Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2005. |
|
Nr. 204/2005. |
Eva María Hallgrímsdóttir (Klemenz Eggertsson hdl.) gegn Hendrikku Guðrúnu Waage (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) Ástu Sigríði Kristjánsdóttur og (Helgi Jóhannesson hrl.) íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) og Ásta Sigríður Kristjánsdóttir gegn Evu Maríu Hallgrímsdóttur |
Skaðabætur. Líkamstjón.
E tók í mars 2001 þátt í fegurðarsamkeppni, en H og Á voru í stjórn keppninnar og var H framkvæmdastjóri. Fyrir milligöngu H tók E þátt í kynningu Í ehf., ásamt nokkrum öðrum stúlkum úr keppninni, sem fólst meðal annars í því að aka torfæruökutæki. E slasaðist í akstrinum og krafði H, Á og íslenska ríkið um skaðabætur vegna þessa. Talið var, að þótt Á hafi verið í stjórn fegurðarsamkeppninnar og hafi setið fund með fyrirsvarsmönnum Í ehf. vegna umræddrar kynningar, yrði ekki fallist á að Á bæri bótaábyrgð á tjóni E samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Var Á þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfu E. Þá var ekki talið nægilega sýnt fram á orsakasamband milli þess að H bauð E að taka þátt í kynningunni og tjóns E, til þess að um bótaskyldu H gæti verið að ræða. Fyrir lá að lögreglan hafði fengið fyrirspurnir frá Í ehf. vegna kynningarinnar, en mat það svo að ekki væri um aksturskeppni að ræða og því þyrfti ekki leyfi fyrir viðburðinum. Var talið ósannað að mat lögreglunnar hafi verið rangt eða að henni hafi borið að stöðva atburðinn. Þá varð jafnframt að telja ósannað að slysið yrði rakið til mistaka af hálfu lögreglunnar. Var íslenska ríkið því einnig sýknað af kröfu E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2005. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til þess að greiða sér 1.943.260 krónur með 4,5% ársvöxtum af 510.100 krónum frá 22. júní 2000 til 21. september 2000, en af 1.943.260 krónum frá þeim degi til 22. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Gagnáfrýjandi, Ásta Sigríður Kristjánsdóttir, áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 30. júní 2005. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda Hendrikka Guðrún Waage krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á dómkröfum aðaláfrýjanda og að málskostnaður falli þá niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað að því er gagnáfrýjanda varðar.
Aðaláfrýjandi verður dæmd til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Fer jafnframt eins og þar greinir um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað að því er varðar gagnáfrýjanda, Ástu Sigríði Kristjánsdóttur.
Aðaláfrýjandi, Eva María Hallgrímsdóttir, greiði gagnáfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi greiði stefndu, Hendrikku Guðrúnu Waage og íslenska ríkinu, hvoru um sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Klemenzar Eggertssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar sl., er höfðað 5. maí 2004 af Evu Maríu Hallgrímsdóttir, á hendur Hendrikku Guðrúnu Waage, Glósölum 7, Kópavogi, Ástu Sigríði Kristjánsdóttur, Laugarnesvegi 73, Reykjavík, og íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni óskipt skaðabætur að fjárhæð 1.947.965 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla sömu laga frá 22. nóvember 2003 til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hún fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 24. febrúar 2004.
Stefnda Ásta krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða henni málskostnað ásamt virðisaukaskatti.
Stefnda Hendrikka krefst sýknu af kröfum stefnanda. Einnig krefst hún þess að stefnandi verði dæmd til að greiða henni málskostnað og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefndu vegna virðisaukaskatts.
Stefnda íslenska ríkið krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins, en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi tók þátt í fegurðarsamkeppni á vegum Ungfrú Íslands.is í mars 2001. Stefndu Hendrikka og Ásta voru þá í stjórn Ungfrú Íslands.is ehf., en stefnda Hendrikka var framkvæmdastjóri. Hún hefur skýrt svo frá fyrir dóminum að fyrirsvarsmenn Íslenskra akstursíþrótta ehf. hafi haft samband við hana í júní 2000 og spurt hvort Ungfrú Ísland.is ehf. gæti útvegað stúlkur til að taka þátt í kynningu fyrir aksturskeppni sem halda átti þá um sumarið. Fram hefur komið að hún hafði samband við stefnanda sem varð til þess að stefnandi tók þátt í kynningunni. Stefnandi heldur því fram að Ungfrú Ísland.is hafi greitt henni fyrir þetta 10.000 krónur en því er mótmælt af hálfu stefndu Ástu og Hendrikku. Þær halda því fram að 10.000 króna greiðsla, sem stefnandi fékk í júní sama ár frá Ungfrú Ísland.is, hafi verið fyrir annað en ekki liggur fyrir hvað það var. Þær töldu sig ekki geta upplýst það þar sem þær hefðu ekki lengur aðgang að bókhaldi Ungfrú Ísland.is ehf., en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 10. september 2003.
Kynningin fór fram 22. júní 2000 í sandgryfjum í Sundahöfn. Fólst hún í því að stefnandi keppti í akstri á torfæruökutæki með liði fegurðardrottninga á móti liði stúlkna sem unnu á skemmtistað í Reykjavík. Stefnandi slasaðist í keppninni þegar hún missti stjórn á ökutækinu er hún ók yfir sandbing sem var ákveðinn hluti af keppninni. Ökutækið tókst á loft og skall harkalega niður en við það fékk stefnandi hálshnykk.
Stefnandi krefst bóta úr hendi stefndu vegna meiðsla er hún hlaut í slysinu sem hún telur stefndu bera saknæma ábyrgð á. Sök stefndu Hendrikku og Ástu telur hún vera þá að hafa fengið hana til að taka þátt í aksturskeppninni, þrátt fyrir að þær hafi gert sér grein fyrir hættunni sem henni fylgdi, en sök starfsmanna lögreglunnar hafi verið sú að gæta þess ekki að setja lögboðin skilyrði fyrir keppninni en ella stöðva að hún yrði haldin. Stefndu mótmæla því að slysið verði rakið til bótaskylds atferlis eða athafnaleysis þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi verið ein af keppendum í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland.is sem stefndu Hendrikka og Ásta hafi staðið fyrir. Stefnandi hafi verið fengin að áeggjan þeirra til þess að taka þátt í keppni torfæruökutækja í Sundahöfn í Reykjavík 22. júní 2000 sem Íslenskar akstursíþróttir ehf. hafi skipulagt og séð um framkvæmd á ásamt stefndu Hendrikku og Ástu. Keppninni hafi verið hagað þannig að tvær og tvær stúlkur hafi keppt sín á milli á hvorum torfærubílnum fyrir sig. Við aksturinn hafi stefnandi misst stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að hún hafi slasast á hrygg og hlotið varanlega örorku. Önnur stúlka hafi einnig hlotið meiðsl í keppninni.
Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 21. maí 2002 komi fram að lögreglunni hafi verið fullkunnugt um að til stóð að halda þessa keppni. Lögreglan hafi vanrækt að koma í veg fyrir að keppnin yrði haldin. Ef lögreglan taldi skilyrði til að halda slíka keppni hafi henni borið að gera kröfu um að leyfis yrði aflað samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 257/2000 og að tilskilin skilríki um tryggingar samkvæmt 5. gr. hennar væru lögð fram, en hindra að öðrum kosti að keppnin færi fram. Lögreglan hafi með þessu brugðist starfsskyldum sínum með bótaskyldum hætti og beri ríkissjóður ábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðverkum starfsmanna sinna. Torfærubifreiðarnar, sem notaðar hafi verið, séu gríðarlega öflugar, á bilinu 600-1.000 hestöfl, og lífshættulegar í höndum óvanra. Hefði lögreglan sinnt starfsskyldum sínum hefði henni borið fyrst og fremst að hindra að keppnin færi fram, en að láta það afskiptalaust hafi boðið hættunni heim. Lögreglunni hefðu orðið á mistök og verði tjón stefnanda rakið til vanrækslu og gáleysis starfsmanna lögreglunnar. Engin úttekt hafi farið fram af hálfu lögreglu á keppnissvæðinu. Í keppninni hafi allar venjubundnar og sjálfsagðar öryggisreglur verið brotnar, til að mynda hafi keppendurnir ekki verið í neinum öryggis- eða hlífðarklæðnaði, svo sem vegna eldhættu, en keppendurnir hafi einungis verið í hlýrabolum ofan beltis.
Stefndu Hendrikka og Ásta, sem hafi fengið stefnanda til að taka þátt í keppninni, hafi skipulagt hana og hafi haft hagsmuni af að hún færi fram. Þær hafi vitað eða mátt vera ljóst að tiltækið væri mikið hættuspil vegna mikillar hættu á slysi eins og raunin hafi orðið. Í lögregluskýrslu hafi stefnda Hendrikka, sem hafi verið á keppnisstað, sagt að í fyrstu hafi þeim ekkert litist á tiltækið, en samt hafi þær látið til leiðast, vitandi um hættuna sem hafi verið þessu samfara. Bein orsök tjóns stefnanda sé stórkostlegt, saknæmt og ólögmætt gáleysi, athafnaleysi og/eða vanræksla stefndu og tjónið sé sennileg afleiðing af því. Stefnandi hafi í einu og öllu farið eftir þeim leiðbeiningum sem henni hafi verið gefnar á keppnisstað og eigi hún enga sök á tjóninu.
Íslenskar akstursíþróttir ehf. hafi verið úrskurðaðar gjaldþrota en engar eignir séu í þrotabúinu svo vitað sé, en kröfu hafi verið lýst í búið. Ekki hafi náðst í stjórnarformann og framkvæmdastjóra félagsins.
Samkvæmt örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis 9. janúar 2002 sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 5% og varanlegur miski 8%. Örorkumatinu hafi ekki verið hnekkt. Stefnukrafan sé þannig fundin:
Þjáningabætur 940 krónur x 90 dagar 84.600 krónur
Miskabætur 4.000.000 x 4362/3282 x 8% 425.500 “
Bætur fyrir varanlega örorku 1.200.000 x
4362/3282 x 5% x 18.031 1.437.865 “
Samtals 1.947.965 krónur
Við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku sé miðað við lágmarkslaun eins og beri að ákvarða þau samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum.
Stefnandi byggi kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni og reglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna. Krafan sé jafnframt reist á lögum nr. 50/1993 og reglugerð nr. 257/2000. Kröfur um vexti og dráttarvexti byggi stefnandi á 8. gr. og III. og V. kafla laga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lögmönnum beri að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og þurfi því að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Málsástæður og lagarök stefndu Ástu
Stefnda Ásta lýsir málsatvikum þannig að einkahlutafélagið Ungfrú Ísland.is ehf. hafi verið stofnað 1. október 1999 af Lindu Pétursdóttur, sem kosin hafi verið formaður stjórnar, Hendrikku Waage, sem hafi verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður, stefndu Ástu, sem hafi verið meðstjórnandi, og Þóreyju Vilhjálmsdóttur sem setið hafi í varastjórn. Í júní 2000 þegar slysið varð hafi stefnda Ásta ekki tekið þátt í daglegum rekstri þótt hún hafi setið í stjórn, en hún hafi unnið að öðrum verkefnum ótengdum fyrirtækinu.
Það sé rangt sem komi fram í stefnu að stefnandi hafi fyrir áeggjan stefndu Ástu tekið þátt í torfærusýningunni, en stefnda Ásta hafi ekkert samband haft við stefnanda vegna hennar. Þá sé rangt að stefnda Ásta hafi tekið þátt í skipulagningu torfærusýningarinnar eða verið aðili að henni með nokkrum hætti. Hvorki stefnda Ásta né Ungfrú Íslands.is ehf. hafi fengið greiðslur frá sýningarhaldaranum eða hafi haft aðra hagsmuni af keppninni, en stúlkurnar hafi fengið greitt fyrir þátttökuna frá Íslenskum akstursíþróttum ehf.
Torfærusýningunni eða keppninni hafi verið hagað þannig að tvær stúlkur hafi keppt sín á milli hvor á sínum torfærubílnum. Að sögn Eiðs Eiríks Baldvinssonar, sem hafi verið á svæðinu og setti upp brautirnar, hafi aldrei komið neitt annað fram en að stúlkurnar væru þarna á eigin vegum. Ekið hafi verið um fyrir fram uppsettar brautir. Fram komi í lögregluskýrslum að áður en stúlkurnar óku af stað hafi þeim verið leiðbeint og áréttað við þær að fara gætilega. Stefnandi hafi misst stjórn á bílnum er hún hafi ekið á miklum hraða yfir sandhól með þeim afleiðingum að bíllinn hafi stórskemmst og hafi hún slasast á hrygg. Að sögn Eiðs Eiríks hafi stefnandi ekki farið eftir leiðbeiningum og hafi hún sýnt af sér stórfellt gáleysi, en hún hafi gert það sem henni hefði verið bannað að gera. Hún hafi látið bifreiðina vaða á sandhólinn á fullri ferð og hafi bifreiðin sem hún ók brotnað eins og bifreið hjá þeirri stúlku sem keppti við hana. Önnur stúlka, sem ekið hafi á undan stefnanda, hafi einnig meitt sig, en keppnin eða sýningin hafi ekki verið stöðvuð. Það atvik hefði þó átt að gefa stefnanda tilefni til að hætta við akstur eða í það minnsta fara eftir leiðbeiningum um að fara gætilega.
Stefnda hafi ekki fengið upplýsingar um kröfugerð stefnanda fyrr en henni hafi verið birt stefna í málinu. Henni hafi þó verið kunnugt um að stefnandi hafi leitað réttar síns gagnavart Íslenskum akstursíþróttum ehf. og fengið þar einhverjar bætur.
Stefnda byggi kröfu sína um sýknu á aðildarskorti, en kröfunni sé ranglega beint að stefndu persónulega og því beri hún ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Eina tenging stefndu við stefnanda þegar slysið varð í júní 2000 hafi verið að stefnda Ásta hafi þá verið stjórnarmaður í Ungfrú Ísland.is ehf. Stefnandi hafi tekið þátt í keppninni Ungfrú Ísland í mars 2001 en undirbúningur hafi ekki byrjað fyrr en nokkrum mánuðum eftir slysið. Stefnandi hafi því verið ótengd keppninni í júní 2000 þegar torfærusýningin fór fram.
Í stefnu sé ekki byggt á því að stefnda beri ábyrgð á tjóninu vegna tengsla hennar við Ungfrú Íslands.is ehf. heldur á því að hún hafi sýnt af sér sök. Stefnandi hafi engin samskipti átt við stefndu vegna sýningarinnar og stefnda hafi ekki á neinn hátt komið nálægt aksturssýningunni, hvorki við framkvæmd né skipulagningu. Stefnda hafi hvorki hvatt stefnanda né aðra til að taka þátt í henni, hún hafi enga hagsmuni haft af sýningunni og hafi ekki verið viðstödd þegar keppnin fór fram. Aldrei hafi annað komið fram í keppninni eða sýningunni en að stúlkurnar kæmu fram á eigin vegum.
Sýknukrafan vegna aðildarskorts byggi einnig á því að viðsemjandi stefnanda um þátttöku í sýningunni hafi verið Íslenskar akstursíþróttir ehf. en ekki stefnda. Sýningin hafi alfarið verið á ábyrgð þess félags, en stefnda hafi hins vegar enga hagsmuni haft af sýningunni eða tengsl við hana að öðru leyti. Stefnandi hafi frá upphafi beint kröfum sínum að Íslenskum akstursíþróttum ehf. og hafi hún sótt bætur þangað. Hún hafi fengið greitt frá Íslenskum akstursíþróttum ehf. vegna torfærusýningarinnar en ekki frá stefndu.
Engin samskipti hafi átt sér stað á milli stefnanda og stefndu Ástu og verði sök því ekki rakin til athafna hennar. Stefnda hafi heldur ekki sýnt af sér saknæmt athafnaleysi. Hún hafi ekki haft hugmynd um að stefnandi hygðist taka þátt í sýningunni og því hafi hún ekki getað brugðist við. Stefnda hafi enga ábyrgð borið á sýningunni né hafi hún tekið þátt í skipulagningu hennar. Stefnda hafi heldur ekki haft neina milligöngu um þátttöku stefnanda í sýningunni og geti því ekki á neinn hátt borið skyldu til athafna á þeim grundvelli. Hún hafi ekki vitað né mátt vita hvort um hættuspil væri að ræða, enda hafi hún ekkert haft með skipulagningu að gera né þá ákvörðun stefnanda að taka þátt - þaðan af síður því að stefnandi hafi ekki farið eftir leiðbeiningum, ekki sýnt aðgæslu, eins og brýnt hafi verið fyrir henni, ekki verið í öryggis- eða hlífðarklæðnaði og sýnt af sér stórfellt gáleysi með akstri torfærubifreiðarinnar. Stefnandi verði sjálf að bera ábyrgð á öllum þessum þáttum. Engar líkur hafi verið leiddar á orsakatengslum milli meints athafnaleysis stefndu og tjóns stefnanda. Þar sem stefnanda hafi ekki með nokkru móti tekist að sýna fram á sök stefndu hafi engin bótaréttur stofnast á grundvelli sakarreglunnar og engri hlutlægri bótareglu sé til að dreifa við þessar aðstæður. Beri stefnandi ótvírætt sönnunarbyrði fyrir sök og öðrum bótaskilyrðum, en slík sönnun hafi ekki komið fram.
Íslenskar akstursíþróttir ehf. hafi þegar viðurkennt skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda með greiðslu án fyrirvara 4. september 2000. Gjaldþrot félagsins geti ekki stofnað bótarétt á hendur stefndu. Ekki sé ljóst hvort stefnandi hafi beint bótakröfum á skipuleggjendur og eigendur bílanna persónulega, sem þó væri eðlilegra. Þeir hafi fengið stúlkurnar í sýninguna, þeir hafi haft hagsmuni af henni, þeim hafi staðið næst, auk stefnanda sjálfrar, að sjá til þess að stúlkurnar væru tryggðar og þeir hafi borið ábyrgð á að stúlkunum væri leiðbeint með réttum hætti. Ekkert af þessum þáttum geti stefnda borið ábyrgð á, eðli málsins samkvæmt. Það sé því bersýnilega ósanngjarnt og með öllu óeðlilegt að fella nokkra ábyrgð á stefndu Ástu.
Stefnandi verði að bera tjónið sjálf vegna eigin sakar, þ.e. stórfellds gáleysis svo og áhættutöku hennar. Slysið verði fyrst og fremst rakið til glæfralegs aksturs og vankunnáttu stefnanda. Hún hafi ekki farið eftir fyrir fram gefnum leiðbeiningum og hafi hún ekið mjög ógætilega. Helgi Schiöt hafi leiðbeint stefnanda, sýnt henni hvernig hún ætti að aka bifreiðinni og áréttað fyrir henni að fara gætilega. Hún hafi ekið mjög harkalega, en bifreiðin hafi farið vel yfir 60 km á klukkustund þegar hún fór yfir hólinn. Stefnandi hafi aukið þannig hraðann, þrátt fyrir skýr fyrirmæli um að fara varlega en um hafi verið að ræða „fjölmiðlasýningu” en ekki keppni um hver færi á skemmstum hraða. Stefnandi hefði aldrei áður ekið slíkri bifeið og hafi hún þannig augljóslega sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hún „gaf í” og því eðlilegast að hún beri tjón sitt sjálf. Þá hafi einnig komið fram að hún hafi vitað af því að stúlka, sem ók á undan henni, meiddist við högg er hún fékk í akstrinum. Það hafi gefið stefnanda enn meira tilefni til að fara varlega eða jafnvel hætta við. Stefnandi hafi samþykkt að taka þátt í sýningu þar sem slysahætta hafi augljóslega verið fyrir hendi, hún hafi farið mjög ógætilega og virt leiðbeiningar að vettugi. Eðlilegast sé því að hún beri tjón sitt sjálf á grundvelli eigin sakar, áhættutöku eða samþykkis.
Stefnandi hafi áður verið veik í baki sem hafi átt að verða til þess að hún færi varlega og tæki engar áhættur. Óljóst sé um áhrif þess á tjónið, þ.e. hvað sé tilkomið vegna fyrri veikinda í baki og hvað vegna höggsins við aksturinn.
Stefndu hafi ekki verið kunnugt um kröfugerðina fyrr en stefna var birt í málinu.
Um sýknukröfuna vísi stefnda til laga um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr. Einnig vísi hún til almennra skaðabótareglna, þ.m.t. um sakarábyrgð, áhættutöku og eigin sök tjónþola. Málskostnaðarkrafa stefndu byggi á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr.
Málsástæður og lagarök stefndu Hendrikku
Stefnda Hendrikka segir það rangt að þær Ásta hafi staðið persónulega fyrir fegurðarsamkeppni undir nafninu Ungfrú Ísland.is. heldur hafi fyrirtæki þeirra, Ungfrú Ísland.is ehf., gert það. Auk þess sé rangt að þær hafi skipulagt og séð um framkvæmd á keppni torfæruökutækja 22. júní 2000 ásamt Íslenskum akstursíþróttum ehf. Ekki hafi verið um keppni að ræða heldur sýningu fyrir fjölmiðla. Sýningin hafi alfarið verið í höndum Íslenskra akstursíþrótta ehf. og hafi stefndu Hendrikka og Ásta hvergi komið þar nærri. Stefnandi haldi því ranglega fram að hún hafi engar leiðbeiningar fengið áður en hún settist undir stýri á torfærubílnum. Stefnandi hafi tekið þátt í keppninni Ungfrú Ísland.is í mars 2001, en undirbúningur hafi ekki hafist fyrr en haustið 2000. Því hafi stefnandi verið ótengd keppninni í júní 2000 þegar hún varð fyrir hinu meinta tjóni.
Stefnda Hendrikka byggi á því að stefnandi beini kröfum sínum ranglega að henni. Stefnanda hafi verið ljóst eða í það minnsta mátt vera ljóst að stefnda hafi ekki staðið fyrir umræddri sýningu, heldur Íslenskar akstursíþróttir ehf. Einungis lítill hluti keppenda í keppninni Ungfrú Ísland.is hafi tekið þátt í þeirri sýningu, enda hafi stúlkunum verið frjálst að taka þátt eða hafna þátttöku þar sem ekki hafi verið um atburð í tengslum við keppnina Ungfrú Ísland.is að ræða. Stefnda Hendrikka hafi ekki á neinn hátt komið nálægt aksturssýningunni, hvorki skipulagningu né framkvæmd, og hafi hún ekki haft nokkra hagsmuni af henni.
Ekki sé byggt á því af hálfu stefnanda að stefnda beri ábyrgð á meintu tjóni stefnanda vegna tengsla stefndu við fyrirtækið Ungfrú Ísland.is ehf. sem hafi staðið fyrir fegurðarsamkeppninni. Eingöngu sé byggt á þeirri málsástæðu að stefnda Hendrikka hafi sýnt af sér sök, en því mótmæli hún sem röngu og ósönnuðu. Stefnandi hafi haldið því sjálf fram að stefnda Hendrikka hefði „í umboði Ungfrú Ísland.is” beðið hana að taka þátt í ökutækjasýningunni. Stefnandi geti því ekki beint kröfum sínum nú að stefndu Hendrikku persónulega vegna meintrar sakar stefndu á meintu tjóni stefnanda þegar stefnanda hafi greinilega frá upphafi verið ljóst að stefnda Hendrikka hafi ávallt komið fram gagnvart stefnanda í umboði Ungfrú Ísland.is ehf. Stefnandi hafi ekki fengið greitt frá stefndu Hendrikku né fyrirtæki hennar vegna umræddrar sýningar. Stefnda Hendrikka hafi heldur ekki fengið greitt fyrir sýninguna og hafi hún engan hag haft af henni.
Í gögnum málsins komi fram að stúlkunum, sem þátt hafi tekið í umræddri sýningu, hafi verið gerð grein fyrir því að þær væru þar á eigin ábyrgð þar sem engin trygging væri á umræddum ökutækjum. Stefnandi hafi því enga ástæðu haft til að ætla að stefnda hefði staðið fyrir umræddri sýningu, enda hefði stefnandi áður beint kröfum sínum að Íslenskum akstursíþróttum ehf. og fengið greitt inn á meint tjón sitt frá því félagi sem hafi með því viðurkennt bótaskyldu sína gagnvart stefnanda. Íslenskar akstursíþróttir ehf. hafi skipulagt sýninguna og hafi fengið stúlkur, m.a. stefnanda, til að taka þátt í sýningunni. Íslenskar akstursíþróttir ehf. hafi einar haft hag af sýningunni og séð um framkvæmd hennar og öryggisatriði öll en ekki stefnda. Gjaldþrot félagsins stofni ekki bótarétt á hendur stefndu.
Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að tjón hennar hafi stafað af saknæmri athöfn eða athafnaleysi stefndu. Ósannað sé að stefnda hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og að tjónið sé sennileg afleiðing þess, en ekki sé um sök að ræða af hennar hálfu. Engin orsakatengsl séu á milli meints tjóns stefnanda og athafna eða athafnaleysis stefndu Hendrikku. Stefnda hafi ekki með nokkru móti getað komið í veg fyrir meint tjón stefnanda enda hafi stefnda hvergi komið nærri skipulagningu ökutækjasýningarinnar né beri hún nokkra ábyrgð á aðstæðum á vettvangi eða útbúnaði umræddra ökutækja. Stefnda Hendrikka hafi ekki verið eigandi ökutækisins og ekki í nokkurri aðstöðu til að veita stefnanda leiðbeiningar eða gæta að öryggi hennar í þessu sambandi. Hún hafi ekki með neinu móti getað vitað né mátt vita að akstur umræddra ökutækja væri hættulegur og hún hafi ekkert haft með það að gera að stefnandi tók ákvörðun um að taka þátt í umræddri sýningu, það hafi algerlega verið ákvörðun stefnanda sjálfrar. Stefnda Hendrikka hafi ekkert forræði haft á því að koma í veg fyrir að stefnandi færi ekki eftir leiðbeiningum, sýndi ekki aðgæslu, eins og brýnt hefði verið fyrir henni, klæddi sig ekki í öryggisklæðnað og sýndi af sér stórfellt gáleysi í akstri ökutækisins. Orsakatengsl á milli athafna eða athafnaleysis stefndu Hendrikku og meints tjóns stefnanda sé ósönnuð. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á sök stefndu Hendrikku á hinu meinta tjóni og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Lítið sem ekkert sé rökstutt af hálfu stefnanda í hverju meint sök stefndu Hendrikku felist.
Sýknukröfuna byggi stefnda Hendrikka einnig á eigin sök stefnanda. Stefnandi hafi sýnt stórfellt gáleysi við akstur ökutækisins og hún hafi ekki hlýtt fyrirmælum sem henni hafi verið gefin. Stefnandi hafi átt við bakmeiðsl og bakvandamál að stríða frá unga aldri, en svo virtist sem hún hefði aldrei sagt neinum frá því, hvorki skipuleggjendum keppninnar, hvorugri stefndu né öðrum sem hafi leiðbeint henni við akstur ökutækisins. Hún hefði því ekki átt að taka þátt í sýningunni. Slysið verði rakið til glæfralegs aksturs stefnanda, vankunnáttu hennar og þess að hún hafi ekki hlýtt fyrirmælum eða leiðbeiningum. Stefnandi hafi ekið miklu hraðar en henni hafi verið leiðbeint um og aðstæður leyfðu.
Jafnframt byggi stefnda Hendrikka á reglum um samþykki og áhættutöku með sömu rökum og áður hafi komið fram um eigin sök stefnanda. Stefnandi hafi samþykkt að taka þátt í sýningu þar sem slysahætta hafi verið augljós. Þar að auki hafi hún ekið ógætilega og glæfralega og ekki fylgt leiðbeiningum. Verði að telja að stefnandi hafi með þessu sýnt af sér stórfellt gáleysi og verði því að bera tjón sitt sjálf. Einnig styðji stefnda Hendrikka sýknukröfuna við sanngirnisrök og eðli máls.
Stefnda Hendrikka mótmæli örorkumatsgerð, sem bótakrafa stefnanda sé byggð á, sem rangri, órökstuddri og hlutdrægri, enda sé ekki um mat dómkvaddra matsmanna að ræða og ekki hafi verið haft samráð við stefndu varðandi það hver eða hverjir skyldu framkvæma matið. Þá hafi stefndu ekki verið gefinn kostur á að vera viðstödd matsfund eða gæta hagsmuna sinna við matið. Þetta rýri gildi matsgerðarinnar sem sönnunargagns og í raun séu kröfur stefnanda þannig ósannaðar með öllu varðandi fjárhæð meints tjóns hennar. Þá mótmæli stefnda fjárhæð krafna stefnanda og útreikningi bóta sem röngum. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt, m.a. hvað upphafstíma varði, en stefnandi hafi fyrst beint kröfum á hendur stefndu Hendrikku með birtingu stefnu í máli þessu.
Sýknukröfuna byggi stefnda m.a. á 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, á meginreglum skaðabótaréttar, m.a. um orsakatengsl, sennilega afleiðingu, sakarábyrgð, áhættutöku og eigin sök tjónþola. Þá vísi stefndi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafan byggðist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála, sbr. 129. og 130. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi tekið þátt í sýningu torfæruökutækja í Sundahöfn í Reykjavík 22. júní 2000. Hún hafi misst tök á ökutækinu, sem hún hafi ekið, með þeim afleiðingum að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni. Stefnandi haldi því fram að lögregla hafi sýnt af sér vanrækslu, gáleysi, athafnaleysi, brugðist starfsskyldum sínum, átt að hindra að viðburðurinn ætti sér stað, haft skyldu til að taka út svæðið og við þessar aðstæður haft skyldu til að krefjast þess að aflað yrði leyfis samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 257/2000 og tilskilin skírteini um tryggingar samkvæmt 5. gr. sömu reglugerðar yrðu lögð fram, en að öðrum kosti að hindra viðburðinn. Stefndi mótmæli framangreindu sem röngu.
Því sé ranglega haldið fram að um keppni hafi verið að ræða enda hafi þetta verið sýning. Þar sem svo hafi verið hafi ekki þurft leyfi lögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 257/2000. Stefnandi hafi sjálf litið frekar á þetta sem sýningu eða auglýsingu. Hafi lögregla hvorki haft heimild né tilefni til þess að hindra sýninguna. Engin sérstök hætta stafi af þessum ökutækjum sé þeim ekið varlega og ekki of hratt. Stefnandi hafi ekki haft gilt ökuskírteini þegar hún stjórnaði bifreiðinni og hafi akstur hennar því verið brot á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bráðabirgðaskírteini stefnanda til bifreiðaaksturs, sem hún hafi fengið 6. maí 1998, hafi runnið út 6. maí 2000, en fullnaðarskírteini hafi hún fengið 14. ágúst 2000. Hún hafi því ekki haft ökuréttindi þegar slysið varð.
Engin skilyrði séu til þess að fella bótaábyrgð á stefnda, íslenska ríkið. Engri sök sé til að dreifa hjá aðilum sem stefnda beri ábyrgð á. Skorti m.a. orsakasamband og ekki sé fullnægt skilyrðum um sennilega afleiðingu. Lögregla annast löggæslu. Slíkur opinber aðili verði ekki gerður bótaskyldur gagnvart stefnanda við þær aðstæður sem hér um ræði, enda séu engin skilyrði til þess. Frumkvæðisskylda við öflun leyfis sé ekki hjá lögreglu, heldur hjá þeim sem standi fyrir viðburði, teljist hann leyfisskyldur. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem hún haldi fram í máli þessu.
Stefnandi beri alla ábyrgð á tjóni sínu sjálf. Slysið sé fyrst og fremst að rekja til of hraðs og glæfralegs aksturs stefnanda og stórfellds gáleysis hennar. Hún hafi ekið mjög ógætilega en hún hefði aldrei ekið slíkri bifreið áður. Tjón stefnanda sé þannig að rekja til eigin sakar stefnanda sjálfrar en einnig til áhættutöku og samþykkis hennar. Hún hafi ekki farið eftir leiðbeiningum þar sem m.a. hafi verið áréttað við hana að fara gætilega. Engin skylda hafi hvílt á stefnanda að taka þátt. Henni hafi verið kynnt að engar tryggingar væru og að stúlkurnar væru þarna á eigin ábyrgð. Stefnandi hafi vitað að stúlka, sem ók á undan henni, meiddist við högg sem hún hafi fengið í akstrinum. Stefndi vísi m.a. til umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993 og til reglugerðar nr. 257/2000. Málskostnaðarkrafan sé reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á sýknukröfu sé þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður. Varðandi varakröfu um verulega lækkun stefnukrafna vísi stefndi til sömu sjónarmiða og fram komi í rökstuðningi fyrir aðalkröfu, m.a. til of hraðs og glæfralegs aksturs stefnanda og stórfellds gáleysis hennar. Þá sé byggt á stórfelldri eigin sök stefnanda, áhættutöku og samþykki. Vísað sé einnig til þess að stefnandi hafi ekki haft ökuréttindi á þeim tíma er slysið varð. Þjáningabótakröfu sé mótmælt sem of hárri. Krafist sé að allar greiðslur sem stefnandi hafi þegið komi til frádráttar bótakröfu hennar og sé vísað í því sambandi til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.
Niðurstaða
Stefnandi hefur skýrt svo frá fyrir dóminum að sama dag og hún tók þátt í aksturskeppninni 22. júní 2000 hafi stefnda Hendrikka haft samband við hana og sagt henni að taka ætti upp auglýsingu og þar yrðu stelpur frá Ungfrú Ísland.is. Hún hafi sagt að þetta væri einhver keppni á bílum og hvort hún hefði áhuga á að taka þátt í þessu, en það tæki um það bil hálfa til heila klukkustund og hún fengi 10.000 krónur fyrir. Hún hafi samþykkt það og mætt á staðinn þar sem upptakan fór fram. Stúlkurnar sem kepptu hafi verið settar upp í bílana en tvær stúlkur hafi keppt samtímis, hvor á sínum bíl. Þær hafi fyrst átt að aka yfir sandhól en síðan hafi komið ágætis vegalengd og þá hafi seinni sandhóllinn komið. Eftir að hafa ekið yfir hann hafi keppninni lokið. Þær hafi enga tilsögn fengið og ekki hafi gefist tími til að þær fengju að prófa bílana áður. Þeim hafi verið sýnt hvernig ætti að stjórna bílunum og hvernig ætti að stöðva vélina ef eitthvað kæmi upp á. Hún hafi keppt síðust í röðinni. Hún hafi treyst þeim mönnum sem hafi séð um keppnina sem fagmönnum, en þeir hafi fullvissað stúlkurnar um að þetta væri allt í lagi. Þess vegna hafi hún ekki hætt við keppnina eftir að stúlka sem keppti á undan henni fékk hnykk og meiddist. Hún hafi fengið greiddar fyrir þetta 10.000 krónur frá Ungfrú Ísland.is. Þetta hafi verið samstarfsverkefni sem bæði Íslenskar akstursíþróttir ehf. og Ungfrú Ísland.is ehf. hafi staðið að í þeim tilgangi að kynna verkefni þessara fyrirtækja erlendis. Hún hafi í fyrstu talið að um auglýsingu væri að ræða en í ljós hafi komið að í þessu hafi falist að þær tækju þátt í aksturskeppni. Stefnandi kvaðst hafa misst mikið úr vinnu vegna bakmeiðslanna, sem hún hlaut í slysinu, og hafi þess vegna farið í mikla lyfjameðferð sem hafi virkað vel.
Fram hefur komið að Gísli Blöndal aðstoðaði Íslenskar akstursíþróttir ehf. við blaða- og fréttamannafund sem haldinn var fyrir aksturskeppnina 22. júní 2000. Efnt hafi verið til fundarins til að kynna keppni, sem átti að fara fram um sumarið, og dagskrá hennar. Tilgangurinn með sýningunni hafi verið að vekja athygli blaðamanna, en nauðsynlegt hafi þótt að vera með myndefni til að gera kynninguna áhugaverðari fyrir þá. Gísli skýrði svo frá fyrir dóminum að hann minnti að hann hefði haft samband við stefndu Ástu til að fá stúlkur til að taka þátt í sýningunni. Hann kannaðist ekki við að sýningin hefði nokkuð haft með fegurðarsamkeppnina að gera. Hún hafi eingöngu verið til að kynna torfæruaksturskeppnina.
Stefnda Ásta skýrði svo frá fyrir dóminum að hún hafi setið í stjórn Ungfrú Ísland.is ehf. í júní 2000 en hún hafi ekkert komið að daglegum rekstri á þeim tíma. Hún kvaðst hafa setið fund með þeim sem skipulögðu aksturssýninguna þar sem rætt hafi verið um hugmyndir um samstarf þeirra í milli. Hún hafi ekki beðið stefnanda að taka þátt í aksturskeppninni og ekki komið á neinn hátt að þeirri keppni.
Stefnda Hendrikka skýrði svo frá fyrir dóminum að vorið 2000 hafi verið hringt í Ungfrú Ísland.is ehf. frá Íslenskum akstursíþróttum ehf. og óskað eftir fundi. Þær Ásta hafi mætt á fundinn fyrir hönd fyrirtækisins, en þrír karlmenn hafi verið á fundinum frá Íslenskum akstursíþróttum ehf. Þeir hafi spurt hvort þær gætu sent einhverjar stelpur í þessa keppni. Þeir hafi sagt að þetta væri hættulaust og að stúlkunum yrði leiðbeint með aksturinn. Hún hafi í framhaldi af því haft samband meðal annars við stefnanda og sagt henni frá þessu. Stefnanda hafi verið það algerlega frjálst hvort hún tæki þátt í þessu enda hafi þetta ekki verið á vegum Ungfrú Ísland.is ehf. Stefnda Hendrikka kvaðst ekkert hafa komið að skipulagningu keppninnar. Tilgangurinn með því að fá stúlkurnar til að taka þátt í þessu verkefni, sem hafi átt að vera einhvers konar fjölmiðlasýning, hafi verið sá að verða við beiðni fyrirsvarsmanna Íslenskra akstursíþrótta ehf. um það, en þær hafi átt að taka þátt í kynningu á aksturskeppni sem félagið ætlaði að efna til síðar.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn skýrði svo frá fyrir dóminum að lögreglan hafi talið að í umræddu tilviki hafi ekki verið um akstursíþróttakeppni að ræða. Því hafi ekki þurft leyfi lögreglunnar til að halda hana og atburðurinn hafi verið lögreglunni óviðkomandi. Engar upplýsingar lægju fyrir hjá lögreglustjóra um að sótt hefði verið um leyfi. Hann kvaðst hafa aflað upplýsinga frá varðstjórum í umferðardeild, sem afgreiði leyfisveitingar, þegar hann svaraði fyrirspurnum lögmanns stefnanda sem beint var til lögreglustjóra á árinu 2002. Fram hafi þá komið að þetta hafi ekki verið hefðbundin akstursíþróttakeppni heldur hafi þetta verið sýning. Lögreglan komi ekkert að slíku enda hafi hún ekki talið ástæðu til þess.
Stefnandi hefur vísað til þess að stefnda Ásta hafi ásamt stefndu Hendrikku fengið stefnanda til að taka þátt í aksturskeppninni. Upplýst er í málinu að hún gerði það ekki. Þótt stefnda Ásta hafi verið í stjórn Ungfrú Ísland.is ehf. í júní 2000, þegar keppnin var haldin, og hafi setið fund með fyrirsvarsmönnum Íslenskra akstursíþrótta ehf. í tilefni af því að þeir báðu Ungfrú Ísland.is ehf. um að útvega stúlkur til að taka þátt í keppninni, verður ekki fallist á að stefnda Ásta beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu Ástu af kröfum stefnanda í málinu.
Stefnda Hendrikka hafði milligöngu um að bjóða stefnanda að taka þátt í aksturskeppninni í Sundahöfn 22. júní 2000, eins og hér að framan er rakið. Það gerði hún sem framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland.is ehf. Á fundi með fyrirsvarmönnum Íslenskra akstursíþrótta ehf. útskýrðu þeir hvað var fyrirhugað að stúlkurnar frá Ungfrú Ísland.is ehf. gerðu í keppninni. Hér verður ekki fallist á að nægilegt orsakasamband sé á milli þess að stefnda Hendrikka bauð stefnanda að taka þátt í þessari keppni og hins meinta tjóns stefnanda til þess að um bótaskyldu stefndu Hendrikku geti verið að ræða, enda verður ekki talið að hún hafi fremur en stefnandi, sem lýsti því sjálf fyrir dóminum að hún hafi treyst mönnunum frá Íslenskum akstursíþróttum sem fagmönnum, getað séð fyrir að hætta væri á að stefnandi slasaðist í keppninni eins og síðar varð raunin. Breytir engu í því sambandi þótt óskynsamlegt hafi verið að bjóða stefnanda þetta vegna almennrar hættu, sem þar kynni að vera á ferðum, eða að það hefði betur verið látið ógert miðað við það sem síðar gerðist. Að þessu virtu verður ekki talið að stefnda Hendrikka hafi með ólögmætum hætti fengið stefnanda til að taka þátt í keppninni eða að hún beri af öðrum ástæðum persónulega bótaábyrgð á tjóni stefnanda. Ber því að sýkna hana af kröfum stefnanda í málinu.
Fram hafa komið upplýsingar sem benda til að lögreglan hafi fengið fyrirspurnir frá Íslenskum akstursíþróttum ehf. í tilefni af keppninni 22. júní 2000. Ljóst er af því sem fram hefur komið að lögreglan hefur talið að ekki þyrfti leyfi til að halda keppnina. Við mat lögreglunnar á því hvernig rétt væri að meðhöndla þetta hafa væntanlega legið fyrir upplýsingar frá Íslenskum akstursíþróttum ehf. sem yfirlögregluþjónn hefur staðfest að hafi verið þess efnis að um sýningu hafi verið að ræða en ekki keppni. Aðrar upplýsingar liggja ekki fyrir um það hvað lögreglunni var tjáð um fyrirhugaða sýningu eða keppni. Telja verður ósannað að mat lögreglunnar hafi verið rangt eða að henni hafi borið að stöðva keppnina samkvæmt lögum eða öðrum reglum þar sem leyfi hafði ekki verið veitt fyrri henni, eins og stefnandi heldur fram. Verður jafnframt að telja ósannað að slysið verði rakið til mistaka af hálfu starfsmanna Lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Ber því að sýkna stefnda íslenska ríkið af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, sem þykir hæfilega ákveðinn 342.649 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Klemenzar Eggertssonar hdl., sem er ákveðin 250.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður fyrir örorkumat, læknisvottorð og ljósrit skattframtals er samtals 92.649 krónur.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Hendrikka Guðrún Waage, Ásta Sigríður Kristjánsdóttir og íslenska ríkið, skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Evu Maríu Hallgrímsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 342.649 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Klemenzar Eggertssonar hdl., 250.000 krónur.