Hæstiréttur íslands
Mál nr. 79/2008
Lykilorð
- Verkkaup
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2008. |
|
Nr. 79/2008. |
EC Hugbúnaður ehf. (Halldór Þ. Birgisson hrl.) gegn Gesti Andrési Grjetarssyni (Anton B. Markússon hrl.) |
Verkkaup. Samningur.
Hugbúnaðarfyrirtækið EC, fól G sem verktaka að flytja hýsingu léna af netþjónum EC til ANZA hf., en til stóð að síðarnefnda fyrirtækið tæki yfir hýsingarþjónustu fyrir EC. Málsaðilar deildu um hvort tæknilegir örðugleikar hefðu komið upp við flutning lénanna. G taldi sér heimilt, vegna örðugleika sem upp komu, að flytja gögnin yfir á netþjóna sína og hýsa lénin fyrir EC gagn gjaldi. Gegn andmælum EC var ekki talið að G hefði tekist sönnun um að honum hefði verið heimilt á grundvelli munnlegs samkomulags við EC að flytja umrædd gögn á ný frá ANZA hf., yfir á eigin netþjóna og annast hýsingu fyrir EC gegn gjaldi. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að G hefði hótað EC að loka aðgangi að öllu sem hann hýsti fyrir EC yrðu reikningar ekki greiddir sem hefði leitt af sér tjón fyrir EC. Í ljósi andmæla EC og þvingunum af hálfu G var ekki talið að í greiðslu EC á einum reikningi G hefði falist samþykki við greiðsluskyldu vegna annarra reikninga G fyrir hýsingu lénanna. Var EC því sýknað af kröfu G um greiðslu umræddra reikninga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 3. desember 2007, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. janúar 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 12. febrúar 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Krafa stefnda, sem tekin var til greina í hinum áfrýjaða dómi, byggir á sjö reikningum, sem gefnir eru út á tímabilinu 1. september til 1. desember 2006, samtals að fjárhæð 1.310.793 krónur. Stefndi kveður áfrýjanda hafa falið sér í árslok 2005 að flytja hýsingu léna frá ASP Tölvuþjónustu ehf. til ANZA hf., en til hafi staðið að síðarnefnda fyrirtækið tæki yfir hýsingarþjónustu fyrir áfrýjanda. Á þessum tíma hafi fjárhagsstaða ASP Tölvuþjónustu ehf. verið orðin erfið. Hafi það orðið til þess að stefndi hafi keypt búnaðinn fyrir lénahýsingu af ASP Tölvuþjónustu ehf. í mars 2006. Vinnan við flutning gagna hafi gengið illa sökum tæknilegra erfiðleika hjá ANZA hf. Í júní 2006 hafi tekist að flytja pósthólf sem tengdust umræddum lénum en þeir flutningar hafi gengið til baka vegna vélabilunar hjá ANZA hf. Hafi stefndi því annast hýsingu fyrir áfrýjanda þar til endanlegum flutningi DNS léna til ANZA hf. hafi verið lokið í byrjun árs 2007. Umræddri lénahýsingu hafi aldrei verið mótmælt og hafi það verið skilningur stefnda að framkvæmdin hafi verið í fullri sátt við áfrýjanda enda hafi hann greitt fyrsta reikninginn sem stefndi hafi gert honum vegna hennar án fyrirvara. Hafi áfrýjandi þannig í framkvæmd viðurkennt greiðsluskyldu sína.
Áfrýjandi, sem er hugbúnaðarfyrirtæki, hefur hannað hugbúnað sem það nýtir við þjónustustarfsemi sína. Áfrýjandi kveðst jafnframt hafa boðið viðskiptavinum sínum hýsingarþjónustu fyrir netþjóna sem byggð hafi verið á tæknilausnum ASP Tölvuþjónustu ehf. Þegar síðar nefnda fyrirtækið hafi ákveðið að hætta að veita áfrýjanda hýsingarþjónustu, kveðst áfrýjandi hafa samið við það um að fá tæknilausnir þess inn í fyrirtæki sitt. Hafi stefndi unnið sem verktaki að yfirfærslu á þessum tæknilausnum til áfrýjanda frá 25. júní 2005 til 31. júlí 2006 en hann hafi áður verið starfsmaður ASP Tölvuþjónustu ehf. Á tímabilinu apríl til júlí 2006 hafi stefndi meðal annars átt að færa öll gögn af tölvuþjónum stefnda, sem áður voru í eigu ASP Tölvuþjónustu ehf., yfir til ANZA hf., en áfrýjandi hafi samið við síðar nefnda fyrirtækið um hýsingarþjónustu. Samkvæmt tölvupósti 4. júlí 2006 hafi stefndi staðfest flutning á 93 lénum af netþjónum ASP Tölvuþjónustu ehf. og í tölvupósti 14. júlí 2006 hafi stefndi staðfest að allir sem notað hafi kerfið séu komnir á nýja kerfið hjá ANZA hf. Áfrýjandi mótmælir því að tæknilegir erfiðleikar hafi komið í veg fyrir flutning lénanna til ANZA hf. Í óþökk áfrýjanda hafi stefndi hins vegar fært lénin til baka yfir á vélbúnað sinn og tekið að veita honum óumbeðið þá þjónustu sem ASP Tölvuþjónusta ehf. veitti áfrýjanda áður. Hafi stefndi síðan gert áfrýjanda reikninga fyrir hýsingu sem deilt sé um í málinu. Stefndi hafi haft áfrýjanda í hálfgerðri gíslingu þar sem áfrýjandi hafi verið samningsbundinn um að veita viðskiptavinum sínum DNS þjónustu sem stefndi réð einn yfir þar sem hann hafði ekki flutt tæknilausnir yfir á netþjóna ANZA hf. eins og þó hafi verið samið um. Áfrýjandi hafi látið undan hótunum stefnda um að loka fyrir þessa þjónustu til viðskiptavina áfrýjanda í ljósi þess tjóns er af hlytist og greitt 4. október 2006 einn af hinum umdeildu reikningum. Áfrýjandi telur að sú greiðsla feli ekki í sér viðurkenningu á greiðsluskyldu á öðrum reikningum. Hafi hin umbeðnu gögn og tæknilausnir ekki verið færðar yfir á netþjóna ANZA hf. á ný fyrr en í ársbyrjun 2007 og þá aðeins tekið stefnda 18,5 klukkustundir.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að enginn samningur hafi verið um að stefndi færði gögnin á ný frá ANZA hf. yfir á netþjóna sína heldur hafi það verið gert gegn andmælum áfrýjanda. Af þeim sökum geti stefndi ekki krafið áfrýjanda um greiðslu fyrir nethýsingu sem áfrýjandi hafi frá öndverðu andmælt. Af þessum sökum mótmælir hann skyldu sinni til greiðslu á 672.063 krónum fyrir nethýsingu en viðurkennir að sér hafi borið að greiða 638.730 krónur af hinni umkröfðu fjárhæð en það hafi hann gert 21. desember 2006 svo og 12. og 21. janúar 2007, með samtals 800.000 krónum.
II
Óumdeilt er að áfrýjandi fól stefnda sem verktaka að flytja hýsingu léna af netþjónum stefnda, en þeir höfðu verið í eigu ASP Tölvuþjónustu ehf. og voru seldir stefnda í mars 2006. Skyldu lénin flutt til ANZA hf., en til stóð að síðarnefnda fyrirtækið tæki yfir hýsingarþjónustu fyrir áfrýjanda. Málsaðila greinir á um hvort tæknilegir örðugleikar hafi komið upp við flutning lénanna. Telur stefndi að sér hafi verið heimilt, vegna slíkra örðugleika, að flytja gögnin til baka yfir á netþjóna sína og hýsa lénin áfram fyrir áfrýjanda gegn gjaldi.
Meðal gagna málsins er tölvubréf 19. júlí 2006 frá Ásgeiri Halldórssyni, starfsmanni áfrýjanda, þar sem stefndi var beðinn um að breyta ekki neinu í kerfi áfrýjanda „frá og með núna.“ Jafnframt var óskað eftir að stefndi sendi áfrýjanda lista yfir verk sem hann væri að vinna að fyrir áfrýjanda. Þá er í gögnum málsins einnig að finna tölvubréf 8. september 2006 frá Bjarna S. Bjarnasyni, starfsmanni áfrýjanda, til stefnda þar sem fram kom að reikningur frá stefnda væri ekki í samræmi við ofangreind fyrirmæli Ásgeirs. Áfrýjandi telur að í tölvupóstum þessum felist fyrirmæli um að stefnda hafi verið óheimilt að flytja lénin á ný á eigin netþjóna og gera reikninga fyrir hýsingu þeirra og hvorki hafi verið beðið um þá þjónustu né hún samþykkt síðar.
Gegn andmælum áfrýjanda verður ekki talið að stefnda hafi tekist sönnun um að honum hafi verið heimilt á grundvelli munnlegs samkomulags við áfrýjanda að flytja umrædd gögn á ný frá ANZA hf. yfir á eigin netþjóna og annast hýsingu fyrir áfrýjanda gegn gjaldi.
Í gögnum málsins liggur fyrir að stefndi hótaði áfrýjanda að loka aðgangi að öllu sem hann hýsti fyrir áfrýjanda yrðu reikningar ekki greiddir. Af hálfu áfrýjanda er fullyrt að slík lokun hefði haft í för með sér mikið tjón fyrir rekstur hans.
Í ljósi þeirra andmæla sem fram höfðu komið af hálfu áfrýjanda og þeim þvingunum sem hann var beittur verður ekki talið að í greiðslu hans á einum reikningi stefnda hafi falist samþykki við greiðsluskyldu vegna annarra reikninga stefnda fyrir hýsingu á lénum. Verður krafa áfrýjanda um sýknu því tekin til greina.
Samkvæmt úrslitum málsins verður stefndi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til þess að annað mál vegna sömu lögskipta hefur verið rekið samhliða þessu, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Áfrýjandi, EC Hugbúnaður ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Gests Andrésar Grjetarssonar.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007.
I
Stefnandi kveðst sérhæfa sig í hýsingu á vefjum með Microsoft SQL gagnagrunnstengingum ásamt vistun á lénum fyrir sína viðskiptamenn og tengdri starfsemi. Þá kveðst hann einnig bjóða upp á hýsingu á hefðbundnum HTML vefjum og tengingar við MySQL gagnagrunna. Kveðst stefnandi hafa unnið sem verktaki hjá ASP Tölvuþjónustu ehf. áður en hann hóf að vinna fyrir stefnda en hann hafi fært sig yfir til stefnda haustið 2005.
ASP Tölvuþjónusta ehf. sá um DNS hýsingu og pósthýsingu fyrir stefnda og kveður stefndi sig hafa verið eitt fárra fyrirtækja sem notaðist við þær lausnir sem ASP Tölvuþjónustan ehf. bauð upp á og hafi stefndi gert marga samninga við sína viðskiptavini um svokallaða heildarpakka sem hafi meðal annars innihaldið hýsingarþjónustu fyrir netþjóna.
ASP Tölvuþjónustan ehf. ákvað að hætta starfsemi um áramótin 2005/2006 og keypti stefnandi búnaðinn og telur sig þar með hafa yfirtekið þjónusturnar á þeim búnaði. Í kjölfarið að ASP Tölvuþjónustan ehf. hætti starfsemi samdi stefndi við fyrirtækið ANZA ehf. um hýsingarþjónustu. Kveðst stefndi hafa talið mikilvægt að fá tæknilausnir þessarar þjónustu inn í fyrirtæki sitt frá ASP Tölvuþjónustunni ehf.
Stefnandi gerði samning við stefnda um að flytja umræddar þjónustur frá ASP Tölvuþjónustunni ehf. yfir til ANZA hf. og hófst sá flutningur í mars 2006. Kveður stefnandi að verkið hafi tafist verulega vegna bilana sem hann hafi enga ábyrgð borið á heldur hafi tækniörðugleikar komið við sögu auk þess sem tæknibúnaður hafi bilað og gallar komið upp hjá ANZA hf. Vegna þessara bilana hafi hann þurft að flytja þau gögn sem þegar höfðu verið flutt aftur til baka en um hafi verið að ræða flutninga á svokallaðri DNS þjónustu, póstþjónustu og vefþjónustu. Hangi þetta allt saman en mikilvægust sé DNS þjónustan og hana megi ekki flytja fyrr en póstþjónustan og vefþjónustan hafi verið fluttar, en vegna bilana hafi það ekki gengið sem skyldi.
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningum og mótmælir stefndi kröfum sem lúta að flutningum á DNS þjónustu, póstþjónustu og hýsingu léna. Telur stefndi að þegar hafi verið greitt fyrir alla flutninga á þjónustum og hafi aldrei verið samið við stefnanda um hýsingu á lénum. Um þetta snýst meginágreiningur í málinu. Þá er ágreiningur um hvort stefndi hafi ofgreitt og hvort stefndi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar.
Krafa stefnanda er byggð á sjö reikningum sem sundurliðast svo:
|
Útgáfudagur |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
01.09.2006 |
06.09.2006 |
303.718 |
|
02.10.2006 |
16.10.2006 |
61.422 |
|
02.10.2006 |
16.10.2006 |
320.868 |
|
02.10.2006 |
16.10.2006 |
291.436 |
|
01.11.2006 |
20.11.2006 |
96.301 |
|
01.11.2006 |
20.11.2006 |
126.990 |
|
01.12.2006 |
20.12.2006 |
110.058 |
Stefnandi kveður ofangreinda reikninga vera vegna hýsingar á lénum, kerfisþjónustu, bilanagreiningu, tölvuviðgerða, símaaðstoðar og fleira. Hafi stefndi greitt þrjár greiðslur inn á reikningana samtals að fjárhæð 800.000 krónur og dragist sú fjárhæð frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.
Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en sú regla fái lagastoð í 45., 47., og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísar hann til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda að fullu fyrir flutning á þjónustum með greiðslum sem inntar hafi verið af hendi vegna vinnu í apríl, maí, júní og júlí 2006. Hafi greiðslur verið eins og um fulla vinnu hafi verið að ræða eða 312.500 krónur á mánuði. Samkvæmt vinnuskýrslum stefnanda, sem hann hafi skilað inn til stefnda, hafi farið 21 tími í apríl í önnur verkefni en flutninga, 9 tímar í maí í önnur verkefni en flutninga og 19 tímar í júní í önnur verkefni en flutninga. Engar tímaskýrslur hafi borist frá stefnanda fyrir júlí. Fyrir þetta tímabil hafi stefnandi fengið greiddar 1.247.000 krónur.
Þá kveður stefndi stefnanda aldrei hafa lokið við flutning á tölvulausnum af tölvuþjónum ASP yfir til ANZA og hafi því aldrei skilað umbeðnu og þegar greiddu verki. Þrátt fyrir það haldi stefnandi því fram í tölvupósti 14. júlí 2006 að flutningi á öllum gögnum og pósthólfum yfir til ANZA sé lokið. Að mati stefnda hafi verið um að ræða tveggja daga verk.
Hafi stefnandi keypt vélbúnað ASP Tölvuþjónustunnar ehf. og yfirtekið þjónustuna sem ASP Tölvuþjónustan ehf. hafði veitt stefnda, án samþykkis eða vitundar stefnda. Í framhaldi hafi stefnandi sent reikninga til stefnda fyrir ýmiss konar þjónustu og sömuleiðis sent reikninga til viðskiptavina stefnda fyrir netþjónahýsingu (DNS hýsingu og pósthýsingu) en um sé að ræða þjónustu sem innifalin sé í pakkasamningum þessara aðila við stefnda. Með aðgerðum sínum hafi stefnandi yfirtekið hóp viðskiptavina stefnda og sent þeim reikninga sem þeir hafi mótmælt upp til hópa. Hafi stefnandi síðan skilað stærstum hluta viðskiptavina stefnda til baka en haldið eftir einum tíu til fimmtán aðilum sem hann hafi fullyrt að vildu frekar eiga viðskipti við hann en stefnda, sem síðan hafi komið í ljós að var rangt. Hafi þessar aðgerðir stefnanda valdið stefnda ómældri fyrirhöfn, kostnaði og missi viðskiptavina.
Stefndi kveðst gera athugasemdir við reikninga stefnanda. Í fyrsta lagi mótmæli hann þeim reikningum sem eru vegna DNS hýsingar sem röngum og tilefnislausum þar sem þegar hafi verið greitt fyrir flutninga á DNS hýsingu og vísist um það til tímaskýrslna og innborgana til stefnanda fyrir vinnu í apríl, maí, júní og júlí 2006. Hafi aldrei verið beðið um eða samið við stefnanda um hýsingarþjónustu. Reikningar varðandi þetta séu reikningur 100 að fjárhæð 248.359 krónur, reikningur nr. 209 að fjárhæð 61.422 krónur, reikningur nr. 221 að fjárhæð 96.301 króna og reikningur nr. 216 að fjárhæð 110.058 krónur.
Þá sé reikningi nr. 99, að fjárhæð 303.718 krónur, mótmælt að því er varðar þann hluta hans sem sé vegna DNS mála að fjárhæð 92.098 krónur. Þessum hluta reikningsins sé mótmælt þar sem þegar hafi verið greitt fyrir þessa vinnu, sbr. tímaskýrslur og innborganir fyrir vinnu í apríl, maí, júní og júlí 2006 en stefndi kveðst viðurkenna þann hluta hans sem varðar aðra vinnu að fjárhæð 211.620 krónur.
Varðandi reikning nr. 210, að fjárhæð 320.868 krónur, mótmælir stefnandi þeim hluta sem er vegna DNS mála að fjárhæð 68.786 krónur og póstmála að fjárhæð 74.078. Eins og að framan sé rakið hafi þegar verið greitt fyrir allt sem snúi að DNS málum. Þá hafi einnig verið greitt fyrir flutninga og póstþjónustu og eigi stefndi ekki að greiða fyrir þá þjónustu aftur. Sá hluti reikningsins sem sé vegna ýmiss konar vinnu, 169.320 krónur, og símakostnaður, 8.684 krónur eða samtals 178.004 krónur sé viðurkenndur. Með sömu rökum sé reikningi nr. 211, að fjárhæð 291.436, krónur mótmælt að því er varðar þann hluta sem snýr að DNS málum að fjárhæð 148.155 krónur og póstmálum að fjárhæð 21.165 krónur. Viðurkennir stefndi þann hluta reiknings sem lýtur að símakostnaði, 11.000 krónur, og ýmiss konar vinnu að fjárhæð 111.116 krónur, eða samtals 122.116 krónur. Stefndi kveðst ekki gera athugasemd við reikning nr. 222 að fjárhæð 126.990 krónur vegna ýmiss konar vinnu.
Stefndi bendir á að yfirlýsing stefnanda í tölvupósti 14. júlí 2006, um að flutningi á öllum gögnum og pósthólfum yfir á vélar stefnda sé lokið, hafi verið röng. Hafi yfirfærslunni ekki lokið fyrr en í janúar 2007, sbr. reikning stefnanda, útgefinn í janúar 2007. Með þeim reikningi sé stefnandi enn á ný að reyna að innheimta fyrir þegar greidda vinnu. Samkvæmt þeim reikningi sé um að ræða vinnu við DNS flutning, frágang og prófanir. Vinnu sem samkvæmt eigin yfirlýsingu stefnanda hafi lokið í júlí 2006.
Einnig bendi stefndi á að milli stefnanda og stefnda hafi aldrei verið samningur um hýsingarþjónustu á netþjónum hvorki fyrir stefnda sjálfan né sem hluta af pakkasamningum hans við viðskiptavina sinna. Kröfum stefnanda vegna þjónustu sem aldrei hafi verið beðið um sé því með öllu mótmælt.
Með vísan til framangreinds telji stefndi að honum hafi borið að greiða stefnanda 638.730 krónur og sé öllum frekari kröfum mótmælt. Hafi stefndi greitt stefnanda 1.048.359 krónur vegna þeirra reikninga sem mál þetta byggi á og vegna samskipta aðila.
Sé ljóst að stefndi hafi ofgreitt til stefnanda 409.629 krónur. Ástæður þess að stefndi hafi ofgreitt með þessum hætti séu að stefndi hafi ekki með nokkrum hætti viljað styggja stefnanda fyrr en flutningi á tölvuþjónustunni væri að fullu lokið. Hafi stefnandi haldið stefnda í hálfgerðri gíslingu. Hafi stefndi verið skuldbundinn til þess að veita viðskiptavinum sínum DNS þjónustu en stefnandi hafi ráðið yfir tæknilausnum sem til hafi þurft. Tæknilausnum sem stefnandi hafi löngu átt að vera búinn að flytja yfir til stefnda, þar með að skila umbeðnu og þegar greiddu verki. Hafi stefndi ekki getað hætt á að stefnandi lokaði fyrir DNS þjónustuna til viðskiptavina sinna en því hefði fylgt verulegur kostnaður og óhagræði fyrir viðskiptavinina. Þess vegna hafi þessar greiðslur átt sér stað umfram það sem stefndi telji sig eiga að greiða.
Þá hafi stefnandi verið með síma fyrir tímabilið ágúst 2006 til mars 2007 sem stefndi hafi greitt, eða 108.903 krónur, og enn fremur hafi stefnandi tekið út þjónustu í nafni stefnda frá Hive fyrir 37.165 krónur eftir að verktakasamningi aðila lauk. Telji stefndi að hann eigi að fá hvort tveggja greitt til baka frá stefnanda. Samtals eigi stefndi því 555.697 krónur inni hjá stefnanda. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu um sýknu telji stefndi að lækka eigi kröfur stefnanda. Sé verðlagning stefnanda fyrir netþjónahýsinguna alltof há og í engu samræmi við það sem gangi og gerist hjá sambærilegum þjónustuaðilum. Sem dæmi taki sambærilegt fyrirtæki 250 krónur í árgjald fyrir 1 lén á netþjóni en stefnandi rukki allt að 1.300 krónur á mánuði. Þá sé kostnaður við rekstur á DNS þjónustu ekki nema að óverulegu leyti háður fjölda tilvísana sem þjónustan veiti. Stefndi hafi sjálfur verið með þessa þjónustu á vélum sínum hjá ANZA.
Fallist dómurinn ekki á mótmæli stefnda gerir stefnandi kröfu til þess að tekið sé tillit til ofannefndra innborgana inn á kröfu stefnanda og að skuld stefnanda við stefnda vegna símanotkunar og úttektar hjá Hive, komi til skuldajafnaðar gegn dómkröfu hans.
Stefndi vísar til almennra reglna samninga og kröfuréttarins um efndir skuldbindinga. Þá sé byggt á reglum um skuldajöfnuð. Málskostnaðarkröfu sína reisir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Stefnandi byggir kröfur sínar á reikningum vegna vinnu sem hann kveðst hafa innt af hendi í þágu stefnda. Eru reikningar þessir meðal annars vegna hýsingar léna á tímabilinu 1. júlí til 1. desember 2006. Þá eru reikningar vegna ýmiss konar vinnu á tímabilinu ágúst-september 2006 og ýmiss konar vinnu vegna svokallaðra DNA mála á sama tímabili. Stefndi mótmælir þeim reikningum sem eru vegna hýsingar léna þar sem aldrei hafi verið samið við stefnanda um slíka þjónustu. Þá kveðst stefndi hafa greitt stefnanda allt varðandi DNA mál með greiðslum í apríl, maí, júní og júlí 2006. Þá hafi stefndi enn fremur greitt stefnanda þann hluta reiknings nr. 210 sem snúi að póstmálum.
Í málinu nýtur ekki við skriflegs samnings milli aðila og stendur því orð gegn orði um hvað hafi samist með þeim. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi tekið að sér umdeild verk fyrir stefnanda sem verktaki og bera reikningar hans þess glögg merki og mánaðarleg greiðsla hans í starfsmannasjóð breytir engu þar um.
Stefndi heldur því fram að aldrei hafi verið samið um að stefnandi hýsti lén fyrir stefnda og mótmælir stefndi reikningum varðandi það. Stefndi er hugbúnaðarfyrirtæki sem gerði samning við stefnanda um að hann tæki að sér ákveðin verk í samvinnu við starfsmenn stefnda. Verður að gera þær kröfur til fyrirtækis sem þannig ræður til sín sérhæfðan verktaka að hann gangi frá skriflegum samningi við hann. Verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um hvað samist hafi milli aðila.
Stefndi rekur í málatilbúnaði sínum að hann hafni reikningi stefnanda nr. 100 að fjárhæð 248.359 krónur þar sem hann varði hýsingarþjónustu sem aldrei hafi verið beðið um. Þessi reikningur er ekki meðal þeirra reikninga sem dómkröfur stefnanda byggja á enda liggja fyrir gögn í málinu sem sýna fram á að þessi reikningur var greiddur af stefnda hinn 4. október 2006 og verður ekki séð að það hafi verið gert með fyrirvara. Ber þessi reikningur með sér að vera vegna DNS hýsingar í júní, júlí og ágúst 2006 og með greiðslu á honum verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi viðurkennt að samið hafi verið við stefnanda um hýsingu léna. Þá liggur fyrir að stefnandi tók yfir þjónustu þá sem ASP Tölvuþjónustan ehf. hafði veitt stefnanda og liggur því í hlutarins eðli að stefnandi hýsti lénin á því tímabili frá því að ASP Tölvuþjónustan ehf. hætti starfsemi þar til þjónustan hafði verið flutt yfir til ANZA hf. en fyrir liggur að verkinu var ekki lokið fyrr en í byrjun árs 2007.
Stefndi mótmælir þeim hluta reikninga stefnanda sem varða svokölluð DNS mál og póstmál þar sem hann telur að þegar hafi verið greitt fyrir þessa þjónustu í apríl, maí, júní og júlí 2006. Þau gögn sem liggja frammi í málinu varðandi greiðslur þessar bera ekki með sér svo óyggjandi sé fyrir hvað var greitt auk þess sem fyrir liggur að verkinu var ekki lokið þegar þeir voru greiddir. Þykir stefndi því ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að hann hafi þegar greitt fyrir þessa þjónustu og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup skal sá sem kaupir þjónustu greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu. Stefndi hefur ekki sýnt fram á það að reikningar stefnanda séu ósanngjarnir eða að verk það sem stefnandi innti af hendi í þágu stefnda hefði átt að taka skemmri tíma en raun varð. Hefði stefnda verið í lófa lagið að afla matsgerðar máli sínu til stuðnings.
Stefndi kveðst eiga gagnkröfur til skuldajafnaðar vegna skuldar stefnanda við stefnda vegna símanotkunar að fjárhæð 108.903 og úttektar hjá Hive, samtals að fjárhæð 37.165 krónur. Ekki verður séð af þeim gögnum sem stefndi hefur lagt fram þessum kröfum sínum til stuðnings að þær varði stefnanda og verða gagnkröfur stefnda til skuldajafnaðar því ekki teknar til greina.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umdeilda reikninga svo sem hann krefst að fjárhæð 1.310.793 krónur að frádregnum innborgunum að fjárhæð 800.000 krónur, með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið andmælt sérstaklega.
Með hliðsjón af atvikum öllum og því að rekið er annað dómsmál, mál nr. E-3047/2007, sem hefði mátt komast hjá með því að sækja kröfur í báðum þessum málum í einu máli, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 150.000 krónur í málskostnað, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Eiríkur Gunnsteinsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Sonja M. Hreiðarsdóttir hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, EC Hugbúnaður ehf., greiði stefnanda, Gesti Andrési Grjetarssyni, 1.310.793 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 303.718 frá 6. september 2006 til 16. október 2006, af 977.444 krónum frá þeim degi til 20. nóvember 2006, af 1.200.735 krónum frá þeim degi til 20. desember 2006, af 1.310.793 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 500.000 krónum sem greiddust inn á kröfuna 21. desember 2006, 150.000 krónum sem greiddust inn á kröfuna 12. janúar 2007 og 150.000 krónum sem greiddust inn á kröfuna 22. janúar 2007.
Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.