Hæstiréttur íslands

Mál nr. 377/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Vanaafbrotamaður
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. janúar 2004.

Nr. 377/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Lárusi Birni Svavarssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Vanaafbrotamaður. Ítrekun.

Í samræmi við játningu L var hann sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til 71. gr., 255. gr. og 72. gr. sömu laga, en L var vanaafbrotamaður. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um 6 mánaða fangelsisvist L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.

Ákærði var dæmdur 3. desember 2003 fyrir þjófnað. Sá dómur var hegningarauki við hinn áfrýjaða dóm.

Ákærði hlaut fangelsi í fjóra mánuði 18. febrúar 2003 fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur tvisvar á árinu 2001 í fangelsi í samtals 6 mánuði, annars vegar fyrir þjófnað og skjalafals og hins vegar fyrir þjófnað, ólögmæta meðferð fundins fjár og fíkniefnalagabrot. Að auki var hann dæmdur í fangelsi fyrir þjófnað og önnur hegningarlagabrot árin 2000 og 1999, einu sinni hvort ár, og tvisvar árið 1998. Allir framangreindir refsidómar hafa ítrekunaráhrif á brot hans. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði er vanaafbrotamaður og er refsing hans því einnig ákveðin með hliðsjón af 72. gr. og 255. gr. sömu laga. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Lárus Björn Svavarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2003.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 1. júlí sl. á hendur ákærða, Lárusi Birni Svavarssyni, kt. 120951-4839, Miklubraut 20, Reykjavík,

„fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 6. mars 2003 í fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Fríkirkjuvegi 1, Reykjavík, stolið eftirtöldum verðmætum:

                1.  Seðlaveski sem innihélt kr. 5.000 í peningum, kreditkort, debetkort, ökuskírteini ásamt fleiri persónulegum munum.

                2.  Seðlaveski sem innihélt kr. 7.500 í peningum, debetkort, ökuskírteini, önnur kort og gullhring.

                Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Í málinu er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta sem hér greinir:

                1.  Nils Kjartan Guðmundsson, kt. 140875-6279, kr. 15.000.

                2.  Pétur Ingi Frantzson, kt. 060355-4609, kr. 22.500.”

                Málavextir.

                Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir að öðru leyti en því að hann kannast ekki við að í öðru veskinu hafi verið gullhringur.  Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir að ekki yrðu færð fram nein frekari sönnunargögn um það sakaratriði og verður að telja að gegn neitun ákærða sé þetta ósannað í málinu.  Ber því að sýkna hann af því atriði.  Hann er með játningu sinni að öðru leyti orðinn sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. 

Ákærði hefur játað brot sitt greiðlega og leitast við að draga úr tjóni af því.  Á hinn bóginn verður að líta til þess að hann hefur frá árinu 1969 hlotið rúmlega 40 refsidóma fyrir margvísleg brot, aðallega gegn almennum hegningarlögum. Er samanlögð refsivist ákærða samkvæmt þessum dómum orðin rúm 17 ár.  Auk þessa hefur hann margsinnis verið sektaður fyrir ýmisleg brot, einkum fíknilagabrot.  Þá er þess að gæta að ákærði framdi brot það sem hér um ræðir skömmu eftir að hann hafði verið dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir þjófnað.  Þykir refsing hans að öllu þessu athuguðu og með vísan til 255. gr. almennra hegningarlaga vera hæfilega ákveðin fangelsi í  6 mánuði.

Ákærði hefur samþykkt bótakröfurnar í málinu og ber að dæma hann til þess að greiða skaðabætur þeim Nils Kjartani Guðmundssyni, kt. 140875-6279, 15.000 krónur, og Pétri Inga Frantzsyni, kt. 060355-4609, 22.500 krónur.

                Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hrl., 35.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

          Ákærði, Lárus Björn Svavarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

          Ákærði greiði skaðabætur sem hér segir: 

          Nils Kjartani Guðmundssyni, 15.000 krónur,

          Pétri Inga Frantzsyni, 22.500 krónur.

          Ákærði greiði allan  sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000  krónur.