Hæstiréttur íslands
Mál nr. 535/2014
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2015. |
|
Nr. 535/2014.
|
M (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn K (Helgi Jóhannesson hrl.) og gagnsök |
Ómerking. Heimvísun.
Aðilar deildu um efndir á samningi um skilnað og skilnaðarkjör sem þau höfðu gert á árinu 2010. Í stefnu málsins setti M fram kröfur í sjö liðum og var sjöundi töluliðurinn vegna millifærslna K sem hann taldi að henni hefði verið óheimilt að framkvæma. Í héraðsdómi var gerð grein fyrir umræddum kröfulið en í niðurstaðakafla dómsins var engin afstaða tekin til kröfunnar. Var því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. júní 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 23. júlí 2014 og áfrýjaði hann því öðru sinni 11. ágúst sama ár. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 6.653.977 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 24. september 2014. Hún krefst aðallega sýknu af varakröfu aðaláfrýjanda og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.063.742 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júlí 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 292.234 krónum. Þá krefst hún þess að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign í séreignarlífeyrissparnaði aðaláfrýjanda hjá Allianz sem myndaðist á meðan aðilarnir voru í hjúskap. Til vara krefst hún sýknu af varakröfu aðaláfrýjanda og hann verði dæmdur til að greiða sér 5.245.404 krónur krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 292.234 krónum. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar er málið nú eingöngu til úrlausnar um aðalkröfu aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi krefst þess að henni verði hafnað.
Ágreiningur máls þessa snýst um efndir á samningi um skilnað og skilnaðarkjör sem aðilar gerðu sín á milli 17. maí 2010. Í stefnu setti aðaláfrýjandi kröfur sínar fram í sjö liðum. Var sjöundi kröfuliðurinn vegna millifærslna af tékkareikningi aðaláfrýjanda að fjárhæð 170.285 krónur. Í hinum áfrýjaða dómi, þar sem fjallað er um kröfugerð aðaláfrýjanda, er gerð grein fyrir þessari kröfu, en í niðurstöðukafla dómsins er engin afstaða tekin til hennar. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. febrúar 2014, var þingfest 26. júní 2013. Gagnstefna var birt 15. júlí 2013. Aðalstefnandi er M, [...],[...]. Gagnstefnandi er K, [...],[...].
Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru þær að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 6.982.569 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2013 til greiðsludags. Í gagnsök krefst aðalstefnandi aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda. Til vara er þess krafist að aðalstefnandi verði sýknaður af kröfu gagnstefnanda um viðurkenningu á hlutdeild gagnstefnanda í lífeyrisréttindum aðalstefnanda, en aðrar kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Gagnstefnandi krefst í aðalsök sýknu af kröfum aðalstefnanda. Í gagnsök gerir gagnstefnandi aðallega eftirfarandi dómkröfur: 1) Að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 6.747.843 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. 2) Að viðurkennt verði með dómi að gagnstefnandi eigi 50% eignarhlut af inneign í séreignarlífeyrissparnaði hjá Allianz sem skráð er á nafn aðalstefnanda og myndaðist meðan gagnstefnandi og aðalstefnandi voru í hjúskap. Til vara krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 6.929.505 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað.
I.
Málsatvik eru þau að hinn 17. maí 2010 gerðu aðilar með sér samning um skilnað og skilnaðarkjör. Samkvæmt 1. gr. samningsins voru aðilar sammála um að miða eignaskiptin við þann dag, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Aðilar voru einnig sammála um að eignir búsins við það tímamark væru í fyrsta lagi fasteignin að [...], [...], að fjárhæð 47.000.000 kr., og í öðru lagi innbú og lausafjármunir, 5.000.000 kr. Í 2. gr. kom fram að skuldir búsins væru eftirfarandi:
1) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð 3.000.000 kr.
2) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð 12.000.000 kr.
3) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð 46.000.000 kr.
4) Lán nr. [...] að höfuðstólsfjárhæð 11.600.000 kr.
Samkomulag var um að hvor aðila bær ábyrgð á þeim skuldum sem hann stofnaði til eftir 17. maí 2010 og að aðilar óskuðu ekki eftir samsköttun vegna framtals fyrir árið 2010.
Í 3. gr. samningsins var kveðið á um eignaskipti. Með vísan til 110. gr. hjúskaparlaga gerðu aðilar samkomulag um að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga með þeim hætti að aðalstefnandi fengi fasteignina að [...] (sic). Ástæðan fyrir frávikum frá helmingaskiptareglunni var sú að aðilar höfðu gert kaupmála 2. mars 2005 um að fasteign að [...], nr. [...], yrði séreign gagnstefnanda og að andvirði þeirrar eignar yrði jafnframt séreign hennar. Þá voru aðilar sammála um að aðalstefnandi greiddi lán hjá [...] nr. [...] og nr. [...]og að gagnstefnandi greiddi lán hjá [...] nr. [...] og nr. [...]. Aðilar voru einnig sammála um skiptingu á innbúi, en hvor aðili skyldi taka persónulega muni og gjafir sem hefðu persónulegt gildi fyrir viðkomandi. Hvort hjóna um sig skyldi halda sínum séreignarlífeyrissparnaði. Samkvæmt 4. gr. samningsins var samkomulag um að hvorugt hjóna greiddi lífeyri með hinu. Í 5. gr. var ákvæði um varnarþing og að lokum sagði í 6. gr. að með staðfestingu samningsins teldist fjárfélagi aðila slitið og hvorugt þeirra ætti frekari kröfu á hendur hinu.
Aðalstefnandi kveðst hafa flutt hinn 15. október 2010 úr fasteigninni að [...], en gagnstefnandi hafi búið þar áfram til 15. mars 2012. Aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi eignast kröfu á hendur gagnstefnanda vegna afnota hennar af fasteigninni og kostnaðar sem aðalstefnandi hafi lagt út, enda hafi aldrei verið samið um að gagnstefandi nyti þessara verðmæta endurgjaldslaust. Þessu mótmælir gagnstefnandi og kveður að aðilar hafi staðið illa fjárhagslega og rætt hafði verið um að selja fasteignina í [...]. Gagnstefnandi hafi hugsað sér að flytja í lítið og ódýrara húsnæði en aðalstefnandi hins vegar verið á þeirri skoðun að betra væri fyrir börn þeirra að hún byggi áfram í [...]. Þá hafi aðalstefnandi ekki viljað að fasteignin stæði auð þar til hún yrði seld. Gagnstefnandi kveðst hafa gert aðalstefnanda það ljóst frá upphafi að hún myndi ekki greiða leigu vegna fasteignarinnar og hafi aðilar verið um það sáttir. Í janúar 2012 hafi gagnstefnanda orðið ljóst að aðalstefnandi hefði hug á að flytja aftur í [...] í mars 2012 hafi hún flutt úr fasteigninni.
Með bréfi 26. febrúar 2013 fór aðalstefnandi fram á það við gagnstefnanda að hún greiddi aðalstefnanda skuld að fjárhæð 6.812.284 kr., sem sundurliðaðist þannig:
1. Afnot af fasteigninni að [...],
15. október 2010 til 15. mars 2012 3.600.000 kr.
2. Útlagður kostnaður vegna rafmagns og hita 292.234 kr.
3. Útlagður kostnaður vegna SKY sjónvarpsáskriftar 189.401 kr.
4. Innbú samkvæmt skilnaðarsamningi 2.500.000 kr.
5. Úttektir af greiðslukorti 132.596 kr.
6. Sjónvarpstæki 98.053 kr.
Með bréfi 13. mars 2013 hafnaði gagnstefnandi greiðsluskyldu, ef frá er talinn kostnaður fyrir rafmagn og hita, og hafði uppi gagnkröfur, sem aðalstefnandi hafnaði. Aðalstefnandi höfðaði því mál þetta þar sem hann gerði sömu kröfur og raktar eru hér að framan í tölulið 1-6, en auk þess hafði aðalstefnandi uppi kröfu vegna heimildarlausra millifærslna gagnstefnanda af tékkareikningi aðalstefnanda, að fjárhæð 170.285 kr., samtals 6.982.569 kr.
Eins og fram hefur komið var gagnstefna birt 15. júlí 2013, en þar hefur gagnstefnandi uppi kröfu á hendur aðalstefnanda, aðallega að fjárhæð 6.747.843 kr., sem sundurliðast þannig.
1. Lán hjá Landsbankanum nr. [...] 5.082.767 kr.
2. Lán hjá Landsbankanum nr. [...] 1.087.711 kr.
3. Bensínkort hjá Olíuverslun Íslands hf. 328.592 kr.
4. Vatnsskattur og fráveitugjöld vegna [...] 83.773 kr.
5. Tölvukaupalán hjá Landsbankanum 165.000 kr.
Þá gerir gagnstefnandi kröfu um að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign í sjóðnum á nafni aðalstefnanda. Varakrafan í gagnsök er byggð á sömu kröfuliðum og rakin eru í 1.-5. tölul. hér að framan, auk þess sem krafist er endurgreiðslu á 181.662 kr., en það sé sú fjárhæð sem gagnstefnandi hafi greitt í séreignasparnað hjá Allianz eftir 17. maí 2010.
II.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslu. Aðalstefnandi sagði aðilar hefðu búið saman í fasteigninni að [...] sumarið 2010 og ástandið verið erfitt. Í ágúst 2010 hafi hann óskað eftir því að gagnstefnandi færi úr húsinu. Gagnstefnandi hafi átt séreign sem hún hafi getað farið í. Gagnstefnandi hefði neitað því og sagt að hún færi aldrei þangað. Á endanum hafi aðalstefnandi því flutt út úr húsinu, í október 2010, og sagt að honum þætti rétt að gagnstefnandi borgaði leigu og hún hafi samþykkt það. Aðalstefnandi kvaðst hafa þurft að leigja sér húsnæði fyrir um 170.000 krónur á mánuði og að hún hefði samþykkt að borga svipaða leigu fyrir [...], en þegar á hefði reynt hafi hún ekki borgað neitt. Sumarið 2011 hefði aðalstefnandi farið vestur að vinna og þá sagt að hún yrði að vera búin að koma sér úr húsinu í október s.á. Það hefði ekki tekist betur til en það að hún hafi ekki farið fyrr en um miðjan mars 2012. Enn fremur sagði aðalstefnandi að allan þennan tíma hefði gagnstefnandi verið með eign sína að [...] í útleigu og haft af henni tekjur. Aðalstefnandi sagði að allan þennan tíma hefði hann margbeðið gagnstefnanda um að fara út úr [...] en hún sagt að hún ætlaði að hafa þetta eins og henni sýndist. Þegar hann hafi farið að rukka hana hafi hún sagt að auðvitað ætlaði hún að borga og gera upp en aldrei gert það. Aðalstefnandi greindi einnig frá því að í ágúst 2011 hefði hann átt fund með gagnstefnanda og lögmanninum sem hefði gengið frá skiptasamningnum og áréttað að gagnstefnandi færi úr húsnæðinu í október 2011. Um meint tómlæti sagði aðalstefnanda að hann hefði sýnt gagnstefnanda umburðarlyndi og ekki trúað því fyrr en á reyndi að hún myndi ekki standa við það sem hún lofaði. Lögmaðurinn sem gekk frá skiptasamningnum hefði reynt að hafa milligöngu í máli þessu en án árangurs. Þá sagði aðalstefnandi að synir hans, sem væru fullorðnir menn, hefðu getað búið hjá honum og að þeir hefðu búið hjá honum fyrir vestan sumarið 2011. Jafnframt sagði aðalstefnandi að eftir sumarið 2011 hefði annar sonurinn búið í[...] með kærustu sinni og hinn hefði búið til skiptis hjá kærustu sinni og hjá móður sinni. Þeim hafi alltaf staðið til að búa hjá aðalstefnanda.
Gagnstefnandi sagði fyrir dómi að aðalstefnandi hefði verið atvinnulaus vorið 2010 og þau hefðu ákveðið að vera saman í fasteigninni [...] á meðan hann væri atvinnulaus. Þegar hann hafi svo fengið atvinnu hafi það verið eindregin ósk hans að gagnstefnandi yrði þarna áfram og honum hafi verið umhugað um að hugsað væri vel um syni þeirra. Jafnframt sagði gagnstefnandi að þau hefðu haft áhyggjur af því að hún væri ekki nógu tekjuhá til að leigja húsnæði sem hentaði fyrir þau. Það hefði aldrei komið til tals að hún myndi greiða húsaleigu fyrir að vera í [...] og miðað við þær tekjur sem hún hafði hefði hún aldrei getað borgað 200.000 krónur á mánuði. Þá sagði gagnstefnandi að hún hafi aldrei neitað því að fara út úr húsnæðinu þegar aðalstefnandi hafi beðið um það. Samskipti þeirra hefðu verið góð fyrst eftir skilnaðinn en það breyst eftir að aðalstefnandi fór að vera með nýrri konu á árinu 2011 og í janúar 2012 hafi komið einhverjar „bommertur“ um að gagnstefnandi hafi átt að vera flutt. Á endanum hafi gagnstefnandi flutt með látum í mars 2012.
Ekki er ástæða til að rekja nánar framburð aðila fyrir dómi hér en vísað verður til framburðar þeirra síðar eftir því sem ástæða er til. Þá er ekki ástæða til að rekja sérstaklega vitnisburð sona aðila fyrir dómi, [...] og [...], og sambýliskonu aðalstefnanda, [...].
III.
Aðalstefnandi byggir á því að með fjárskiptasamningi aðila hafi verið gert ráð fyrir ákveðinni skiptingu eigna og skulda sem gagnstefnanda beri að framfylgja. Aðalstefnandi rökstyður einstaka kröfuliði í aðalsök með eftirfarandi hætti.
Fyrsti kröfuliður aðalstefnanda er reistur á því að sanngjarnt endurgjald sé 200.000 kr. á mánuði fyrir afnot af fasteign hans að [...]. Fasteignin sé 223 fm parhús og því ljóst að fjárhæðin sé mjög hófleg enda ekki nema 897 kr. á fm. Til samanburðar bendir stefnandi á að meðalverð samkvæmt leigugagnagrunni Þjóðskrár Íslands fyrir 4-5 herbergja fasteign í [...],[...],[...],[...] og [...], hafi í október 2012 verið 1.352 kr. á fm. Eftir fjárskipti aðila hafi gagnstefnandi ekki getað ætlast til þess að fá afnot af fasteigninni endurgjaldslaust enda hafi ekki verið um það samið. Að liðnum hæfilegum umþóttunartíma frá viðmiðunardegi fjárskipta sé sanngjarnt og eðlilegt að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda fyrir afnotin. Einnig sé rétt í þessu sambandi að halda því til haga að fjárskiptasamningur aðila hafi ekki kveðið á um neina framfærsluskyldu aðalstefnanda. Krafan sé því réttmæt og sanngjörn.
Annar kröfuliðurinn er byggður á því að aðalstefnandi hafi greitt fyrir rafmagn og hita á búsetutíma gagnstefnanda og þannig eignast kröfu á hendur gagnstefnanda. Krafan byggist á greiðsluyfirliti og hafi því ekki verið mótmælt.
Þriðji kröfuliðurinn er byggður á því að gagnstefnandi hafi óskað eftir því að halda svokallaðri SKY-áskrift sem aðalstefnandi hafi haldið áfram að greiða fyrir. Geri aðalstefnandi þess vegna kröfu um að gagnstefnandi greiði sér fyrir afnotin. Krafan nemi þeim útlagða kostnaði sem af áskriftinni hafi hlotist á búsetutíma gagnstefnanda og byggist hún á greiðsluyfirliti.
Fjórði kröfuliðurinn er reistur á því að samkvæmt fjárskiptasamningi aðila hafi innbú og lausafé aðila verið metið á samtals 5.000.000 kr. Í framkvæmd hafi það farið svo að gagnstefnandi hafi tekið við því öllu. Aðalstefnandi hafi átt tilkall til helmings þess og geri þess vegna kröfu um greiðslu úr hendi gagnstefnanda sem því nemi, að fjárhæð 2.500.000 kr.
Fimmti kröfuliðurinn er rökstuddur með því að eftir fjárskipti aðila hafi gagnstefnandi notað greiðslukort aðalstefnanda án heimildar. Hér sé bæði um refsiverða og saknæma háttsemi að ræða af hálfu gagnstefnanda. Krafan sé byggð á færsluyfirliti.
Um sjötta kröfuliðinn segir aðalstefnandi að gagnstefnandi hafi beðið hann um að kaupa sjónvarpstæki, eftir að fjárskiptum aðila lauk, þar sem aðalstefnandi hafi notið góðra kjara í Hátækni. Hvorki hafi verið um gjöf að ræða né nokkurt samkomulag verið um að aðalstefnandi keypti tækið fyrir gagnstefnanda án þess að fá kaupverðið endurgreitt.
Að lokum byggir aðalstefnandi á því að á tímabilinu maí til og með september 2010 hafi gagnstefnandi millifært í heimildarleysi fimm sinnum út af tékkareikningi aðalstefnanda, 14.057 kr. í hvert skipti, eða samtals 70.285 kr., til þess að greiða húsfélagsgjöld fasteignar gagnstefnanda að [...], [...], en fasteignin hafi verið séreign gagnstefnanda í hjúskap aðila. Fyrsta millifærslan hafi átt sér stað 17. maí 2010 eða sama dag og skilnaðarsamningur aðila hafi verið undirritaður, en sú síðasta 15. september 2010. Hér hafi gagnstefnandi gerst sek um refsiverða og saknæma háttsemi auk þess sem gagnstefnandi virðist hafa misnotað sér aðstöðu sína sem starfsmaður [...] til þess að framkvæma millifærslurnar. Þá hafi gagnstefnandi millifært eða látið millifæra 100.000 kr. af bankareikningi aðalstefnanda inn á eigin bankareikning 20. desember 2010. Í stefnu er skorað á gagnstefnanda að upplýsa hvers vegna þessi millifærsla hafi verið framkvæmd, hver framkvæmdi hana og með hvaða heimild.
Aðalstefnandi krefst dráttarvaxta frá 26. mars 2013, þegar liðinn var mánuður frá því að hann krafði gagnstefnanda með réttu um greiðslu með bréfi 26. febrúar 2013, sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttarins um efndir og skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til samnings aðila um skilnað og skilnaðarkjör 17. maí 2010. Jafnframt vísar aðalstefnandi til þess að eðlilegt sé að sá sem nýtir verðmæti í eigu annars manns greiði honum fyrir afnotin nema um annað sé samið.
Krafa stefnanda um dráttarvexti er byggð á III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málkostnaðarkrafa aðalstefnanda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er gerð krafa um 25,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað. Aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi gagnstefnanda.
Hvað varðar gagnsök, vegna láns hjá[...] nr. [...], byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því að hann hafi greitt þær afborganir sem gagnstefnandi kveðst ranglega hafa greitt. Lánið sé uppgert að því er snertir aðalstefnanda. Í lok árs 2009 hafi aðalstefnandi fengið launagreiðslu fyrir vinnu á erlendri grundu að fjárhæð 41.733,17 GBP, eða jafnvirði rúmlega 8,5 milljóna kr., miðað skráð gengi GBP á þeim tíma. Hafi aðalstefnandi gert grein fyrir greiðslunni í skattframtali sínu 2010, fyrir árið 2009, að því marki sem hún hafi varðað það skattár. Hinn 27. janúar 2010 hafi aðalstefnandi lagt 30.000 GBP inn á gjaldeyrisreikning aðila nr. [...]. Hafi innistæðunni verið ætlað að standa undir afborgunum af lánum aðila, umræddu láni nr. [...] og láni nr. [...]. Til marks um þá staðreynd hafi 1.431,74 GBP verið teknar út af framangreindum reikningi sama dag og samningur aðila um skilnaðarkjör var undirritaður, 17. maí 2010, og í skýringu færslunnar verið vísað til láns númer [...].
Þann 16. ágúst 2010 hafi umrætt lán (0186-74-862480) verið „fryst“ á meðan [...] hafi unnið að úrræðum fyrir aðila. Hafi mál staðið þannig þar til eftirstöðvar lánsins, þá 2.494.843 kr., hafi verið greiddar svo sem gagnstefnandi hafi staðfest með tölvupósti til aðalstefnanda 27. mars 2010. Þessar niðurstöður hafi verið færðar inn í skattframtal aðalstefanda 2012, fyrir árið 2011. Þannig hafi lánið verið uppgert af hálfu aðalstefnanda og í samræmi við fjárskiptasamning aðila. Aðalstefnanda varði ekki um síðari atvik eða ætluð samskipti gagnstefnanda við [...] eftir að lánið var gert upp.
Aðalstefnandi hafnar gagnkröfu gagnstefnanda vegna láns hjá [...] nr. [...], með sömu rökum og um lán nr. [...]. Þannig byggir aðalstefnandi á því að með launagreiðslum hans í GBP hafi umþrættar afborganir verið greiddar með fjármunum aðalstefnanda. Auk þess bendir aðalstefnandi á að útilokað sé að launatekjur gagnstefnanda á þeim tíma sem um ræðir hafi staðið undir þeim greiðslum sem gagnstefnandi kveðst hafa greitt, sé litið til annarra skuldbindinga hennar. Þessu til stuðnings vísar aðalstefnandi til tölvupóstsamskipta gagnstefnanda 14. júlí 2010 við [...] þar sem gagnstefnandi fjalli um takmarkaða greiðslugetu.
Þá mótmælir aðalstefnandi gagnkröfum gagnstefnanda vegna bensínkorts frá Olíuverzlun Íslands hf. og vatnsskatts og fráveitugjalda vegna [...]með sömu rökum og færð eru hér að framan. Gagnstefnandi hafi haft fjármuni aðalstefnanda til að greiða umræddan kostnað og sé því hafnað að gagnstefnandi hafi lagt nokkuð út fyrir aðalstefanda. Þvert á móti hafi því verið öfugt farið.
Einnig mótmælir aðalstefnandi gagnkröfu gagnstefnanda vegna tölvukaupaláns sem rangri og ósannaðri. Aðalstefnandi hafi enga tölvu keypt fyrir milligöngu gagnstefnanda, hvorki um fjármögnun né almennt. Í skuldaviðurkenningu, dagsettri 4. mars 2010, hafi verið tiltekið að um væri að ræða „einkatölvukaup“ gagnstefnanda og að afborganir skyldu dregnar af launum hennar. Hvergi hafi verið vísað til aðalstefnanda eða tölvukaupa hans enda hafi engu slíku verið fyrir að fara. Gagnstefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sem gangi í aðra átt, en hún hafi ekki einu sinni gert líklegt að skuldaviðurkenninguna hafi mátt rekja til tölvukaupa í þágu aðalstefnanda og beri því að hafna kröfu gagnstefnanda.
Um kröfu gagnstefnanda um viðurkenningu á hlutdeild í persónulegum lífeyrisréttindum gagnstefnda segir aðalstefnandi að um sé að ræða persónulega söfnunarlíftryggingu aðalstefnanda hjá Allianz. Byggir aðalstefnandi á því að engar forsendur séu fyrir kröfunni og beri því að sýkna hann. Umrædd réttindi séu og hafi alla tíð verið persónuleg og sérgreind réttindi aðalstefnanda sem gagnstefnandi eigi ekkert tilkall til, hvorki á grundvelli laga né samninga aðila. Aðalstefnandi mótmælir því sem röngu að réttindin séu aðeins í „hans nafni“ eins og haldið sé fram í gagnstefnu. Í fjárskiptasamningi aðila hafi verið skýrt tekið fram að „hvort hjóna um sig [ætti] verðmæti í séreignarlífeyrissparnaði“ og að „hvort hjóna um sig [skyldi] halda sínum séreignarlífeyrissparnaði“. Hvergi hafi verið minnst á sameiginleg lífeyrisréttindi eða að aðilar ættu hlutdeild í slíkum réttindum hvors annars. Hafi það verið óumdeilt er samningurinn var gerður að aðeins væri um að ræða aðgreindan og persónulegan séreignarlífeyrissparnað aðila. Samningur aðila sé enn fremur í samræmi við þá meginreglu hjúskaparréttar, sem birtist m.a. í dómaframkvæmd Hæstaréttar, að komi fram krafa um að halda lífeyrisréttindum utan skipta þá skuli það gert enda sé það ekki ósanngjarnt gagnvart hinum makanum, sbr. 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1991. Gagnstefnandi hafi ekki sýnt fram á að fjárskiptasamningurinn hafi verið ósanngjarn í garð hennar. Enda þótt gagnstefnandi kunni að hafa greitt einhverjar greiðslur til Allianz skapi það henni ekki tilkall til umræddra lífeyrisréttinda aðalstefnanda enda sé það í andstöðu við skýr ákvæði fjárskiptasamnings aðila.
Verði ekki fallist á aðalkröfu aðalstefnanda í gagnsök er þess krafist að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Varakrafan er reist á sömu málsástæðum og færðar eru fram fyrir sýknukröfu að breyttu breytanda. Allt að einu verði þó að sýkna gagnstefnda af viðurkenningarkröfu gagnstefnanda.
Um lagarök í gagnsök byggir aðalstefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um efndir og skuldbindingargildi samninga. Þá er vísað til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Jafnframt er vísað hjúskaparlaga nr. 31/1993, o.fl. Krafa um málskostnað er byggð á sömu rökum og í aðalsök.
IV.
Gagnstefnandi hafnar í aðalsök kröfu aðalstefnanda um húsaleigu á tímabilinu 15. október 2010 15. mars 2012, þar sem ekkert samkomulag hafi verið gert í þá veru að gagnstefnandi ætti að greiða leigu af eigninni. Það hafi verið ljóst frá upphafi og aðilar væru um það sáttir að gagnstefnandi myndi ekki greiða leigu fyrir [...]. Vilji gagnstefnanda hafi verið að flytja út og fá sér minna og ódýrara húsnæði. Það hafi hins vegar verið vilji aðalstefnanda að gagnstefnandi dveldi áfram í húsnæðinu svo börnin hefðu gott rými og aðbúnað á meðan þau væru í skóla. Aðilar hefðu rætt það á fyrri stigum að vilji þeirra væri að veita börnunum frítt fæði og húsnæði á meðan þau menntuðu sig, svo þau kæmust í gegnum námið án námslána. Aðalstefnanda hafi verið það ljóst frá upphafi að gagnstefnandi myndi ekki greiða neitt fyrir veru sína í [...].
Þá hafnar gagnstefnandi kröfu aðalstefnanda um hita og rafmagn, en ekkert samkomulag hafi verið gert í þá veru að gagnstefnandi ætti að greiða fyrir hita og rafmagn á meðan hún bjó í eigninni. Í svarbréfi gagnstefnanda til aðalstefnanda, dags. 13. mars 2013, hafi hún fallist á að greiða fyrir hita og rafmagn í þeirri viðleitni að ljúka máli þessu. Aðilum hafi hins vegar ekki tekist að ljúka málinu með samkomulagi og sé greiðsluskyldu því alfarið hafnað.
Einnig hafnar gagnstefnandi kröfulið aðalstefnanda vegna SKY sjónvarpsáskriftar. Gagnstefnandi hafi aldrei óskað eftir þessari þjónustu og hafi ekki nýtt hana. Sjálfur hafi aðalstefnandi haft aðgang að [...] og komið þangað af og til og fylgst með fréttum og fótbolta, ásamt sonum sínum, svo sem um jólin 2010. Aðalstefnanda hafi verið í lófa lagið að stöðva þessar greiðslur enda teknar út af hans eigin greiðslukorti.
Jafnframt hafnar gagnstefnandi kröfulið vegna innbús, enda hafi verið tekið fram í skilnaðarsamningi aðila að þeir væru sammála um skiptingu innbús og hafi aðalstefnandi þegar fengið sinn hlut í því. Gagnstefnandi kveður að skipting innbús hafi í stórum dráttum verið þannig að hún hafi fengið sófasett, borðstofusett, borðstofuskáp, matarstell (hálft og fylgihluti), potta og pönnur, glös og áhöld, rúm, sjónvarp, antik skáp, antik sófaborð, þvottavél (keypt notuð 2001), þurrkara (keyptur notaður 2001), ísskáp og frystiskáp, járnhillur í geymslu og málverk (gjafir). Aðalstefnandi hafi fengið sófasett, borðstofusett, eldhúsborð og stóla, matarstell (12 manna og fylgihlutir), pottar og pönnur, glös og áhöld, rúm (arfur frá foreldrum), sjónvarp, antik skápur, sófaborð, hliðarborð, uppþvottavél, öll ljós, bókaskápur (2x), bókaskápur frístandandi, skrifborð (2x), járnhillur í geymslu, geymsluhillueiningar úr tré, nokkrar veiðistangir og annað veiðidót, málverk (gjafir), ýmislegt sem hafi komið með syni aðalstefnanda frá Englandi og ýmislegt sem hafi verið skilið þar eftir. Öðru smálegu hafi verið skipt á milli aðila eins og kostur hafi verið.
Gagnstefnandi hafnar kröfu aðalstefnanda um úttektir á greiðslukorti. Aðalstefnandi hafi beðið gagnstefnanda reglulega um að greiða eitt og annað fyrir sig og í hvert skipti hafi aðalstefnandi gefið gagnstefnanda upp þann reikning sem hafi átt að nota. Þessar greiðslur hafi undantekningarlaust farið fram að hans beiðni. Þær meintu óheimilu úttektir sem hér um ræði tilheyri „Time share“ réttindum sem aðilar hafi átt í Bandaríkjunum. Samtals hafi þau átt 4 ½ viku. Þar af hafi fjórar vikur verið skráðar á þau bæði en þessi auka hálfa vika hafi verið skráð á gagnstefnanda. Þessar greiðslur af kortinu tilheyri þeirri hálfu viku. Öll þessi réttindi hafi verið sameign þeirra og þeim beri báðum að borga kostnaðinn sem af þeim hafi hlotist.
Kröfu vegna sjónvarps er hafnað. Gagnstefnandi hafi ekki beðið aðalstefnanda um að kaupa umrætt sjónvarpstæki heldur hafi það verið gjöf til gagnstefnanda. Aðalstefnandi hafi ekkert lagt fram sem sýni fram á greiðsluskyldu gagnstefnanda. Um millifærslur af tékkareikningi aðalstefnanda segir gagnstefnandi að aðilar hafi búið saman á þeim tíma sem hér um ræðir. Aðilar hafi verið í góðu sambandi á þessum tíma og hjálpast að við að greiða eitt og annað. Gagnstefnandi hafi greitt ýmislegt fyrir aðalstefnanda og hann gefið samþykki sitt fyrir greiðslu húsfélagsgjalda vegna [...]. Því er harðlega mótmælt af hálfu gagnstefnanda að um heimildarlausar millifærslur hafi verið að ræða. Hvað varðar millifærsluna í desember 2010 þá hafi hún verið framkvæmd af gagnstefnanda að beiðni aðalstefnanda. Ástæðan hafi verið sú að gagnstefnandi var að fara ásamt sonum sínum til Bandaríkjanna yfir jólin 2010. Aðalstefnandi hafi beðið gagnstefnanda um að kaupa ýmis vítamín og verkjalyf fyrir sig sem hún hafi gert. Þessi greiðsla, að fjárhæð 100.000 kr., hafi verið greiðsla fyrir umrædd vítamín og lyf auk helmingshlutar aðalstefnanda í jólagjöfum fyrir fjölskylduna sem gagnstefnandi keypti í Bandaríkjunum. Á þessum tíma hafi aðilar sameinast um gjafir, s.s. jólagjafir, afmælisgjafir og brúðargjafir.
Verði litið svo á að aðalstefnandi hafi af einhverjum ástæðum á einhverjum tímapunkti átt réttmæta kröfu á hendur gagnstefnanda sé ljóst að hann hafi með aðgerðarleysi sínu glatað rétti sínum til efnda. Samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör sé dagsettur 17. maí 2010. Með þeim samningi hafi aðilar slitið fjárfélagi sínu og skuli samkvæmt samningnum hvorugur aðilinn eiga frekari kröfu á hendur hinum. Varðandi aðgerðarleysi aðalstefnanda er vísað til reglna kröfuréttarins um tómlæti. Þá er í þessu sambandi einnig vísað til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þar sem kveðið sé á um tímamörk varðandi ógildingu skilnaðarkjarasamninga en skilnaðarleyfi aðila hafi verið gefið út 18. maí 2010, eða fyrir rúmum þremur árum.
Nánar um málsástæður og lagarök í aðalsök vísar gagnstefnandi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga og meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Varðandi atriði er tengjast skilnaðarsamningi aðila er vísað til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og meginreglu sifjaréttar um helmingaskiptareglu við skilnað hjóna. Málskostnaðarkrafan byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Gagnstefnandi byggir gagnkröfur sínar á eftirtöldum atriðum. Gagnstefnandi heldur því fram að aðalstefnandi skuldi henni samtals 6.747.843 kr., sem samanstandi að fjárhæðum sem gagnstefnandi hafi ýmist þegar greitt út eða fyrirsjáanlegt sé að lendi á henni þrátt fyrir að samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi gert ráð fyrir því að aðalstefnandi tæki að sér greiðslu viðkomandi skulda.
Gagnstefnandi gerir kröfu vegna láns hjá [...] nr. [...]. Samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör skyldi aðalstefnandi taka yfir lán hjá [...] nr. [...], sem hafi upphaflega verið á nafni beggja aðila. Lán þetta hafi upphaflega hvílt á fasteigninni að [...]en hvíli nú á [...], sem sé þinglýst eign gagnstefnanda. Þar sem aðalstefnandi hafi ekki greitt af láni þessu hafi það verið tekið af hans nafni og sé nú einungis á nafni gagnstefnanda. Lán þetta hafi ekki verið fært yfir á nafn aðalstefnanda og af nafni gagnstefnanda eins og samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör geri ráð fyrir vegna ástæðna er lúti að aðalstefnanda. Þá hafi aðalstefnandi ekkert greitt af láninu frá viðmiðunardegi skilnaðarins og hafi þær greiðslur sem inntar hafa verið af hendi síðan þá komið frá gagnstefnanda sem hér segir:
Dags. greiðslu Fjárhæð
17.05.2010 kr. 76.963
28.06.2010 kr. 77.154
28.06.2010 kr. 1.331
15.07.2010 kr. 77.471
16.08.2010 kr. 77.217
Eftirstöðvar umrædds láns hinn 16. september 2011 hafi numið 4.772.631 kr., sbr. tölvupóst frá útibústjóra [...] 4. september 2012. Lánið hafi farið í svokallaða 110% leið í september 2011 og fengið árið 2012 nýtt lánsnúmer, [...]. Gagnstefnandi hafi krafist þess að aðalstefnandi greiði sér framangreindar fjárhæðir, samtals 5.082.767 kr. Fyrirséð sé að gagnstefnandi verði fyrir tjóni komi ekki til þess að lán þetta verði fært yfir á nafn aðalstefnanda, eins og samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör geri ráð fyrir, enda sé lánið á nafni gagnstefnanda, auk þess sem það hvílir sem veð á fasteign hennar [...], fnr. [...].
Þá gerir gagnstefnandi kröfu vegna láns hjá [...] nr. [...]. Samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör skyldi aðalstefnandi yfirtaka lán hjá [...] nr. [...]. Á árinu 2010 hafi gagnstefnandi hins vegar greitt afborganir af umræddu láni, samtals að fjárhæð 1.087.711 kr., sem sundurliðist þannig:
Dags. greiðslu Fjárhæð
17.05.2010 kr. 270.485
28.06.2010 kr. 273.573
15.07.2010 kr. 272.274
16.08.2010 kr. 271.379
Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða henni umrædda fjárhæð enda sé kveðið á um það með skýrum hætti í samningi aðila að aðalstefnandi skyldi greiða af umræddu láni, en ekki gagnstefnandi.
Þá gerir gagnstefnandi kröfu vegna bensínkorts frá Olíuverzlun Íslands hf. Aðalstefnandi sé skráður fyrir bensínkorti hjá Olís. Á tímabilinu maí 2010 til febrúar 2011 hafi aðalstefnandi notað umrætt kort til ýmissa úttekta í verslunum Olís, samtals að fjárhæð 328.592 kr. Reikningar vegna úttektanna hafi verið sendir á gagnstefnanda sem hafi greitt þá enda sé bensínkort aðalstefnanda tengt við greiðslukort gagnstefnanda. Gerð sé sú krafa að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umræddar fjárhæðir, sem sundurliðist þannig:
Dags. reiknings Fjárhæð
31.05.2010 kr. 43.642
30.06.2010 kr. 44.976
31.07.2010 kr. 41.848
31.08.2010 kr. 47.100
30.09.2010 kr. 30.835
31.10.2010 kr. 57.127
30.11.2010 kr. 10.266
31.12.2010 kr. 1.260
31.01.2011 kr. 28.999
28.02.2011 kr. 22.539
Gagnstefnandi gerir einnig kröfu vegna vatnsskatts og fráveitugjalda fyrir [...]fyrir tímabilið 2. maí 2011 til 3. október 2011, en samkvæmt samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi sú eign komið í hlut gagnstefnda við skilnaðinn. Gjöldin séu hluti af skattheimtu vegna fasteignarinnar og því ljóst að aðalstefnanda hafi borið að greiða þau. Gjöldin hafi verið komin í innheimtu hjá Gjaldheimtunni og hafi kröfufjárhæðin verið samtals að fjárhæð 83.773 kr. með dráttarvöxtum og innheimtuþóknun fram að innborgunardegi, 8. desember 2011.
Jafnframt gerir gagnstefnandi kröfu vegna tölvukaupalána hjá [...]. Hinn 4. mars 2010 hafi gagnstefnandi undirritað skuldaviðurkenningu að fjárhæð 165.000 kr. vegna tölvukaupa. Endurgreiðsla lánsins hafi verið miðuð við 24 mánaðarlegar jafnar greiðslur og lánið hafi verið vaxtalaust. Umrætt lán hafi verið tekið til kaupa á tölvu fyrir aðalstefnanda. Ástæða þess að umrætt lán hafi verið skráð á nafn gagnstefnanda sé sú að hún sé starfsmaður [...] og boðist umrætt lán án vaxta, en það hafi verið hluti af starfskjörum starfsmanna bankans. Þau kjör væru ekki í boði fyrir viðskiptavini bankans, sem ekki væru jafnframt starfsmenn. Eina ástæða þess að gagnstefnandi hafi greitt umrætt lán hafi verið fyrrnefnd kjör sem henni hafi boðist, en umrædd tölva hafi verið keypt fyrir aðalstefnanda og hafi hann haft umráð hennar frá upphafi. Er gerð sú krafa að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umræddar fjárhæðir, sem sundurliðast þannig:
Dags. greiðslu Fjárhæð
06.04.2010 kr. 6.875
03.05.2010 kr. 6.875
01.06.2010 kr. 6.875
01.07.2010 kr. 6.875
03.08.2010 kr. 6.875
01.09.2010 kr. 6.875
01.10.2010 kr. 6.875
01.11.2010 kr. 6.875
01.12.2010 kr. 6.875
03.01.2011 kr. 6.875
01.02.2011 kr. 6.875
01.03.2011 kr. 6.875
01.04.2011 kr. 6.875
02.05.2011 kr. 6.875
01.06.2011 kr. 6.875
01.07.2011 kr. 6.875
02.08.2011 kr. 6.875
01.09.2011 kr. 6.875
03.10.2011 kr. 6.875
01.11.2011 kr. 6.875
01.12.2011 kr. 6.875
02.01.2012 kr. 6.875
01.02.2012 kr. 6.875
01.03.2012 kr. 6.875
Samkvæmt framansögðu sundurliðast krafa gagnstefnanda að fjárhæð 6.747.843 kr. þannig:
|
a) |
Lán hjá [...] nr. [...] |
kr. 5.082.767 |
|||
|
b) |
Lán hjá [...]nr. [...] |
kr. 1.087.711 |
|||
|
c) |
Bensínkort frá Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) |
kr. 328.592 |
|||
|
d) |
Vatnsskattur og fráveitugjöld vegna [...] |
kr. 83.773 |
|||
|
e) |
Tölvukaupalán hjá [...] |
kr. 165.000 |
|||
|
_______________________________________________________________ |
|||||
|
Samtals |
kr. 6.747.843 |
||||
Enn fremur gerir gagnstefnandi kröfu á hendur aðalstefnanda vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Í hjúskap sínum hafi aðilar greitt hvort um sig í séreignarlífeyrissparnað. Samkvæmt samningi um skilnað og skilnaðarkjör skyldi hvort hjóna halda sínum séreignarlífeyrissparnaði. Auk þess að greiða hvort í sinn séreignarlífeyrissparnað hafi aðilar greitt sameiginlega í séreignarlífeyrissparnað hjá Allianz. Gagnstefnandi hafi tekið saman hluta af þeim greiðslum sem hún hafi innt af hendi til sjóðsins. Samtala þeirra greiðslan nemi 1.031.597 kr. og sundurliðast þannig:
Dags. greiðslu Fjárhæð
27.02.2008 kr. 23.163
37.03.2008 kr. 28.558
28.04.2008 kr. 26.880
29.07.2008 kr. 29.039
27.08.2008 kr. 28.281
26.09.2008 kr. 33.404
29.10.2008 kr. 35.004
26.11.2008 kr. 42.295
23.12.2009 kr. 41.561
28.01.2009 kr. 34.661
25.02.2009 kr. 33.579
27.03.2009 kr. 37.153
28.04.2009 kr. 39.556
27.05.2009 kr. 40.911
26.06.2009 kr. 41.747
29.07.2009 kr. 42.305
27.08.2009 kr. 42.024
28.09.2009 kr. 42.555
28.10.2009 kr. 43.027
26.11.2009 kr. 42.866
27.01.2010 kr. 41.671
29.03.2010 kr. 40.116
28.04.2010 kr. 39.579
27.05.2010 kr. 37.020
28.06.2010 kr. 36.517
28.07.2010 kr. 36.549
27.08.2010 kr. 35.632
28.09.2010 kr. 35.944
Aldrei hafi staðið annað til við skilnað aðila en að inneign í Allianz myndi skiptast jafnt á milli aðalstefnanda og gagnstefnanda, enda hafi gagnstefnandi greitt verulegar fjárhæðir í sjóðinn. Inneignin í sjóðnum sé hins vegar skráð á nafn aðalstefnanda og hafi gagnstefnandi því ekki getað aflað sér upplýsinga um fjárhæð inneignarinnar. Í gagnstefnu skorar gagnstefnandi á aðalstefnanda að leggja fram yfirlit með upplýsingum um fjárhæð inneignar í sjóðnum. Þar sem ekkert liggi fyrir um fjárhæð lífeyrissparnaðar í Allianz sé farið fram á að viðurkennt verði að gagnstefnandi eigi 50% eignarhlut af inneign í sjóðnum á nafni aðalstefnanda.
Varakröfu sína í gagnstefnu byggir gagnstefnandi á því að aðalstefnandi skuldi henni samtals 6.929.505 kr. sem samanstandi af fjárhæðum sem gagnstefnandi hafi ýmist þegar greitt út eða fyrirsjáanlegt sé að lendi á henni þrátt fyrir að samningur aðila um skilnað og skilnaðarkjör hafi gert ráð fyrir því að gagnstefndi tæki að sér greiðslu viðkomandi skulda.
Er varakrafa gagnstefnanda byggð á sömu rökum og sjónarmiðum og í aðalkröfu í gagnstefnu. Auk þess er á því byggt að gagnstefnandi eigi rétt á endurgreiðslu að fjárhæð 181.662 sem sé samanlögð fjárhæð þeirra greiðslna sem gagnstefnandi hafi greitt í séreignarlífeyrissparnað hjá Allianz eftir 17. maí 2010. Eins og fram hafi komið sé inneignin í sjóðnum skráð á nafn aðalstefnanda.
Sundurliðist greiðslurnar sem hér segir:
Dags. greiðslu Fjárhæð
27.05.2010 kr. 37.020
28.06.2010 kr. 36.517
28.07.2010 kr. 36.549
27.08.2010 kr. 35.632
28.09.2010 kr. 35.944
Krafa sé gerð um að aðalstefnanda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda umrædda fjárhæð, 181.662 kr., enda sé kveðið á um það í samningi aðila um skilnað og skilnaðarkjör að eignaskipti aðila skuli miðast við 17. maí 2010 og geti aðalstefnandi ekki ætlast til þess að eftir það tímamark greiði gagnstefnandi í séreignarlífeyrissparnað sem sé ætlaður aðalstefnanda. Samantekt fjárhæða vegna varakröfu gagnstefnanda sé eftirfarandi:
|
a) |
Lán hjá [...] nr. [...] |
kr. 5.082.767 |
|||
|
b) |
Lán hjá [...] nr. [...] |
kr. 1.087.711 |
|||
|
c) |
Bensínkort frá Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) |
kr. 328.592 |
|||
|
d) |
Vatnsskattur og fráveitugjöld vegna [...] |
kr. 83.773 |
|||
|
e) |
Tölvukaupalán hjá Landsbankanum |
kr. 165.000 |
|||
|
f) |
Greiðslur gagnstefnanda í séreignarsparnað hjá Allianz |
kr. 181.662 |
|||
|
_______________________________________________________________ |
|||||
|
Samtals |
kr. 6.929.505 |
||||
Gagnstefnandi gerir gagnkröfur sínar með vísan til 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Um lagarök vísar gagnstefnandi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi samninga og meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Varðandi atriði er tengjast skilnaðarsamningi aðila og lífeyrisinneign hjá Allianz vísast til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og meginreglu sifjaréttar um helmingaskiptareglu við skilnað hjóna.
Krafa gagnstefnanda um dráttarvexti er byggð á 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu 38/2001.
Málskostnaðarkrafan styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Eins og rakið hefur verið gerðu aðilar með sér samning um skilnað og skilnaðarkjör hinn 17. maí 2010, en ýmislegt fór í reynd á annan veg en samningurinn kvað á um. Óumdeilt er að gagnstefnandi bjó áfram í [...] þrátt fyrir að aðalstefnandi hafi átt að fá fasteignina í sinn hlut samkvæmt samningnum. Gagnstefnandi heldur því fram að samkomulag hafi verið um að hún fengi að dvelja í eigninni án þess að greiða nokkurt endurgjald fyrir afnotin af henni. Til stuðnings þessari málsástæðu leiddi gagnstefnandi fyrir dóm sem vitni syni aðila, A og B en þeir sögðu að þeir hefðu aldrei heyrt aðalstefnanda tala um að gagnstefnandi ætti að greiða fyrir að vera í húsinu. Að mati dómsins er þetta engin sönnun um hvað aðilum hefur farið á milli og að samkomulag hafi verið um að gagnstefnandi fengi að búa í húsinu endurgjaldslaust. Auk þess verður að líta til þess að þegar synir aðila báru vitni fyrir dómi var greinilegt að þeir hafa tekið afstöðu með gagnstefnanda og þeir skýrðu frá því að þeir hefðu slitið öll tengsl við aðalstefnanda, en þeir vildu ekki gefa upp hver væri ástæðan fyrir því. Að mati dómsins er því við úrlausn máls þessa ekki unnt að byggja á framburði sona aðila. Það sama gildir um vitnisburð C enda er hún sambýliskona aðalstefnanda. Hvað varðar rök gagnstefnanda fyrir því að hún hafi mátt búa í eigninni endurgjaldslaust til að geta sinnt sonum aðila er til þess að líta að þeir voru uppkomnir og ekki liggur annað fyrir en að þeir hafi einnig átt þess kost að búa hjá aðalstefnanda.
Þegar litið er til alls framangreinds, einkum þess að aðalstefnandi fékk samkvæmt samningi aðila í sinn hlut fasteignina að [...], engin sönnunargögn eða vitnisburðir liggja fyrir sem sýna fram á að samkomulag hafi verið um að gagnstefnandi þyrfti ekki að greiða neitt fyrir afnotin, og með hliðsjón af dómi Hæstarétti í máli nr. 41/2005, er fallist á með aðalstefnanda að gagnstefnanda beri að greiða endurgjald fyrir afnot af húsinu. Kröfufjárhæðinni hefur ekki verið mótmælt eða tímabilinu sem aðalstefnandi gerir kröfu um. Gagnstefnandi flutti út úr húsinu í mars 2012 og var mál þetta höfðað í júní 2013. Að þessu virtu og aðstæðum í máli þessu er því hafnað að aðalstefnandi hafi með tómlæti glatað rétti til að hafa uppi kröfu um endurgjald fyrir afnot gagnstefnanda af fasteign hans. Samkvæmt framansögðu ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda þá fjárhæð sem hann gerir kröfu um, 3.600.000 krónur.
Gagnstefnandi sagði fyrir dómi að hún teldi rétt að greiða hita og rafmagn meðan hún bjó að [...] og að hún samþykkti þann kröfulið aðalstefnanda. Í samræmi við þetta ber henni að greiða stefnanda 292.234 krónur vegna hita og rafmagns. Ósannað er að gagnstefnandi hafi óskað eftir því að hafa SKY sjónvarpsáskrift eða að það hafi verið í hennar þágu. Verður þeim kröfulið aðalstefnanda hafnað. Það sama gildir um kröfu aðalstefnanda vegna sjónvarpstækis. Þá er ósannað að aðalstefnandi hafi á sínum tíma ekki getað fengið sinn hlut í innbúi aðila og að innbúi hafi ekki verið skipt. Auk þess er óljóst um hvaða muni er að ræða og verðmæti einstakra hluta. Verður að hafna kröfulið aðalstefnanda vegna innbús. Hvað varðar kröfulið að fjárhæð 132.596 krónur, vegna úttekta af greiðslukorti, er til þess að líta að um er að ræða úttektir sem gagnstefnandi framkvæmdi af korti aðalstefnanda eftir skilnað aðila og liggur ekkert fyrir í málinu um að þær hafi verið að beiðni gagnstefnanda eða að hún hafi haft heimild frá honum til að taka út af korti hans. Ber gagnstefnanda því að greiða þennan kröfulið.
Í gagnstefnu hefur gagnstefnandi uppi kröfu á hendur aðalstefnanda vegna tveggja lána hjá[...], annars vegar láns nr. [...]og hins vegar nr. [...]. Krafan vegna fyrrnefnda lánsins er að fjárhæð 5.082.767 krónur og samanstefndur af greiðslum sem gagnstefnandi hefur innt af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 310.136 krónur, og eftirstöðvum lánsins, 4.772.631 króna. Þá er krafan vegna láns nr. [...] vegna greiðslna sem gagnstefnandi hefur innt af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 1.087.711 krónur. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu gagnstefnanda að fallið væri frá kröfu vegna greiðslu sem var innt af hendi 17. maí 2010 af láni [...] 76.963 krónur, og greiðslu af fjárhæð 270.485 krónur vegna láns nr. [...]. Þannig er endanleg krafa gagnstefnanda vegna fyrra lánsins að fjárhæð 5.005.804 krónur og vegna seinna lánsins 817.226.
Samkvæmt samningi aðila frá 17. maí 2010 átti aðalstefnandi að taka yfir lán nr. lán nr. [...] og lán nr. [...]. Fyrir liggur í gögnum málsins að það var ekki fyrr en með viðauka við veðskuldabréf 16. febrúar 2012 sem gagnstefnandi var felld niður sem skuldari af síðarnefnda láninu og aðalstefnandi varð einn greiðandi af láninu. Þá hefur það komið fram að það gekk ekki eftir að aðalstefnandi tæki yfir lán [...], af ástæðum sem varða aðalstefnanda. Fram kemur í gögnum málsins að það lán fór í svokallaða 110% leið í september 2011 og fékk nýtt lánsnúmer og var lánsnúmerið [...] því eðli máls samkvæmt fært á skattframtal með eftirstöðvar 0. Það þýðir ekki það að aðalstefnandi hafi verið laus allra mála hvað varðar efndir á samningi aðila frá 17. maí 2010 sem sneru að þessu láni. Lánið sem var upphaflega nr. [...], og fékk nýtt lánsnúmer, hvílir nú á fasteign gagnstefnanda. Aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi þegar greitt lán nr. [...] og lán nr. [...] með reikningi sínum í enskum pundum (GBP). Á yfirliti yfir umræddan reikning er hvergi vísað til þess að útborganir af reikningum hafi verið sérstaklega ætlaðar til að greiða af láni nr. [...]og er ósannað að innborgun 27. janúar 2010, að fjárhæð 30.000 GBP, hafi verið sérstaklega ætluð til að greiða af því láni, eins og aðalstefnandi heldur fram. Á yfirlitinu kemur hins vegar fram tilvísun í einni útborgun í seinna lánið, nr. [...], að fjárhæð 1.431,74 GBP, sem samsvarar kröfulið gagnstefnanda vegna greiðslu af láni [...] hinn 17. maí 2010, en eins og áður segir féll gagnstefnandi frá þeim kröfulið við meðferð málsins.
Með vísan til alls framangreinds og staðfestingar sem gagnstefnandi hefur lagt fram frá [...], um að eftirstöðvar láns nr. [...]eftir niðurfellingu með 110% leiðinni hafi verið 4.772.631 króna, verður aðalstefnanda gert að greiða gagnstefnanda þá fjárhæð og greiðslur sem hún innti af hendi af láninu eftir skilnað aðila, samtals 233.173 krónur. Jafnframt verður fallist á að aðalstefnanda beri að greiða kröfu gagnstefnanda vegna greiðslna sem hún innti af hendi eftir skilnað aðila af láni nr. nr. [...], samtals 817.226 krónur.
Við aðalmeðferð málsins samþykkti aðalstefnandi kröfu gagnstefnanda vegna úttekta á bensínkorti, samtals 328.592 krónur. Ber honum því að greiða gagnstefnanda þann kröfulið. Einnig ber aðalstefnanda að greiða kröfu gagnstefnanda að fjárhæð 83.773 krónur vegna vatnskatts og fráveitugjalda af [...], enda um gjöld að ræða sem hvíldu á aðalstefnanda sem eiganda fasteignarinnar. Ósannað er að tölvukaupalán, sem var í nafni gagnstefnanda, hafi verið tekið í þágu aðalstefnanda og er þeim kröfulið hafnað. Jafnframt verður að hafna kröfu gagnstefnanda um að viðurkennt verði að hún eigi 50% eignarhlut af inneign aðalstefnanda í lífeyrissparnaði hjá Allianz, enda fær sú krafa ekki staðist í ljósi 3. gr. samnings aðila frá 17. maí 2010, þar sem kveðið var á um að hvor aðila skyldi halda sínum séreignarlífeyrissparnaði. Aftur á móti er rétt að aðalstefnandi greiði varakröfu gagnstefnanda, vegna greiðslna sem hún innti af hendi til Allianz eftir skilnað aðila, samtals 181.662 krónur.
Af framangreindu leiðir að gagnstefnanda ber að greiða aðalstefnanda 3.600.000 krónur fyrir afnot af [...], 292.234 krónur vegna rafmagns og hita og 132.596 krónur vegna úttekta af greiðslukorti, samtals 4.024.830 krónur. Gagnstefnandi á hins vegar kröfu á hendur aðalstefnanda vegna láns hjá Landsbankanum nr. [...], 5.005.804 krónur, 817.226 krónur vegna afborgana af láni nr. [...], 328.592 krónur vegna bensínkorts, 83.773 krónur vegna greiðslu á vatnsskatti og fráveitugjöldum af [...] og 181.662 krónur vegna greiðslu til Allianz vegna séreignarlífeyrissparnaðar aðalstefnanda, samtals 6.417.057 krónur. Verður niðurstaða málsins því sú að aðalstefnanda ber að greiða gagnstefnanda 2.392.227 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu til greiðsludags, eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Aðalstefnandi, M, greiði gagnstefnanda, K, 2.392.227 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.