Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2011
Lykilorð
- Verksamningur
- Hæfi dómara
- Tómlæti
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
|
Nr. 115/2011.
|
María Guðmundsdóttir og Rafn Yngvi Rafnsson (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Borgarlögnum ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Verksamningur. Hæfi dómara. Tómlæti. Matsgerð.
B ehf. tók að sér verk við pípulagnir fyrir M og R. Ekki var gerður skriflegur samningur um verkið og var það unnið í útseldri tímavinnu. Í Hæstarétti var ekki fallist á aðalkröfu M og R um ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Það eitt að meðdómsmaður og fyrirsvarsmaður B ehf. hefðu tekið þátt í störfum fagfélags í þeirri iðngrein sem þeir störfuðu við gæti ekki valdið því að óhlutdrægni meðdómsmannsins yrði með réttu dregin í efa. Jafnframt var ekki fallist á að M og R hefðu fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi kröfu um endurgreiðslu úr hendi B ehf. vegna tómlætis. Þá féllst Hæstiréttur heldur ekki á varakröfu M og R um endurgreiðslu vegna þess sem þau töldu sig hafa ofgreitt eða vegna afsláttar sem B ehf. naut við efniskaup til verksins, enda lægi ekki fyrir í málinu að B ehf. hefði gengist undir slíka skuldbindingu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2011. Þau krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefjast áfrýjendur þess að stefnda verði gert að greiða þeim 1.364.463 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2009 til greiðsludags. Að því frágengnu gera þau þá kröfu að stefnda verði gert að greiða þeim 805.276 krónur en verði ekki á það fallist 548.317 krónur með sömu vöxtum og í varakröfu. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjendur reisa kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að annar sérfróðra meðdómsmanna, Skarphéðinn Skarphéðinsson pípulagningameistari, hafi verið vanhæfur til að dæma málið vegna náinna félags- og fagtengsla við fyrirsvarsmann stefnda, Svein Borgar Jóhannesson. Til stuðnings þessu benda áfrýjendur á að meðdómsmaðurinn sé formaður Félags pípulagningameistara og eigi auk þess sæti í taxtanefnd félagsins. Fyrirsvarsmaðurinn eigi aftur á móti sæti í trúnaðarráði félagsins og kjaranefnd, auk þess að vera annar skoðunarmanna þess. Áfrýjendur taka fram að þau hafi fyrst eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms fengið upplýsingar um þessi tengsl til margra ára, en þau séu þess eðlis að draga megi óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi andmælir því að meðdómsmaðurinn hafi verið vanhæfur og bendir á að meðdómsmaðurinn og fyrirsvarsmaðurinn hafi á liðnum árum ekki setið í sömu stjórn eða nefnd á vegum félagsins.
Það eitt að meðdómsmaður og fyrirsvarsmaður stefnda hafi á sama tíma tekið þátt í störfum fagfélags í þeirri iðngrein sem þeir starfa við getur ekki valdið því að óhlutdrægni meðdómsmannsins verði með réttu dregin í efa. Að því gættu og þar sem ekkert annað hefur komið fram sem rennir stoðum undir þessa kröfu verður henni hafnað.
II
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi að sér verk við pípulagnir fyrir áfrýjendur í parhúsinu að Úlfarsbraut 10 í Reykjavík. Ekki var gerður skriflegur samningur um verkið og var það unnið í útseldri tímavinnu. Stefndi gerði áfrýjendum reikning 13. nóvember 2007 að fjárhæð 360.150 krónur og var hann greiddur án athugasemda. Það sama á við um reikninga 9. apríl 2008 að fjárhæð 365.781 króna, 28. maí sama ár að fjárhæð 306.489 krónur og 3. júní það ár að fjárhæð 1.453.111 krónur. Áfrýjendur greiddu aftur á móti ekki reikning 16. júlí 2008 að fjárhæð 1.946.931 króna. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kannaðist fyrirsvarsmaður stefnda við að áfrýjandinn Rafn hefði haft samband við sig til að gera athugasemdir við vinnulið reikningsins. Í kjölfarið var reikningurinn bakfærður og tveir nýir reikningar gefnir út 16. október 2008 samtals að fjárhæð 1.834.862 krónur. Eftir að áfrýjendur höfðu gert athugasemdir með bréfum 17. og 21. október 2008 greiddu þau reikningana 30. þess mánaðar með fyrirvara um að hafa uppi endurkröfu á hendur stefnda. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnda að áfrýjendur hafi með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi kröfu um endurgreiðslu úr hans hendi.
Þar sem ekki var samið um fast verð fyrir þjónustu stefnda bar áfrýjendum að greiða það verð sem telja mátti sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, sem gilda í lögskiptum aðila. Er sú regla í samræmi við rótgróna meginreglu kröfuréttar.
III
Í aðdraganda þess að málið var höfðað öfluðu áfrýjendur matsgerðar um sanngjarnt og eðlilegt heildarverð fyrir verkið sem í matsbeiðni er sagt hafa verið unnið á tímabilinu júlí 2007 til október 2008. Niðurstaða matsmannsins var að ofgreiðsla úr hendi áfrýjenda fyrir verkið næmi 945.000 krónum. Áfrýjendur reisa kröfu sína á hendur stefnda á matsgerðinni, en jafnframt gera þau kröfu um greiðslu sem svarar til afsláttar er stefndi fékk við efniskaup til verksins. Kröfugerð áfrýjenda er rakin tölulega í hinum áfrýjaða dómi.
Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lagði stefndi fram yfirmatsgerð. Samkvæmt matsgerðinni 2. febrúar 2010 komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir verkið, sem unnið hafi verið á fyrrgreindu tímabili, hafi numið 4.050.000 krónum, sem skiptist í efniskostnað að fjárhæð 2.370.000 krónur og vinnulið að fjárhæð 1.680.000 krónur. Áfrýjendur hafa andmælt yfirmatinu og telja að með því hafi undirmati ekki verið hnekkt. Til stuðnings þeim andmælum halda áfrýjendur því fram að forsendur yfirmatsins séu óljósar auk þess sem þau telja að yfirmatsmenn hafi ekki gætt hlutleysis og hlutlægni við matið, heldur litið á það sem hlutverk sitt að hnekkja undirmati. Þá telja áfrýjendur að á yfirmati sé sá annmarki að það miði við verðlagsforsendur á tímabilinu frá júlí 2007 til október 2008. Í lok þess tímabils hafi orðið mikil hækkun á verðlagi, en nánast allt efni til verksins hafi verið keypt fyrir sumarið 2008.
Í niðurstöðu yfirmatsgerðar er matið sundurliðað eftir efniskostnaði og vinnu í nánar tilgreinda verkliði. Tekið er fram í forsendum matsins að það hafi að geyma alla kostnaðarliði, auk þess sem einingaverð vinnuliða byggist á markaðsverði eða mælingatöxtum þar sem það eigi við. Einnig segir að yfirmatsmenn hafi magntekið verkið samkvæmt samþykktum lagnateikningum. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með áfrýjendum að forsendur matsins séu óljósar. Jafnframt bendir ekkert til að yfirmatsmenn hafi verið hlutdrægir, en það verður með engu móti ráðið af því að í matsgerð er í umfjöllun um matsbeiðni tekið upp að hún sé sett fram í þeim augljósa tilgangi að hnekkja undirmati. Þá taka yfirmatsmenn fram að matið taki mið af verðlagi í samræmi við framvindu verksins á framkvæmdatíma. Skiptir því engu þótt fram komi í samræmi við matsspurningu að verðlagsgrundvöllur matsins miði við júlí 2007 til október 2008, en tímabilið var upphaflega afmarkað þannig af áfrýjendum sjálfum í beiðni þeirra um undirmat. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með áfrýjendum að annmarkar séu á yfirmati en niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, er reistur á matinu. Verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
IV
Í yfirmatsgerð er komist að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir verkið, sem stefndi vann fyrir áfrýjendur, hafi numið 4.050.000 krónum. Fyrir þetta verk höfðu áfrýjendur greitt samtals 4.320.393 krónur eða um 6,3% hærra en nemur matinu. Hér skeikar svo litlu að ósannað er að reikningar stefnda teljist ósanngjarnir í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000.
Svo sem áður er rakið gera áfrýjendur sérstaka kröfu um endurgreiðslu vegna afsláttar sem stefndi naut við efniskaup til verksins og þess sem áfrýjendur telja sig hafa ofgreitt fyrir verkið. Samkvæmt reikningum stefnda greiddu áfrýjendur samtals 2.429.531 krónu til stefnda vegna efniskaupa. Í yfirmatsgerð er efniskostnaður við verkið metinn 2.370.000 krónur eða rétt tæpum 60.000 krónum lægri. Að því gættu að heildarendurgjald fyrir verkið, að meðtöldum efniskostnaði, verður sem fyrr segir ekki talið ósanngjarnt verður ekki fallist á það með áfrýjendum að þeir geti krafist greiðslu sem svarar til afsláttar er stefndi fékk hjá efnissölum, enda liggur ekki fyrir í málinu að stefndi hafi gengist undir slíka skuldbindingu gagnvart áfrýjendum.
Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfum áfrýjenda.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Borgarlagnir ehf., er sýkn af kröfum áfrýjenda, Maríu Guðmundsdóttur og Rafns Yngva Rafnssonar.
Áfrýjendur greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 20. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rafni Yngva Rafnssyni, kt. 270268-5799, Úlfarsbraut 10, Reykjavík, og Maríu Guðmundsdóttur, kt. 220569-5279, Úlfarsbraut 10, Reykjavík, með stefnu, birtri 6. maí 2009, á hendur Borgarlögnum ehf., kt. 701293-4289, Gylfaflöt 24-30, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnendum kr. 1.364.463 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 15. maí 2009 til greiðsludags. Til vara gera stefnendur þær kröfur, að stefnda verði gert að greiða kr. 805.276, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 15. maí 2009 til greiðsludags, og til þrautavara, að stefnda verði gert að greiða kr. 548.317, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 15. maí 2009 til greiðsludags. Í öllum tilvikum gera stefnendur kröfu um málskostnað úr hendi stefndu að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda, en til vara, að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulegar. Stefndi krefst þess í báðum tilvikum að stefnendur verði in solidum dæmd til að greiða honum málskostnað að skaðlausu skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
II
Málavextir
Atvik máls eru þau að sumarið 2007 tók stefndi að sér pípulagningavinnu í fasteign stefnenda að Úlfarsbraut 10-12 í Reykjavík, sem þá var í smíðum, en húsið er parhús. Ekki var gerður skriflegur verksamningur um vinnuna.
Stefndi gerði stefnendum reikninga fyrir verkið eftir framvindu þess og barst þeim fyrsti reikningurinn, að fjárhæð kr. 360.150, þann 13. nóvember 2007, eða um fjórum mánuðum eftir að vinna við verkið hófst. Greiddu stefnendur reikninginn án athugasemda, sem og næstu reikninga sem bárust, þ.e. hinn 18. apríl 2008, kr. 365.781 og í júní 2008, kr. 1.759.600.
Í júlí 2008 barst þeim síðan reikningur að fjárhæð kr. 1.946.931, og var heildarkostnaður vegna verksins þá orðinn u.þ.b. kr. 4.500.000. Töldu stefnendur þá, að kostnaður vegna pípulagnavinnu væri orðinn verulega hærri en þau hefðu mátt gera ráð fyrir. Einnig tóku þau eftir því við athugun á reikningum stefnda, að þeim hefði í allflestum tilfellum ekki verið gefinn afsláttur af efni, auk þess sem þau töldu stefnda hafa rukkað þau um virðisaukaskatt ofan á heildarfjárhæð efnis.
Með bréfum, dags. 17. október 2008 og 21. október 2008, gerðu stefnendur athugasemdir við framangreindan skort á afslætti af efni, sem og við hátt tímakaup og óvenju marga tíma, sem varið hefði verið til verksins af hálfu stefnda. Í framhaldi af athugasemdum stefnenda var reikningur stefnda, dags. í júlí 2008, að fjárhæð kr. 1.946.931 bakfærður og nýr reikningur í tveimur liðum gefinn út í hans stað, samtals að fjárhæð kr. 1.834.862. Nam samanlögð fjárhæð reikninga stefnda fyrir verkið þá kr. 4.320.393. Stefnendur greiddu síðastnefnda reikninginn þann 30. október 2008 með fyrirvara um endurkröfur vegna þeirra athugasemda og álitaefna, sem borin höfðu verið upp í bréfum stefnenda til stefnda. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2008, mótmælti stefndi athugasemdum stefnenda og sagði sig jafnframt frá þeim hluta verksins, sem ólokið var.
Í nóvember 2008 fóru stefnendur fram á dómkvaðningu matsmanns, sem skyldi meta hvert hæfilegt og sanngjarnt heildarverð væri fyrir verk, sambærilegt því, sem stefndi vann fyrir stefnendur í fasteign þeirra. Til verksins var dómkvaddur Pétur Bjarnason byggingarverkfræðingur, og skilaði hann matsgerð sinni í apríl 2009. Var niðurstaða hans sú, að stefndi hefði ofkrafið stefnendur um kr. 945.000 vegna verksins.
Stefndu fóru fram á yfirmat og voru dómkvaddir til starfans Gunnar Fannberg Gunnarson pípulagningameistari og Ragnar Ragnarsson byggingarverkfræðingur. Er matsgerð þeirra dags. í janúar 2010. Var þeim falið að meta sanngjarnt og eðlilegt heildarverð (efni og vinnu) fyrir verkið, með hliðsjón af umfangi þess og eðli. Er niðurstaða þeirra sú, að eðlilegur heildarkostnaður væri kr. 4.050.000.
III
Málsástæður stefnenda
Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að stefndi hafi við pípulagnavinnu við Úlfarsbraut 10 í Reykjavík rukkað stefnendur um of hátt heildarverð, miðað við umfang þess verks, sem unnið var. Í þessu sambandi vísi stefnendur sérstaklega til 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, en þar segi, að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu, skuli neytandi greiða það verð, sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því, hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé. Niðurstaða matsgerðar Péturs Bjarnasonar, hvað ofangreint varði, sýni, svo ekki verði um villzt, að stefndi hafi rukkað stefnendur um of hátt heildarverð fyrir það verk, sem unnið var. Jafnframt byggi stefnendur á því, að stefndi hafi ekki látið þau njóta þess afsláttar, sem stefndi hafi notið í byggingarvöruverzlunum við efniskaup vegna pípulagnavinnu við fasteign þeirra.
Heildarfjárhæð kröfu stefnenda á hendur stefnda sé kr. 1.810.540 og sundurliðist svo:
1. Ofgreiddir reikningar v/pípulagningarvinnu kr. 945.000
2. Afsláttur af efniskostnaði kr. 419.463
Samtals kr. 1.364.463
Kröfuliður 1:
Stefnendur krefjist þess, að stefndu endurgreiði þeim kr. 945.000 vegna þeirrar pípulagningarvinnu, sem unnin hafi verið af hálfu stefnda við Úlfarsbraut 10, og byggi stefnendur, hvað þennan kröfulið varði, á niðurstöðu matsgerðar Péturs Bjarnasonar byggingarverkfræðings, dags. í apríl 2009. Tilgangur matsins hafi verið sá, að finna út eðlilegt og sanngjarnt heildarverð fyrir pípulagnavinnu þá, er stefndi tók að sér og sá um að vinna fyrir stefnendur í fasteign þeirra að Úlfarsbraut 10 í Reykjavík. Matsmaður hafi einnig verið beðinn um að meta, hversu margar útseldar vinnustundir væri eðlilegt og sanngjarnt að greiða fyrir vegna þeirrar vinnu, sem stefndi innti af hendi, sem og hvað teldist sanngjarnt og hæfilegt tímakaup fyrir hverja unna klukkustund. Miðað við ítarlega kostnaðaráætlun, sem matsmaður hafi útbúið samkvæmt teikningum og upplýsingum af matsfundi, sem og áætlun matsmanns miðað við líklegt fermetraverð húsnæðis og hlutfalls lagnavinnu af því, hafi það verið niðurstaða matsmanns, að verk það, sem stefndi innti af hendi fyrir stefnendur, ætti að vera mun ódýrara en reikningar stefnda gáfu til kynna. Hafi það verið mat matsmanns, að verkið hefði verið ofrukkað af stefnda um kr. 945.000. Hafi matsmaður talið helztu ástæður fyrir þessari ofrukkun vera þær, að í einhverjum tilfellum hefði magn efnis verið ofreiknað og jafnframt að tímafjöldi í verkinu hefði verið ofreiknaður um allt að 73 útseldar vinnustundir. Að öðru leyti sé vísað til forsendna og niðurstöðu framangreindrar matsgerðar, hvað varði þennan kröfulið.
Kröfuliður 2:
Í ljós hafi komið, við athugun stefnenda á reikningum stefnda, að ekki hafi verið gefinn neinn afsláttur af efni í mörgum tilvikum. Afgreiðslunóta, sem stefnendur hafi rekizt á fyrir tilviljun, sýni efniskostnað með virðisaukaskatti og afslátt upp á 36%. Afgreiðslunótan sýni því, að stefndi hafi keypt efni, sem notað hafi verið til verksins fyrir stefnendur, og fengið umræddan afslátt af efniskaupum. Í reikningum stefnda sé hins vegar rukkað fyrir virðisaukaskatt ofan á heildarfjárhæð efnis, og enginn afsláttur sé gefinn. Í þessu felist, að stefndi leggi virðisaukaskatt ofan á þegar álagðan virðisaukaskatt af efni og jafnframt, að stefnendur njóti alls ekki þeirra viðskiptakjara vegna efniskaupa, sem þeim hafi verið lofað.
Í þessu sambandi skuli tekið fram, að stefnendur hafi sjálfir verið með afslátt (allt að 25%) hjá flestum af þeim efnissölum, sem stefndi verzlaði við í efniskaupum vegna pípulagnavinnu við fasteign stefnenda. Það blasi við, að ef stefnendur hafi ekki átt að njóta viðskiptakjara stefnda (þar með talið afsláttarkjara) hjá efnissölum, eins og um hafi verið samið, hefði aldrei komið til álita af hálfu stefnenda að láta stefnda annast um innkaup á efni á eigin reikning. Þá sé bent á, að starfsmenn stefnda hafi skrifað á sig vinnustundir fyrir þann tíma, sem þeir hafi nýtt til að sækja efni og því enn fráleitara en ella, að stefndi taki sérstaka milliliðsþóknun fyrir efniskaupin sem slík.
Ágreiningslaust er með aðilum, að fjárhæð afsláttar á efniskostnaði, sem stefndi naut, hafi numið kr. 548.317.
Þar sem niðurstöðufjárhæð undirmatsgerðar, kr. 945.000. sé að hluta til vegna rukkunar á of miklu magni efnis, sé nauðsynlegt að lækka heildarfjárhæð vegna afsláttarfjárhæðarinnar, eins og hún sé sett fram á dskj. nr. 26, sem ekki hafi skilað sér í reikningum stefndu til stefnenda. Samkvæmt niðurstöðu undirmatsmanns telji hann stefnda hafa ofrukkað stefnendur um 73 tíma fyrir verkið. Sé miðað við lægra tímagjald stefnda, sé heildarfjárhæð vegna þessa kr. 372.655 (73 x 5.105 kr.). Þá standi eftir kr. 572.345 af heildarfjárhæðinni, sem ofrukkuð hafi verið, og skýrist sú fjárhæð af því að stefndi hafi rukkað stefnendur fyrir efni, sem ekki hafi verið notað við vinnu við fasteign þeirra. Efnisliður niðurstöðutölu undirmats svari til 23,5% af heildarfjárhæð, sem stefnendur greiddu til stefnda vegna efniskostnaðar (kr. 572.345 séu 23,5% af kr. 2.429.531). Því beri að lækka heildarfjárhæð vegna afsláttar um 23,5% eða 128.854 (23,5% af kr. 548.317). Kröfuliður vegna afsláttar sé því kr. 419.463 í aðalkröfu.
Verði ekki fallizt á aðalkröfu stefnenda sé þess krafizt, að stefnda verði gert að greiða stefnendum kr. 805.276, auk dráttarvaxta. Fjárhæð kröfunnar sundurliðist svo:
1. Ofgreiddir reikningar v/pípulagningarvinnu kr. 270.393
2. Afsláttur af efniskostnaði kr. 534.883
Samtals kr. 805.276
Um fjárhæð kröfuliðar 1 vísist til niðurstöðu yfirmatsgerðar. Um fjárhæð kröfuliðar 2 vísist til þess, sem segi um aðalkröfu, þ.e. að heildarfjárhæð vegna afsláttar sé lækkuð sem nemi prósentu efniskaupafjárhæðar, sem ofrukkuð hafi verið samkvæmt yfirmati. Yfirmatsmenn hafi talið efniskaup ofrukkuð um kr. 59.531, sem sé 2,45% af efniskostnaði.
Verði hvorki fallizt á aðal- né varakröfu sé þess krafizt, að stefnda verði gert að greiða stefnendum kr. 548.317, ásamt dráttarvöxtum. Um fjárhæð þessa vísist alfarið til rökstuðnings með kröfulið 2 í aðalkröfu.
Auk alls framangreinds vísi stefnendur til ákvæða laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, sérstaklega til 28. gr. laganna, sem og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar.
Dráttarvaxtakrafa stefnenda sé byggð á 1. mgr. 6. gr. og öðrum ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafizt sé dráttarvaxta frá 15. maí 2009, þ.e. einum mánuði eftir að lögmaður stefnenda sendi lögmanni stefnda bréf, þar sem skorað hafi verið á stefnda að greiða kröfu stefnenda.
Málskostnaðarkrafa stefnenda eigi sér stoð í 1. mgr. 129 gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Stefndi kveður athugasemdir stefnenda í bréfi, dags. 17. október 2008, hafa komið forsvarsmönnum stefnda á óvart, en reikningum hans frá 13. nóvember 2007 til 16. júlí 2008 hafi ekki áður verið mótmælt. Stefnendur hafi samþykkt, með greiðslu þeirra reikninga, söluverð efnis og einingaverð fyrir þjónustu stefnda. Stefnendum hafi borið að andmæla kröfu stefnda löngu áður, hafi þau ekki verið sátt við verð fyrir þjónustu hans og verð fyrir það efni, sem hann lagði til og seldi stefnendum. Stefndi leggi áherzlu á í því sambandi, að hann hafi sent stefnendum sundurliðun með öllum reikningum, þ.e. vinnuskýrslur og yfirlit yfir efnisnotkun. Engin andmæli hafi komið fram við þeim reikningum og yfirlitum. Stefndi leggi einnig áherzlu á, að ekki hafi verið samið um fast verð fyrir þjónustu hans, og þá hafi ekki verið samið um afsláttarkjör vegna sölu stefnda á efni til stefnenda. Það sé beinlínis rangt, að um hafi verið samið milli aðila, að stefnendur fengju notið afsláttarkjara, sem stefndi kynni að njóta hjá efnissölum. Stefndi leggi áherzlu á, að kjör hans hjá efnissölum ráðist m.a. af umfangi viðskipta hans við efnissala og fleiri þáttum. Þá fylgi vinna og umsjón því af hálfu stefnda að útvega efni til verksins og ýmis kostnaður, s.s. fjármagnskostnaður. Þá sé það alkunn venja í viðskiptum við iðnaðarmenn, ef um er samið, að þeir leggi til efni við verk, að þeir selji efni með álagi, líkt og aðrir efnissalar, til að mæta ýmsum kostnaði, sem af þessu hljótist. Iðnaðarmaður sé í raun efnissali, líkt og hver annar útsöluaðili, og sé venjulegt og eðlilegt í viðskiptum sem þessum, að álag sé á heildsöluverð, sem iðnaðarmaðurinn greiði. Ef aðrir óvenjulegir hættir skuli vera í viðskiptum aðila, þurfi að semja sérstaklega við iðnaðarmenn um, að þeir fái ekkert greitt fyrir útvegun efnis til framkvæmda. Stefndi leggi á það áherzlu, að stefnendur hafi ekki samið við hann um, að stefnendur nytu afsláttarkjara, og að stefndi fengi ekkert greitt fyrir útvegun efnis til framkvæmdanna. Stefnendur hafi hins vegar samþykkt verð efnis með því að greiða fyrir það samkvæmt kröfu stefnda, án athugasemda. Þá sé röng sú fullyrðing stefnenda, að þau hefðu notið afsláttarkjara hjá efnissölum líkt og stefndi kynni að njóta. Alkunna sé, að iðnaðarmenn og fyrirtæki á þeirra vegum njóti sérkjara, sem almenningur njóti ekki. Þau sérkjör taki m.a. mið af umfangi viðskipta við efnissala og sé í raun enginn munur á þeim viðskiptum og þegar iðnaðarmaður flytur sjálfur inn efni til landsins og selur viðskiptamönnum sínum. Stefnendum hafi verið í lófa lagið að freista þess að ná samningum við stefnda um afsláttarkjör af efniskaupum, en það hafi þau ekki gert, og því hafi ekki komið til greina af hálfu stefnda að veita stefnendum afslátt af efniskaupum, enda efnissala hluti af starfsemi stefnda.
Stefndi mótmæli því, að krafa hans á hendur stefnendum, sem stefnendur hafi reyndar að fullu greitt, hafi verið hærri en sanngjarnt geti talizt. Þá sé röng sú fullyrðing stefnenda, að stefndi hafi fengið 36% afslátt af útsöluverði efnis, sem hann seldi stefnendum. Lykilatriði sé, að reikningar stefnda séu sanngjarnir og í samræmi við það verk, sem stefndi sinnti.
Stefndi telji framlagða matsgerð ekki styðja kröfu stefnenda og geri stefndi einnig alvarlegar athugasemdir við matsgerð og grundvöll hennar. Stefndi leggi áherzlu á, að niðurstaða matsmanns sé heildarverð fyrir verk stefnda. Vinna og efni skuli vera kr. 3.611.250, að teknu tilliti til 7% nákvæmni í kostnaðaráætlun. Mismunur á niðurstöðu matsmanns og fjárhæð reikninga stefnda sé kr. 708.750, sem sé innan skekkjumarka í svo stóru verki, sem um ræði. Stefndi gagnrýni niðurstöðu matsmanns, en leggi áherzlu á, að sú niðurstaða matsmanns, að reikningar fyrir verkið skuli vera rúmum 700.000 krónum lægri, feli ekki í sér, að reikningar stefnda vegna verksins séu of háir eða ósanngjarnir. Þá sé krafa stefnenda um lækkun efniskostnaðar í ósamræmi við niðurstöðu matsmanns, enda feli krafa stefnenda það í sér, að þeir telji, að þeim beri að greiða fyrir verkið miklu lægri fjárhæð en matsmaður kemst að niðurstöðu um að sé sanngjarnt verð fyrir efni við verkið. Matgerð styðji því ekki kröfu stefnenda um lækkun reikninga stefnda vegna vinnu og efnissölu, og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnenda.
Stefndi gagnrýni framlagða matsgerð og vinnubrögð matsmanns við gerð matsgerðar. Stefndi telji með öllu órökstutt, að vinnustundir samkvæmt reikningum stefnda séu oftaldir um 73. Stefndi leggi áherzlu á, að hann hafi sannarlega unnið allar þær stundir og bendir m.a. á, að niðurstaða matsmanns sé, að tímagjald fyrir hverja vinnustund sé í lægri kanti. Krafa stefnda sé því alls ekki of há miðað við meðalverð fyrir hverja vinnustund. Matsmaður taki ekki tillit til í mati sínu, að stefndi hafi m.a. unnið við tengingu lagna í vinnuskúr. Stefndi hafi þurft að skipta út drenlögnum og leggja að nýju, þar sem verktakar á vegum stefnenda hafi brotið þær lagnir við vinnu sína. Þá hafi stefnendur látið stefnda breyta lögnum í húsgrunni, eftir að lagnir voru lagðar. Af þeim sökum hafi stefndi þurft að taka lagnir í sundur, fjölga stútum o.fl. Þá hafi vinna verið umtalsverð vegna 2 fallabrunna (3 metra hárra), sem hafi verið settir við götu vegna hæðarmismunar. Þar sem húsið sé í miklum halla, þurfi meiri vinnu en ella við grunnlagnir. Þá hafi rýrnun efnis orðið meiri en t.d. þegar hús er á einni hæð, og hafi vinna stefnda verið meiri og flóknari, þar sem húsið sé á þremur hæðum, en ekki einni. Stefndi telji matsmann alls ekki hafa tekið tillit til ofangreindra þátta og staðreynda við mat sitt.
Matsmaður segi heildarmagn pexlagna hafa verið 1140 m skv. teikningum, og að stefndi hafi rukkað fyrir 1670 m. Fyrrgreindar staðhæfingar í matsgerð séu rangar. Samkvæmt teikningum hafi lagnir í gólf verið 1015 metrar, að viðbættum lögnum í svölum neðri hæðar, um 100 m, og hitalögnum í óuppfylltu rými, 240 m. Ekki sé óeðlilegt, að afskurður hafi orðið á efni, og sé rýrnun þessa efnis því ekki óeðlileg og á ábyrgð stefnenda. Þá hafi matsmaður ekki tekið tillit til hins mikla kostnaðar og vinnu við stjórnbúnað hita- og vatnskerfa, en búnaður sá, sem settur hafi verið upp í hús stefnenda, hafi verið flókinn og mikill um sig. Stefndi bendi á, að hönnuður hússins hafi ákveðið hinn flókna búnað, og hafi stefndi ekki áður sett svo flókinn búnað upp í húsi sem þessu. Þá hafi aukin vinna og efniskostnaður fylgt þeirri staðreynd, að húsið sé á 3 hæðum, en þá þurfi m.a. þrjár dreifikistur með gólfhita og þrjár dreifikistur með neyzluvatni. Stjórnbúnaðurinn sé því ekki einfaldur og í raun þrefaldur. Þá leggi stefndi áherzlu á, að efniskostnaður hafi hækkað mikið, eða um 30% í maí og um 10% í júní.
Þá hafi verið aukinn kostnaður þar sem mikið múrbrot hafi fylgt framkvæmdum stefnda, sem m.a. stafi af því, að húsið sé á þremur hæðum. Þá hafi stefndi látið bráðabrigðahita á húsið að beiðni stefnenda, og hafi m.a. fylgt því kostnaður. Þá hafi skemmdir verið unnar á lögnum, sem stefndi hafi þurft að laga, og hafi lagnir m.a. verið sagaðar í sundur, skrúfað í rör o.fl. Matsgerð geymi því ekki lýsingu á þeirri vinnu, sem stefndi vann við verkið, og sé áskilinn réttur til að lýsa þeirri vinnu nánar á síðari stigum og leggja m.a. fram skýrslu því til stuðnings.
Stefndi byggi sýknukröfu sína á því, að verð fyrir vinnu hans og efni sé sanngjarnt og eðlilegt og í samræmi við það verk, sem stefndi vann. Stefndi árétti athugasemdir við matsgerð og þá staðreynd, að matsgerð styðji í raun ekki kröfur stefnenda. Þá byggi stefndi kröfu um sýknu á því, að stefnendur hafi sýnt af sér tómlæti og í raun samþykkt kröfur stefnda með því að greiða, án athugasemda, reikninga hans frá nóvember 2007 til júlí 2008. Þá hafi stefnendur ekki gert athugasemdir við reikninga, dags. í júlí 2008, fyrr en í október 2008. Stefnendur hafi því engar athugasemdir gert við verð fyrir efni, sem stefndi seldi þeim, og ekki fyrir fjölda vinnustunda og einingaverð fyrir hverja vinnustund. Stefnendur hafi því samþykkt kröfu stefnda með tómlæti sínu, en stefndi árétti þó, að krafa hans sé sanngjörn og í samræmi við verk það, sem unnið var.
Stefndi vísi til reglna samninga- og kröfuréttar kröfum sínum til stuðnings. Þá vísi stefndi til laga nr. 50/2000. Krafa stefnda um greiðslu málskostnaðar styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi, Rafn Yngvi Rafnsson, gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur Sveinn Borgar Jóhannesson, fyrirsvarsmaður stefnda, sem og matsmenn.
Kröfur stefnenda eru tvíþættar. Annars vegar krefjast þeir endurgreiðslu vegna meintrar ofgreiðslu vegna vinnu og efnis og hins vegar vegna afsláttar af efniskostnaði.
Verður fyrst fjallað um afslátt af efniskostnaði. Byggja stefnendur þessa kröfu sína á því, að þeir hafi átt rétt á þeim afslætti af efniskostnaði, sem stefndi naut samkvæmt samningum við hina ýmsu efnissala, sem hann skipti við.
Svo sem fyrr greinir, var ekki gerður skriflegur samningur við stefnda, og skýrði stefnandi, Rafn Yngvi, m.a. svo frá fyrir dómi, að nágranni hans, sem stefndi hafði verið að vinna fyrir, hefði fengið stefnda til verksins fyrir stefnendur, og hefðu stefnendur ekki komið að neinum verksamningum við stefnda. Liggur ekkert fyrir um það í málinu, að nágranni stefnenda hafi, fyrir hönd þeirra, samið við stefnda um afslátt af efni, og kom sá maður ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar. Þá skýrði fyrirsvarsmaður stefnda svo frá fyrir dómi, að ekki hefði verið samið um afslátt af efniskostnaði við stefnendur, og hefði slíkt ekki verið rætt með þeim.
Stefnendur byggja m.a. á því, að þeir hafi sjálfir verið með allt að 25% afslátt hjá flestum þeirra efnissala, sem stefndi verzlaði við í tengslum við vinnu hans fyrir stefnendur. Ekkert liggur þó fyrir staðfest um meintan afslátt stefnenda, eða að stefndi hafi vitað eða mátt vita um það. Er því ekki unnt að fallast á þessa kröfu stefnenda, en ekki liggur fyrir, að það tíðkist sem algild regla í sambærilegu vinnusambandi, að verkkaupi eigi rétt til afsláttar þess, sem iðnaðarmaður nýtur hjá þeim efnissölum, sem hann skiptir við, án þess að samið sé um það sérstaklega. Er þá einnig haft í huga, að ekki liggur fyrir, að stefndi hafi tekið sérstakt gjald fyrir útvegun og flutning efnis. Þá er ósannað, sem stefndi heldur fram, að stefndi hafi krafið stefnendur um virðisaukaskatt ofan á virðisaukaskatt. Er þessum kröfulið því hafnað.
Stefnendur byggja kröfu sína um endurgreiðslu vegna meintrar ofgreiðslu fyrir vinnu og efni vegna verksins á niðurstöðu undirmatsmanns og krefja stefnda um kr. 945.000.
Í málinu liggur fyrir yfirmatsgerð, sem unnin var af Ragnari Ragnarssyni verkfræðingi og Gunnari Fannberg Gunnarssyni, verkfræðingi og pípulagningameistara. Var þeim falið að meta í einu lagi heildarverð (fyrir efni og vinnu) vegna verksins með hliðsjón af umfangi þess og eðli. Yfirmati hefur ekki verið hnekkt eða niðurstöður þess hraktar, og hnekkir yfirmatið því undirmati, hvað varðar þessa verkliði. Meta yfirmatsmenn eðlilegan heildarkostnað við verkið kr. 4.050.000. Heildargreiðsla stefnenda nam kr. 4.320.353, og greiddu þeir því kr. 270.393 hærra verð en nemur mati yfirmatsmanna á verkinu. Er sú fjárhæð um 6,26% af heildarverðinu. Lítur dómurinn svo á, að sú fjárhæð sé innan skekkjumarka, og er þá m.a. litið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 167/2006, og fellst því ekki á, að um ofgreiðslu hafi verið að ræða. Er þessum kröfulið því þegar af þeim sökum hafnað.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda í máli þessu. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnendur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.700.000, þar með talinn matskostnaður vegna yfirmats, auk þess sem tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum, Ragnari Ingimarssyni byggingarverkfræðingi og Skarphéðni Skarphéðinssyni pípulagningameistara.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Borgarlagnir ehf., er sýkn af kröfum stefnenda, Rafns Yngva Rafnssonar og Maríu Guðmundsdóttur.
Stefnendur greiði in solidum stefnda kr. 1.700.000 í málskostnað.