Hæstiréttur íslands
Mál nr. 650/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Greiðsla
- Eignarréttur
- Skaðabætur
|
|
Þriðjudaginn 18. janúar 2011. |
|
Nr. 650/2010.
|
HB Grandi hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Greiðsla. Eignarréttur. Skaðabætur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu H hf. við slit L hf. Málið átti rætur að rekja til viðskipta H hf. við félagið J í Litháen vegna kaupa félagsins á vörum frá H hf. H hf. gaf út tvo vörureikninga vegna þessara viðskipta þar sem á voru upplýsingar um tiltekin greiðslufyrirmæli og gjalddaga. Þá kom þar einnig fram að L hf. væri viðskiptabanki H hf., upplýsingar um svokallað SWIFT CODE auðkenni L hf. og bankareikning H hf. Reikningar þessir höfðu ekki verið greiddir þegar Fjármálaeftirlitið setti skilanefnd yfir L hf. 7. október 2008 og færði alla innlenda innlánsreikninga til nýs banka, N hf. L hf. sendi dreifibréf í tölvupósti 17. október 2008 sem m.a. var beint til H hf., þar sem gefnar voru leiðbeiningar um tilteknar breytingar sem gera þyrfti á fyrirmælum viðtakenda bréfanna til viðsemjenda sinna í tengslum við sendingu greiðslna frá útlöndum. L hf. sendi einnig tilkynningu til bankans F í Belgíu 21. október 2008 þar sem mælst var til þess að hætt yrði að taka við innborgun á reikning L hf. þar en þess í stað ætti að beina greiðslum til L hf. inn á annan nánar tiltekinn reikning við annan banka. J gerði ráðstafanir til að greiða skuld sína við H hf. 1. september 2009 fyrir atbeina bankans S í Litháen. 1. október 2009 fékk L hf. tilkynningu um SWIFT kerfið frá bankanum F í Belgíu um að þangað hefði borist greiðsla að tiltekinni fjárhæð sem ætluð væri H hf. Samdægurs lýsti L hf. því yfir að hann teldi greiðsluna ógilda og bæri að endursenda hana greiðanda. Þrátt fyrir þetta ráðstafaði F greiðslunni inn reikning á L hf. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að umrædd greiðsla hafi borist til F sem muni hafa lagt féð inn á reikning í eigu L hf. Leggja verði til grundvallar að yfirdráttarskuld hafi verið á þeim reikningi sem lækkaði með þessari innborgun en sé þó eftir sem áður fyrir hendi. F hefði neitað L hf. um að fá að taka af reikningnum fjárhæð greiðslunnar svo lengi sem yfirdráttarskuld stæði á honum. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að með engu móti yrði rætt um að fé sem svaraði til greiðslunnar væri í vörslum L hf. og enn síður að slíkt fé væri sérgreint í höndum L hf. Af þessum sökum taldi Hæstiréttur ekki vera skilyrði til að H hf. gæti krafist afhendingar umræddrar fjárhæðar frá L hf. í skjóli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var talið að H hf. hafi mátt vera ljóst allt frá því í október 2008 að hann ætti útistandandi kröfur á hendur J samkvæmt vörureikningum sem geymdu orðið rangar upplýsingar um hver væri viðskiptabanki hans en hann hafi þó ekkert gert til að leiðrétta þetta. Því hafi ekki verið haldið fram að litháíski bankinn S hafi leitað upplýsinga hjá L hf. um atriði sem ekki komu fram á vörureikningum H hf. en óhjákvæmilega hafi þurft að hafa vitneskju um til að geta miðlað til hans greiðslu gegnum bankann F. Yrði því að byggja á því að S hafi fundið þessar upplýsingar eftir öðrum leiðum. Þá kom fram í málinu að L hf. hafi með almennri tilkynningu til fjármálafyrirtækja gert það sem ætlast mátti til af honum til að koma í veg fyrir að greiðslur sem senda átti honum yrði beint til F. L hf. gæti því ekki borið skaðabótaábyrgð á því að greiðslan sem ætluð var H hf. hafi borist til F sem neiti nú að sleppa af henni hendi. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2010, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu að fjárhæð 6.187,50 evrur, sem sóknaraðili hefur lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst að þessi krafa verði viðurkennd aðallega með stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga, en að því frágengnu samkvæmt 113. gr. þeirra. Í síðargreindu tilvikunum tveimur krefst hann að fjárhæð kröfunnar beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út tvo vörureikninga 2. og 19. júní 2008 á hendur félagi með heitinu JCS Polivektris í Litháen að fjárhæð samtals 6.253,90 evrur, en 1. september sama ár gaf hann út inneignarreikning til félagsins, sem lækkaði þessa fjárhæð um 206,40 evrur. Á reikningunum voru greiðslufyrirmæli, þar sem meðal annars var tiltekið að gjalddagi væri 30 dögum eftir móttöku vörusendingar og reiknings, varnaraðili væri viðskiptabanki sóknaraðila, svokallað „SWIFT code“ bankans væri LAISISRE og bankareikningur sóknaraðila „(IBAN) IS230101387171715411850389“. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun SWIFT vera heiti á alþjóðlegu samskiptakerfi fjármálafyrirtækja, sem meðal annars sé notað til að koma á framfæri fyrirmælum um greiðslur og tilkynningum, hvort heldur til einstakra fyrirtækja eða allra í senn sem noti þetta kerfi, en innan þess fái hvert fyrirtæki sitt auðkenni, sem í tilviki varnaraðila hafi verið LAISISRE. IBAN mun vera heiti á alþjóðlegum bankareikningsnúmerum, sem að því er sóknaraðila varðar hafi myndast þannig að tíu síðustu tölustafirnir séu kennitala hans, en það, sem þar komi fyrir framan, sé auðkennið á bankareikningi, sem hann hafi haft hjá varnaraðila. Upplýsingar sem þessar mun mega nota til að koma greiðslu milli skuldara og kröfuhafa á þann hátt að viðskiptabanki þess fyrrnefnda flytji fé af reikningi hans til innborgunar á tilgreindan reikning þess síðarnefnda við annan banka. Greiðslumiðlun sem þessi mun geta farið um hendur þriðja bankans, sem taki við fé frá viðskiptabanka greiðandans til innborgunar á reikning hjá sér í eigu viðskiptabanka viðtakandans. Óumdeilt er í málinu að framangreindar upplýsingar á vörureikningum sóknaraðila hafi ekkert sagt til um hvaða þriðja banka mætti nota til að miðla greiðslu á þennan hátt, heldur þurfi viðskiptabanki greiðandans í tilviki sem þessu að afla frekari upplýsinga um þetta, sem virðist meðal annars vera unnt að gera gegnum svokallaða SWIFT kerfið, auk þess sem þær hafi að því er varnaraðila varðar verið aðgengilegar á heimasíðu hans. Fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili lagt fram skrá, sem hann kveður hafa mátt finna á þeirri heimasíðu sumarið 2008 um fjölmarga erlenda banka, sem tækju í þessu skyni við greiðslum til innborgunar á reikninga í eigu hans. Í henni var getið um fjórtán erlenda banka, þar sem varnaraðili hafi haft reikninga til að taka við greiðslum í evrum, þar á meðal Fortis Banque S.A. í Belgíu.
JCS Polivektris hafði ekki greitt skuld sína við sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum reikningum þegar Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Fjármálaeftirlitið tók síðan ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., sem fól meðal annars í sér að innlendir bankareikningar hjá varnaraðila fluttust til nýja bankans, og verður að miða við að meðal þeirra hafi verið sá bankareikningur sóknaraðila, sem getið var um á fyrrnefndum vörureikningum hans. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili sendi dreifibréf í tölvupósti 17. október 2008, sem meðal annars var beint til sóknaraðila, þar sem gefnar voru leiðbeiningar um breytingar, sem gera yrði á fyrirmælum viðtakenda bréfsins til viðsemjenda sinna í tengslum við sendingu greiðslna frá útlöndum, þar á meðal að vísa yrði til nánar tiltekins SWIFT auðkennis Seðlabanka Íslands og greina á annan hátt en áður frá bankareikningsnúmeri. Varnaraðili sendi 21. október 2008 tilkynningu gegnum SWIFT kerfið til Fortis Banque S.A., þar sem mælst var til þess að hætt yrði að taka við innborgunum á reikning varnaraðila hjá honum með númerinu „be8029112130077“, en þess í stað ætti að beina greiðslum í evrum inn á nánar tiltekinn reikning í eigu Seðlabanka Íslands við Dresdner Bank AG í Frankfurt. Þessu svaraði Fortis Banque S.A. með orðsendingu gegnum sama kerfi þremur dögum síðar, þar sem fram kom að fyrirmælum þessum yrði fylgt um allt fé, sem stæði varnaraðila til frjálsrar ráðstöfunar, en fyrir liggur að staða framangreinds reiknings varnaraðila hafi á þessum tíma og allar götur síðan verið neikvæð vegna yfirdráttar. Einnig liggur fyrir að varnaraðili lét frá sér fara almenna tilkynningu á SWIFT kerfinu til allra notenda þess 20. nóvember 2008, þar sem greint var meðal annars frá áðurnefndum aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og að NBI hf. hefði tekið við skuldbindingum vegna innlendra bankareikninga hjá varnaraðila. Þess var og getið að reikningar varnaraðila við erlenda banka væru ekki í notkun og til stæði að loka þeim, en nánari upplýsingar um stöðu mála mætti finna á tiltekinni heimasíðu hans. Þá er þess að geta að NBI hf. sendi frá sér almenna tilkynningu á SWIFT kerfinu 27. nóvember 2008 um að sá banki hefði fengið nýtt auðkenni þar, auk þess sem greint var frá númerum reikninga við erlenda banka, sem nota ætti til greiðslumiðlunar til hans, en fyrir greiðslur í evrum var gefið upp reikningsnúmer við áðurnefndan Dresdner Bank AG.
Hinn 29. september 2009 gerði JCS Polivektris ráðstafanir til að greiða skuld sína við sóknaraðila að fjárhæð 6.047,50 evrur fyrir atbeina banka í Litháen með heitinu SEB. Varnaraðili fékk 1. október sama ár tilkynningu um SWIFT kerfið frá Fortis Banque S.A. um að þangað hafi borist greiðsla með þessari fjárhæð, sem ætluð væri sóknaraðila. Við þessu brást varnaraðili samdægurs með því að senda Fortis Banque S.A. orðsendingu, þar sem lýst var yfir að varnaraðili teldi greiðsluna ógilda og bæri að endursenda hana til greiðandans. Þessi tilmæli virti Fortis Banque S.A. að vettugi og ráðstafaði greiðslunni inn á áðurnefndan reikning varnaraðila nr. be8029112130077. Varnaraðili hefur ekki staðið sóknaraðila skil á þessari greiðslu og ber í því sambandi fyrir sig að hún standi sér ekki til ráðstöfunar. Samkvæmt bréfaskiptum, sem sóknaraðili hefur átt við Fortis Banque S.A. eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, lítur erlendi bankinn svo á að varnaraðili hafi tekið við þessari greiðslu með því að hún hafi farið inn á reikning hans, en hana geti varnaraðili á hinn bóginn ekki tekið til sín svo lengi sem skuld sé á reikningnum vegna yfirdráttar. Að mati erlenda bankans verði sóknaraðili að beina kröfu sinni að varnaraðila, en ekki sér.
Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn, sem gaf út innköllun til kröfuhafa. Sóknaraðili lýsti kröfu 30. október sama ár vegna framangreindra atvika og krafðist greiðslu á þeim 6.047,50 evrum, sem ætlaðar voru honum frá JCS Polivektris, auk 140 evra vegna kostnaðar af kröfulýsingu eða samtals 6.187,50 evrum. Í skrá slitastjórnar um lýstar kröfur var hafnað að viðurkenna þessa kröfu og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu 16. nóvember sama ár. Með því að ekki tókst að jafna ágreining aðilanna á kröfuhafafundum 23. nóvember 2009 og 25. janúar 2010 beindi slitastjórnin honum til héraðsdóms og var mál þetta þingfest af því tilefni 9. apríl 2010.
II
Svo sem að framan greinir barst greiðslan að fjárhæð 6.047,50 evrur, sem litháíski bankinn SEB innti af hendi 29. september 2009 fyrir JCS Polivektris til greiðslu skuldar þess síðarnefnda við sóknaraðila, til Fortis Banque S.A. í Belgíu, sem mun hafa lagt féð inn á reikning þar í eigu varnaraðila. Leggja verður til grundvallar að yfirdráttarskuld hafi verið á þeim reikningi, sem lækkaði með þessari innborgun en sé þó eftir sem áður fyrir hendi. Ljóst er af gögnum málsins að Fortis Banque S.A. hefur neitað varnaraðila um að fá að taka af reikningnum fjárhæð greiðslunnar, svo lengi sem yfirdráttarskuld standi á honum. Að þessu virtu verður með engu móti rætt um að fé, sem svari til þessarar greiðslu, sé í vörslum varnaraðila. Enn síður er sú staða uppi að slíkt fé sé sérgreint í höndum varnaraðila í formi peningaseðla, sem sannanlega tilheyri sóknaraðila, eða á annan hliðstæðan hátt. Af þessum sökum eru engin skilyrði til að sóknaraðili geti samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 krafist afhendingar þessarar fjárhæðar frá varnaraðila í skjóli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans.
Hér að framan var í meginatriðum lýst því, sem fram er komið í málinu um hvernig standa megi að miðlun greiðslu fyrir milligöngu viðskiptabanka. Sóknaraðili gaf sjálfur upplýsingar á vörureikningum sínum til JCS Polivektris um bankareikning hjá varnaraðila, sem greiða mætti skuld samkvæmt þeim inn á. Um þessi greiðslufyrirmæli þurfti hvorki sóknaraðili að hafa samráð við varnaraðila né sá síðarnefndi neitt að vita, enda tók hann ekki fyrir fram að sér að veita sóknaraðila þjónustu af einhverjum toga í tengslum við þetta. Sóknaraðila mátti á hinn bóginn allt frá því í október 2008 vera ljóst að hann ætti útistandandi kröfu á hendur þessum viðskiptamanni samkvæmt vörureikningum, sem geymdu orðið rangar upplýsingar um hver væri viðskiptabanki hans, en ekkert mun hann þó hafa gert til að leiðrétta þetta. Því hefur ekki verið haldið fram í málinu að litháíski bankinn SEB hafi leitað upplýsinga hjá varnaraðila um atriði, sem ekki komu fram á vörureikningum sóknaraðila en óhjákvæmilega þurfti þó að hafa vitneskju um til að geta miðlað til hans greiðslu. Af þeim sökum verður að byggja á því að litháíski bankinn hafi fundið þessar upplýsingar eftir öðrum leiðum, sem hann réði sjálfur. Fram er komið í málinu sem áður segir að varnaraðili hafi á þeim tíma, sem hann lagði enn stund á almenna starfsemi viðskiptabanka, gert öðrum aðgengilegar upplýsingar um tiltekinn reikning sinn við Fortis Banque S.A., sem nota mætti til að miðla greiðslum til viðskiptamanna varnaraðila. Líta verður á hinn bóginn svo á að hann hafi með fyrrnefndri almennri tilkynningu 20. nóvember 2008 til fjármálafyrirtækja, sem NBI hf. fylgdi síðan eftir með annarri slíkri tilkynningu 27. sama mánaðar, gert það, sem ætlast mátti til af honum, til að afturkalla þær upplýsingar og koma þannig í veg fyrir að greiðslum, sem senda ætti honum, yrði beint til Fortis Banque S.A. Varnaraðili getur því ekki borið skaðabótaábyrgð á því að greiðslan á 6.047,50 evrum, sem ætluð var sóknaraðila, hafi borist til síðastnefnda bankans, sem neiti nú að sleppa af henni hendi.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2010.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 7. október sl., var þingfest 9. apríl 2010.
Sóknaraðili er HB Grandi hf., Reykjavík.
Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf.
Sóknaraðili krefst þess að hnekkt verði þeirri ákvörðun slitastjórnar varnaraðila að hafna afhendingu á EUR 6.187,50 til sóknaraðila (krafa nr. 1139 á kröfulýsingarskrá) og að krafa sóknaraðila um afhendingu á EUR 6.187,50 verði viðurkennd utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð EUR 6.187,50 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð EUR 6.187,50 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum.
Sóknaraðili krefst í öllum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins.
Málsatvik
Mál þetta á rætur að rekja til viðskipta sóknaraðila við félagið JCS Polivektris í Litháen vegna kaupa þess félags á vörum frá sóknaraðila. Vegna þessara viðskipta gaf sóknaraðili út tvo reikninga. Annar reikningurinn er nr. R073841 og er útgefinn 2. júní 2008 en hinn reikningurinn er nr. R073849 og er útgefinn 19. júní s.á. Samanlögð fjárhæð reikninganna er EUR 6.047,50.
Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir starfsemi varnaraðila samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Nýi Landsbanki Íslands hf. (nú NBI hf.) var stofnaður og voru innlendar eignir varnaraðila og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.
Varnaraðili var með greiðslumiðlunarreikning í evrum hjá Fortis Banque S.A. í Belgíu.
Seðlabanki Íslands birti frétt 16. október 2008 þar sem m.a. kom fram að bankinn hefði ástæðu til að ætla að greiðslur sem ættu að koma frá erlendum aðilum til íslenskra banka yrðu stöðvaðar á leiðinni og að bankinn hefði lýst því yfir við erlendar lánastofnanir að hann tryggði að allar greiðslur sem bankar sendu um reikninga Seðlabanka Íslands á reikninga innlendra lánastofnana myndu skila sér til eigenda reikninga í viðkomandi lánastofnunum. Í kjölfar fréttar Seðlabankans, eða hinn 17. október 2008, sendi NBI hf. tölvupóst til sóknaraðila (Óskar Sölvason@hbgrandi.is), ,,uppfærður listi v/Settlements insructions“ með viðhengi þar sem fram komu m.a. upplýsingar um nýjan greiðslumiðlunarreikning vegna viðskipta í evrum hjá Dresdner Bank AG í Þýskalandi.
Hinn 21. október 2008 sendi varnaraðili tilkynningu til Fortis banka þar sem gefin voru þau fyrirmæli að taka ekki við innborgunum á greiðslumiðlunarreikninginn. Í framburði Auðar Bjarnadóttur, starfsmanns varnaraðila fyrir dómi kom fram að skeyti sama efnis hefði verið sent á alla banka þar sem Landsbanki Íslands hafði átt greiðslumiðlunarreikninga, með beiðni um að greitt yrði á aðra greiðslumiðlunarreikninga í gegnum Seðlabanka Íslands.
Varnaraðili sendi bankanum ítrekanir sama efnis 20. nóvember 2008 og 4. júní 2009.
Það var ekki fyrr en 29. september 2009 sem JCS Polivektris greiddi höfuðstól reikninga þeirra er sóknaraðili hafði gefið út, inn á umræddan reikning í Fortis banka. Þegar varnaraðili fékk tilkynningu um greiðsluna sendi hann tilkynningu til Fortis banka þar sem móttöku var hafnað og óskað eftir því að greiðslunni yrði skilað til sendanda hennar, JCS Polivektris.
Sóknaraðili lýsti kröfu að höfuðstólsfjárhæð EUR 6.047,50 vegna þessarar greiðslu sem móttekin var hjá varnaraðila 30. október 2009. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila og var bréf þess efnis sent lögmanni sóknaraðila 13. nóvember 2009. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar varnaraðila með bréfi dagsettu 16. nóvember 2009. Mótmæli sóknaraðila voru bókuð á skiptafundi varnaraðila 23. nóvember 2009. Fundur var haldinn 25. janúar 2010 vegna ágreinings um afstöðu slitastjórnar varnaraðila til viðurkenningar á kröfu sóknaraðila. Fundinum var framhaldið þann 8. mars 2010 en ekki tókst að jafna ágreining aðila á þeim fundi. Ákvað slitastjórn varnaraðila því með vísan til 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Aðalkrafa sóknaraðila er á því byggð að krafa hans á hendur varnaraðila sé sértökukrafa um peningaeign í þrotabúið, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Framlagðir vörureikningar sýni með óyggjandi hætti eignarrétt sóknaraðila að umkrafinni fjárhæð. Varnaraðila beri í starfsemi sinni og skipulagi að halda fé í eigu viðskiptavina sérgreindu og aðskildu frá eigin fé og skuldbindingum varnaraðila við aðra aðila, s.s. gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum.
Sóknaraðili bendir á að hin umkrafða fjárhæð hafi verið greidd inn á bankareikning í eigu varnaraðila og skráðum á nafn hans hjá Fortis banka, 29. september 2009. Féð sé því í vörslu varnaraðila og beri honum að standa skil á því til sóknaraðila. Varnaraðili sé skráður eigandi og prókúruhafi reikningsins og geti ráðstafað fjármunum á reikningnum. Samskipti varnaraðila við Fortis banka breyti þar engu um, enda hafi varnaraðili ekki látið loka umræddum reikningi.
Sóknaraðili byggir á því að meintur ágreiningur varnaraðila við Fortis banka sé honum óviðkomandi. Varnaraðila sé skylt að skila fjármunum í eigu sóknaraðila, sem varnaraðili hafi tekið við, til sóknaraðila.
Sóknaraðili mótmælir því að hafa nokkru sinni tekið við fyrirmælum frá varnaraðila um að nota ekki umræddan reikning í Fortis banka. Fullyrðingar varnaraðila virðist byggja á skeyti sendu af NBI hf., dagsettu 27. nóvember 2008, en ekkert verði ráðið af efni þess að hverjum því skeyti hafi verið beint. Ljóst sé hins vegar að það hafi hvorki verið stílað á sóknaraðila né JCS Polivektris. Eftir sem áður hafi umræddur reikningur varnaraðila verið opinn. Þegar varnaraðili hafi fengið tilkynningu um að greitt hafi verið inn á umræddan reikning hafi varnaraðili haft samband við Fortis banka, sem hafi tekið við greiðslunni, og hafnað henni sem ógildri, enda tæki varnaraðili ekki við greiðslum á reikninginn. Sóknaraðili mótmælir efni SWIFT skeyta sem lögð hafi verið fram af hálfu varnaraðila, enda sé óljóst með öllu hvernig þau varpi ljósi á málið. Varnaraðili sé bankastofnun sem hefði án frekari tafa átt að loka umræddum reikningi en svo hafi ekki verið gert. Varnaraðili verði að bera hallann af því.
Varnaraðili haldi því fram að JCS Polivektris sé réttur aðili til að fá greiðsluna, en ekki sóknaraðili, en þeirri afstöðu mótmæli sóknaraðili. Um leið og JCS Polivektris hafi greitt fjárhæð reikninganna inn á reikning varnaraðila í Fortis banka hafi JCS Polivektris efnt skyldur sínar gagnvart sóknaraðila. Féð hafi þannig verið komið í vörslur varnaraðila sem hafi borið að koma fénu til eiganda þess og viðtakanda sem sé sóknaraðili.
Varakrafa sóknaraðila byggir á því að krafa hans njóti stöðu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi umrædd fjárhæð verið greidd inn á reikning í eigu varnaraðila hjá Fortis banka eftir að slitameðferð varnaraðila hafi byrjað. JCS Polivektris hafi greitt inn á framangreindan reikning varnaraðila 29. september 2009, um fimm mánuðum eftir að varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar. Þá hafi umræddur reikningur varnaraðila hjá Fortis banka enn verið opinn og hafi JCS Polivektris greitt inn á reikninginn í góðri trú. Varnaraðili hafi hvorki lokað reikningnum né gefið sóknaraðila fyrirmæli um að ekki skyldi nota umræddan reikning. Í þessu felist bótaskylt athafnaleysi varnaraðila. Lítið sem ekkert verði ráðið af efni SWIFT skeyta eða hvernig þau eða efni þeirra tengist máli þessu. Ekki komi fram hver sé móttakandi umræddra skeyta eða hvenær þau hafi verið send. Framangreind bótakrafa njóti stöðu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 þar sem hún hafi orðið til eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku varnaraðila til slitameðferðar 22. apríl 2009.
Þrautavarakrafa sóknaraðila er reist á því að kröfu sem lýst sé í þrotabú og sem ekki falli undir 109.-112. gr. laga nr. 21/1991 teljist almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili segir fjárhæð kröfunnar miðast við stöðu hennar 29. september 2009, þegar JCS Polivektris hafi millifært fjárhæðina. Auk þess sé krafist áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar er síðar kunni að falla á kröfuna frá úrskurðardegi. Sé þeim kröfum einnig lýst sem sértökukröfum samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 gagnvart aðalkröfu. Þá sé krafist áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar er síðar kunni að falla á kröfuna frá úrskurðardegi. Sé þeim kröfum einnig lýst sem kröfum samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 gagnvart varakröfu og þrautavarakröfu.
Um lagarök vísar sóknaraðili til lögfestra og ólögfestra reglna kröfuréttar og kauparéttar. Þá vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ákvæða kaupalaga nr. 50/2000 og ákvæða samningalaga nr. 7/1936.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir því í fyrsta lagi að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur sér. Óumdeilt sé að varnaraðili hafi verið viðskiptabanki sóknaraðila á þeim tíma þegar sóknaraðili gaf út reikninga vegna viðskipta félagsins við JCS Polivektris. Einnig sé óumdeilt að JCS Polivektris hafi ekki greitt reikningana á gjalddögum þeirra, þ.e. 2. og 19. júlí 2008. Greiðsla vegna reikninganna hafi ekki verið send inn á greiðslumiðlunarreikning varnaraðila hjá Fortis banka fyrr en um 14 mánuðum eftir gjalddaga þeirra, þ.e. 29. september 2009. Varnaraðili mótmælir því að hann hafi verið viðskiptabanki sóknaraðila þegar JCS Polivektris hafi loks greitt umrædda reikninga. Í millitíðinni, eða 7. október 2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir starfsemi varnaraðila og skipað bankanum skilanefnd og síðan stofnað nýjan banka, NBI hf., sem hafi tekið við innlendri starfsemi varnaraðila, þ.á m. greiðslumiðlun fyrir sóknaraðila. NBI hf. hafi þá tekið við hlutverki varnaraðila sem viðskiptabanki sóknaraðila og tilkynnt sóknaraðila um nýjan greiðslumiðlunarreikning 17. október 2008 sem sóknaraðili hafi notfært sér í viðskiptum sínum frá þeim tíma. Þá hafi varnaraðili a.m.k. í þrígang áður en JCS Polivektris sendi greiðslu til Fortis banka gefið bankanum fyrirmæli um að taka ekki við innborgunum inn á greiðslumiðlunarreikning varnaraðila hjá Fortis.
Varnaraðili mótmælir því með vísan til framangreinds að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur sér. Það sé greiðandinn JCS Polivektris og/eða sóknaraðili sjálfur sem sé réttur aðili til að fá greiðsluna leiðrétta hjá Fortis banka sem hafi haldið greiðslunni eftir, að því er virðist, með ólögmætum hætti og sé kröfunni ranglega beint að varnaraðila, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að JCS Polivektris eða sóknaraðili hafi átt í samskiptum við Fortis banka vegna málsins eða hafi reynt að ná slíkri leiðréttingu fram. Varnaraðili hafi hins vegar ítrekað sent Fortis banka fyrirmæli um að taka ekki við greiðslum inn á umræddan reikning og óskað eftir leiðréttingu á millifærslunni. Þá hafi greiðslan átt sér stað um 14 mánuðum eftir gjalddaga krafnanna og tæpu ári eftir að NBI hf. hafi tekið yfir eignir og skuldbindingar varnaraðila. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi sent viðskiptamönnum sínum, þ.á m. JCS Polivektris, tilkynningu með nýjum greiðslufyrirmælum til samræmis við tilkynningu NBI hf. um nýjan greiðslumiðlunarreikning. Þá megi ljóst vera að ef ekki hefði komið til greiðsludráttar af hálfu JCS Polivektris hefði varnaraðili getað sinnt hlutverki sínu sem greiðslumiðlunarbanki með því að skila greiðslunni til sóknaraðila í júlí 2008.
Í öðru lagi mótmælir varnaraðili því að honum verði gert að greiða sóknaraðila kröfuna utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Hinir umkröfðu fjármunir séu í vörslu Fortis banka en ekki varnaraðila og eigi sóknaraðili því ekki sérgreindan eignarrétt í ákveðinni peningafjárhæð í vörslu varnaraðila. Skilyrði fyrir greiðslu utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 séu því ekki uppfyllt.
Í þriðja lagi mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um rétthæð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu teljist til búskrafna kröfur sem orðið hafi til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum. Varnaraðili mótmælir því að kröfu sóknaraðila megi rekja til samninga slitastjórnar varnaraðila eða bótaskyldrar háttsemi hennar. Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili hafi hvorki látið loka umræddum reikningi né gefið sóknaraðila fyrirmæli um að ekki skyldi nota reikninginn vegna erlendra greiðslna og að í því hafi falist bótaskylt athafnaleysi af hálfu varnaraðila. Varnaraðili hafi ítrekað sent fyrirmæli til Fortis banka vegna greiðslumiðlunarreiknings varnaraðila í evrum hjá bankanum um að taka ekki við innborgunum inn á reikninginn og NBI hf. hafi tilkynnt sóknaraðila um breyttan greiðslumiðlunarreikning vegna viðskipta í evrum. Hafi sóknaraðili orðið fyrir tjóni megi rekja það til þess athafna- og gáleysis sóknaraðila að tilkynna ekki JCS Polivektris um breyttan greiðslumiðlunarreikning til að inna greiðslu sína af hendi.
Verði talið að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila sé þess krafist að hún njóti stöðu almennrar kröfu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Um þetta vísar varnaraðili til fyrrgreindra málsástæðna.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna kaupa- og kröfuréttar. Þá vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Varnaraðili heldur því fram að sýkna beri hann af kröfum sóknaraðila vegna aðildarskorts, þar sem sóknaraðili eigi ekki fjárkröfu á hendur sér.
Gjalddagar þeirra reikninga er sóknaraðili gaf út á hendur JCS Polivektris voru 2. og 19. júlí 2008. Á þeim tíma var varnaraðili viðskiptabanki sóknaraðila og fóru greiðslur í evrum í gegnum greiðslumiðlunarreikning varnaraðila hjá Fortis banka. Fyrirtækið JCS Polivektris greiddi reikningana hins vegar ekki fyrr en 29. september 2009 og fór greiðslan í gegnum fyrrgreindan greiðslumiðlunarreikning varnaraðila hjá Fortis banka. Þá þegar hafði Fjármáleftirlitið tekið yfir starfsemi varnaraðila og komið á laggirnar nýjum banka, NBI hf. sem m.a. hafði tekið yfir greiðslumiðlun fyrir sóknaraðila. Hafði hinn nýi banki tilkynnt sóknaraðila um nýjan greiðslumiðlunarreikning með tölvuskeyti, 17. október 2008. Þá liggur fyrir í málinu að varnaraðili hafði ítrekað áður en greiðslan fór frá JCS Polivektris inn á greiðslumiðlunarreikning inn í Fortis banka, gefið bankanum fyrirmæli um að taka ekki við innborgunum inn á greiðslumiðlunarreikning í þeim banka.
Fyrir liggur að greiðsla sú sem viðsemjandi sóknaraðila, JCS Polivektris, greiddi inn á greiðslumiðlunarreikninginn, hefur ekki verið áframgreidd til varnaraðila. Greiðslunni virðist vera haldið inni á greiðslumiðlunarreikningnum í Fortis banka, án þess að varnaraðili fái nokkuð að gert og þrátt fyrir að ítrekað hafi verið farið fram á það við Fortis banka að bankinn tæki ekki við innborgunum á greiðslumiðlunarreikning varnaraðila. Þegar framangreint er virt verður að telja að kröfu sóknaraðila sé ranglega beint að varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., og verður að sýkna hann af kröfum sóknaraðila með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila, HB Granda hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í málskostnað.