Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-73
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 5. apríl 2022, sem barst réttinum 11. maí sama ár, leitar Augustin Dufatanye leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. febrúar 2022 í máli nr. 433/2021: Ákæruvaldið gegn Augustin Dufatanye á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á dvalarstað sínum haft samræði við brotaþola með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði og honum gert að greiða brotaþola 1.800.000 krónur í miskabætur.
4. Leyfisbeiðandi tekur fram að með áfrýjun vilji hann ná fram ómerkingu á dómi Landsréttar og heimvísun málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, en til vara verði krafist sýknu og að því frágengnu mildun refsingar. Hann byggir á því að áfrýjun málsins lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu auk þess sem málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að ekki liggi fyrir sönnun um meint ölvunarástand brotaþola þegar ætlað brot eigi að hafa átt sér stað. Auk þess sé alfarið ósannað að brotaþoli hefði ekki getað spornað við verknaðinum. Þá vísar hann til þess að ákæruvaldið hafi ekki tekið skýrslu af tilgreindu vitni sem hefði getið borið um meint ölvunarástand brotaþola.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.