Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2016
Lykilorð
- Líkamsárás
- Framhaldsákæra
- Einkaréttarkrafa
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákæra var gefin út í máli þessu 18. ágúst 2015 en með framhaldsákæru 25. nóvember sama ár var bótakrafa brotaþola sett fram. Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal kröfu eftir 1. eða 2. mgr. 172. gr. laganna komið á framfæri við lögreglu meðan á rannsókn máls stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin út. Heimilt er þó eftir síðari málslið 1. mgr. 173. gr. að koma kröfu á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru ef fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 153. gr. til útgáfu framhaldsákæru í máli eða ákærði samþykki, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þess að hafa megi slíka kröfu uppi í málinu. Framhaldsákæran var birt ákærða í upphafi aðalmeðferðar málsins 17. desember 2015 og samþykkti hann að bótakrafan kæmist að í málinu.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi taldi fjölskipaður héraðsdómur að framburður brotaþola væri trúverðugur og að hann fengi stoð í framburði fjögurra nafngreindra vitna. Þá vísaði dómurinn til fyrirliggjandi atvikaskráningar frá áfangaheimili því sem brotaþoli dvaldi á þegar atvik málsins urðu. Umrædd atvikaskráning var gerð í beinu framhaldi af því að brotaþoli kom á heimilið eftir að ákærði ók honum þangað og er því samtímagagn um atvik málsins. Kom þar fram lýsing á ástandi brotaþola sem hafi greinilega ekki liðið vel, hann hafi skolfið og grátið ásamt því sem hann hafi haldið um efri vörina og þurrkað blóð af henni. Þar var einnig haft eftir brotaþola að ákærði hefði orðið reiður vegna þess að brotaþoli hefði ekki mætt á sundæfingu og hafi slegið hann. Loks er til þess að líta að ákærði hefur ekki gefið neina sennilega skýringu á þeim áverka sem brotaþoli hlaut. Þegar allt framangreint er virt eru engin efni til að hnekkja því mati héraðsdóms að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi slegið brotaþola í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verða ákvæði hans um refsingu ákærða, einkaréttarkröfu brotaþola og sakarkostnað staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþola 150.000 krónur í málskostnað við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður
Ákærði, X, greiði brotaþola, A, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 450.842 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 434.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember 2015, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 18. ágúst 2015, á hendur X, [...], [...] Hafnarfirði, „fyrir líkamsárás með því að hafa, mánudaginn 4. nóvember 2013, í bifreið utan við [...] við [...] í Hafnarfirði, slegið stjúpson sinn, A, nokkur högg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut sprungu og bólgu á efri vör.“
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Samkvæmt heimild í 1. mgr. 153. gr., sbr. 5. mgr. 173. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 var gefin út framhaldsákæra þann 25. nóvember 2015 af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem birt var fyrir ákærða við upphaf aðalmeðferðar málsins. Í henni var sett fram bótakrafa af hálfu Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., þar sem þess var krafist að ákærði greiddi A, kt. [...], miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. nóvember 2013, en síðan dráttarvexti skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá var þess krafist að ákærða yrði gert að greiða réttargæslumanni þóknun að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, sbr. 48. og 216. gr. laga nr. 88/2008, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknun.
Ákærði krefst þess aðallega að verða sýknaður af refsikröfu, en til vara, verði hann fundinn sekur, að frestað verði ákvörðun refsingar en til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa með skilorðsbundnum dómi. Ákærði krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafan verði lækkuð verulega. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
I
Málsatvik
Brotaþoli mætti á lögreglustöð þann 19. maí 2014 ásamt móður sinni og lagði fram kæru á hendur ákærða, fyrrverandi stjúpföður brotaþola, vegna líkamsárásar sem hann hafi orðið fyrir 4. nóvember 2013. Lýsti brotaþoli fyrir lögreglu hvernig ákærði átti að hafa slegið hann ítrekað með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru málsins.
Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 24. febrúar 2015 neitaði ákærði sök og kvaðst aldrei hafa slegið brotaþola.
Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur teknar af ákærða, brotaþola og vitnum sem síðar gáfu skýrslur fyrir dómi. Fyrir liggur atvikaskráningarblað, dags. 4. nóvember 2013, frá áfangaheimilinu í[...] í [...]. Þá liggur fyrir sálfræðimat B, sálfræðingi, dags. 1. desember 2015, vegna brotaþola, og skaðabótakrafa brotaþola, dags. 23. nóvember 2015.
II
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði, X, kom fyrir dóminn og bar að hafa verið stjúpfaðir brotaþola frá því að brotaþoli var þriggja ára og fram á árið 2013, en þegar atburðir gerðust hafi hann og móðir brotaþola verið fráskilin. Fram kom að nú ættu þau í forræðisdeilum um tvö sameiginleg börn þeirra.
Ákærði bar að í umrætt sinn hafi brotaþoli týnst og hann þurft að leita að honum að beiðni móður brotaþola. Hafi brotaþoli átt að vera í sundi og á æfingu í sundlauginni en hafi þess í stað skrópað og verið að sníkja sígarettur. Ákærði hafi fundið brotaþola í sundlauginni en brotaþoli hafi ekki viljað koma með honum. Því hafi hann þurft að taka brotaþola og beita hann afli til setja hann í bílinn með þeim hætti að hann ýtti, að hann minnti, á axlir brotaþola sem hafi streist á móti. Vel gæti verið að áverki brotaþola sem tilgreindur væri í ákæru hafi komið við þau átök, en hann hafi ekki lamið brotaþola og ekki séð að hann hafi fengið sár eða séð blóð á brotaþola, enda verið að keyra bifreiðina. Hann hafi hins vegar skammað brotaþola fyrir hegðun sína. Í framhaldi af þessu hafi hann sótt tvö börn sín, og síðan keyrt brotaþola á vistheimilið í [...]. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort einhver hafi orðið vitni að átökum milli hans og brotaþola, enda ekki verið að fylgjast með því. Þá kvaðst ákærði aðspurður ekki muna eftir því að móðir brotaþola hafi hringt í hann eftir að brotaþoli hafi komið inn á vistheimilið.
Spurður hvort brotaþoli hafi haft ástæðu til þess að ljúga upp á hann sökum, kvað ákærði það staðreynd að þegar brotaþoli hafi verið í [...]skóla og í [...]skóla í Hafnarfirði hafi hann búið til sögur um að einhver hafi verið að lemja hann í þeim tilgangi að fá vorkunn í stað skamma. Ekki hafi reynst fótur fyrir þeim sögum og það ætti að vera til í skrám skólanna. Þá kom fram að brotaþoli væri greindur með svokallað Williamsheilkenni. Þeir sem væru haldnir þeim sjúkdómi væru fæddir með „fullkomið lygaragen“. Brotaþoli væri meistari í því að ljúga. Brotaþoli þyrfti einungis að segja sömu söguna nokkrum sinnum, þá breyttist hún og brotaþoli gæti logið án nokkurra svipbrigða.
Ákærði vildi þó taka fram að brotaþoli væri á margan hátt frábær einstaklingur, sérstaklega þegar hann hafi verið í [...]skólanum, en hafi ekki náð að meðhöndla það frelsi sem hann hafi fengið þegar hann hafi byrjað í [...]skóla.
Vitnið A brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar að í umrætt sinn hafi hann átt að vera á æfingu í sundlauginni en hafi ekki viljað það, þar sem honum hafi verið illt í maganum. Hafi ákærði beðið hann að fara aftur á æfinguna en hann ákveðið að fara í heita pottinn. Ákærði hafi þá látið sækja hann og þegar þeir hafi verið komnir inn í bíl ákærða, þar sem þeir hafi setið frammi í bifreiðinni, hafi ákærði byrjað að æsa hann upp, verið „öskureiður“ yfir því að hann hafi ekki farið á æfinguna. Aðspurður kvaðst hann hafa sest sjálfur inn í bifreiðina en ákærði hafi ekki ýtt honum. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hafi ekki átt að sækja hann heldur Hópbílar og hann því ekki átt von á því að ákærði kæmi að sækja hann. Þegar ákærði væri svona reiður þá verði hann sjálfur mjög stressaður og nái illa að stjórna sér. Ákærði hafi áður orðið reiður við hann og hafi það byrjað þegar hann fór að nota tóbak. Ákærði hafi slegið hann inni í bifreiðinni og hann fengið sprungna vör. Spurður hvar í andlitið ákærði hafi slegið, bar brotaþoli að það hafi verið um allt andlitið, það hafi verið fast einu sinni eða tvisvar. Síðar í skýrslutökunni kom fram að það hafi verið oftar, en hann mundi ekki hversu oft. Hann hafi ekki sagt ákærða frá sárinu á vörinni en ákærði hafi séð að það var byrjað að blæða en ekki sagt neitt. Eftir þetta hafi ákærði sótt bróður hans og systur og keyrt þau á Subway þar sem systkini hans hafi farið inn. Ákærði hafi hins vegar verið áfram með honum í bifreiðinni og æst sig við hann. Síðan hafi ákærði keyrt hann á áfangaheimilið í [...]. Hafi hann farið að gráta þegar þangað var komið. Á áfangaheimilinu hafi hann hitt starfsmann og hann minnti að hann hafi sagt honum frá því sem gerst hafði. Hann hafi sjálfur ætlað að hringja í lögregluna en ekki þorað það. Hann hafi hins vegar sent móður sinni mynd af sprungnu vörinni úr símanum.
Vitnið C, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom að vitnið væri fyrrverandi maki ákærða til rúmlega 16 ára. Hafi þau flutt í sundur um mánaðamótin júlí – ágúst 2013. Bar vitnið að brotaþoli hafi hringt í hana um kvöldið þann 4. nóvember 2013 og sagt frá því að „pabbi“ hans hafi lamið hann á munninn og að það hafi blætt úr vör hans. Brotaþoli hafi einnig sent henni mynd tekna á símann sem hafi verið frekar óskýr en síminn sé nú ónýtur og hún hafi ekki náð myndinni út. Einnig væri brotaþoli kominn með nýjan síma.
Vitnið kvaðst hafa rætt við starfsmann á áfangaheimilinu og hafi ætlað að leysa þetta mál sjálf og í framhaldi af því rætt við ákærða sem hafi gefið henni aðra skýringu en brotaþoli. Hafi ákærði gefið henni þá skýringu að hann hafi tekið í kjálka brotaþola, snúið honum að sér og sagt: „Horfðu á mig þegar ég er að tala við þig.“ Í raun hafi hún ekki hlustað nægilega vel á brotaþola í fyrstu, en gert það síðar eða í maí 2014, þar sem brotaþoli hafi verið staðfastur í frásögn sinni. Fram kom að hún hafi beðið ákærða að sækja brotaþola í umrætt sinn á sundæfinguna þar sem hún hafi heyrt að brotaþoli hafi bara verið að slæpast og ekki getað farið sjálf þar sem hún hafði ekki bifreið til umráða. Sjálf hafi hún ekki hitt brotaþola fyrr en tveimur dögum síðar. Hafi brotaþoli þá verið með smásár á vör. Fram kom að brotaþoli hafi ekki viljað hitta ákærða eftir þetta atvik þótt hann kalli ákærða enn pabba. Hafi ákærði ávallt verið mjög strangur við brotaþola og hún verið meðvirk í því andlega ofbeldi sem ákærði hafi sýnt brotaþola.
Spurt hvort sú sjúkdómsgreining sem hafi verið gerð hjá brotaþola um Williamsheilkenni geri það líklegra að brotaþoli sé að ljúga, bar vitnið að það kæmi ekki fram í neinum skýrslum. Einfalt væri að vita hvort brotaþoli væri að ljúga, því ef hann væri spurður nánar út í atburði, þá gæti hann engu svarað eða spunnið söguna nægilega langt. Þá myndi frásögn brotaþola breytast í hvert sinn sem hann segði frá.
Vitnið D kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom að vitnið væri umsjónarkennari brotaþola í [...]skóla og hafi haft umsjón með honum í tvö ár. Í umrætt sinn hafi brotaþoli strax í upphafi dags komið til vitnisins og verið í miklu uppnámi. Hafi vitnið gengið á brotaþola sem hafi átt erfitt með frásögn en upplýst að fósturfaðir hans hafi lamið hann. Hafi vitnið, vegna frásagnar brotaþola, sett sig í samband við móður brotaþola sem hafi ætlað að skoða málið. Fram kom að vitnið hafi séð smááverka á vörum brotaþola, bólgu og roða. Aðspurt mundi vitnið ekki eftir því að svipað atvik hefði komið upp áður innan skólans varðandi brotaþola. Vissulega hefði þó komið fyrir að brotaþoli hefði sagt ósatt ef hann hefði verið krafinn skýringa svo sem á fjarvistum.
Spurt hvernig drengur brotaþoli væri almennt, kom fram að brotaþoli væri ljúfur drengur og vildi allt fyrir alla gera en hafi verið þreyttur á náminu og viljað prófa sig áfram í lífinu og átt það til að stinga af, svo sem niður í verslunarmiðstöð eða verið að máta sig við aðra jafnaldra, og hafi þá átt það til að drekka bjór eða reykja sígarettur.
Vitnið E kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom að vitnið væri starfsmaður á áfangaheimilinu í [...]. Í umrætt sinn hafi vitnið verið á kvöldvakt og tekið á móti brotaþola þegar hann hafi komið. Brotaþoli hafi, þegar hann kom inn, haldið um andlit sér og byrjað að gráta. Hafi vitnið huggað hann og spurt hvað hefði gerst. Vitnið hafi séð áverka á vör brotaþola og hafi blætt úr og brotaþoli þurft að halda við sárið. Brotaþoli hafi síðan sagt frá því að ákærði hafi verið reiður og lamið sig inni í bifreið vegna þess að brotaþoli hafi ekki farið á sundæfingu. Í framhaldi af þessu hafi vitnið spurt brotaþola hvort hún mætti hringja í móður hans, sem vitnið hafi síðan gert og einnig rætt atvikið við forstöðumann heimilisins. Borið undir vitnið framlagt „atvikaskráningarblað“ áfangaheimilisins [...] í [...] staðfesti vitnið að hafa skrifað þær athugasemdir í framhaldi af atvikum þessa máls.
Vitnið B sálfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti framlagt vottorð sitt sem liggur frammi í málinu. Tildrög vottorðsins hafi verið þau að móðir brotaþola hafi haft samband við hana og mætt með brotaþola í fyrsta viðtal sem vitnið hafi átt með brotaþola. Ástæða fyrir komu brotaþola hafi verið atvik sem átti sér milli brotaþola og ákærða þessa máls, enda hafi brotaþoli átt erfitt með að vinna úr því atviki og það haft áhrif á hans líðan. Brotaþoli hafi fyrst komið í viðtal til hennar í apríl 2014 og alls mætt í sjö tíma fram í ágúst 2014. Hafi brotaþoli verið sár og dapur út í ákærða eftir atvikið og ekkert viljað með hann hafa eftir það, og brotaþoli verið ósáttur við að ákærði hafi ekki sett sig í samband við hann en fyrir þann tíma hafi brotaþoli sagt að þeir hafi verið nokkuð nánir. Hafi brotaþoli lýst því að ákærði hafi verið reiður þegar þeir voru staddir í bifreið, öskrað á hann og síðan slegið. Var það mat vitnisins að brotaþoli hafi þjáðst af töluverði áfallastreitu vegna þessa atviks. Aðspurt var það mat vitnisins að brotaþoli hafi ekki verið að skálda neitt og alltaf verið samkvæmur sjálfur sér í frásögn af atvikinu.
III
Niðurstöður
Ákærði hefur neitað sök um að hafa lamið brotaþola en mögulegt væri að brotaþoli hafi hlotið áverka þegar ákærði þurfti að ýta brotaþola inn í bifreið sína. Ákærði hafi hins vegar ekki séð neina áverka á brotaþola. Brotaþoli bar að hann hafi sjálfur sest inn í bifreið ákærða, ákærði hafi ekki ýtt honum en ákærði hafi verið reiður og lamið hann í andlitið eftir að hann var sestur inn í bifreiðina og hafi ákærði séð áverka hans. Eru þeir einir til frásagnar um það sem gerðist.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 24. febrúar 2015. Skýrsla hans þar er í meginatriðum í samræmi við skýrslu hans fyrir dómi og hefur hann því verið staðfastur í sínum framburði.
Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu þann 19. maí 2014 og aftur þann 5. febrúar 2015. Skýrslur brotaþola hjá lögreglu eru í meginatriðum í samræmi við skýrslu hans fyrir dómi og hefur hann því verið staðfastur í sínum framburði.
Ákærði og brotaþoli voru að mati dómsins báðir trúverðugir í sínum framburði fyrir dómi.
Samkvæmt 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburðir, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
Í málinu liggur fyrir atvikaskráning frá áfangaheimilinu [...] í [...]sem vitnið E skráði sama dag og umræddir atburðir gerðust. Þar kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi við komu á vistheimilið skolfið mikið og haldið um efri vör sér og þurrkað blóð af vörinni aftur og aftur meðan hann hafi sagt starfsmanninum frá því hvað hafði gerst. Hafi brotaþoli gefið þá sögu að pabbi hans hafi orðið mjög reiður og misst stjórn á skapi sínu og slegið til hans í bílnum.
Ákærði hefur ekki útilokað að áverkar brotaþola hafi komið þegar þeir voru staddir við [...] í Hafnarfirði. Eftir það ók ákærði með brotaþola til að sækja önnur börn ákærða í Hafnarfirði og samkvæmt framburði brotaþola var síðan stoppað á skyndibitastað áður en ákærði ók með brotaþola inn í [...]. Miðað við það hvað blæddi mikið úr vör brotaþola á þeim tíma sem hann var að segja vitninu E frá atvikum, þykir nokkuð ótrúverðugt að ákærði hafi ekki á öllum þeim tíma sem hann var með brotaþola í bifreiðinni, orðið var við áverka brotaþola sem þó sat við hlið hans.
Brotaþoli bar fyrir dómi að ákærði hafi lamið hann í andlitið og við það hafi hann fengið sár á vör. Fyrir dóminn kom móðir brotaþola sem bar að hafa hitt brotaþola tveimur dögum eftir umrædda atburði. Hafi vitnið þá séð smásár á vörum brotaþola. Umsjónarkennari brotaþola hitti brotaþola morguninn eftir atburði málsins og bar að brotaþoli hafi verið með sár á vör. Starfskona áfangaheimilisins í [...]bar að hafa tekið á móti brotaþola þegar ákærði hafi komið með hann þangað eftir umrædda atburði. Hafi brotaþoli haldið um andlit sitt þegar hann kom inn, verið grátandi og með sár á vör sem hafi blætt úr. Brotaþoli sagði framangreindum vitnum frá því hvað hafði gerst og gaf þeim í öllum tilfellum sömu frásögn um að ákærði hafi verið reiður honum og slegið hann í andlitið þar sem hann hafi setið inni í bifreið ákærða og hafi það orsakað sárið á vör hans. Brotaþoli fór nokkrum mánuðum síðar í sálfræðimeðferð til B sálfræðings og gaf henni nokkrum sinnum sömu sögu og hann hafði gefið framangreindum vitnum áður. Þá gaf brotaþoli tvisvar sinnum skýrslu hjá lögreglu, fyrst þann 19. maí 2014 og aftur þann 5. febrúar 2015, þar sem hann í meginatriðum sagði með sama hætti frá atvikum.
Fram kom í skýrslum fyrir dómi að brotaþoli væri með svonefnd Williamsheilkenni. Í skýrslu ákærða kom fram að þeir sem væri haldnir þeim sjúkdómi væru fæddir með „fullkomið lygaragen“. Haft var eftir ákærða að brotaþoli þyrfti aðeins að segja sömu söguna nokkrum sinnum og þá breyttist hún og brotaþoli gæti logið án svipbrigða. Vitni sem komu fyrir dóminn staðfestu skýrslu ákærða að því leyti að brotaþoli gæti logið en í skýrslu móður hans kom fram að einfalt væri að vita hvort hann hafi verið að ljúga því þá myndi frásögn hans breytast í hvert sinn sem brotaþoli segði frá. Ákærði og móðir brotaþola báru því með sama hætti um þetta atriði.
Brotaþoli kom fyrir dóminn, nú rúmlega tveimur árum eftir meinta atburði og gaf sömu sögu og hann hefur í öllum tilfellum áður gefið. Þá sögu gaf hann ekki auðveldlega eða án svipbrigða. Brotaþoli hefur þannig ekki aðeins verið staðfastur í sínum framburði, heldur verður að ætla að brotaþoli sé að segja satt, sé miðað við framangreindan framburð ákærða sjálfs fyrir dómi um að frásögn brotaþola hefði átt að taka miklum breytingum á þessum tíma.
Með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola, sem fær stuðning í framburði vitnanna C móður brotaþola, D, umsjónarkennara brotaþola, B sálfræðings og E auk framangreindrar atvikaskráning frá áfangaheimilinu [...] í [...], telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. sakamálalaga, og að gættu ákvæði 126. gr. sömu laga, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Gegn neitun ákærða og með vísan til óstöðugs framburðar brotaþola fyrir dómi um það hversu oft ákærði hafi slegið hann í andlitið, þykir ekki sannað að ákærði hafi slegið ákærða oftar en einu sinni í andlitið. Er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV
Refsing
Ákærði er fæddur í apríl árið 1966. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður sem ber að virða honum til málsbóta. Á hinn bóginn er horft til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til refsiþyngingar, en brot ákærða beindist gegn fyrrverandi stjúpsyni hans, og hafa þau tengsl aukið á alvarleika verknaðarins að mati dómsins. Með vísan til þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákært er fyrir háttsemi sem átti sér stað 4. nóvember 2013. Brotaþoli kom ásamt móður sinni á lögreglustöð þann 19. maí 2014 og lagði fram kæru. Skýrslur eru hins vegar ekki teknar af vitnum og ákærða fyrr en í febrúar 2015 eða rúmum níu mánuðum eftir að málið var kært. Rannsókn málsins virðist ljúka þegar í febrúar 2015 en ákæra málsins er ekki gefin út fyrr en 18. ágúst 2015. Þessi mikli dráttur á málinu er ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, einkum 18. gr. og 53. gr. þeirra laga og verður að átelja. Þykir með vísan til þessa mega skilorðsbinda refsinguna eins og nánar greinir í dómsorði.
V
Einkaréttarkrafa
Af hálfu brotaþola var í framhaldsákæru gerð sú krafa að ákærða yrði gert að greiða honum 500.000 krónur í miskabætur, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærða var birt bótakrafan við upphaf aðalmeðferðar þann 17. desember 2015.
Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður horft til þess að ákærði er fyrrverandi stjúpfaðir brotaþola, sem hefur að mati dómsins aukið á andlegar afleiðingar brotsins. Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 250.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
VI
Sakarkostnaður
Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða í ljósi niðurstöðu dómsins, gert að greiða sakarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Björgvins Jónssonar hrl. og þóknun skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Feldísar Lilju Óskarsdóttur hdl, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., eins og um er getið í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknana hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari, Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X skal sæta fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A, miskabætur að fjárhæð 250.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. nóvember 2013 til 17. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 716.100 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 368.280 krónur, þóknun skipað verjanda síns á rannsóknarstigi, Feldísar Lilju Óskarsdóttur héraðsdómslögmanns, 61.380 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 286.440 krónur.