Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 14. janúar 2008. |
|
Nr. 16/2008. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2008, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 10. mars 2008, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að setja tryggingu, en ella að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er grunaður um brot sem talið er varða mikla hagsmuni og tengjast aðilum erlendis. Réttarbeiðnir hafa verið sendar til nokkurra landa vegna rannsóknar málsins og munu formleg svör ekki enn hafa borist frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Filippseyjum. Eins og mál þetta er vaxið og stöðu rannsóknar þess er nú háttað má fallast á að enn sé þörf á að tryggja nærveru varnaraðila hér á landi í þágu rannsóknar málsins með farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.