Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Þriðjudaginn 7. júlí 2015.

Nr. 422/2015.

Ósk ehf.

(Einar Þórarinn Magnússon fyrirsvarsmaður)

gegn

Icelandic Quality Seafood ehf.

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Ó ehf. var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem félagið höfðaði á hendur I ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 12. júní 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar í þessum þætti málsins í héraði og kemst sú krafa því ekki að fyrir Hæstarétti. Þá hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur því heldur ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Sóknaraðili höfðaði málið til heimtu fjárkröfu á grundvelli skjals sem ber heitið „Skuldbindandi yfirlýsing um sölu á unnum rækjuafurðum“. Verður ekki talið að sakarefni málsins sé þannig vaxið að 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar standi því í vegi að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að þriggja vikna frestur sóknaraðila, Óskar ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar hefst við uppsögu þessa dóms.

Sóknaraðili, Ósk ehf., greiði varnaraðila, Icelandic Quality Seafood ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar föstudaginn 29. maí sl., er höfðað af Ósk ehf., Óðinsvöllum 6, Reykjanesbæ, á hendur Icelandic Quality Seafood hf., Hafnarstræti 97, Akureyri.

      Í málinu gerir stefnandi aðallega þá kröfu að stefnda verði gert að greiða sér 13.171.591 krónu auk dráttarvaxta frá 15. ágúst 2014, til vara að hann verði dæmdur til greiðslu sömu fjárhæðar auk dráttarvaxta frá 3. mars 2015, til þrautavara að hann verði dæmdur til greiðslu 6.832.064 króna auk dráttarvaxta frá 15. ágúst 2014, en til þrautaþrautavara að hann verði dæmdur til greiðslu sömu fjárhæðar auk dráttarvaxta frá 3. mars 2015. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

      Málið var þingfest 24. mars sl., en við fyrirtöku á reglulegu dómþingi 21. apríl sl. óskaði lögmaður stefnda að bókað yrði að stefnanda yrði gert skylt að leggja fram tryggingu til greiðslu málskostnaðar, með vísan til 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Var sú krafa áréttuð í þinghaldi 29. maí sl. 

      Stefnandi mótmælir kröfunni.

      Til stuðnings þeirri kröfu að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu vísar stefndi til yfirlits um færslur á bankareikningi stefnanda frá 2. febrúar sl. og endurrits úr gerðarbók sýslumannsins á Suðurnesjum frá 20. maí sl., um árangurslaust fjárnám hjá stefnanda. Stefndi kveður sér hafa orðið það ljóst við yfirferð gagna málsins eftir þingfestingu þess að telja mætti stefnanda ófæran um greiðslu málskostnaðar. Eftir það hafi árangurslaust fjárnám farið fram hjá stefnanda. Verði því að telja stefnanda ógreiðslufæran samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

      Stefnandi byggir á því að krafa stefnda sé of seint fram komin, en hana hefði átt að hafa uppi við þingfestingu málsins, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þá er á því byggt að í málinu liggi aðeins fyrir yfirlit um stöðu eins bankareiknings í eigu stefnanda og gefi það ekki rétta mynd af fjárhagslegri stöðu félagsins. Jafnframt hafi framangreind aðfarargerð verið kærð til héraðsdóms, svo sem boðað hafi verið með bókun í gerðabók.

Niðurstaða

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga um meðferð einkamála segir að ef tilefni komi fyrst fram til kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu megi ekki telja orð 1. mgr. 133. gr. útiloka að hún verði tekin til greina. Stefndi reisir kröfu sína annars vegar á yfirliti um færslur á bankareikningi sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins og hins vegar á aðfarargerð, sem síðar fór fram. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að krafan sé of seint fram komin.

Í framangreindu yfirliti um færslur á bankareikningi stefnanda kemur fram að 23. desember sl. hafi staða reikningsins verið neikvæð sem nemur 13.514.198 krónum. Þá liggur fyrir endurrit úr gerðabók sýslumannsins á Suðurnesjum þar sem kemur fram að 20. maí sl. hafi verið tekin fyrir beiðni um fjárnám hjá stefnanda fyrir kröfu að fjárhæð 77.567.225 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Kemur fram að af hálfu stefnanda hafi kröfunni verið mótmælt og hafi stefnandi ekki orðið við áskorun um að greiða hana. Að beiðni gerðarbeiðanda hafi fjárnámi verið lokið án árangurs. Með vísan til framangreinds hefur stefnanda ekki tekist að að hnekkja fram komnum líkum á því að hann sé ófær um að greiða málskostnað, verði sá kostnaður felldur á hann í málinu. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt stefnandi hafi mótmælt þeirri kröfu sem lá til grundvallar beiðni um fjárnám og skotið gerðinni til héraðsdóms. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, verður fallist á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu, sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur. Ber sóknaraðila að setja hana á þann hátt og innan þess frests sem í úrskurðarorði greinir.

Ekki er krafist málskostnaðar í málinu.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Stefnanda, Ósk ehf., er skylt að setja tryggingu í formi peninga eða bankaábyrgðar innan þriggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar, að fjárhæð 750.000 krónur til stefnda, Icelandic Quality Seafood ehf., fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu.