Hæstiréttur íslands
Mál nr. 511/2017
Lykilorð
- Skuldabréf
- Ábyrgð
- Sjálfskuldarábyrgð
- Útivist
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2017. Hann krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skyldu stefndu Höllu Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur til að greiða sér 4.277.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2013 til greiðsludags, svo og um skyldu stefndu Halldóru Jónu Sölvadóttur til að greiða sér óskipt með stefndu Höllu 3.689.159 krónur með vöxtum á sama hátt og að framan greinir. Áfrýjandi krefst þess á hinn bóginn að héraðsdómi verði breytt á þann veg að stefnda María Guðrún Guðjónsdóttir verði dæmd til að greiða óskipt með stefndu Höllu 4.277.497 krónur og stefndi Kristmundur Magnússon óskipt með öllum öðrum stefndu 1.559.410 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum af nánar greindum fjárhæðum frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Til frádráttar kröfum komi innborganir á 10.000 krónum 2. apríl 2014 og 635.242 krónum 25. ágúst 2017. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu Halla og Kristmundur hafa ekki látið málið til sín taka.
Stefnda María krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en þó þannig að til frádráttar kröfu áfrýjanda, sem þar var tekin til greina á hendur henni, komi innborgun hennar 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur. Til vara krefst hún þess að fjárhæð kröfu áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda Halldóra krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gaf stefnda Halla út skuldabréf til áfrýjanda 3. febrúar 2006 vegna námslána. Í skuldabréfinu var meðal annars kveðið á um heimild áfrýjanda til að fylla inn í eyðu í texta þess fjárhæð heildarskuldar lántakans við námslok, en fjárhæðin yrði framreiknuð eftir vísitölu neysluverðs við útfyllingu bréfsins. Upp frá því yrði skuldin verðtryggð með sömu vísitölu og bæri tiltekna ársvexti. Endurgreiðsla á skuldinni átti að hefjast að liðnum tilgreindum tíma eftir að lántakinn lyki námi og yrðu þá greiddar tvær afborganir á ári, annars vegar föst greiðsla 1. mars og hins vegar svonefnd viðbótargreiðsla 1. september, en í skuldabréfinu voru nánari ákvæði um hvernig þær yrðu ákveðnar. Ráðstafa átti hverri greiðslu fyrst til uppgjörs á áföllnum vöxtum og síðan inn á höfuðstól með verðbótum, en lánstími skyldi vera ótilgreindur þar til skuldin yrði að fullu greidd. Tekið var fram að gjaldfallnar afborganir og vextir bæru dráttarvexti frá gjalddaga, en áfrýjanda væri heimilt að gjaldfella skuldina alla án fyrirvara eða uppsagnar vegna verulegra vanskila, sem teldust fyrir hendi ef greiðsla drægist fimmtán daga eða lengur. Þá kom fram í fyrirsögn skuldabréfsins að það væri „með sjálfskuldarábyrgð“, en um hana sagði eftirfarandi í meginmáli þess: „Neðangreind sjálfskuldarábyrgð gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu einu sinni eða oftar uns skuldin er að fullu greidd. Látist ábyrgðarmaður eða hann fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem sjóðurinn setur, getur LÍN krafist þess að lántakandi fái nýjan ábyrgðarmann í hans stað. Verði lántakandi ekki við því getur LÍN stöðvað allar frekari lánveitingar til lántakanda og gjaldfellt lánið.“ Með ódagsettri áritun á skuldabréfið gekkst faðir stefndu Höllu, Sveinbjörn G. Guðjónsson, í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu áfrýjanda á grundvelli þess, en þó með hámarksfjárhæðinni 6.500.000 krónur, sem tæki breytingum eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunntöluna 240,7 stig.
Fyrir liggur að stefnda Halla fékk greidd út námslán frá áfrýjanda, sem féllu undir skuldabréfið, í fimm skipti á tímabilinu 6. febrúar 2006 til 17. júlí 2007 og var fjárhæð þeirra, samtals 2.311.157 krónur, bundin vísitölu frá útborgunardegi hverju sinni. Ábyrgðarmaðurinn Sveinbjörn lést 20. júlí 2007 og var ekkju hans, stefndu Halldóru, veitt leyfi til setu í óskiptu búi 16. ágúst sama ár. Við það féll á hana skuldbinding Sveinbjörns við áfrýjanda, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í málatilbúnaði áfrýjanda segir að á dánardegi Sveinbjörns hafi ábyrgð hans náð til námslána stefndu Höllu að fjárhæð samtals 2.101.232 krónur og hafi „hámark ábyrgðar hans“ verið „fært niður í þá fjárhæð“.
Stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008 skjal á eyðublaði frá áfrýjanda með fyrirsögninni: „Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð“. Neðan við þessa fyrirsögn var vísað til þess að lántakinn væri stefnda Halla, tilgreint var númer láns, sem var það sama og fram kom á áðurnefndu skuldabréfi, og væri fjárhæð lánsins 2.460.021 króna með áföllnum verðbótum. Um „tilefni viðbótarábyrgðar“ sagði eftirfarandi: „Ábyrgð vantar þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hefur verið takmörkuð eða felld niður. Neðangreind ábyrgðarfjárhæð er tilgreind með hliðsjón af upplýsingum sjóðsins. Ef lántakandi vill breyta henni eða tilgreina fleiri en einn ábyrgðarmann verður að tilkynna það til LÍN og útbúa nýtt ábyrgðareyðublað. Ekki er hægt að tilgreina ábyrgðarmann með hærri fjárhæð en 7.000.000 kr.“ Í framhaldi af þessu kom fram að „staða ábyrgðar m.v. vísitöluna 281,8“ væri 2.460.022 krónur, en þetta væri „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“, sem Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekið á sig. Um ábyrgðina, sem stefnda María gekkst undir, var þess getið að fjárhæð hennar, 3.000.000 krónur, yrði bundin vísitölu neysluverðs með grunntölunni 271,0 stig og sagði jafnframt eftirfarandi: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól að framangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu framangreinds námsláns in solidum með undirskrift minni.“ Daginn eftir að þetta skjal var undirritað eða 28. febrúar 2008 fékk stefnda Halla greitt út frá áfrýjanda námslán að fjárhæð 413.364 krónur.
Stefndi Kristmundur, eiginmaður stefndu Höllu, skrifaði 16. júlí 2008 undir skjal á eyðublaði frá áfrýjanda, sem einnig bar fyrirsögnina: „Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð“, og var á sama hátt og áður greinir vísað til þess að skjalið varðaði námslán stefndu Höllu, sem næmu 2.876.924 krónum með áföllnum verðbótum. Um tilefni þessarar viðbótarábyrgðar sagði: „Ábyrgð vantar vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Neðangreind ábyrgðarfjárhæð er tilgreind með hliðsjón af upplýsingum sjóðsins. Ef lántakandi vill breyta henni eða tilgreina fleiri en einn ábyrgðarmann verður að tilkynna það til LÍN og útbúa nýtt ábyrgðareyðublað. Ekki er hægt að tilgreina ábyrgðarmann með hærri fjárhæð en 7.000.000 kr.“ Undir yfirskriftinni: „Staða ábyrgðar m.v. vísitöluna 282,3“ var greint frá nafni annars vegar Sveinbjörns G. Guðjónssonar og tekið fram að „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“, sem hann hafi gengist undir, væri 2.464.386 krónur og hins vegar stefndu Maríu, en fjárhæð ábyrgðar hennar væri 3.125.092 krónur. Tekið var fram að ábyrgð stefnda Kristmundar yrði bundin við fjárhæðina 1.000.000 krónur, sem háð yrði breytingum á vísitölu neysluverðs með grunntölunni 271,0 stig. Ofan við undirskrift stefnda Kristmundar var sami texti og fram kom samkvæmt áðursögðu í yfirlýsingunni, sem stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008.
Eftir gögnum málsins tók stefnda Halla ekki frekari námslán hjá áfrýjanda. Í bréfi til hennar 26. október 2010 vísaði áfrýjandi til þess að á árinu 2011 yrðu liðin tvö ár frá því að hún hafi síðast fengið námslán eða skilað upplýsingum um „lánshæfan námsárangur“. Bæri því áfrýjanda að „loka skuldabréfi“ og yrði í því sambandi miðað samkvæmt úthlutunarreglum hans við lok skólaárs 29. júní 2009. Í tilkynningu „um frágang skuldabréfs“, sem áfrýjandi sendi síðan stefndu Höllu 1. febrúar 2011, var greint frá því að fjárhæð námslána hennar, sem féllu undir áðurgreint skuldabréf, væri samtals 3.724.817 krónur miðað við vísitölu neysluverðs 365,5 stig. Stæði stefnda María í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri fjárhæð allri, en stefndi Kristmundur fyrir 1.348.708 krónum og Sveinbjörn G. Guðjónsson fyrir 3.190.695 krónum af henni. Væri „lokunardagur skuldabréfs“ 29. júní 2009 og bæri skuldin vexti frá 30. sama mánaðar, en gjalddagi fyrstu afborgunar yrði 30. júní 2011. Þessu til samræmis fyllti áfrýjandi inn í eyðu á skuldabréfinu, sem stefnda Halla gaf út 3. febrúar 2006, fjárhæðina 3.424.182 krónur og grunnvísitölu 336,0 stig. Sú fjárhæð er í raun sú sama og fram kom í fyrrgreindri tilkynningu áfrýjanda til stefndu Höllu 1. febrúar 2011 að teknu tilliti til vísitölustiga.
Samkvæmt gögnum málsins var fyrsta afborgun af skuldabréfinu, sem var á gjalddaga 30. júní 2011 og nema átti 108.330 krónum, greidd með dráttarvöxtum 19. október sama ár. Eins var næsta afborgun greidd 19. júlí 2012, en gjalddagi var 1. mars sama ár og fjárhæð hennar 113.991 króna að frátöldum dráttarvöxtum. Á hinn bóginn var hvorki greidd þriðja afborgun af skuldabréfinu að fjárhæð 119.554 krónur, sem var á gjalddaga 1. mars 2013, né sú fjórða að fjárhæð 123.505 krónur með gjalddaga 1. mars 2014. Fyrir liggur að áfrýjandi tilkynnti stefndu öllum um þessi vanskil, en í bréfum hans til þeirra 4. nóvember 2014 var síðan greint frá því að eftirstöðvar skuldarinnar, 4.034.438 krónur, hefðu verið gjaldfelldar vegna vanskilanna og voru stefndu krafin um greiðslu á þeirri fjárhæð auk áðurgreindra gjaldfallinna afborgana frá árunum 2013 og 2014, sem væru alls 243.059 krónur.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 20. apríl 2016. Í endanlegri kröfugerð fyrir héraðsdómi krafði hann stefndu Höllu sem aðalskuldara samkvæmt skuldabréfinu um greiðslu á 4.277.497 krónum eða samanlagða fjárhæð afborgananna frá 2013 og 2014 og gjaldfelldra eftirstöðva skuldarinnar. Þá krafðist áfrýjandi þess að stefndu Maríu yrði aðallega gert að greiða sér sömu fjárhæð á þeim grunni að ábyrgð hennar frá 27. febrúar 2008 tæki til allra námslána stefndu Höllu, en til vara 618.801 krónu, sem væri fjárhæð námslánsins, sem stefnda Halla fékk samkvæmt áðursögðu 28. febrúar 2008, uppfærð með vísitölu neysluverðs í nóvember 2014 þegar skuldin hafi verið gjaldfelld. Áfrýjandi krafðist þess jafnframt að stefnda Halldóra yrði dæmd til að greiða sér 3.689.159 krónur, en það væri samanlögð fjárhæð námslánanna, sem stefnda Halla hafi fengið fyrir andlát Sveinbjörns G. Guðjónssonar 20. júlí 2007 og hann hafi staðið í ábyrgð fyrir, fyrrgreindar 2.101.232 krónur, færð upp með vísitölu neysluverðs í nóvember 2014. Loks krafðist áfrýjandi þess að stefnda Kristmundi yrði gert að greiða sér 1.559.410 krónur, en það væri fjárhæð ábyrgðarinnar, sem hann gekkst undir 16. júlí 2008, 1.000.000 krónur, uppfærð með vísitölu neysluverðs við höfðun málsins í apríl 2016. Í öllum tilvikum krafðist áfrýjandi þess að stefndu yrði gert að greiða framangreindar fjárhæðir óskipt að því marki, sem þær féllu saman, ásamt dráttarvöxtum en að frádreginni innborgun 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur. Voru þetta efnislega sömu kröfur og áfrýjandi gerir fyrir Hæstarétti að gættri frekari innborgun, sem getið er hér á eftir.
Stefndu Halla og Kristmundur sóttu ekki þing í héraði. Í greinargerð, sem lögð var fram í héraði sameiginlega í þágu stefndu Maríu og Halldóru, krafðist sú fyrrnefnda þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að hún yrði sýknuð af kröfu áfrýjanda, en að því frágengnu að fjárhæð kröfunnar yrði lækkuð. Þá krafðist stefnda María málskostnaðar úr hendi áfrýjanda. Stefnda Halldóra krafðist á hinn bóginn þess eins að málinu yrði vísað frá dómi. Þessar stefndu féllu frá kröfum sínum um frávísun málsins í þinghaldi í héraði 16. janúar 2017. Að því gerðu hafði stefnda Halldóra engar kröfur uppi í málinu, en þingsókn hennar féll þó ekki niður.
Með hinum áfrýjaða dómi voru framangreindar kröfur áfrýjanda á hendur stefndu Höllu og Halldóru teknar að fullu til greina, svo og varakrafa hans á hendur stefndu Maríu, en stefndi Kristmundur var á hinn bóginn sýknaður af kröfu áfrýjanda. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms barst áfrýjanda samkvæmt kvittun, sem hann hefur lagt fram fyrir Hæstarétti, greiðsla 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur. Óumdeilt er að stefnda María hafi innt þessa greiðslu af hendi og telur hún sig hafa þannig að fullu staðið skil á kröfunni, sem henni var gert að greiða áfrýjanda með hinum áfrýjaða dómi að meðtöldum dráttarvöxtum.
II
1
Stefnda Halla hefur sem áður segir ekki sótt þing í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að dæma málið að því er hana varðar eftir kröfu áfrýjanda og málatilbúnaði hans að því leyti sem er samrýmanlegt lögum og framkomnum gögnum.
Stefnda Halla gaf út skuldabréfið frá 3. febrúar 2006 til áfrýjanda og er höfuðstóll kröfu hans á hendur henni, svo og krafa hans um dráttarvexti, í samræmi við skuldabréfið og önnur gögn málsins. Eru því ekki skilyrði til annars en að taka til greina kröfu áfrýjanda um skyldu stefndu Höllu til að greiða skuld þessa ásamt dráttarvöxtum, allt að frádregnum áðurnefndum innborgunum 2. apríl 2014 og 25. ágúst 2017.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 voru ekki efni til að fella niður í héraði málskostnað milli stefndu Höllu og áfrýjanda, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Verður hún dæmd til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
2
Stefnda Halldóra hefur sótt þing í málinu í héraði og fyrir Hæstarétti, en eftir að hún féll samkvæmt áðursögðu frá kröfu um frávísun þess í þinghaldi í héraði 16. janúar 2017 hefur hún einskis krafist annars en málskostnaðar hér fyrir dómi. Meta ber þessa þögn stefndu Halldóru gagnvart kröfu áfrýjanda sem samþykki, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, og fella dóm á kröfuna því til samræmis, sbr. 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Um annað en málskostnað verður héraðsdómur þannig staðfestur um skyldu stefndu Halldóru við áfrýjanda, en að því er hana varðar kemur áðurnefnd innborgun 25. ágúst 2017 ekki til frádráttar af ástæðum, sem nánar greinir hér á eftir.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 voru ekki efni til að fella niður málskostnað í héraði milli stefndu Halldóru og áfrýjanda eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi. Hún verður dæmd til að greiða honum málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði.
3
Áfrýjandi reisir kröfu sína á hendur stefndu Maríu á fyrrgreindri yfirlýsingu hennar um sjálfskuldarábyrgð frá 27. febrúar 2008. Telur hann yfirlýsinguna fela í sér ábyrgð á allri skuld stefndu Höllu samkvæmt skuldabréfinu frá 3. febrúar 2006, jafnt vegna námslána, sem veitt voru fyrir undirritun yfirlýsingarinnar, og láns, sem greitt var út eftir þann tíma, en hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar uppfærð með vísitölu neysluverðs hrökkvi fyrir skuldinni allri. Fyrir Hæstarétti hefur stefnda María fallið frá málsástæðum, sem hún hafði uppi í héraði til stuðnings kröfu um sýknu af kröfu áfrýjanda á hendur sér. Hún byggir á hinn bóginn sem fyrr á því að sjálfskuldarábyrgð sín geti aðeins náð til námsláns, sem stefnda Halla tók eftir að yfirlýsingin frá 27. febrúar 2008 var undirrituð.
Þegar afstaða er tekin til umfangs sjálfskuldarábyrgðar stefndu Maríu er til þess að líta að svo sem 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna hljóðaði fyrir breytingu, sem gerð var með 1. gr. laga nr. 78/2009, bar námsmanni, sem fékk lán frá áfrýjanda, að leggja fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins manns um að hann tæki á sig sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Um þetta var nánar mælt svo fyrir í 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem var í gildi við undirritun yfirlýsingar stefndu Maríu 27. febrúar 2008, að námsmaður skyldi láta áfrýjanda í té viðurkenningu eins til tíu manna, sem tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu höfuðstóls skuldabréfs fyrir námsláni, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna þess. Gæti hver ábyrgðarmaður takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð, en miða skyldi við „að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggst taka að láni til þess að ljúka námi sínu.“ Að auki er þess að gæta að á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 setti stjórn áfrýjanda á því tímabili, sem málið varðar, úthlutunarreglur fyrir einstök skólaár, sem menntamálaráðherra staðfesti og birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda í auglýsingum nr. 483/2005, 443/2006, 467/2007 og 511/2008. Ákvæði þessara reglna voru í öllum tilvikum samhljóða um að útborgun námsláns væri háð því að lántaki hafi undirritað skuldabréf til áfrýjanda og tryggt lánið með sjálfskuldarábyrgð eða veði. Sjálfskuldarábyrgð skyldi bundin við ákveðna hámarksfjárhæð, sem tæki breytingum eftir vísitölu neysluverðs, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Ætti einn maður að lágmarki að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir lántaka og yrði hann að jafnaði að vera íslenskur ríkisborgari með lögheimili hér á landi, en óheimilt væri að samþykkja ábyrgð manns, sem væri á vanskilaskrá eða stjórn áfrýjanda teldi af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggan ábyrgðarmann. Breyttist staða ábyrgðarmanns þannig að hann teldist ekki lengur uppfylla þessi skilyrði bar lántaka að fá nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fengi frekara lán og ábyrgðist þá sá nýi lán, sem lántakinn kynni að fá til viðbótar. Þá var tekið fram að við andlát ábyrgðarmanns gæti lántaki fengið nýjan ábyrgðarmann, en að öðrum kosti félli skuldbinding á erfingja ábyrgðarmanns, enda ábyrgðust þeir skuldir dánarbús hans.
Af framangreindum ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla verður ekki annað ráðið en að á þeim tíma, sem stefnda Halla tók námslánin sem málið varðar, hafi verið gengið út frá því að sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrir slíkri skuld við áfrýjanda skyldi almennt vera einn ef lán næmi ekki hærri fjárhæð en annaðhvort hámarki samkvæmt úthlutunarreglum áfrýjanda eða því takmarki, sem ábyrgðarmaður kynni að hafa sett ábyrgð sinni í einstöku tilviki. Færi fjárhæð láns á hinn bóginn á annan hvorn veg fram úr þeim mörkum yrðu ábyrgðarmenn að vera tveir eða fleiri, en þó hver þeirra fyrir tiltekinni fjárhæð þannig að til samans nægðu ábyrgðir þeirra allra fyrir heildarfjárhæð skuldar, sbr. fyrrnefnda 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Við andlát ábyrgðarmanns væri um þá tvo kosti að velja að annaðhvort yrði fenginn nýr ábyrgðarmaður fyrir allri skuldinni eða ábyrgðin félli á erfingja þess látna. Að öðru leyti var hvergi ráðgert að nýr ábyrgðarmaður yrði fenginn fyrir láni, sem þegar hefði verið veitt, nema fyrri ábyrgðarmaður uppfyllti ekki lengur áðurgreind skilyrði um ríkisfang, búsetu hér á landi og greiðslugetu, en þegar svo væri ástatt yrði ný ábyrgð að taka jöfnum höndum til eldra láns og yngra. Eftir gögnum málsins voru þessar síðastgreindu aðstæður ekki fyrir hendi hér.
Þegar áðurgreindur texti í yfirlýsingunni, sem stefnda María undirritaði 27. febrúar 2008, er virtur í þessu ljósi verður að skilja hann á þann veg að sjálfskuldarábyrgðinni, sem hún gekkst þar undir, hafi aðeins verið ætlað að taka við þar sem sleppti eldri ábyrgð, sem þá var komin á herðar stefndu Halldóru, og ná þannig til skulda, sem stefnda Halla stofnaði til við áfrýjanda með nýjum námslánum eftir þann tíma. Óumdeilt er að höfuðstóll skuldar stefndu Höllu við áfrýjanda vegna námsláns, sem hún fékk eftir 27. febrúar 2008, hafi með verðbótum numið 618.801 krónu, en í héraði krafðist áfrýjandi þess til vara að stefndu Maríu yrði gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá uppsögu dóms. Sú krafa var sem fyrr segir tekin til greina. Stefnda María innti af hendi áðurnefnda greiðslu til áfrýjanda 25. ágúst 2017 á 635.242 krónum og getur sú fjárhæð ekki komið til frádráttar skuld annarra en hennar og aðalskuldarans, stefndu Höllu, enda ber stefnda María að þessu frágengnu ekki óskipta ábyrgð með öðrum stefndu.
Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest að því er stefndu Maríu varðar, þar á meðal um málskostnað, en þó að teknu tilliti til fyrrnefndrar innborgunar hennar til áfrýjanda. Verður honum gert að greiða henni málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
4
Stefndi Kristmundur hefur eins og fyrr segir ekki sótt þing í málinu og ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfu áfrýjanda og málatilbúnaði hans að því leyti sem er samrýmanlegt lögum og framkomnum gögnum.
Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Kristmundi er reist á yfirlýsingu hans um sjálfskuldarábyrgð frá 16. júlí 2008, en áfrýjandi telur þá ábyrgð taka til kröfu sinnar á hendur stefndu Höllu án tillits til þess hvenær stofnað var til einstakra hluta skuldarinnar, allt að tilgreindri hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar, sem hann kveður nema 1.559.410 krónum. Svo sem áður hefur verið lýst var tekið fram í yfirlýsingu þessari að hún hafi verið gerð í tilefni af því að ábyrgð hafi vantað „vegna væntanlegra lána“. Fyrir liggur að stefnda Halla stofnaði ekki til skuldar við áfrýjanda vegna nýrra námslána eftir að ábyrgð þessi var veitt. Að gættu þessu ásamt því, sem áður var rakið um réttarheimildir um ábyrgðarskuldbindingar við áfrýjanda, á krafa hans á hendur stefnda Kristmundi ekki stoð í lögum og gögnum málsins. Verður því þrátt fyrir útivist stefnda Kristmundar í málinu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans af kröfu áfrýjanda.
Málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Kristmundar verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Stefnda Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir greiði áfrýjanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 4.277.497 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá þeim degi til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur og 25. ágúst 2017 að fjárhæð 635.242 krónur.
Stefnda Halldóra Jóna Sölvadóttir greiði áfrýjanda óskipt með stefndu Höllu 3.689.159 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá þeim degi til 4. desember 2014, en af 3.689.159 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. apríl 2014 að fjarhæð 10.000 krónur.
Stefnda María Guðrún Guðjónsdóttir greiði áfrýjanda óskipt með stefndu Höllu 618.801 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júní 2017 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 25. ágúst sama ár að fjárhæð 635.242 krónur.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda Kristmundar Magnússonar af kröfu áfrýjanda.
Stefndu Halla og Halldóra greiði óskipt áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað eru að öðru leyti staðfest.
Áfrýjandi greiði stefndu Maríu 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2017
Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí 2017, var höfðað með stefnum birtum dagana 4. maí 2016, 18. maí s.á. og 20. maí s.á. af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur Höllu Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur, Norðurtúni 27, Egilsstöðum, Kristmundi Magnússyni, til heimilis að sama stað, Maríu Guðrúnu Guðjónsdóttur, Laugarnesvegi 40, Reykjavík og Halldóru Jónu Sölvadóttur, Hlíðarhjalla 73, Kópavogi.
Stefnandi gerir þessar endanlegu dómkröfur, aðallega;
að stefnda Halla Sigrún og stefnda María Guðrún verði dæmdar til að greiða stefnanda óskipt 4.277.497 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi;
að stefnda Halldóra Jóna verði dæmd til að greiða stefnanda 3.689.159 krónur af heildarskuldinni óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu og stefndu Maríu Guðrúnu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 3.689.159 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi;
að stefndi Kristmundur verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.559.410 krónur af heildarskuldinni óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu, stefndu Maríu Guðrúnu og stefndu Halldóru Jónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 1.559.410 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndu Maríu Guðrúnu verði gert að greiða stefnanda 618.801 krónu af skuldinni óskipt með Höllu Sigrúnu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Að auki krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, að mati réttarins.
Af hálfu stefndu Höllu Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur og stefnda Kristmundar Magnússonar var þing ekki sótt við þingfestingu og tóku þau ekki til varna í málinu.
Af hálfu stefndu Maríu Guðrúnar Guðjónsdóttur og stefndu Halldóru Jónu Sölvadóttur var tekið til varna. Í greinargerð kröfðust þær þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en fallið var frá þeirri kröfu í þinghaldi 16. janúar 2017. Stefnda Halldóra Jóna krafðist í greinargerð auk þess málskostnaðar, en hún féll frá þeirri kröfu við aðalmeðferð málsins og gerir engar kröfur í málinu.
Endanlegar dómkröfur stefndu Maríu Guðrúnar eru aðallega krafa um að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Til vara gerir stefnda María Guðrún þá kröfu að krafa stefnanda á hendur henni verði lækkuð verulega. Þá krefst hún málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Mál þetta snýst um innheimtu námsláns sem stefnandi veitti stefndu Höllu Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Stefnda Halla Sigrún gaf út skuldabréf vegna námsláns, nr. G-065350, 3. febrúar 2006 og var fjárhæð heildarskuldar, sem færð var inn á skuldabréfið við námslok, 3.424.182 krónur miðað við grunnvísitöluna 336,0. Lokunardagur skuldabréfsins var 29. júní 2009 og skyldu afborganir hefjast tveimur árum síðar, eða 30. júní 2011. Afborganir af láninu hafa verið í vanskilum frá 1. mars 2013 og kveður stefnandi gjaldfallin vanskil afborgana samtals vera að fjárhæð 243.059 krónur. Lánið var allt gjaldfellt 4. nóvember 2014 og voru eftirstöðvar þess þá 4.034.438 krónur miðað við vísitölu 422,6 og 1% vexti. Dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Höllu Sigrúnu eru um greiðslu á heildarskuldinni, samtals að höfuðstól 4.277.497 krónur.
Sveinbjörn G. Guðjónsson, faðir lántakans stefndu Höllu Sigrúnar, tók með áritun sinni á skuldabréfið á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu fyrir allt að 6.500.000 krónum, miðað við vísitölu 240,7. Hann lést 20. júlí 2007 og fékk eftirlifandi eiginkona hans, stefnda Halldóra Jóna Sölvadóttir, í kjölfarið leyfi til setu í óskiptu búi. Með því tók stefnda Halldóra Jóna á sig umrædda skuldbindingu Sveinbjörns gagnvart stefnanda, en hámark ábyrgðar hans var jafnframt fært niður í þá fjárhæð sem námslánið stóð í um það leyti sem hann féll frá. Endanlegar dómkröfur stefnanda á hendur stefndu Halldóru Jónu taka mið af þeirri skuldbindingu uppreiknaðri miðað við gjaldfellingardag lánsins, sem þá nam 3.689.159 krónum.
Í kjölfar andláts Sveinbjörns var stefnda Halla Sigrún upplýst um að ekki yrði um frekari greiðslur að ræða til hennar frá stefnanda nema nýr aðili gengist í ábyrgð. Óskaði stefnda Halla Sigrún eftir því við föðursystur sína, stefndu Maríu Guðrúnu Guðjónsdóttur, að hún gerði það og undirritaði stefnda María Guðrún 27. febrúar 2008 „yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð“. Í yfirlýsingunni kemur fram að tilefni ábyrgðar sé að ábyrgð vanti þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hafi verið takmörkuð eða felld niður. Þar segir að staða takmarkaðrar ábyrgðarfjárhæðar Sveinbjörns sé 2.460.022 krónur miðað við vísitöluna 281,8 og þar segir að unnt sé að veita viðbótarábyrgð m.a. með undirskrift ábyrgðarmanns. Höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðar miðist við vísitölu neysluverðs og var fjárhæð þeirrar ábyrgðar sem stefnda María Guðrún undirritaði þrjár milljónir króna miðað við vísitöluna 271,0.
Daginn eftir, 28. febrúar 2008, greiddi stefnandi stefndu Höllu Sigrúnu síðustu útborgun námsláns hennar, að fjárhæð 413.264 krónur, sem uppreiknuð miðað við vísitölu við gjaldfellingu lánsins nemur 618.801 krónu. Aðalkrafa stefnanda á hendur stefndu Maríu Guðrúnu miðast við að hún beri óskipta ábyrgð með lántaka á greiðslu heildarskuldarinnar, sem rúmist innan uppreiknaðrar tilgreindrar ábyrgðarfjárhæðar. Stefnda María Guðrún heldur því fram að sjálfskuldarábyrgð hennar geti ekki tekið til annarra hluta námslánsins en þess sem greitt var út eftir að hún tókst hana á hendur. Ágreiningur hennar og stefnanda snýst að mestu um þetta. Varakrafa stefnanda tekur mið af þessari málsástæðu stefndu, en hún krefst aðallega sýknu, en lækkunar til vara.
Þó að ekki hafi orðið af frekari töku námsláns stefndu Höllu Sigrúnar eftir 28. febrúar 2008 stóð hugur hennar til frekara náms. Með nýrri „yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð“, dags. 16. júlí 2008, tókst eiginmaður stefndu Höllu Sigrúnar, stefndi Kristmundur Magnússon, á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð ein milljón króna miðað við vísitölu 271,0. Í skjalinu er staða ábyrgða Sveinbjörns heitins og stefndu Maríu Guðrúnar tilgreind og þar kemur fram að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Kristmundi miðast við að hann beri óskipta ábyrgð á greiðslu skuldarinnar með lántaka og öðrum ábyrgðarmönnum að því marki sem ábyrgð hans nægi til, sem uppreiknuð var 1.559.410 krónur að höfuðstól við gjaldfellingu lánsins.
Við aðalmeðferð málsins gáfu hjónin stefnda Halla Sigrún og stefndi Kristmundur, sem búsett eru á Egilsstöðum, aðilaskýrslur í síma. Kom þá fram í máli stefnda Kristmundar að hann teldi sig ekki standa í skuld við stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í samræmi við lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, hafi stefnda Halla Sigrún gefið út skuldabréf 3. febrúar 2006 þar sem hún viðurkenni að skulda stefnanda 3.424.182 krónur, m.v. grunnvísitölu 336,0. Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 6.500.000 krónum, m.v. vísitölu 240,7,0. Sveinbjörn hafi látist 20. júlí 2007. Samkvæmt yfirliti um framvindu skipta á dánarbúi Sveinbjörns, hafi sýslumaðurinn í Kópavogi veitt Halldóru Jónu Sölvadóttur leyfi til setu í óskiptu búi 16. ágúst 2007. Samkvæmt 12. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, beri hún ábyrgð á skuldum hins látna sem um hennar eigin skuldir væri að ræða. Henni sé því stefnt í máli þessu. Stefnda María Guðrún hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 3.000.000 króna, m.v. vísitölu 271,0. Stefndi Kristmundur hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins fyrir fjárhæð allt að 1.000.000 króna, m.v. vísitölu 271,0. Þá hafi ábyrgðirnar tekið til greiðslu vaxta, verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar ef vanskil skyldu verða. Skuldabréfið sé verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs en verðtrygging lánsins reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lánið sé tekið eða einstakir hlutar þess greiddir út til fyrsta dags þess mánaðar eftir að greiðsla fari fram. Lánið beri breytilega vexti sem séu 1% samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 478/2011 og reiknist frá námslokum.
Um endurgreiðslu á láninu fari samkvæmt lögum nr. 21/1992, ásamt síðari breytingum. Endurgreiðslan hefjist tveimur árum eftir námslok lántakanda. Árleg endurgreiðsla skuldabréfsins ákvarðist í tvennu lagi, þ.e. annars vegar sé föst ársgreiðsla með gjalddaga 1. mars ár hvert, sem taki breytingum í hlutfalli við neysluvísitölu og hins vegar sé tekjutengd ársgreiðsla með gjalddaga 1. september ár hvert, sem sé ákveðið hlutfall af tekjustofni lánþega árið á undan, að frádreginni föstu greiðslunni.
Afborganir lánsins hafi verið í vanskilum frá 1. mars 2013 og séu gjaldfallin vanskil samtals að fjárhæð 243.059 krónur. Samkvæmt heimild í skuldabréfinu sjálfu hafi lánið verið gjaldfellt miðað við 4. nóvember 2014 vegna verulegra vanskila skuldara en þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið 4.034.438 krónur, m.v. vísitölu 422,6 og 1% vexti.
Nánari sundurliðun stefnukröfunnar sé þessi:
Gjaldfallin afborgun pr. 30.06.2013 kr. 119.148,-
pr. 01.03.2014 kr. 123.505,-
Samtals kr. 243.059.-
Eftirstöðvar pr. 04.11.2014 kr. 4.034.438,-
Samtals kr. 4.277.497,-
Inn á skuldina hafi verið greiddar 10.000 krónur, sem tekið hafi verið tillit til í dómkröfum.
Sveinbjörn G. Guðjónsson hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð allt að 6.500.000 krónum miðað við grunnvísitölu 240,7. Í kjölfar andláts hans, eða þann 2. ágúst 2007, hafi hámark ábyrgðar hans verið fært niður í þá fjárhæð sem ábyrgð hans hafi numið þann dag eða 2.101.232 krónur. Við gjaldfellingu lánsins 4. nóvember 2014 hafi umrædd sjálfskuldarábyrgð numið 3.689.159 krónum, uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs í nóvember 2014, 422,6. Stefndu Halldóru Jónu sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar að sínum hluta óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu og Maríu Guðrúnu.
Stefnda María Guðrún hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir samtals allt að 4.773.432 krónum, uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í apríl 2016, 431,2. Stefndu Maríu Guðrúnu sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu. Stefndi Kristmundur hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir samtals allt að 1.591.144 krónum, uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í apríl 2016, 431,2. Stefnda Kristmundi sé því stefnt til greiðslu skuldarinnar að sínum hluta óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu, Halldóru Jónu og Maríu Guðrúnu. Ábyrgð hans hafi numið 1.559.410 krónum, þegar lánið hafi verið gjaldfellt uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs í nóvember 2014, 422,6.
Stefnandi vísi til laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, sem og til reglugerðar nr. 478/2011 og til úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem í gildi séu á hverjum tíma. Þá sé enn fremur vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, um greiðslu fjárskuldbindinga. Um dráttarvaxtakröfu sé vísað til III. og V. kafla laga nr. 38/2001. Jafnframt sé vísað til erfðalaga nr. 8/1962, einkum til 12. gr. laganna.
Varðandi varnarþing sé vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt sérstöku ákvæði í skuldabréfinu sjálfu. Varðandi kröfu um málskostnað sé vísað til 129. og 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og sé krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Stefnda María Guðrún skoraði í greinargerð á stefnanda að hann legði fram gögn um það hvernig greiðslum til lántaka hafi verið háttað og vakti athygli á því að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnda Halla Sigrún hefði fengið greiðslur frá stefnanda eftir að stefnda María Guðrún undirritaði yfirlýsingu sína um sjálfskuldarábyrgð. Við meðferð málsins lagði stefnandi af þessu tilefni fram gögn um síðustu útborgun námslánsins til stefndu Höllu Sigrúnar þann 28. febrúar 2008. Fjárhæð varakröfu stefnanda, sem fram kom við aðalmeðferð málsins, miðast við þá útborgun.
Málsástæður og lagarök stefndu Maríu Guðrúnar Guðjónsdóttur
Stefnda María Guðrún tókst ekki á hendur sjálfskuldaábyrgð vegna alls námslánsins
Stefnda María Guðrún byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að hún hafi ekki tekið á sig sjálfsskuldarábyrgð á umræddu námsláni óskipt með stefndu Halldóru Jónu líkt og málatilbúnaður stefnanda beri með sér. Ljóst sé að stefnandi hafi veitt henni rangar og villandi upplýsingar um þá skuldbindingu sem hún hafi gengist undir er hún hafi samþykkt ábyrgðina. Henni hafi verið kynnt að hún væri að gangast í svokallaða viðbótarábyrgð eða viðbót við þá ábyrgð sem fyrir hafi verið. Hún hafi vitað að upphaflegur ábyrgðarmaður hafi verið látinn og að eiginkona hans, stefnda Halldóra Jóna, hefði erft ábyrgðina að fjárhæð sem ábyrgðin hafi numið þegar ábyrgðarmaðurinn hafi fallið frá. Stefnda María Guðrún hafi talið að hin takmarkaða ábyrgð stæði í 2.464.386 krónum, enda hafi sú fjárhæð verið tilgreind sem „takmörkuð ábyrgðarfjárhæð“ í ábyrgðaryfirlýsingu þeirri er hún hafi undirritað. Þar komi jafnframt fram að viðbótarábyrgð sé veitt af því tilefni að ábyrgð hafi vantað þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hefði verið takmörkuð. Stefnda María Guðrún hefði aldrei samþykkt að gangast í ábyrgð fyrir allt 3.000.0000 króna, samhliða upphaflegum ábyrgðarmanni, enda hafi hún haldið að hún væri aðeins að gangast í ábyrgð fyrir lítilli viðbót sem vantað hafi upp á. Viðbótin kæmi að öllum líkindum aldrei til með að ná upp í 3.000.000 króna, sem sé sú ábyrgðarfjárhæð sem tilgreind hafi verið á pappírum. Ábyrgðaryfirlýsing hennar hafi borið yfirskriftina Sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns - til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð sem sé ómögulegt að skilja á annan hátt en stefnda hafi gert.
Með vísan til framangreinds og þess að gögn málsins og ákvæði útlánareglna stefnanda beri öll með sér að ábyrgð stefndu Maríu Guðrúnar hafi aðeins tekið til þeirra námslána sem stefnda Halla Sigrún hafi átt eftir að fá þegar ábyrgðaryfirlýsing hafi verið undirrituð í febrúar 2008 beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi fór gegn eigin úthlutunarreglum
Kröfu sína um sýknu byggi stefnda María Guðrún í öðru lagi á því að verði talið að ábyrgðaryfirlýsing hennar taki að efni sínu til alls námsláns stefndu Höllu Sigrúnar brjóti öflun ábyrgða í bága við útlánareglur þær sem stefnandi hafi sjálfur sett sér.
Í úthlutunarreglum stefnanda fyrir árin 2007-2008 og 2008-2009, sé í ákvæði 5.3.2. fjallað um þau skilyrði sem ábyrgðarmenn þurfi að uppfylla. Þar komi m.a. fram að einn ábyrgðarmaður skuli að lágmarki takast á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántakanda, ábyrgðarmenn skuli að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi, ekki á vanskilaskrá eða í vanskilum við sjóðinn eða bú þeirra í, eða verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Fram komi að breytist staða ábyrgðarmanns þannig að hann teljist ekki lengur uppfylla framangreind skilyrði skuli lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fái frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá segi í ákvæðinu að hinn nýi ábyrgðarmaður ábyrgist allt það lán sem lántakandi kunni að fá til viðbótar og að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn. Ábyrgð Sveinbjarnar hafi ekki verið felld úr gildi heldur takmörkuð. Eðli málsins samkvæmt hafi það því verið skilningur stefndu Maríu Guðrúnar allt frá upphafi að stefnda Halldóra Jóna bæri ábyrgð á greiðslu lánsins upp að 2.454.386 krónum og að hún sjálf bæri ábyrgð á allt að 3.000.000 króna, umfram þá ábyrgð.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, geti ábyrgðarmenn takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð. Í þessum tilvikum skuli miða við að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggist taka að láni til þess að ljúka námi sínu. Því sé ljóst að reglugerðin geri ráð fyrir að séu ábyrgðarmenn fleiri en einn ábyrgist þeir hver sinn hluta heildarfjárhæðar lánsins en ekki allt lánið óskipt. Stefnandi hafi því krafist ábyrgða frá stefndu langt umfram þá fjárhæð sem nauðsynleg hafi verið.
Í grein 5.3.3 útlánareglna stefnanda sé sérstaklega fjallað um hvernig skuli haldið á málum við þær aðstæður er ábyrgðarmaður láti lífið. Þar segi orðrétt: „Látist ábyrgðarmaður getur lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir ofangreind skilyrði en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins.“ Ljóst sé því að útlánareglur stefnanda geri ráð fyrir því að láti ábyrgðarmaður lífið hafi stefnandi þá tvo valkosti í stöðunni að erfingjar taki við ábyrgðinni eftir almennum reglum eða að nýr ábyrgðarmaður sé fenginn í stað hins látna. Þessari reglu hafi ekki verið fylgt. Stefndu hafi verið veittar rangar upplýsingar þegar gerð sé krafa um viðbótarábyrgð, samhliða því sem stefnandi kjósi að halda uppi kröfu á hendur erfingja hins látna ábyrgðarmanns á grundvelli setu hennar í óskiptu búi.
Ljóst sé að stefnandi hafi ekki fylgt þeim úthlutunarreglum sem hann hafi sjálfur sett sér og vísað sé til í stefnu málsins. Þvert á móti hafi þær verið brotnar. Stefndu öllum hafi verið veittar misvísandi og rangar upplýsingar um þær kröfur sem stefnandi geri varðandi útvegun ábyrgða, þær reglur sem gildi er ábyrgðarmaður láti lífið og umfang ábyrgða sem viðbótarábyrgðarmönnum beri að takast á hendur. Stefnda María Guðrún byggi því á því, með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að víkja beri til hliðar ábyrgðarskuldbindingu hennar í heild enda ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að bera hana fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skuli við mat samkvæmt 1. mgr. líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefnandi sé í yfirburðastöðu gagnvart henni sem lánastofnun sem sinni lögbundnu hlutverki við veitingu námslána og beri skylda til að starfa í samræmi við lög, reglur og þær úthlutunarreglur sem gildi á hverjum tíma. Atvik hafi verið með þeim hætti að tilefni hafi verið til fyrir stefnanda með hliðsjón af úthlutunarreglum að útskýra stöðu stefndu vandlega. Það hafi ekki verið gert við samningsgerðina heldur þvert á móti hafi stefnda fengið misvísandi og rangar upplýsingar, auk þess sem skjöl þau sem hún hafi undirritað og útbúin hafi verið einhliða af stefnanda séu ófullnægjandi, villandi og ekki í samræmi við úthlutunarreglur. Loks hafi öflun enn nýs ábyrgðarmanns aðeins sex mánuðum eftir að stefnda María Guðrún hafi tekist á hendur ábyrgð gjörbreytt þeim forsendum sem hún hafi haft fyrir ábyrgð þeirri sem hún hafi verið reiðubúin að veita. Hún fari því fram á að hún verði sýknuð í máli þessu á þeim grundvelli að ábyrgðaryfirlýsing hennar frá 27. febrúar 2008 sé ógild með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.
Til vara krefjist stefnda María Guðrún þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð umtalsvert. Vísað sé til allra sömu málsástæðna og raktar hafi verið varðandi kröfu um sýknu að breyttu breytanda. Þess sé krafist að henni verði aðeins gert að bera ábyrgð á greiðslu umræddrar skuldar umfram þá fjárhæð sem þegar hafi verið tryggð þegar stefnda María Guðrún hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu sína.
Byggt sé á sömu málsástæðum og í aðalkröfu varðandi ógildingu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Með vísan til sinnuleysis stefnanda á að viðhafa þá vönduðu viðskiptahætti sem mælt sé fyrir um í úthlutunarreglum, og skyldu til að upplýsa stefndu vandlega um innihald ábyrgðaryfirlýsingar sinnar, telji stefnda að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Slíka heimild sé að finna í lagaákvæðinu. Enda yrði talið verulega ósanngjarnt með vísan til málsatvika að stefnandi beri samning þennan fyrir sig að öllu leyti.
Í ljósi alls framangreinds, og með vísan til þess að stefnda hafi aldrei verið krafin um þá fjárhæð sem hún sannanlega hafi gengist í ábyrgð fyrir, sé þess krafist að dráttarvextir verði fyrst dæmdir frá dómsuppsögudegi. Þá séu kröfur stefnanda bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem gert hafi stefndu nauðsynlegt að taka til varna. Ósanngjarnt væri ef stefnandi nyti þess í formi dráttarvaxta.
Um lagarök vísi stefnda til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna. Þá vísi stefnda til meginreglna samninga-, kröfu- og neytendaréttar, sbr. og meginreglna fjármálaréttar um upplýsingaskyldu og leiðbeiningarskyldu fjármálastofnana. Vegna málskostnaðarkröfu vísi stefnda til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Gerð sé krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Niðurstaða
Málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram. Í málinu er óumdeilt að lántaki, stefnda Halla Sigrún, hefur ekki staðið skil á endurgreiðslu námsláns síns hjá stefnanda og ekki er deilt um heimild stefnanda til gjaldfellingar lánsins og innheimtu hjá henni. Stefnda Halla Sigrún tók ekki til varna í málinu og verður fallist á kröfur stefnanda á hendur henni, sem samrýmanlegar eru gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Stefnda Halldóra Jóna hefur ekki mótmælt því að hún beri óskipta ábyrgð með lántaka á endurgreiðslu lánsins að þeirri fjárhæð sem stefnandi krefst endanlega. Sú ábyrgð byggist á sjálfskuldarábyrgð látins eiginmanns hennar, sem hún situr í óskiptu búi eftir. Verður með vísun til 3. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, fallist á kröfur stefnanda á hendur stefndu Halldóru Jónu, svo sem í dómsorði greinir.
Í málinu er um það deilt að hvaða marki ábyrgðarmenn skuli bera óskipta ábyrgð á endurgreiðslu námsláns með lántaka og hver með öðrum. Í kröfugerð stefnanda felst að þeir ábyrgðarmenn sem ábyrgst hafi lántöku stefndu Höllu Sigrúnar hjá stefnanda hafi ekki aðeins ábyrgst endurgreiðslu óskipt með henni heldur einnig hver með öðrum á allri lánsfjárhæðinni að hámarki ábyrgðar sinnar. Við málflutning var um þetta af hálfu stefnanda vísað til greinar 5.3.3 í úthlutunarreglum stefnanda frá árunum 2007 til 2009 þar sem segir að ábyrgðarmenn beri óskipta sameiginlega ábyrgð gagnvart sjóðnum, en þeir beri jafna ábyrgð sín á milli allt að tilteknu hámarki hvers og eins. Í 5. gr. þágildandi reglugerðar um stefnanda, nr. 602/1997, sbr. nú reglugerð nr. 478/2011, kemur fram að séu ábyrgðarmenn fleiri en einn geti sjálfskuldarábyrgð hvers þeirra takmarkast við tiltekna fjárhæð. Þar segir jafnframt að miða skuli við að samtala sjálfskuldarábyrgða sé sem næst þeirri upphæð sem námsmaður hyggist taka að láni til að ljúka námi sínu.
Í fyrrnefndum úthlutunarreglum stefnanda segir í grein 5.3.2 að ef staða ábyrgðarmanns breytist þannig að hann teljist ekki lengur uppfylla skilyrði þá skuli lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fái frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá ábyrgist hinn nýi ábyrgðarmaður allt það lán sem lántakandi kunni að fá til viðbótar. Þær aðstæður voru fyrir hendi í máli þessu að einn ábyrgðarmaður undirritaði skuldabréfið með lántaka og ábyrgðist hann lántökur hennar allt að 6.500.000 krónum. Sú ábyrgð var takmörkuð við þá fjárhæð sem lánið stóð í þegar ábyrgðarmaðurinn féll frá og tók ekkja hans að sér þá sjálfskuldarábyrgð, sem þá var rúmar tvær milljónir króna. Með þeim viðbótarábyrgðum sem stefnandi krafðist fyrir frekari greiðslum, fyrir allt að þremur milljónum króna frá stefndu Maríu Guðrúnu og allt að einni milljón frá stefnda Kristmundi, var samtala ábyrgða á ný orðin sem næst upphaflegri áætlun um lántöku, sbr. fyrrnefnt reglugerðarákvæði. Verður ekki annað ráðið en að í samræmi við gildandi reglur hafi stefnandi þá verið tilbúinn til að greiða lántaka alla þá fjárhæð á grundvelli fyrirliggjandi ábyrgða. Upphafleg áætlun um lántöku gekk ekki eftir en stefnandi freistar þess með kröfugerð sinni að nýta fyrirliggjandi viðbótarábyrgðir, sem tóku mið af þeirri áætlun, til þess að tví- og þrítryggja sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu þess námsláns sem veitt var. Þessari kröfugerð hafnar stefnda María Guðrún.
Stefnda Halla Sigrún gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í máli hennar kom m.a. fram að eftir andlát föður hennar hefði greiðslum stefnanda til hennar verið hætt. Hún hafi fengið þær upplýsingar frá stefnanda að ábyrgð dánarbús hans hefði verið takmörkuð við þau námslán sem hún hefði þegar fengið og að hún yrði að fá nýjan ábyrgðarmann til að ábyrgjast frekari lántökur. Að fengnum upplýsingum hjá starfsmönnum stefnanda og eftir að hafa kynnt sér úthlutunarreglur sjóðsins hafi hún leitað til föðursystur sinnar, stefndu Maríu Guðrúnar, með ósk um að hún ábyrgðist þær lántökur hennar sem eftir kæmu hjá stefnanda. Hún hafi fallist á það og undirritað það skjal um sjálfskuldarábyrgð, til viðbótar við fyrri sjálfskuldarábyrgð, sem fyrir liggur í málinu og afhent var stefnanda. Daginn eftir hafi hún fengið sína síðustu greiðslu frá stefnanda. Stefnda Halla Sigrún kvaðst í tvígang hafa fengið það staðfest hjá starfsmönnum stefnanda að viðbótarábyrgð stefndu Maríu Guðrúnar tæki aðeins til ókominna lánveitinga. Hún hefði aldrei beðið frænku sína, sem verið hefði verkakona, um að ábyrgjast endurgreiðslu á því láni sem hún hafði þá þegar fengið og efaðist hún um að frænka hennar hefði fallist á slíka beiðni.
Stefnda María Guðrún kom ekki fyrir dóminn, en lögmaður hennar upplýsti að hún, sem nú er 85 ára gömul, þjáist af alzheimersjúkdómi og sé ófær um að gefa skýrslu. Um ástand hennar að þessu leyti þegar hún undirritaði umrædda skuldbindingu, 27. febrúar 2008, liggja engar upplýsingar fyrir. Af framburði stefndu Höllu Sigrúnar verður ekki annað ráðið en að hún hafi talið að stefnda María Guðrún hafi þá gert sér grein fyrir því hvað fælist í samþykki við beiðni hennar, eins og hún var fram sett, um ábyrgð á endurgreiðslu nýrra lánveitinga. Ekki verður fallist á að skilyrði séu til að víkja því samþykki til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 og verður sýknukröfu stefndu Maríu Guðrúnar á þeim grundvelli hafnað.
Í skjalinu sem stefnda María Guðrún undirritaði 27. febrúar 2008 kemur fram að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti þar sem fjárhæð eldri ábyrgðar hafi verið takmörkuð eða ábyrgð felld niður. Að virtu því sem fram kemur í skjalinu sem stefnda María Guðrún undirritaði verður ekki fallist á það með stefnanda að hún hafi samþykkt með undirritun sinni að taka óskipta ábyrgð með lántaka og stefndu Halldóru Jónu á endurgreiðslum námslána sem stefnda Halla Sigrún hafði áður fengið hjá stefnanda. Útborgunin, sem lántaki beið eftir þegar umbeðin viðbótarábyrgð var veitt, var að fjárhæð 413.364 krónur. Viðbótarábyrgðin var gerð að skilyrði fyrir þeirri útborgun, sem reyndist verða sú síðasta sem lántaki fékk hjá stefnanda. Stefnda María Guðrún ber óskipt með lántaka ábyrgð á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Verður því fallist á varakröfu stefnanda á hendur stefndu Maríu Guðrúnu, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Í framburði stefnda Kristmundar fyrir dóminum kom fram að hann teldi sig ekki standa í skuld við stefnanda. Hann hefði undirritað yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð til viðbótar, vegna væntanlegra námslána Höllu Sigrúnar, enda hugði hún þá á frekara nám. Kröfur stefnanda á hendur stefnda Kristmundi eru á því byggðar að hann hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni stefndu Höllu Sigrúnar með undirritun sinni 16. júlí 2008, óskipt með lántaka og öðrum ábyrgðarmönnum. Í skjalinu sem stefndi Kristmundur undirritaði þann dag segir að það sé sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns til viðbótar fyrri sjálfskuldarábyrgð. Þar segir jafnframt að tilefni viðbótarábyrgðar sé að ábyrgð vanti vegna væntanlegra lána, sbr. lánsáætlun. Síðasta útborgun námsláns til stefndu Höllu Sigrúnar fór fram 28. febrúar sama ár. Kom því aldrei til þess að hún fengi þau væntanlegu námslán hjá stefnanda sem stefndi Kristmundur hafði samþykkt að bera sjálfskuldarábyrgð á. Sjálfskuldarábyrgð hans samkvæmt skjalinu varð því aldrei virk og verður hann því ekki talinn bera ábyrgð á endurgreiðslu námsláns stefndu Höllu Sigrúnar hjá stefnanda óskipt með henni og/eða öðrum ábyrgðarmönnum.
Stefndi Kristmundur tók ekki til formlegra varna í málinu og hefur stefnandi krafist dóms um kröfur sínar á hendur honum á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði verður málið dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu. Í ljósi niðurstöðu dómsins um sjálfskuldarábyrgð stefnda Kristmundar verður ekki fallist á að kröfur stefnanda á hendur honum séu samrýmanlegar framkomnum gögnum. Verður hann því sýknaður af kröfum stefnanda.
Stefnda María Guðrún krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda. Þótt ekki hafi verið fallist á sýknukröfu hennar þá hefur meginatriðið í málatilbúnaði hennar verið tekið til greina, en upplýsingar um tilhögun útborgunar námslánsins veitti stefnandi ekki fyrr en að fram kominni áskorun í greinargerð. Að þessu virtu, og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu Maríu Guðrúnu málskostnað, sem ákveðinn er 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Að öðru leyti þykir, eftir atvikum, kröfugerð og málsúrslitum, rétt að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu og verður málskostnaður felldur niður milli annarra aðila.
Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, Halla Sigrún Sveinbjörnsdóttir, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 4.277.497 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 4.277.497 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.
Stefnda, Halldóra Jóna Sölvadóttir, greiði stefnanda óskipt með stefndu, Höllu Sigrúnu, 3.689.159 krónur af framangreindri skuld ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 119.554 krónum frá 1. mars 2013 til 1. mars 2014, af 243.059 krónum frá 1. mars 2014 til 4. desember 2014, en af 3.689.159 krónum frá 4. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. apríl 2014 að fjárhæð 10.000 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.
Stefnda, María Guðrún Guðjónsdóttir, greiði stefnanda óskipt með stefndu Höllu Sigrúnu 618.801 krónu af framangreindri skuld ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Stefndi Kristmundur Magnússon er sýkn af kröfum stefnanda.
Stefnandi greiði stefndu Maríu Guðrúnu 600.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður milli annarra aðila fellur niður.