Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 13

 

Föstudaginn 13. ágúst 2004.

Nr. 340/2004

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Sigmundur Guðmundsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. ágúst 2004 kl. 14.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Rannsóknargögn málsins veita rökstuddan grun um að varnaraðili hafi valdið Z þeim áverkum, sem lýst er í hinum kærða úrskurði. Telja verður brýnt að lögreglu gefist ráðrúm til þess að yfirheyra alla þá sem veitt geta upplýsingar um málið. Fallist verður á að nauðsynlegt sé að varnaraðili sæti gæslu þar sem hann geti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni hafi hann óskert frelsi. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. ágúst 2004.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, barst dóminum í gær með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dags. samdægurs.  

Krefst sýslumaður þess að X [...] verði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 16. ágúst n.k. 

Kærði krefst þess að kröfu sýslumanns verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði afmarkaður skemmri tími en í kröfu sýslumanns greinir.

Sýslumaður kveður málsatvik þau, að kærði hafi verið handtekinn kl. 14:00 þann 7. ágúst s.l. vegna grunsemda um að hann hefði lamið Z [...] í höfuðið með hafnaboltakylfu, með þeim afleiðingum að hann höfuðkúpu-, kinnbeins- og nefbrotnaði og blæddi inn á heilann.  Ekki sé enn útséð um afleiðingar þessarar árásar fyrir Z og að sögn læknis hefði árás sem þessi hæglega getað leitt til mun alvarlegri afleiðinga og jafnvel dauða.  Meint árás sé talin hafa átt sér stað á þjóðvegi 1 í Öxnadal, en þar hafi málsaðilar verið á ferð í bifreið ásamt fleira fólki aðfaranótt fimmtudagsins 5. þ.m. 

Kveður sýslumaður rannsókn brotsins enn vera á frumstigi og talin sé hætta á að kærði muni geta haft áhrif á gang rannsóknarinnar ef hann gangi laus á meðan á henni standi, með því sérstaklega að hafa áhrif á framburð vitna og skjóta undan munum. 

Samkvæmt lögregluskýrslum sem fram eru lagðar í málinu var upphaflega tilkynnt um ætlaðan atburð í Neyðarlínuna og kemur fram að þó nokkur vitni hafi verið að atburðinum, sem ekki hafa enn verið yfirheyrð. 

Þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 vera fyrir hendi til þess að verða við kröfu sýslumanns.  Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en gert er ráð fyrir í kröfu sýslumanns. 

 

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

Á l y k t a r o r ð :

X [...] sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 16 ágúst 2004 kl. 14:00.