Hæstiréttur íslands

Mál nr. 408/2011


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Umboð
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012.

Nr. 408/2011.

Byko ehf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Sigurjóni Erni Steingrímssyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Vinnusamningur. Umboð. Skaðabætur.

S var verslunarstjóri hjá B ehf. og hafði umboð til að annast samskipti við birgja. Hann þáði án vitundar félagsins þóknun frá þeim. S hélt fram að um hefði verið að ræða umboðslaun sér til handa vegna sölu birgjanna á vörum til B ehf. Talið var að S hefði rofið trúnaðarskyldur sínar við B ehf. með því að semja við birgja um greiðslur til handa félaginu sem þó hefðu runnið til hans sjálfs. Þótti B ehf. hafa sýnt nægilega fram á að með því hefði S bakað félaginu tjón er næmi stefnufjárhæð málsins.

Dómur Hæstiréttur.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 19.081.311 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.521.913 krónum frá 31. janúar 2008 til 18. febrúar sama ár, af 4.462.009 krónum frá þeim degi til 19. febrúar sama ár, af 8.986.136 krónum frá þeim degi til 23. júní sama ár, af 12.221.622 krónum frá þeim degi til 22. júlí sama ár, af 13.390.157 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 14.204.584 krónum frá þeim degi til 20. ágúst sama ár, af 15.460.337 krónum frá þeim degi til 5. september sama ár, af 17.099.758 krónum frá þeim degi til 23. desember sama ár, af 19.081.311 krónum frá þeim degi til 24. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta 1. febrúar 2011. Fram er komið að hvorki þrotabúið né lánardrottnar muni taka við aðild að málinu samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi rekur því málið samkvæmt 2. mgr. 130. gr. þeirra laga.

Stefndi var verslunarstjóri lagnadeildar áfrýjanda og var starfstöð hans að Skemmuvegi 2 í Kópavogi. Eins og rakið er í héraðsdómi mun það hafa tíðkast að birgjar áfrýjanda gæfu afslátt af vörum sínum meðal annars í formi svokallaðra ársbónusa, auglýsingabónusa eða markaðsstuðnings. Stefndi þáði án vitundar áfrýjanda þóknun frá ýmsum þessara birgja sem hann kveður hafa verið umboðslaun sér til handa vegna sölu þeirra á vörum til áfrýjanda. Áfrýjandi telur að með þessu hafi stefndi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við sig því í raun hafi verið um að ræða greiðslur sem stefndi samdi um áfrýjanda til handa og þær hafi í raun átt að renna til hans. Stefndi andmælir því og telur að hann hafi hvorki tekið sér þá bónusa sem áfrýjanda hafi borið né hafi áfrýjandi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum.

Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda 22. maí 2002 fólst starf hans í því að „fylgjast með [og] hafa umsjón með öllum daglegum rekstri lagnadeildar, þ. á m. að sinna innkaupum, vöruþróun, lagerum, kostnaðarverðum, útsöluverðum, sölumennsku o.s.frv., auk sérverkefna sem honum eru falin af yfirmönnum.“ Um laun áfrýjanda sagði meðal annars að mánaðarlaun hans væru 315.000 krónur en til viðbótar kæmi áætlaður svonefndur afkomubónus. Þá sagði einnig í samningnum: „Laun starfsmanns skoðast einu sinni á ári, við uppgjör afkomubónuss, og taki þá mið af almennum launabreytingum í landinu. Jafnframt skal skoða afkomubónus líka, til hækkunar eða lækkunar.“

Fram er komið að stefndi hafði, líkt og aðrir forstöðumenn deilda áfrýjanda, stöðuumboð til að semja við birgja um innkaupsverð vöru og framangreinda bónusa í því sambandi. Í héraðsdómi eru rakin ýmis þau skjöl sem stefndi sendi frá sér til birgja og kvittanir vegna greiðslu þeirra til hans. Bera þau flest með sér að þau séu til þess fallin að valda misskilningi hjá birgjum um hver raunverulegur milliliður væri í viðskiptum þeirra við áfrýjanda. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi notaði stefndi meðal annars á samskiptaskjöl þessi með einum eða öðrum hætti ýmist heiti á félagi sem hann kveðst hafa stofnað og kallað Rammis, sem hann einnig nefnir í sumum gögnum Rammis ehf. eða Rammis Ltd. Félagið var þó óskráð en sagt vera með starfstöð hjá áfrýjanda. Í sumum tilvikum notaði stefndi nafn sitt og þá í tengslum við nafn áfrýjanda eða starfstöð hans. Á öllum umþrættum reikningum nema tveimur tilgreinir stefndi eigin kennitölu sem kennitölu viðtakanda á greiðslu. Á þeim reikningum tilgreinir hann kennitölu Kertis ehf. sem mun hafa verið félag í eigu stefnda og með skráða starfstöð á heimili hans. Þar tilgreinir hann rétt nafn, kennitölu og heimili Kertis ehf. en samkvæmt símbréfi fyrirsvarsmanns greiðanda þessara tveggja reikninga, sem hann staðfesti fyrir dómi, gaf stefndi þá skýringu að þetta fyrirkomulag væri vegna skattalegra atriða er vörðuðu áfrýjanda. Þá eru dæmi þess að allir framangreindir aðilar komi við sögu í einu og sama skjalinu undirrituðu af stefnda þar sem umboðsmaður birgis er tilgreindur Byko/Rammis með kennitölu Kertis ehf. með sömu starfstöð eða höfuðstöðvar og áfrýjandi. Einnig eru í gögnum málsins yfirlýsingar frá nokkrum birgjanna um að þeir hafi talið að viðskiptamaður þeirra væri áfrýjandi eða félag í eigu hans en þóknun vegna sölu þeirra til áfrýjanda skyldi renna til hans í formi umboðslauna. Þá hafa verið lögð frekari gögn fyrir Hæstarétt er styðja fullyrðingar áfrýjanda um villandi gögn stefnda í samskiptum sínum við birgja áfrýjanda. Bera þau með sér að þeir hafi talið eða mátt telja sig vera að semja við áfrýjanda en ekki stefnda um þóknun vegna sölu á vörum. Óumdeilt er að stefndi fékk greiddar þær fjárhæðir sem um ræðir í reikningum þeim sem áfrýjandi reisir kröfu sína á.

Eins og að framan segir hafði stefndi stöðu sinnar vegna umboð frá áfrýjanda til að annast samskipti við birgja og óumdeilt er að áfrýjandi hafði enga vitneskju um þessa háttsemi stefnda meðan á henni stóð. Er fallist á með áfrýjanda að gögn málsins beri með sér að birgjar hafi mátt ætla að þeir væru að semja um þóknun til áfrýjanda vegna sölu á vörum. Rauf stefndi þannig trúnaðarskyldur sínar við áfrýjanda sem hefur með framangreindum hætti sýnt nægilega fram á að stefndi hafi bakað honum tjón er nemur stefnufjárhæð. Verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 19.081.311 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Sigurjón Örn Steingrímsson, greiði áfrýjanda, Byko ehf., 19.081.311 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.521.913 krónum frá 31. janúar 2008 til 18. febrúar sama ár, af 4.462.009 krónum frá þeim degi til 19. febrúar sama ár, af 8.986.136 krónum frá þeim degi til 23. júní sama ár, af 12.221.622 krónum frá þeim degi til 22. júlí sama ár, af 13.390.157 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 14.204.584 krónum frá þeim degi til 20. ágúst sama ár, af 15.460.337 krónum frá þeim degi til 5. september sama ár, af 17.099.758 krónum frá þeim degi til 23. desember sama ár, af 19.081.311 krónum frá þeim degi til 24. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl sl., var höfðað með birtingu stefnu, þann 18. ágúst 2010, og var málið þingfest þann 1. september  2010.

Stefnandi er BYKO ehf., kt. [...], Skemmuvegi 2, 200 Kópavogi, en stefndi er Sigurjón Örn Steingrímsson, kt [...], [...], [...].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 19.081.311,00 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 2.521.913,00 frá 31.01.2008 til 18.02.2008, af kr. 4.462.009,00 frá 18.02.2008 til 19.02.2008, af kr. 8.986.136,00 frá 19.02.2008 til 23.06.2008, af kr. 12.221.622,00 frá 23.06.2008 til 22.07.2008, af kr. 13.390.157,00 frá 22.07.2008 til 05.08.2008, af kr. 14.204.584,00 frá 05.08.2008 til 20.08.2008, af kr. 15.460.337,00 frá 20.08.2008 til 05.09.2008, af kr. 17.099.758,00 frá 05.09.2008 til 23.12.2008, af kr. 19.081.311,00 frá 23.12.2008 til 24.10.2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá 24.10.2009 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Stefndi sótti þing við þingfestingu málsins og fékk frest til framlagningar greinargerðar til 29. september 2010. Krefst hann sýknu í málinu auk þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Var aðalmeðferð málsins ákveðin þann 22. nóvember sl. en frestað til 3. desember sl. að kröfu stefnda og aftur til 4. febrúar 2011. Þann 1. febrúar 2011 var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta og tók skiptastjóri við aðild að búinu. Samþykkti skiptastjóri að Þórður Heimir Sveinsson hdl. flytti málið fyrir hönd Sigurjóns gegn því að hann bæri sjálfur málskostnað, yrði stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Fór aðalmeðferð fram þann 26. apríl sl. Var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málavextir.

Stefndi hóf störf hjá stefnanda á árinu 2002 og starfaði sem yfirmaður lagnadeildar þar til honum var sagt upp þann 14. janúar 2009 vegna meintra brota í starfi. Aðdragandi að uppsögn stefnda hjá stefnanda var sá að um miðjan janúar 2009 hóf Tollstjóraembættið rannsókn vegna gruns um smygl á bjór í gámum sem fluttir voru til landsins á vegum stefnanda. Beindist grunur strax að stefnda og var honum sagt upp störfum hjá stefnanda um leið og málið kom upp. Stuttu síðar komu í ljós gögn er bentu til þess að stefndi hefði einnig gerst sekur um auðgunarbrot í starfi sínu hjá stefnanda og eru kröfur stefnanda í máli þessu vegna þeirra brota, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir.

Samkvæmt stefnanda er hluti af starfsemi hans sala á ýmsum vörum frá birgðasölum í ýmsum löndum. Samningar stefnanda við marga þessara birgðasala eru á þá leið að fari sala umfram ákveðna fyrirframgefna tölu, skuli greiðast svokallaður „bónus“ til stefnanda sem prósentuhlutfall af sölu en í raun er um að ræða eftir á greiddan afslátt til stefnanda sem færður er til tekna hjá honum. Fyrirkomulagið hjá deildum stefnanda er þá almennt þannig að yfirmaður hverrar deildar annast gerð slíkra samninga fyrir hönd stefnanda, og sendir svo fjármáladeild stefnanda nauðsynlegar upplýsingar um sölutölur og samningsprósentur í hverju tilviki. Það sé svo fjármáladeild stefnanda sem sendir viðkomandi birgðasala reikning í samræmi við sölutölur og samningsprósentu. Það hafi því verið hluti af starfsskyldum stefnda, sem yfirmaður lagnadeildar stefnanda, að gera slíka samninga fyrir hönd stefnanda, sem og að senda fjármáladeild stefnanda allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt væri að gefa út slíka reikninga og innheimta þannig umsamdar bónusgreiðslur. 

Í gögnum málsins liggur fyrir ráðningarsamningur á milli stefnanda og stefnda, dagsettur 22. maí 2002. Kemur fram í samningnum að stefndi sé ráðinn sem verslunarstjóri lagnadeildar BYKO í Breiddinni samkvæmt skipuriti. Starfið felist í því að fylgjast með og hafa umsjón með öllum daglegum rekstri lagnadeildarinnar, þar á meðal að sinna innkaupum, vöruþróun, lagerum, kostnaðarverði, útsöluverði, sölumennsku o.s.frv., auk sérverkefna sem honum voru falin af yfirmönnum. Þá átti stefndi að koma að áætlanagerð fyrir deildina. Uppsagnarfrestur ráðningarsamningsins var ákveðinn sex mánuðir af hálfu beggja aðila. Þá er vinnutíminn skilgreindur. Mánaðarlaun fyrir vinnu stefnda skyldu vera 315.000 krónur fyrir utan áætlaðan afkomubónus, sem skyldi vera 5% miðað við afkomu II í rekstraráætlun. Afkomubónus er sagður greiddur út eftir að ársuppgjör fyrirtækisins liggi fyrir. Laun stefnda áttu að skoðast einu sinni á ári, við uppgjör afkomubónuss, og taka þá mið af almennum launabreytingum í landinu. Jafnframt skyldi skoða afkomubónus, til lækkunar eða hækkunar. Þá eru ákvæði um bílanotkun, veikindi, slys o.fl. Þá er vísað til þess að samningurinn væri trúnaðarmál milli starfsmanns og vinnuveitanda.

Samkvæmt gögnum málsins sendi stefndi tölvupóst þann 4. janúar 2004 til Konráðs Vilhjálmssonar og Sigurðar E. Ragnarssonar hjá BYKÓ, þar sem hann upplýsti að fáir af birgjum þeirra væru með einhver sérstök kjör í gangi, s.s. bónus og annað. Þá upplýsir hann að hann hafi sett í gang fyrirspurnir á töluvert marga birgja þar sem hann fari fram á einhvers konar bónusa eftir árangri fyrir árið 2004 og segist ætla að láta vita um leið og hann viti meira. Með tölvupósti sendum frá stefnda til Sigurðar E. Ragnarssonar þann 5. febrúar 2004, kveðst stefndi líklega vera að ná í gegn 5% af veltu frá Damixa í „markaðsmál“, en eigi eftir að fá það staðfest. Með tölvupósti þann 10. febrúar 2005 til Sigurðar E. Ragnarssonar, upplýsir stefndi að búið sé að bóka alla bónusa og auglýsingastyrki á reikninga og tilgreinir fjárhæðir fyrir annars vegar auglýsingastyrki og hins vegar bónus.

Þann 9. maí sendi Barbara, hjá General fittings Srl, stefnda tölvupóst með efnisheitinu „Your Shipment“ og biður stefnda um að staðfesta eins fljótt og kostur er hvort flutningsaðilinn sem eigi að flytja vörur hans sé Eimskip Srl-Mílanó. Því svaraði stefndi með tölvupósti sama dag og segir að það sé „eins og síðast“ og vísar til fyrri tölvupósta til hennar. Þá kemur fram að verðið sé samkvæmt nýju fyrirkomulagi, það er, hærra verð vegna („comission“). Þessum pósti svaraði Barbara samdægurs þar sem hún bendir honum á að nýjum skilyrðum verði beitt samtímis fyrirmælum frá honum. Þann 10. maí 2007 sendir Davide Bersani, hjá General fittings Srl, stefnda tölvupóst þar sem hann biður stefnda um meiri upplýsingar um Rammis svo hægt sé að ganga frá þeim í bókhaldi þeirra og láta fylgja pöntun hans. Þann sama dag svaraði stefndi Davide og bað um að láta sendinguna fara af stað og minnir á að allar upplýsingar séu þær sömu og áður. Þá segir stefndi að hann sé tengiliður fyrir Rammis og muni senda honum upplýsingar um bankareikninga Rammis eftir nokkra daga. Um sé að ræða svo nýtt fyrirtæki að hann hafi ekki allar upplýsingar á því augnabliki. Með tölvupósti þann 18. maí 2007 ítrekaði Sara Mainardi við stefnda að hann gæfi henni allar upplýsingar um fyrirtæki hans Rammis, eins og fullt nafn, heimilisfang og bankaupplýsingar. Sama dag svaraði stefndi Söru og gaf upp eftirfarandi upplýsingar: „Rammis (BYKO HF)  SKEMMUVEGUR 2, 200 KÓPAVOGUR ICELAND C/O MR. SIGURJON STEINGRIMSSON“ Þá gefur hann sig upp sem tengilið með netfangið sigurjon@byko.is. Segist hann senda upplýsingar um bankareikninga eftir nokkra daga þar sem beðið sé eftir nýjum reikningi og spyr hvort það sé ekki í lagi.

Með tölvupósti þann 4. febrúar 2008, frá stefnda til Steingríms Björnssonar og Sigurðar E. Ragnarssonar, upplýsir stefndi þá um yfirlit yfir ársbónusa fyrir árið 2007 frá Grohe, Bianchi, Kessel, Isover, Magnaplasti og RSP.

Í gögnum málsins liggja fyrir þrír samningar.

Sá fyrsti er dagsettur þann 8. júní 2007 og undirritaður af stefnda sem miðlara og er samningurinn  á milli „2VV s.r.o. og BYKO/RAMMIS, kt. [...], með aðalstöðvar að Skemmuvegi 2, Kópavogi, kt. [...], er svokallaður miðlunarsamningur „Mediatory  contract“.“ Kemur fram í 1. grein samningsins að miðlari skuldbindi sig til að eiga miðlunarstarfsemi fyrir hönd 2VVs.r.o., svo að 2VVs.r.o. geti átt þann möguleika að selja vöru úr vörulínu sinni á Íslandi. Kemur fram að ef samningi er náð, sé 2VV s.r.o. skylt að greiða miðlara „comission“  þóknun fyrir vinnu sína. Í 2. gr. samningsins segir að 2VV s.r.o. sé skylt að veita miðlara allt umbeðið samstarf ef miðlari óski þess, sérstaklega í tækni- og söluráðgjöf til þess að uppfylla markmið samningsins. Enn fremur sé honum skylt að upplýsa miðlara um öll mál (og breytingar), sem séu nauðsynleg til sölulokunar 2VV. Í 3. grein samningsins er ákvæði um réttindi og skyldur miðlara en það segir að honum sé skylt að sækjast eftir verkefnum í þeim tilgangi að ná samningum fyrir 2VV s.r.o., þá sérstaklega að auglýsa og bjóða almennt þann möguleika að eiga viðskipti og bjóða öðrum viðskiptavinum þann möguleika að ná slíkum samningum sem hluta af frumkvöðlastarfi miðlara. Miðlara sé skylt að bera allan kostnað við að uppfylla markmið þessa samnings. Auk þess segir að miðlara sé skylt að upplýsa 2VV um öll ný mikilvæg málefni er viðkoma starfi hans og tengjast þessum samningi. Í 4. grein samningsins er ákvæði um þóknun en þar segir að miðlara beri, í því tilviki að samningur náist, 10% þóknun af reikningsfærðri fjárhæð að frádreginni og greiddri upphæð vörunnar. Reikningur vegna þóknunar skuli sendur eftir á á grundvelli samanlagðra reikninga í janúar á komandi ári. Þá segir að réttur á þóknun eigi ekki við ef slíkum samningum er náð án nokkurrar vinnu miðlara (slík mál eiga ekki við aðstæður þar sem 2VV s.r.o. gerir samninga sjálft við aðila sem hafi verið kominn í samband við 2VV í gegnum miðlara). Þá segir að miðlari eigi ekki rétt á skaðabótum vegna kostnaðar sem hlýst af vinnu í tengslum við þennan samning. Samningurinn er undirritaður f.h. 2VV s.r.o. og stefnda persónulega.

Þann 4. janúar 2008 undirritaði stefndi annan samning á milli sömu aðila, að efni til eins en með 15% „commission“.  Gildistími samningsins var frá 1. janúar 2008 til 30. júní 2008.

Þann 28. ágúst 2008, undirritaði stefndi, fyrir hönd stefnanda, samning milli stefnanda og GROHE A/S. Kemur fram í samningnum, undir liðnum „bonus terms“, að greidd séu 2% fyrir auglýsingakostnað, 1% í þjónustugjöld og árangurstengdur bónus sé 5% og greiðist þegar salan sé komin yfir 1.600.000 evrur. 

Í gögnum málsins liggja fyrir eftirtaldir reikningar:

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd. Iceland þann 8. janúar 2008 á 2VV s.r.o. fyrir „commision“  fyrir 2007 að fjárhæð EUR 8.742,98.

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd. Iceland þann 15. janúar 2008 á General Fittings s.r.s. fyrir „Commision“ fyrir 2007 að fjárhæð EUR 37.111,65.

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd. Iceland þann 16. janúar 2008 á RSP GmbH fyrir „commision“ að fjárhæð EUR 7.001.00.

Reikningur útgefinn af Rammis, Skemmuvegi 2, 200 Kópavogi, þann 18. janúar 2008 á BIANCHI F.LLi S.R.L. fyrir „Commision“ fyrir 2007 að fjárhæð EUR 19.105,52.

Reikningur útgefinn af Kerti ehf., Básbryggju 35, Reykjavík, kt. [...], á Rapidrop Ltd. þann 4. febrúar 2008 fyrir „Commision Iceland 2007“ að fjárhæð GBP 14.838,21.

Reikningur útgefinn af Rammis, Skemmuvegi 2, Kópavogi, á sama aðila, þann 30. maí 2008 fyrir „commision jan-mai 2008“ af fjárhæð EUR 6.676,18.

Reikningur útgefinn af Kerti ehf. á Rapidrop Ltd, þann 9. júní 2008 fyrir „commision jan may 2008“ að fjárhæð GBP 20.303.

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd., Iceland á 2VV s.r.o. þann 8. júlí 2008 fyrir „commision“ fyrir janúar til júní 2008, að fjárhæð EUR 9.266.

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd., Básbryggju 35, 110 Reykjavík, á General Fittings s.r.l. þann 15. júlí 2008 fyrir „commision“ fyrir janúar til júní 2008, að fjárhæð EUR 13.033.

Reikningur útgefinn af Rammis Ltd. Iceland, Básbryggju 35, á RSP GmbH, þann 15. júlí 2008 fyrir „commision“ fyrir janúar til maí 2008, að fjárhæð EUR 10.288.

Reikningur útgefinn af Rammis, Básbryggju 35, Reykjavík, á General Fittings s.r.l. þann 16. desember 2008 fyrir „commision“ fyrir júní til desember 2008 að fjárhæð EUR 14.560 krónur.

Reikningur útgefinn af Rammis, Skemmuvegi 2, Kópavogi, á BIANCHI F.lli S.R.L. þann 16. desember 2008 fyrir „commision“ fyrir júní til desember 2008 að fjárhæð EUR 11.383.

Reikningur útgefinn af Rammis ehf., Skemmuvegi 2, Kópavogi, á HPG Helzrohr Produktions GmbH þann 6. janúar 2009 fyrir „commision“ fyrir nóvember til desember 2008 að fjárhæð EUR 19.393.

 Reikningur útgefinn af Rammis Iceland, Básbryggju 35, Reykjavík, á RSP GmbH þann 12. janúar 2009 fyrir „commision 2008“ að fjárhæð EUR 12.054.

Á öllum ofangreindum reikningum, útgefnum af Rammis, er viðskiptabanki tilgreindur Landsbanki Íslands, banki 115 með sama reikningsnúmeri og er ekki ágreiningur í málinu um að það sé bankareikningur stefnda.

Með tölvupósti þann 2. janúar 2008 upplýsti stefndi aðila hjá General Fittings um breytingar á samningi aðila fyrir árið 2008, en þá hækkaði „commision“ í 15% og að commision fyrir árið 2008 yrði innheimt tvisvar sinnum í stað einu sinni. Þeim pósti var svarað samdægurs þar sem ofangreindar breytingar voru samþykktar. Þá liggja fyrir tölvupóstar frá 28. maí 2008 til 13. janúar 2009 á milli Söru Mainardi og stefnda þar sem rætt er um greiðslur og „commision“.

Með tölvupósti sendum frá forsvarsmanni stefnanda til Rapidrop Ltd. þann 26. febrúar 2009, óskaði stefnandi eftir upplýsingum um greiðslur frá þeim til stefnda frá árinu 2006. Í svarpósti þann 8. mars 2009 frá Ricky Calpin hjá Rapidrop segir að hann hafi farið yfir tölvuskeyti sín varðandi málefni Rammis/Kerti og þar sé ekkert sem hann telji að geti komið að gagni en flestu hafi verið eytt. Kveðst hann geta gefið einhvers konar útskýringar en bendir á að þetta hafi verið á árinu 2007. Kemur fram í tölvupósti hans að stefndi hafi haft samband við fyrirtækið í ágúst 2007 og sagt sér að stefnandi, Bykó, væri að stofna lítið innkaupafyrirtæki að nafni Rammis, sem ætti að annast öll innkaup af hálfu stefnanda. Hafi stefndi sagt lagnadeild Bykó skila það góðum árangri að fyrirtækið vilji ráðstafa á ný hagnaði þannig að hann mætti nota í öðrum hlutum fyrirtækisins.  Hafi stefndi sagt Rammis vera í eigu forráðamanna stefnanda og þá þegar væru nokkrir birgjar sem tækju þátt í þessu. Verð til stefnanda hafi átt að fela í sér 15% umboðslaun sem yrðu innheimt með reikningum frá Rammis. Þeir hafi kannað málið aðeins og allt virst í lagi en þegar reikningur hafi verið sendur hafi komið í ljós að ákveðnar upplýsingar hafi vantað. Þeir hafi gert fyrirspurn um það og þeim þá sagt að af skattalegum ástæðum vildi stefnandi breyta og nota fyrirtæki sem héti Kerti og myndi gegna hlutverki innkaupafulltrúa hans. Þeir hafi kannað fyrirtækið frekar sem hafi virst vera í lagi og treyst stefnda. Á síðari hluta ársins 2008 hafi Ricky og fl. heimsótt stefnda, einkum til að staðfesta að Rapidrop myndi halda áfram að styðja Bykó, jafnvel þótt aðrir birgjar drægju lánsviðskiptaheimildir til baka. Á þeim fundi hafi þeir rætt framtíðarstöðu mála á Íslandi og hvernig Bykó myndi lifa kreppuna af. Í þessu samtali hafi stefndi beðið þá um að hætta að greiða umboðslaunin því honum fyndist að stefnandi myndi hagnast betur á lækkuðu verði, einkum á markaði þar sem verkefnum myndi fækka til framtíðar. Stefndi hafi talið að viðbótarafslátturinn myndi gera Bykó betur kleift að útvega sér ný viðskipti. Gert hafi verið samkomulag um lægra verð og það hafi enn verið í gildi þegar bréfið var skrifað.

Þann 17. ágúst 2009, krafðist stefnandi þess að eignir stefnda yrðu kyrrsettar vegna kröfu stefnanda á hendur stefnda. Fór kyrrsetning fram þann 29. apríl 2010. Kemur fram í endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Hafnarfirði að málið hafi fyrst verið sent sýslumanninum í Reykjavík. Hafi kyrrsetningarkröfu stefnanda verið hafnað en Héraðsdómur Reykjavíkur fellt þá ákvörðun úr gildi með úrskurði þann 17. desember 2009 í málinu K-5/2009. Því máli hafi stefndi skotið til Hæstaréttar sem hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 26. janúar 2010 í málinu nr. 12/2010. Var málið framsent sýslumanninum í Hafnarfirði í kjölfar þess þar sem stefndi var fluttur að [...], [...]. Var kyrrsetningin árangurslaus þar sem eignir stefnda voru ekki taldar duga fyrir kröfum stefnanda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, þann 1. febrúar sl., var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stefnanda. Var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. Var Jóhann H. Hafstein hdl. skipaður skiptastjóri. Flutti Þórður Heimir Sveinsson hdl. málið fyrir hönd þrotabúsins þann 26. apríl sl., eins og áður segir, og var málið dómtekið að aðalmeðferð lokinni.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveður málið hafa komið upp um miðjan febrúar sl., er í ljós hafi komið fyrir tilviljun afrit af símbréfi, dagsettu 7. janúar 2009, á skrifstofu lagnadeildar stefnanda. Hafi þar verið um reikning að ræða, dagsettan 12.1.2009, merktar nr. 7941 að fjárhæð €12.054, útgefinn af Rammis, Iceland, Básbryggju 35, Reykjavík. Greiðandi hafi verið RSP GmbH, Spitzesteinstr 32, 83126 Flintsbach, Germany en RSP GmbH sé einn birgðasala stefnanda. Skýring reiknings hafi verið „Commision 2008“. Á reikningnum hafi verið tilgreindar bankaupplýsingar, m.a. svokallaður Swift kóði og IBAN númer. Kennitala stefnda hafi komið fram í bankaupplýsingum og reikningseigandi sagður vera stefndi. Á reikninginn hafi verið handfærðar leiðréttingar á nafni og heimilisfangi greiðanda, og neðst á skjalinu hafi handskrifuð ósk viðkomandi birgðasala verið um að sendur yrði nýr reikningur. Starfsmenn stefnanda hafi ekki kannast við umræddan reikning. Framkvæmdastjóri byggingasviðs stefnanda, Steingrímur Birkir Björnsson, hafi í kjölfarið haft samband við viðkomandi birgðasala vegna þessa reiknings til að fá frekari skýringar. Hafi birgðasalinn staðfest að hafa móttekið reikninginn í tölvupósti frá stefnda þann 5. janúar 2009, sem og að hafa óskað eftir leiðréttingu á honum vegna breytts nafns fyrirtækisins, úr RSP GmbH í RSP Ruck Sanitärprodukte GmbH, og vegna breytts heimilisfangs. Reikningurinn hafi aldrei verið greiddur þar sem leiðréttur reikningur hafði ekki borist RSP GmbH þegar upp um málið komst. Af þessu tilefni hafi stefnandi sett sig í samband við aðra birgðasala lagnadeildar. Hafi þá komið í ljós að stefndi hafði sjálfur haft samband við nokkra þeirra á árinu 2007 og tjáð þeim að stefnandi hefði stofnað sérstakt dótturfélag, Rammis, til að vera umboðsaðili fyrir stærstu birgðasala stefnanda, og að því væri þá jafnframt ætlað að taka við bónusgreiðslum frá erlendum birgðasölum lagnadeildar stefnanda. Tilgangurinn væri sá að aðgreina hagnað lagnadeildar frá öðrum deildum.  Þetta hafi hins vegar verið hreinn uppspuni stefnda.

Samkvæmt hlutafélagaskrá sé ekkert félag skráð með nafninu Rammis eða RAMMIS.  Hins vegar sé til einkahlutafélagið RAMIS ehf., kt. [...], Grensásvegi 22, 108 Reykjavík. Aðaleigandi stefnanda, Jón Helgi Guðmundsson, sé annar eigenda þess félags. Komi RAMIS ehf. í einhverjum tilvikum fram sem umboðsaðili stefnanda í tengslum við innflutning hans. Við frekari athugun hafi komið í ljós þeir reikningar sem taldir eru upp í málsatvikum og er óþarfi að endurtaka hér.

Varðandi reikninga stílaða á 2VV s.r.o. liggja fyrir samningar birgðasalans og stefnanda, annar dags. 8. júní 2007 en hinn 4. janúar 2008. Báðir samningar hafi verið gerðir í nafni stefnanda og undirritaðir af starfsmanni stefnanda, þ.e. stefnda. Í upphafi beggja samninga komi fram að samningsaðilar séu annars vegar birgðasalinn 2VV s.r.o. og hins vegar BYKO/RAMMIS, kt. [...], Skemmuvegi 2, Kópavogi.  Eins og rakið hafi verið sé einkahlutafélagið RAMIS, kt. [...], í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, aðaleiganda stefnanda. Telur stefnandi ljóst að notkun stefnda á nafninu BYKO/RAMMIS í samningum við birgðasalann hafi verið gagngert í þeim tilgangi að leggja grunninn að síðari blekkingum, þ.e. útgáfu falskra reikninga í nafni RAMMIS.

Í ákvæði IV í báðum samningum sé fjallað um „Commission“.  Í samningnum dags. 8. júní 2007 komi fram að „commission“ eða bónusgreiðsla til handa stefnanda skuli vera 10% af seldum vörum. Skuli reikningur sendur í janúar árlega fyrir árið á undan og byggja á samantekt á seldum vörum til stefnanda. Í fylgiskjali með reikningi nr. 7847, megi sjá hvernig bónusgreiðslan sé reiknuð sem 10% af €87.430 heildarsölu til stefnanda eða € 8.742,98, sem sé fjárhæð reikningsins. Samkvæmt grein IV í samningi dags. 4. janúar 2008 sé „commission“ orðin 15%. Með sama hætti sé þá þóknunin €9.266 á reikningi nr. 8521 reiknuð sem 15% af heildarsölutölunni €61.779,05, sbr. fylgiskjal með reikningnum. Reikningarnir hafi réttilega átt að vera gefnir út af fjármáladeild stefnanda og greiðast til stefnanda en stefndi hafi hins vegar sjálfur gefið út þessa reikninga og látið greiða þá inn á sinn persónulega bankareikning.  Greiddu birgðasalar reikningana í þeirri trú að stefnandi væri móttakandi greiðslnanna. Í tveimur tilvikum hafði stefndi beint greiðslu reikninga til einkahlutafélags síns Kertis ehf.  Birgðasali stefnanda, Rapidrop Ltd., hafi fengið og greitt  tvo slíka reikninga. Annar reikningurinn hafi verið nr. 65, dagsettur 4. febrúar 2008, að fjárhæð GBP 14.838,21. Útgefandi reiknings hafi verið Kerti ehf., kt. [...], Básbryggju 35, 110 Reykjavík, vsk.-númer 91906.  Í skýringu segi: „Comission Iceland 2007“.  IBAN númer á reikningnum endaði á [...] sem er kennitala Kertis ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sé stjórn Kertis ehf. skipuð Hjalta Hermanni Kristinssyni, kt. [...], stjórnarmanni en stefndi sé framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Reikningur þessi hafi verið greiddur á uppgefið reikningsnúmer. Þá hafi Rapidrop Ltd. einnig greitt reikning nr. 67, dags. 9. júní 2008, að fjárhæð GBP 20.303, þar sem útgefandi reikningsins var Kerti ehf., kt. [...], Básbryggju 35, 110 Reykjavík, vsk. númer 91906.  Í skýringu segi: „Comission jan may 2008“. IBAN númer endaði á [...], sem sé kennitala Kertis ehf.  Hafi reikningur þessi verið greiddur á uppgefið reikningsnúmer.

Að mati stefnanda sé ljóst að framangreind háttsemi stefnda sé refsiverð, og að stefndi hafi gerst sekur um brot á ákvæðum XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum, sbr. XIV. kafla sömu laga. Hafi stefnandi þess vegna vísað málinu til lögreglu með kærum dags. 5. mars, 19. mars, 7. apríl, 27. maí 2009 og 7. maí 2010.  Málið sé til rannsóknar þar.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi, sem yfirmaður lagnadeildar stefnanda, hafi gert samninga við birgðasala stefnanda um greiðslu svokallaðra „bónusa“ (e. „comission“), sem greiðast áttu til stefnanda. Í þessu sambandi er vísað til tölvupóstsamskipta. Í raun hafi verið í slíkum samningum um að ræða eftirágreiddan afslátt til stefnanda sem færa hefði átt til tekna hjá honum. Um leið og samið hafði verið um slíka afslætti (bónusa, (e. “comission”)) hafi myndast lögmæt og lögvarin krafa stefnanda á hendur viðkomandi birgðasala. Tölvupóstar sýni að stefndi hafi ávallt komið fram sem starfsmaður stefnanda í samskiptum sínum við þá birgðasala sem hér um ræði. Stefndi hafi hins vegar gefið út falska reikninga til viðkomandi birgðasala, og beint greiðslu þeirra með svikum og blekkingum inn á sinn persónulega bankareikning eða einkahlutafélags síns. Umræddir fjármunir hafi átt réttilega að greiðast til stefnanda. Með þessari saknæmu og ólögmætu háttsemi hafi stefndi  valdið stefnanda fjártjóni sem hann beri skaðabótaábyrgð á.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi, í starfi sínu sem yfirmaður lagnadeildar stefnanda, gert samninga við birgðasala stefnanda um greiðslur svokallaðra bónusa, fyrir hönd stefnanda. 

Í þeim tilvikum sem krafið er um í máli þessu hafi stefndi beitt blekkingum og svikum gagnvart birgðasölum stefnanda þannig að umræddir bónusar hafi verið lagðir inn á hans persónulega reikning.  Þannig hafi stefndi útbúið falska reikninga í þessum tilvikum í stað þess að gera fjármáladeild stefnanda viðvart, eins og honum bar að gera, svo hægt væri að gefa út reikninga af hálfu stefnanda og innheimta þannig umrædda bónusa.  Þannig hafi stefndi slegið eign sinni á fjármuni stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Hafi stefnandi því í hverju tilviki orðið fyrir tjóni sem nemur upphæð hvers reiknings, umreiknaðri í íslenskar krónur m.v. gengi viðkomandi myntar á greiðsludegi. Á reikningunum komi fram í skýringum að um sé að ræða comission“ fyrir ákveðin tímabil.  Þannig telji stefnandi að ekki fari á milli mála að um sé að ræða svokallaðar bónusgreiðslur sem tilheyra honum, enda ekkert samningssamband á milli stefnda persónulega og viðkomandi birgðasala. Stefndi hafi hins vegar með blekkingum beint þessum greiðslum inn á eigin reikninga og þannig valdið stefnanda tjóni eins og áður segir. Í því sambandi er áréttað að lögmætar kröfur stefnanda á hendur birgðasölum stofnuðust vegna viðskipta stefnanda við viðkomandi aðila (% af innkaupum stefnanda). Byggir stefnandi tjón sitt á ofangreindum reikningum sem taldir eru upp í málsatvikum og óþarft er að rekja aftur hér. 

Stefnandi byggir kröfu sína á því að með háttsemi stefnda sem lýst er í stefnu hafi stefndi á saknæman og ólögmætan hátt dregið að sér framangreindar fjárhæðir sem réttilega hafi tilheyrt stefnanda og valdið stefnanda samsvarandi fjártjóni. Greiðsla umræddra bónusgreiðslna byggðist á samningum sem stefndi hafi gert sem yfirmaður lagnadeildar stefnanda, og fjárhæð þeirra tekið mið af heildarsölu stefnanda á vörum viðkomandi birgðasala. Stefnandi sé því ótvírætt réttur eigandi umræddra bónusgreiðslna. Með þessari háttsemi hafi stefndi slegið eign sinni á þessar bónusgreiðslur og hafi stefnandi orðið því fyrir tjóni sem nemi heildarfjárhæð þeirra bónusgreiðslna sem um ræði eða samtals kr. 19.081.311. Sé skaðabótakrafa stefnanda byggð á þeirri fjárhæð en hver bónusgreiðsla sé umreiknuð í íslenskar krónur miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðils hvers reiknings á greiðsludegi.

Nánari sundurliðun bótakröfunnar:

Reikn.

Útg.

Greiðandi

Fjárhæð

Greiddur

ISK á greiðsludegi

7898

15.7.2008

RSP GmbH

€10.288

20.8.2008

1.255.753

7847

16.1.2008

RSP GmbH

€7.001

29.1.2008

670.206

65

4.2.2008

Rapidrop Ltd.

£14.838,21

18.2.2008

1.940.096

67

9.6.2008

Rapidrop Ltd.

£20.303

23.6.2008

3.235.486

7847

18.1.2008

Bianchi F.lli S.R.I.

€19.105,52

31.1.2008

1.851.707

7947

30.5.2008

Bianchi F.lli S.R.I.

€6.676,18

5.8.2008

814.427

8041

16.12.2008

Bianchi F.lli S.R.I.

€11.383

23.12.2008

1.981.553

7848

15.1.2008

General Fittings s.r.l.

€37.111,65

19.2.2008

3.661.807

8421

15.7.2008

General Fittings s.r.l.

€13.033

5.9.2008

1.639.421

7847

8.1.2008

2VV s.r.o.

€8.742,98

19.2.2008

862.320

8521

8.7.2008

2VV s.r.o.

€9.266                                                 

22.7.2008

1.168.535

                                                                                                                             Samtals:               kr. 19.081.311

Að því er varðar vaxtaútreikning gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá greiðsludegi hvers reiknings til þess dags er upphaf dráttarvaxtaútreiknings miðast. Gerð er krafa um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 frá 24.10.2009 eða þegar liðinn var mánuður frá því stefnda var sannanlega kynnt krafan við fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanni. 

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum og óskráðum reglum skaðabótaréttarins, einkum hinni almennu skaðabótareglu.  Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti byggist á IV. kafla laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Segir stefndi að í viðskiptum stefnanda við birgja hafi verið um bónusa að ræða frá birgjum/birgðasölum, þ.e. ef sala stefnanda hafi farið yfir umfram ákveðna fyrirframgefna tölu, þá hafi greiðst svokallaður „bónus“ til stefnanda frá birgðasala sem prósentuhlutfall af sölu, en í raun hafi verið um að ræða eftirágreiddan afslátt til stefnanda sem færður hafi verið til tekna hjá honum eins og komi fram í stefnu, og hafi hann yfirleitt greiðst stuttu eftir áramót beint inn á reikning til stefnanda. Í ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi, útgefinni af Erni og Örlygi 1984, þýði „bonus“ á íslensku aukaarður, aukagreiðsla fyrir unnin störf eða þjónustu. Ekki hafi því hér verið um „umboðslaun“ /commission að ræða heldur eingöngu „bónus“.  Stefndi hafi alltaf séð um að senda fjármáladeild stefnanda upplýsingar um sölutölur og samningsprósentu varðandi sölu- og/eða veltubónusa.  Gríðarleg velta hafi verið í lagnadeild stefnda á árunum 2006-2008 sem stefndi hafi séð um að byggja upp með þjónustu sinni við birgja. Hafi persónuleg sambönd komist á milli stefnda og forsvarsmanna margra þeirra birgja sem stefnandi hafi átt viðskipti við. Stefndi mótmælir því að hann hafi sjálfur gefið út reikninga fyrir „bónus“ (e. commission) til nokkurra erlendra birgðasala stefnanda o.s.frv. eins og haldið sé fram í stefnu. Stefndi hafi eingöngu gefið út reikninga persónulega fyrir umboðslaunum/commission en ekki fyrir bónusum. Kveður stefndi mál þetta snúa eingöngu að svokallaðri „commission“ sem þýðir á íslenskri tungu, sbr. ofangreinda orðabók, „umboðslaun“.  Sé hér eingöngu um eina tegund milligöngu að ræða sem kallist umboðsmaður/umsýslumaður. Tíðkist slík milliganga við erlenda aðila þar sem persónuleg tengsl og traust ráði því hver sé umboðsmaður eða umsýsluaðili. Á öllum þeim reikningum sem stefnandi hafi lagt fram sé eingöngu verið að gefa út reikninga fyrir „commision“ eða umboðslaunum.  Hvergi sé minnst á bónusa og sé hér um misskilning stefnanda að ræða en stefnandi hafi ekki verið umboðsmaður nefndra birgja sem fram koma í stefnu.  Stefnandi hafi einungis verið söluaðili fyrir birgjana á Íslandi og þáð eftir atvikum bónusa fyrir góða sölu á vörum þeirra en ekki verið umboðsaðili en það var stefndi með samningum við birgjana. Þetta þýddi að stefndi hafi verið umboðsmaður birgjans á Íslandi og víðar og hafi því verið um allt annað samkomulag, samning eða réttarsamband að ræða heldur en það sem varði bónusgreiðslur sem stefnandi hafi fengið frá birgjum vegna sölu. Ekki hafi komið fram að stefnandi hafi verið með umboðsmannasamning eða commission frá þeim birgjum sem nefndir séu í stefnu, né hefur komið fram að stefnandi hafi átt rétt á slíkum umboðslaunum/commission eða hvort nefndir birgjar hafi kært sig um að hafa stefnanda sem umboðsmann sinn á Íslandi.  Eigi því kröfur stefnanda enga stoð í máli þessu.  Það hafi ekkert verið sem bannaði stefnda að gera þessa umboðslaunasamninga /commission við nefnda birgja þótt það gæti orkað tvímælis gagnvart stefnanda án hans samþykkis. Haldið sé fram í stefnu að félag í eigu eiganda stefnanda sé umboðsaðili einhverra birgja á Íslandi og þiggi fyrir það umboðslaun „commission“ og umboðslaunin séu greidd í gegnum félag er heiti RAMIS ehf., eins og komi fram í stefnu. Hefði það félag því átt að vera aðili að þessu máli en ekki stefnandi og sé því um aðildarskort að ræða skv. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Hvergi hafi komið fram í stefnu að stefnandi sé sjálfur umboðsaðili nefndra birgja í stefnu, þótt hann þiggi bónusa frá birgjum sem sé allt annar hlutur.   

Kveður stefndi að það hafi upphaflega verið að frumkvæði erlendu birgjanna sem stefnda hafi verið boðið að vera umboðsmaður þeirra á Íslandi og víðar, þ.e. að sjá til þess að vara þeirra yrði seld hér á landi en þetta hafi birgjunum fundist betri trygging en að láta stefnanda vera umboðsmann sinn. Hafi stefnda verið boðin umboðslaun „commission“ vegna frábærrar sölu og þjónustu við birgja og síðan þróaðist það þannig að nokkrir birgjar hafi viljað fá stefnda sem umboðsmann sinn á Íslandi og víðar og  greitt stefnda umboðslaun „commission“. Hafi samkomulagið um umboðslaunin „commission“ annaðhvort verið munnlegur samningur eða gert með tölvupóstsamskiptum og í einu tilviki hafi verið um skriflegan samning við birgjann 2VV s.r.o. að ræða, „Um milligöngu“, sem stefnandi hefur lagt fram fyrir dóminn, en samkvæmt honum hafi verið greidd til stefnda „umboðslaun“.  Því sé haldið fram í stefnu að samningar þeir sem stefndi gerði við birginn 2VV s.r.o., hafi verið gerðir í nafni stefnanda og undirritaðir af starfsmanni stefnanda, þ.e. stefnda.  Þessu sé alfarið mótmælt en samningarnir hafi verið gerðir í nafni Rammis, með kt. 680906-1140, sem sé félag í eigu stefnda, enda skrifi stefndi undir persónulega en ekki f.h. stefnanda. Þá er því mótmælt sem komi fram í stefnu að birgðasalar hafi greitt reikninga stefnda í þeirri trú að stefnandi væri móttakandi greiðslnanna. Ekkert sé fram komið í málinu sem sýni fram á það. Stefndi hafi ætíð gætt þess að verð stefnanda á þeim vörum er lutu að deild hans væri samkeppnishæft þrátt fyrir „umboðslaun“ sín en deild stefnda sem heiti lagnadeild hafi verið með þeim söluhæstu hjá stefnanda og hafi aldrei gengið eins vel og árin 2006-2008 þegar stefndi stjórnaði henni, þannig að ekkert skorti á söluna. Ef verðið hafi ekki verið samkeppnishæft þá hafi stefndi ekki tekið umboðslaun. Stefnandi hafi því fengið jafn mikið í sinn hlut fyrir vöruna þrátt fyrir umboðslaunin „commission“ til stefnda.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á annað.  Telur stefndi að málatilbúnaður stefnanda byggi alfarið á tölvupósti frá Ricky Calpin, sem sé enn viðskiptavinur stefnanda og því hlutdrægur í frásögn sinni. Í tölvupóstinum komi hins vegar fram eftirfarandi: „Ég hef náð að skoða tölvuskeyti mín varðandi málefni Rammis/Kerti og þar er ekkert sem ég held að geti komið að gagni við rannsókn þessa. Flestu hefur verið eytt. Þá segi enn fremur í tölvupóstinum:  Ég get engu að síður boðið einhvers konar útskýringar á því sem gerðist.  Hafðu vinsamlegast í huga að þetta var árið 2007 og að samningarnir voru að mestu munnlegir.

Eini samningurinn sem stefndi hafi gert skriflega sé  á dskj. nr. 9. og 10. sem virðast vera nánast eins nema umboðslaunin hækka úr 10% í 15%.  Undir samningana skrifi stefndi persónulega og ekki fyrir hönd BYKÓ. Á þessum samningum komi fyrir „BYKÓ / RAMMIS“ og síðan allt önnur kennitala heldur en BYKÓ sé með.  Sé hér einungis verið að tilgreina að RAMMIS, fyrirtæki stefnda, sé á sama staða og BYKÓ, að Skemmuvegi 2, Kópavogi, enda vinnustaður stefnda.  Þá hafi ekki verið lögð fram lögfull sönnun af hálfu stefnanda um að nefndir birgjar í stefnu hafi þekkt félagið RAMIS ehf. sem sé í eigu eins eiganda BYKÓ og því sé ósannað að stefndi hafi verið að blekkja með því fyrirtæki í lögskiptum stefnda við nefnda birgja sem hann þáði umboðslaun frá.  Tilgreining á samning aðila með nafninu BYKÓ hafi því einungis verið til hægðarauka fyrir aðila þar sem stefndi vann. Þá segir að vel megi vera að greiðsla umboðslauna „commission“ til stefnda án aðkomu stefnanda hafi verið ámælisverð og valdið brottvikningu úr starfi en því sé hafnað að háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt eða saknæm bæði í skilningi refsiréttar og skaðabótaréttar. Stefnandi hafi ekki getað skýrt það út með neinum hætti eða sannað að um ólögmæta og saknæma háttsemi hafi verið að ræða hjá stefnda. Ekki hafi verið sannað að blekkingum hafi verið beitt við greiðslu umboðslauna/commission, engin skjöl lögð fram um það eða vitnisburðir. Telja verði að nefndir birgjar í stefnu hafi vitað hverjum þeir væru að greiða umboðslaun/commission, þ.e. stefnda.  Stefnda hafi verið frjálst að gera umboðsmanns/umsýslumannssamninga við birgja sem þeir buðu honum, ekkert í ráðningarsamningi hafi bannað það. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að honum hefði borið að fá nefnd „umboðslaun“/„commission“ og eigi því skaðabótakröfu á hendur stefnda, t.d. með samningum við birgja. Eini samningurinn sem stefnandi hafi lagt fram sé samningur stefnanda við Groe, sem sé bónussamningur sem stefndi skrifar undir f.h. stefnanda. Mótmælir stefndi því að um ólögmæta og saknæma háttsemi sé að ræða af hans hálfu án þess að vísa til neinna samninga um rétt stefnanda til commission/umboðslauna. Þá hafi stefnandi ekki getað sýnt fram á að hann eigi lögvarða skaðabótakröfu á hendur stefnda. Skaðabótakrafa stefnanda byggist á því að stefnandi telji sig hafa orðið af greiðslu „svokallaðra „bónusa“ (e. „commission“) sem greiðast hafi átt stefnanda“.  Þá neitar stefndi því að hafa beitt blekkingum í samskiptum sínum við birgja með nafninu Rammis á reikningum, sem gefnir hafi verið út af stefnda með sama heimilisfangi í einhverjum tilvikum og stefnandi sé með.  Ekki hafi verið sýnt fram á það með gögnum frá þessum tíma, þ.e. fyrir 14.01.2009 er stefnda var sagt upp störfum hjá stefnanda, að viðkomandi birgjar hafi þekkt félagið RAMIS ehf. í eigu Jóns Helga, eins eigenda stefnanda, enda engir umboðslaunasamningar þeirra á milli.  Eða að viðkomandi birgjar hafi einhvern tímann lagt greiðslur inn á reikning RAMIS ehf., en umboðslaunin „commission“ voru alla jafna lögð inn á reikning stefnda eða á reikning Kertis ehf. sem sé félag í eigu stefnda og hafi það ekki farið á milli mála.

Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar um lögvarðar kröfur, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt er vísað til almennra skaðabótareglna og skilyrða sakarreglunnar og almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun fjártjóns. Jafnframt er vísað til 10. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, varðandi kröfu um málskostnað.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er að stefndi gaf út ofantalda reikninga, ýmist fyrir Rammis eða Kerti ehf. Á þeim reikningum, sem gefnir voru út af Rammis, kom ýmist fram að útgefandi væri Rammis Ltd, Iceland, Rammis Skemmuvegi 2, 200 Kópavogi, eða Rammis Básbryggju 35, 110 Reykjavík. Á öllum reikningunum kom fram bankanúmer og kennitala stefnda. Þeir reikningar sem gefnir voru út af Kerti ehf. báru með sér bankaupplýsingar auk þess sem á bréfsefninu kemur fram að heimilisfang félagsins sé Básbryggja 35, Reykjavík, og e-mail, sigurjon@byko.is.  Þeir reikningar sem gefnir eru út af Rammis til RSP GmbH, útgefnir 16. janúar 2008, 15. júlí 2008 og 12. janúar 2009, eru með heimilisfangi Rammis að Básbryggju 35 Reykjavík, utan eins sem tilgreinir ekkert heimilisfang. Með einum reikningi, útgefnum 16. janúar 2008, fyrir „commision for 2007“ að fjárhæð EUR 7.001,00, er afrit af greiðslukvittun sem stefnandi byggir meðal annars á og segir að sanni að greiðandinn hafi verið í þeirri trú að verið væri að greiða stefnanda, en viðtakandi greiðslunnar er BYKO hf., innkaupadeild, Skemmuvegi 4a, Kópavogi. Kemur fram á greiðsluseðlinum að verið sé að greiða 10% bónus fyrir maí til desember 2007 að fjárhæð EUR 7.001,94. Greiðsla þessi fór fram 31. desember 2007 og er vísað í viðskiptanúmer viðtakanda nr. 10199 auk samkomulags um bónus frá 2. maí 2007. Þrátt fyrir að fjárhæðirnar séu nánast þær sömu, þá kemur dagsetning á greiðslunni ekki heim og saman við dagsetningu reikningsins auk þess sem viðskiptanúmer er sagt vera 3095 á reikningi stefnda. Þá kemur einnig fram á öðru fylgiskjali frá greiðanda að hann hafi greitt reikning stefnda 29. janúar 2008 að fjárhæð EUR 7.001.

Á tveimur reikningum af þremur, útgefnum af Rammis til General Fittings s.r.l., er heimilisfang Rammis tilgreint Básbryggja 35, Reykjavík, en ekkert heimilisfang á þriðja reikningnum.

Á þremur reikningum útgefnum af Rammis á BIANCHI F.lli S.R.L., þann 18. janúar, 30. maí og 16. desember 2008, er heimilisfangið tilgreint Skemmuvegur 2, Kópavogi.

Á tveimur reikningum útgefnum af Rammis á 2VV s.r.o., þann 8. janúar og 8. júlí 2008, er ekkert heimilisfang tilgreint en reikningarnir eru grundvallaðir á samningum um umboðsstörf milli stefnda og 2VV s.r.o.

Einn reikningur er gefinn út af Rammis ehf., á HPG Helzrohr Produktions GmBH, 6. janúar 2009 og er heimilisfang Rammis ehf. tilgreint Skemmuvegur 2, Kópavogi. Fram kom hjá fyrirsvarsmanni stefnanda við aðalmeðferð málsins að greiðsla þessi hefði verið millifærð fyrir mistök á Ramis ehf. þar sem seðlabankinn hafi ekki fundið félag að nafni Rammis á skrá. Stefndi hafi ekki gert reka að því að fá greiðsluna millifærða til sín.

Loks eru tveir reikningar gefnir út af Kerti ehf., Básbryggju 35, Reykjavík, á Rapidrop Ltd. 4. febrúar og 9. júní 2008. Báðir þessir reikningar voru greiddir inn á bankareikning Kertis ehf.

Eingöngu liggur fyrir í málinu tölvupóstur frá Ricky Calpin hjá Rapidrop Ltd. þar sem hann lýsir aðkomu stefnda að viðskiptum þeirra eins og að ofan er rakið. Stefndi mótmælir því að þær skýringar, sem Ricky Calpin gefi á tilurð samninga þeirra, séu réttar. Calpin kom ekki fyrir dóminn, né náðist í hann í símaskýrslu, þrátt fyrir að hann hafi verið boðaður í símaskýrslu. Verður niðurstaða máls þessa því ekki byggð á þeirri frásögn sem fram kemur í tölvupóstinum enda snýr sú skýring eingöngu að þeim birgja. Stefnandi byggir m.a. á því að viðsemjendur stefnda hafi verið í þeirri trú að þeir væru að greiða hliðarfyrirtæki sem væri í eigu stefnanda. Meðal annars sé handskrifað á reikningana útgefna af Kerti ehf., „BYKØ2“ .

Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um það hvort stefndi hafi með blekkingum fengið ofangreinda aðila til að greiða umboðslaun inn á bankareikninga í hans eigu og með því komist yfir fé sem að öðrum kosti tilheyrði stefnanda. Þá er einnig ágreiningur um það hvort „bonus“ og „commision“ séu í viðskiptum eitt og sama hugtakið yfir greiðslu, eins og kom fram hjá forsvarsmanni stefnanda. Þá heldur stefnandi því fram að þeir samningar sem stefndi hafi gert við viðskiptavini stefnanda, hafi verið innan verksviðs stefnda sem starfsmanns stefnanda og því hafi þeir samningar sem stefndi undirritaði átt að vera í nafni stefnanda.

Verður fyrst vikið að því hvort sýnt hafi verið fram á að stefndi hafi beitt viðskiptavini stefnanda blekkingum í því skyni að komast yfir umboðsgreiðslur sem tilheyrðu stefnanda.

Eins og áður hefur verið rakið, voru tveir reikningar útgefnir af Kerti ehf., til Rapidrop Ltd. Þrátt fyrir skrif Calpin hjá Rapidrop, í tölvupósti til stefnanda þann 6. mars 2009, þá hefur ekki verið færð fram lögfull sönnun um að stefndi hafi með þessu beitt þann viðskiptavin blekkingum, þannig að hann hafi verið í þeirri trú að hann væri að greiða umkrafða fjárhæð til stefnanda. Reikningarnir eru greinilega auðkenndir Kerti ehf., Básbryggju 35, með kennitölu og virðisaukanúmeri, auk þess sem bankareikningur fyrirtækisins er tilgreindur á reikningnum. Á reikningnum kemur einnig fram að um „commision Iceland 2007“ sé að ræða. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi fyrir þennan tíma fengið greidda „commision“ frá Rapidrop Ltd. Hefur stefnandi hvorki með gögnum eða vitnum sýnt fram á að stefndi hafi með þessu beitt viðskiptavin sinn blekkingum, en gera verður ráð fyrir að birgjar, sem eru í alþjóðaviðskiptum, átti sig á því við hverja þeir eru að semja og/eða hvort greiðslur frá þeim séu í samræmi við viðskiptasamninga sem þeir hafa gert við söluaðila eða góða viðskiptahætti.

Reikningar útgefnir til 2VV s.r.o eru útgefnir af Rammis Ltd, Iceland, með kennitölu og bankanúmeri stefnda. Þrátt fyrir að með fyrri reikningnum frá 2VV hafi fylgt word-skjal með tilvísun í færslu- eða bókhaldsnúmer og fjárhæðir, og aftur seinni reikningnum, þar sem veltitölur koma fram, tengdar Bykó, þá hafa ekki verið færð fram nein gögn sem sýna að stefndi hafi beitt umræddan viðskiptavin blekkingum og fengið hann þannig til að greiða inn á bankareikning stefnda eða sýnt fram á að sá viðskiptavinur hafi ekki vitað hvert greiðslur hans fóru. Þá kveðst stefndi byggja þá reikninga á samningi sem aðilar gerðu sín í milli með samningum sem liggja fyrir í málinu og hafa verið raktir að ofan. Undir þá samninga skrifaði stefndi persónulega. Hefur stefnandi ekki fært fram lögfulla sönnun á að stefndi hafi beitt þann viðskiptavin blekkingum.

Þá liggja fyrir þrír reikningar frá Rammis, Skemmuvegi 2, Kópavogi, á BIACHI F.lli þar sem fram kemur á þeim öllum „commision“. Þrátt fyrir að stefndi tilgreini heimilisfang Rammis, það sama og stefnandi hefur starfsstöð sína, þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að BIACHI F.lli hafi ekki verið ljóst að fyrirtækið væri að greiða stefnda persónulega fyrir þá þjónustu sem stefndi kveðst hafa innt af hendi fyrir þá. Engin gögn hafa verið lögð fram sem styðja fullyrðingu stefnanda um annað. Þá liggja frammi þrír reikningar útgefnir af Rammis, til General Fittings s.r.l., með tilgreint heimilisfang að Básbryggju 35, Reykjavík, með kennitölu og bankanúmer stefnda tilgreind. Engin gögn hafa verið lögð fram sem færa rök fyrir því að General Fittings hafi talið sig vera að greiða til stefnanda en ekki stefnda. Hefur stefnandi að þessu leyti ekki fært fram lögfulla sönnun um að stefndi hafi beitt þennan viðskiptavin blekkingum. 

Stefnandi byggir meðal annars á því að ofangreindir viðskiptavinir hans hafi þekkt fyrirtæki eins eiganda stefnanda, RAMIS ehf., og því talið að þeir væru að greiða til stefnanda, en stefndi skýrt fyrirtæki sitt Rammis til að villa um fyrir viðskiptavinum stefnanda. Þá byggir stefnandi á þeim upplýsingum sem forsvarsmaður Rapidrop Ltd. gaf í tölvupósti, tveimur árum eftir að hann átti í samskiptum við stefnda, þar sem fram kemur að stefndi hafi sagt Rammis vera í eigu forráðamanna stefnanda og þá þegar væru nokkrir birgjar sem tækju þátt í þessu. Þessu mótmælir stefndi. Þann 10. maí 2007 sendi Davide Bersani hjá General fittings Srl, stefnda tölvupóst þar sem hann biður stefnda um meiri upplýsingar um Rammis svo hægt sé að ganga frá þeim í bókhaldi þeirra og láta fylgja pöntun hans.  Þann sama dag svaraði stefndi Davide og bað um að láta sendinguna fara af stað og minnir á að allar upplýsingar séu þær sömu og áður. Þá segir stefndi að hann sé tengiliður fyrir Rammis og muni senda honum upplýsingar um bankareikninga Rammis eftir nokkra daga. Um sé að ræða svo nýtt fyrirtæki að hann hafi ekki allar upplýsingar á því augnabliki. Stefnandi heldur því hins vegar fram að í einhverjum tilvikum komi RAMIS ehf. fram sem umboðsaðili stefnanda í tengslum við innflutning hans. Þrátt fyrir að það megi telja torkennilegt að stefndi hafi innheimt umboðslaun í nafni Rammis, sem líkist óneitanlega nafni félagsins RAMIS ehf., er ósannað, gegn neitun stefnda, að það hafi verið gert í þeim tilgangi að blekkja viðskiptavini stefnanda og þannig komist yfir umboðslaun sem stefnanda hefði annars borið að fá greidd.

Stefnandi heldur því fram að það hafi verið í verkahring stefnda að koma á samningnum við birgja um bónusgreiðslur og eða umboðslaun. Fyrir liggur að stefndi kom upplýsingum um bónus frá birgjum til stefnanda, sem stefnandi gerði síðan reikninga fyrir og krafði birgja um. Þá benda tölvupóstar frá stefnda til Sigurðar E. Ragnarssonar frá 10. febrúar 2005 þar sem hann tilgreinir bókaða bónusa og auglýsingarstyrki sérstaklega og frá 4. febrúar 2008, þar sem stefndi sendir framkvæmdarstjórn stefnanda tölvupóst og lista yfir bónusa sem stefnandi fengi greidda á árinu 2008 til þess að bónus og öðrum tekjum, s.s. auglýsingastyrkjum hafi verið haldið aðgreindum.

Stefndi heldur því fram að honum hafi verið frjálst að gera umboðssamninga við birgja, ekkert í starfslýsingu hans eða ráðningarsamningi hafi komið í veg fyrir það. Þá kvaðst stefndi ekki sjá muninn á því að hann, eða fyrirtæki úti í bæ, ótengd stefnanda, væru með umboð fyrir vörum frá birgjum og fengi greidd umboðslaun fyrir þau viðskipti sem hann kæmi á sérstaklega. Stefndi kvaðst hins vegar hafa verið viss um að það yrði ekki vel séð af hans vinnuveitanda, að hann væri með umboðssamninga við birgja, sem stefnandi sæi svo aftur um að selja vöru frá. Því hefði hann ekki upplýst stefnanda um þessi umsvif sín. Undir það má taka með stefnda, að þessi viðskipti hans gátu skarast við hagsmuni stefnanda, en ekkert hefur komið fram í málinu sem bannaði stefnda að sinna umboðsstörfum í nafni síns fyrirtækja eða eigin nafni. Verður sönnunarbyrðin um það lögð á stefnanda.

Stefnandi byggir á því að engu hafi skipt hvaða nafni tekjur eða innkoma stefnanda var nefnd. Um hafi verið að ræða auglýsingastyrki, umboðslaun, bónusa og fleira, sem í þeirra huga hafi allt snúist um afslætti. Undir það má taka með stefnda, auk þess sem gögn málsins styðja það, að stefnandi fékk bónusgreiðslur frá birgjum sínum, sem grundvallaðist á sölu, en stefndi fékk greidd umboðslaun sem skýrlega voru tekin fram í hverjum reikningi sem hann gerði viðsemjendum sínum. Tekur dómurinn ekki undir þá skýringu stefnanda að bónus og umboðslaun, bonus (e. commision), séu sömu hugtökin og skipti ekki máli hvaða nafni launin séu nefnd. Í þessu tilviki, sem deilt er um hér, gerði stefndi sérstakan samning um greiðslu umboðslauna en tekið er fram í samningnum við 2VV s.r.o. að miðlunarstarfsemi sé unnin fyrir hönd 2VVs.r.o., svo að 2VVs.r.o. geti átt þann möguleika að selja vöru úr vörulínu sinni á Íslandi. Kemur fram að ef samningi er náð, sé 2VV s.r.o. skylt að greiða miðlara/umboðsaðila „comission“ fyrir vinnu sína. Ljóst er að stefndi gat komið á, samkvæmt þessum samningi, viðskiptasambandi á milli hvaða söluaðila sem var á Íslandi. Verður því ekki tekið undir þá skýringu stefnanda að umboðslaun eða „commission“ og bónus, séu sömu hugtök í þessu sambandi. Stefndi hefði væntanlega ekki getað innheimt bónusgreiðslur sem venjulega eru byggðar á veltutölum, vegna annarra söluaðila. Hann hefði hins vegar getað krafið birgja um umboðslaun fyrir að koma á viðskiptasambandinu á milli þeirra eins og samningurinn hljóðar um. Þá hefur stefnanda ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara samninga stefnda við birgja.

Af öllu ofansögðu hefur stefnanda ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun um að stefndi hafi, með saknæmri og ólögmætri háttsemi, valdið stefnanda fjártjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á eins og greinir í stefnu. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eins og málið liggur fyrir þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Sigurjón Örn Steingrímsson, kt. [...], er sýkn í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.