Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/1998


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Biðlaun
  • Ómerking
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                                                                                                 

Mánudaginn 29. mars 1999.

Nr. 386/1998.

Ólöf Markúsdóttir

(Gunnar Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

og gagnsök

Kröfugerð. Innheimtulaun. Ómerking. Frávísun frá héraðsdómi.

Ó var í hópi starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins sem taldi sig eiga rétt á biðlaunum úr hendi ríkisins þegar hlutafélag tók við rekstri verksmiðjanna. Eftir að ríkið hafði í Hæstarétti verið dæmt til að greiða einum starfsmanni úr þessum hópi biðlaun, voru biðlaunin gerð upp ásamt dráttarvöxtum við aðra þá starfsmenn síldarverksmiðjanna sem nutu stöðu opinberra starfsmanna, þ.á m. Ó. Ó hafði leitað aðstoðar lögmanns vegna máls þessa. Eftir að ríkið hafði greitt biðlaunin, stefndi hún ríkinu til greiðslu þeirra. Var krafa hennar orðuð svo að krafist væri biðlauna, dráttarvaxta og málskostnaðar að frádreginni þeirri fjárhæð sem ríkið hafði þegar greitt. Talið var hugsanlegt að Ó ætti rétt á greiðslu innheimtulauna úr hendi ríkisins, en þar sem fyrrgreind kröfugerð þótti ekki endurspegla þann ágreining aðila sem leitað var lausnar á, né heldur voru sóknargögn við hann miðuð, var málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 17. september 1998. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér biðlaun 1.508.854 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 122.925 krónum frá       1. ágúst 1993 til 1. september sama ár, af 245.850 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 368.775 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 491.700 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 623.210 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1994, af 746.135 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 869.060 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 991.985 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 1.114.910 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 1.237.835 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 1.368.760 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár en af 1.508.854 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann skaðabóta sömu fjárhæðar og með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til frádráttar kröfunum komi 2.274.450 krónur, sem gagnáfrýjandi greiddi 20. desember 1996.

Málinu var gagnáfrýjað 13. nóvember 1998. Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar niðurstöðu héraðsdóms um annað en málskostnað. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi var í hópi fyrrum starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins sem leitaði aðstoðar Starfsmannafélags ríkisstofnana eftir að SR-mjöl hf. hafði tekið við rekstri síldarverksmiðjanna 1. ágúst 1993. Á árinu 1995 var höfðað mál til innheimtu biðlaunakröfu eins starfsmannsins. Eftir að héraðsdómur gekk í því máli í janúar 1996 hófst lögmaður starfsmannafélagsins handa við að afla upplýsinga um aðra starfsmenn verksmiðjanna, sem hugsanlega ættu samsvarandi réttindi. Innheimtubréf vegna sjö þessara starfsmanna, þar á meðal aðaláfrýjanda, voru send 5. júní 1996. Hæstiréttur kvað upp dóm í fyrrgreindu máli 7. nóvember 1996 og var þar fallist á biðlaunakröfur starfsmannsins. Biðlaunakröfur vegna annarra starfsmanna voru eftir það ítrekaðar og auk þess settar fram kröfur vegna tveggja starfsmanna í viðbót. Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins greindi lögmanni aðaláfrýjanda í héraði frá því 25. nóvember 1996 að óskað hefði verið eftir upplýsingum frá SR-mjöli hf. um ráðningarkjör starfsmannanna. Biðlaun ásamt dráttarvöxtum voru síðan greidd inn á launareikninga starfsmannanna 20. desember sama ár án þess að innheimtuþóknun væri greidd eða samráð haft við lögmenn starfsmannafélagsins um greiðsluna.

Krafa aðaláfrýjanda er um greiðslu biðlauna auk dráttarvaxta og málskostnaðar, allt að frádreginni innborgun gagnáfrýjanda.

Af gögnum málsins má ráða að biðlaun ásamt dráttarvöxtum voru greidd aðaláfrýjanda eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 7. nóvember 1996, H.1996.3417. Af greiðslunum varð ráðið hvað verið var að greiða. Aðaláfrýjandi taldi fyrir dómi að biðlaunin hefðu verið réttilega útreiknuð ásamt dráttarvöxtum og kvað gagnáfrýjanda ekki skulda sér biðlaun. Verður því að telja að biðlaunakrafan sé greidd ásamt dráttarvöxtum. Mál þetta var höfðað 11 mánuðum eftir að greiðslan hafði verið innt af hendi og er höfuðstóll kröfunnar miðaður við útreikning gagnáfrýjanda. Málið er þó höfðað eins og ágreiningur sé um biðlaunin og dráttarvexti af þeim. Bera kröfugerð og sóknarskjöl þessa merki. Af málinu má hins vegar ráða að raunverulegur ágreiningur aðilanna varðar greiðslu innheimtuþóknunar.

Lögmaður aðaláfrýjanda hafði, þegar biðlaunin voru greidd, lagt í nokkra vinnu vegna innheimtu kröfunnar og getur því aðaláfrýjandi átt að greiða honum sanngjarna þóknun þess vegna. Var því hugsanlegt að gera þá kröfu á hendur gagnáfrýjanda að hann bætti aðaláfrýjanda þann kostnað, sem hann hefði haft af innheimtunni. Sú krafa rúmast hins vegar ekki innan kröfugerðar aðaláfrýjanda í héraði, eins og hún var fram sett, og sóknargögnin voru ekki miðuð við slíka kröfu. Þar sem kröfugerð verður að endurspegla þann ágreining aðila, sem leitað er lausnar á, og í sóknargögnum ber að leggja réttan grundvöll að máli verður ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er, eins og málsatvikum er háttað, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

                                                    Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1998.

Árið 1998, þriðjudaginn 30. júní er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-5440/1997: Ólöf Markúsdóttir gegn íslenska ríkinu, kveðinn upp svohljóðandi dómur:

 Mál þetta sem dómtekið var 2. júní sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólöfu Markúsdóttur, kt. 130943-7569, Hlíðarvegi 19, Siglufirði, gegn íslenska ríkinu með stefnu sem birt var 11. nóvember 1997.

 Dómkröfur stefnanda eru: Aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda biðlaun að fjárhæð 1.508.854 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 122.925 kr. frá 1. ágúst 1993 til 1. september 1993, af 245.850 kr. frá þeim degi til 1. október 1993, af 368.775 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 1993, af 491.700 kr. frá þeim degi til 1. desember 1993, af 623.210 kr. frá þeim degi til 1. janúar 1994, af 746.135 kr. frá þeim degi til 1. febrúar 1994, af 869.060 kr. frá þeim degi til 1. mars 1994, af 991.985 kr. frá þeim degi til 1. apríl 1994, af 1.114.910 kr. frá þeim degi til 1. maí 1994, af 1.237.835 kr. frá þeim degi til 1. júní 1994, af 1.368.760 kr. frá þeim degi til 1. júlí 1994 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist skaðabóta sömu fjárhæðar og með sömu dráttarvaxtakröfu. Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að stefndi verði dæmdur til að greiða virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu. Allt að frádregnum 2.274.450 kr. sem greiddar voru stefnanda 20. desember 1996.

 Dómkröfur stefnda eru: Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

I.

Málsatvik séð frá sjónarhóli stefnanda.

 Stefnandi var starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins, þegar SR-mjöl hf. tók yfir rekstur Síldarverksmiðjanna 1. ágúst 1993. Stefnandi réð sig til hins nýja félags þegar við stofnun þess. Stefnandi fékk laun sín greidd fyrirfram, greiddi iðgjöld í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og var félagi í Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Stefnandi var því ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er hann gegndi starfi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Með lögum nr. 20/1993 var ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag til að taka við rekstri Síldarverksmiða ríkisins. Á þeim grundvelli varð til hlutafélagið SR-mjöl hf. og tók það við rekstri Síldarverksmiðjanna þann 1. ágúst 1993.

Í 7. gr. laga nr. 20/1993 kom fram að 14. gr. laga nr. 38/1954 ætti ekki við um þá starfsmenn sem tækju við starfi hjá SR-mjöli hf., en síðarnefnda greinin fjallaði um biðlaun ríkisstarfsmanna ef staða þeirra væri lögð niður og sambærileg staða hjá ríkinu stæði ekki til boða.

Stefnanda var boðið starf hjá SR-mjöli hf. sem hún þáði. Stefnandi telur hins vegar að lög nr. 20/1993 geti ekki orðið til þess að hún sé svipt réttindum sem hún hafði áunnið sér sem ríkisstarfsmaður, skv. 1. gr. laga nr. 38/1954. Verði lagastoð til sviptingarinnar hins vegar talin fyrir hendi, telur stefnandi sig eiga að fá bætur fyrir þá sviptingu réttinda sem varð með l. nr. 20/1993.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 7. nóvember 1996 í máli íslenska ríkisins gegn Guðnýju Árnadóttur, þar sem fyrrum starfsmanni Síldarverksmiðja ríkisins voru dæmd biðlaun vegna niðurlagningar stöðu hans hjá verksmiðjunni var með bréfi dags. 18. nóvember 1996 sett fram krafa um greiðslu biðlauna til stefnanda. Þann 20. desember 1996 greiddi stefndi 1.641.637 kr. inn á launareikning stefnanda. Sundurliðun þeirrar greiðslu er að finna í gögnum málsins. Stefnda hefur ekki talið sér skylt að bæta stefnanda þann kostnað sem hún hefur óhjákvæmilega hlotið af aðstoð lögmanns við innheimtu biðlauna. Því sé málssókn nauðsynleg.

II.

Málsatvik séð frá sjónarhóli stefnda.

Stefndi lýsir málsatvikum á eftirfarandi hátt. Stefnandi hafi verið starfsmaður Síldarverksmiðjanna og sé nú starfsmaður SR-mjöls. Þegar niðurstaða hafi legið fyrir í máli Guðnýjar Árnadóttur gegn ríkissjóði, í Hæstaréttarmálinu nr. 90/1996 þann 7. nóvember 1996, hafi verið óumdeilt að stefnandi hafi átt rétt til greiðslu biðlauna með vísan til 14. gr. laga nr. 38/1954. Stefnanda hafi þá verið greidd biðlaun með dráttarvöxtum þann 20. desember 1996. Fjárhæð biðlaunanna sé ekki umdeild, né útreikningur dráttarvaxta miðað við greiðsludag. Eigi að síður höfði stefnandi mál þetta til greiðslu biðlauna ásamt dráttarvöxtum.

III.

Framburður stefnanda.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kannaðist ekki við að ríkið skuldaði sér biðlaun.

Í málinu liggur frammi minnisblað Önnu Sigríðar Örlygsdóttur.

Anna Sigríður Örlygsdóttir sem er starfsmaður fjármálaráðuneytisins hafði ekki tök á því að staðfesta minnisblaðið fyrir dómi, en lögmaður stefnanda kvaðst líta á það sem staðfest væri.

Í minnisblaðinu rekur Anna Sigríður samskipti sín við lögmann stefnanda og starfsmenn SR-mjöls vegna frágangs á biðlaunagreiðslum til fyrrum starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins. Þar sem þeim atriðum eru gerð ítarleg skil í öðrum köflum dómsins þykir ekki ástæða til að rekja það frekar.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

 Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hún hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Aðalkrafan sé reist á réttindum stefnanda sem ríkisstarfsmanns, en samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi hún átt rétt til biðlauna í tólf mánuði frá því að starf hennar var lagt niður. Ekki sé vafi á því að starf stefnanda sem ríkisstarfsmanns hafi verið lagt niður er SR-mjöl hf. hafi tekið til starfa og yfirtekið rekstur Síldarverksmiðja ríkisins. Stefnandi vísar til 7. gr. laga nr. 20/1993 og umfjöllunar í greinargerð um þá grein. Þá vísar stefnandi til sambærilegra tilvika sem Hæstiréttur hafi dæmt um í Hrd. 1964:936, 1964:942, 1964:948, 1964:954 og 1990:452.

Við niðurlagningu stöðunnar telji stefnandi að réttindi hennar til biðlauna hafi orðið virk og þau verði ekki tekin af með almennum lögum eins og tilraun hafi verið gerð til með 7. gr. laga nr. 20/1993.

 Stefnandi telji að 7. gr. laga nr. 20/1993 brjóti í bága við jafnræðisreglu þá sem víða sé byggt á í stjórnarskrá Íslands og alþjóðasáttmálum sem Ísland hafi gerst aðili að. Vitnað er sérstaklega til 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 2. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Stefnandi telji það ekki standast gagnvart stjórnarskránni og tilvitnuðum alþjóðasáttmálum að taka þennan þrönga afmarkaða hóp út úr þeim stóra hópi ríkisstarfsmanna, sem njóti verndar 14. gr. laga nr. 38/1954, og taka af honum biðlaunaréttinn loks er hann verði virkur. Í greinargerð með lögum nr. 20/1993 komi fram að fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins hafi verið 50 og af þeim hafi 14 greitt iðgjöld í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Það sé því ljóst að ekki hafi verið um almenna lagasetningu að ræða, þvert á móti hafi verið um að ræða lagasetningu sem feli í sér að áunnin og lögbundin réttindi þröngs og afmarkaðs hóps hafi verið afnumin vegna þess að þau séu að verða virk. Stefnandi telji að löggjafanum geti því aðeins talist heimilt að skerða réttindi þegnanna, með þeim hætti sem réttindi stefnanda hafi verið skert, með því að skerðingin sé almenn, fyrir henni séu gild rök og hagsmunir sem ætlunin hafi verið að ná fram með lagasetningunni séu að mun meiri en þeir sem hafi verið skertir með henni. Stefnandi telji engum þessara skilyrða hafa verið fullnægt í máli þessu. Til frekari stuðnings máli sínu vísar stefnandi til Hrd. 1992:1962.

 Stefnandi heldur því fram að það megi ráða af texta 7. gr. laga nr. 20/1993 og greinargerð með frumvarpi að lögunum, að forsenda ákvæðisins hafi verið sú að fastráðnum starfsmönnum yrðu tryggð sambærileg störf hjá SR-mjöli hf. og þeir hafi áður haft hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Það sé hins vegar ómögulegt þar sem starf hjá hlutafélagi geti aldrei orðið sambærilegt starfi hjá ríkisfyrirtæki með þeirri vernd sem lög nr. 38/1954 veita. Hlutafélag geti ekki veitt stefnanda þá vernd sem hann njóti sem ríkisstarfsmaður. Ríkisstarfsmenn njóti t.d. aðildar að Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og sérstakra réttinda í veikinda- og slysatilvikum. Þar sé einnig meira starfsöryggi en gerist og gengur. En það sem sé mikilvægast er að ríkisstarfsmenn njóti réttar til biðlauna sé staða þeirra lögð niður. Þessi réttindi verði stefnanda ekki tryggð í starfi sínu hjá hinu nýja hlutafélagi. Þessa röngu forsendu fyrir 7. gr. laga nr. 20/1993 telji stefnandi valda því að hin umdeilda grein svipti hana ekki rétti samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954.

 Stefnandi telji jafnframt að niðurstaða á þann veg að hin umdeilda lagagrein verði til þess að svipta hana biðlaunaréttinum, opni leið til þess að fara í kringum biðlaunaréttinn, með því að stofna hlutafélag um starfsemi sem leggja á niður, áður en til niðurlagningarinnar komi. Þar með telji stefnandi að rómað starfsöryggi ríkisstarfsmanna færi fyrir lítið. En fyrir starfsöryggið hafi ríkisstarfsmenn goldið með lægri launum en tíðkist fyrir sambærileg störf á hinum almenna markaði.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður gerir hún þá kröfu til vara, að fá sér tildæmdar bætur fyrir sviptingu biðlaunaréttarins, jafnar þeim sem biðlaun hefðu orðið, hefði biðlaunarétturinn ekki verið afnuminn með lögum nr. 20/1993.

Stefnandi telur óumdeilanlegt að staða sú sem hún gegndi hjá Síldarverk­smiðjum ríkisins hafi verið lögð niður. Við niðurlagningu stöðunnar hafi komið fram skilyrði til greiðslu biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Svipting biðlauna­réttarins hafi verið sérstök aðgerð en ekki almenn og standist hún því ekki gagnvart 67. gr. (nú 72. gr.) stjórnarskrárinnar nema fullar bætur komi fyrir sem séu sömu fjárhæðar og biðlaun hefðu orðið. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að biðlaunarétturinn njóti tvímælalaust verndar 67. gr. (nú 72. gr.) stjórnarskrárinnar þar sem skilyrði hans hafi komið fram með því að starf stefnanda hafi ekki verið lagt niður með sömu lögum og afnámu biðlaunaréttinn. Stefnandi telur því að stefndi geti ekki lagt niður stöðu sína með lögum án þess að fullar bætur komi fyrir. Fullar bætur séu að mati stefnanda bætur sömu fjárhæðar og biðlaun hefðu orðið. Stefnandi telur jafnframt að sjónarmið sem fram komi í rökstuðningi fyrir aðalkröfu um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðasáttmála, sem Ísland eigi aðild að, eigi við um varakröfuna.

 Stefnufjárhæð í aðal- og varakröfu grundvalli stefnandi á útreikningi frá fjár­málaráðuneyti á því hver föst laun stefnanda hefðu orðið mánuðina frá ágúst 1993 til og með júlí 1994. Til fastra launa, í skilningi 14. gr. laga nr. 38/1954, telji stefnandi vera laun samkvæmt launaflokki sínum, fasta umsamda yfirvinnu og desemberuppbót og orlofsuppbót. Stefndi hafi þegar greitt innborgun inn á kröfu stefnanda að fjárhæð 2.274.450 kr.

 Biðlaun telji stefnandi gjaldfalla á sama hátt og ef hún hefði haldið starfi sínu óbreyttu. Sé því gerð krafa um hver mánaðarlaun frá þeim tíma er þau hefðu átt að koma til útborgunar og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 krafist af þeim frá sama tíma.

Aðalkrafa sé reist á réttindum stefnanda sem ríkisstarfsmanns skv. lögum nr. 38/1954 og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og tilgreindum sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

Varakrafan grundvallist á 67. gr. (nú 72. gr.) stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og tilgreindum alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

Krafa um dráttarvexti er reist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Er þess krafist að stefnanda verði bættur sá kostnaður sem hún hefur óhjákvæmilega orðið fyrir vegna aðstoðar lögmanna við innheimtu biðlauna úr höndum stefnda. Um fjárhæð málskostnaðar er vísað til fyrirliggjandi málskostnaðarreiknings. Krafa um kostnað vegna virðisaukaskatts á aðkeypta lögmannsþjónustu sé skaðleysiskrafa, reist á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

V.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er haldið fram að enginn ágreiningur hafi verið um skyldu stefnda til greiðslu biðlauna eftir að dómur Hæstaréttar frá 7. nóvember 1996 í máli nr. 90/1996 hafi legið fyrir, enda hafi biðlaunin verið gerð upp strax og búið hafi verið að afla gagna og sannreyna þær upplýsingar sem fram hafi komið um launakjör starfsmannanna. Engin þörf hafi verið á lögmannsaðstoð í samskiptum starfsmannanna við fjármálaráðuneytið. Það eitt að einstaklingur kjósi að leita sér aðstoðar lögmanns í samskiptum við þriðja aðila feli ekki í sér skyldu þriðja aðila til að greiða fyrir lögmannsaðstoð og þaðan af síður þegar enginn ágreiningur sé um réttmæti kröfu, eftir að dómur Hæstaréttar hafi gengið í máli sem stefndi hafi áður lýst yfir að hefði fordæmisgildi.

Lögmannsstofan, sem fari með mál þetta f.h. stefnanda, hafi þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 25. nóvember 1997 níu mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu biðlauna vegna niðurlagningar á stöfum stefnenda hjá Síldarverksmiðjum ríkisins 1. ágúst 1993. Málin séu höfðuð í nafni stefnenda sem öllum hafi verið greidd biðlaun 20. desember 1996 ásamt dráttarvöxtum, en að frádregnum staðgreiðsluskatti, sbr. greiðsluseðil dags. 20. desember 1996. Sýknukröfur stefnda í öllum málunum níu séu fyrst og fremst byggðar á því að stefnukröfurnar séu þegar greiddar. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi óuppgerða lögvarða kröfu á hendur stefnda. Á milli aðila máls séu engin óuppgerð lögskipti.

Héraðsdómur í máli Guðnýjar Árnadóttur hafi verið kveðinn upp 5. janúar 1996. Áfrýjunarstefna hafi verið gefin út 27. febrúar 1996 og hún birt Gesti Jónssyni hrl. 6. mars 1996. Greinargerð áfrýjanda sé dagsett 3. apríl 1996 og greinargerð stefndu til Hæstaréttar sé dags. 16. apríl 1996. Í greinargerð stefndu segi: "Stefnda telur málskostnaðarákvörðun í héraði ekki vera í samræmi við umfang og fordæmisgildi málsins og fer því fram á að Hæstiréttur ákvarði málskostnað bæði fyrir héraði og Hæstarétti."

Eigi að síður hafi lögmannsstofan sent bréf dags. 5. júní 1996 vegna sjö stefnenda af níu þar sem sett hafi verið fram krafa um greiðslu biðlauna ásamt innheimtu­kostn­aði. Bréfi lögmannsstofunnar hafi verið svarað með bréfi starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 1. júlí 1996. Þar sé bent á að lögmannsstofunni sé kunnugt um að dómi héraðsdóms hafi verið áfrýjað. Efnisleg afstaða til biðlaunakröfu annarra fyrrum starfsmanna Síldarverksmiðjanna verði tekin þegar dómur Hæstaréttar liggi fyrir.

Eftir að dómur Hæstaréttar hafi verið kveðinn upp 7. nóvember 1997 hafi þannig verið ljóst að starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins myndi greiða öðrum fyrrverandi starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins sem féllu undir lög nr. 38/1954 biðlaun ef þeir óskuðu eftir því.

Lögmannsstofan hafi óskað eftir uppgjöri á dómi Hæstaréttar í málinu nr. 90/1996 með bréfi til ríkislögmanns, dags. 11. nóvember 1996. Ríkissjóðsávísun hafi verið gefin út daginn eftir og lögð inn á bankareikning lögmannsstofunnar 19. sama mánaðar.

Afgreiðsla launa starfsmanna, sem hafi átt rétt á greiðslu biðlauna í kjölfar dóms Hæstaréttar, hafi farið fram hjá Síldarverksmiðjunum en ekki hjá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Því hafi þurft að afla gagna frá SR-mjöli hf. til að reikna fjárhæð biðlauna í hverju tilviki svo og dráttarvexti. Hinn 25. nóvember 1996 hafi ráðuneytið óskað eftir umsögn og upplýsingum um launa- og ráðningarkjör þeirra sömu starfsmanna sem nú hafi höfðað mál til heimtu biðlauna. Afrit þess bréfs hafi verið sent lögmönnum Mörkinni 1 og tekið fram að afgreiðsla biðlaunanna myndi frestast þar til umbeðnar upplýsingar lægju fyrir. Svarbréf SR-mjöls hf. hafi borist starfsmannaskrifstofunni 10. desember 1997. Þá hafi verið hafist handa við útreikning á launum og dráttarvöxtum. Ráðuneytið hafi jafnframt fengið frekari upplýsingar frá Kristjáni Erni Ingibergssyni, fjármálastjóra SR-mjöls og fyrrum starfsmanni Síldarverksmiðja ríkisins, en hann sé einn stefnenda. Kristján Örn hafi m.a. veitt upplýsingar um bankareikninga sem starfsmenn hafi kosið að biðlaunin yrðu greidd inn á og hafi upplýst þá, að beiðni starfsmannaskrifstofunnar, um fyrirhugaðan greiðsludag. Af hálfu þeirra hafi verið lögð á það áhersla að greiðslur færu fram fyrir áramót m.a. vegna væntanlegs fjármagnstekjuskatts.

Þótt lögmannsstofan hafi ritað ráðuneytinu öðru sinni innheimtubréf 18. nóvember 1996, og þá fyrir starfsmennina níu sem hafi átt rétt til biðlauna eftir að dómur Hæstaréttar hafði gengið, telur stefndi það ekki fela í sér skyldu til greiðslu biðlauna starfsmannanna inn á reikning lögmannsstofunnar auk lögmannskostnaðar. Enginn ágreiningur hafi verið um skyldu stefnda til greiðslu biðlauna eftir að dómur Hæstaréttar frá 7. nóvember 1996 lá fyrir enda hafi þau verið gerð upp strax og búið hafi verið að afla gagna og sannreyna þær upplýsingar sem fram hafi komið um launakjör starfsmanna. Engin þörf hafi verið á lögmannsaðstoð í samskiptum starfsmanna við ráðuneytið, enda hafi ekki verið til að dreifa neinum ágreiningi við þá, hvorki um málsatvik, lagatúlkun né upphæð biðlauna. Það eitt að einstaklingur kjósi að leita sér aðstoðar lögmanns í samskiptum við þriðja aðila feli ekki í sér skyldu þriðja aðila til að greiða fyrir lögmannsaðstoð og þaðan af síður þegar enginn ágreiningur sé um réttmæti kröfu eftir að dómur Hæstaréttar hafi gengið í máli sem stefndi hafi áður lýst að hefði fordæmisgildi.

Stefndi ítrekar að málinu sé stefnt inn til greiðslu biðlauna sem séu sannanlega greidd. Stefnan sé nánast orðrétt og efnislega samhljóða stefnu útgefinni 23. júní 1995 í máli Guðnýjar Árnadóttur gegn ríkissjóði Íslands, en í því máli hafi verið deilt um skyldu til greiðslu biðlauna. Stefnandi byggi kröfugerð sína á sömu lagasjónarmiðum og þar hafi verið gert þrátt fyrir að ekki sé um þau deilt eftir dóm Hæstaréttar frá 7. nóvember 1996. Málinu sé nú eigi að síður stefnt inn til greiðslu biðlauna, launa sem stefnanda hafi þegar verið greidd að fullu. Stefnandi hefur ekki gert neinar athugasemdir við fjárhæð greiðslunnar og móttekið hana fyrir rúmu ári, án fyrirvara um að krafan hafi ekki verið efnd.

Þrátt fyrir að stefnukrafan sé í engu sundurliðuð með því að hluti greiðslunnar 20. desember 1996 hafi gengið til greiðslu á öðru en biðlaunum og dráttarvöxtum og þrátt fyrir að mál þetta sé því ekki höfðað til greiðslu á innheimtukostnaði, þá sé það mat stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi þurft að greiða kostnað vegna uppgjörs ríkissjóðs á biðlaunagreiðslu til hennar þar sem enginn reikningur eða greiðslukvittun þess efnis hafi verið lögð fram. Þar sem umkrafin og óumdeild fjárhæð biðlauna auk dráttarvaxta til greiðsludags hafi þegar verið innt af hendi til stefnanda beri að sýkna hann af öllum kröfum í máli þessu. Þar sé vísað til almennra reglna kröfuréttar um endalok kröfu við greiðslu, sbr. og 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Þá bendir stefndi á að starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hafi annast allan útreikning á biðlaunum og dráttarvöxtum og enn sé ítrekað að stefnandi hafi engum athugasemdum hreyft við þann útreikning. Stefnukrafan sé í samræmi við útreikning starfsmannaskrifstofunnar en ekki innheimtubréf lögmannsstofunnar dags. 18. nóvember 1996. Á það sé bent að lögmannsskrifstofan hafi í engu tilviki reiknað launin rétt, ýmist ofreiknað þau eða vanreiknað. Í þessu máli nemi mismunurinn 8.000 kr.

VI.

Niðurstaða.

 Stefnandi kom fyrir dóm og kvað stefnda ríkið hvorki skulda sér biðlaun né dráttarvexti af þeim. Þegar litið er á dómkröfur stefnanda sést að í raun er ekki verið að krefja um greiðslu biðlauna. Enda er óumdeilt að þau hafa verið greidd þann 20. desember 1996 þó að stefnandi krefjist greiðslu þeirra allt að þeirri upphæð sem greidd hefur verið. Dómkrafan er með öðrum orðum ekki til staðar. Í kröfurétti gildir sú almenna regla að endalok kröfu eru við greiðslu hennar. Stefnandi hefur því ekki með málatilbúnaði sínum sýnt fram á að hún hafi lögvarða hagsmuni af að fá niðurstöðu í málinu.

Í kröfugerð sinni leggur stefnandi útreikning starfsmannaskrifstofu fjármála­ráðuneytisins til grundvallar og er fjárhæð kröfunnar því einnig óumdeild.

Ljóst er að biðlaun auk dráttarvaxta voru greidd eins fljótt og auðið var eftir að dómur í máli nr. 90/1996 var kveðinn upp í Hæstarétti, en með bréfi 1. júlí 1996 til lögmannsstofu stefnanda var viðurkennt af hálfu stefndu fordæmisgildi dómsins. Síðara innheimtubréf lögmannsstofunnar frá 18. nóvember 1996 var því óþarft. Af því sem hér að framan hefur verið rakið er ljóst að í öllum frágangi biðlaunagreiðslna naut starfsmannaskrifstofan í engu aðstoðar lögmannsstofunnar heldur starfsmanna SR-mjöls hf., fyrrum starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins.

Tæpu ári eftir greiðslu biðlauna auk dráttarvaxta, inn á bankareikning stefn­anda, höfðar hún málið ásamt átta öðrum umbjóðendum lögmannsstofunnar, sem einnig höfðu verið starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins en voru nú starfsmenn SR-mjöls hf. Stefna sú sem birt var í þessum níu málum virðist vera að mestu leyti sama stefna og í Hæstaréttarmálinu nr. 90/1996: Guðný Árnadóttir gegn íslenska ríkinu, í lítið breyttri mynd, þrátt fyrir að aðstæður væru nú allt aðrar. Með vísan til þess sem hér að framan greinir virðist skína í gegn sú fyrirætlan stefnanda og lögmanns hans að fá dóm um málskostnaðarkröfu lögmannsstofunnar Lögmanna Mörkinni 1 og að stefnda íslenska ríkið beri þann kostnað. Það er stefnda íslenska ríkinu óviðkomandi hvort stefnandi kýs að ráða sér lögmann til að koma fram fyrir hans hönd í samskiptum aðila.

Stefndi íslenska ríkið gaf ekkert tilefni til að mál þetta yrði höfðað enda krafa um biðlaun auk dráttarvaxta fyrir löngu greidd og móttekin án fyrirvara. Er málshöfðun þessi því með öllu þarflaus og mátti umboðsmanni stefnanda vera ljóst að dómkröfur í máli þessu væru haldlausar. Þegar litið er til þess sem hér að framan er rakið er stefnda íslenska ríkið sýknað af öllum kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Halla Bachmann Ólafsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

 Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Ólafar Markúsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.