Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Birting
|
|
Miðvikudaginn 8. júlí 2009. |
|
Nr. 362/2009. |
Geir Walter Kinchin(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Birting.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu G að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að nauðungarsölu tiltekinnar fasteignar skyldi fram haldið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 25. febrúar 2009 um að nauðungarsölu fasteignarinnar að Snorrabraut 75, Reykjavík, fastanúmer 201-1910, skyldi fram haldið. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Til vara krefst hann að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 25. febrúar 2009 um að nauðungarsölu fasteignarinnar skuli fram haldið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Skilja verður úrskurð héraðsdóms svo að hann sé reistur á þeirri forsendu að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi verið hæfur til að taka til meðferðar og ákvörðunar mótmæli sóknaraðila. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Geir Walter Kinchin, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2009.
Mál þetta var þingfest 27. mars 2009 og tekið til úrskurðar 20. maí sl.
Sóknaraðili, Geir Walter Kinchin, krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, hinn 25. febrúar 2009, um að nauðungarsala eignarinnar að Snorrabraut 75 í Reykjavík, fnr. 201-1910, skuli fram haldið, en jafnframt verði tekin til greina sú krafa sóknaraðila, að nauðungarsölu á fasteign hans verði hafnað. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, Íslandsbanki hf., gerir þær dómkröfur að krafa sóknaraðila um að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, hinn 25. febrúar 2009 að nauðungarsala fasteignarinnar að Snorrabraut 75, Reykjavík, fnr. 201-1910, verði felld úr gildi, verði hrundið og að nauðungarsala fasteignarinnar fari fram.
I
Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að fjárnám það, sem krafa varnaraðila um nauðungarsölu á fasteigninni er grundvölluð á, sé markleysa að því leytinu til að hann hafi ekki verið boðaður í fjárnámið með löglegum hætti.
Samkvæmt birtingarvottorði sé því haldið fram að boðun í fjárnámið hafi verið birt fyrir Ingu Guðnadóttur 2. h. og sagt að hún sé í sama húsi. Þetta sé beinlínis rangt þar sem í upplýsingum frá Þjóðskrá komi fram að engin með þessu nafni búi að Snorrabraut 75 og sú eina sem beri nafnið, Inga Sigurrós Guðnadóttir, hafi verið skráð að Vindási 4 í Reykjavík frá árinu 2000. Af þessum upplýsingum megi einnig ráða að engin sé skráð í Þjóðskrá undir nafninu Inga Guðnadóttir.
Ennfremur liggi fyrir yfirlýsing frá Þór Tómasi Bjarnasyni, íbúa til níu ára að Snorrabraut 75, 2. hæð, þess efnis að hann kannist ekki við né hafi haft afspurn af Ingu Guðnadóttur. Af þessu sökum telji sóknaraðili að fjárnámið geti ekki orðið grundvöllur uppboðsheimildar, sbr. 6. gr. laga nr. 90/1991.
Sóknaraðili hafi þannig aldrei fengið löglega boðun í fjárnámið og ekki heldur fengið vitneskju um það fyrr en honum hafi verið tilkynnt um nauðungarsöluna með bréfi Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 3. nóvember 2008. Kærufrestur vegna fjárnámsins hafi þá verið löngu liðinn.
Í öðru lagi séu kröfur sóknaraðila á því reistar að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi verið vanhæfur til að taka til meðferðar og ákvörðunar mótmæli sóknaraðila með vísan til þess að hann hafi þurft að taka afstöðu til verka starfsmanns sem framkvæmdi fjárnámið.
Krafan um málskostnað sé reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
II
Varnaraðili byggir á að birting boðunar í fjárnám hafi farið fram á vegum Sýslumannsins í Reykjavík og verið gerð af stefnuvotti tilnefndum af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ekkert hafi komið fram sem hnekki birtingu boðunarinnar en sennilegt verði að teljast að Inga Guðnadóttir hafi verið að Snorrabraut 75 þann 11. júní 2008.
III
Fyrir liggur að nauðungarsala sú er mál þetta snýst um, og Sýslumaður ákvað að fram yrði haldið 25. febrúar sl., er grundvölluð á fjárnámi sem gert var hjá sóknaraðila að honum fjarstöddum hinn 19. júní 2008 í fasteigninni Snorrabraut 75, fnr. 201-1910.
Í 1. mgr. 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er kveðið á um að gerðarþola skuli tilkynnt um framkomna aðfararbeiðni og hvenær fyrirhugað sé að aðför fari fram. Í 2. mgr. 21. gr. er kveðið á um að tilkynningu samkvæmt 1. mgr. skuli senda gerðarþola með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta honum með einum stefnuvotti.
Byggir sóknaraðili aðallega á því að þar sem að birting boðunar til fjárnámsins hafi ekki verið lögmæt og honum því ekki kunnugt um það fyrr en kærufrestir voru liðnir beri að taka dómkröfur hans til greina.
Samkvæmt birtingarvottorði því sem frammi liggur í málinu var tilkynning um aðförina birt af stefnuvotti á lögheimili sóknaraðila að Snorrabraut 75 í Reykjavík fyrir Ingu Guðnadóttur 2 h, miðvikudaginn 11. júní 2008 kl. 15:08. Tengsl við sóknaraðila eru sögð þau að hún sé í sama húsi.
Efnisatriði birtingarvottorðsins uppfylla þannig kvæði 1. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um efni birtingarvottorðs.
Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laganna telst efni birtingarvottorðs stefnuvotts rétt þar til hið gagnstæða sannast. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að efni birtingarvottorðsins sé rangt.
Það er því niðurstaða dómsins að boðun hafi verið birt sóknaraðila með lögformlegum hætti.
Samkvæmt því verður tekin til greina dómkrafa varnaraðila um að hafnað verði kröfu sóknaraðila í málinu.
Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Geir Walter Kinchin, um að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, hinn 25. febrúar 2009 um að nauðungarsala fasteignarinnar að Snorrabraut 75, Reykjavík, fnr. 201-1910, skuli fram haldið, verði felld úr gildi, og að nauðungarsölu á fasteigninni verði hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.