Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2002
Lykilorð
- Tilraun
- Manndráp
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 67/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Ali Zerbout (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Tilraun til manndráps. Skaðabætur.
A var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið R tvisvar sinnum í háls og síðu. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa kastað hníf að Z, er Z elti hann í kjölfar árásarinnar á R. A neitaði sök en með vísan til framburðar þeirra R og Z, vitna á vettvangi og annarra gagna var það talið hafið yfir allan skynsamlegan vafa að A hefði framið umrædd brot. Var tilviljun ein talin hafa ráðið því að R hlaut ekki bana af atlögu A og var A dæmdur fyrir tilraun til manndráps gagnvart R. Þótti ekki mega álykta að ásetningur A hefði staðið til þess að valda Z meiðslum með því að kasta að honum hníf, heldur hafi fyrst og fremst vakað fyrir honum að tefja eftirför Z. Var A því ekki sakfelldur fyrir tilraun til líkamsárásar gagnvart Z heldur fyrir brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því að stofna lífi eða heilsu annarra í hættu. A var dæmdur í sex ára fangelsi og til greiðslu miskabóta til þeirra R og Z.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. febrúar 2002 að ósk ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en refsing verði þó þyngd. Þá er þess krafist að ákærði greiði miskabætur, annars vegar 1.500.000 krónur til Redouane Adam Anbari, en hins vegar 400.000 krónur til Zakaria Elíasar Anbari, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, svo sem í ákæru greinir.
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um sakfellingu og refsingu ákærða, þó þannig að auk þeirra atriða sem þar um getur skal við refsiákvörðun vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði héraðsdóms um miskabætur til Zakaria Elíasar Anbari er staðfest en bætur til Redouane Adams Anbari ákveðast 800.000 krónur með sömu vöxtum og í héraðsdómi.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að miskabætur til Redouane Adams Anbari skulu vera 800.000 krónur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2002.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 29. júní 2001, á hendur Ali Zerbout, kt. 200965-2139, Álfheimum 68, Reykjavík. Málið var dómtekið 20. desember sl.
Í ákæru eru talin: “... eftirgreind brot gegn almennum hegningarlögum framin í Reykjavík að kvöldi föstudagsins 5. janúar 2001:
1. Fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að bifreiðastæði við veitingastaðinn Hróa Hött, Fákafeni 11, stungið Redouane Adam Anbari, kt. 170865-2009, tvisvar sinnum með hnífi, með þeim afleiðingum að hann hlaut djúp stungusár aftan og neðan við vinstra eyra og sár í vinstri síðu.
2. Fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, með því að hafa skömmu síðar fyrir utan Faxafen 14, kastað hnífnum í áttina að Zakaria Elíasi Anbari, kt. 010168-2019, en hann elti ákærða uppi í kjölfar árásar hans á Redouane Adam og þannig stofnað lífi Zakaria Elíasar í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.
Brot ákærða samkvæmt lið 1 telst varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981. Brot ákærða samkvæmt lið 2 telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981, en til vara við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.”
Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Redouane Adam Anbari krefst miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 5. janúar 2001 til greiðsludags.
Zakaria Elías Anbari krefst miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur með dráttarvöxtum frá 5. janúar 2001 til greiðsludags.
Réttargæslumaður brotaþola krefst hæfilegrar þóknunar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og miskabótakröfum, til vara að miskabótakröfum verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandi hans hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Lögreglu barst tilkynning kl. 19.11 föstudaginn 5. janúar 2001 um að maður hefði verið stunginn með hnífi við veitingastaðinn Hróa Hött í Fákafeni og að árásarmaðurinn hefði hlaupið af staðnum og farið inn í líkamsræktarstöðina Hreyfingu við Faxafen. Innan dyra á veitingastaðnum fannst Redouane Adam Anbari. Var hann með stungusár og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Við hús Hreyfingar fann lögreglan Zakaria Elías Anbari. Afhenti hann hníf er hann sagði að árásarmaðurinn hefði kastað að sér. Sagði hann að árásarmaðurinn væri ákærði, Ali Zerbout. Leitað var að ákærða í húsinu, en hann fannst þar ekki. Skömmu síðar fundu aðrir lögreglumenn ákærða við heimili hans í Álfheimum og var hann handtekinn.
Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 6. janúar til 9. febrúar2001.
Verða nú reifaðar skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi. Samhliða því verða önnur gögn málsins reifuð.
Ákærði neitar sök samkvæmt báðum liðum ákæru. Hann kveðst ekki hafa komið að Hróa Hetti umrætt sinn. Um þetta leyti, þ.e. um klukkan sjö hafi hann verið heima hjá sér. Hann kvaðst hafa verið í líkamsræktarstöðinni Gáska í Bolholti eftir hádegið. Þaðan hafi hann farið um klukkan hálf fimm og gengið heim til sín. Hann hafi ætlað að koma við í versluninni Krónunni, en séð að hún var lokuð og þá farið beint heim til sín. Hann hafi verið kominn þangað um klukkan hálf sjö.
Ákærði neitaði að eiga hníf þann sem lögregla lagði hald á. Hann kvaðst ekki hafa séð þennan hníf fyrr en lögreglan sýndi honum hann.
Redouane Adam Anbari gaf skýrslu við aðalmeðferð. Hann kvaðst hafa verið í vinnu á veitingastaðnum Hróa Hetti í Fákafeni. Kona hans og börn þeirra hafi verið nýfarin og hann hafi verið að sýsla við bifreið sína bak við húsið. Þá hafi hann allt í einu orðið var við að ákærði kom að honum. Hafi hann tvisvar, í síðuna og hálsinn, og sagt um leið á arabísku að hann ætlaði að klára þetta, að hann ætlaði að drepa hann núna.
Redouane kveðst hafa hlaupið í átt að húsinu og kallað á bróður sinn sem var þar inni. Hann hafi dottið á leiðinni og þá séð ákærða greinilega þar sem hann stóð yfir honum með hníf í hendi. Bróðir hans, Zakaria, og annað starfsfólk hafi þá komið út og þá hafi ákærði hlaupið burt. Hann hafi farið út fyrir húsið, fram hjá Herrafataverslun Birgis og Little Ceasars. Hann hafi sjálfur ætlað að elta ákærða, en hætt fljótlega því það hafi blætt mikið úr sárunum.
Redouane kvaðst vita að ákærði hefði skömmu fyrir þetta atvik hringt í eiginkonu vitnisins og hótað að drepa vitnið.
Redouane sagði að síðastliðið ár hefði verið erfitt fyrir fjölskylduna. Aðspurður um heilsufar sitt nú kvaðst hann vera dofinn vinstra megin í höfðinu. Hann hefði verið slæmur í lungum lengi, hóstað mikið um sex til sjö mánaða skeið og haft lítið úthald.
Nadía Souni Anbari, eiginkona Redouane, gaf skýrslu við aðalmeðferð. Hún greindi frá því að ákærði hefði hringt í hana einhvern tíma dagana 26. til 29. desember 2000. Hann hafi spurt eftir manni hennar en er hún sagði að hann væri ekki heima hafi ákærði sagt að hann ætlaði að drepa hann og fjölskyldu hans.
Ákærði játaði í skýrslu sinni að hann hefði hringt í heimasíma Redouane þann 29. desember. Það hefði verið óvart. Hann hefði hringt í vitlaust númer, hefði ætlað að hringja í Adel Hak, sem sé frá Marokkó. Ákærði kvaðst alls ekki hafa hótað Nadíu eða ákærða, hann hefði aldrei hótað nokkrum manni.
Á yfirliti sem Landssíminn lét í té má sjá að hringt hefur verið í heimasíma Redouane Adam Anbari í tvígang rétt fyrir klukkan hálf átta að kvöldi 29. desember 2000. Hringt er úr síma númer 695 2589. Eigandi og rétthafi þess síma er Gunnar Alfreð H. Jensen.
Gunnar gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa lánað ákærða símann á þessum tíma. Ákærði hafi hringt tvisvar. Hann hafi verið eitthvað æstur í símann, en Gunnar kvaðst ekki hafa skilið hvað hann sagði, hann hefði talað arabísku.
Zakaria Adam Anbari kvaðst hafa verið inni á veitingastaðnum og þá heyrt bróður sinn kalla á sig. Hann hafi farið út og séð bróður sinn, það hafi blætt mikið úr honum. Hann hafi líka séð að ákærði var þar rétt hjá. Er hann sá hann hafi ákærði hlaupið í burtu. Hann hafi elt hann, hlaupið hann uppi og slegið hann á hálsinn. Þá hafi þeir verið komnir nálægt Hreyfingu í Faxafeni. Ákærði hafi komið þar að dyrunum og kvaðst Zakaria hafa sagt honum að fara ekki þar inn. Ákærði hafi þá tekið upp hníf og kastað að sér. Sér hafi virst hann miða á sig. Hafi hann beygt sig niður og hnífurinn hafi lent í bifreið sem var þar á stæðinu. Kvaðst hann hafa losað hnífinn og síðan afhent hann lögreglunni. Hann kvaðst ekki hafa orðið fyrir hnífnum og að hann hafi ekki meiðst við þetta.
Vitnið kvaðst hafa séð að þetta var ákærði, en hann hafi vitað hver hann var. Ákærði hafi þarna verið í svörtum buxum, svörtum jakka og með rauða hettu.
Vitnið skoðaði hníf sem lögregla afhenti dóminum og staðfesti að það væri umræddur hnífur.
Elín Erna Markúsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa verið á leið út úr Líkamsræktarstöðinni Hreyfingu ásamt dóttur sinni og syni. Hún hafi séð mann koma hlaupandi að húsinu og hlaupa á hurðina, sem er búin sjálfvirkri opnun. Hann hafi verið lágvaxinn, klæddur rauðri og svartri íþróttatreyju. Hún hafi séð annan mann koma hlaupandi á eftir hinum. Sá var klæddur eins og kokkur. Síðan hafi hún séð er sá fyrri tók upp hníf og mundaði og kastaði að þeim er síðar kom. Þá kvaðst Elín hafa hlaupið upp með börnum sínum. Sá er kastaði hnífnum hafi komið upp, farið inn á salerni sem er á ganginum en komið strax út aftur og farið inn í búningsklefa. Elín sagði að á leiðinni upp hefðu þau mætt ungum manni og sagt honum frá þessu. Hann hafi síðan hringt til lögreglu.
Elín sagði að síðastliðið sumar hefði einhver útlendingur hringt í GSM-síma dóttur hennar. Hann hefði talað ensku. Þær hefðu tilkynnt þetta lögreglunni.
Margrét Pálsdóttir, dóttir Elínar Ernu, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún lýsti atvikum á sama veg og móðir hennar. Hún hefði séð mann hlaupa á hurðina og annan koma stuttu síðar. Þeir hefðu átt einhver orðaskipti. Hún hefði séð er sá fyrri tók upp hníf, sló honum aftur og kastaði að hinum. Kvaðst hún hafa heyrt er hnífurinn small í einhverju. Kvað hún greinilegt að hann hefði miðað hnífnum á hinn.
Margrét kvaðst ekki muna eftir fatnaði þess er kastaði hnífnum. Hann hefði verið frekar lágvaxinn, annað augað hefði verið rautt og þrútið.
Margrét sagði að í maímánuði síðastliðnum hefði einhver hringt í sig. Sá hefði ekki talað góða ensku. Hann hefði talað um að hún hefði ekki séð rétt það sem hafði gerst og að ákærði væri fimm barna faðir. Hún kvaðst hafa lagt á, en þá hefði þessi maður hringt aftur. Síðan hefði hún fengið sent bréf heim í sumar.
Ákærði var spurður um þessar símhringingar fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa hringt í þetta vitni og ekki vita til þess að neinn sem hann þekkti hefði hringt.
Margrét Ása Karlsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa verið stödd í bíl fyrir utan Hreyfingu. Hún hefði séð tvo menn koma hlaupandi með fram hliðinni á bílnum. Þeir hafi tekist eitthvað á fyrir framan bílinn. Hún hafi séð síðan er annar dró upp hníf og þá hafi hinn hörfað. Hann hafi kastað hnífnum í átt að hinum. Hann hitti ekki og þá hafi komið fát á þann er kastaði hnífnum, en hann hafi síðan hlaupið inn.
Margrét sagði að sá er kastaði hnífnum hefði verið í hettupeysu, með eitthvað yfir höfðinu, í dökkum fötum. Hann hafi virst frekar lágvaxinn og dökkur yfirlitum.
Þeir Pétur Daníel Pétursson og Freyr Garðarsson voru staddir á veitingastaðnum Little Ceasars um þetta leyti. Þeir báru báðir að þeir hefðu séð tvo menn á hlaupum. Síðan hefði annar þeirra tekið eitthvað upp og kastað í áttina að hinum. Freyr Garðarsson tók fram að sá hefði getað beygt sig niður bak við bíl.
Kristján Geir Ólafsson kvaðst hafa verið á leið frá húsi Hreyfingar. Hann hafi séð tvo menn koma hlaupandi. Annar hafi verið að elta hinn. Sá er elti hefði slegið hinn fyrri, sem þá fór inn í húsið. Hefði sá síðan komið út aftur og hent einhverju að hinum. Kvaðst Kristján hafa heyrt að það var járn er það lenti á bíl. Eftirá hefði hann séð að þetta var hnífur. Hann kvað þessa tvo menn vera útlendinga. Sá sem kastaði hnífnum hefði verið með hettu yfir höfðinu.
Auk áðurgreindra vitna gáfu skýrslur fyrir dómi þeir Belhous Hocini, sem er kunningi ákærða, og Ómar Samir, sem túlkaði við yfirheyrslur yfir ákærða við rannsókn málsins hjá lögreglu, og Halldór Halldórsson. Ekki er ástæða til að reifa það sem kom fram í skýrslum þeirra.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var ákærði handtekinn við Álfheima 68 kl. 19.41. Um leit að honum og handtökuna gáfu lögreglumennirnir Arnar Þór Egilsson, Friðrik Ingvi Jóhannsson og Ásmundur Kristinn Ásmundsson skýrslur fyrir dómi.
Þeir kváðust hafa farið að Álfheimum 68 og leitað að ákærða í kjallara hússins, þar sem leigð séu út nokkur herbergi. Þeir hafi ekki fundið ákærða þar inni og herbergi hans hafi verið lokað. Þeir hafi þá farið út, Arnar og Friðrik suður fyrir húsið, en Ásmundur verið norðan við það. Þeir hafi ekki getað séð inn í herbergið því þéttar rimlagardínur hafi verið fyrir. Arnar kvaðst hafa orðið var við hreyfingu inni á gangi er þeir voru komnir út og augnabliki síðar hafi Ásmundur kallað þá til þar sem hann hafði handtekið ákærða.
Ásmundur Kristinn sagði að er hann var kominn út og var norðan við húsið hafi ákærði komið upp tröppurnar úr kjallaranum og hafi hann þá kallað til félaga sína og handtekið ákærða. Eftir handtökuna hefði hann farið niður og þá hefðu dyrnar að herbergi ákærða staðið opnar. Friðrik Ingvi sagði að sig minnti að ákærði hefði verið í jogging-fatnaði, hann hefði verið sveittur og með áverka á öðru auga. Hann hefði sagt áverkann vera nokkurra daga gamlan.
Redouane Adam Anbari var fluttur á slysadeild eins og áður segir. Í vottorði Sigurgeirs Kjartanssonar er lýst áverkum hans og meðferð. Þar segir m.a.:
“... Hann er við fulla meðvitund og stöðugur í lífsmörkum við komu og gaf greinargóða lýsingu á atburðinum. Hann kvartar um verk í vinstri síðu og það lagar blóð úr sári rétt neðan og aftan við eyra. Sárið sjálft er aðeins sentimetri á lengd en það er rispa fram á við fram yfir kjálkabarðið. Við nánari skoðun er stungusár um 1,5 cm yfir vi. síðu nálægt miðclaviculerlínu nokkru ofan við rifjabarð sem blæðir ekki úr og ekki er að sjá merki um loftleka og þar sem lífsmörk eru góð er tekinn tími í rannsóknir og sýnir lungnamynd ekkert athugavert en CT af thorax og kvið sýndi aðeins vökvasafn í vi. pleura en kviðarholslíffæri virðast ósnert og ekkert loft í kviðarholi utan garna. ... Eftir infiltration í kringum stungusárin er fyrst þreifað í hálsskurðinn og liggur stungan upp undir kúpubotn og engin merki var að sjá um frekari áverka, var aðeins lagður inn penrose keri og skurði lokað lauslega með 4/0 Ethylone saumi. Að því loknu var skurður á síðu deyfður yfirborðslega og djúpt með Lidocain með Adrenalini og skurður stækkaður lítið eitt fram á við þannig að unnt var að koma fingri inn í sárið og lá það á milli rifja og inn á þind en ekki fannst fyrir rofi á þind á þeim stað og þar sem engin merki voru um loftleka var skurði lokað með Prolene saumi.
Eftir vöktun yfir nótt var hann við góða heilsu og endurtekin röntgenmynd af lungum sýndi ekkert athugavert ...
Hann kom til skoðunar þ. 17.01. eða 12 dögum eftir slysið og er við góða heilsu og það er ekki að finna merki um varanlegan skaða. Skurðir hafa gróið og saumar fjarlægðir ...”
Sigurgeir Kjartansson gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann sagði að þetta hefðu verið tveir áverkar sem hvor um sig hefði getað nægt til að draga viðkomandi til dauða.
Redouane leitaði til Ólafs Baldurssonar, sérfræðings í lyflækningum og lungnalækningum þann 26. janúar 2001, vegna verkja í vinstri síðu og ertingshósta. Tölvusneiðmynd er tekin var 2. febrúar 2001 sýndi vökvasöfnun í vinstra fleiðuholi en ekki loftbrjóst. Við eftirlit 16. febrúar var hann enn með verki og voru honum gefin bólgueyðandi lyf.
Þá leitaði Redouane að frumkvæði réttargæslumanns síns til Sverris Bergmann, sérfræðings í taugalækningum. Í niðurstöðum sem hann lýsir í bréfi til réttargæslumanns, dagsettu 11. desember 2001, segir m.a.: “... hefur skemmd í vinstri nervus occipitalis minor. Skemmdin er tilkomin vegna stungu í hnakka með hníf og náði stungan upp að kúpubotni. Taugin liggur á þessu svæði. Hann er með dofa á svæðinu en fær inn á milli óþægilega kláðatilfinningu og ertingu og stundum slæma verki. Þetta bendir til þess að taugin sé ekki alveg í sundur. Hann hefur af þessu talsverðan miska. Ekki tel ég miklar líkur á að þetta lagist ...”
Þá var Redouane að frumkvæði réttargæslumanns síns í viðtölum hjá Margréti Arnljótsdóttur, sálfræðingi. Margrét ræddi einnig í tvígang við Nadiu, eiginkonu Redouane. Í skýrslu Margrétar segir að árásin hafi haft veruleg áhrif þau bæði. Greinir hún Redouane með meðalalvarleg einkenni áfallaröskunar. Þá lýsir hún einnig stöðugum ótta þeirra hjóna við ákærða, en sama kom fram í skýrslu Redouane fyrir dómi. Margrét Arnljótsdóttir kom einnig fyrir dóm og gaf skýrslu.
Hnífur sá sem ákærði er talinn hafa kastað að Zakaria Elíasi Anbari var tekinn til rannsóknar af Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði ásamt blóðsýnum úr þeim bræðrum og ákærða. Við DNA-rannsókn sem framkvæmd var af Rettsmedisinsk Institutt við Háskólann í Osló kemur fram að það blóð sem fannst á hnífnum sé úr Redouane Adam Anbari. Prófessor Gunnlaugur Geirsson lýsir því í bréfi sínu að líkurnar á því að finna annan einstakling er sýni samskonar DNA-snið séu lægri en 0,001%.
Þann 17. janúar 2001 voru nokkur af þeim vitnum sem lögreglan hafði rætt við vegna rannsóknar málsins látin taka þátt í myndsakbendingu. Voru útbúin spjöld fyrir hvert vitni með mynd af ákærða og átta öðrum ljósmyndum úr safni lögreglunnar. Vitnið Margrét Pálsdóttir, sem áður er getið, benti á mynd af ákærða og kvað hann vera þann mann er hún hafði séð við húsakynni Hreyfingar. Þá taldi vitnið Magnús Gunnar Gíslason, sem var staddur í húsakynnum Hreyfingar umrætt sinn, að mynd af ákærða væri líklega mynd af þeim manni er hann hafði séð. Magnús gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Aðrir þekktu ekki ákærða og raunar benti vitnið Elín Guðmundsdóttir, starfsmaður Hreyfingar, á mynd af öðrum manni. Elín gaf heldur ekki skýrslu fyrir dómi.
Leit var gerð að fötum þeim sem talið er að ákærði hafi verið í er hann er talinn hafa framið brotin. Þau hafa ekki fundist og vitni gátu ekki þekkt föt af ljósmyndum er lögregla tók af fatnaði er fannst heima hjá ákærða. Ítarleg leit lögreglu að hettupeysu bar ekki árangur.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök. Bræðurnir Redouane og Zakaria hafa frá upphafi lögreglurannsóknar og nú síðast fyrir dómi verið staðfastir í þeim framburði sínum að það hafi verið ákærði sem stakk Redouane í tvígang og kastaði síðan hnífnum að Zakaria.
Framburður bræðranna er studdur af nokkrum atriðum. Verulegar líkur eru leiddar að því að ákærði hafi hringt í Nadiu, eiginkonu Redouane, að kvöldi 29. desember 2000 og hótað því að drepa eiginmann hennar. Fjölmörg vitni eru að hlaupum manns, sem líktist ákærða, og Zakaria frá veitingastaðnum í Fákafeni og að húsi Hreyfingar við Faxafen. Þá eru vitni sem lýsa því nákvæmlega hvernig maðurinn mundaði hníf sinn og kastaði honum að Zakaria. Við athugun dómsins á hnífnum kom í ljós að sú aðferð sem vitnin Elín Erna Markúsdóttir og Margrét Ása Karlsdóttir lýstu er einföld aðferð til að opna hann. Vitnin lýsa árásarmanninum sem lágvöxnum og vitnið Margrét Pálsdóttir lýsir því að annað auga árásarmannsins hafi verið rautt og þrútið. Kemur það heim og saman við útlit ákærða á þessum tíma, en samkvæmt vottorði Theodórs Friðrikssonar frá 2. febrúar 2001 var blæðing í aughvítu á vinstra auga ákærða, er læknirinn skoðaði hann í beinu framhaldi af handtöku hans. Þá staðfesti vitnið Friðrik Ingvi Jóhannsson, lögreglumaður, að við handtöku hafi ákærði verið með áverka á öðru auga. Að mati dómsins er ekki vafi á því að þarna var ákærði á ferð.
Ekki verður neitt lesið um atvik af þeirri staðreynd að ákærði hefur verið í herbergi sínu er lögregla kom að fjölbýlishúsinu þar sem hann býr.
Samkvæmt þessu telur dómurinn það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru.
Ákærði stakk Redouane Adam Anbari tvisvar sinnum af afli í háls og síðu og gat hvor stungan um sig dregið Redouane til dauða samkvæmt mati vitnisins Sigurgeirs Kjartanssonar, læknis. Árás þessi og fyrri hótanir þykja fela í sér óræka sönnun þess að ákærði hafi haft ásetning til að svipta Redouane lífi. Atlagan varðar hann því refsingu samkvæmt 211., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki er af gögnum málsins og skýrslum vitna unnt að greina hversu langt var á milli ákærða og Zakaria er hann kastaði hníf sínum að honum. Með skýrslum vitna hefur verið sýnt fram á að ákærði miðaði á Zakaria. Þrátt fyrir það verður ekki af atvikum ályktað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að valda Zakaria meiðslum, heldur hafi fyrst og fremst vakað fyrir honum að tefja eftirförina. Verður hann ekki sakfelldur fyrir tilraun til brots gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar stofnaði ákærði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu Zakaria í verulega hættu með því að kasta hnífnum í átt að honum. Hefur hann með þessari atlögu brotið gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði var til geðrannsóknar hjá Sigurði Páli Pálssyni, geðlækni. Fram var komið að hann hafði verið til meðferðar hjá geðlækni á göngudeild geðdeildar Landspítalans frá því í nóvember 1999. Í niðurstöðum Sigurðar Páls Pálssonar segir:
“1. Það er niðurstaða mín að Ali Zerbout sé sakhæfur því hann hafi verið að fullu fær á þeim tíma er verknaðurinn var framinn að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Refsing kemur að gagni því hann á að skilja og veit örugglega hvað hann gerði.
2. Ali Zerbout á við að stríða þunglyndi sem er meðalþungt og þarf hann líklegast lyfjameðferð við því. Þunglyndi hans er hinsvegar án efa talsvert aðstæðubundið og óljóst er hvort Ali Zerbout hafi tekið lyfin sín samviskusamlega. Færni til almenns daglegs lífs hjá Ali er eðlileg en ljóst er að Ali Zerbout verður áfram öryrki vegna aðlögunarerfiðleika, skapgerðarbresta og paranoid viðbragða ...”
Samkvæmt þessu verður ákærði talinn sakhæfur. Hann hefur einu sinni verið sakfelldur fyrir refsilagabrot hér á landi. Var það með dómi 4. desember 1997, en ákvörðun refsingar vegna brots gegn 217. gr. almennra hegningarlaga var frestað skilorðsbundið í eitt ár. Aðdrgandi og framkvæmd brots ákærða vitnar um einbeittan brotavilja. Þá réð tilviljun ein að ekki hlaust bani af atlögu hans. Hæfilegt er að ákærði sæti fangelsi í sex ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. janúar til 9. febrúar 2001.
Dæma ber ákærða til að greiða brotaþolum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun bóta til Redouane Adam Anbari ber að líta til þess hversu háskaleg atlagan var, en ekki er á þessu stigi krafist þjáningabóta samkvæmt 4. gr. laganna. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur er beri dráttarvexti frá þeim degi er mál þetta var þingfest, 2. ágúst 2001. Miskabætur til Zakaria Elíasar Anbari eru ákveðnar 150.000 krónur, er beri vexti á sama hátt.
Loks verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 225.000 krónur, en þóknun réttargæslumanns brotaþola er ákveðin 150.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Allan V. Magnússon og Valtýr Sigurðsson.
D ó m s o r ð
Ákærði, Ali Zerbout, sæti fangelsi í sex ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. janúar til 9. febrúar 2001.
Ákærði greiði Redouane Adam Anbari 600.000 krónur með dráttarvöxtum frá 2. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði Zakaria Elíasi Anbari 150.000 krónur með dráttarvöxtum frá 2. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Arnar Clausen hrl., 225.000 krónur, og þóknun Sifjar Konráðsdóttur hrl., 150.000 krónur.