Hæstiréttur íslands
Mál nr. 25/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Hald
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2003. |
|
Nr. 25/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Hald. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Vísað var frá dómi kröfu X um að dæmd yrði „óheimil og ólögmæt skoðun og haldlagning lögreglu h. 25. júlí 2002“ á tiltekinni dagbók, en fyrir lá að bókin hafði þegar verið skoðuð af lögreglu. Lögreglan hafði lagt hald á dagbókina við frumrannsókn á vettvangi og metið það svo að bókin hafi sönnunargildi í opinberu máli. Ekki varð séð að næg ástæða væri til að hrófla við því mati að svo stöddu. Var kröfu X, um að haldi á dagbókinni yrði þegar aflétt, því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2003, þar sem vísað var frá dómi kröfu varnaraðila um að sóknaraðila væri óheimilt og ólögmætt að skoða dagbók hennar, sem hald var lagt á 25. júlí 2002, og jafnframt hafnað kröfu hennar um að haldinu yrði aflétt. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að dæmd verði „óheimil og ólögmæt skoðun og haldlagning lögreglu h. 25. júlí 2002” á fyrrnefndri dagbók og að haldi á henni verði þegar aflétt, en til vara að ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun verði fellt úr gildi og málinu vísað heim í hérað að því leyti til löglegrar meðferðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2003.
Sóknaraðili er X kt. [...], [...], Reykjavík.
Varnaraðili er lögreglustjórinn í Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að dómurinn kveði upp úrskurð þess efnis að óheimil og ólögmæt sé skoðun og haldlagning lögreglu 25. júlí 2002 á dagbók kærðu og haldi verði aflétt af bókinni nú þegar og að málskostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun til verjanda.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að aðallega að frávísað verði kröfu sóknaraðila um að óheimil og ólögmæt sé skoðun lögreglu á dagbók kærðu en til vara að þeirri kröfu verði hafnað. Þá er þess krafist að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að haldlagningu lögreglu á dagbók kærðu verði aflétt. Þá er krafist málskostnaðar.
[...]
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 29. júlí 2002, krafðist sóknaraðili þess að dagbók í eigu hennar, sem lögreglan lagði hald á við leit á dvalarstað hennar 25. júlí 2002, yrði skilað. Er sú krafa sóknaraðila studd við 79. gr. laga nr. 19/1991.
Er krafan var tekin fyrir á dómþingi 31. sama mánaðar kom upp ágreiningur um afhendingu og skoðun rannsóknargagna málsins. Hafnað var kröfu lögmanns sóknaraðila um að fá eintak af gögnunum til skoðunar á grundvelli 43. gr. laga nr. 19/1991. Var sú ákvörðun héraðsdómara staðfest með dómi Hæstaréttar 2. september 2002 í máli nr. 36/2002 með vísan til þess að lögmaður sóknaraðila hafði ekki verið skipaður verjandi sóknaraðila. Var lögmaðurinn í framhaldi af því skipaður verjandi sóknaraðila 6. sama mánaðar.
Við fyrirtöku málsins að nýju 20. september 2002 krafðist sóknaraðili þess að úrskurðað yrði um lögmæti húsleitar varnaraðila og haldlagningar á dagbókinni. Þeirri kröfugerð var mótmælt af hálfu varnaraðila og með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 30. september 2002 í málinu nr. 450/2002 var vísað frá þeirri kröfu sóknaraðila að úrskurðað yrði um lögmæti húsleitarinnar.
Með úrskurði héraðsdóms í máli þessu 6. nóvember 2002 var hafnað beiðni sóknaraðila um að fá að leiða fjögur nafngreind vitni til að bera um atvik að haldlagningunni. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 509/2002, uppkveðnum 18. nóvember 2002, var sú niðurstaða staðfest.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 10. desember sl.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að haldlagningin hafi verið ólögmæt aðgerð og farið í bága við 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 vegna eðlis þess munar, sem hald var lagt á. Hér sé um að ræða dagbók, sem sóknaraðili færir í innstu hugrenningar sínar og viðkvæmt efni, sem óskylt sé að færa fram við rannsókn lögreglu og engum komi við nema henni sjálfri og áreiðanlega sé flest ef ekki allt óviðkomandi þessu máli. Í málflutningi byggði sóknaraðili og á því að dagbókin félli ekki undir skligreiningu þeirra muna, sem hald verði lagt á samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1991.
Varnaraðili byggði á því í málflutningi að sjálfstæð heimild fælist í 78. gr. laga nr. 19/1991 til að leggja hald á gögn. Ekki þurfi úrskurð dómara til haldlagningar muna né skoðunar á innihaldi þeirra, nema samkvæmt 80. gr. laga 19/1991. Það sé mat lögreglu að dagbókin hafi sönnunargildi í málinu.
Fyrir liggur að dagbók sú sem hald var lagt á tiltekið sinn hefur verið skoðuð af lögreglu. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa frá héraðsdómi þeirri kröfu sóknaraðila að óheimil sé skoðun á dagbók sóknaraðila. Þá verður að hafna því sjónarmiði sóknaraðila að ákvæði 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 um rétt sakbornings til að neita að tjá sig geti átt hér við. Til úrlausnar er sú krafa sóknaraðila að úrskurðað verði um lögmæti haldlagningar á grundvelli 75. gr., sbr. 79. gr., laga nr. 19/1991. Við mat á því kemur til álita hvort skilyrðum 78. gr. laganna til haldlagningar hafi verið fullnægt.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laganna skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli. Eðli máls samkvæmt er engin takmörkun á því hvaða munir geti hér komið til. Það hlýtur að ráðast af atvikum og aðstæðum hverju sinni. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að dagbók hennar sé þar undanskilin, að uppfylltum lagaskilyrðum.
Lögregla lagði hald á dagbók sóknaraðila við frumrannsókn á vettvangi. Ekki þurfti úrskurð dómara til þeirrar haldlagningar, nægjanlegt var að lögreglan legði mat á það hvort skilyrði væru til þess. Verður því að telja að skilyrðum 78. gr. laganna til haldlagningar hafi verið fullnægt. Hefur lögregla ekki viljað aflétta haldlagningunni og metið það svo að dagbókin hafi sönnunargildi í opinberu máli. Ekki verður séð að næg ástæða sé til að hrófla við því mati, að svo komnu, og ber að hafna kröfu sóknaraðila um að haldlagningu lögreglu á dagbók sóknaraðila verði aflétt.
Rétt þykir að málskostnaður verði felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila um að óheimil og ólögmæt sé skoðun lögreglu á dagbók sóknaraðila er vísað frá dómi. Hafnað er kröfu sóknaraðila um að haldlagningu lögreglu á dagbók sóknaraðila verði aflétt.
Málskostnaður fellur niður.