Hæstiréttur íslands
Mál nr. 737/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 30. október 2015. |
|
Nr. 737/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. nóvember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur ákæra verið gefin út á hendur varnaraðila fyrir brot á útlendingalögum og skjalafals. Þá liggur fyrir að varnaraðila var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2015 gert að sæta farbanni til 30. sama mánaðar klukkan 16. Með vísan til lokamálsliðar 7. mgr. 29. gr. nr. 96/2002 um útlendinga tók sóknaraðili 15. október 2015 ákvörðun um að varnaraðila yrði gert að halda sig á afmörkuðu svæði.
Í 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 segir að heimilt sé að úrskurða útlending í gæsluvarðhald ef hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá alþjóðalögreglunni Interpol hefur varnaraðili verið sakaður um alvarleg ofbeldisbrot og vopnalagabrot. Þá hafa tveir starfsmenn [...] kært varnaraðila fyrir hótun 8. október 2015 auk þess sem hann var kærður fyrir 13. sama mánaðar fyrir kynferðisbrot. Að lokum liggur fyrir að varnaraðili hefur þrívegis farið út fyrir það afmarkaða svæði sem honum var bannað með ákvörðun sóknaraðila 15. október 2015. Að öllu þessu virtu er fullnægt framangreindu skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 25. nóvember 2015 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 25. nóvember 2015, kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögregla hafi nú í haldi mann að nafni X, en um sé að ræða hælisleitanda frá [...]. X hafi komið til landsins [..]. júlí 2015 ásamt 15 ára dreng [...], f.d. [...]. (Mál lögreglu nr. 008-2015-[...]) Þeir hafi verið teknir í tollskoðun en grunur hafi vaknað um að þeir ferðuðust á fölsuðum [...] kennivottorðum. Í fyrstu hafi kærði haldið því fram að þeir væru frá [...] en síðan viðurkennt að kennivottorðin væru fölsuð og að þeir væru frá [...]. Á meðan rannsókn málsins stóð hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en hann sæti nú farbanni samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[...]/2015 frá 2. október 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi gefið út ákæru á hendur X fyrir brot gegn útlendingalögum og skjalafals og verður málið væntanlega þingfest á næstu dögum.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi einnig til rannsóknar brot kærða vegna sviptingar valds eða umsjár yfir barni (mál lögreglu nr. 008-2015-[...])
Hinn 13. október sl. hafi verið kært til lögreglu meint kynferðisbrot kærða (mál lögreglu nr. 007-2015-[...]), A hælisleitandi hafi gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem að hann hafi greint frá meintu kynferðisbroti kærða gegn sér á móttökustöð hælisleitenda að [...] og lýst því að kærði hefði reynt að nauðga sér en A hefði barist á móti honum og náð að ýta manninum af sér. Kærði hafi neitað sök og sagt að um stimpingar milli þeirra hafi verið að ræða eftir að A hafi reynt að stela fjármunum frá kærða.
Hinn 26. október sl. hafi tveir starfsmenn [...] lagt fram kæru vegna meintra hótana, sem hafi átt sér stað þann 8. október sl. (Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]) Hafi starfsmenn lýst atvikum með þeim hætti að kærði hefði þegið úrræði á vegum stofnunarinnar þar sem að hann hefði sótt um hæli hér á landi. Kærða hafi verið tilkynnt að fleiri hælisleitendur þurfi að dvelja í herbergi með honum og hafi hann þá sagst vera með tegund af flogaveiki sem valdi því að hver sá sem kæmi inn á herbergið yrði hálsbrotinn. Starfsmenn hefðu sagst meta það þannig að hann væri til alls líklegur og hefði þeim ekki staðið á sama þegar að hann hefði látið þessi orð falla.
Hinn 15. október sl. hafi Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tekið ákvörðun um að kærða yrði gert að halda sig á svæði sem afmarkaðist við 100 metra radíussvæði umhverfis dvalarstað hans að [...] í Reykjavík, mælt frá miðju hússins. Hafi Lögreglustjóri talið að kærði hefði sýnt af sér hegðum sem gæfi til kynna að af honum stafaði hætta, ákvörðunin hafi verið birt kærða kl. 17.05 þann sama dag.
Hinn sama dag hafi kærði brotið gegn ákvörðun lögreglu þegar að hann fór á skrifstofu [...]. Aftur hafi kærði brotið þau skilyrði sem honum hafi verið sett með ákvörðun lögreglu hinn 26. október sl. þegar hann hafi mætt öðru sinni á skrifstofu [...] og hringt þar bjöllu en hafi ekki verið hleypt inn. Í gær þ.e. þriðjudaginn 27. október sl. hafi kærði verið staddur í [...] þrátt fyrir ákvörðun lögreglu um að kærða væri gert að halda sig á afmörkuðu svæði, kærði hafi í kjölfarið verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Lögregla hafi aflað upplýsinga erlendis frá þar sem fram komi að kærði hafi m.a. verið sakaður um kynferðisbrot, líkamsárás, vopnalagabrot og tilraun til manndráps, þá hafi kærði verið í fangelsi í [...] fyrir nauðgun. Hann hafi einnig stöðu grunaðs í málum er varði kynferðislega misnotkun á einstaklingi yngri en sextán ára, ólöglega atvinnustarfsemi og fyrir mansal.
Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 sé heimilt að úrskurða útlending í gæsluvarðhald sýni hann af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Einnig geti lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Það sé mat lögreglu með hliðsjón af þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu að kærði hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta, ekki síst í ljósi sögu kærða enda liggi fyrir gögn frá Interpol þar sem fram komi að kærði hafi verið sakaður um alvarleg brot, telji lögregla þannig að skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 séu fyrir hendi. Ljóst sé að lögregla hafi þegar fullreynt það úrræði að láta kærða dvelja á „afmörkuðu svæði“ en kærði ítrekað brotið þá ákvörðun lögreglu.
Af öllu framansögðu virtu og með vísan til gagna málsins telji lögregla að skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og að hætta kunni að stafa af honum.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 25. nóvember 2015, kl. 16.00.
Í 29. gr. laga nr. 96/2002 er lögð sú skylda á útlending, sem dvelst hér á landi, að upplýsa hver hann er. Þar er gerð nánari grein fyrir rannsóknarúrræðum stjórnvalda til að varpa ljósi á það. Í 7. mgr. greinarinnar, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008, kemur framað ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Einnig getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.
Fyrir liggur að gefin hefur verið út ákæra á hendur kærða vegna brota á útlendingalögum og fyrir skjalafals, þar sem hann hafi framvísað fölsuðum kennivottorði og sætir kærði farbanni með það mál er til meðferðar fyrir dómstólunum. Þá liggur og fyrir að með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hinn 15. október sl. var lagt fyrir kærða að halda sig á afmörkuðu svæði sem afmarkaðist við 100 metra radíus umhverfis dvalarstað hans að [...], Reykjavík. Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að kærði hafi þrívegis brotið gegn þeirri ákvörðun með því að hafa tvívegis farið að skrifstofu [...] og mætt á skrifstofu [...]. Kærði hefur gefið þá skýringu á ferðum sínum að hann hafi verið að leita sér aðstoðar við að nálgast lyf sem ávísað hafði verið á hann á Landspítala háskólasjúkrahúsi vegna veikinda hans. Af henti hann í dómnum lyfseðilinn. Þá kom í ljós við fyrirtöku málsins að starfsmaður [...] hafði leiðbeint kærða um að mæta á skrifstofuna til að fá leiðbeiningar um hvert hann ætti að snúa sér til að fá afgreiðslu lyfjanna. Kærði var síðan handtekinn er hann mætti á skrifstofuna.
Varðhald felur í sér afar íþyngjandi frelsissviptingu. Ekki má beita útlending varðhaldi nema það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og því verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í ljósi skýringa kærða á ferðum hans utan þess svæðis sem honum var með ákvörðun lögreglustjóra gert að halda sig verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að þau úrræði teljist ófullnægjandi eða að atvik séu með þeim hætti að það réttlæti svo íþyngjandi ráðstöfun sem felst í varðhaldi og að fullnægt sé skilyrðum b-liðar 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu þykir ekki ástæða til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðsborgarsvæðinu og verður henni því hafnað.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.