Hæstiréttur íslands
Mál nr. 365/2014
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
A krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda V hf. vegna þess líkamstjóns sem hún hlaut er hún varð fyrir bifreið á Lækjargötu. Óumdeilt var að A ætti rétt á bótum samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og að V hf. hefði veitt ábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar. Aðilar deildu hins vegar um það hvort A hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún gekk yfir götuna og ætti af þeim sökum að bera helming tjóns síns sjálf. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að þótt A hefði ekki gætt allrar varúðar er unnt var greint sinn hefði hún ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga þannig að girt gæti fyrir rétt hennar til fullra bóta úr ábyrgðartryggingu ökutækisins hjá V hf. Var krafa hennar því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2014. Hann krefst þess að hann verði ,,sýknaður af öllum kröfum stefndu þannig að viðurkennd verði helmingsábyrgð áfrýjanda á afleiðingum umferðarslyss, 2. október 2011.“ Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefndu, A, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2014.
Mál þetta höfðaði A, kt. […], […], með stefnu birtri 7. ágúst 2012 á hendur Verði tryggingum hf., kt. […] Borgartúni 25, Reykjavík. Málið var dómtekið 25. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til greiðslu fullra bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] hjá stefnda vegna tjóns af völdum slyss sem stefnandi varð fyrir þann 2. október 2011. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að viðurkenndur verði bótaréttur stefnanda að hálfu úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] vegna afleiðinga umferðarslyss 2. október 2011, en að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda að öðru leyti. Stefndi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Bifreiðinni […] var ekið á stefnanda á vestari akrein Lækjargötu, við gatnamót götunnar og Skólabrúar, aðfaranótt sunnudagsins 2. október 2011. Stefnandi var þar á ferð fótgangandi með eiginmanni sínum, B. Nokkur blæbrigðamunur er á lýsingu atviksins í stefnu og greinargerð stefnda. Nærtækast er að lýsa atvikum eins og þau birtast á upptöku úr eftirlitsmyndavélum, sem staðsettar eru í Lækjargötu.
Stefnandi og eiginmaður hennar komu út Skólabrú og komu að Lækjargötu sunnan við gatnamótin. Gengu þau rakleitt áleiðis yfir vestari akreinina, en þá var nýkomið rautt ljós fyrir gangandi vegfarendur á gangbrautinni norðan við gatnamótin. Ekki er gert ráð fyrir að gengið sé yfir götuna þar sem stefnandi og eiginmaður hennar fóru. Fremsta bifreið í röðinni á hægri akrein Lækjargötu hugðist aka beint yfir gatnamótin, en fór hægt og stöðvaði er hún nálgaðist stefnanda og eiginmann hennar, sem gaf ökumanninum merki. Bifreiðinni […] var ekið á vinstri akreininni og varð ökumaður hennar ekki var við þau fyrr en um seinan og lenti bifreiðin á þeim báðum. Köstuðust þau talsvert langt frá bifreiðinni við höggið og hlutu áverka.
Bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi. Eins og kröfugerð sýnir krefst stefnandi fullra bóta, en stefndi telur að skerða beri bætur til hennar um helming vegna eigin sakar.
Stefnandi var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. Áfengismagn í blóði hennar mældist þar 2,04‰. Nokkru minna mældist í blóði eiginmanns hennar.
Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún reyndist ekki muna neitt sem máli skiptir fyrir úrlausn um sök og sakarskiptingu. Sama verður sagt um skýrslu eiginmanns hennar. Þau kváðust hafa verið á árshátíð í Gullhömrum og ætlað sér að fara heim um eittleytið um nóttina. Mál hafi hins vegar æxlast svo að þau hafi farið með öðru fólki á Vínbarinn í Kirkjustræti. Þau hafi verið á leiðinni þaðan, ætlað sér að taka leigubíl í Lækjargötu. Stefnandi kvaðst muna að hún hefði verið hægra megin við mann sinn er þau gengu út á götuna.
Vitnið C, ökumaður […], sagði í skýrslu sinni að hann hefði stöðvað bílinn við ljós í Bankastræti. Hann hefði svo beygt til vinstri inn í Lækjargötu og farið á vinstri akreinina. Hann hafi vitað af bíl á hægri akrein. Svo hafi hann allt í einu séð einhven hlaupa yfir og hann hafi reynt að sveigja til vinstri án þess að klessa á staurinn. Hann kvaðst hafa verið nýbúinn að skipta úr fyrsta í annan gír. Hann hafi aðallega verið að fylgjast með staðsetningu bílsins við hliðina.
D gaf skýrslu fyrir dómi. Hann var ökumaður bifreiðarinnar er stöðað hafði á hægri akreininni er stefnandi og eiginmaður hennar fóru yfir Lækjargötu. Hann sagðist hafa séð þau hjónin stíga út á götuna þegar græna ljósið kom. Hann hafi ekið hægt af stað og ætlað að hleypa þeim yfir. Hann hafi svo séð bifreið koma vinstra megin. Þau hafi verið að koma að vinstri akreininni þegar bifreiðin kom.
Að kröfu stefnanda var dómkvaddur matsmaður til að reikna hraða bifreiðarinnar […] umrætt sinn. Í matsgerð F, prófessors í vélaaverkfræði, er komist að þeirri niðurstöðu að bifreiðinni hafi verið ekið á 73 km hraða á klukkustund er hún fór framhjá umferðarljósunum á gatnamótum Lækjargötu og Skólabrúar. Hraðinn hafi verið 55 km á klukkustund þegar bifreiðin ók á stefnanda og eiginmann hennar.
Matsmaðurinn staðfesti matsgerð sína og niðurstöður fyrir dómi.
Ekki hafa verið lögð fram ítarleg gögn um áverka stefnanda og batahorfur, en á þessu stigi er einungis krafist viðurkenningar bótaskyldu. Frammi liggur vottorð G, bæklunarskurðlæknis, dags. 12. janúar 2012. Þar segir að stefnandi hafi hlotið brot fyrir neðan plötu á vinstri fótlegg, töluverðan liðbandaáverka á hægra hné og sá ýmis eymsl víðar. Þá sé brotalína í mjaðmagrind og neðstu hryggtindum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að meiðsl hennar hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Því sé ábyrgð á tjóninu hlutlæg. Hún mótmælir því að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og því eigi ekki að skerða bætur til hennar vegna eigin sakar. Ökumaður bifreiðarinnar hafi hins vegar sýnt af sér mikið aðgæsluleysi, en slysið verði að öllu leyti rakið til þess.
Kröfunni er beint að stefnda, en ábyrgðartrygging vegna bifreiðarinnar var í gildi hjá stefnda á slysdegi.
Stefnandi byggir á því að slysið verði að öllu leyti rakið til aðgæsluleysis ökumanns bifreiðarinnar […]. Bifreiðin á hægri akrein hafi stöðvað er stefnandi gekk út á götuna og því hafi hún haldið áfram ferð sinni. Bifreiðinni […] hafi hins vegar verið ekið fram úr, án þess að ökumaður gætti að því hvers vegna hin bifreiðin hefði stöðvað.
Stefnandi lagði fram með stefnu eigin útreikninga á hraða bifreiðarinnar. Taldi hún að hraðinn hefði verið 50,1 km/klst er bifreiðin nálgaðist slysstað, en 75 km/klst er ekið var á hana. Er þessum útreikningum var mótmælt aflaði hún matsgerðar eins og áður er rakið.
Stefnandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga skuli miða ökuhraða við aðstæður, með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Hér hafi fólk verið á ferli og lítill kostur á hraðakstri vegna umferðarljósa og annarra hindrana. Alvanalegt sé að fólk fari yfir götur á þessum stað og á þessum tíma, til þess að ná í leigubíl hinum megin. Þá hafi verið myrkur og rigning, sem hafi lagt auknar skyldur á ökumenn, sbr. b- og h-liði 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga. Þá hafi það eitt, að ökutækið sem keyrði á undan hægði á sér og stöðvaði, átt að gefa ökumanni til kynna að sérstakrar aðgæslu væri þörf. Þrátt fyrir allt hafi ökumaður […] ekið fram úr annarri bifreið, og aukið hraðann, án þess að gæta að aðstæðum. Hann hafi einnig brotið gegn 2. mgr. 17. gr. og 26. gr umferðarlaga. Slysið megi að öllu leyti rekja til ökumanns bifreiðarinnar.
Stefnandi mótmælir því að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Það að ganga yfir Lækjargötu við þessar aðstæður geti ekki talist gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi. Þá hafi ölvun hennar ekki haft nein áhrif. Loks eigi 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 ekki við hér. Telur stefnandi að vítavert aðgæsluleysi sem ökumaður bifreiðarinnar […] sýndi af sér og hin hlutlæga ábyrgð bifreiðaeigenda leiði til þess að ekki séu efni til að leggja meðábyrgð á stefnanda.
Jafnvel þó að talið verði að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi þegar ekið var á hana, nægi það eitt ekki til þess að heimilt sé að skerða bætur henni til handa, en mikið þurfi til að koma svo að gáleysi geti talist stórkostlegt.
Um heimild til að leita viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún telur sig eiga lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína, enda hafi hún orðið fyrir töluverðum skaða vegna slyssins. Hún hafi orðið fyrir bæði tímabundnu og varanlegu tjóni.
Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi auk alls framangreinds til þess að dekkin á bifreiðinni […] hefðu verið of slitin og notkun þeirra hafi verið óheimil. Vísaði hann hér til rannsóknargagna lögreglu þar sem kemur fram að dekkin hafi verið misjafnlega mikið slitin. Á einu var komið að slitmerkjum, en á öðrum voru ýmist 1 eða 3 mm niður á slitmerki.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi andmælir því ekki að stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Lækka beri bætur til hennar um helming þar sem hún hafi verið meðvaldur að slysinu af stórkostlegu gáleysi. Ekkert sé fram komið er bendi til þess að slysið megi rekja til bilunar í búnaði bifreiðarinnar eða ógætni ökumannsins.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi brotið umferðarreglur og almennar hátternisreglur gangandi vegfarenda. Hún hafi ekki gætt að sér er hún hafi gengið rakleitt í veg fyrir aðvífandi umferð bifreiða, í andstöðu við 1. mgr. 12. gr. umferðarlaga. Bifreiðin á hægri akrein hafi ekki numið staðar til þess að hleypa stefnanda yfir eins og ranglega sé byggt á í stefnu. Ökumaðurinn hafi neyðst til að stöðva, ella hefði hann keyrt á stefnanda.
Stefndi segir að stefnandi hafi ekki notað gangbraut sem hafi verið mjög nálægt, sbr. 1. ml. 2. mgr. 12. gr. umferðarlaga. Stefnandi hefði getað gengið norður yfir Skólabrú á grænu ljósi og beðið síðan eftir því að komast yfir Lækjargötu á grænu ljósi. Stefndi mótmælir því að algengt sé að gangandi vegfarendur fari yfir á þeim stað sem stefnandi fór. Þarna sé ekki gert ráð fyrir umferð gangandi vegfarenda.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi gengið yfir akbrautina gegn rauðu ljósi, en það sé óheimilt samkvæmt 3. mgr. 12. gr. umferðarlaga. Ölvun gangandi vegfarenda réttlæti ekki brot gegn lögboðnum varúðarreglum. Neysla áfengis gefi sérstakt tilefni til að gæta varúðar. Stefndi vísar hér til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004. Í lögskýringargögnum með því ákvæði komi fram að ölæði hafi sömu réttaráhrif og stórkostlegt gáleysi. Áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið yfir þeim mörkum sem þar hafi verið miðað við.
Stefndi byggir á því að sérstaklega beri að horfa til þess að bótaskylda stefnda byggi á hlutrænni skyldu, ekkert liggi fyrir sem gefi tilefni til að ætla að framganga ökumanns bifreiðarinnar […] hafi falið í sér saknæmt gáleysi. Hann hafi komið frá Hverfisgötu eftir vinstri akrein, enda sé hægri akreinin sérmerkt strætisvögnum og leigubílum. Stefndi mótmælir því að ökumaður hafi skipt um akrein beinlínis í þeim tilgangi að geta ekið fram úr hinni bifreiðinni á mikilli ferð þar sem hún hafði verið stöðvuð vegna farar stefnanda yfir götuna. Ökumaður hafi ekið beint eftir vinstri akrein allt frá Hverfisgötu suður Lækjargötu að Skólabrú. Ekki hafi verið sýnt fram á sök ökumannsins.
Í greinargerð var því mótmælt sérstaklega að bifreiðinni […] hefði verið ekið of hratt. Eftir að matsgerð var lögð fram breyttist þessi málsástæða stefnda á þann veg að hraðinn hafi ekki verið orsök slyssins.
Loks bendir stefndi á að bifreiðin hafi ekki á nokkurn hátt verið vanbúin til aksturs umrætt sinn. Í málflutningi mótmælti stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að dekk bifreiðarinnar hafi verið of slitin. Sagði hann að þessu hefði ekki verið hreyft í stefnu og því væri þetta of seint fram komið. Þá væri þetta ekki rétt, dekkin hafi verið komin að mörkum, en ekki verið of slitin.
Niðurstaða
Stefndi ber fyrir sig 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004. Ákvæði þetta gildir í skiptum vátryggingafélags og þess aðila sem kallast vátryggður, sbr. c-lið 2. gr. sömu laga. Stefnandi hefur hér ekki stöðu vátryggðs í þessum skilningi og ákvæðið gildir ekki um ábyrgðartryggingar.
Myndskeiðið er sýnir akstur bifreiðarinnar […] ber augljóslega með sér að mjög hratt var ekið. Matsgerð F hefur ekki verið hnekkt, en þar er komist að skýrri niðurstöðu um að bifreiðinni hafi verið ekið með yfir 70 km hraða á klukkustund. Var því ekið allt of hratt og af því skapaðist veruleg hætta.
Er bifreiðin kom að gatnamótunum bar ökumanni að gæta sérstakrar varúðar er hann sá að bifreiðinni á hægri akrein var ekki ekið rakleitt yfir gatnamótin. Hann sinnti því í engu en ók mjög hratt áfram.
Málsástæða um að dekk bifreiðarinnar hafi verið svo slitin að notkun þeirra hafi verið óheimil kom ekki fram í stefnu og hún felst ekki í neinu sem þar kemur fram skýrlega. Er hún því of seint fram komin og verður ekki gefinn frekari gaumur.
Stefnandi og maður hennar lögðu af stað yfir Lækjargötu þeim megin við hornið þar sem ekki er ætlast til að gangandi vegfarendur leggi leið sína, um það leyti sem grænt ljós kviknaði fyrir bílaumferð eftir götunni. Fljótlegt hefði verið fyrir þau að fara yfir Skólabrú og síðan yfir Lækjargötu á gangbrautinni, en þar stýra umferðarljós umferð. Í því sambandi verður einnig að líta til þess að þau höfðu verið í gleðskap frá því snemma um kvöldið og voru undir talsverðum áfengisáhrifum. Þá gættu þau sín ekki á því að tvær akreinar eru á Lækjargötu, en þau höfðu gengið úr skugga um að bifreiðin á hægri akrein hugðist bíða eftir að þau færu yfir.
Þegar litið er til þessara atriða allra verður ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi sjálf valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi. Vissulega gætti hún ekki allrar þeirrar varúðar er unnt var, en fráleitt er að telja að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna mótbárum stefnda, en þær eru allar á þessu reistar, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Þarf þá ekki að ræða frekar hvort ökumaður bifreiðarinnar eigi sök á slysinu, en bótaskylda hins stefnda tryggingafélags verður viðurkennd á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar eiganda bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 88. gr, sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga.
Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefnda, Verði tryggingum hf., ber að bæta stefnanda, A, að fullu það tjón er hún varð fyrir er hún slasaðist af völdum bifreiðarinnar […] þann 2. október 2011 í Lækjargötu í Reykjavík.
Stefndi greiði stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað.