Hæstiréttur íslands

Mál nr. 574/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Fjarskipti
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                         

Þriðjudaginn 5. október 2010.

Nr. 574/2010.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Rannsókn. Fjarskipti. Frávísun frá Hæstarétti.

X kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fjarskiptafyrirtækjum var gert að afhenda lögreglu upplýsingar um inn- og úthringingar og sms-smáskilaboð úr og í nánar tilgreind símanúmer. Þar sem umbeðin rannsóknargögn höfðu þegar verið afhent lögreglu var málinu vísað frá Hæstarétti á grundvelli 4. mgr., sbr. 3. mgr., 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. september 2010 þar sem fjarskiptafyrirtækjum var gert að afhenda sóknaraðila upplýsingar um inn- og úthringingar og sms-smáskilaboð úr og í nánar tilgreind símanúmer á ákveðnu tímabili. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að með bréfi hans til Hæstaréttar sem barst réttinum 4. október 2010 er upplýst að umbeðin rannsóknargögn hafi þegar borist sóknaraðila. Stendur þannig eins á og um ræðir í 4. mgr., sbr. 3. mgr., 192. gr. laga nr. 88/2008 og verður máli þessu því vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. september 2010.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert um það kröfu fyrir dóminum, með vísan til 80. gr., sbr. 83. og 84. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að fjarskiptafyrirtækjum verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar um inn- og úthringingar símanúmeranna [...], [...] og [...] á tímabilinu 6. september 2010 til 27. september 2010, sem og upplýsingar um sms-smáskilaboð úr og í sömu símanúmer.

Krafan var tekin fyrir á dómþingi í dag og mótmælir kærði kröfunni.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi til rannsóknar mál er varði meinta líkamsárás, húsbrot, og vopnalagabrot X, kt. [...], [...], [...], brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og c-lið 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Að morgni mánudagsins 27. september 2010 hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] þar sem maður hafi ruðst inn í húsið og gengið þar berserksgangi. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola, A, og tvö vitni. Blætt hafi mikið úr höfði brotaþola. Í herberginu hafi mátt sjá mikið blóð á gólfi, blóðkám á veggjum og á rúmi. Gerandinn hafi yfirgefið vettvang en vitni gefið lýsingu á manninum og náð skráningarnúmeri bifreiðarinnar, [...], sem kallað hafi verið út til lögreglumanna. Bifreiðin hafi verið stöðvuð við [...] í Reykjavík og ökumaður bifreiðarinnar, X, handtekinn. Í bifreiðinni hafi fundist blóðugt hnúajárn og blóðugir vettlingar, en jafnframt hafi verið blóð á peysu kærða.

Nauðsynlegt sé vegna rannsóknar málsins að afla gagna um hvort kærði hafi á undanförnum vikum sett sig í samband við brotaþola í gegnum síma og/eða sms-smáskilaboð og haft uppi við hana hótanir  en grunur leiki á að svo geti verið.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði neitað að tjá sig en hann sæti nú gæsluvarðahaldi vegna rannsóknar málsins allt til mánudagsins 4. október næstkomandi. Kærði hafi eins og fyrr segir verið handtekinn að morgni 27. september sl. og þá haft í fórum sínum tvo farsíma með símnúmerunum [...] og [...]. Þá hafi hann upplýst við skýrslutöku hjá lögreglu að hann væri notandi símanúmers [...] en hann hafi neitað að veita lögreglu aðgang að upplýsingum hjá fjarskiptafyrirtækjum.

Það sé mat lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að fá nefndan úrskurð, sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda sé full ástæða til það ætla að upplýsingar, sem miklu geta skipt fyrir rannsókn málsins fáist með þessum hætti.

Kærði var í gærdag úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar.

Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings hafði brotaþoli talsverða áverka og er þeim lýst í skýrslunni.  Kemur fram að brotaþoli hafi haft ýmis sár og blæðingar mest megnis á höfði og hálsi, en jafnframt á handleggjum og brjósti.  Þá hafi hún kvartað undan verkjum í höfði, hálsi og brjósti.

Samkvæmt rannsóknargögnum var allnokkuð blóð á vettvangi.  Í viðræðum við vitni á vettvangi kom fram að árásarmaðurinn hefði ekið burt á bifreið með númerinu [...], og lýstu vitni útliti og klæðnaði árásarmannsins að nokkru leyti.  Samkvæmt rannsóknarskýrslu réttarmeinafræðings benda áverkar á brotaþola til þess að barefli eða öðru áhaldi hafi verið beitt við árásina. 

Þegar kærði var handtekinn var hann við akstur við [...] í Reykjavík, á bifreiðinni [...].  Kærði var klæddur í peysu sem samræmist lýsingu vitna, m.a. samrýmist áletrun á peysunni lýsingu vitna.  Lýsing á árásarmanninum fellur að útliti kærða.  Við leit í bifreið kærða fundust hnúajárn og svartir hanskar og mátti sjá blóðkám á hlutum þessum og var það staðfest með prófun tæknideildar lögreglu.  Þá mátti sjá blóðkám á peysu sem kærði var í við handtöku, skv. rannsóknargögnum.

Það er mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið þau afbrot sem vísað er til í kröfu lögreglustjóra og geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sannast.

Dómari fellst á að vegna rannsóknar málsins sé lögreglu þörf á heimild til að kanna notkun kærða á síma eins og nánar er gerð grein fyrir í kröfu sýslumanns, og að ástæða sé til að ætla að með þessu geti fengist upplýsingar sem miklu geti skipt fyrir rannsóknina, en ekki verður talið að krafist sé upplýsinga um símanotkun óþarflega langt aftur í tímann.  Í þinghaldinu var upplýst af hálfu fulltrúa lögreglustjóra að vegna tæknilegra atriða sé ekki unnt að fá aðeins upplýsingar um inn og úthringingar símanúmera kærða við símanúmer brotaþola.  Þá var upplýst að brotaþoli hefði ekki veitt heimild til að afla upplýsinga um inn- og úthringingar í síma hennar sjálfrar.

Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en lagaheimild til rannsóknaraðgerðanna er í 80. gr., sbr. 83. og 84. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að afhenda lögreglunni á Selfossi upplýsingar um inn- og úthringingar símanúmeranna [...], [...] og [...] á tímabilinu 6. september 2010 til 27. september 2010, sem og upplýsingar um sms-smáskilaboð úr og í sömu símanúmer.