Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2007


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Vöruflutningar
  • Farmbréf
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008.

Nr. 236/2007.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Íslensku umboðssölunni hf.

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Vátrygging. Flutningur. Farmbréf. Sératkvæði.

Í hf. taldi sig vera að selja nafngreindu fyrirtæki á Ítalíu gám af fiskflökum og gaf út reikning vegna viðskiptanna þar sem greiðsluskilmálar voru tilgreindir „cash against documents“ með afhendingarskilmálana „CIF Rotterdam“. Félagið afhenti farmflytjanda vöruna og keypti flutningstryggingu hjá T hf. í samræmi við afhendingarskilmálana. Sá sem Í hf. taldi vera kaupanda vörunnar reyndist ekki hafa pantað hana heldur aðili sem misnotað hafði nafn hans. Sá aðili komst einnig yfir frumrit vöruskjala og fékk vöruna afhenta sér gegn framvísun þeirra í vörugeymslu farmflytjandans í Rotterdam. Í hf. krafðist greiðslu bóta á grundvelli vátryggingarinnar vegna þess tjóns sem félagið hafði orðið fyrir af þessum sökum. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna, var litið svo á að farmurinn hefði enn þá verið í vörslum farmflytjanda þegar honum var stolið. Samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar var ekki talið að hún hefði þá verið fallin niður. Því var fallist á að T hf. bæri að bæta tjón Í hf. í samræmi við skilmála vátryggingarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinar Gunnlaugssonar

Eins og fram kemur í héraðsdómi taldi stefndi sig vera að selja gám af þorskflökum til nafngreinds fyrirtækis á Ítalíu. Hann gaf út reikning fyrir fiskflökin 1. nóvember 2002 þar sem greiðsluskilmálar voru tilgreindir „cash against documents“ með afhendingarskilmála „CIF Rotterdam“. Stefndi afhenti farmflytjanda vöruna og keypti flutningstryggingu hjá áfrýjanda í samræmi við afhendingarskilmálana. Tryggingunni var ætlað að tryggja vöruna frá því seljandi afhenti hana til flutningsaðila hér á landi og þar til hún var komin til Rotterdam þar sem samið var um að kaupandi gæti fengi umráð hennar gegn framvísun vöruskjala. Eins og greinir í héraðsdómi reyndist sá aðili, sem stefndi taldi vera kaupanda, ekki hafa pantað vöruna heldur einhver sem misnotað hafði nafn hans. Var stefndi þannig fenginn með sviksamlegum hætti til að senda vöruna frá Reykjavík til Rotterdam. Vátryggingin sem um ræðir í málinu tekur til tjóns á hinni vátryggðu vörusendingu þar til tryggingarverndinni lýkur samkvæmt grein 8.1 í skilmálum. Hún nær hins vegar ekki til atvika er lúta að sendingu farmbréfs vegna flutningsins eða greiðslu kaupverðs við afhendingu þess. Það er óumdeilt í málinu að varan var afhent úr vörugeymslu á vegum farmflytjanda í Rotterdam. Flutningsaðili, sem tekið hafði að sér að flytja vöruna þaðan til Ítalíu, framvísaði í vöruskemmu farmflytjandans frumriti vöruskjala en þau hafði sá, sem með svikum hafði pantað vöruna, komist yfir úr hendi fyrirtækis sem annaðist sendingu skjalanna til Ítalíu. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að flutningstryggingin nái til þess tjóns sem hann varð fyrir vegna þeirrar sviksamlegu háttsemi sem leiddi til þess að varan var send frá Íslandi til Rotterdam og barst síðar í hendur þess aðila sem að svikunum stóð. Er að mínum dómi ekki unnt að líta svo á að vátryggingaratburðurinn hafi orðið þegar varan var afhent úr vöruskemmu í Rotterdam fremur en á öðrum augnablikum á þeim sviksamlega ferli sem lýst er að framan. Liggur ekki annað fyrir en að varan hafi verið óskemmd þegar hún var afhent í Rotterdam gegn framvísun þeirra vöruskjala sem fólu í sér skilríki fyrir rétti til vörunnar. Gekk því flutningur vörunnar fyrir sig á þann hátt sem til var stofnað við kaup á vátryggingunni og lauk vátryggingunni án þess að tjón yrði á vörunni. Af þessum ástæðum tel ég að sýkna eigi áfrýjanda af kröfu stefnda. Eftir þessum úrslitum tel ég að dæma beri stefnda til að greiða áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2007.

Mál þetta höfðaði Íslenska umboðssalan hf., kt. 600970-0469, Krókhálsi 5f, Reykjavík, með stefnu birtri 12. apríl 2006 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6, Reykjavík.  Málið var fyrst dómtekið 4. janúar sl., en endurupptekið og dómtekið að nýju 30. janúar sl. 

Stefnandi krefst greiðslu á 10.711.842 krónum ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 26. júní 2005 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar. 

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, en til vara lækkunar stefnukrafna og að málskostnaður falli niður. 

 

Stefnandi flytur út fiskafurðir.  Þann 1. nóvember 2002 seldi stefnandi gám af þorskflökum til fyrirtækis á Ítalíu.  Stefnandi gaf út reikning um fiskinn þann 1. nóvember 2002.  Þar er varan sögð vera 20.160 kg af þorskflökum og verðið 110.880 evrur.  Þá segir að greiðsluskilmálar séu „Cash against Documents“ og afhendingarskilmálar „cif Rotterdam“. 

Sama dag gaf stefndi út skjal sem staðfesti að stefnandi hefði tekið tryggingu á umræddum farmi sem væri seldur með áðurgreindum cif-skilmálum og að farmtryggingin væri með Institute Cargo Clauses (A) skilmálum, auk nokkurra viðbótarákvæða. 

Skipafélagið Eimskip hf. flutti vöruna til Rotterdam.  Stefnandi hefur lagt fram afrit af farmskírteini.  Þar er áðurnefnt fyrirtæki á Ítalíu skráð viðtakandi og losunar­höfn Rotterdam. 

Stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins ljósrit af svokölluðu CMR-farmbréfi.  Bréf þetta varðar flutning á blautverkuðum saltfiski frá Rotterdam til Ítalíu.  Þarf ekki að lýsa skjali þessu nánar, en aðilar vitnuðu nokkuð til þess í stefnu og greinargerð er þeir útlistuðu málsástæður sínar.  Slíkt skjal um þorskflök þau sem stefnandi sendi hefur ekki verið lagt fram. 

Ekki liggja fyrir nein frekari gögn um sendinguna frá þessum tíma.  Birgir Bjarnason, framkvæmdastjóri stefnanda, sagði í aðilaskýrslu sinni að hann hefði fljótlega gert stefnda viðvart um atvikið.  Fyrst hefði í raun ekki neitt verið vitað hvað hefði gerst.  Frumriti af farmskírteininu hefði verið framvísað í Rotterdam og sendingin leyst út.  Því hefði þeim ekki dottið í hug að vörunni hefði í raun verið stolið.

Það var loks með bréfi 26. maí 2005 að stefnandi beindi formlegu erindi til stefnda og krafði hann um greiðslu bóta fyrir farminn.  Krafðist stefnandi greiðslu á 131.968 evrum samtals.  Lagði hann saman reikningsfjárhæðina (110.880 evrur) og bætti 10% við samkvæmt skilmálum tryggingarinnar og 10.000 evrum vegna áætlaðs lögfræðikostnaðar. 

Stefndi svaraði með símbréfi 7. júní 2005.  Þar var óskað eftir CMR-farmbréfi og frekari upplýsingum um atvik.  Þessu svaraði stefnandi og sendi þann 29. júlí 2005 afrit af því sem kallað er „þetta CMR frá Eimskip í Rotterdam”.  Mun það vera skjalið sem nefnt var hér að framan og varðar tiltekið magn af saltfiski.  Stefndi hefur síðan hafnað kröfum stefnanda. 

Nánari upplýsingar um málsatvik lágu ekki fyrir er mál þetta var höfðað.  Það var loks í þinghaldi 4. desember 2006 að stefnandi lagði fram endurrit af dómi í sakamáli er rekið hafði verið fyrir dómi á Ítalíu.  Dómur þessi hafði verið kveðinn upp 1. desember 2005.  Rétt er að taka hér upp nokkra þætti úr dóminum, í þýðingu Ingólfs Klausen, löggilts skjalaþýðanda. 

Fyrst er greint efni ákæru og þar kemur fram að hinn ákærði er sakaður um að hafa gefið upp nafn tilgreinds fyrirtækis og heimilisfang, en sína eigin síma.  Þá hafi hann einnig gefið sig út fyrir að vera útibússtjóri tiltekins banka.  Með þessu hafi honum tekist að blekkja stefnanda, Íslensku umboðssöluna, til að afgreiða pöntun á umræddum fiski og síðan nýtt sér ávinning af sendingunni sem hann hafi leyst út en ekki greitt fyrir. 

Í dóminum er tekin upp lýsing stefnanda á atvikum, svohljóðandi: 

„Ljóst má vera af atvikum málsins, eins og þau hafa verið rakin, að Giorgio Manko, eða samverkamaður hans, hafi með því að þykjast vera fyrirsvarsmaður fyrirtækisins Cooperativa Agricola Bagni 80 s.r.l., sem reyndar er fonnlega skráð fyrirtæki að nafni til, fengið bótakrefjanda til að senda sér vörur sem greiða átti fyrir með milligöngu bankastofnunar sem hvergi er að finna á uppgefnu heimilisfangi (Corso Garibaldi 12, Faenza). Sá hinn sami hafi hinsvegar tryggt sér mótttöku nauðsynlegra skjala til að fá vöruna afhenta, með því sviksamlega athæfi að tilgreina Giorgio Manko sem útibússtjóra viðkomandi banka. Þannig hafi tekist að svíkja út vörur frá bótakrefjanda að upphæð 110.880,00 evrur.“ 

Í dóminum er talið sannað að málsatvik hafi verið með þessum hætti.  Kemur fram að þetta hafi gerst 6. nóvember.  Daginn eftir var gámurinn sóttur til Rotterdam og komið á vöruflutningabifreið.  Var farmurinn tollafgreiddur í Ravenna á Ítalíu 15. nóvember 2002. 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda. 

Í stefnu er fullyrt að eftir að gámurinn kom til Rotterdam hafi honum verið stolið úr vörugeymslu. 

Stefnandi byggir á því að hann hafi selt umræddan farm með CAD skilmálum.  Það þýði að kaupandi fái vöruna ekki í hendur fyrr en hann hafi greitt og fengið skilríki sem sýni að hann sé eigandi vörunnar.  Í tryggingaskírteini sé sérstaklega vísað í reikning fyrir vörunni.  Hún hafi því átt að vera tryggð hjá stefnda þangað til hún hefði verið greidd.  Því beri stefnda að bæta tjónið.  Sú skýring stefnda að varan hafi verið seld með cif-skilmálum sé ekki rétt.  Mótmælir stefnandi þeirri málsástæðu. 

Stefnandi kveðst reikna dómkröfuna eftir kröfubréfi sínu, dagsettu 26. maí 2005.  Þar hafi hann krafist greiðslu á 131.968 evrum.  Gengi evru þann dag hafi verið 81,17 krónur.  Nemi dómkrafan því 10.711.842 krónum.  Þá kveðst stefnandi krefjast dráttarvaxta frá 26. júní 2005, er mánuður var liðinn frá því að hann krafði stefnda um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. 

Í greindu bréfi kemur fram sundurliðun kröfunnar.  Þar er reikningsfjárhæðin, 110.880 evrur, 10% álag samkvæmt skilmálum, 11.088 evrur og áætlaður lögfræðikostnaður, 10.000 evrur, samtals 131.968 evrur.  Dómkrafan er gerð í íslenskum krónum miðað við gengi þann dag er kröfubréf var sent. 

Stefnandi vísar til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. 

 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi vísar til þess að afhendingarskilmálar sendingarinnar hafi verið cif Rotterdam.  Það felist í þessum skilmálum að seljandi eigi að vátryggja sendinguna á meðan á sjóflutningi stendur, til losunarhafnar.  Stefnandi hafi keypt farmtryggingu hjá stefnda vegna flutningsins frá Íslandi til Rotterdam.  Tryggingin hafi verið keypt til að fullnægja hinum kaupréttarlegu skilmálum.  Samkvæmt skilmálum á vátryggingarskírteini taki gildissvið vátryggingarinnar mið af þessu.  Vátryggingin hafi aðeins verið í gildi þar til varan kom í land í Rotterdam.  Stefndi byggir á því að ekkert tjón hafi orðið á sendingunni í þessum flutningi. 

Stefndi vísar til þess að farmflytjandinn, Autotransporti, hafi tekið við vörunni í Rotterdam þann 12. desember 2002.  Þá hafði ekkert tjón orðið.  Hafi eitthvert tjón orðið á vörunni hafi það verið eftir þetta tímamark.  Því sé ljóst að hið meinta tjón falli utan gildissviðs vátryggingarinnar.  Vísar stefndi hér til 8. gr. skilmála sinna. 

Þá er fjárkröfu stefnanda mótmælt sem of hárri.  Viðurkennir stefndi að krafa stefnanda skuli nema 121.968 evrum.  Ekki séu lagalegar forsendur fyrir hærri kröfu, sem í íslenskum krónum nemi 9.900.143 krónum. 

Þá vísar stefndi til skyldna vátryggðs samkvæmt greinum 16 til 18 í skilmálum.  Vátryggðum beri að bregðast fljótt við öllum vátryggingartilvikum og tryggja hugsanlegan endurkröfurétt vátryggjanda.  Stefndi telur að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti og vanrækt skyldur sínar samkvæmt vátryggingarskilmálunum.  Tjónið hafi verið tilkynnt seint og málið hafi frá upphafi verið illa upplýst og ekki stutt gögnum að neinu ráði.  Séu forsendur til að dæma sig greiðsluskyldan telur stefndi að stefnandi yrði að bera stóran hluta tjónsins sjálfur vegna tómlætis og vanefnda. 

Stefndi mótmælir því að lokum að dráttarvextir reiknist fyrr en frá dómsuppsögu. 

 

Forsendur og niðurstaða.

Ekki hefur farið fram sérstök sönnunarfærsla hér fyrir dómi.  Þær upplýsingar um atvik sem fram koma í framangreindum ítalska dómi hafa ekki verið véfengdar af aðilum og verður að leggja atvikalýsingu dómsins til grundvallar. 

Samkvæmt því má í meginatriðum lýsa atvikum svo að frumriti farmskírteinis sem Eimskip gaf út hafi verið stolið áður en það komst í banka á Ítalíu.  Með frumritið í höndum hafði viðkomandi formlega heimild til að krefjast afhendingar farmsins af Eimskip í Rotterdam, sbr. 1. mgr. 106 gr. laga nr. 34/1985.  Farmurinn var tekinn og hefur lítið spurst til hans síðan.  Handhöfn viðkomandi á frumriti farmskírteinis var heimildarlaus og verður að lesa svo úr þessum atvikum að farminum hafi verið stolið af lager umboðsmanns Eimskips í Rotterdam.  Farmurinn hafi þannig enn verið í vörslum farmflytjanda er honum var stolið. 

Líta verður svo á að í vátryggingarskírteini sem stefnandi gaf út hafi verið ákveðið að um vátrygginguna giltu skilmálarnir Institute cargo clauses (A).  Verður því að beita hinum ensku skilmálum í upphaflegri mynd.  Í 8. gr. umræddra skilmála er ákvæði sem nefnt er Transit clause.  Meginhluti ákvæðisins er svohljóðandi:

   8.1     This insurance attaches from the time the goods leave the warehouse or place of storage at the place named herein for the commencement of the transit, continues during the ordinary course of transit and terminates either

   8.1.1       on delivery to the Consignees' or other final warehouse or place of storage at the destination named herein,

   8.1.2       on delivery to any other warehouse or place of storage, whether prior to or at the destination named herein, which the assured elect to use either

   8.1.2.1       for storage other than in the ordinary course of transit

   8.1.2.2       or for allocation or distribution,

   or

   8.1.3       on the expiry of 60 days after completion of discharge overside of the goods hereby insured from the oversea vessel at the final port of discharge, whichever shall first occur. 

Eins og hér sést geta þrenns konar atvik leitt til þess að vátryggingin falli niður, að vátryggingarverndinni ljúki.  Öruggt er að þriðji valkostur á ekki við.  Fyrri valkostirnir varða það tilvik að varan er komin í geymsluhúsnæði eða á geymslusvæði.  Í þessu tilviki var varan ekki komin í geymsluhúsnæði eða á geymslusvæði sem viðtakandi vörunnar (consignee) réð yfir.  Þá er ekki hægt að líta svo á að viðtakandi hafi valið geymslusvæði á vegum farmflytjanda til að geyma vöruna á eða dreifa henni frá.  Í þessu sambandi skal þess gætt að varan hafði ekki verið afhent réttilega frá farmflytjanda.  Tjón varð þegar varan var í vörslum farmflytjanda, tilbúin til afhendingar.  Verður að líta til þess að aðrar vátryggingar sem viðtakandi vörunnar kann að hafa taka almennt ekki gildi fyrr en hann hefur fengið vöruna afhenta, hvort sem er á geymslulager sinn eða til framhaldsflutnings.  Má sjá af framangreindri 8. gr. skilmálanna að önnur farmtrygging sem gilda hefði átt um sjóflutning vörunnar frá Rotterdam hefði ekki tekið gildi fyrr en varan hefði verið tekin til flutnings til lestunarstaðar. 

Stefndi mótmælir því ekki að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni.  Þarf þá ekki að skoða hvort annar aðili hafi í raun verið eigandi vörunnar er henni var stolið. 

Á það má fallast með stefnda að málatilbúnaður stefnanda var mjög óskýr í byrjun og málsreifun var að ýmsu leyti ábótavant.  Þegar komist er að framangreindri niðurstöðu um stuld vörunnar blasir við að stefnandi á ekki sök á tjóninu eða umfangi þess.  Þá hefur hann fengið dæmda bótakröfu á hendur aðila þeim sem sakfelldur var í águrgreindum dómi.  Verður stefnda gert að bæta tjón stefnanda í samræmi við skilmála farmtryggingarinnar.  Stefnandi hefur reiknað kröfu sína í íslenskum krónum og mótmælir stefndi því ekki.  Verður því í samræmi við viðurkenningu stefnda að reikna bætur miðað við reikningsfjárhæðina að viðbættum 10% í samræmi við vátryggingarskírteinið.  Vátryggingin tekur ekki samkvæmt skilmálum sínum til annars kostnaðar sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir við erindisrekstur sinn á Ítalíu.  Þá rúmast sá kostnaður ekki innan málskostnaðar sem ákveðinn er fyrir rekstur þessa máls, sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 9.900.143 krónur.  Aðilar deila um upphafstíma dráttarvaxta.  Rétt er að beita reglu 9. gr. laga nr. 38/2001 um skaðabótakröfur og reikna dráttarvexti frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að þær nauðsynlegar upplýsingar voru lagðar fram.  Í þessu tilviki var það ekki fyrr en endurrit af hinum ítalska dómi var lagt fram í þinghaldi 4. desember 2006.  Dráttarvextir reiknast því frá 4. janúar 2007. 

Málskostnaður ákveðst 450.000 krónur.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Íslensku umboðssölunni hf., 9.900.143 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 4. janúar 2007 til greiðsludags og 450.000 krónur í málskostnað.