Hæstiréttur íslands

Mál nr. 651/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Úrskurður
  • Res Judicata
  • Málskostnaður
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Mánudaginn 15. desember 2008.

Nr. 651/2008.

A

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

B

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

 

Kærumál. Úrskurður. Res Judicata. Málskostnaður. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Með úrskurði héraðsdóms var leyst úr ágreiningsefni milli A og B sem upp kom við opinber skipti á dánarbúi C. Í úrskurðinum var jafnframt kveðið á um að málskostnaður milli aðilanna félli niður en greiða skyldi úr ríkissjóði gjafsóknarkostnað hvorrar þeirrar fyrir sig. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins kom lögmaður B því á framfæri við héraðsdómara að henni hefði ekki verið veitt gjafsókn. Héraðsdómari brást við þessu samdægurs og var lögmönnum aðilanna birtur „nýr úrskurður“ með tölvubréfi þar sem ekki aðeins var fellt brott ákvæði um greiðslu gjafsóknarkostnað B úr ríkissjóði, heldur var úrskurðinum breytt á þann veg að A var gert að greiða B tiltekna fjárhæð í málskostnað. A kærði úrskurðinn að þessu leyti og krafðist þess að málskostnaður yrði látinn falla niður. Í niðurstöðu Hæstaréttar er vísað til þess að samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 sé dómur bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Heimild í 2. málslið sama ákvæðis til að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur gæti með engu móti tekið til þess að breyta efnislegri niðurstöðu í dómsúrlausn. Yrði því að líta svo á að í hinum kærða úrskurði hafi verið kveðið á um að málskostnaður milli þeirra félli niður og bæri því að virða að vettugi þær breytingar sem héraðsdómari hafði gert á því ákvæði, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem kæra A laut ekki að neinu, sem að lögum yrði talið fólgið í hinum kærða úrskurði, var málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem rekið var til að fá leyst úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti á dánarbúi C. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði breytt á þá lund að málskostnaður milli aðila falli niður.“

Varnaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins var dánarbú C tekið til opinberra skipta 20. febrúar 2008, en varnaraðili er ekkja eftir hann og sóknaraðili dóttir hans. Við skiptin reis deila milli sóknaraðila og varnaraðila um hvort eignarhluti í nánar tiltekinni fasteign skyldi teljast séreign þeirrar síðarnefndu og vísaði skiptastjóri þeim ágreiningi til úrlausnar héraðsdóms 25. apríl 2008. Mál þetta var þingfest af því tilefni 15. maí sama ár. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um niðurstöðu þessa ágreiningsefnis.

Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er greint frá því að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp 13. nóvember 2008 kl. 13 að viðstaddri henni og lögmönnum beggja aðila og hafi endurrit úrskurðarins verið afhent þeim þá þegar. Í úrskurðinum hafi verið kveðið á um það að málskostnaður milli aðilanna félli niður, en greiða skyldi úr ríkissjóði gjafsóknarkostnað hvorrar þeirrar fyrir sig, þar með talda málflutningsþóknun að fjárhæð 584.527 krónur til lögmanns hvorrar. Eftir þinghaldið hafi lögmaður varnaraðila komið því á framfæri við héraðsdómara að henni hafi ekki verið veitt gjafsókn. Við þessu hafi dómarinn brugðist um kl. 16 sama dag með því að senda lögmönnum aðilanna „nýjan úrskurð í tölvupósti“, þar sem ekki aðeins hafi verið fellt brott ákvæði um greiðslu gjafsóknarkostnaðar varnaraðila úr ríkissjóði, heldur hafi úrskurðinum einnig verið breytt á þann veg að sóknaraðila væri gert að greiða varnaraðila 584.527 krónur í málskostnað. Kæra sóknaraðila í málinu beinist að þessu síðastnefnda ákvæði úrskurðarins, sem hún krefst að verði fellt niður.

Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er framangreindum staðhæfingum sóknaraðila í engu mótmælt, en meðal málsgagna, sem borist hafa frá héraðsdómi, eru endurrit úrskurðar í máli aðilanna, þar sem annars vegar er mælt fyrir um að málskostnaður falli niður og hins vegar um skyldu sóknaraðila til að greiða varnaraðila áðurgreinda fjárhæð í málskostnað. Samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómur bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Fyrirmæli þessi gilda einnig um úrskurð héraðsdómara í máli af þeim toga, sem hér um ræðir. Heimild í 2. málslið sama lagaákvæðis handa héraðsdómara til að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur getur með engu móti tekið til þess að breyta efnislegri niðurstöðu í dómsúrlausn um hvort öðrum aðilanum verði gert að greiða hinum málskostnað. Verður því að líta svo á að í úrskurði í máli aðilanna hafi verið kveðið á um að málskostnaður milli þeirra félli niður og ber samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að virða að vettugi breytingar, sem héraðsdómari hefur leitast við að gera á því ákvæði.

Kæra sóknaraðila lýtur ekki að neinu, sem að lögum verður talið fólgið í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2008 í máli hennar við varnaraðila. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Varnaraðila verður ekki dæmdur kærumálskostnaður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.