Hæstiréttur íslands

Mál nr. 502/1998


Lykilorð

  • Verðbréfafyrirtæki
  • Verðbréfasjóður
  • Vátrygging


                                                         

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 502/1998.

Kaupþing hf.

(Helgi Sigurðsson hdl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

Verðbréfafyrirtæki. Verðbréfasjóður. Vátrygging.

Verðbréfafyrirtækið K hafði umsjón með verðbréfasjóði í eigu hlutafélagsins H samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi og sá meðal annars um kaup á verðbréfum fyrir H. Við kaup á skuldabréfi fyrir H urðu starfsmanni K á mistök sem leiddu til þess að H fékk ekki greiðslu samkvæmt skuldabréfinu. K hafði tryggingu samkvæmt e. lið 4. mgr. 11. gr. laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði fyrir því tjóni sem það bakaði viðskiptavinum sínum og krafðist það þess að vátryggjandi sinn, S, endurgreiddi sér þá fjárhæð sem það hafði greitt H í skaðabætur vegna mistakanna. Að virtum ákvæðum laga nr. 20/1989 þótti ljóst að náin tengsl væru á milli verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs. Væri þetta samband sérstaks eðlis og ólíkt sambandi verðbréfafyrirtækis og almenns viðskiptavinar. Var ekki fallist á að þau rök sem lægu til grundvallar tryggingarskyldu verðbréfafyrirtækis ættu við um ráðstafanir sem það gerði í þágu verðbréfasjóðs í umsjá þess. Þá þótti orðalag og efnisskipan laga nr. 20/1989 ekki gefa vísbendingu um að verðbréfafyrirtæki yrði jafnað til viðskiptavinar í skilningi e. liðar 4. mgr. 11. gr. laga nr. 20/1989. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu K á hendur S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 1998. Hann krefst þess, að  stefndi verði dæmdur til að greiða vátryggingu að fjárhæð 3.138.778 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. júlí 1993 til 16. október sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að krafa áfrýjanda verði lækkuð verulega, upphafstími dráttarvaxta miðaður við dómsuppsögu og málskostnaður látinn falla niður.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði starfsmaður áfrýjanda milligöngu um kaup á skuldabréfi vegna Hávöxtunarfélagsins hf. á árinu 1990 fyrir 1.697.465 krónur, en það var útgefið af lögmanni fyrir hönd umbjóðanda síns samkvæmt umboði. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 1993 var umbjóðandinn sýknaður af kröfu áfrýjanda um greiðslu skuldabréfsins, þar sem umboðsmaður hans hefði farið út fyrir umboð sitt og starfsmanni áfrýjanda orðið á mistök við kaup á skuldabréfinu. Dóminum var ekki áfrýjað og í stefnu til héraðsdóms í þessu máli segir, að eftir uppsögu hans hafi áfrýjandi fallist á kröfu Hávöxtunarfélagsins hf. um að greiða bótaskylt tjón vegna þeirra mistaka, sem starfsmönnum áfrýjanda hefðu orðið á við kaupin. Samkvæmt þessu liggur fyrir, að eigendur hlutdeildarskírteina í Hávöxtunarfélaginu hf. hafa ekki orðið fyrir tjóni vegna framangreindra mistaka starfsmanna áfrýjanda.

Ágreiningsefni málsins lýtur samkvæmt framansögðu að því einu, hvort sú starfsábyrgðartrygging, sem áfrýjandi keypti hjá stefnda og boðin var í e. lið 4. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði eigi að svara til þess tjóns, sem áfrýjandi vegna Hávöxtunarfélagsins hf. hefur orðið fyrir vegna mistaka starfsmanna sinna. Þarf þá að leysa úr því, hvort við eigi þetta lagaákvæði, sem gerir verðbréfafyrirtækjum skylt að setja tryggingu fyrir tjóni, sem það kann að baka viðskiptavinum sínum, og skilmálar starfsábyrgðartryggingarinnar þess efnis, að vátryggt sé gegn bótaskyldu, er falli á vátryggingartaka sem verðbréfafyrirtæki, þegar þriðji maður verði fyrir almennu fjártjóni vegna gáleysis starfsmanna hans.

Í héraðsdómi er lýst þeim ákvæðum laga nr. 20/1989, sem fjölluðu um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði og skyldur hinna fyrrgreindu til að annast rekstur sjóðanna. Í 1. mgr. 18. gr. sagði, að verðbréfafyrirtæki kæmi fram í eigin nafni fyrir hönd verðbréfasjóðs og tæki ákvarðanir varðandi sjóðinn í samræmi við rekstrarsamning samkvæmt 3. mgr. Í löggerningum, sem vörðuðu sjóði í vörslu fyrirtækisins, væri skylt að geta þess sjóðs, sem verðbréfafyrirtækið kæmi fram fyrir hverju sinni. Verðbréfasjóður gæti ekki verið aðili að dómsmáli, nema málið fjallaði um samskipti sjóðsins og verðbréfafyrirtækisins, sem sæi um rekstur hans. Í 4. mgr. 18. gr. voru nánari ákvæði um rekstrarsamning verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs, þar sem fram kom meðal annars, að hann skyldi jafnan vera aðgengilegur viðskiptavinum sjóðsins og mæla fyrir um þóknun verðbréfafyrirtækis fyrir hvers konar umsýslu með sjóðinn og útreikning greiðslna til þess fyrir sölu og innlausn á sjóðshlutum. Í rekstrarsamningi áfrýjanda og Hávöxtunarfélagsins hf. frá 20. desember 1989 sagði meðal annars, að áfrýjandi skyldi greiða allan kostnað vegna reksturs félagsins að undanskildum kostnaði vegna endurskoðunar. Áfrýjandi skyldi annast sölu og innlausn hlutdeildarskírteina einstakra sjóðsdeilda Hávöxtunarfélagsins hf. og ávöxtun deildanna með kaupum á verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu þeirra. Þá átti áfrýjandi að sjá um innheimtu bréfa í eigu sjóðsdeildanna og annast að öllu leyti fjárreiður þeirra og bókhald.

Samkvæmt framansögðu er ljóst, að náin tengsl voru með verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði samkvæmt lögum nr. 20/1989, en þar var einnig mælt fyrir um sérstakar skyldur verðbréfafyrirtækis gagnvart almennum viðskiptavinum sínum, sbr. einkum 14. gr., 16. gr. og 17. gr. laganna. Réttarsamband verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóðs í umsjón þess ræðst annars vegar af skýrum lagareglum og hins vegar af rekstrarsamningi, sem nánar er kveðið á um í 18. gr. laganna. Er þetta samband sérstaks eðlis og ólíkt sambandi verðbréfafyrirtækis og almenns viðskiptavinar, meðal annars með tilliti til ákvörðunarvalds verðbréfafyrirtækisins um rekstur sjóðsins og þeirra hagsmuna, sem verðbréfafyrirtæki hefur sjálft af afkomu hans. Er ákvæðum IV. kafla laga nr. 20/1989 meðal annars ætlað að tryggja sérstaklega stöðu eigenda hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði með hliðsjón af þessum nánu tengslum. Verður ekki á það fallist með áfrýjanda, að þau rök, sem liggja til grundvallar tryggingarskyldu verðbréfafyrirtækis samkvæmt e. lið 4. mgr. 11. gr. laga nr. 20/1989 og varða almennt réttaröryggi í verðbréfaviðskiptum, eigi við um ráðstafanir verðbréfafyrirtækis í þágu verðbréfasjóðs í umsjón þess. Orðalag og efnisskipan laga nr. 20/1989 gefur einnig skýra vísbendingu um það, að verðbréfasjóði í umsjón verðbréfafyrirtækis verði ekki jafnað til viðskiptavinar þess samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Verður þá heldur ekki talið, að slíkur sjóður geti verið þriðji maður í skilningi vátryggingarskilmála starfsábyrgðartryggingarinnar.

Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans.

 Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kaupþing hf., greiði stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 1998.

Mál þetta sem dómtekið var samdægurs er höfðað með stefnu þingfestri 29. janúar 1998.  Stefnandi er Kaupþing hf., kt. 560882-0419, Ármúla 13a, Reykjavík. Stefndi er Sjóvá- Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða vátryggingu að fjárhæð kr. 3.138.778 með vöxtum skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 9. júlí 1993 til 16. október 1993 en með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá þeim tíma til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega, upphaf dráttarvaxta verði miðað við dómsuppsögu og að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Málsatvik.

Þann 15. maí 1990 hafði starfsmaður stefnanda milligöngu um kaup á skuldabréfi vegna Hávöxtunarfélagsins hf., útgefnu af Skúla Sigurðssyni hdl. f.h. Leonards Haraldssonar skv. umboði. Greiðsla skuldabréfsins nam samkvæmt greiðslukvittun 1.697.465 krónum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 5922/1992 var Leonard Haraldsson sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu skuldabréfsins þar sem umboðsmaður hans hafi farið út fyrir umboð sitt. Var talið að starfsmanni stefnanda hafi orðið á mistök við kaup á skuldabréfinu.

Kaup skuldabréfsins voru gerð vegna Hávöxtunarfélagsins hf. en Kaupþing annaðist rekstur Hávöxtunarfélagsins hf. samkvæmt rekstrarsamningi milli félaganna dags. 20. desember 1989. Rekstrarsamningurinn var í samræmi við lög nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði en samkvæmt lögunum var skilyrði að verðbréfasjóðir væru reknir af verðbréfafyrirtækjum. Í rekstrarsamningi Kaupþings hf. og Hávöxtunarfélagsins hf. hafi m.a. verið kveðið á um greiðslu Kaupþings hf. á rekstrarkostnaði þ.á.m. launakostnaði, kaup á verðbréfum, innheimtu þeirra og vörslur og um greiðslu til félagsins fyrir framkvæmdastjórn og útlagðan kostnað.

Stefnandi keypti lögboðna starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda í samræmi við fyrirmæli laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og var sú vátrygging í gildi við kaup skuldabréfsins þann 15. maí 1990.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir stefnukröfu sína á því að hann hafi í samræmi við lög nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði keypt starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda gegn bótaskyldu tjóni sem falli á stefnanda sem verðbréfafyrirtæki, þegar þriðji maður verði fyrir almennu fjártjóni vegna gáleysis starfsmanns hans. Þessi starfsábyrgðartrygging hafi verið í gildi þegar hið bótaskylda atvik þ.e. kaup skuldabréfsins hafi átt sér stað þann 15. maí 1990. Stefnufjárhæðin sé miðuð við kröfu stefnanda á hendur Leonard Haraldssyni skv. hinu útgefna skuldabréfi hinn 9. júlí 1993 þegar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að hann skyldi vera sýkn af kröfu stefnanda var kveðinn upp. Sú kröfufjárhæð sé síðan lækkuð með tilliti til eigin áhættu stefnanda skv. vátryggingarskilmálum. Hið útgefna skuldabréf hafi upphaflega verið að fjárhæð kr. 2.000.000, með einum gjalddaga 15. júlí 1991 og beri meðalvexti Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum frá 30.04.1990 til greiðsludags 15. júlí 1991. Krafan skv. hinu útgefna skuldabréfi þann 9. júlí sundurliðist þannig:

Höfuðstóll

2.000.000

Samningsvexti frá 30.04.1990-15.07.1991

348.810

dráttarvextir frá 15.071991-98.07.1993

1.048.393

Samtals

3.397.203

Lækkun v. eigin áhættu stefnanda

258.425

Samtals

3.138.778

Lög um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði nr. 20/1989 setji það að skilyrði að verðbréfasjóðir séu reknir af verðbréfafyrirtækjum. Öðrum aðilum en verðbréfafyrirtækjum sé óheimilt að starfsrækja verðbréfasjóði sbr. 11. gr. laganna. Í greinargerð með lögum nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sé fjárhagsstaða íslenskra verðbréfasjóða í árslok 1985 - 1987 rakin og sú niðurstaða sett fram að hér sé „þegar um mikilvægar stofnanir í fjármálum þjóðarinnar að ræða“. Verðbréfasjóðir hljóti því óhjákvæmilega að vera í hópi stærstu viðskiptavina verðbréfafyrirtækja og löggjafanum hafi verið það fyllilega ljóst við setningu laganna. Í 4. mgr. 11. gr. sé sett fram sú afdráttarlausa regla fyrir starfsleyfi verðbréfafyrirtækja að verðbréfafyrirtækin setji tryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum. Hvorki í lagatextanum sjálfum eða í greinargerð sé gerð undantekning varðandi tryggingar gagnvart verðbréfasjóði sem lögum samkvæmt sé skylt að gera rekstrarsamning við verðbréfafyrirtæki um rekstur sjóðsins. Megi telja með ólíkindum af löggjafanum að taka það ekki sérstaklega fram ef það hefði verið tilgangurinn að lögboðnar tryggingar giltu ekki um þennan viðskiptavin. Í greinargerð með lögunum segi þvert á móti að mun strangari kröfur séu gerðar til verðbréfafyrirtækja en verðbréfamiðlara varðandi tryggingar í samræmi við hið víðtæka starfssvið verðbréfafyrirtækjanna, en verðbréfamiðlurum sé óheimilt að hafa með höndum rekstur verðbréfasjóða eins og fram komi í 10. gr. laganna.

Rekstrarfyrirkomulag verðbréfasjóða og sú fjárhagslega aðgreining sem gerð sé milli verðbréfafyrirtækja sem reka verðbréfasjóði og sjóðanna sjálfa sé ætlað að tryggja sem best réttarstöðu þeirra sem ávaxta fjármuni sína í verðbréfasjóði. Í greinargerð með lögum nr. 20/1989 svo og í framsöguræðu þáverandi viðskiptaráðherra á Alþingi komi fram að megintilgangur laganna eigi að vera að stuðla að heilbrigðri þróun á verðbréfamarkaði m.a. með því að tryggja hag þeirra sem kjósa að ávaxta sparifé sitt með kaupum á hlutdeildarskírteinum. Undanþága frá tryggingarskyldu með þeim hætti að verðbréfasjóðir teljist ekki viðskiptavinir í skilningi e. liðar 11. gr. laganna eins og haldið er fram í bréfi stefnanda dags. 30.07.1993 vegna náinna tengsla stefnanda og tjónþola að því er varðar rekstur og eignaraðild, brjóti í bága við það réttaröryggi sem lögunum sé ætlað að stuðla að og hafi í för með sér að viðskiptavinir verðbréfasjóða hafi lakari réttarstöðu en aðrir viðskiptavinir að þessu leyti, sem gangi þvert á orðalag og markmið laganna.

Í samþykktum Hávöxtunarfélagsins hf. segi m.a. í 3. gr. „Tilgangur félagsins er að skapa farveg fyrir samvinnu einstaklinga og lögaðila um hámarksávöxtun sparifjár og um að dreifa þeirri áhættu sem slíkri ávöxtun er samfara“ ... „Félagið er verðbréfasjóður“. Í 4. gr. samþykktanna sé tekið upp ákvæði 20. gr. laga nr. 20/1989 en þar segir „Allir sem eiga hlutdeild að veðbréfasjóði ... eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins ... í hlutfallið við eign sína“. Hávöxtunarfélagið hf. hafi engan ávinning af ávöxtun verðbréfasjóðsdeildanna og sé það raunar óheimilt. Tilgangurinn sé að ávaxta fé til lánadrottna (eigenda hlutdeildarskírteina) enda njóti þeir ávöxtunarinnar en ekki félagið sjálft. Eignaraðild að verðbréfasjóðum hafi þannig ekki beinan fjárhagslegan ávinning í för með sér. Verðbréfasjóðirnir séu fyrst og fremst hugsaðir sem umgjarðir um eignir sjóðanna og í lögunum sé rækilega skilið á milli rekstraraðilans og verðbréfasjóðsins. Lögin tryggi þannig fjárhagslegt sjálfstæði verðbréfasjóðanna og geri það að skilyrði að verðbréfafyrirtæki þ.e. annar lögaðili sjái um rekstur þeirra og milli þessara aðila sé gerður sérstakur rekstrarsamningur. Rekstrarfyrirkomulag verðbréfasjóða sé lögbundið og hafi óhjákvæmilega í för með sér náin rekstrarleg tengsl milli verðbréfafyrirtækis og verðbréfasjóða. Verðbréfafyrirtæki eins og stefnandi geri með sama hætti sambærilega samninga við fjölmarga aðra viðskiptavini s.s. einstaklinga, lögaðila og sjóði um rekstur og umsýslu fjármuna eins og samningur stefnanda við verðbréfasjóði Hávöxtunarfélagsins hf. geri ráð fyrir. Stefnandi fái þá með sama hætti tiltekna þóknun fyrir rekstur og umsýslu þeirra fjármuna sem félagið hafi fengið til ráðstöfunar, en ávöxtun verðbréfaeignarinnar renni til þeirra sem leggi fram fjármuni til ávöxtunar. Það að rekstrarleg tengsl eigi að leiða til niðurfellingu á bótarétti fái ekki staðist orðalag laganna eða tilgang og eðli þess rekstrar sem stefnandi hafi með höndum.

Þá vísar stefnandi til þess að stefnandi hafi ekki verið hluthafi í Hávöxtunarfélaginu á þeim tíma sem kaup skuldabréfsins áttu sér stað. Hávöxtunarfélagið hf. hafi þá verið í eigu 72 aðila sem voru utan einn ekki eigendur að Kaupþingi hf.

Megintilgangur verðbréfasjóða sé að mynda samvalssjóð, og nýta stærðarhagkvæmni og sérþekkingu umsýsluaðila við kaup verðbréfa í því skyni að ná fram góðri ávöxtun með áhættudreifingu og þar með lágmarksáhættu. Verðbréfasjóðsformið sé hugsað til þess að gera smærri fjárfestum það kleift að taka þátt í verðbréfaviðskiptum. Þessi hópur fjárfesta sé langstærsti hluti sparifjáreiganda sem hafi ekki það mikið sparifé milli handanna að hagkvæmt sé eða mögulegt að dreifa áhættu nægjanlega með því að kaupa einstök verðbréf. Löggjöf um verðbréfamiðlun og verðbréfasjóði hljóti öðru fremur að þurfa að taka mið af því að tryggja hag þessara fjárfesta, enda séu þeir ekki sérfróðir í verðbréfaviðskiptum og sérlega viðkvæmir fyrir tjóni. Það að lögboðnar tryggingar séu ekki fyrir hendi hjá verðbréfasjóðum vegna hins lögbundna rekstrarfyrirkomulags fái ekki staðist og sé í andstöðu við tilgang laganna, auk þess sem það leiði til mismununar á réttartöðu stærri og smærri fjárfesta.

Stefnandi byggir kröfur sínar á vátryggingarskilmála stefnda, einkum 10.1, 12.1, 13.1 og 14.1. Þá styðst stefnandi við ákvæði laga um vátryggingarsamninga, sbr. einkum 24. gr. og 36. gr. og við ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987. Þá vísar stefnandi til laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, einkum 1. gr. 9. gr., 10. gr., 11. gr., 18 gr. svo og til ummæla í greinargerð með lögunum. Málskostnaðarkrafan styðst við 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu.

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að ekki sé um tilvik að ræða sem falli undir gildissvið hinnar lögboðnu starfsábyrgðartryggingar.

Samkvæmt e. lið 3. gr. laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði hafi verið kveðið á um skyldu verðbréfamiðlara til þess að kaupa ábyrgðartryggingu, sem bæti viðskiptavinum tjón, sem hann kynni að baka þeim. Nánari ákvæði um vátrygginguna hafi verið í 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 502/1989 um tryggingaskyldu verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja. Í e-lið 4. mgr. 11. gr. laga 20/1989 komi fram, að verðbréfafyrirtæki skuli skylt að setja tryggingu fyrir tjóni, sem það kunni að baka viðskiptavinum sínum og að setja skuli nánari ákvæði um tryggingar með reglugerð. Slík ákvæði hafi verið í 3. tölul. 2. mgr. 5. gr. fyrrnefndrar reglugerðar.

Gildissvið starfsábyrgðartryggingarinnar hafi tekið til þeirrar skaðabótaábyrgðar sem verðbréfafyrirtæki hafi verið skylt að vátryggja samkvæmt lögum nr. 20/1989, sbr. reglugerð nr. 502/1989. Um bótaábyrgð verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja hafi gilt 9. gr. laga nr. 20/1989, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Á því sé byggt að sú skaðabótaábyrgð verðbréfafyrirtækja sem falli undir gildissvið vátryggingarinnar sé ábyrgð þeirra á tjóni „viðskiptamana“ fyrirtækjanna þ.e. utanaðkomandi viðskiptamanna sem verðbréfafyrirtæki hafi annast milligöngu um kaup eða sölu verðbréfa fyrir. Hávöxtunarfélagið sem Kaupþing hf. hafi rekið samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi sé ekki viðskiptamaður í skilningi laga 20/1989 eða reglugerðar nr. 502/1989 og falli því hugsanleg bótaábyrgð Kaupþings hf. gagnvar Hávöxtunarfélaginu utan gildissviðs tryggingarinnar.

Almennt einkenni ábyrgðartrygginga samkvæmt vátryggingarétti sé að vátryggð sé skaðabótaábyrgð vátryggðs gagnvart þriðja manni en ekki eigið tjón hans eða þeirra sem honum verða samsamaðir með „identifikation“.

Í vátryggingarskilmálum grein 10.1 segi svo um gildissvið tryggingarinnar:

„Vátryggt er gegn bótaskyldu, er fellur á vátryggingartaka sem verðbréfafyrirtæki, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártóni vegna gáleysis starfsmanns hans.“

Samkvæmt grein 11.2 tekur vátryggingin ekki til ábyrgðar, sem rakin verður til:

„... þess að vátryggingartaki tekur á sig ábyrgð, sem er víðtækari en almenn bótaskylda hans sem verðbréfafyrirtækis.“

Á því sé byggt að Hávöxtunarfélagið, þ.e. verðbréfasjóður sem rekinn hafi verið af stefnanda samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi geti ekki talist þriðji maður í skilningi vátryggingaskilmála og laga nr. 20/1989 og átt bótarétt úr starfsábyrgðartryggingu stefnanda. Svo náin tengsl séu milli félaganna um rekstur, stjórn og eignaraðild að ekki sé unnt að líta svo á að þar sé um að ræða kröfu þriðja manns í skilningi vátryggingarréttar.

IV. kafli laga nr. 20/1989 fjalli um verðbréfasjóði og þar komi fram hin nánu tengsl verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis sem annist rekstur sjóðsins. Í 2. mgr. 18. gr., staflið a. segi að í samþykktum verðbréfasjóðs skuli koma fram „nafn sjóðs og nafn þess verðbréfafyrirtækis, sem rekur sjóðinn“. Þá komi fram í 1. mgr. 18. gr. að verðbréfafyrirtæki komi fram í eigin nafni fyrir hönd verðbréfasjóðs og taki ákvarðanir varðandi sjóðinn í samræmi við rekstrarsamning skv. 3. mgr. Jafnframt segi að verðbréfasjóður geti eigi verið aðili að dómsmáli nema málið fjalli um samskipti sjóðsins og verðbréfafyrirtækis sem sér um rekstur hans.

Forsaga og tilgangur löggjafar um verðbréfaviðskipti styðji þá niðurstöðu að utan gildissviðs starfsábyrgðartryggingar falli kröfur á milli verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis sem rekstur sjóðsins annist. Lög nr. 20/1989 hafi leyst af hólmi lög nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun sem voru hin fyrstu sinar tegundar hér á landi. II. kafli þeirra laga fjalli um leyfi til verðbréfamiðlunar og rekstrar verðbréfasjóðs en samkvæmt lögunum hafi eitt skilyrði leyfisveitingar verið bankatrygging til að standa straum af greiðslu skaðabóta sem verðbréfamiðlari kynni að verða gert að greiða viðskiptamanni vegna starfsemi sinnar. Samkvæmt 5. gr. laganna hafi verið óheimilt að stofna eða starfrækja verðbréfasjóð nema sá maður, sem veitir honum forstöðu og hafi daglega stjórn hans með höndum, hafi fengið leyfi til verðbréfamiðlunar. Í IV. kafla laganna hafi verið ákvæði um fjárhagslega ábyrgð gagnvart viðskiptamanni sama efnis og 9. gr. laga nr. 20/1989. Í greinargerð með lögum nr. 27/1986 komi fram að tilgangurinn með lagasetningu sé að tryggja öryggi þeirra, sem viðskipti eigi við verðbréfamiðlara og til að eftirlit megi hafa með starfseminni. Í umræðum um lagafrumvarpið hafi komið ítrekað fram að tilgangur löggjafarinnar væri neytendavernd og aukið réttaröryggi almennings er sé almennt megintilgangur lögboðinna ábyrgðartrygginga þ.á. m. starfsábyrgðartygginga.

Þá er sýknukrafan einnig á því byggð að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir fjártjóni. Engum gögnum hafi verið framvísað af hans hálfu sem sýni að hann hafi innt af hendi greiðslur vegna mistaka starfsmannsins eða hann fengið á sig fjárkröfur þeirra vegna.

Stefndi byggir varakröfu um verulega kröfulækkun á því að ekki sé sýnt fram á tjón sem nemi kröfufjárhæð í stefnu. Tjónsatvik séu kaup starfsmanns stefnanda á skuldabréfinu þann 15. maí 1990. Fyrir skuldabréfið hafi verið greiddar kr. 1.697.465. Eigin áhætta vátryggðs í tjóni hafi verið kr. 200.000. Samkvæmt því gæti krafa um bætur úr starfsábyrgðartryggingunni ekki numið hærri fjárhæð kr. 1.497.465. Þeim hluta stefnufjárhæðar sem séu vextir er mótmælt sem fyrndum.

Þáttur í varakröfu stefnda er að hafnað verði kröfum stefnanda um dráttarvexti fyrir dómsuppsögudag. Um rökstuðning þeirrar kröfu sé vísað til tómlætis stefnanda varðandi heimtu kröfunnar og gallaðrar kröfugerðar hans.

Til stuðnings aðalkröfu um sýknu vísar stefndi til vátryggingaskilmála um starfsábyrgðartryggingu fyrir verðbréfafyrirtæki, ákvæða laga nr. 20/1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og reglugerðar nr. 502/1989 um tryggingaskyldu verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja og til reglna vátryggingaréttar um ábyrgðartryggingar og sönnun tjóns. Jafnframt er til stuðnings varakröfu vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins, 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 varðandi fyrningu vaxta og meginreglna um réttaráhrif tómlætis. Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt byggir á lögum nr. 50/1988 enda sé stefndi ekki virðisaukaskattskyldur.

Niðurstaða.

Þegar atvik máls þessa urðu voru lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði í gildi. Í 4. mgr. 1. gr. laga þessara sagði að með verðbréfafyrirtæki væri átt við fyrirtæki sem sé sérstaklega stofnað skv. III kafla laganna til þess að annast verðbréfamiðlun, fjárvörslu og skylda starfsemi fyrir einstaklinga og lögaðila. Þessu næst segir.

„Verðbréfafyrirtæki annast einnig rekstur verðbréfasjóða og sölutryggingu markaðsverðbréfa.“

Í 6. mgr. 1. gr. segir:

„Með "verðbréfasjóði" er átt við sjóð, er samanstendur af skuldabréfum, hlutabréfum eða öðrum auðseljanlegum verðbréfum samkvæmt fyrir fram ákveðinni og kunngerðri fjárfestingarstefnu að því er varðar áhættudreifingu, þar sem almenningi eða þrengri hópi manna er gefinn kostur á að eignast hlutdeild í sjóðnum samkvæmt útgefnum skírteinum er að kröfu eigenda þeirra fást innleyst hjá sjóðnum í reiðufé samkvæmt nánari ákvæðum í reglum sjóðsins.“

Í III kafla laganna eru ákvæði um verðbréfafyrirtæki. Í 2. mgr. 11. gr. segir m.a:

„Verðbréfafyrirtæki má ásamt verðbréfamiðlurum annast verðbréfamiðlun gegn þóknun og því skal einnig heimilt að veita sölutryggingu á markaðsverðbréfum, annast fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila, reka verðbréfasjóði og skylda starfsemi. Öðrum aðilum en verðbréfafyrirtækjum með fullgildu rekstrarleyfi er óheimilt að annast þá starfsemi er að framan greinir eða einkenna sig sem verðbréfafyrirtæki.“

Í 4. mgr. 11. gr. laganna er skilyrðum fyrir leyfi til rekstrar verðbréfafyrirtækis lýst og í e-lið 4. mgr. 11. gr. segir:

„Fyrirtækið setji tryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarkskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.“

Í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 20/1989 segir að ákvæði 4.-9. gr. eigi við um verðbréfafyrirtæki eftir því sem við geti átt. Í 9. gr. laganna segir að verðbréfamiðlari beri eftir almennum reglum að bæta viðskiptamanni sínum það tjón sem hann baki honum með störfum sínum sé ekki mælt fyrir á annan veg í lögunum.

Í 3. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 502/1989 um tryggingaskyldu verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja sem sett er skv. heimild í m.a. 11. gr. laga nr. 20/1989 segir:

„[Í reglugerð þessari merkir] "Viðskiptamaður" einstakling, eða lögaðila sem verðbréfamiðlari eða verðbréfafyrirtæki hefur annast milligöngu um kaup og sölu verðbréfa fyrir.“

Í 3. tl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir:

„[Tryggingin skal vera sem hér segir] Ábyrgðartrygging sem greiðir allt að 3.500.000.00 krónur vegna hvers einstaks tjónsatviks er verðbréfafyrirtæki veldur og rakið verður til gáleysis starfsmanna þess er það ber ábyrgð á, svo og kostnað er af því leiðir. ... “

Í vátryggingarskilmálum 10.1. segir:

„Vátryggt er gegn bótaskyldu, er fellur á vátryggingataka sem verðbréfafyrirtæki, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni vegna gáleysis starfsmanna hans.“

Í IV kafla laga nr. 20/1989 eru ákvæði um verðbréfasjóði. Í 1. mgr. 18. gr. segir að verðbréfafyrirtæki geti rekið einn eða fleiri verðbréfasjóði. Þá segir að verðbréfafyrirtæki komi fram í eigin nafni fyrir hönd verðbréfasjóðs og taki ákvarðanir varðandi sjóðinn í samræmi við rekstrarsamning. Ennfremur kemur fram sú regla að í löggerningum sem varði sjóði í vörslu fyrirtækisins sé skylt að geta þess sjóðs sem verðbréfafyrirtækið kemur fram fyrir hverju sinni. Í a-lið 2. mgr. 18. gr. segir að í samþykktum verðbréfasjóðs skuli koma fram nafn sjóðs og þess verðbréfafyrirtækis sem rekur sjóðinn. Í 4. mgr. segir að verðbréfasjóður skuli hafa samning við verðbréfafyrirtæki um rekstur sjóðsins. Í 1. mgr. 19. gr. segir að í verðbréfsjóðaskrá sem Seðlabanki Íslands haldi skuli skrá hvaða verðbréfafyrirtæki reki verðbréfasjóð og í 2. mgr. kemur fram að í tilkynningu Seðlabanka Íslands um staðfestingu á samþykktum sjóðs skuli taka fram nafn þess verðbréfafyrirtækis sem rekur sjóðinn. Þá segir m.a. í 1. mgr. 21. gr. að nafn verðbréfafyrirtækis skuli koma fram í hlutdeildarskírteini.

Eins og hér að framan er rakið voru náin lögbundin tengsl með verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði samkvæmt lögum nr. 20/1989. Þegar litið er til þessa verður ekki fallist á að verðbréfasjóður hafi talist viðskiptavinur í skilningi e-liðar 4. mgr. 11. gr. laga nr. 20/1989 og er þar með fallist á þá málsástæðu stefnda að Hávöxtunarfélagið sem stefnandi rak samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi sé ekki „viðskiptamaður“ í skilningi fyrrnefndra laga. Samkvæmt þessu verður ekki talið að tryggingarskilmálar þeir sem í gildi voru milli aðila taki til tilviks þessa með því að skýra verður þá með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum og Hávöxtunarfélagið ekki talinn þriðji maður í skilningi 10.1. skilmálanna.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf skal sýkn af öllum kröfum stefnanda Kaupþings hf.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.