðist ekki hafa verið stofnað formlega.
Á árunum 2001-2002 fjárfesti sóknaraðili í tveimur bandarískum félögum á sviði líftækni. Annað félagið hét Cyntellect (áður Oncosis) og var fjárfestingin að virði 2.500.000 Bandaríkjadala. Hitt félagið hét Genomatica og var fjárfestingin að virði 3.000.000 Bandaríkjadala. Árið 2002 lagði sóknaraðili einnig aukið hlutafé til Genomatica að andvirði 500.000 Bandaríkjadala.
Ekki er um það deilt að árið 2003 var rekstrarfé sóknaraðila upp urið og að frá árinu 2003 eða 2004 lá formleg starfsemi sóknaraðila og Genomic Holdings S.A. niðri án þess að stjórnir félaganna kæmu saman.
Félaginu Genomatica var á árinu 2007 skipt upp í tvö félög, þ.e. Genomatica Inc. og GT Life Science Inc., og átti sóknaraðili hlutafé í báðum félögunum. Varnaraðili sat í stjórn Cyntellect á árunum 2003 til 2005, í stjórn Genomatica á árunum 2000 til 2007 og í stjórn GT Life Science á árunum 2008 til 2011. Varnaraðili gegndi hins vegar engri formlegri stöðu hjá sóknaraðila á árunum 2003 til 2011. Árið 2011 var allt hlutafé í GT Life Science selt. Sóknaraðili kveður að hans hlutur í söluverðinu hafi numið 2.886.440,66 Bandaríkjadölum auk fjár sem hafi verið lagt inn á vörslureikning (e. ,,escrow“). Af söluverðinu voru 2.191.805,66 Bandaríkjadalir lagðir inn á bankareikning sóknaraðila en fyrir liggur að varnaraðili greiddi sér beint eða félagi sínu IGP 694.635 Bandaríkjadali af söluverðinu. Þessar greiðslur fóru að sögn varnaraðila fram 28. október 2011. Hlutur sóknaraðila í Cyntellect er hins vegar verðlaus.
Aðilar málsins deila um hvort varnaraðila hafi verið heimil þessi ráðstöfun á hluta söluverðs GT Life Science. Varnaraðili telur að greiðslan hafi verið þóknun samkvæmt samstarfssamningi við sóknaraðila og að hún hafi farið fram með vitund þáverandi stjórnarformanns sóknaraðila, Friðriks Jóhannssonar, sem hafi ekki gert við hana athugasemdir. Þá hafi Friðrik haldið öðrum stjórnarmanni, Sindra Sindrasyni, upplýstum og hann hafi einnig verið samþykkur. Sóknaraðili mótmælir þessu. Sóknaraðili telur einnig að umræddur samningur hafi aldrei verið í gildi og hann sé milli aðila sem ekki séu til. Jafnvel þótt samningurinn hafi einhvern tíma verið í gildi sé hann útrunninn. Þá hafi varnaraðili, á þeim tíma sem samningurinn kunni að hafa verið í gildi, ekki innt af hendi þá vinnu sem honum var skylt samkvæmt samningnum.
Umræddur samningur er meðal gagna málsins. Samningurinn, sem er dagsettur 15. ágúst 2000, er á ensku, en hefur verið þýddur á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda. Samningurinn er milli Iceland Genomic Ventures S.A., sem er í íslenskri þýðingu samningsins nefnt ,,Samstarfið (takmörkuð félög)“ og Iceland Genomic Partners BVA, sem nefndur er ,,Umsjónaraðilinn“. Samkvæmt samningnum veitir síðarnefnda félagið því fyrrnefnda ,,ráðgjöf um hlutabréfakaup í óskráðum nýjum fyrirtækjum á sviði líftækni, greiningar og eftirfylgni fjárfestinganna af hálfu umsjónaraðilans“. Umsjónaraðilinn muni, meðan á samstarfinu standi, beita öllum ráðum til að hámarka hagnaðinn af fénu sem fest hafi verið. Í samningnum segir að ,,gildistími samstarfsins verður fimm ár með möguleika á að framlengja það þá til tveggja ára samkvæmt ákvörðun umsjónaraðilanna með samþykki meirihluta hlutar takmörkuðu félaganna“. Einnig megi slíta samstarfinu fyrr með atkvæðum 75% takmörkuðu félaganna. Um ráðgjafarkostnað segir í samningnum að félagið muni greiða umsjónaraðilanum árlega þóknun sem samsvari 1,5% af heildarstofnfé samstarfsins. Þá er áskilið í samningnum að umsjónaraðilanum verði úthlutað 20% af hreinum hagnaði sjóðsins. Samningurinn er undirritaður af Andra Teitssyni og öðrum manni fyrir hönd ,,Iceland Genomic Ventures Holding SA.“ og einum manni fyrir hönd ,,Iceland Genomic Partners“.
Meðal gagna málsins er símbréf starfsmanns Kaupþings banka í Lúxemborg, Eggerts Hilmarssonar, sem ber með sér að hafa verið sent varnaraðila 20. desember 2000. Samkvæmt samþykktum sóknaraðila kom Eggert Hilmarsson fram gagnvart lögbókanda (e. notary) í Lúxemborg við stofnun hans. Í bréfi Eggerts segir m.a. að það sé ,,vegna IGV og félaga“ og hann vilji senda varnaraðila ,,þetta til yfirlestrar“ áður en það verði sent lögbókanda. Byrjað verði á því að stofna Genomic Holding S.A. sem verði ,,í eigu allra hluthafa nema IGP (6.900.000 USD)“. Daginn eftir stofnun Genomic stofni þeir félag sem heiti Iceland Genomic Ventures S.a.r.l. Hlutaféð þar verði 7,1 milljón Bandaríkjadala. Munurinn á félögunum sé sá að Genomic sé venjulegt hlutafélag en IGV sé einkahlutafélag. Þetta sé ,,eina leiðin til að dreifa hagnaðinum í því formi sem þið settuð fram í samkomulaginu“. Það hefði aldrei verið hægt í gegnum venjulegt S.A. félag. IGV sé stofnað með öllu hlutafé Genomic auk framlags IGP.
Hinn 5. desember 2011 var ný stjórn kosin til að taka við stjórn Genomic Holding S.A. auk þess sem nýr umsjónaraðili og nýtt endurskoðunarfélag félagsins voru skipuð. Ársreikningar áranna 2003 til 2010 hafi síðan verið samþykktir í desember 2011. Hinn 14. desember 2011 var haldinn hluthafafundur í sóknaraðila þar sem kosin var ný stjórn félagsins. Nýr umsjónaraðili og nýtt endurskoðunarfélag sóknaraðila voru kosin, auk þess sem endurskoðaðir ársreikningar sóknaraðila fyrir árin 2009 og 2010 voru samþykktir með fyrirvara.
Í málinu eru lagðar fram fundargerðir funda sem haldnir voru um málefni sóknaraðila og Genomic Holding S.A. með Andra Teitssyni 12. júlí 2012, Friðriki Jóhannssyni 27. janúar 2012 og Sindra Sindrasyni 24. janúar 2012. Í fundargerðunum kemur fram að þeir hefðu ekki tekið þátt í neinum stjórnarfundum, ákvörðunum eða athöfnum stjórna félaganna frá árinu 2003 eða 2004. Raunar hefðu þeir ekki talið sig vera lengur í stjórnum félaganna frá nokkurn veginn sama tíma. Fram kom á fundi með Andra að hann hefði engar upplýsingar fengið um félögin árin 2003 til 2011, fyrir utan að Kaupþing í Lúxemborg hefði af og til beðið hann um að undirrita ársreikninga félaganna, sem hann hefði gert. Árið 2011 hefði varnaraðili hringt í hann til að fræða hann óformlega um stöðu félaganna. Fram kom á fundunum með Friðriki og Sindra að á árinu 2010 hafi varnaraðili haft samband við þá og beðið þá um að samþykkja reikninga félaganna fyrir nokkur fyrri ár sem stjórnarmenn í félögunum. Þegar varnaraðili hefði frætt þá um það að enginn stjórnarmaður hefði verið kosinn í þeirra stað, hefðu þeir samþykkt að aðstoða við að samþykkja reikningana í því skyni að standa vörð um hagsmuni félaganna, og hafi þeir verið upplýstir um að þeir yrðu í kjölfarið leystir af hólmi sem stjórnarmenn í félögunum. Eftir að hafa samþykkt reikningana hefði eina athöfn þeirra á vegum félaganna verið sú að boða til aðalfunda félaganna í desember 2011 til að kjósa nýjar stjórnir o.fl. Friðrik kvaðst einnig hafa hitt varnaraðila sem hefði aðspurður upplýst hann um greiðslu varnaraðila til sjálfs sín eða IGP á hluta söluverðs GT Life Science. Hann fullyrti að greiðslan hefði verið innt af hendi án hans vitundar eða samþykkis og að honum hefði fyrst orðið kunnugt um greiðsluna eftir á. Hann hefði sagt varnaraðila að grípa ekki til neinna aðgerða án samráðs við nýju stjórnina og samþykkis hennar, og hefði sagt varnaraðila að hann sjálfur teldi sig ekki hafa vald til að taka neinar ákvarðanir fyrir hönd sóknaraðila.
Varnaraðili hefur lagt fram yfirlýsingu Friðriks Jóhannssonar, dags. 28. október 2013. Þar kemur fram að rétt sé eftir honum haft í fyrrnefndri fundargerð að hann hafi talið sig hafa lokið störfum sem formaður stjórnar sóknaraðila og Genomic Holding S.A. Hann hafi þess vegna ekki talið sig hafa umboð til þess að samþykkja eða hafna því að varnaraðili greiddi sér fyrir hönd IGP hluta af söluandvirði GT Life Science. Hann hafi ráðlagt varnaraðila ,,að hafa vaðið fyrir neðan sig og fá samþykki nýrrar stjórnar“. Þetta breyti því ekki að hann sé ,,persónulega þeirrar skoðunar að ráðgjafarsamningur [sóknaraðila] við IGP hafði framlengst“, enda hefði varnaraðili haldið áfram að vinna fyrir sóknaraðila eftir 2005. Hann telji að samningurinn hafi veitt varnaraðila, ,,sem umsjónarmanni sjóðsins heimild til þess að greiða sér þóknun samkvæmt ákvæðum samningsins“.
Sóknaraðili hefur lagt fram kæru á hendur varnaraðila hjá yfirvöldum í Lúxemborg vegna umræddra færslna á fjármunum. Sóknaraðili rekur jafnframt kyrrsetningarmál í Lúxemborg á hendur varnaraðila en endanlegur dómur hefur ekki fallið í því máli. Þá hefur sóknaraðili einnig höfðað kyrrsetningarmál á hendur varnaraðila í Bandaríkjunum. Að sögn sóknaraðila hefur héraðsdómur í Suður-Kaliforníu (United States District Court Southern District of California) viðurkennt kröfu sóknaraðila vegna greiðslna varnaraðila til sjálfs sín.
Með bréfi mótteknu 26. nóvember 2012 krafðist sóknaraðili þess að sýslumaðurinn í Reykjavík kyrrsetti svo mikið af eignum varnaraðila að nægði til tryggingar fullnustu á kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, samtals að fjárhæð 953.455 Bandaríkjadalir, auk dráttarvaxta frá 23. mars 2012 til greiðsludags, auk alls kostnaðar við gerðina og eftirfarandi staðfestingarmáls. Sýslumaður synjaði um gerðina 14. janúar 2013 með þeim rökum að ekki væri nægilega sýnt fram á að skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væru fyrir hendi, þannig að draga myndi verulega úr líkum á að fullnusta kröfunnar tækist eða yrði verulega örðugri færi kyrrsetning ekki fram. Sóknaraðili skaut þeirri ákvörðun til Héraðsdóms Reykjavíkur sem með úrskurði, dags. 12. júní 2013, lagði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að kyrrsetja eignir varnaraðila sem nægðu til tryggingar fullnustu framangreindrar kröfu sóknaraðila á hendur honum. Kyrrsetningargerð fór fram hjá sýslumanninum í Reykjavík 15. júlí 2013 í samræmi við úrskurð héraðsdóms. Sýslumaður skoraði á lögmann varnaraðila að benda á eignir til kyrrsetningar fyrir kröfum sóknaraðila, en lögmaðurinn kvað varnaraðila engar eignir eiga sem unnt væri að benda á til kyrrsetningar. Sóknaraðili krafðist þess þá að sýslumaður lyki kyrrsetningu án árangurs, sem var gert með vísan til 8. kafla laga um aðför nr. 90/1989.
Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína í þessu máli á eftirfarandi hátt í beiðni sinni til dómsins:
|
Höfuðstóll |
120.297.417 krónur |
|
Dráttarvextir til 26. nóvember 2012 |
10.150.933 krónur |
|
Innheimtuþóknun |
2.778.172 krónur |
|
Virðisaukaskattur af innheimtuþóknun |
708.434 krónur |
|
Gjald fyrir kyrrsetningu |
19.100 krónur |
|
Samtals |
139.954.056 krónur |
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt og að ekki geti verið vafi um að þau gögn sem fylgdu beiðni hans um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila uppfylli kröfur áðurnefnds lagaákvæðis. Samkvæmt því geti ágreiningur í þessu máli eingöngu snúist um það hvort varnaraðili geti afstýrt gjaldþrotaskiptum með því að sýna fram á að sóknaraðili sé ekki lánardrottinn varnaraðila eða að varnaraðili sé gjaldfær.
Skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili byggir rétt sinn til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Hafi kyrrsetning verið gerð án árangurs hjá skuldara hafi kröfuhafi heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldarans. Varnir skuldara við slíkri kröfu séu tæmandi taldar í 2. og 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Heimildir samkvæmt 2. mgr. 65. gr. séu ætíð háðar því skilyrði að skuldarinn geti ekki, þrátt fyrir að skilyrðum sé að öðru leyti fullnægt, sýnt fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falli í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Árangurslaus kyrrsetningargerð hafi farið fram hjá varnaraðila 15. júlí 2013. Þar sé bókað eftir varnaraðila að hann eigi ekki eignir. Varnaraðila eða málsvara hans hafi samkvæmt 11. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. borið að segja segja satt og rétt frá öllu sem sýslumaður hafi krafið hann svara um við framkvæmd gerðarinnar og máli skipti um framgang hennar. Ekkert hafi komið fram um að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila, enda hafi hann engar tilraunir gert til að sýna fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum.
Ákvæði 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 mæli fyrir um að skuldari geti varist kröfu um gjaldþrotaskipti að öðrum skilyrðum fram komnum sé fjárkrafa skiptabeiðanda nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns. Engu slíku sé til að dreifa í þessu máli og varnaraðili byggi ekki á þessu ákvæði.
Samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 geti skuldari hrundið kröfu um gjaldþrotaskipti, byggðri á einhverri þeirri heimild sem talin er upp í 1. eða 2. mgr. sömu greinar, bjóði þriðji maður fram greiðslu á kröfu skiptabeiðanda eða, sé krafan ekki fallin í gjalddaga, bjóði þriðji maður fram tryggingu fyrir henni sem verði talin nægileg. Varnaraðili hafi ekki byggt á því að greiðsla eða trygging frá þriðja aðila standi til boða.
Að lokum liggi það í orðalagi 1. og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að eingöngu lánardrottinn geti krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldara. Í málinu liggi fyrir óyggjandi gögn og röksemdir fyrir kröfum sóknaraðila, m.a. ítrekuð viðurkenning varnaraðila á töku þeirra fjármuna sem um ræðir. Að auki liggi fyrir úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest sé að sóknaraðili hafi leitt nægilegar líkur að því að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Sóknaraðili teljist því lánardrottinn samkvæmt framangreindu ákvæði laga nr. 21/1991. Haldi varnaraðili öðru fram beri hann sönnunarbyrði fyrir því.
Engu breyti um framangreint hvort krafa sóknaraðila sé enn ódæmd, deilur séu enn milli aðila og hvort rekið sé dómsmál um umrædda kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Það eitt komi ekki í veg fyrir að krafa geti verið grundvöllur gjaldþrotaskipta að hún sé umdeild, enda væri varnaraðila þá í lófa lagið að komast undan gjaldþrotaskiptum með því einu að gera ágreining um ódæmda kröfu.
Að skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 uppfylltum, einkum varðandi 1. tl., sýni dómaframkvæmd að bú skuldara beri að taka til gjaldþrotaskipta, nema skuldari geti sýnt fram á gjaldfærni sína. Það hafi varnaraðili ekki gert.
Sönnunarbyrði hvílir á varnaraðila
Sóknaraðili hafnar því að hann eigi ekki kröfu á hendur varnaraðila. Sóknaraðili byggir kröfu sína á ákvæði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda hafi árangurslaus kyrrsetning farið fram hjá varnaraðila. Það sé ekki skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að sóknaraðili leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar. Hins vegar skuli synja um kyrrsetningu ef ætla verði af fyrirliggjandi gögnum að gerðarbeiðandi eigi ekki þau réttindi sem hann hyggist tryggja. Framangreind skilyrði hafi verið talin uppfyllt og því hafi verið fallist á kröfu sóknaraðila um að kyrrsetja eignir varnaraðila sem á endanum hafi verið árangurslaust. Sönnunarbyrði um að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 og 65. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt hvíli að öllu leyti á varnaraðila.
Yfirlýsing Friðriks Jóhannssonar, fyrrum stjórnarformanns sóknaraðila, dags. 28. október 2013, sé í fullu ósamræmi við fyrri yfirlýsingu hans, dags. 31. janúar 2012, sem finna megi í fundargerð. Í fundargerðinni segi að Friðrik hefði enga vitneskju haft um að þeir fjármunir, sem krafa sóknaraðila byggir á, hafi verið greiddir varnaraðila. Yfirlýsingin sé einnig í fullu ósamræmi við yfirlýsingar fyrrum stjórnarmanna sóknaraðila, sem fram komi í sömu fundargerð, þar sem þeir lýsi því yfir að þeir hafi enga vitneskju haft um að umræddir fjármunir hafi verið greiddir varnaraðila.
Á þessum tíma hafi þurft undirskriftir að minnsta kosti tveggja stjórnarmanna sóknaraðila til að binda félagið. Stjórnarformaðurinn hafi þar af leiðandi ekki einn getað bundið sóknaraðila eða samþykkt að stórar fjárhæðir yrðu færðar úr sjóðum félagins. Þá séu engar fundargerðir til hjá sóknaraðila eftir árið 2003 sem varpað gætu ljósi á ákvarðanir og athafnir fyrri stjórna.
Umrædd yfirlýsing Friðriks Jóhannssonar sé samkvæmt þessu með öllu ómarktæk. Að auki verði vart dregin önnur ályktun af yfirlýsingunni en að Friðrik hafi haft vitneskju um að fjármunir hafi, með ólögmætum hætti, verið teknir úr sjóðum sóknaraðila án þess að öðrum stjórnarmönnum hafi verið gerð grein fyrir því. Væri þetta rétt mætti ætla að Friðrik hafi farið á svig við lög og jafnvel bakað sér skaðabótaábyrgð sem stjórnarformaður félagsins.
Fyrrnefndur samstarfssamningur hafi a.m.k. ekkert gildi haft eftir að upphaflegi gildistími hans rann út á árinu 2005. Jafnframt véfengi sóknaraðili að samningurinn hafi í raun nokkurn tímann haft gildi. Varnaraðili beri hallann af því að tilurð og gildi umrædds samstarfssamnings sé eins óljóst og hér hafi verið rakið. Varnaraðili geti því með engu móti byggt rétt á efni samningsins. Enn síður geti varnaraðili réttlætt að hafa sjálfur reiknað sér þóknun á grundvelli samningsins og tekið hana af fjármunum félagsins án þess að nokkur heimild lægi fyrir því frá félaginu eða stjórn þess. Kjarni málsins sé að varnaraðili hafi neitað að skila þeim fjármunum sem hann óumdeilanlega hafi tekið sér frá sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að varnaraðili hefði verið hluthafi í sóknaraðila og hefði sjálfur fjárfest í sömu félögum. Málsaðilum hafi því verið heimilt að vera í óformlegu samstarfi. Þá hafi stjórnarmenn ekki talið sig vera í stjórn eftir árin 2003 til 2004 og sé því vandséð hver hefði átt að standa að framlengingu þessa samnings.
Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að varnaraðili hefði haft samband við stjórnarmenn sóknaraðila á árinu 2010 og lagt til að nýir ársreikningar yrðu gerðir. Þótt varnaraðili hafi tekið þátt í að semja ársreikningana komi ekki fram í þeim að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila um þóknun eða útlagðan kostnað. Það sé ótrúverðug skýring að varnaraðili hafi ekki viljað að vextir legðust á kröfuna, enda hefði verið hægt að falla frá vöxtum með samkomulagi. Þá eigi ársreikningur að gefa rétta mynd af rekstri félags. Þá hafi varnaraðili engan reka gert að því að fá kröfu sína staðfesta fyrir dómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli K-1/2013
Sóknaraðili hafi skotið synjun sýslumannsins í Reykjavík á kyrrsetningu á eigum varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur. Héraðsdómur hafi talið að sóknaraðili hefði leitt nægilegar líkur að því að hann ætti lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Með úrskurði héraðsdóms hafi verið lagt fyrir sýslumann að kyrrsetja eignir varnaraðila sem nægðu til tryggingar fullnustu framangreindrar kröfu sóknaraðila á hendur honum. Í samræmi við framangreindan úrskurð héraðsdóms hafi kyrrsetningargerð farið fram hjá sýslumanni 15. júlí 2013, sem sé grundvöllur þessa máls.
Í því máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi varnaraðili sett fram ítarlegar varnir. Héraðsdómur hafi hafnað röksemdum varnaraðila og fallist á kröfu sóknaraðila um kyrrsetningu. Úrskurður héraðsdóms hafi verið kæranlegur til Hæstaréttar, sbr. heimild í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Varnaraðili hafi hins vegar kosið að kæra ekki úrskurðinn. Í úrskurðarorði héraðsdóms hafi m.a. verið kveðið á um að varnaraðili greiddi sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað og sé sú krafa hluti af þeim kröfum sem sé grundvöllur gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að í beiðni sóknaraðila væri gerð krafa um málflutningsþóknun og væri málskostnaður í kyrrsetningarmáli hluti af þeirri þóknun. Niðurstaða héraðsdóms um kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila og um skilyrði kyrrsetningar liggi því fyrir. Engin rök standi til þess að hnekkja eða endurskoða þá niðurstöðu í þessu máli. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að málskostnaðurinn hefði ekki verið greiddur.
Niðurstaða héraðsdóms í Kaliforníu
Sóknaraðili hafi höfðað mál á hendur varnaraðila fyrir dómstólum í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Kröfur sóknaraðila í því máli hafi verið byggðar á sömu hagsmunum og hafi verið til umfjöllunar í kyrrsetningarmáli því sem rekið var hér á landi gegn varnaraðila. Með úrskurði, dags. 31. janúar 2013, hafi dómstóllinn í Kaliforníu fallist á röksemdir sóknaraðila í málinu og úrskurðað að hann ætti lögvarða kröfu á hendur varnaraðila að upphæð 776.249 Bandaríkjadalir, meðal annars vegna greiðslna varnaraðila til sjálfs sín í gegnum félög sín. Ekki verði annað séð en að framangreind niðurstaða renni enn frekari stoðum undir málatilbúnað sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi hans byggi á skaðabótakröfu að fjárhæð 120 milljónir króna auk vaxta og kostnaðar, vegna meintrar ólögmætrar sjálftöku varnaraðila í tengslum við rekstur sóknaraðila. Varnaraðili hafi sýnt fram á að ólögmæt sjálftaka hafi ekki farið fram og því sé engin skaðabótakrafa til staðar. Þá sagði lögmaður varnaraðila við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili krefðist ekki gjaldþrotaskipta á grundvelli málskostnaðar í kyrrsetningarmálinu. Friðrik Jóhannesson, fyrrum stjórnarformaður sóknaraðila, hafi í bréfi, dags. 28. október 2013, lýst því mati sínu að samstarfssamningur um stjórnun sóknaraðila hafi framlengst eftir ágúst 2005 og að varnaraðili hafi haft heimild til þess að greiða sjálfum sér þóknun í samræmi við ákvæði samstarfssamningsins. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili mótmælti ekki fjárhæð þóknunarinnar, aðeins heimild varnaraðila til að greiða sér hana. Sóknaraðili eigi því ekki þá kröfu sem beiðni hans byggist á. Alltént sé ljóst að um kröfuna ríki það mikill vafi að krafan sé ekki lögvarin og geti ekki verið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila. Þá sé krafan ódæmd og efnisdómur hafi ekki fallið um hana, hvorki hér á landi né erlendis.
Lögmaður varnaraðila rakti við munnlegan flutning málsins að samstarfssamningur um rekstur og fjárstýringu sóknaraðila hefði verið gerður og fjárfest í samræmi við hann. Skoða þurfi annars vegar hvort samningurinn hefði framlengst eftir ágúst 2005, hins vegar hvort eitthvað hefði verið því til fyrirstöðu að varnaraðili reiknaði sér þóknun eftir ákvæðum samningsins. Varnaraðili hafi haldið stjórnarfundi eftir ágúst 2005 og stjórn hafi samþykkt tillögur. Varnaraðili hafi einnig tekið rekstrarlegar ákvarðanir fyrir sóknaraðila. Varnaraðili hafi setið áfram í stjórn fyrir hönd sóknaraðila í Cyntellect, Genomatica og GH Life Sciences og hafi verið í miklum samskiptum við stjórnendur félaganna. Engir aðrir en varnaraðili hafi viðhaldið sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili lagt út um 200.000 Bandaríkjadali í kostnað fyrir hönd sóknaraðila. Aðkomu varnaraðila að sóknaraðila hafi aldrei verið mótmælt. Samningurinn geri ráð fyrir því að IGP sé umsjónaraðili með fjárfestingum sóknaraðila. Varnaraðili sé í fyrirsvari fyrir IGP og hafi því haft fullt umboð til að kaupa og selja fyrir hönd sóknaraðila. Varnaraðili hafi því haft heimild til að selja hluti sem verið höfðu í eigu sóknaraðila.
Ekki sé samasemmerki á milli þess að skilyrði hafi verið uppfyllt til þess að kyrrsetning færi fram á eigum sóknaraðila og þess að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta. Í fyrra tilvikinu þurfi gerðarþoli nánast að sýna fram á að krafa sé ekki til staðar eða leiða að því mjög sterkar líkur. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að kyrrsetningargerð væri bráðabirgðagerð og að handhafi kyrrsetningar yrði að fara í staðfestingarmál. Úrskurður verði kveðinn upp um gjaldþrotaskipti á búi skuldara á grundvelli ódæmdrar kröfu en þá verði skiptabeiðandi að leiða að henni mun meiri líkur en þegar kyrrsetning sé gerð, eða yfirgnæfandi. Þetta eigi t.d. við um viðskiptabréfakröfur eða kröfur samkvæmt reikningi en síður umdeildar kröfur eins og skaðabótakröfur.
Síðan úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp í fyrrnefndu kyrrsetningarmáli og kyrrsetning fór fram í framhaldi af því, hafi talsverð umskipti orðið í þessu máli, þar sem áðurnefnd yfirlýsing fyrrum stjórnarformanns sóknaraðila hrindi fullyrðingum sóknaraðila um ólögmæta sjálftöku varnaraðila. Loks geri enginn annar en sóknaraðili kröfu á hendur varnaraðila. Vegna alls þessa séu skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki uppfyllt.
Niðurstaða
Sóknaraðili verður að sýna fram á að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila og sé þar með lánardrottinn hans, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Óumdeilt er að varnaraðili greiddi sér eða fyrirtæki sínu IGP 694.635 Bandaríkjadali af söluverði hlutar sóknaraðila í fyrirtækinu GT Life Science, en sóknaraðili var meðal hluthafa þess fyrirtækis þegar það var selt árið 2011. Varnaraðili mun hafa innt greiðsluna af hendi 28. október 2011. Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi ekki verið þessi ráðstöfun heimil og að hann eigi af þeim sökum kröfu á hendur varnaraðila um skaðabætur. Varnaraðili telur að sér hafi verið heimilt að inna þessa greiðslu af hendi og sóknaraðili eigi því ekki skaðabótakröfu á hendur honum.
Varnaraðili byggir á því að komist hafi á samstarfssamningur milli sóknaraðila og IGP. Þessi ætlaði samningur er á meðal gagna málsins og hefur efni hans verið lýst. Í upphafi samningsins er því lýst að aðilar hans séu Iceland Genomic Ventures S.A., sem í íslenskri þýðingu hans er nefndur ,,samstarfið“ og Iceland Genomic Partners (IGP) BVA, sem þar er nefndur ,,umsjónaraðili“. Samningurinn er hins vegar undirritaður af tveimur mönnum fyrir hönd Iceland Genomic Ventures Holding S.A. Þetta misræmi á nafni er ekki útskýrt. Sóknaraðili þessa máls heitir Icelandic Genomic Ventures Holding S.á.r.l. og fram kemur í framlögðum samþykktum sóknaraðila að hann hafi verið stofnaður undir því heiti og félagaformi 22. desember 2000. Samningurinn er dagsettur 15. ágúst 2000, en ekki verður þó séð að sá aðili sem þar er nefndur ,,samstarfið“ sé óstofnað félag. Í samþykktum sóknaraðila segir að annar stofnenda hans sé Iceland Genomic Partners BVA og verður ekki annað séð en að þar sé um sama félag að ræða og nefnt er ,,umsjónaraðili“ í umræddum samningi.
Eggert Hilmarsson hefur lýst stofnun sóknaraðila og verður af þeirri lýsingu ráðið að með stofnun sóknaraðila hafi ætlunin verið sú að stofna það félag sem í umræddum samstarfssamningi er nefnt ,,samstarfið“. Ekki verður séð af gögnum málsins að athugasemdir hafi verið gerðar við þetta fyrirkomulag. Eins og fyrr greinir hafa Andri Teitsson, Friðrik Jóhannsson og Sindri Sindrason, sem sátu í stjórn sóknaraðila frá stofnun hans til ársins 2003 eða 2004, lýst aðkomu varnaraðila að starfsemi sóknaraðila og verður ekki séð af yfirlýsingum þeirra að þeir hafi gert athugasemdir við heimild varnaraðila til þeirrar aðkomu. Þá undirritaði Andri fyrrnefndan samning. Loks hefur Friðrik lýst því að hann telji að umræddur samningur hafi framlengst. Þegar allt þetta er virt heildstætt er það mat dómsins að afstaða aðstandenda sóknaraðila og varnaraðila hafi verið sú að fyrrnefndur samstarfssamningur hafi verið í gildi milli sóknaraðila, þannig að sóknaraðili hafi verið ,,samstarfið“ og IGP ,,umsjónaraðilinn“, og að ætlun aðila hafi verið að fylgja þeim samningi. Er því ekki á það fallist með sóknaraðila að umræddur samningur hafi aldrei tekið gildi eða að hann sé á milli aðila sem ekki séu til.
Umræddur samstarfssamningur er dagsettur 15. ágúst 2000 og skyldi gilda í fimm ár. Óumdeilt er að fimm ára gildistími samningsins rann út 15. ágúst 2005, en aðila greinir á um hvort hann hafi framlengst. Varnaraðili byggir á því að hann hafi haldið stjórnarfundi eftir ágúst 2005 og stjórn hafi samþykkt tillögur. Varnaraðili hafi einnig tekið rekstrarlegar ákvarðanir fyrir sóknaraðila og greitt útgjöld hans vegna. Varnaraðili hafi setið áfram í stjórn fyrir hönd sóknaraðila í Cyntellect, Genomatica og GH Life Sciences og hafi verið í miklum samskiptum við stjórnendur félaganna. Aðkomu varnaraðila hafi aldrei verið mótmælt. Skilja verður málatilbúnað varnaraðila þannig að hann telji að samstarfssamningur aðila hafi framlengst í verki, með því að hann hafi haldið áfram vinnu sinni á grundvelli samningsins án athugasemda frá sóknaraðila.
Fram kemur í fyrrnefndum fundargerðum funda með stjórnarmönnum sóknaraðila, Andra, Friðriki og Sindra, að þeir hafi ekki talið sig vera í stjórn sóknaraðila frá 2003 eða 2004 og hafi ekki tekið þátt í neinum stjórnarfundum eftir þann tíma. Þá kemur fram í fundargerðum funda með Friðriki og Sindra að varnaraðili hafi árið 2010 upplýst þá um að nýir stjórnarmenn hefðu ekki verði kjörnir í þeirra stað. Loks segir í yfirlýsingu Friðriks, dags. 28. október 2013, að rétt sé eftir honum haft í fyrrnefndri fundargerð að hann hafi talið sig hafa lokið störfum sem stjórnarformaður sóknaraðila og Genomic Holding. Varnaraðili hefur ekki upplýst hvort og þá hvenær og hvernig hann hafi aflað samþykkis ,,meirihluta hlutar takmörkuðu félaganna“ fyrir framlengingu umrædds samnings. Varnaraðili hefur heldur ekki sagt nánar frá því hvenær eftir ágúst 2005 stjórnarfundir hafi verið haldnir og hverjir hafi setið þá fundi sem stjórnarmenn í sóknaraðila eða hvað hafi verið samþykkt á þeim fundum. Þá er því ekki nánar lýst hvaða rekstrarlegu ákvarðanir varnaraðili hafi tekið fyrir hönd sóknaraðila og óumdeilt er að skuldir við varnaraðila eða IGP voru ekki færðar til bókar hjá sóknaraðila. Er því ósönnuð sú fullyrðing varnaraðila að samstarfssamningur aðila hafi framlengst eftir 15. ágúst 2005. Eru þessar fullyrðingar varnaraðila því ósannaðar. Yfirlýsing Friðriks, dags. 28. október 2013, um að hann sé persónulega þeirrar skoðunar að umræddur samningur hafi framlengst, getur ekki breytt þessari niðurstöðu, enda er samþykki tveggja stjórnarmanna nauðsynlegt til að binda sóknaraðila samkvæmt 3. mgr. 14. gr. samþykkta hans. Að auki verður ekki lesið út úr umræddum samningi að heimilt hafi verið að framlengja hann oftar en einu sinni. Gat samningur aðila því hvað sem öðru líður ekki verið í gildi eftir 15. ágúst 2007. Að auki er samningurinn samkvæmt efni sínu samningur um ,,ráðgjöf um hlutabréfakaup í óskráðum nýjum fyrirtækjum á sviði líftækni, greiningar og eftirfylgni fjárfestinganna af hálfu umsjónaraðilans“. Þessi ályktun fær einnig stoð í fyrrnefndri yfirlýsingu Friðriks þar sem hann notar orðalagið ,,ráðgjafarsamningur“ um samninginn. Í samningnum er ekki berum orðum kveðið á um heimild til handa IGP til að inna af hendi greiðslur fyrir hönd sóknaraðila. Orðalag í samningnum um að umsjónaraðilinn muni ,,beita öllum ráðum til að hámarka hagnaðinn af fénu sem fest hefur verið“ er ekki hægt að túlka sem slíka heimild.
Varnaraðili getur því ekki byggt tilkall til greiðslu á 694.635 Bandaríkjadölum af söluverði hlutar sóknaraðila í fyrirtækinu GT Life Science á þessum samningi. Verður því að telja nægilega sannað að sóknaraðili eigi þá kröfu sem hann kveðst eiga á hendur varnaraðila.
Það er ekki gert að skilyrði í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að krafa sé óumdeild. Ráð er fyrir því gert í 4. mgr. 70. gr. og 168. gr., sbr. 3. mgr. 166. gr., laga nr. 21/1991 að skuldari geti mótmælt kröfu um gjaldþrotaskipti og því eru ekki settar sérstakar skorður hvaða varnir skuldari getur haft uppi. Skuldari getur þannig í ágreiningsmáli sett fram varnir er varða réttmæti kröfu þess sem hefur hana uppi. Af þessu leiðir að ágreiningur aðila um kröfu lánardrottins stendur ekki í vegi fyrir því að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 27. ágúst 2013, innan þess frests sem greinir í 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Gildi gerðarinnar hefur ekki verið hnekkt, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 58/2011, 347/2011 og 620/2013. Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Þegar kyrrsetningarbeiðni sóknaraðila var tekin fyrir lýsti lögmaður varnaraðila því yfir að hann ætti engar eignir sem unnt væri að benda á til kyrrsetningar. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila og taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
Úrskurðarorð:
Bú varnaraðila, Tryggva Péturssonar, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.